FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Það má skipta um skoðun

    24.janúar 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Eitt af undrum fluguveiðinnar, sem margir að vísu gleyma, er að flugulínan ferðast sömu slóð og toppur stangarinnar. Þetta getur vissulega orðið til vandræða, eins og til dæmis þegar maður ‘óvart’ sveigir stangartoppinn í síðasta framkastinu, línan skýst fram en tekur allt í einu upp á því að beygja af leið og lenda á allt öðrum stað en maður ætlaði henni.

    Til að halda umræðunni á jákvæðu nótunum, þá er rétt að nefna hér stóra kost þessarar hegðunar. Segjum sem svo að við séum búin að leggja línuna niður, snúum nefinu vitaskuld í átt að skurðpunkti línunnar við vatnið og erum byrjuð að draga inn, þegar …. við verðum vör við að fiskurinn er að gúffa í sig æti hægra megin við okkur, vel innan kastfæris. Hvað er til ráða? Draga inn með hraði, lyfta línunni upp úr vatninu, snúa okkur í 90° og leggja af stað í ótilgreindan fjölda falskasta til að koma flugunni niður fyrir framan fiskinn? Vissulega hægt, en það er líka til auðveldari leið sem nýtir sér tregðu vatnsins og fylgni línunnar við feril stangartopps.

    Leyfðu línunni að liggja í vatninu, haltu stangartoppinum alveg niðri við vatnsborðið og teiknaðu 90° (+/-) horn með með auknum hraða þar til toppurinn vísar í þá átt sem þú vilt kasta. Án þess að stoppa, lyftu stönginni upp með sama hætti og gert er í veltikasti og kastaðu beint út. Vatnið hjálpar þér að hlaða stöngina og því er engin þörf á falskasti.

    Ef rétt er gert, þá mun línan fylgja boganum sem þú teiknaðir með stangartoppinum, lyftast upp úr vatninu og fara beint fram á nýja staðsetningu. Auðvitað er þetta bara veltikast, eini munurinn er upphafið þegar þú teiknaðir þennan huggulegan boga á vatnið sem línan fylgdi síðan.

  • Er klukkan þín rétt?

    17.janúar 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég er í veiði þá gleymi ég reyndar oftast hvað tímanum líður og mér er alveg sama. Stundum ranka ég við mér þegar innbyggð klukka mín er kominn að þolmörkum og garnagaulið er orðið svo hátt að allur fiskur fælist, en stundum finnst mér ég vera búinn að vera að svo tímunum skiptir sem var svo bara korter. Það síðara á helst við þegar ekkert er að gerast eða allt gengur á afturfótunum hjá mér.

    Einu sinni var sagt við mig að ég ætti aðeins að kasta flugu á milli kl.10 og 14  Svo var því viðmiði breytt í að kasta aðeins á milli kl.11 og 13. Hverjum datt þetta í hug veit ég ekki, en svo getur líka verið að einhver hafi horft á mig og hugsað með sér; Fyrst hann getur ekki stoppað kl.10 og kl.14, þá segi ég honum bara að stoppa kl.11 og 13.

    En, vitið þið hvað? Ég er bara oft að veiða á allt öðru tímabili heldur en þessar staðsetningar á kastklukkunni segja til um og það er hreint ekkert að stoppunum mínum, hvorki í fram- eða bakkastinu. Hvernig í ósköpunum má það vera að köstin virki þrátt fyrir að ég sé með svona ranga kastklukku? Svarið við þessari spurningu getur verið margþætt. Heimilisfastur vinur okkar hér á Íslandi, vindurinn getur t.d. haft töluvert um það að segja að ég verð að stoppa 11:15 og 12:45 ef ég þarf að búa til sérstaklega þröngan bug á línuna til að koma henni fram hjá eða í gegnum vindinn. Að sama skapi getur langt kast beinlínis kallað á að stoppa 10:45 (eða 10:30) og 13:15 því þá er ég með meiri línu á lofti og veitir ekkert af þessu tíma á milli stoppa. Neibb, kastklukkan er hreint ekki heilög á milli kl.11 og 13.

  • Snýr hún upp á sig?

    10.janúar 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Mér hefur stundum fundist eins og flugulínur hafi sjálfstæðan vilja. Það er jú gott að leyfa stöng og línu að njóta sín, vinna saman og vera ekkert að ofgera þessu viðkvæma ástarsambandi handar og tvíeykisins, en stundum er hegðun línunnar eitthvað sem mér finnst vera óásættanlegt. Eitt af því sem ég leyfi mér að láta fara í taugarnar á mér, er þegar hún snýr upp á sig þegar ég sleppi henni í framkastinu.

    Eftir nokkur köst, falsköst eða hrein og klár köst, þá er eins og hún snúi sig upp úr vatninu við fætur mér, velti sér út í gegnum neðstu lykkju á stönginni og jafnvel alla leið út um topplykkjuna. Nú er ég ekki að tala um eitthvað krulluband eða sveigju í framlagningu línunnar, öllu heldur einhvern stífleiki í línunni sem fær hana til að fara út úr topplykkjunni í boga eða á ská m.v. kaststefnu. Þetta er ekkert bundið við það að ég standi úti í vatni, þetta kemur alveg eins fyrir þegar ég stend með báða fætur á þurru landi, þannig að vatnið er ekki vandamálið.

    Við getum hugsað okkur línuna eins og listflugvél sem flýgur í beinni línu en tekur svo hliðarveltu, eina eða fleiri. Nákvæmlega þetta getur línan gert ef hún hefur undið upp á sig, sem er reyndar eðlilegur fylgifiskur fluguveiðinnar. Til að ráð bót á þessu er einfaldast að sleppa línunni alveg þegar hún rennur fram í neðstu lykkju eða leyfa henni að leika lausri á milli þumals og vísifingurs og renna þar í gegn í stað þess að halda við hana á milli tveggja fingra. Smávægilegur núningur fingra við línuna þegar veiðimaður lengir í eða leyfir línunni að fljóta fram úr topplykkjunni getur orðið til þess að línan sveigi aðeins út frá beinni línu. Þetta er aðeins smávægilegur annmarki sem auðvelt er að forðast með því að halda minna eða ekkert við hana þegar hún rennur inn í neðstu lykkju.

  • Fastur á línunni

    29.desember 2022
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það er farið að fjara undan því að yngra fólk þekki hugtök eins og að vera fastur á línunni, eiga langlínusamtal eða leggja tólið á. Allt eru þetta hugtök sem tengjast GSMS (gömlum síma með snúru) sem er nánast horfinn af sjónarsviðinu, nú eru allir þráðlausir og geta því ekki verið fastir á línunni eða límdir við tólið, bara fastir við skjáinn.

    Svo er það þetta með langlínuna. Langlína var símtal sem var ekki beint yfir í næsta hús, heldur landshluta á milli og kostaði aðeins meira en innanbæjarsímtal og því ekki sjálfsagt að leyfa hverjum sem er að eiga slík símtöl á sinn kostnað. Kostnaður þessara langlínusímtala var meiri vegna þess einfaldleg að það fór meira rafmagn í að hringja landshluta á milli, það var sem sagt orkufrekara heldur en innanbæjarsímtal. Ekki ósvipað því að veiða stutt eða þenja kastið eitthvað langt út í buskann. Stutt kast útheimtir minni orku heldur en langt, hjá flestum. Góður kastari eða ætti ég öllu heldur að segja betri kastari sem kann skil á helstu reglum flugukastsins og hefur náð að tileinka sér þær, þarf hreint ekki að leggja neitt mikið meiri orku í kastið ef það á að fara eitthvað lengra. Það eitt í sjálfu sér að spara orkuna og leggja meiri áherslu á tæknina er göfugt markmið hvers kastara og getur skilað sér í ómældri lengdaraukningu kasta. Smáatriðin eins og að passa upp á slaka línunnar, tímasetningu kastsins og jafna og mjúka hröðun stangarinnar geta skipt miklu meira máli heldur en aukin orkunotkun. Nái menn að slípa þessa þrjá þætti saman og máta þá reglulega við stöngina sína, þá er alveg eins líklegt að þeir nái langlínusamtali við fiskinn með sama orkukostnaði.

  • Gamalt tól

    22.nóvember 2022
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Stundum er einfaldlega best að kíkja í gömlu verkfærakistuna þegar eitthvað þarf að laga. Þannig upplifði ég það í sumar sem leið þegar stangartoppurinn minn lak endalaust niður úr fremra stoppi í kastinu og úr varð einhver ókunnug lúppa sem gerði ekkert annað en hnýta vindhnúta í bakkastinu.

    Já, það er ekki öllu gefið að búa til vindhnúta í bæði fram- og bakkastinu eins og mér, en það var tímabundið vandamál sem leystist þegar ég rifjaði upp gamalt og gott ráð sem felur í sér hamar og þumal, þó ekki þannig að þumallinn færi undir hamarinn.

    Ef þú átt erfitt með að hemja þig og nær ekki ákveðnu fremra stoppi, ímyndaðu þér þá að þú sért með hamar í höndunum og standir þversum í dyragætt. Hreyfðu kasthöndina þannig að þú rekir hamarinn hvorki í dyrakarminn í fram- eða bakkastinu og þér lærist fljótleg að setja ákveðið stopp í kastið, í báðar áttir.

    Ef maður bætir svo þumalfingrinum á skaftinu við og passar að hafa hann alltaf í sjónsviðinu, þá er nokkuð öruggt að þú hreyfir kasthöndina ekki of langt aftur eða of langt fram og úr verður snyrtilega lúppa sem lætur vindhnútana alveg vera.

  • Jólatré á taumi

    14.október 2021
    Græjur, Kast, Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

    Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

    Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

    Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

    Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

1 2 3 … 18
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar