Reykt bleikja á melónu

Það er þekkt að vefja parmaskinku utan um melónu, en færri þekkja melónu með reyktri bleikju. Ég hef aðeins fikrað mig áfram með þetta og þeirrar útgáfu sem mér þótti skemmtilegust skal hér getið.

Ég hef notað gular- og hunangsmelónur sem ég sneiði í þunnar sneiðar sem ég þek síðan síðan ríflega með þunnt skorinni, taðreyktri bleikju. Ég hef reynt að forðast mjúkar og vatnsmiklar melónur þannig að þetta verði ekki of blautt og ókræsilegt. Til að toppa þetta og kitla bragðlaukana hef ég sett örlítinn dropa af tamarind jalapeno sósu frá Hrefnu Sætran ofan á hverja sneið. Það er ótrúleg barátta á milli bragðtegunda sem á sér stað í munninum við þessa blöndu, eitthvað sem kemur virkilega á óvart.

Reykt bleikja á melónu

Umfram allt mæli ég ekki með að útbúa þetta með löngum fyrirvara, þetta er réttur sem þarf að borða áður en melónurnar fara að tapa vökva og virðast taka sundsprett á diskinum.

Grafinn urriði með rjómaosti

Flestir þekkja grafinn lax á ristuðu brauði með graflaxsósu, herramannsmatur. En það getur verið tómt vesen að borða þetta nema með hníf og gaffli og því verður stundum ekki komið við, sérstaklega í veislu eða kokteilboði þar sem fátt er um hnífapör. Ég hef því tekið grafinn urriða, sneitt hann niður og saxað gróft ofan á þunnar (u.þ.b. 0,5 sm. þykkar) sneiðar af grófu snittubrauði. Hver sneið verður því u.þ.b. tveir munnbitar og ekkert mál að tylla henni við hlið te- eða kaffibollans á undirskálina.

Grafinn urriði á snittubrauði

Til að halda örlítilli nýbreytni í þessu, þá hef ég smurt sneiðarnar með Philadelphia Original rjómaosti í stað smjörs eða majónes. Hverri sneið hef ég síðan úthlutað einum vænum dropa af graflaxsósu og ef ég er ekki í mikilli tímaþröng, þá hef ég sett örlítið af steinselju ofaná til skrauts. Vel að merkja, þá er auðvitað líka hægt að útbúa þessar snittur með reyktri bleikju.

Nokkrir smáréttir úr aflanum

Tortillur með reyktri bleikju

Í síðustu viku skaut ég hér inn uppskrift að tortillum með gröfnum urriða, en það er líka hægt að nota reykta bleikju og mörgum finnst sú útgáfa ekki síðri.

Tortillur með reyktri bleikju

Uppskriftin er mjög svipuð, þ.e. á átta stórar maís tortillakökur nota ég eina dós af hvítlauks- og jurakrydduðum Philadelphia rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Með reyktum fiski kýs ég að nota þennan kryddaða ost sem kemur með skemmtilegt mótvægi við reykbragðið af fiskinum sem vel að merkja þarf að vera taðreyktur. Bleikjuna sneiði ég niður þannig að hún sé í þykkara lagi og nægi í 5 – 6 raðir á smurðar maískökurnar. Að nota maískökur er kannski bara einhver sérviska í mér, en mér finnst þær fara einfaldlega betur með reyktum fiski heldur en þær úr hveiti.

Nokkrir smáréttir úr aflanum

Kökunum rúlla ég síðan þétt í lengjur og nota gjarnan sushi bambusmottu þannig að þær verði þéttar og áferðafallegri. Lengjurnar má sneiða strax niður í 1,5 – 2 sm. þykkar sneiðar, en ekki er verra að leyfa lengjunum að taka sig yfir nótt í kæli. Eigum við eitthvað að ræða drykki með þessu? Jú, vel kælt hvítvín eða ískaldur bjór sem í þessu tilfelli má alveg vera dökkur maltbjór ef vill.

Tortillur og grafinn urriði

Nú er ekki seinna vænna heldur en koma afla sumarsins í gómsæta rétti og gera sér að góðu. Það er alltaf gott að fá grafinn fisk og reyktan ofan á ristað brauð, en það er líka hægt nýta þennan fisk í gómsæta smárétti og það þarf alls ekki að taka langan tíma að útbúa slíka rétti.

Persónulega finnst mér grafinn urriði betri heldur en grafinn lax og þá er ég ekki bara að tala um grafinn eldislax, um þann fisk vil ég helst sem fæst orð hafa. Hér kemur uppskrift að gröfnum urriða sem vafin er upp í hveiti tortillakökur.

Á átta stórar tortillakökur nota ég eina dós af Philadelphia Original rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Ég kýs að nota óbragðbættan ost þannig að kryddið af urriðanum fái að njóta sín. Urriðan sneiði ég niður í heldur þykkari sneiðar heldur ég nota venjulega á risað brauð, nóg til að ég geti raðað sneiðunum í 5 – 6 raðir á hverja hveitiköku sem smurð hefur verið ríflega með ostinum. Ef þið viljið heldur nota heilhveitikökur, þá mæli ég með því að smyrja örlítið þykkara lagi af osti á hverja köku. Heilhveitikökurnar eru yfirleitt heldur þurrari heldur þær úr hvítu hveiti.

Tortillabitar með gröfnum urriða

Ég rúlla síðan kökunum þétt upp (gott að nota sushi bambusmottur) og sneiði síðan rúlluna niður í u.þ.b. 1,5 sm. þykkar sneiðar. Það er ekki verra að leyfa óskornum rúllunum að taka sig í kæli yfir nótt, en ekki nauðsynlegt. Þetta er í raun mjög fljótlegt og getur hentað vel þegar óvænta gesti ber að garði. Ég leyfi mér að bæta því við að með þessu er alveg tilvalið að drekka kælt hvítvín eða stinga úr eins og einni dós af ljósum bjór.

Grafin langloka

Einmitt á þessum tíma ársins er matarlystin farin að leita að allt öðru en stórsteikum og endalausum sætindum. Þá getur verið gott að grípa eins og eitt gott flak af gröfnum urriða frá síðasta sumri úr frystinum, sjóða sér egg og sneiða rauða papriku og lárperu í grófar sneiðar. Smella þessu á gróft langlokubrauð með smá slettu af graflaxsósu, ferskan ávaxtasafa í glas og gera vel við sjálfan sig. Góð veiðibók eða tímarit á kantinum til að blaða í, skemmir svo ekki fyrir.

fos_grafin_langloka

Myndin er að vísu frá síðasta sumri en svona geta nú nestistímarnir verið í veiðinni.

Morgunmatur meistaranna

Nú er heldur betur farið að styttast í að ferðavagninn verði gerður klár, fyllt á matarkistuna, sængurnar viðraðar og gengið úr skugga um að nægt gas sé á kútunum. Gasið kemur ekki aðeins að góðum notum til hitunar þessa fyrstu vikur vertíðarinnar, það er forsenda þess að maður getur fyllt á eigin tank fyrir daginn.

Í veiðiferðum skiptir ekki minnstu máli að vera með nægt gas á eigin tanki yfir daginn. Staðgóður morgunverður, eða í mínu tilfelli dögurður því ég sef yfirleitt af mér morgunverðinn í útilegum, verður að vera til staðar eigi maður að halda daginn út í veiði.

Morgunmatur meistaranna
Morgunmatur meistaranna

Það getur verið of seint að fylla á orkubirgðirnar ef tankurinn tæmist á miðjum degi. Betra er að vera með fullan tank þegar lagt er af stað og bæta jafnt og þétt á hann yfir daginn til að fyrirbyggja að hann tæmist alveg.

Hér að ofan er mynd af morgunverði sem við veiðifélagarnir smellum á pönnuna hjá okkur áður en vagninn er yfirgefinn og haldið í veiði. Steikt egg, bacon, jafnvel nokkrar smápylsur, brauð með osti og sterkur kaffibolli með til að kveikja á heilabúinu og ná morgunhrollinum úr sér. Hvað sem manneldisfræðingar segja; ekki gleyma saltinu, það bindur vatn og viðheldur rafhleðslu líkamanns sem við getum auðveldlega ruglað með vatnsneyslu yfir daginn til að vinna á móti svitanum sem myndast þegar við glímum við þann stóra.