Í boltanum er víst talað um að lið sé í villuvandræðum þegar einhver leikmaður hefur fengið of margar villur á sig og það liggur í loftinu að hann verði rekinn af velli við þá næstu. Meira veit ég ekkert um þessi vandræði, ég greip bara þessa fyrirsögn eftir að ég var búinn að skrifa þessa grein og hafði bara ekki hugmynd um það hver fyrirsögnin ætti að vera.
Án þess að fara nákvæmlega út í þau hugrenningartengsl sem urðu til þess að ég fór að bera stangveiði saman við boltaíþróttir, þá varð mér hugsað til þess um daginn að það vantar kannski dómara í stangveiðina. Nú kann einhver að hugsa með sér; Já, einmitt. Eins og það þurfi nú að koma með fleiri boð og bönn inn í stangveiðina, gat nú verið. Nei, það þarf ekkert að setja boð og bönn, flestir veiðimenn hafa sett sér sínar eigin siðareglur í veiðinni, umgangast aðra veiðimenn af virðingu og tillitssemi, veiða einungis þar sem þeir hafa heimild til að veiða og þar fram eftir götunum. En svo er misjafnt hvað hverjum finnst vera viðeigandi, ekki þarf öllum að finnast hið sama og stundum getur tökuþrá slegið bestu veiðimenn út af laginu þannig að þeir sýna á sér óæskilegar hliðar. Þá væri nú gott að hafa dómara … nei, annars ég er hættur við. Það eru eflaust fleiri dómbærir veiðimenn til heldur þeir sem eru haldnir dómgreindarskorti. Við þurfum ekkert fleiri dómara, þeim sem finnst á sér brotið þurfa bara að seilast ofan í eigin vasann og taka upp gula spjaldið og benda viðkomandi á að þarna hafi hann tekið feilspor.
Væntanlega eru til þeir einstaklingar sem koma til með að taka gula spjaldinu óstinnt upp, en þeir eru þá bara með allt önnur viðmið en brotaþolinn eða hreint og beint frekir, óalandi og óferjandi að eðlisfari. Þeim aðilum finnst kannski ekkert sjálfsagðara heldur en fylla upp í bilið sem veiðimaður hefur skilið eftir þegar hann vék sér afsíðis til að losa fluguna úr nýveiddum fiski eða setjast niður til að skipta um taum eða flugu. Ég held að flestum þætti þetta tilefni fyrir gula spjaldið; Sæll félagi, ég er nú ekki hættur að veiða, ertu til í að færa þig? Auðvitað getur maður átt von á að fá andsvar, það er réttur hvers manns, en ef andsvarið er t.d. Hva, átt þú þennan veiðistað, er þetta einkaland, þá veit maður í það minnsta að einhverjum hefur gengið illa þann daginn. Hvernig menn spila út sínum trompum gegn slíkum undirtektum er auðvitað misjafnt, ég mundi ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana, án þess þó að efna til handalögmála. Vinsamleg samskipti á veiðislóð verða að mínu mati seint ofnotuð.
Svo getur handhafi gula spjaldsins vitaskuld ‚gert sig sekann‘ um að troða einhverjum um tær, jafnvel að einhverjum fjarstöddum. Þær er skondnar sögurnar sem maður hefur heyrt af veiðistað sem einhverjum lýst ágætlega á, ekki kjaftur í augsýn og veiðimaður ákveður því að leggja agn fyrir fisk. Skömmu síðar mætir lénsherra héraðsins á bakkann, blóðrauður í framan, augun skjóta gneistum og er með þaulæfða sögu um að hann hafi nú fundið þennan stað fyrst fyrir 25 – 50 árum síðan, alltaf veitt þarna og hnykkir út með spurningunni hvort viðkomandi hafi hugsað sér að vera lengi eða hvort hann sé ekki bara að fara. Mitt svar væri einfaldlega að biðja um símanúmer lénsherranns, ég skuli láta hann vita þegar ég hætti. Ef það dugar ekki, þá mundi ég grípa til gula spjaldsins, festa mér söguna í minni og geta gripið til hennar síðar í góðra vina hópi.

Enn skemmtilegri, eða hitt þó heldur, eru þeir sem skilja eftir sönnunargögn fyrir veru sinni á veiðislóð. Þessir aðilar eiga ekkert sameiginlegt með prökkurunum sem tóku álitlega veiðistaði frá uppi í Veiðivötnum um árið, enda gerðu flestir sér grein fyrir að þarna var um hreint spaug að ræða. Nei, þeim sem ég vísa til hefur reyndar fækkað verulega hin síðari ár, en sumir kvitta þó enn fyrir veru sinni í hina stóru gestabók náttúrunnar með því að skilja einhvern óþarfa eftir sig. Sumir ganga svo langt að tryggja að undirskrift þeirra taki ár hundruði að hverfa, skilja eftir sig plastflöskur, umbúðir og girnisspotta þannig að það sé nú alveg öruggt að viðvera þeir gleymist ekki. Það er til alveg ótrúlega einföld lausn á þessu, vertu með margnota poka í bílnum og taktu það með þér að sem þú barst á veiðislóð. Pokinn má þess vegna vera gulur, þú getur þá notað hann sem gula spjaldið á næsta mann ef þér sýnist svo.