Skipað gæti ég, væri mér hlýtt

Frá því skötuhjúin Adam og Eva komu einhverjum króum á legg, þá fór kynslóðabilið að gera vart við sig. Þegar ég lét mér þetta orðtak (fyrirsögnin) um munn fara hér um árið, þá stóð ekki á viðbrögðum yngri kynslóðarinnar á mínu heimili; Hva, er þér kalt? Að öllu gamni slepptu, þá rifjaðist þetta atvik upp fyrir mér þegar ég las annars ágætan pistil um daginn þar sem höfundurinn fór fimum orðum um hitt og þetta (sem tengdist að vísu ekki veiði, þannig að málefnið skiptir ekki máli). Undirtónninn í greininni var allur í skipanatón; gerðu þetta, gerðu hitt og það örlaði hvergi á hógværð, allt í boðhætti þess manns sem allt veit best. Hugrenningartengslin fóru á yfirsnúning hjá mér og upp fyrir mér rifjuðust samskipti sem ég átti á veiðistað við mér mun eldri veiðimann.

Þetta samtal átti sér stað fyrir áratugum síðan, svona um það bil sem ég var enn miðaldra og umræðuefnið var hvað þyrfti til þess að verða góður veiðimaður. Mögulega kveikti ég umræðutóninn með greddukenndum spurningum / yfirlýsingum um að fjöldi fiska hlyti að gera mann að góðum veiðimanni. Ég sá blóðþrýstingin rjúka upp hjá viðmælanda mínum, sjáöldrin víkka í öfugu hlutfali við augun sem pírðust saman og ég get svarið að eftir fyrsta svarið sá ég örla á svitaperlum á enni hans.

Heyrðu mig, Kristján minn. Fiskar skipta ekki máli, fiskur skiptir máli. Allir geta veitt fiska þar sem nóg er af þeim. Góður veiðimaður veiðir fisk þar sem þeir eru fáir.

Labbaðu varðlega, hættu þessu trampi og gættu orða þinna. Þó þú heyrir ekkert í sjálfum þér, þá finnur fiskurinn þegar þú nálgast.

Svo skaltu setjast niður. Opnaðu augun, lokaðu munninum, horfðu, hlustaðu. Horfðu á vatnið, þar eiga fiskarnir heima. Horfðu á vatnsborðið, þar eiga pöddurnar heima. Hlustaðu því þá veistu hvort þær eru á ferðinni.

Ekki standa upp fyrr en þú hefur séð eitthvað, heyrt eitthvað eða hvorugt. Ef ekkert er að sjá eða heyra, þá skaltu standa varlega upp og velta einum steini við, horfðu.

Opnaðu boxið og veldu eitthvað í samræmi við það sem þú hefur séð, allt annað er rugl, nema Peacock.

Mig skortir ritleikni til að koma tóninum til skila, en þessi orð hafa verið mér ofanlega í sinni síðan. Verst hvað mér hefur aumkunanlega tekist til að fara eftir þessum orðum, það er svo skolli margt sem maður veit að er rétt, en ástundar ekki.

Ég veit að þessi grein er full af orðum sem yngri kynslóðir vita hreint ekki hvað þýða, þeim bendi ég einfaldlega á að leita til sér eldri einstaklinga og spyrjast fyrir. Það er jú þannig sem við flest lærum eitthvað.

Litlir eða stórir

Eins og gjarnan var sagt í útvarpinu hér í (eld) gamladaga; Kannast hlustendur við … að myndir af stórum fiskum laði frekar að heldur en myndir af litlum fiskum? Því hefur verið haldið fram að það sé eðlishvöt að sækjast í að ná stærri fisk heldur en lítinn. Jú, trúlega er ennþá grunnt á eðlishvötinni sem árhundruð eða þúsundir mótuðu meðal veiðimanna. Stærri fiskur er jú meiri matur heldur en lítill og því eftirsóttari.

Þessi frumkvöt hefur aðeins þynnst út, því nú þarf fiskunnandi ekki lengur að veiða sér til matar, hann getur farið út í næstu búð og keypt snyrtilegt flak, roðflett og jafnvel beinlaust og smellt því á pönnuna. Að vísu veit viðkomandi ekkert endilega alla söguna á bak við flakið, hvaðan það kemur eða hvernig og á hverju fiskurinn var alinn. Umbúðirnar geta meira að segja verið villandi og á þær prentað Viltur urriði úr Fáránleikafirði – framleiðandi Langt nef ehf. Bæði Fáránleikafjörður og Langt nef ehf ættu að vekja einhverjar efasemdir, er það ekki? Mestar líkur eru á að þetta fyrirtæki sé að gefa kaupandanum og náttúrunni langt nef og sjálfur mundi ég seint trúa því að viltur urriði veiðist í Fáranleikafirði. En nú er ég kominn langt út fyrir efnið.

Hin síðari ár hafa samfélagsmiðlar orðið til þess að fleiri og fleiri veiðimenn kvitta fyrir frábærum degi í veiði með mynd af einum, helst mörgum, stórum fiskum í fallegu umhverfi. Það hefur meira að segja gengið svo langt að áheyrendur íkjukenndra veiðisagna krefjast sönnunargagna í formi mynda í miðri frásögn og skemma þannig góða veiðisögu og vilja tengja hana sannleikanum. Þetta er dapurleg þróun á sagnahefð veiðimanna, sjálfur vil ég frekar heyra góða veiðisögu einu sinni heldur en sjá sama fiskinn á mörgum myndum, í margra manna höndum, jafnvel ár eftir ár. Jú, samfélagsmiðlar eru ákveðinn hvati að myndatökum veiðimanna, ekki nokkur vafi.

Svo er það metnaðurinn, hann dregur veiðimenn oft á stórfiskaslóðir. Ég held að hann blundi nú alltaf einhvers staðar, metnaðurinn til að gera betur. Ekkert endilega í keppni við næsta mann, heldur fremur að gera betur en maður sjálfur, bæta metið og þá kemur stærð fiska sterk inn. Að ná stærri fisk á land krefst yfirleitt meiri reynslu og færni. Að ná sífellt stærri og stærri fiski er þá nokkurs konar próf í hvoru tveggja, kvittun fyrir því að þú hefur æft þig nóg og ert veiðimaður með veiðimönnum.

Neikvæður fylgifiskur allra stóru fiskanna er að þeir sem aldrei ná stórum fiskum eða verða ekki varir við fisk þar sem skrímslið kom á land í síðustu viku, brotna smátt og smátt niður ef þeir eru í einhverjum vafa um eigin færni. Það er öllum holt að efast, en það má ekki verða að einhverjum kvíðahnút sem hamlar veiðiferðum að fá aldrei stóran fisk. Þá er gott að hafa það á bak við eyrað að fyrir hvern einn stóran fisk á samfélagsmiðli, þá hafa veiðst hundruðir titta, þeir eru bara sjaldnast myndefni, jafnvel þótt þeir hafi fært veiðimönnum ánægju og umbun.

Er ódýrara að hnýta sjálfur?

Þetta er spurning sem ég hef fengið í nokkur skipti, sérstaklega eftir að einhver hefur fengið að gægjast í fluguboxin mín. Tvímælalaust getur það verið ódýrara að hnýta sínar flugur sjálfur. Hérna er lykilorðið getur því þegar allt er talið og áhuginn á fluguhnýtingum kominn á fullt, þá er örugglega ódýrara að kaupa flugurnar sínar úti í næstu búð eða taka sjensinn og panta þær á netinu frá einhverju fjarlægu heimshorni.

Flestir byrja sínar fluguhnýtingar til að spara aurinn og það er alveg hægt ef þú notar tiltölulega fáar tegundir flugna sem kalla ekki á mikið úrval hnýtingarefnis. Ég þekki marga slíka veiðimenn og þeir hafa masterað fáar og pottþéttar flugur sem þeir hnýta og nýta. Ef þá langar að prófa einhverja nýja flugu, þá kaupa þeir nokkur eintök og sjá svo til hvor þeir bæti því hnýtingarefni við í safnið ef það er þá ekki þegar til.

En hjá þeim sem hnýtingarnar eru komnar út í hreint og beint áhugamál og afþreyingu, þá getur kostnaðurinn á hverja flugu orðið verulegur, ef kaupa þarf sérstakt efni í hverja eina og einustu sem mönnum dettur í hug að prófa. Þegar allt kemur þó til alls, þá stendur það eftir að áhugamálið fluguhnýtingar er langt því frá að vera dýrt áhugamál, því með tímanum eignast menn efni í nær allar flugur sem hugsast getur. Verst er þetta framboð af nýju hnýtingarefni sem er alltaf hreint að koma fram.

Sem áhugamál eru fluguhnýtingar náttúrulega bara hrein og bein skemmtun sem nær langt út fyrir hnýtingarþvinguna, fljótlega eru hnýtarar orðnir meðlimir í hinum og þessum hópum á samfélagsmiðlum, lagstir í Pinterest vafr í tíma og ótíma og þar fram eftir götunum. Það er náttúrulega þekkt að forfallnir veiðimenn eyði töluverðum tíma utan hefðbundins veiðitíma í að hnýta flugur, æsa þannig sjálfa sig upp í eftirvæntingu og margir hverjir standa upp frá hnýtingum að vori með fullt, fullt af flugum sem á að prófa yfir sumarið. Þessi frómu áform eiga ekkert endilega eitthvað sammerkt með efndum, því margar þessara flugna týnast í glatkistu fluguboxanna og eru aldrei prófaðar.

Hnýtarar geta þó í það minnsta huggað sig við einn stærsta ávinning eigin hnýtinga, þeir eiga flugu sem er nákvæmlega eins og þá langaði í, svona yfirleitt.

