Duncan – Uni – Grinner

Án efa einhver útbreiddasti fluguhnúturinn, einfaldur og auðlærður, heldur flugu ágætlega ef hann er vættur vel og vandað til hans (5).

Það ber sjaldan við að þessi hnútur gangi undir sínu rétta nafni sem er Duncan Loop. Þannig var að Norman Duncan fann upp á þessum hnúti vestur í Bandaríkjunum í byrjun 7. áratugs síðustu aldar og sýndi nágranna sínum. Mánuði síðar var þessi hnútur kynntur með pomp og prakt sem Uni Knot og örfáum mánuðum síðan var hann kynntur til sögunnar í Evrópu sem Grinner Knot. Algengast er að hann gangi undir Uni nafninu og það er hann nefndur í myndbandinu hér að neðan.

Tiltrú og æfing

Ég geymi mína tauma í veski og taumaefnið á spólum í vösunum mínum. Þegar ég klippi af þá fara afgangarnir í þar til gerða klemmu sem ég tæmi síðan þegar heim er komið eða hún rúmar ekki fleiri afklippur og ljóta tauma. Ég nota í grunninn aðeins þrjá hnúta; einn til að tengja taumaefnið saman og sitt hvorn hnútinn fyrir fluguna, fasta- og lausa lykkju. Þetta er einfalda myndin og svona vil ég hafa hana. Auðvitað er ég opinn fyrir nýjungum og ég prófa ýmislegt nýtt; hnúta og taumefni, en einhverra hluta vegna enda ég alltaf í því gamla góða.

Smekkur manna á tauma og taumefni er og verður trúlega alltaf mjög misjafn. Takið eftir að ég segi smekkur því þegar ég hlusta á veiðimenn tala um uppáhalds taumaefnið sitt, þá heyri ég oftast eitthvað sem tengist útliti, áferð og endingu tauma með forskeytinu mér finnst. Þetta er gott, um þetta á fluguveiðin að snúast. Menn eiga að leyfa sér að taka ástfóstri við eitthvað ákveðið, þykja það gott og helst betra en allt annað.  En þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru það mögulega ekki tegund eða gerð taumefnisins sem skiptir mestu máli, heldur hvað veiðimaðurinn gerir við það áður en það fer í vatnið. Já, ég er að tala um hnútana, bæði þá sem notaðir eru til að hnýta taumefni saman og þá sem (í besta falli) festa fluguna við taumaendann.

Hnútar eru misjafnir að byggingu. Sumir vefja taumaefnið upp, taka krappar beygjur og leggjast ítrekað yfir leiðarann og er því hætt við að hita efnið þegar hnúturinn er hertur. Þegar efnið hitnar, þá teygist á því og styrkur þess minnkar, ekki gleyma að væta hnútinn vel áður en hann er hertur. Aðrir hnútar eru mun taumvænni, nuddast sjaldnar við efnið en eiga það til að rakna upp.

Ég hef laumast til að skipta hnútum í tvær fylkingar; þeir sem halda og þeir sem eiga það til að rakna upp. Síðan einbeiti ég mér að þeim sem halda, reyni mismunandi aðferðir til að hnýta þá því það getur skipt miklu máli hvernig hnúturinn er hnýttur, það hef ég séð í meðförum annarra. Sami hnútur verður þéttur og góður hjá einum, en groddalegur og ljótur hjá öðrum. Þetta snýst um æfinguna, æfinguna og æfinguna, gott veganesti inn í veturinn. Hef ég nokkuð sagt þetta áður? Já, trúlega en þetta á alltaf jafn vel við.

Taktu þér tíma

Ekki er flas til fagnaðar. Hversu oft hefur maður hugsað þetta, of seint. Sérstaklega þegar maður kemur á veiðistað, sér til fiskjar og telur sjálfum sér trú um að ef maður drífur sig ekki af stað, þá noti hann sporðinn og hverfi á brott eins og tundurskeyti. Fyrst er að setja saman stöngina, rólega. Ef maður böðlast við að setja hana saman, festa hjólið og þræða er eins víst að eitthvað fari úrskeiðis. Nú síðast í sumar lá mér svo mikið á að ég gleymdi einni lykkjunni þegar ég var að þræða og ég ætlaði aldrei að ná þokkalegu kasti fyrir vikið. Svo mikill var æsingurinn að ég tók ekki eftir þessum mistökum mínum fyrr en ég var búinn að fæla í það minnsta þrjá fiska undan línunni þar sem hún hlunkaðist fram úr efstu lykkjunni hjá mér. Þetta kostaði auðvitað brölt upp á bakkann aftur, losa fluguna og þræða stöngina upp á nýtt. Ég hefði betur tekið mér skynsamlegan tíma í upphafi. En þetta var ekki það sem ég vildi sagt hafa.

fos_fluguhnutur_live
Þolinmæðin uppmáluð

Að taka sér nægan tíma til að hnýta fluguna á tauminn getur margborgað sig. Hnútur sem hnýttur er í einhverju flasi heldur örugglega ekki eins vel og sá sem hnýttur er í rólegheitum og af nákvæmni. Taktu eftir því hvaða hnútar slitna helst hjá þér í átaksprófun. Ég er næstum viss um að það eru hnútarnir sem hnýttir eru í einhverju offorsi eða óðagoti. Svo eru rólegu hnútarnir yfirleitt miklu fallegri, silungurinn er smekkfiskur sem forðast groddagang.

Ef hnúturinn þinn lítur ekki eðlilega út eða er óþægilegur viðkomu, kipptu af og hnýttu aftur.

Laus og liðug

Föst lykkja er eitthvað sem er á dagskránni í sumar. Fyrir löngu síðan rakst ég nokkuð groddaralega yfirlýsingu um kosti fastrar lykkju umfram hefðbundna fluguhnúta en ég lagði þessa grein frá mér með aðkenningu að vanþóknun. Ef til vill var það einstrengingslegt orðfærið sem stuðaði mig þannig að ég varð hálft í hvoru afhuga því að nota fasta lykkju. Samt sem áður hefur þetta blundað aðeins í mér og ‚væntanlegt‘ sumarið verður notað til þess að sannreyna kenninguna.

Oft hefur verið rætt um þrjár megin ástæður þess að nota fasta lykkju í stað fasts fluguhnúts. Fyrst hafa menn talið að hreyfing flugunnar í vatni verði eðlilegri ef tenging hennar við tauminn er ekki pinn-stíf og leiðandi í hreyfingum hennar. Þetta á víst ekki aðeins við um straumflugur, púpur og votflugur verða mun líflegri í lykkju heldur en föstum hnúti. Í sjálfu sér ættu þessi rök að duga til að prófa fasta lykkju, en fleiri hafa verið nefnd og má þar nefna að fluga sem leikur laus á taumi á auðveldara með að snúa kúluhausnum niður og sökkva þannig hraðar heldur en sú sem taumurinn heldur aftur af. Þetta eru nú einhver rök fyrir púpuveiðina á Þingvöllum.

Að síðustu má nefna það sem ég ætla sérstaklega að láta reyna á í sumar. Fastur hnútur í flugu er sagður veikari heldur en sá sem er aðeins á taumi. Sem sagt, það hefur verið fullyrt að fluga sem hnýtt er með fastri lykkju endist lengur og slitnar síður af taum heldur en hinar. Ekki að það hafi verið sérstakt vandamál í mínum huga hingað til að tapa flugu, þá verður spennandi að athuga þetta í sumar.

En hvernig er þá best að útbúa fasta lykkju? Einn hnútur hefur oftar en ekki verið nefndur til sögunnar og það er Non slip loop sem ég setti hér inn á síðuna fyrir löngu síðan. Nú er ekkert annað en ná sér í spotta og æfa sig fyrir sumarið.

Endurhnýtingar

Traustur?

Það er alveg sama hve góðir við erum í að hnýta fluguna á tauminn, hnútarnir geta alltaf gefið sig. Við það að hnýta einþátta taumaenda við fluguna teygjum við alltaf á efninu að meira eða minna leiti og það leitast við að jafna sig, smokrar sér jafnvel smátt og smátt út úr hnútinum, reynir að rétta úr sér eftir að við höfum sveigt það og beygt inn í hann. Auðvitað er þetta bara agnarlítil hreyfing en nóg samt til þess að veikja hnútinn.

Ekki gleyma að endurhnýta fluguna annað slagið á meðan þú veiðir, undantekningarlaust eftir að þú hefur lagt stöngina frá þér í hléi, hvað þá yfir nótt. Það getur verið svo grátlegt að týna uppáhalds flugunni, hvað þá missa fisk bara vegna þess að maður nennti ekki að taka upp hnútinn. Þetta á einnig við um tengsl taums og taumaefnis.

Línulykkja

Ofnar lykkjur

Þeim fer fækkandi, en eru samt ennþá til sem hnýta tauminn sinn á línuna með Nail knot. Flestir hafa frelsast og nota fasta lykkju á línunni og tengja þannig í fasta lykkju á taum. En úr hverju vilja menn hafa línulykkjuna? Margar flugulínur koma með soðnum lykkjum sem er allra góðra gjald verðar svo lengi sem þær eru heilsteyptar og úr aðeins stífara efni heldur en línan sjálf. Ég hef sjálfur átt línu sem var einfaldlega lykkjuð með því að fremsti hluti hennar hafði verið lagður aftur og soðin við línuna. Fljótlega særðist kápan undan eingirninu í taumnum og byrjaði eflaust að leka þar sem opið var inn í kjarna. Ég var fljótur að klippa framan af og setja tilbúna ofna lykkju á línuna.

Ef vandað er til ásetningar ofinnar lykkju getur hún dugað ansi lengi en það er alltaf þess vert að gæta vel að þrifum hennar og hvort hún sé byrjuð að rakna upp. Þessar lykkjur eiga það til að safna í sig óhreinindum sem verða til þess að þær stífna, jafnvel í óheppilega átt. Það er fátt bagalegra heldur en veiða með lykkju sem er alltaf thumbs up og leyfir tauminum ekki að leggjast beint fram. Eins eiga þessar lykkjur það til að særast og rakna upp og því um að gera að fylgjast vel með þeim og skipta um ef þær eru orðnar tæpar.

Non slip loop – Skýringarmynd

Þegar kemur að því að leyfa flugunni að njóta sín í vatninu, hreyfast óhindrað og dingla sér eggjandi fyrir fiskinum getur oft verið gott að hnýta fasta lykkju á tauminn og leyfa flugunni að leika lausri í henni. Þó skiptar skoðanir séu á því hvort þessi aðferð við að ‘festa’ fluguna sé jafn áhrifarík fyrir allar gerðir flugna get ég ekki varist þeirri hugsun að smágerðar púpur hljóti að vera eðlilegri í slíkri lykkju heldur en beinstíf framlenging af taum í vatni.

UNI – Skýringarmynd

UNI hnúturinn er nánast eins og Hangman’s Knot, nema að hann er vafinn réttsælis í lykkjuna í stað rangsælis.

Fyrirtaks hnútur til að festa flugu á taumenda ef hann er rétt gerður og vættur vel áður en hann er hertur.

Það að væta hnút vel fyrir herslu kemur í veg fyrir tvennt:

a. Traumurinn hitnar síður, þ.e. hann veikist ekki þegar hann rennur í gegnum hnútinn.

b. Taumurinn krullast ekki eins og oft vill gerast þegar hann rennur í gegnum hnút.

Hangman’s Knot – Skýringarmynd

Hangman’s Knot er annar uppáhalds hnúturinn minn þegar kemur að því að festa flugu á taum. Einfaldur, öruggur og auðvelt að eiga við, jafnvel þegar fingurnir eru orðnir loppnir og rökkrið farið að síga að.

Það er með þennan hnút, eins og flesta aðra, það borgar sig ekkert að flana að honum. Haltu góðum rythma, passaðu að vafningarnir krossist ekki, vættu hann vel og hertu með jöfnu átaki, þá klikkar hann ekki.

Ná-frændi þessa hnúts er UNI hnúturinn, hinn uppáhalds.