Febrúarflugur er árlegt hnýtingarátak sem FOS.IS stendur fyrir. Átakinu hefur vaxið fiskur um hrygg á þeim þremur árum sem það hefur verið og hefur verið í stöðugri þróun. Fyrstu þrjú árin var það rekið áfram af viðburði á Facebook, annað árið var bætt við smá samkeppni meðal hnýtara og einu opnu húsi undir lok febrúar. Árið 2017 var ákveðið að breyta aðeins til og samkeppnin var tekin út úr myndinni í þeirri von að fleiri ungir eða óreyndir hnýtarar legðu fram verk sín. Af sömu ástæðu var ákveðið að efna til fjögurra samkoma á mánudögum þar sem öllum sem vildu var boðið til hnýtinga og vörukynninga sem haldnar voru í Árósum, félagsheimili Ármanna.

Frá upphafi hefur megintilgangur þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og veita hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum.

Eins og áður greinir hefur átakið verið rekið sem aðskildir viðburðir á Facebook, en hér eftir mun átakið eiga sér fastan samastað í hópi á Facebook sem skoða má hér. Hér að neðan má skoða innsendar flugur síðustu ára og nálgast ýmsar upplýsingar.