Salsa, nan og kebari

Hver þekkir ekki salsa sósu, nan brauð og hotsauce sósu? Öll eru þetta erlend orð sem hafa fengið óþarfa íslenskt viðskeyti því salsa þýðir einfaldlega sósa, nan þýðir brauð og hotsauce er náttúrulega bara sterk sósa. Sahara eyðimörkin er trúlega þurrasti partur eyðimerkurinnar fyrst við þurfum að tvítaka orðið eyðimörk og á hinum endanum er Avon áin trúlega blautasti partur Avon sem er velska sem þýðir einfaldlega á. Það gæti verið skemmtilegt að velta öllum þessum óþarfa viðskeytum fyrir sér með bolla af hinu Indverska Chai tei í hönd.

Auðvitað er þetta allt eitthvað bull í byrjun greinar, en kveikjan að þessu var ákveðin vandi með þýðingu á japönskum orðum sem ég upplifði í vetur. Ég var sem sagt að fara yfir nokkrar greinar um garnflugur og þar rakst ég á lýsingu á japanskri flugu sem mér þótti áhugaverð. Ég lagðist í smá gúggl og þær niðurstöður voru svolítið á ská og skjön miðað við það sem ég lagði upp með. Vestur í Ameríku hafa áhugamenn um japanskar veiðiaðferðir farið nokkuð frjálslega með þýðingar og mögulega ekki gert sér grein fyrir uppruna og merkingu þeirra orða sem notuðu. Ástæða þess að ég set þetta hér í orð er einfaldlega fyrir þá nörda sem mögulega eru haldnir sóttinni á jafn háu stigi og ég og vilja kynna sér gamlar japanskar veiðiflugur eða síðari tíma útfærslur.

Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að japanska orðið ke þýði hár og japanska orðið bari þýði öngull. Samsett myndar þetta orð það sem við köllum veiðifluga (jp: kebari) sem eitt og sér er mjög áhugavert að setja inn í Google.

Sakasa Kebari er fluga sem er eins og margar aðrar japanskar flugur skrýdd hringvafi. Japanska orðið sakasa þýðir á hvolfi eða öfugt. Þetta vita hreint ekki allir sem nefna flugurnar sínar eitthvað sakasa, sama hvort hringvafið vísi fram eins og japanskri flugu eða aftur eins og á votflugu.

Sekasa Kebari er að öllum líkindum ekki upprunalegt japanskt heiti á ákveðinni gerð flugna, en nær samt skemmtilega byggingu hennar; mjóslegin fluga sem sekkur hratt því japanska orðið sekasa útleggst víst sem; drífðu þig á íslensku.

Svona rétt í lokinn; varst þú búinn að fatta þetta með teið? Chai er hindí og þýðir einfaldlega te.

Rétt uppskrift

Í gegnum tíðina hef ég oft velt því fyrir mér hversu mikilvægt það sé að fylgja uppskrift flugu alveg í þaula. Uppskriftir eru misjafnar, sumar erfast nokkuð nákvæmlega frá höfundi yfir í bók, tímarit eða út á veraldarvefinn, á meðan aðrar eru í skásta falli gott gisk eða hafa þynnst út og aflagast í meðförum hnýtara. Ég tel mig þekkja refilstigu upprunaleitar flugna nokkuð vel og þeim drullupyttum sem víða leynast þegar leitað er að upprunalegri uppskrift. Sjálfur hef ég lent í einhverjum pollum og jafnvel farið með rangt mál í uppskriftum hér á síðunni, en blessunarlega eru góðir lesendur alltaf tilbúnir að benda mér á mistökin sem mér verður á að gera.

Það er ekki bara nördaskapurinn í mér sem hefur orðið til þess að ég ligg eins og ormur á gulli þegar kemur að bókum sem gaukað hefur verið að mér. Reynslan hefur kennt mér, helst vegna erlendra flugna, að leita uppskrifta í eins gömlum bókum og mér er unnt, helst þeim sem höfundur flugunnar hefur ritað sjálfur eða tekið þátt í að rita.

Yngri heimildir eru oft því marki brenndar að sá sem skrásetur uppskriftina hefur farið sínum höndum um innhaldslýsinguna, sem mér í sjálfu sér finnst ekkert óeðlilegt, svo fremi hann geti þess að um persónulegt val hráefnis eða útfærslu sé að ræða. Ef eitthvað er, þá finnst mér það virðingarvottur við flugu og höfund hennar þegar hnýtarar leggja út frá henni, breyta efni eða aðferð að því leiti sem þeim þyki betur fara. Það væri nú dapurlegt ef við stæðum föst í sporum fyrsta hnýtarans og hefðum aldrei breytt út frá uppskrift hans. Þá væri Watson‘s Fancy ennþá bara votfluga og sumar flugur væri hreinlega bannað að hnýta þar sem upprunaleg uppskrift innheldur fjaðrir af alfriðuðum fugli.

En hvenær bregður fluga svo út frá fyrirmyndinni að til verður afbrigði eða jafnvel ný fluga sem gefa ætti sérstakt nafn? Þeir sem hafa fylgst með Febrúarflugum síðustu árin kannast mæta vel við öll þau afbrigði sem hnýtarar senda inn af hinum og þessum flugum. Mér hefur oft fundist margar þeirra skera sig svo frá nafnamóður sinni að þær í raun verðskuldi sérstakt heiti. Svo hafa komið afbrigði af flugu og það eina sem gert hefur verið er að nota Glo brite #5 í staðinn fyrir #7 í einhvern hluta hennar. Er það afbrigði eða bara móðurflugan í nýju litaafbrigði?

Ef ég tek nú þekkta votflugu og hnýti hana úr hanafjöður í stað hænu og hún tekur upp á því að fljóta á yfirborðinu, er ég að hanna nýja flugu og get eignað mér hana? Nei, það væri nú full langt gengið, en það er ekkert sem bannar mér að gera það. Það eina sem gerist er að ég þarf að lifa með því að hafa stolið góðri hugmynd, gert að minni og falið það undir nýju nafni. Ég gæti meira að segja valið henni nafn sem allt önnur fluga er þekkt undir, því nöfn á flugum eru hreint ekki heilög. Það eru t.d. mjög margar dægurflugur sem heita Magic og engin amast við því.

Sjálfur hef ég tekið þekktan hárvæng, einfaldlega sleppt honum og notað þess í stað hanafjaðrir í hefðbundin væng og veitt vel á fluguna eftir sem áður. Ekki dettur mér í hug að endurskýra fluguna, ekki neitt FOS Dentist eða Dentist hanaafbrigði, bara Dentist og hún er með fjaðurvæng. Skárra væri það nú ef maður hrærði í pönnukökur og notaði AB mjólk í stað Súrmjólkur og eftir það hétu þær ekki pönnukökur heldur AB kökur. Og hver segir svo að það eigi að vera Súrmjólk í pönnukökum. Aldrei bakaði mamma mín pönnukökur úr Súrmjólk, en pönnukökur voru það nú samt heillin.

Þróun veiðimanns

Í þröngum hópi veiðinörda er stundum talað um fimm þroskastig veiðimanna, stundum með glotti á vör og jafnvel einhver nafngreindur og flissað. Best er að setja þann fyrirvara strax að ég þekki nokkra einstaklinga, ekkert endilega veiðimenn, sem hafa sáralítið þroskast frá því þeir voru á gelgjunni og því er alveg eins von á að það finnist háaldraðar gelgjur meðal veiðimanna eins og annars staðar. Eins og annað sem sett hefur verið fram, þá eru ekki allir sammála um ástæður þroska. Sumir segja að reynsla (ástundun) þroski veiðimanninn einna mest á meðan aðrir segja að öldrun hans ráði mestu, alveg óháð því hve duglegur veiðimaður hann sé. Mig grunar að þarna séu menn að rugla saman þroska og færni, þetta fer alls ekki endilega saman.

Fyrsti fiskurinn er stigið þegar veiðimaður hefur himinn höndum tekið þegar fiskur bítur á. Stundum er þetta einfaldlega fyrsti fiskurinn en stundum endurtekur þetta sig nokkrum sinnum á lífsleiðinni; fyrsti á maísbaun, fyrsti á spún, fyrsti á flugu (undirflokkur: fyrsti á eigin flugu). Hvaða afbrigði af fyrsta fiskinum sem þetta er, þá hefur viðkomandi náð ákveðnum toppi á lífsleiðinni og það sést langar leiðir.

Fullt af fiski er mislangt skeið hjá veiðimönnum. Þetta er eiginlega gelgjuskeiðið og það smellur stundum harkalega inn rétt á eftir fyrsta fiskinum og það er mjög misjafnt hve lengi það varir. Eins og ég nefndi hér að framan, þá eru til eilífðargelgjur sem alltaf eru á eftir fullt af fiski, sama hvað, þannig að það er alveg eins víst að þú, lesandi góður, þekkir einhvern þannig. Því miður fylgir þessu stigi oft örlítið dómgreindarleysi, allur fiskur telur, sama hvað hann er lítill. Annars er grunnt á næsta stigi meðal allra þessara fiska, viðkomandi keppist við allt og alla og vill helst ekki aðeins vera með flesta fiska í veiðiferðinni, sá stærsti verður að vera meðal þeirra.

Stórfiskaleikur kviknar stundum án fyrirvara, eiginlega alveg óvart eða með einum fiski meðal margra. Þegar fyrsti stóri fiskurinn hleypur á snærið, þá er eins og magnþörfin hverfi og veiðimaðurinn metur gæði umfram magn. Oft eru gæðin metin í stærð, sem er eiginlega svolítið sérstakt því stór fiskur er ekkert endilega betri matfiskur, en þetta markast náttúrulega af því að ég kýs að éta það sem ég veiði. Eftir stendur að á þessu stigi þykir stærðin skipta máli, en það kemur ekki í veg yfir að gelgjan grípi um sig og veiðimaðurinn verði að landa stærsta fiskinum.

Næsta stig er hreint ekki sjálfgefið og margir veiðimenn þekkja ekkert til þess og vilja því meina að þetta sé ekkert ákveðið stig. Aðrir kannast þó við að hvorki magn eða stærð skipta lengur máli, gjarnan þegar þörf hvoru tveggja hefur verið fullnægt á fyrri stigum. Þá leita menn í að sækja fisk með fyrirhöfn, gjarnan á ókunnar slóðir, þangað sem erfitt er að komast eða ná orðlögðum þverhaus á sitt band. Það er svolítið erfitt að hengja ákveðin frasa á þetta stig, en sumir hafa viljað meina að þetta sé úrvalsdeildin sem segir e.t.v. meira um meðlimina heldur en nokkuð annað.

Ef mér telst rétt til og hef farið nokkurn veginn rétt með þessi stig, þá er komið að fimmta og síðasta stigi þroskaferils veiðimanns. Það eru til skemmtilegar greinar um þetta stig en sumar hverjar eru hálfgerðar minningargreinar um orðlagða veiðimenn þar sem þeir eru hafnir upp til skýjanna sem nánast ómennskir öðlingar. Þeir mæta á veiðistað, setja mögulega ekki einu sinni saman og hafa mesta unun af því að horfa á aðra veiða og samgleðjast innilega þeim veiðimanni sem tekst að glepja fisk. En það er til önnur útgáfa af þessu stigi og það eru einfaldlega þeir veiðimenn sem fá alveg jafn mikið út úr því að vera, hlusta á vatnið eða ekkert, gleyma jafnvel að draga inn af því þeir sjá eitthvað merkilegt í fjarska. Þetta er þeir veiðimenn sem vakna til lífsins þegar einhver fær fisk, taka þátt í gleði annarra og láta sér fátt um finnast ef gelgjan grípur um sig.

Um þennan seinasta flokk er hreint ekki einhugur. Veiðimenn? Eru það ekki þeir sem veiða eða í það minnsta gera tilraun til þess? Jú, jú, þetta er alveg sjónarmið, en ég held samt að sá sem hefur einu sinni hefur fengið stimpilinn veiðimaður losni nú ekki svo glatt við hann og því geti fimmta stigið alveg átt við.

Boltabull

Mér skilst að það sé hreinn ótrúlegur fjöldi fólks sem lifir og hrærist í fótbolta. Virkir iðkendur knattspyrnu eru trúlega rétt innan við 30 þ. manns í dag, voru 25.343 árið 2017 og því telst knattspyrna vera fjölmennasta hreyfing íþróttafólks á landinu. Ekki dettur mér í hug að dissa knattspyrnuiðkendur og áhangendur, ég bara skil ekki hvers vegna ég hef 0% áhuga á þessu sporti. Þess í stað vel ég mér sport sem iðkað er af 80 þ. manns (2017) hér á landi og er ekki viðurkennd íþrótt.

Flest knattspyrnulið eiga sér heimavöll, sumir veiðimenn líka. Stóri munurinn er að knattspyrnumenn keppast við að ná áhorfendum á leiki, en veiðimenn (flestir) kjósa að vera lausir við þá. Hróp og köll, húúú og trommusláttur er ekki sérstaklega vel séð á veiðislóð.

Til að spila fótbolta þarf einn bolta, eitt eða fleiri mörk en notast má við góða bílskúrshurð eða tvo steina við enda grasflatar. Sko, þegar maður fer í veiði þá þarf stöng, línu, hjól, flugur eða annað agn og ýmislegt annað smálegt.

Til að velja um það hvort liðið byrjar með boltann þarf tíkall, en notast má við kóktappa eða eitthvert annað drasl sem henda má í loft upp. Þegar ég byrja leikinn, þá þarf ég að velja mér veiðistað, opna nokkur flugubox og velja úr óteljandi flugum þá einu réttu og rétt eins og fótboltamenn, þá þarf ég að teygja og toga (línu og taum) áður en leikurinn hefst.

Fótboltamönnum þykir ekki verra að vera í þar til gerðum skóm. Ég sé á ráfi mínu um heimasíður íþróttavöruverslana að þær hamast við að telja fótboltafólki trú um að það þurfi par fyrir gras, annað fyrir þétt undirlag og helst innanhússpar líka. Æ, þetta er nú afturför frá minni barnæsku þegar venjulegir strigaskór dugðu. Jú, ég þarf vissulega skófatnað í veiðina, en mér dugir alveg eitt par, sýnist í fljót bragði að þeir séu aðeins eða töluvert dýrari heldur en fótboltaskór, þ.e.a.s. parið.

Eigum við eitthvað að bera saman klæðaburð veiðimanna og fótboltaiðkenda? Veiðimenn hafa lengi legið undir því að líta allir eins út á veiðistað, sami græn/grái gallinn og pollabuxur upp í háls. Þetta hefur verið að breytast, en vissulega eiga veiðimenn langt í land með toppa fótboltatreyjur og búninga. Raunar sé ég oftast þessa vatteruðu fótboltamenn á hliðarlínunni (þjálfarar?) fyrir mér eins og Michelin manninn. Ef þeir væru ekki rækilega merktir sínu liði (hvaða lið er þetta Emirates annars?) þá næði ég ekki að greina þá í sundur. Þennan samanburð er e.t.v. ekkert að marka, ég viðurkenni það, sá þetta bara í einhverjum raunveruleikaþætti í sjónvarpinu um daginn sem þröngvaði sér yfir kvöldfréttirnar mínar.

Já, eigum við að tala um sjónvarpið. Ég er ekki með greidda áskrift að fótboltarásum, bara þennan venjulega heimilispakka með fréttum og Landanum en ég fæ í kaupbæti einhverjar 6 rásir af svona raunveruleikafótboltaþáttum, en ekki eina einustu veiðirás. Svo eru leikararnir í þessum þáttum ekkert sérstaklega góðir, þeir kunna ekki að halda sannfærandi um ökklann eða velta sér grenjandi í grasinu. Má ég þá frekar biðja um svekktan veiðimann að telja upp allar ástæðurnar fyrir lélegu fiskiríi.

Ég er kannski að fikra mig út á hálan ís þegar ég minnist á heilu landsliðinn sem eru í vandræðum vegna ávirðinga um ósæmilega hegðun iðkenda. Í veiðinni hefur það nú ekki verið tiltökumál að strippa eins og brjálæðingur og ég get lofað þér að það kippir sér enginn upp við góða sögu af strippi og það besta, þær koma örugglega ekki á forsíðu slúðurmiðlanna næsta dag.

Guði sé lof, þá blandast þessi áhugamál eitthvað. Ég þekki einn og einn veiðimann sem nennir að sparka í tuðru, en ég þekki fleiri tuðrusparkara sem sækja beinlínis í að veiða og ég skil þá vel. Að komast í veiði og ná bolta á stórkostlegasta þjóðarleikvangi stangveiðimanna, ám og vötnum Íslands, er eitthvað sem Laugardalurinn toppar ekki. Eina sem ég næ ekki alveg utan um er, af hverju er stangveiði ekki viðurkennd íþróttagrein?

Einn sér eða í smærri hópum

Fyrirsögn þessa greinarstúfs er fyrir löngu orðinn að frasa, en stendur alltaf fyrir sínu. Ég sjálfur tengi ég vel, líður almennt vel einn sér eða í smærri hópum. Þetta þýðir alls ekki að mér líði illa í stórum hópi eða á mannmörgum stöðum, en þegar ég er í veiði þá sækist ég oftar en ekki eftir því að vera svolítið einn í mínum eigin heimi og einfaldlega njóta þess að vera. Þetta ætti að vera farið að síast inn hjá lesendum, svo oft hef ég komið þessu á framfæri.

Stangveiði er í raun einverusport og hentar sérstaklega vel þeim sem njóta þess að vera einir eða þurfa virkilega að kúpla sér út, vinda ofan af sjálfum sér og tengjast upp á nýtt. Meira að segja í þokkalegum hópi í veiðiferð næst ákveðin einvera, ef hópurinn er réttur, því veiðimenn eru almennt ekkert að kjá framan í hvorn annan í veiði. Þeir miðla upplýsingum, spjalla þegar færi gefst, en meðan einhver er að veiða, þá er hann almennt látinn í friði. Hann skilar sér örugglega inn í spjallið ef hann hefur áhuga á því.

Með árunum hef ég kynnst eða verið meðlimur í sífellt fleiri hópum sem fara saman á veiðislóð. Í mínu tilfelli er það svo að þessir hópar hafa einfaldlega smollið saman eða ekki. Sjálfur held ég að það sé ekki farsælt að reyna að smyrja eða slípa saman veiðihóp. Nú er ég ekki að tala um ólík sjónarmið eða veiðiaðferðir meðlima, heldur karaktera, þeir verða að smella saman. Fjölmennasti hópurinn sem ég hef verið í, hingað til er hópur fólks þar sem engum dettur í hug að agnúast út í veiðiaðferðir, allir sleppa því að predika veiða og sleppa, þetta er hópur þar sem skynsemin ræður.

Veiðihópar eru ekkert öðruvísi heldur en aðrar hjarðir og því þarf meðlimum að líða vel í návist hvers annars því óhjákvæmilega er alltaf eitthvert samneyti í veiðihóp. Að morgni hittist hópurinn og þá geta verið mis-morgunfúlir einstaklingar innan hans sem taka verður tillit til. Sumir virka einfaldlega ekki fyrr en á öðrum eða þriðja kaffibolla og eru ekkert endilega tilbúnir til að kryfja gærdaginn og leggja á ráðin fyrr en að þeim loknum. Æðibunukarlinum gæti þótt það heldur seint í rassinn gripið, hann er kominn í vöðlurnar áður en fyrsti bolli er búinn og mættur á veiðistað áður en bolli tvö er hálfnaður. Ef það er sátt um þetta fyrirkomulag, þá er það vel, en það er hætt við að einhver fái á sig stimpilinn að vera frekjuhundurinn ef hann er alltaf fyrstu niður á bakka eða vera letihaugur ef hann sleppir fyrsta klukkutímanum í veiði.

Það þarf líka að vera gott samkomulag um matmálstíma og ef einhver annar sér um matinn, þá þýðir ekkert að vera gikkurinn í hópinum sem hvorki étur þetta eða hitt. Ég hef verið svo heppinn með þá hópa sem ég hef verið í að samkomulag um matreiðslu er til fyrirmyndar. Alls ekki eins í þeim öllum, en í góðu samkomulagi. Í lengri ferðum er t.d. tilvalið að skipta með sér matreiðslu og frágang eftir sameiginlegar máltíðir, þannig að einn eða tveir sjá um matseldina eitthvert kvöldið og eiga því frí önnur kvöld, morgunmatur og millimál eru á ábyrgð hvers og eins. Í styttri ferðum er sjálfsagt að hver sjái um sig, frjáls mæting í mat og ekkert stress hjá kokkinum hvort allir nái í hús á tilsettum tíma.

Í sumar sem leið var ég svo heppinn að vera nokkrum sinnum í frábærum hópi á veiðislóð sem eiginlega pússaðist saman úr tveimur mismunandi hollum sem við veiðifélagarnir höfum veitt með. Mér fannst þessi hópur virka fullkomlega, fjórir veiðimenn á svipaðri línu sem náðu vel saman, virtu einveruþörf hvers annars, skiptust á upplýsingum og gátu kjaftað hvern annan í hel á kvöldin. Að vísu hélt ég mínu striki og var sá morgunfúli sem þurfti nokkra bolla áður en talfærin fóru í gang, en það slapp allt til vegna þess að einn kom yfirleitt ekki fram fyrr en ilmurinn af bacon og eggjum var orðinn ómótstæðilegur og fram að þeim tíma naut ég umburðalyndis þeirra tveggja sem ótaldir voru og fékk að  vera í morgunfýlunni minni í friði.

Fólk er misjafnt

Það kemur alveg fyrir að ég skil bara hvorki upp né niður í fólki sem er ekki eins og ég, en það er náttúrulega bara hið besta mál, þ.e. að fólk sé ekki eins og ég. Ég til dæmis verð oft svolítið hissa, í smá stund, þegar ég rekst á veiðimann sem vill ekki segja frá flugu, veiðistað eða veiðiaðferð berum orðum, en kemur þess í stað með einhverjar dulspekilegar tilvitnanir. Svo rifjast það upp fyrir mér að fólk er misjafnt og þá legg ég bara árar í bát, dreg í land og leyfi þeim að eiga allan sinn vísdóm út af fyrir sig. Kannski set ég viðkomandi í flokkinn dulvitringar en þá þarf hann líka að vera sérlega afundinn.

Það getur vissulega verið viðkvæmt mál að gefa upp góða veiðistað eða aðferð, en minnugur þess að ef það liggur fiskur í netinu mínu þegar ég tölti frá veiðistað, þá er nánast enginn möguleiki á að einhver annar veiði hann og mér er bara þægð í því að segja frá ef einhver spyr mig.

Eitt er það þó sem fer alveg ósjálfrátt í  pirrurnar hjá mér og það eru dulvitringar sem halda til á dulnetinu. Auðvitað á maður ekki að láta svona nokkuð pirra sig, en það gerir það nú samt. Dulvitringar á dulnetinu eru þeir sem svara saklausum fyrirspurnum á samfélagsmiðlunum með því að senda einkaskilaboð á þann sem spyr; Þú átt PM og við hin sitjum bara eftir og vitum ekki neitt. Blessunarlega eru til þeir aðilar sem láta eins og ekkert sé og svara hreint út og það þarf ekki gráðu í Tarotlestri til að ná innihaldinu.

Kannski eru fleiri en ég pirraðir á svona dulvitringum og þá mæli ég eindregið með því að menn leggist bara í sína eigin Google leit, leiti að veiðisögum og veiðitölum, kortum og loftmyndum og einfaldlega læri af því sem fyrir augu ber. Hver veit nema þú getir komist að einhverju sem dulvitringarnir hafa ekki hugmynd um og þú getir sjálfur, eftir að hafa prófað, gefið einhverjum öðrum góð ráð um flugu, veiðistað eða aðferð, opinskátt.

Líka fyrir innipúka

Stangveiði er aðeins ein af mörgum leiðum til að njóta útiveru og nándar við náttúruna. Það gefur augaleið að veiðin sjálf á sér stað utandyra, en það er svo margt annað sem getur fylgt stangveiðinni sem á sér ekki stað utandyra. Innivera er líka ágæt og ef þú ert forfallinn veiðimaður eða bara innipúki inni við beinið, þá getur þú sökkt þér enn frekar niður í stangveiðina og sinnt henni utan veiðitímans með virkum hætti.

Einfaldasta leiðin til að sinna stangveiði utan veiðitíma er að ganga í eitthvert af þeim fjölmörgu veiðifélögum sem eru til staðar. Ég hef kynnst nokkrum afar snjöllum veiðimönnum í heimsóknum mínum til stangaveiðifélaga og minni hópa á liðnum árum, t.d. veiðiklúbba á vinnustöðum, hnýtingarklúbba félagasamtaka o.s.frv. Allt gefur þetta veiðimönnum færi á að hittast utan veiðitíma, mögulega til að skipuleggja komandi veiðiferðir, grúska í veiðitölum eða kynnast nýjum veiðisvæðum með því að skiptast á upplýsingum eða fá til sín í heimsóknir utan hópsins.

Þegar ég lít til baka og rifja upp kynni mín af minni hópum og félagsstarfi, þá standa þau upp úr þar sem blandaður hópur veiðimanna kemur saman. Þó áhugi minn á stangveiði beinist fyrst og fremst að fluguveiði, þá finnst mér frábært að heyra af og kynnast annarri veiði, hvort sem það er spúna- eða beituveiði og svo má ekki gleyma því að sögur af fiski, veiðistöðum og víðernum standa alltaf fyrir sínu, sama hver aðferðin er.

Stóru veiðifélögin hafa vitaskuld burði til að halda úti meiru og öflugara félagsstarfi á vetrum, en það er ekki þar með sagt að minni félög sem e.t.v. telja aðeins nokkra tugi félagsmanna geti ekki haldið úti öflugu starfi þó smærra sé í sniðum. Hún kemur eflaust á óvart, öll sú þekking og færni sem er til staðar innan hópsins ef meðlimum yrði gert kleyft að koma fram og segja frá. Mögulega þyrftu einhverjir smá hvatningu og aðstoð við að forma efnið, koma því t.d. á glærur eða í texta, en til þess eru örugglega einhverjir félagar reiðubúnir að aðstoða við án þess að yfirtaka kynninguna. Ég má til með að nefna þetta með yfirtökuna sérstaklega því ég hef setið kynningu þar sem aðstoðarmaðurinn beinlínis yfirtók efnið þannig að eiginlegur höfundur þess fór í baklás og hefur vart opnað munninn síðan. Ég reyndar náði viðkomandi á eintal síðar og mikið rosalega fóru fundargestir mikils á mis vegna þessarar yfirtöku.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, þá taka veiðimenn sig mismunandi alvarlega og það er vel. Háalvarlegir fyrirlestrar um vaxtarskilyrði fiska, aflatölur og dómsdagsspár eru ekki alveg til þess fallnar að trekkja að. Hafði léttleika í öndvegi og áhugavert umtalsefni. Já, ekki gleyma því að opna á samtalið manna í millum, undir kynningunni eða í lokinn, þetta er jú félagsskapur.

Framundan er langur íslenskur vetur eftir sérlega félagslega erfið misseri vegna þessarar óværu sem hefur hrjáð okkur. Eins og útlitið er í dag, þá er lag til að setja saman dagskrá fyrir veturinn, hún þarf ekki að vera öflug eða margbrotinn, en ég held að veiðimönnum veiti ekkert af því að koma sama, augliti til auglitis, skiptast á hryllings- og hetjusögum sumarsins eða kynnast einhverju nýju í veiðinni, af nógu er að taka.

Markmið og árangur

Ég strengi aldrei áramótaheit, en ég set mér reglulega markmið og þá helst í tengslum við áhugamál eða vinnu. Þessi markmið setja ránna í ákveðna hæð og svo tek ég tilhlaup. Því er eins farið með mig og nokkra aðra, að stundum vill það taka nokkurn tíma að hefja atrennuna. Æ, ég er svo upptekinn núna. Hva, það er nægur tími, nota þær ekkert fyrr en í vor / sumar / næsta haust. Já, ég er að tala um allar flugurnar sem mig langar til að hnýta og vil eiga tilbúnar fyrir fyrstu veiðiferðina í apríl.

Það eru vissulega til þeir veiðimenn sem hnýta allan ársins hring, en ég hnýti helst á veturna og gjarnan byrja ég ekki fyrr en í febrúar, stundum mars og það kemur jafnvel fyrir að ég hnýti ekkert fyrr en í apríl. Þessar síðbúnu hnýtingar í apríl vilja oft einkennast af einhverju stresskasti, stutt í fyrstu ferð og þá verða fæstar af þeim flugum sem mig langaði til að hnýta fyrir valinu.

Markmið haustsins er; að byrja að hnýta fyrr í vetur og ekkert vera að taka einhverjar nýjar inn í prógrammið fyrr en ég er búinn að hnýta þær hefðbundnu. Þetta síðasta ætti að hvetja mig til verka því mér finnst einstaklega gaman að hnýta nýjar flugur, þ.e. flugur sem ég hef ekki prófað áður. Hvort ég prófi þær síðan í veiði er allt önnur saga og hefur verið sögð hér áður, oft. Þetta að klára þær hefðbundnu fyrst er svona taktík eins og maður

Fyrsta skrefið er náttúrulega að taka til í hnýtingadótinu. Ég bara skil ekkert í því hvernig stendur á því að hnýtingarhornið mitt er alltaf í drasli. Það hlýtur bara einhver að laumast þangað inn og rusla til, rugla boxum og pokum í hillum þannig að ekkert er á sínum stað og ekkert finnst þegar til þess á að taka. Það er margt skemmtilegt við að taka til í hnýtingadótinu. Fyrir það fyrsta, þá finnur maður svo margt sem maður var alveg búinn að steingleyma að maður hafði keypt þegar maður rétt aðeins kíkti inn í búðina. Svo er það þetta með innkaupalistann. Vá, hvað það er gaman að finna hálftómt kefli eða rétt aðeins botnfylli í einhverjum poka eða boxi, þetta þarf að fara á innkaupalistann. En það er líka ýmislegt neyðarlegt sem kemur upp úr krafsinu þegar tekið er til. Af hverju ætli ég eigi allt í einu fimm poka af peacock herl, alla opnaða en nær alla fulla ennþá? Ég bara skil þetta ekki.

