FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Byrjandi í fluguhnýtingum

    5. febrúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Það fer töluvert fyrir fluguhnýtingum hér á síðunni í febrúar. Átakið okkar, Febrúarflugur stendur yfir og hnýtarar keppast við að sýna afrakstur sinn þennan mánuð og njóta aðdáunar annarra á verkum sínum. Það sem hefur vakið athygli mína síðustu ár er sá fjöldi einstaklinga sem fylgist með átakinu án þess að hnýta sjálfir. Það eru ekki allir fluguveiðimenn sem hnýta sínar flugur sjálfir, en mér býr svo í grun að nokkra langar að prófa eða hafa prófað en setja fyrir sig kostnað við að koma sér upp hnýtingargræjum. Sjálfur byrjaði ég að hnýta upp úr litlu setti sem ég fékk gefins og það dugði mér afskaplega vel og lengi, það þarf ekki að fjárfesta háar upphæðir til að komast af stað í hnýtingum.

    Þvinga 2.000 – 4.990

    Einfalda fasta þvingu er hægt að fá fyrir innan við 2.000,- kr. og þær gagnast hnýtaranum vel og lengi. Sjálfur á ég enn mína fyrstu þvingu og nota hana reglulega, sérstaklega þegar ég er að rað-hnýta mörg eintök af sömu flugunni.

    Vitaskuld er hægt að fjárfesta í flóknari þvingu, t.d. snúningsþvingu (e: rotary vice) sem gerir hnýtaranum kleift að snúa flugunni 360° í þvingunni. Slíkar þvingur má fá fyrir innan við 7.000,- og upp úr.

    Nær allar tegundir þvinga er hægt að fá með klemmu fyrir borðbrún eða platta sem stendur á borðinu. Það er undir hverjum og einum hnýtara komið hvora tegundina hann kýs, en vitaskuld er fljótlegra að stilla upp ef þvingan er á platta. Þvinga sem fest er með klemmu stendur aftur á móti stöðugar heldur en sú sem er á platta.

    Skæri 500 – 6.000

    Einföld og góð skæri má fá fyrir u.þ.b. 500,- kr. og þau þurfa ekki að vera flókinn. Hér skiptir máli að vera með oddmjó skæri og umfram allt, ekki klippa hart efni eins og t.d. vír með sömu skærum sem ætlaðar eru í mýkra efni eins og fjaðrir og þráð. Ágæt regla er að vera með tvenn skæri í borðinu og má þá jafnvel notast við gömul aflóga skæri í grófara efnið.

    Keflishaldari 700 – 10.000

    Keflishaldarar eru af ýmsum gerðum og tiltölulega auðvelt að missa sig í flóru þeirra. Einfaldur haldari með stálröri er klassískur fyrir byrjendur. Traustan og öruggan haldara má fá á innan við 700,- kr. og málið er dautt. Af hefðbundnum höldurum er næsta stig trúlega þeir sem búnir eru keramik röri í stað stáls, þeir fara að öllu jöfnu betur með hnýtingarþráðinn, en eru að sama skapi örlítið viðkvæmari fyrir hnjaski. Keramik haldarar kosta yfirleitt tvöfalt á við ódýrustu stál haldarana.

    Síðan má alveg missa sig í tæknivæddum og vísindalega hönnuðum höldurum sem kosta tífalt meira, en með þeim fylgir engin ábyrgð að flugurnar verði fallegri eða endingarbetri heldur en með einföldum haldara.

    Fjaðratöng  400 – 1.800

    Það getur alltaf komið sér vel að geta vafið fjöður eða öðru hnýtingarefni um fluguna án þess að vera með puttana í efninu. Fjaðratangir eru til í óskaplega mörgum útfærslum en einfaldar og notadrjúgar tangir má fá fyrir innan við 400,- kr. og þær duga alveg ágætlega í nær allt sem venjulegur hnýtari er að fást við. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að sumir hnýtarar nota reyndar aldrei tangir, þannig að einhverjir gætu alveg hugsað sér að sleppa þessari græju úr byrjendasettinu. Ég aftur á móti er hálf handalaus þegar önnur eða allar mínar tangir hverfa undir draslið á hnýtingarborðinu mínu.

    Nál 600 – 3600

    Eitt af því sem ekki má vanta á hnýtingarborðið er nálin. Maður notar hana til að laga til efni á flugunni, bera lím eða lakk á fluguna og eiginlega allt mögulegt. Einfalda nál má fá fyrir innan við 600,- kr. Mestu máli skiptir að vera alltaf með tusku eða stálull við hendinga til að þrífa nálina reglulega. Nál með storknuðu lími eða lakki á, er ekki gott verkfæri í viðkvæmar fjaðrir eða hnýtingarþráð.

