Flýtileiðir

Að sleppa sér

Sá merki áfangi náðist nýverið að öllum varphænum landsins var sleppt lausum og umsvifalaust urðu þær jafn hamingjusamar og aðrar varphænur í Evrópu. Núna spígspora þær um í mestu makindum og gogga í fóðurkorn þegar þeim hentar á milli þess að þær verpa fullu húsi matar. Á sama tíma situr meirihluti okkar áfram í búrum sínum, gleðst fyrir þeirra hönd, en má ekkert vera að því að líta í spegil og sjá næsta markhóp í baráttunni fyrir lausagöngu.

Það er af sem áður var að meirihluti Íslendinga séu bændur til sjávar eða sveita og í nánu sambandi við náttúruna. Í dag búum við flest á mölinni, lifum í manngerðu umhverfi og sjáum náttúruna aðeins í fjarska út um gluggann heima hjá okkur eða í vinnunni. Það er reyndar alls óvíst að okkur gefist tími til að virða náttúruna fyrir okkur, slíkur er hraðinn orðinn í samfélaginu. Allt gengur á klukkunni og það sem áður tók eina klukkustund verður að klárast á 40 mínútum þannig að krafan um hagræðingu og framleiðniaukningu náist. Stressið er leynt og ljóst að sjúga úr okkur lífsorkuna og orðið kulnun hefur fest sig rækilega í sessi frá því að það var útnefnt orð ársins 2018 af hlustendum og áhorfendum RÚV.

Hvernig væri nú að við slepptum okkur sjálfum lausum? Að vísu má gera ráð fyrir því að einhver okkar þurfi smá aðlögunartíma í lausagöngu þannig að við förum okkur ekki að voða. Mannfólkinu hættir nefnilega til að taka of stórt upp í sig, vera í sífelldu áramótaátaki, ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og ætla sér að sigra heiminn í fyrstu atrennu. Ég mæli með litlum skrefum, jafnvel hænuskrefum til að byrja með, kanna hvernig landið liggur og hvar óhætt er að stíga niður fæti áður en lagt er af stað í langleið landshorna á milli. Ef við hlustum á sjálf okkur, tökum varfærin fyrstu skref, rétt á meðan við fótum okkur, gætum við áður en varir verið farin að hoppa og skoppa um í frelsinu eins og lömb að vori, einfaldlega farin að njóta þess að vera til.

Sjálfur hef ég áratugum saman stundað lausagöngu í náttúrunni þar sem ég næ að hlaða batteríin með því að hugsa ekkert, aðeins njóta þess sem er og náttúran bíður upp á. Líkt og margir aðrir sækist ég í samneyti við eitt mikilvægasta efni jarðar, vatnið. Hvort sem það liggur kyrrt og afslappað fyrir fótum mér eða leikur lausum hala og hjalar við steina á leið sinni, nýt ég þess að vera í nánd við það og leyfi því að skola stressinu burt á meðan ég legg agnið mitt fyrir lónbúann. Það eru engin ný sannindi að stangveiði hafi góð áhrif á sálartetrið og líkamann. Einna fyrstur til að lýsa heilandi áhrifum hins bláa rýmis (e: Blue Mind)1 var bandaríski læknirinn J. A. Henshall árið 1881 með orðunum; Fluguveiðimenn eru yfirleitt þenkjandi samfélagsþegnar. Þeir hafa fundist á bökkum niðandi lækja, svolgrandi í sig endurnærandi náttúruna sem færir lerkuðum huga þeirra og útjöskuðum taugum fró og hvíld þegar þeir handleika þjála veiðistöngina, ósýnilegan tauminn og fagurskreytta fluguna.2Nær okkur í tíma hafa ítarlegar rannsóknir beggja vegna Atlantsála sýnt fram á kosti stangveiði og nándar við vatn sem meðferð við áfallastreituröskun3 og almennt betri andlega líðan,4 svo ekki sé minnst á endurhæfingu kvenna sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini.5 Að standa á vatnsbakkanum með stöng í hönd og gefa sjálfum sér og flugunni lausan tauminn er áhrifarík leið til að losa um streitu, stunda íhugun og rækta sjálfsvitund sína. Ef þú hefur hænuskrefin í huga og tekst á við stöku áskoranir, eina og eina í einu, er eins víst að stangveiðin verði þér samhverfa hugleiðslu og opni þannig eyru þín sem fara þá að nema það sem náttúran hefur að segja með þögninni einni saman.


1 Blue Mind: Why being in, near or on water is good for your health. (2024). Plymouth Marjon University.

2 Henshall, J. A. (1881). Book of the Black Bass. 388. R. Clarke & Company. (lausleg þýðing höfundar)

3 Bennett, Jessie o.fl. (2014). Veterans’ perceptions of benefits and important program components of a therapeutic fly-fishing program. Therapeutic recreation journal. 28. 169-187.

4 Wilson, Jason J. o.fl. (2023). Mental health and recreational angling in UK adult males: A cross-sectional study. Epidemiologia, 4(3), 298.

5 Kastað til bata – Brjóstaheill (e: Casting for Recovery).

Eitt svar við “Að sleppa sér”

  1. Ási Bjarna Avatar
    Ási Bjarna

    Flottur pistill, tengi við þetta

    Líkar við

Senda ábendingu

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com