Svo fer maður með innkaupalistann í búðina. Mér liggur við að skrifa búðina með stóru Bjéi, veiðibúðir ætti alltaf að skrifa með stóru Bjéi, þær eru svo mikið aðal. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað það sem er á innkaupalistanum er ekki til, þá verður maður að bíða og kíkja aftur þegar varan er komin. Kannski þarf maður að fara nokkrum sinnum í búðina og athuga hvort þetta sé komið og þá gæti eitthvað annað skemmtilegt borið fyrir augu sem gott væri að eiga. Þegar svo allt efni er loksins komið, þ.e. það sem var á upprunalega innkaupalistanum, þá gæti maður allt eins þurft að laga aftur til í hnýtingarhorninu til að koma öllu skemmtilega efninu fyrir. Það þýðir nefnilega ekkert að byrja að hnýta fyrr en allt efnið er komið á sinn stað.

Á þessum C-vítans tímum getur biðin eftir hnýtingarefni verið töluverð. Mér skilst að erlendar hænur séu oft í sóttkví og þori ekki að fella fjaðrir af ótta við að sýkjast af einhverri veiru og spunarokkar hnýtingaþráðar eru víst þagnaðir vegna skorts á hraustu vinnuafli. Skyndilega getur því allt eins verið komið að jólum og þá þarf maður að huga að jólagjöfum sem passa á listana (innkaupalistann fyrir veiðifélagann og óskalistann). Alla lista skyldi íhuga vandlega áður en þeir eru birtir, þetta getur tekið drjúga stund.

Eftir jól er maður síðan alveg örmagna og þarf að hvílast fram að þeim tíma sem sækja þarf um veiðileyfi fyrir næsta sumar. Óhvíldur veiðimaður kaupir stundum tóma vitleysu og það ber að forðast. Eftir skil á vandlega ígrunduðum umsóknum, þá eru þær allt í einu komnar á fullt; Febrúarflugurnar. Þar fær maður nú heldur betur hugmyndir að flugum til að hnýta fyrir næsta sumar og því best er að bíða aðeins fram til 1. mars og sjá þá allar flugurnar sem maður gæti hugsað sér að hnýta og prófa næsta sumar.

Svona geta nú göfugustu markmið horfið eins og dögg fyrir sólu og þegar apríl gengur í garð, þá er maður jafn blankur af flugum eins og venjulega og verður í einhverju stresskasti að hnýta upp í það nauðsynlegasta sem vantar. Hver var að tala um markmið?

Afturbataveiðimenn

Kannski get ég að einhverju leiti sjálfum mér um kennt, en þegar kreppir að í laxveiðinni, þá leita sífellt fleiri og fleiri veiðimenn í vatnaveiðina. Sumir þessara veiðimanna hafa ekki snert á silungsveiði í fjölda ára og ég hef stundum grínast með það að þessir veiðimenn séu í afturbata. Ég veit að þetta er ljótt að grínast með en stundum er svartasti húmorinn einfaldlega sá sem segir mest, þessi hárbeitta lína sem liggur á milli þess sem er of eða þess sem segja má.

Ég var hér um daginn, kannski í síðustu eða þar síðustu viku, með greinarstúf sem ég vann upp úr nokkrum gullkornum sem ég hef heyrt á bakkanum síðustu sumur. Það er aldrei að vita nema einhverjir hafi borið kennsl á sjálfa sig þarna, en trúið mér, það var ekki einhver einn sem átti það sem ég vitnaði til, þið voru nokkrir sem áttuð kveikjurnar að þeirri grein.

Til að bæta gráu ofan á svart þá hef ég punktað hjá mér nokkur atriði sem ég hef séð að bæði afturbata- og nýir veiðimenn eiga sameiginlegt þegar þeir smella saman við vatnaveiðina.

Eitt af því sem ég hef alveg tekið eftir eru þessar rosalegu pælingar um allt og ekki neitt sem veiðimenn detta niður í. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um að veiða og njóta, ekki ofhugsa eða vanda sig út fyrir öll skynsemismörk þannig að veiðimaðurinn looki vel á samfélagsmiðlum. Slakið á og hættið að ofhugsa allt mögulegt og umfram allt, það þarf enginn að kunna allt á veiðistað, þú hefur nægan tíma næsta vetur til að velta þér upp úr mistökum sumarsins og finna lagfærslur á eigin breiskleika.

Glysgirni er eitthvað sem ég datt alveg á bólakaf í á mínum fyrstu árum. Síðan rann aðeins af mér og ég fór að spá meira í einfaldleika, liti og sköpulag fluga sem ég sá að líktu eftir fæðunni sem fiskurinn sækir í. Mikið af þeim flugum sem ganga í augun á veiðimönnum eru beinlínis fjarstæðukenndar í augum fisksins. Ég held að þetta heiti back to the basics upp á enska tungu.

Besta afsökun sem ég hef fundið fyrir sjálfan mig er að það fæðist enginn fullkominn kastari, þetta lærist smátt og smátt. Sumir þurfa hjálp við þetta, misjafnlega mikla, en örugglega einhverja leiðsögn, en það er algjör óþarfi að vera með 40 feta köstin á tæru í fyrstu ferð. Farðu þér aðeins hægar og lærðu að setja fluguna niður innan við 50 sm frá staðnum sem þú sást fyrir þér, stutt og nákvæmt er oft betra heldur en langt og víðsvegar. Og jafnvel þótt þú æfir þig á veiðislóð, takir stutta spilið fram yfir lengdarköstin, þá gerir enginn alvöru veiðimaður grín að þér.

Ég vona að enginn taki þessum hugrenningum mínum og orðaleikjum illa, þetta er ekki illa meint og helst punktað niður fyrir sjálfan mig, kannski einhverja fleiri.

Að finna fyrir smæð sinni

Ég væri að ljúga ef ég segði að fjöldi manna spyrji mig hvers vegna ég hafi fyrir því að þeytast upp á hálendi til að veiða þegar næsta vatn er innan við 10 mín. akstur frá heimili mínu, en það hefur nú samt komið fyrir. Þegar svo ber undir þyl ég þessa venjulegu rullu um náttúrufegurð og friðsæld fjallamennskunnar alveg þangað til ég heyri sjálfan mig fara með frasa sem allir hafa heyrt. Stundum hætti ég reyndar áður en kemur að því að frasarnir taka völdin, einkum þegar ég sé áhuga spyrjandans fjara hægt og rólega út og augnaráðið hans byrjar að leita að einhverju áhugaverðu í nágrenninu. Það er ekki alltaf auðvelt að skýra það út fyrir fólki sem ekki þekkir, hvernig það er að vera á fjöllum.

Mér finnst hverjum manni holt að kynnast eigin smæð af og til og það er væntanlega hvergi eins auðvelt og á fjöllum, þar er allt stærra en egó einstaklingsins og oft á tíðum ertu sá eini á staðnum. Stangveiði á fjöllum nýtur sífellt meiri vinsælda, og þá er ég ekki aðeins að tala um Íslands. Á síðustu árum hefur orðið hrein og bein sprenging í hálendisveiði í Skandinavíu og Norður-Ameríku, þ.e. heimsálfunni. Svipaða sögu má segja af Nýja Sjálandi og Tasmaníu þar sem veiðiferðamennska hefur lagst ofan á langa hefð íbúa að fara til fjalla, ráfa um og finna fyrir smæð sinni og kúpla sér algjörlega frá erli hversdagsins. Nú þekki ég ekkert sérstaklega sérstaklega vel til ferðamannaiðnaðarins á Nýja Sjálandi, en einhver ástæða er fyrir því að ég sé það oftar og oftar að veiðimenn lauma nettum pillum inn í pistla sínar sem hljóma eitthvað á þessa leið; komst því miður ekki að í vatninu, allt frátekið í skálunum, ekki þverfótað fyrir og svo framvegis. Ein hressilegasta athugasemdin sem ég hef séð frá þarlendum veiðimanni var að hann vildi helst stúta farsímum fræga fólksins, það væri þegar nóg af fólki sem asnaðist upp á hálendið til að upplifa Instagram færslur þeirra frægu. Mér varð barasta hugsað til einhvers kanadísks gutta sem velti sér hér um árið í mosanum í Skaftafellssýslunni og asnaðist síðan fram á bjargbrún sem skömmu síðar varð fótum troðin.

Það fólst ákveðin fró í síðasta sumri fyrir íslendinga eftir nokkur annasöm ár í túrismanum og það gladdi mitt litla hjarta ósegjanlega að sjá og heyra af fleiri innlendum ferðamönnum á fjöllum heldur en mörg undanfarin ár. Afsakið ef einhver á um sárt að binda vegna þess sem heitir í dag tekjufall vegna fækkunar ferðamanna, en kannski þurftu íslendingar einfaldlega á þessari pásu að halda þannig að þeir kæmust að á hálendinu án þess að þurfa að smokra sér í gegnum rútubiðraðir til þess eins að komast út í guðsgræna náttúruna og vera einir með sjálfum sér.