    Þá erum við komin með þau áhöld sem hnýtarinn þarf að fjárfesta í til að geta hnýtt allar helstu flugur sem til eru fyrir 4.200,- kr. ef þau eru keypt stök. En ekki gleyma því að margar verslanir bjóða upp á pakka með tólum og tækjum á mjög hagstæðu verði og oft má gera fanta góð kaup í slíkum pökkum. Oft leynast ýmis önnur tæki og tól í þessum pökkum, en séu ofangreindar græjur í pakkanum, þá ertu góð/góður í að byrja fluguhnýtingar og allt annað í pakkanum er bara bónus og vel þess virði að eignast.

    Það er þó ýmislegt annað sem þarf til að geta hnýtt flugur; krókar, þráður, tinsel, kúlur, vír og fjaðrir. Meira um það síðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Epoxíð, nei takk

    10. janúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Fyrir ekki mörgum árum síðan byrjaði ég aðeins að fikta með epoxíð í flugur. Þetta er sniðugt efni og hægt að hleypa nýju lífi í hefðbundnar púpur með því. Ein helsta ástæða þess að ég hætti að nota epoxíð var einfaldlega orðlögð óþolinmæði mín, ég hreint og beint nennti ekki að bíða eftir að límið þornaði. Meira að segja hraðþornandi lím var of lengi að þorna fyrir minn smekk.

    Síðustu vikur hef ég verið að fikta með LCR (e: light curing resin) eða það sem í daglegu talið er kallað UV lím. Já, ég er nokkuð seinn til, því margir hnýtarar hafa verið að nota þessi efni í áraraðir og líkað vel. Flestir nota þetta efni til að magna útfjólubláageislun flugna, en það má ekki gleyma því að þetta efni er líka tilvalið til að byggja til dæmis búk og haus á púpur.

    UV ljós

    Rétt eins og um annað sem tengist fluguhnýtingum, þá eru til ótal tegundir þessara efna og með mismunandi eiginleika. Sumt er þunnt, annað miðlungs og enn annað svo þykkt að við liggur að maður þurfi kíttisspaða til að smyrja því á fluguna. Það sem ég hef prófað er þunnt og miðlungs, ef það segir einhverjum eitthvað. Mér skilst á þeim sem betur þekkja þessi efni en ég, að það sé ekki ósvipað gamla góða lakkinu, það eigi það til að þykkna með tímanum þannig að mér var ráðlagt að velja þunnt og miðlungs.

    Einn helsti kostur þessara efna er, að því gefnu að menn noti nokkuð gott UV ljós, að það storknar fljótt og endist mjög vel. Efnið dregur sig lítið sem ekkert saman, jafnvel þótt maður hafi það nokkuð þykkt og síðast en ekki síst, það er margfalt umhverfisvænna heldur en epoxíð og mörg önnur efni sem menn hafa verið að fikta með síðustu áratugina. Ókosturinn við efnið hefur hingað til verið sá að það er töluvert dýrara heldur en annað lím og þar að auki þarf að lýsa það með þar til gerðu UV ljósi. Hrakfallasögur þeirra sem hafa reynt að nota blátt laserljós á þessi efni eru nokkrar til, þannig að það er um að gera að kaup rétt ljós. Annars hefur verðið á bæði efnum og ljósum farið hraðlækkandi síðustu misseri, væntanlega í kjölfar aukinnar notkunar.

    Nú hef ég ekkert fyrir mér annað en orð mér reyndari manna, en mér skilst að gott UV ljós sendi frá sér u.þ.b. 200 lumen / 3,4 vött og eigi helst að vera með mörgum LED perum. Einnar peru ljós er víst eitthvað síðri en fjölperu ljós.

    Eftir að ég rak augun í ágætan samanburð helstu efna til fluguhnýtinga, þá lét ég slag standa og prófaði UV lím og er bara nokkuð sáttur við mínar fyrstu flugur í vetur mun ég eflaust bæta þó nokkrum UV púpum í safnið.

    Tegund Tími Áhrif á umhverfi Verð Ending
    LCR / UV lím Augnablik Engin Hátt* Mjög góð
    Epoxy Mínútur og upp í klukkustundir Þó nokkur Miðlungs Góð
    Lakk Mínútur Mjög mikil Lágt Miðlungs
    Bráðið plastlím Sekúndur Lítil Lágt Miðlungs

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekta gervisilki

    27. desember 2017
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þetta gamla góða var notað í einhverri auglýsingu hér um árið. En er þetta gamla alltaf gott eða er það kannski bara nógu gott eða mögulega orðið ónýtt? Ég fór að velta þessu fyrir mér um daginn þegar talið barst að því að standsetja hnýtingarborðið eftir sumarið, setja sig í startholurnar og yfirfara hnýtingarefnið og útbúa innkaupalista yfir það sem vantar.

    Þeim fer fækkandi hnýturunum sem nota silkiþráð við hnýtingar, helst eru það hreintrúarmenn sem hnýta þessar klassísku alveg eftir forskriftinni sem nota silki, held ég. Silki og silki er ekki það sama, ég komst að því þegar ég eignaðist nokkrar spólur af nokkuð þykku silki til skrauts um árið. Umbúðirnar voru vandlega merktar silk made from polyester sem er náttúrulega svipað og segja ekta gervileður. Polyester er gerviefni sem eldist mjög vel, það er næstum því eilíft, því miður liggur mér við að segja. Þetta er plastefni sem eyðist mjög hægt í náttúrunni. Alvöru silki er af allt öðrum toga og í allt öðrum verðflokki. Silki er náttúrulegt efni, slitsterkt en eyðist auðveldlega og á því passaði ég mig ekki. Ég átti nefnilega líka mjög fíngert silki sem ég passaði ekkert sérstaklega vel og það einfaldlega skemmdist á fáum árum. Ef þú átt alvöru silki, prófaðu slitstyrkinn áður en þú byrjar á einhverri fallegri flugu í vetur og lendir í endalausum vandræðum og slítur þráðinn í sífellu. Beint út af reynslubankanum; athugaðu vel hvort þráðarhaldarinn þinn sé örugglega ekki standi, ekki skörðóttur eða pakkaður af lakkleyfum áður en þú þræðir hann með silki. Silki trosnar og slitnar mjög auðveldlega ef einhver fyrirstaða eða skörð eru í rörinu í haldaranum, meira að segja þótt það sé nýtt og í fullkomnu lagi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gamalt nylon

    21. nóvember 2017
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Ég hef í mörg ár haldið því fram að það sé ekkert til sem heitir einskisverður fróðleikur (e. useless information), það er alltaf hægt að notast við eitthvað af þessum, þó ekki væri nema til þess að leggja útfrá honum í efnisöflun. Eitt af því sem varð mér hvatning til smá vefleitar er sú staðreynd að nylon kom fyrst fyrir augu almennings árið 1938, nánar tiltekið í hárum tannbursta og skömmu síðar í sokkabuxum. Mér skilst að þessar fyrstu sokkabuxur séu fyrir löngu horfnar einfaldlega vegna þess að hráefnið í þeim hefur fyrir löngu brotnað niður og þar með buxurnar sjálfar.

    Fljótlega eftir að byrjað var á að spinna nylon í þráð fóru menn að nota hann til fluguhnýtinga, hvaða ár veit ég ekki nákvæmlega en ég las um það á heimasíðu American Museum of Fly Fishing að þeir væru í stökustu vandræðum með einhverja safngripi (flugur) vegna þess að þeir væru að losna í sundur vegna þess að hnýtingarþráðurinn væri að morkna í sundur. Ég ætla rétt að vona að menn séu ekki í þessum vandræðum með eitthvað sem leynist í fluguboxunum.

    Mér skilst að hnýtingarþráður úr nylon hafi takmarkaðan líftíma, hve langan greinir menn síðan verulega á um. Tom Rosenbauer tekur greinilega enga sénsa og skiptir öllum sínum hnýtingarþráðum út á tveggja ára fresti. Væntanlega fær hann einhvern góðan afslátt hjá Orvis, verandi starfsmaður þeirra og þarf ekki að horfa í aurinn þegar kemur að endurnýjun. Aðrir hnýtarar segjast nota nylon þráð sem sé orðinn meira en 5 – 6 ára og það sé ekkert að honum. Reyndar taka þeir fram að stundum þurfi þeir að vinda ofan af keflunum, einu eða tveimur lögum af þræði þannig að upprunalegur litur kemur í ljós. Það að nylon lætur lit með tímanum er einmitt skýrt merki um að efnið sé farið að brotna niður, verður þurrt og stökkt.

