Orvis hnúturinn er mjög góður fluguhnútur fyrir allar gerðir taumaefnis og sverleika (5).

Orvis hnúturinn er mjög góður fluguhnútur fyrir allar gerðir taumaefnis og sverleika (5).
Þessi hnútur er mjög sterkur til að útbúa fasta lykkju fyrir flugu (5) þannig að flugan leiki laus á tauminum. Þessi hnútur náði 83% í styrkleika í prófun Field & Stream á nokkrum þekktum hnútum.
Blóðhnúturinn er ágætis hnútur til að tengja saman taumaefni sem er ekki mjög frábrugðið í þvermáli (4). Þessi hnútur náði 83% í styrkleika í prófun Field & Stream á nokkrum þekktum hnútum.
Þessi hnútur ef af mörgum talinn besti hnúturinn til að festa saman línu og undirlínu (2). Ef hann er rétt gerður, heldur hann örugglega líftíma hvort heldur línu eða undirlínu.
Almennt talinn besti hnúturinn til að festa undirlínu við fluguhjól (1).
Ég geymi mína tauma í veski og taumaefnið á spólum í vösunum mínum. Þegar ég klippi af þá fara afgangarnir í þar til gerða klemmu sem ég tæmi síðan þegar heim er komið eða hún rúmar ekki fleiri afklippur og ljóta tauma. Ég nota í grunninn aðeins þrjá hnúta; einn til að tengja taumaefnið saman og sitt hvorn hnútinn fyrir fluguna, fasta- og lausa lykkju. Þetta er einfalda myndin og svona vil ég hafa hana. Auðvitað er ég opinn fyrir nýjungum og ég prófa ýmislegt nýtt; hnúta og taumefni, en einhverra hluta vegna enda ég alltaf í því gamla góða.
Smekkur manna á tauma og taumefni er og verður trúlega alltaf mjög misjafn. Takið eftir að ég segi smekkur því þegar ég hlusta á veiðimenn tala um uppáhalds taumaefnið sitt, þá heyri ég oftast eitthvað sem tengist útliti, áferð og endingu tauma með forskeytinu mér finnst. Þetta er gott, um þetta á fluguveiðin að snúast. Menn eiga að leyfa sér að taka ástfóstri við eitthvað ákveðið, þykja það gott og helst betra en allt annað. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru það mögulega ekki tegund eða gerð taumefnisins sem skiptir mestu máli, heldur hvað veiðimaðurinn gerir við það áður en það fer í vatnið. Já, ég er að tala um hnútana, bæði þá sem notaðir eru til að hnýta taumefni saman og þá sem (í besta falli) festa fluguna við taumaendann.
Hnútar eru misjafnir að byggingu. Sumir vefja taumaefnið upp, taka krappar beygjur og leggjast ítrekað yfir leiðarann og er því hætt við að hita efnið þegar hnúturinn er hertur. Þegar efnið hitnar, þá teygist á því og styrkur þess minnkar, ekki gleyma að væta hnútinn vel áður en hann er hertur. Aðrir hnútar eru mun taumvænni, nuddast sjaldnar við efnið en eiga það til að rakna upp.
Ég hef laumast til að skipta hnútum í tvær fylkingar; þeir sem halda og þeir sem eiga það til að rakna upp. Síðan einbeiti ég mér að þeim sem halda, reyni mismunandi aðferðir til að hnýta þá því það getur skipt miklu máli hvernig hnúturinn er hnýttur, það hef ég séð í meðförum annarra. Sami hnútur verður þéttur og góður hjá einum, en groddalegur og ljótur hjá öðrum. Þetta snýst um æfinguna, æfinguna og æfinguna, gott veganesti inn í veturinn. Hef ég nokkuð sagt þetta áður? Já, trúlega en þetta á alltaf jafn vel við.