Fjöldi íslenskra veiðimanna á fjöllum verður seint til þess að yfirfylla hálendið, en það má heldur ekki gleyma því að standa vörð um þessa einstæðu upplifun, ekki drekkja henni í veiðitengdri þjónustu þannig að enginn komist að án þess að þurfa að kaupa þjónustu umfram veiðina sjálfa. Síðasta haust heyrðum við hressilega gagnrýni á afleidda starfsemi tengda laxveiði á íslandi, kvaðir um hitt og þetta sem tengdist laxveiðinni væru orðnar aðalútgjaldaliðurinn, ekki veiðin sjálf. Þetta er ekkert ný gagnrýni og verður háværari eftir því sem fiskunum fækkar á stöng. Hvort þetta breytist eitthvað í sumar, er svo allt annað mál.

Ég nýti mér veiðitengda þjónustu uppi á hálendinu og kann afskaplega vel að meta hana, greiði fyrir hana með glöðu geði þeim sem leggja það á sig að halda þurrum og notalegum húsum í rekstri í Veiðivötnum, Framvötnum og víðar. Dásamlegasti kosturinn er að ég á völina sjálfur, ég er ekki skuldbundinn til að kaupa neitt annað en það sem ég vil einmitt kaup og þannig vil ég halda því.

Heppni að eldast

Ég er einn þeirra heppnu og held áfram að eldast og vonandi að þroskast aðeins. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. færri hár á höfði, hrukkur og að þau eftirlifandi hár sem enn tolla á höfði mér eru farin að minna töluvert á silfrað Crystal Flash, þá er ég bara nokkuð góður. En áhjákvæmilega er ýmislegt annað sem aldurinn færir manni. Eitt af því er alveg nýtt orðfæri og viðmót sem kemur helst fram þegar ég opna munninn og heyri heyri í gömlum tuðandi karli sem ég kynntist fyrir 20 árum síðan.

Það hafði einhver góður maður orð á því um daginn í mín eyru að það væri algjör sprengja í nýjungum í fluguveiðinni. Fyrir einhverjum árum síðan hefði ég sperrt eyrun og haft muninn lokaðan, tilbúinn að meðtaka upplýsingar um allar þessar nýjungar, en núna stóð ég mig að því að fussa og sveia í huganum „Nýjungar, þetta er ekkert nýtt, ég man nú þá tíð að …….“ og þar með var gamli tuðandi karlinn mættur.

Það er allt nýtt fyrir þeim sem sér hlutina í fyrsta skiptið, en það er í raun afar fátt nýtt undir sólinni. Það sem er nýr sannleikur eins, en gamalkunnugt stef í eyrum annars og stundum finnst mér eins og ég sé búinn að heyra voðalega margt áður sem flutt er sem nýjustu fréttir.

Rétt eins og aðrir veiðimenn, þá þykist ég hafa orðið var við verulega aukinn áhuga á stangveiði síðustu ár, sérstaklega á vatnaveiði. Nú kann einhver mér eldri að segja eitthvað á þá leið að „það hefur alltaf verið aukning í stangveiði“ en fyrir mér eru þetta nýjar fréttir, ekki síst að ég sé fleiri og fleiri laxveiðimenn finna gleðina aftur í silungsveiðinni. Margir þessara veiðimanna hafa ekki snert við litlum púpum eða hefðbundnum votflugum í áratugi og flest allt sem á borð þeirra kemur er nýtt og spennandi, nýjar fréttir.

„Mikið vildi ég vera með staðkunnugum manni hér sem gæti sagt mér nákvæmlega til hvernig ég á að veiða“ kom úr munni eins sem dreymdi um leiðsögumann sem gæti ljóstrað upp hinni gullnu reglu ákveðins vatns. Mér þótti líklegt að viðkomandi hefði notið óbrigðullar leiðsagnar við ákveðna á nýlega og lifði enn í endurminningunni um það að hafa fengið inn með teskeið hvar, hverju og hvernig hann ætti að kasta. Mér varð hugsað til svona MiB græju eins og Tommy Lee Jones notaði til að þurrka út minni fólks, það væri gott að hafa svona græju stundum til að núllstilla suma veiðimenn, ná þeim niður á lærdómsstigið aftur. Breytileiki vatna eftir árstíma, veðri og tíma sólarhrings er afar mikill og þetta verða menn að læra svolítið sjálfir. Vissulega er hægt að vísa einhverjum á álitlega veiðistaði, en hvernig viðkomandi veiðir verður hann að finna út sjálfur, það sem einum hentar er öðrum fráleitt.

„Það var ekki fyrr en klukkan varð tvö að ég fékk fisk, virkar þetta vatn ekkert fyrir hádegi?“ var ég eitt sinn spurður. Klukka fisksins er ekki skífa með vísum, hún er miklu stærri og gengur ekki alltaf klukkutímann á 60 mínútum. Sumir dagar að vori byrja snemma með glampandi sól, kannski tilheyrandi snjóbráð sem skilar sér niður í nærliggjandi vatn sem rétt rúmlega 1°C heitt vatn. Þá er e.t.v. ekki mikil von til þess að fiskurinn sæki upp að bakkanum fyrr en líða tekur á daginn. Sama vatn, örfáum dögum síðar getur verið kraumandi í uppitökum frá kl.06:00 til 09:00 að morgni þegar flugan klekst en svo gerist ekkert meira fyrr en húmar að kvöldi og hornsílin fara á stjá.

„Urriðinn tók Pheasant Tail en vildi ekki Nobbler“ er mjög góð setning og hún þarf alls ekkert að vera eins fjarstæðukennd eins og viðkomandi lét hana hljóma. Við vitum að urriðar eru sérstakir aðdáendur marabou flugna sem sem líkja eftir hornsílum, en þeir borða ýmislegt annað en hornsíli. Raunar er það svo að hornsíli eru yfirleitt ekki nema á bilinu 15 – 30% af fæðu urriðans, bobbar og púpur fylla upp í það sem upp á vantar. Það er því ekkert einkennilegt við það veiða urriða á púpu, en auðvitað er þetta misjafnt eftir vötnum. Þá getur nú verið gott að vera búinn að safna reynslu í sarpinn.

Ég er ekki viss hvaða viðbrögð ég sýndi við þessu öllu á sínum tíma, en mér þykir ekkert ólíklegt að gamli jálkurinn hafi komið upp í mér og hljómað í það minnsta 20 árum eldri en ég er í raun.

Sleppingar og veiði

Fyrir utan þá sem hlaupa eftir hrekkjum lómanna þann 1. apríl, þá eru margir sem sjálfviljugir taka upp á því að hlaupa fram á vatns- eða árbakka og bleyta í færi eftir langa bið í dag. Svo eru aðrir sem bíða spenntir eftir því að laus rúmfleti í Veiðivötnum fari í almenna sölu, en gerist einmitt í dag.

Dyggir lesendur muna væntanlega eftir nokkur greinum hér á síðunni frá því fyrir áramót þar sem smá skoðanakönnun FOS.IS um veiði í Vötnunum var rýnd, vonandi til gagns fyrir einhverja. Frá því að þessar greinar komu hér fram, þá hafa nokkrir veiðimenn verið í sambandi og viðrað ýmsar hugmyndir sínar og vangaveltur um Veiðivötnin.

Eitt af því sem velt hefur verið upp eru vangaveltur um minni seiðasleppingar í Vötnunum og samhengi þeirra við aflatölur. FOS.IS lék forvitni á að kanna þetta og lagst var í grúsk í tölur um sleppingar, heildarafla og sleppingar síðustu ára. Nærtækast var að leggjast yfir tölurnar úr Litlasjó, þar sem flestir urriða hafa komið á land síðustu árin.

fos_veidiv_medal_afla

Hækkun meðalþyngdar ætti að öllu jöfnu að gefa vísbendingar um fækkun einstaklinga sem gæti orsakast af minni sleppingum seiða árin á undan. Meðalþyngd afla í Litlasjó hefur haldist nær óbreytt síðustu fimm árin og er nánast á pari við meðalþyngd áranna 1999 til 2006 eins og sjá má hér að ofan. Ef við bætum tölum um sleppingar inn í línuritið, þá ættum við að sjá einhverja fylgni þar á milli hér að neðan, en því er ekki til að dreifa.

fos_veidiv_sleppingar_medal

Ef þyngdartopparnir koma fram u.þ.b. 4 árum eftir lægð í sleppingum, þá sjáum við smávægilegan topp 2005 eftir litlar sleppingar 2001, en það vantar þá toppinn 2007 sem hefði átt að koma eftir litlar sleppingar 2003. Toppurinn 2014 kemur þó nær á pari við litlar sleppingar 2009 og 2010. Meðalþyngd 2016 – 2018 eru þó ekki í neinu samhengi við sleppingar 2012 – 2014.

Við fyrstu sýn virðist þó vera aðeins meiri fylgni milli afla og sleppinga í Litlasjó, en þegar nánar er rýnt í tölurnar þá eru töluverð frávik þarna í milli líka.

fos_veidiv_sleppingar_afli

Oft hefur verið talað um náttúrulegar sveiflur í náttúrunni sem verða á sjö til níu ára fresti, en þær eru vandfundnar í þessum tölum. Mögulega liggur hér ekki nægjanlega langt tímabil til grundvallar eða við erum einfaldlega að horfa á eitthvað sem við skiljum ekki.

 

Töfralyf?

Í orðabókum er töfralyf skilgreint sem eitthvað sem hefur undraverð áhrif. Skyld orð eru gefin upp; kraftaverkalyf, töframeðal, galdraformúla, undralyf, kynjalyf. Það er eitthvað mjög ótrúverðugt við öll þessi orð og ósjálfrátt leitar hugurinn til snákaolíu sem hefur verið notað til að lýsa gagnslausum eða jafnvel skaðlegum meðulum.

Í besta falli byrja ég þessar hugleiðingar með efasemdir í huga, ef ekki beinlínis neikvæður. Þetta orð rakst ég á í frétt frá því síðla á síðustu öld þar sem því var slengt fram sem fullyrðingu, svarinu eina við minnkandi laxagengd í ám á Íslandi. Spurningamerkið í fyrirsögninni er töluvert yngra og varð eiginlega til í beinni útsendingu s.l. haust á meðan á fundi Sporðakasta stóð um stöðu laxveiðinnar á Íslandi. Þar sem ég er einn þeirra sem verð að ná endum saman þegar mig brestur minni eða spurningar eru látnar hanga í lausu lofti, þá lagðist ég í grúsk. Til að ná þessum endum saman, þá leiddist ég út og suður og kippti með mér töluverðu efni sem ég reyndi að tengja saman í kollinum á einhvern vitrænan hátt.

Flestar ár og vötn eru í raun lokuð lífkerfi sem verða helst fyrir áhrifum veðurfars og náttúru almennt. Reyndar langar mig til að bæta hér inn einum stærsta áhrifavaldinum sem er mannskepnan, en látum hana liggja á milli hluta til að byrja með. Til að meta hæfni ákveðins svæðis er, eða öllu heldur ætti, að framkvæma svokallað búsvæðamat. Búsvæðamat er unnið með samræmdum hætti samkvæmt verklýsingu Hafró ( VMST-R/0014 ) og er fyrst og fremst ætlað til að meta hvernig viðkomandi svæði hentar t.d. laxi og silungi til uppvaxtar. En búsvæðamat nýtist einnig til ýmissa annarra hluta, m.a. til að koma auga á góð búsvæði í ám og vernda þau sérstaklega og vitaskuld til að velja góð búsvæði til seiðasleppinga. Frjósemi vatns og hentug búsvæði hafa augljóslega hve mest áhrif á vöxt og viðgang laxfiska. Ef við líkjum þessu við venjulegt heimilishald, þá er ekki nóg að byggja stórt hús sem rúmar marga einstaklinga, búrið og ísskápurinn þurfa að geyma næga fæðu fyrir alla íbúa hússins. Innkoma heimilisins þarf að nægja til að brauðfæða alla. Eins má ekki gleyma því að aldur fjölskyldumeðlima skiptir miklu máli, því eldra sem heimilisfólk er, því hærri er matarreikningurinn.

Sem sagt, fjöldi og aldur einstaklinga skiptir máli en það gerir einnig stærð einstaklinga og það á við um mannfólk, urriðaseiði, bleikjuseiði og laxaseiði. Framleiðslugeta vatnasvæðis skiptir því alveg jafn miklu máli fyrir lax og silung því laxaseiði þurfa jú líka að nærast eftir að þau klekjast. Víða hefur færst í aukana að stærri seiðum sé sleppt í ár heldur en áður þekktist. Ræður þar mestu að stærri (stálpaðri) seiði eru lífvænlegri heldur en þau smærri. Stærri seiði taka til sín meiri fæðu heldur þau smærri og því ætti að sleppa til muna færri einstaklingum. Sé horft framhjá seiðasleppingum og aðeins reiknað með þeim svæðum þar sem náttúruleg hrygning fer fram, þá skiptir stærð hrygningarfisks líka töluverðu máli. Þar sem áhersla hefur verið lögð á veiða og sleppa, sérstaklega þar sem öllum stærri fiski skal sleppt, þar heggur hve harðast í framleiðslugetu vatnasvæðis. Það hefur lengi verið vitað að stærri laxfiskar framleiða stærri hrogn ( Nikolsky, G.V. 1963. The ecology of fishes ) og gæði hrognanna eru meiri. Stærri hrogn verða til þess að fleiri einstaklingar komast á legg, ungviðinu fjölgar og tekur samsvarandi til sín meiri fæðu. Sem sagt, þar sem sleppingar eru óhóflegar eða hrygningu stýrt ætti að meta stofnstærð ungviðis og bera saman við framleiðslugetu svæðisins. Ef það er ekki gert, þá bera sleppingar seiða og hrygningarfisks ekki tilætlaðan árangur nema til skamms tíma, stofninn er þá einfaldlega orðinn of stór.

Þegar kemur að því að meta stofnstærð hrygningarstofns og nýliðunar er almennt stuðst við tvö mismunandi líkön. Annað líkanið er kennt við Beverton Holt, en hitt Ricker. Bæði þessi líkön gera ráð fyrir að nýliðun aukist með stækkandi hrygningarstofni þar til ákveðnu hámarki er náð. Á þessum tímapunkti skilur á milli þessara líkana. Beverton Holt reiknar með að eftir að hámarki hrygningarstofns sé náð þá fjölgi nýliðum ekkert sökum afráns. Rickers gerir aftur á móti ráð fyrir því að nýliðun dragist saman eftir að hámarki sé náð og því meira sem stofninn fari meira yfir hámarkið. Þetta líkan ( Ricker, W.E. 1975. Computation and interpretation of biological statistics of fish populations ) er oftast notað fyrir laxfiska þar sem afkoma nýliða ræðst mest af samkeppni um fæðu og búsvæði. Þess verður jafnframt að geta að nýliðun laxfiska er mjög háð umhverfisþáttum, sér í lagi þeirra laxfiska sem taka mestan sinn vöxt út í sjó. Ofgnótt nýliða í ám og vötnum er til lítils ef þeir eru ekki nægjanlega öflugir til að komast slysalaust til sjávar og taka upp breyttar fæðuvenjur. Afföll ofgnóttar eru hlutfallslega miklu meiri í sjó heldur en hjá færri sterkari einstaklingum.

En hvert var þá þetta töfralyf? Jú, þarna var verið að vísa til tvöfaldrar bólusetningar sem átti að redda allri laxagengd á Íslandi; auknar seiðasleppingar og sleppa öllum fiski yfir 80 sm. Með öðrum orðum; fjölga einstaklingum eins og mögulegt væri þannig að hrygningarstofninn stækkaði. Það skyldi þó aldrei vera að menn hafi rekist á skurðpunktinn hans Ricker‘s í einhverjum ám hér á landi fyrir einhverjum árum síðan og laxastofnar séu á niðurleið eftir rauðu línunni?

Mögulega er kominn tími til að endurskoða búsvæðamat einhverra áa eða í það minnsta lesa eldra mat aftur og setja það í samhengi við breyttar venjur og aðferðir við fiskirækt; stærri eða fleiri seiði. Fyrir nördana er síðan hægt að taka snúning á því að Ricker á ekki aðeins við stofnstærð í ferskvatni. Stofnstærð og fæðuþörf í sjó fylgir þessu líkani einnig og einmitt þar tekur laxinn út margfaldan vöxt sinn á lífsleiðinni. Kannski glugga ég síðar í samhengi fæðuframboðs í sjó og fjölda seiðasleppinga í ám, sjáum til.

Færra fólk, veiði og væntingar

Það kann að hljóma eins og ég sé einhver mannafæla, sífellt talandi um þessa dásemd að vera einn (eða í smærri hópum) uppi á hálendi í veiði. Já, eflaust er ég með snert af mannfælni, en hjá mér lýsir hún sér ekkert endilega sem óþægindi af því að vera innan um fólk, miklu frekar sem upplifun kosta þess að vera svolítið einn úti í náttúrunni.

Það hefur oft komið hér fram að ég tel það til ótrúlegra forréttinda að vera búsettur á Íslandi þar sem fólksfjöldi er svolítið takmarkaður og þar sem ferkílómetrarnir eru jafn margir pr. haus eins og raun ber vitni. Ég hef fengið að heyra það að við kunnum ekki að meta þau forréttindi að vera ekki öxl í öxl á veiðislóð. Á hálendinu er það ekki vandamál, svona dags dagsdaglega og ef einhver kemur inn á ferkílómeterinn hjá manni, þá hefur maður úr nægum öðrum kílómetrum að velja. Svo er það nú oft þannig að rekist maður á einhvern uppi á hálendi, þá tekur sig gjarnan upp eitthvert spjall og jafnvel samflot út daginn og jafnvel inn í kvöldið þegar á náttstað er komið. Þetta gerist örugglega ekki í fjölmenninu niðri á láglend, það er eins og gríma hversdagsleikans falli þegar uppi á hálendið er komið. Aðilar sem mundu ekki einu sinni kinka kolli til hvors annars á Laugaveginum, taka tal saman, finna sameiginlega þörf til að dásama það að vera til.

Trúlega er það umhverfið, náttúran á hálendinu sem hefur þessi áhrif á fólk, það tengir upp á nýtt og þær tengingar eru miklu sterkari en þær sem myndast í erli hversdagsins. Einstaklingar hverfa inn í borgina og verða í raun ósýnilegir. Einstaklingur getur vissulega horfið á hálendinu, í óeiginlegri merkingu, en náttúran hefur einstakt lag á að draga okkur fram í dagsljósið. Hve oft hefur það ekki komið fyrir að maður fylgir tófu eða mink eftir með augunum og þá fyrst kemur maður auga á næsta veiðimann. Þó auðnin á hálendinu eigi yfirleitt sviðið, þá tekur hún fagnandi aukaleikurum úr borginni og leyfir þeim að vera þátttakendur í hápunkti sýningarinnar.

Veiðimenn miða sinn hápunkt sýningarinnar oft við fisk á land. En það er svo einkennilegt að hápunkturinn færist einhverra hluta til á skalanum yfir fjölda eða stærð fiska þegar upp á hálendið er komið. Vissulega eru þeir til sem fyllast eldmóð og telja afla í fjölda og kílóum, en oftar en ekki þá breytist þetta viðmið á hálendinu. Einn fiskur úr lítt snortnu fjallavatni verður stundum á við 10 úr öðrum vötnum og stærðin þarf ekki alltaf að verða talin í tugum punda til að vekja lotningu. Sumarið uppi á hálendinu er töluvert skemmra heldur en niðri á láglendi og það síast fljótlega inn hjá veiðimönnum að hver veiddur fiskur hefur þurft að hafa aðeins meira fyrir vextinum þar heldur en víða annars staðar.

Allt þetta spilar inn í upplifun veiðimanna af hálendisveiði og eitt besta dæmi þessa eru Veiðivötn á Landmannaafrétti. Veiðimenn taka ástfóstrið við svæðið, taka nærri sér þegar aflabrestur verður og leggjast í spádóma og spekúlasjónir um ástæður og orsakir. Sumir fyllast efasemdum um að þeir staðfesti dagana sína í Vötnunum næsta sumar, en þegar kemur að eindaga, þá greiða menn sína daga og fyllast vonum þess að næsta sumar verði einfaldlega sumarið þegar allt gerist. Annað slagið gengur það eftir og enginn kannast lengur við að hafa haft efasemdir. Svona er aðdráttarafl hálendisins og það ætti enginn að efast um mátt þess og megin. Hálendið sleppir ekki svo glatt þeim sem það hefur náð tangarhaldi á.

Endurbirting

Það er hverjum manni holt að þekkja sín takmörk. Ég á mér mörg takmörk og meðal þeirra er fluga sem heitir Rektor. Lengi vel var takmarkið að hnýta þessa flugu þannig að ég væri sáttur við útkomuna. Ég horfði endalaust á höfundinn hnýta hana og þóttist alltaf vera að ná henni, en þegar upp var staðið var ég aldrei nægjanlega sáttur við útkomuna.

Það eru einhver ár síðan ég setti uppskriftina að Rektor hér inn á síðuna með mynd og myndabroti af höfundi hennar, Kolbeini Grímssyni hnýta hana. Sjálfum fannst mér það alltaf ljóður á þessari færslu minni að myndin af flugunni var afleit, þannig að úr varð að ég leitaði til mér mikið færari hnýtara, Stefáns Bjarna Hjaltested og bað hann hnýta Rektor sem ég mætti nota sem módel í myndatöku. Mér fannst það liggja beinast við að fá Stefán til að hnýta þessa flugu, lærisvein og veiðifélaga Kolbeins Grímssonar.

Rektor Kolbeins Grímssonar – hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Nú hef ég uppfært þessa færslu mína með myndum af handbragði Stefáns Bjarna og þykir mér við hæfi að geta þessa í dag, fyrsta dags Febrúarflugna 2021. Kolbeinn Grímsson hefði nefnilega orðið 100 ára á þessu ári, fæddur 10. desember 1921 á Austurbakka við Brunnstíg í Reykjavík. Kolbeinn lést í ársbyrjun 2006, en úr starfi mínu innan Stangaveiðifélagsins Ármanna, þá mætti telja að Kolbeinn væri enn í fullu fjöri, svo oft ber hann á góma þar.

Hólmfríður Kolbeins Grímssonar – hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Þennan mánuð ætla ég að vanda að hnýta þær flugur sem Kolbeinn er einna þekktastur fyrir, meira að segja Rektor því ég veit að urriðinn er ekki nándar nærri eins kræsinn á útlit flugna eins og ég.

Fulltrúar framleiðenda

Flestir veiðimenn eiga sér einhverja uppáhalds græju, flugu eða fatnað. Einn sem ég þekki fer ekki út að veiða öðruvísi en hann sé búinn að spegla sig í bak og fyrir, look‘ið verður að vera í lagi. Ég tek það sérstaklega fram að umræddur veiðimaður er karlmaður, bara til að koma í veg fyrir einhvern leiðinda misskilning. Mig grunar að þessi veiðimaður sé alltaf klæddur í sama vörumerkið, bæði að ofan og neðan, jafnvel innanundir líka. Hann er eiginlega gangandi auglýsing, snyrtilegur og flottur til fara. Annar sem ég þekki er ekki bara trúr ákveðinni stangartegund, hann beinlínis elskar þær allar og er sérstaklega duglegur að mæla með þeim. Á ég eitthvað að nefna þá sem ég þekki og hafa tekið ástfóstri við ákveðið taumaefni eða línu? Ég held að það sé óþarfi, þið þekkið væntanlega einhvern svona veiðimann.

Þessir veiðimenn eru góðir fulltrúar framleiðenda og ég viðurkenni það fúslega að ég legg við hlustir þegar þeir tjá sig og það kemur oft fyrir að ég fer eftir því sem þeir segja. Mér vitandi njóta þeir sem ég hef hér í huga ekki neitt betri kjara hjá verslunum heldur en Pétur eða Páll utan af götunni og þetta ræður töluverðu um það að þegar þeir opna munninn, þá legg ég við hlustir. Ég þekki þessa aðila, þeir veiða af ástríðu fyrir veiðinni sjálfri, eru góðir félagar félaga sinna og þekkja vel til á ýmsum veiðistöðum, hoknir af reynslu.

Nú er ég ekki að gefa í skyn að þeir veiðimenn sem leynt og ljóst eru styrktir til dáða af ákveðnum vörumerkjum eða verslunum séu ekki góðir félagar félaga sinna eða eitthvað slakari veiðimenn. En, því miður tek ég ekki alveg eins mikið mark á svörum þeirra þegar spurt er; Hvaða stöng á ég að fá mér? og svarið er einfaldlega það sama og stendur með myllumerki (#) undir profile myndinni þeirra á Instagram eða Facebook. Svona er ég nú einkennilegur og fer eiginlega ekkert batnandi með aldrinum. Eflaust hef ég farið á mis við eða ekki lagt trúnað á margar góðar ráðleggingar vegna þess að frábær álitsgjafi var á mála hjá einhverju Co. Ltd. eða Inc. Vegna þess að ég trúi því í einlægni að margir álitsgjafar séu vel meinandi og viti í raun sínu viti, þá langar mig til að segja að það sé miður að efasemdir um gildi áhrifavalda hafi verið að færast í aukast síðustu misserin. En því miður þá verða svörtu sauðirnir í hópinum oft til þess að stimpla fjöldann.

Þessar hugleiðingar mínar eiga sér raunar nokkuð langan aðdraganda, ég varð nefnilega fyrir áhrifum af grein sem Ryan Hudson, eigandi Wyoming Fishing Company skrifaði árið 2018 og hefur dregið nokkurn dilk á eftir sér. Það tilfelli sem hann vísaði til var álitshnekkir, ef ekki skellur fyrir tímaritið American Angler og vakti marga til umhugsunar um val styrktaraðila á þeim áhrifavöldum sem þeir hafa valið sér til samstarfs. Eitthvað var líka ýjað að ábyrgð veiðimanna að standa vörð um heilindi sinna félaga. Ég get nú ekki sagt að ég hafi tekið þetta mjög til mín, hef hingað til talið að fávitarnir á netinu (afsakið orðbragðið) dæmi sig sjálfir og ekki endilega þörf á að ég setjist í eitthvert dómarasæti yfir þeim. En, kannski á maður samt að hafa orð á því þegar sami fiskurinn kemur fyrir beint af bakkanum í tvær vikur í röð á samfélagsmiðlum eða tanngarðar veiðimanns læsast um handfangið á taumalausri veiðistönginni sem fangaði trophy fiskinn? Ef ég mætti hafa áhrif á einhvern lesanda, þá mæli ég með að smella á nafn Ryan Hudson og lesa greinina sem nærri setti American Angler á hausinn.

Draumalíf

Á þessum árstíma lifa margir veiðimenn einhvers konar draumalífi, láta sig dreyma um veiðina í báðar áttir á dagatalinu. Mörgum verður hugsað til veiðinnar síðasta sumar, öðrum verður hugsað til næsta sumars og setja sér háleit markmið. Þá sem detta niður í hnýtingar og setja í einhverja nýja flugu, dreymir líka næsta sumar, suma ósjálfrátt en aðra meðvitað því nú skal hnýta fluguna sem verður game changer næsta sumars. Svo eru þeir til sem dreymir draumalífið, ég er þar á meðal. Draumalífið mitt er samt beiskju og öfund blandið.

Tærnar við íslenskt fjallavatn – Samsett mynd

Á sumrin set ég gjarnan tærnar upp í loft við fjallavatn á Íslandi, nýt þess að heyra í engu nema náttúrunni í góðra vina hópi, baða flugur og nýt þess einfaldlega að vera til. Þegar tekur að haustar á Íslandi og veiðin fer að dala, þá fæ ég hin og þessi skilaboð að sunnan, veiðitímabilið er að hefjast á Nýja Sjálandi. Þá fer mig að dreyma tærnar mínar upp í loft á allt öðrum stað.

Tærnar við nýsjálenskt fjallavatn – Samsett mynd

Þó það sé yfirleitt alltaf í nógu að snúast hérna heima á Íslandi yfir vetrarmánuðina, þá geta þessir mánuðir stundum verið ótrúlega lengi að líða. Það styttir vitaskuld biðina þegar maður fær skilaboð frá nýsjálenskum veiðimönnum sem eru að njóta sumarsins þarna hinumegin á kúlunni okkar. Ég þori alveg að viðurkenna að stundum grípur samt um sig smá öfund eða afbrýðisemi innra með mér þegar menn státa sig af hinum eða þessum veiðitúr á meðan ég sit hérna heima og veturinn hamast á litlu veiðibakteríuna mína.

Haustið og það sem af er vetrar hefur verið mörgum veiðimanninum erfitt vegna þessarar skollans veiru sem gengur hér yfir. Sumarið varð heldur endasleppt hjá þeim sem ekki treystu sér í fjölmennari veiðihús s.l. haust og ekki bætti úr skák þegar veiruskollinn sótti í sig veðrið og setti vetrarstarf og samkomur veiðimanna úr skorðum. Auðvitað ber maður þá von í brjósti að þessi óáran gangi yfir og haldist í lægð þannig að maður getir farið að hitta mann og annan, þó ekki væri nema til þess að komast aðeins í samband í gegnum eitthvað annað en mynd- eða hljóðsamskipti í gegnum tölvuna. Þangað til verður maður bara að láta sig dreyma draumalandið, annað hvort þetta hérna eða hinu megin á hnettinum.