Gömul vísa, tugga, endurtekning, frasi, klisja, orðaleppur; Gott kast samanstendur af samfellu í kasti frá öftustu stöðu og fram í fremra stopp þar sem hröðun er jöfn og án kraftastæla. Svona hljómar pistill dagsins og ætti ekki að þarfnast nánari útskýringa við, og þó. Það gætu verið einhverjir fleiri þarna úti á veraldarvefnum sem eru eins og ég (ólíklegt, en mögulegt þó) sem þurfa að hafa þetta sífellt í huga.
Það er nefnilega ekki til neitt hleðslukast, færslukast eða kraftakast. Flugukast á sér upphaf og endi og er kastferill þar á milli, einn ferill. Að skipta um taktík í miðju kasti er einfaldlega ávísun á mislukkað kast, hvort sem það er skyndilegur kippur, snögg aukning afls eða skyndiákvörðun um fullkomna kyrrstöðu stangar.

Það er síðan ekki fyrr en að endurteknum kastferil lokið þegar veiðimaður ákveður að leggja fluguna fram, að það kemur einhver eftirfylgni til skjalanna; að lækka topp stangarinnar niður að vatnsborðinu. Fyrr á stöngin ekki að leka niður úr fremra stoppi og meira að segja það á sér tímasetningu, rétt eins og annað í fluguveiðinni.
Senda ábendingu