    En er eitthvað til ráða ef nylon er byrjað að brotna niður? Algjörlega án ábyrgðar, þá hef ég hér eftir eina ábendingu sem smellt var fram á erlendum spjallþræði; Taktu skaftpott með ½ lítra af vatni og bættu eins og einni matskeið af hlutlausri matarolíu út í vatnið. Hitaðu vatnið að suðu og stilltu lokið á pottinum þannig að gufuna leggi út til hliðar. Stilltu gömlu hnýtingarkeflunum þannig upp að gufuna leggi um þau og leyfðu þeim að hitna vel. Þetta skilst mér eigi að þrífa hnýtingarþráðinn og að einhverju marki endurnýja í það minnsta yfirborðsfituna í þræðinum.

    Ég get mér þess til að líftími nylon fari mikið eftir því hvernig þráðurinn sé geymdur. Nylon brotnar niður fyrir áhrif sólarljóss, hita og raka. Ætli gamli frasinn Geymist á þurrum og köldum stað sé ekki bara í fullu gildi þegar kemur að heppilegum geymslustað. Annars get ég heilshugar tekið undir undrun og hneykslun sem kom fram í einu kommenti á spjallsíðu; Þetta á náttúrulega ekki að vera neitt vandamál, hnýttu bara flugur þangað til þráðurinn klárast.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Síðbúnar greinar

    30. júlí 2013
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hafa tímaviltar greinar um hnýtingarefni verið að skjóta upp kollinum á síðustu vikum. Þessar greinar eru eftirreitur nokkurra greina um fjaðrir og hnýtingarefni sem hafa verið að færast aðeins til í birtingarröð, sumar heldur lengra inn í sumarið heldur en ég hefði viljað. Ástæða þessa er afskaplega einföld, þetta eru eftirreitur þeirra 50 greina sem ég skrifaði s.l. vor til að eiga fyrir sumarið. En nú er sarpurinn tæmdur og ekki afráðið hvenær regla kemst aftur á birtingar.

    Auðvitað geta lesendur flakkað um allar greinarnar um hnýtingarefni sem hafa verið að birtast á liðnum mánuðum, en hér eru þær í smá samantekt, svona til einföldunar. Hægt er að lesa hverja grein fyrir sig með því að smella á myndirnar.

    Fjöður
    Bygging fjaðra
    Fjaðrir á fugli
    Fjaðrir á fugli
    Stélfjaðrir
    Stélfjaðrir
    Hnakkafjaðrir
    Hnakkafjaðrir
    Vængfjaðrir
    Vængfjaðrir
    Söðulfjaðrir
    Söðulfjaðrir
    CDC
    Rassendafjaðrir
    Marabou
    Marabou
    Stíffanir
    Stíffanir
    Ull
    Ull
    Gler
    Gler
    Hár
    Hár
    Flís
    Flís
    Síðufjaðrir
    Síðufjaðrir
    Páfuglsfjaðrir
    Páfuglsfjaðrir
    fos_sokkabuxur
    Sokkabuxur
    Smelltu fyrir stærri mynd
    Teygjur
    Smelltu fyrir stærri mynd
    Latex
    fos_virar
    Jólaseríur
    Penslar
    Penslar
    Frönskukrydd
    Frönskukrydd

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Páfugl – Peacock

    27. júlí 2013
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Ekki er hægt að týna til greinar um fjaðrir án þess að láta páfuglsfjaðra getið. Peacock herl stendur okkur silungsveiðimönnunum afskaplega nærri því höfðingi silungaflugnanna, sjálfur Peacock er gerður úr þeim.

    Þessar fíngerðu og viðkvæmu stélfjaðrir páfuglsins eru notaðar í búk á ótal gerðum flugna, vængi í þekktar straumflugur og sem fálmara eða skott á ótal púpum. Sérstæðir eiginleikar þessara fjaðra til að endurkasta ljósi í öllum regnbogans litum gefa þeim stórkostlega nýtingarmöguleika við fluguhnýtingar. Þessir eiginleikar gefa flugunum nýtt líf þegar þær skjótast um í vatninu og æra silunginn til töku.

    Gæði þessara fjaðra eru nokkuð misjöfn og ef þær eiga að styðja við væng straumflugu og njóta sín til fullnustu er eins gott að vandað sé til valsins því fjaðrir í miðlungs og lægri gæðaflokkum eru mjög viðkvæmar, brotna gjarnan og endurkasta litlu ljósi. Bestu fjaðrirnar eru þær sem eru næst ‚auganu‘ í páfuglsstélinu og eru því mjög eftirsóttar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6 … 8
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar