Hangman’s Knot – Skýringarmynd

Hangman’s Knot er annar uppáhalds hnúturinn minn þegar kemur að því að festa flugu á taum. Einfaldur, öruggur og auðvelt að eiga við, jafnvel þegar fingurnir eru orðnir loppnir og rökkrið farið að síga að.

Það er með þennan hnút, eins og flesta aðra, það borgar sig ekkert að flana að honum. Haltu góðum rythma, passaðu að vafningarnir krossist ekki, vættu hann vel og hertu með jöfnu átaki, þá klikkar hann ekki.

Ná-frændi þessa hnúts er UNI hnúturinn, hinn uppáhalds.

Surgeon’s Knot – Skýringarmynd

Góður taumahnútur til þess að binda saman taum og taumaefni. Línurnar eru einfaldlega lagðar saman, hlið við hlið og tvöfaldur rembihnútur bundinn á þær. Hnútinn má einnig nota til þess að útbúa dropper um leið og línurnar eru settar saman með því að hafa taumaefnið vel ríflegt.

Blood knot – Skýringarmynd

Blóðhnúturinn er ágætis hnútur til að tengja saman taum og taumefni. Endarnir eru lagðir saman og vafðir uppá í gagnstæðar áttir.  Þá er endunum stungið í gegnum lykkjuna sem myndast á samskeytunum, einnig í gagnstæðar áttir. Hnúturinn vættur vel og dreginn saman.

Ef annar endinn, helst sá af taumaefninu er hafður vel langur má vel nota hann fyrir afleggjara (dropper). Við það sparast að hnýta sérstakan hnút.

Whip í höndunum – Skýringarmynd

Sjálfur nota ég ekki nein tól við að hnýta endahnútinn á flugurnar mínar. Til gamans setti ég saman fáeinar skýringarmyndir af því hvernig ég set endahnútinn í höndunum.

Það er nokkuð misjafnt hvort menn vefja alltaf réttsælis um öngulinn eða velta lykkjunni á milli vafninga. Báðar aðferðirnar mynda í raun sama hnútinn að lokum.

Smellið fyrir stærri mynd