Líf í vatni

Ef einhver velkist í vafa um það hvað craft fur er, þá er það einfaldlega gervihár sem upprunalega var framleitt í kraga á úlpur, alveg satt. Máttur fluguveiðinnar er aftur á móti slíkur að flest þekkjum við þetta frekar sem hráefni í flugur. Löng, fíngerð hár sem afar margir hnýtarar nota í stað náttúrulegra hára sem oft vilja vera nokkuð óþjál, beinlínis óstýrlát og haldin almennri þvermóðsku þegar maður ætlar að hnýta þau niður.

En það er ýmislegt annað sem aðskilur craft fur og náttúruleg hár heldur en meðfærileikinn. Þegar maður kaupir náttúruleg hár þá er 99,9% öruggt að hárin eru ekki öll jafn löng og það getur tekið töluverðan tíma að jafna þau þannig að úr verði jafn og fallegur vængur á flugu. Þegar það tekst á endanum, þá kemur annar munur þessara efna í ljós; þau eru heldur ekki öll jafn sver sem kemur berlega í ljós þegar hnýtt er niður á krókinn. Grönnu hárin sem kremjast undan þræðinum, jafnvel undan sverari hárum, taka upp á því að standa út í loftið. Klippa eða kippa? Svarið er alltaf klippa. Ef maður kippir í grönnu hárin, þá er eins víst að næstu hár losni þannig að vængurinn er allur í tætlum.

Hvoru tveggja er sjaldan vandamál þegar hnýtt er úr gervihárum. Þau eru öll eins í laginu, bæði hvað varðar sverleika og lengd. Þetta er að vísu sett fram með fyrirvara um ákveðna framleiðendur sem sumir hverjir hafa tekið upp á því að líkja eftir feldi dýrs og raða hárunum á gerviskinnið í raðir með smækkandi hárum yst. Hvers vegna, hef ég ekki hugmynd um og finnst það í raun álíka gáfulegt eins og framleiða gervi bacon. Ef ég þarf styttri hár, þá klippi ég einfaldlega aftan af vöndlinum.

Einmitt, þetta með að klippa gervihár minnir mig á að þau eru ekki hol eða með holrými eins og margt náttúrulegt hár og fljóta því síður. Sumum finnst það kostur, þar á meðal mér, á meðan öðrum hentar það ekki. Gervihár eru heilsteypt og yfirleitt sveigjanlegri heldur en náttúruleg hár af stórgripum. Samanburður gervihárs og t.d. kanínu eða minks er ekki sanngjarn, þar skákar náttúran alltaf gervihárum, ennþá.

Í vetur sem leið, hnýtti ég töluverðan fjölda af hefðbundnum flugum, þ.e. litasamsetningum sem þekktar eru að gefi vel á ákveðnum veiðisvæðum, lesist sem Veiðivötn. Í stað þess að þyngja flugurnar með glannalegum glyrnum frá Grohe eða ótilgreindum vafningum af tungsten þræði, þá hnýtti ég þær léttar úr craft fur á lítið eitt þyngri krók. Ég viðurkenni það fúslega að ég var undir áhrifum af öllum þessum flottu horsílaeftirlíkingum sem tröllriðið hafa netinu undanfarin ár en vildi samt ekki ganga eins langt í dúlleríinu. Það sem ég sóttist eftir var einföld útfærsla, auðhnýtt og endingargóð.

Auðvitað prófaði ég nokkrar útfærslur í vatni hér heima, en það gefur vitaskuld ekki alveg rétta mynd að máta flugu í glasi fullu af vatni. Ég beið því óþreyjufullur eftir sólríkum degi við íslaust, spegilslétt vatn. Slíkt augnablik gafst nú um daginn og ég hélt af stað með tilraunaboxið, vopnaður flot- , intermediate- og heilsökkvandi línum til að sjá með eigin augum hvort flugurnar stæðust væntingar mínar og væru nægjanlega hlutlausar í vatni til að leyfa línunni að stjórna því á hvaða dýpi þær sætu.

Niðurstaðan kom skemmtilega á óvart. Craft fur er lifandi efni í vatni, það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta. Dillandi flugurnar á flotlínu veiddu sig í gegnum vatnið á 10 – 20 sm dýpi. Hefði ég haft örlítið meiri biðlund hefður þær að öllum líkindum náð neðar. Þær sem dingluðu á endanum á intermediate línunni fóru einfaldlega þangað sem ég leyfði línunni að sökkva, rétt eins og þær á heilsökkvandi línunni. Tilraunin lofar góðu; léttari flugur, minni loftmótstaða og lifandi í vatni. Hvenær opnar í Veiðivötnum?

Ferðabakgrunnur

Fyrir einhverjum árum síðan benti ég hér á kosti þess að vera með ljósan, helst mattan bakgrunn þegar maður situr við fluguhnýtingar. Það kemur víst fyrir að hnýtingaraðstaðan sé ekki alveg eins snyrtileg og efni standa til, ýmislegt efni liggur á víð og dreif fyrir aftan þvinguna þannig að bakgrunnur flugunnar sem maður er að hnýta er oft svolítið óreiðukenndur.

Nú er það svo að margur hnýtarinn flakkar með græjurnar sínar, skreppur á hnýtingakvöld annað slagið eða grípur græjurnar með sér upp í bústað og þá er ekki gott að taka með sér of mikið af dóti.

Með því að líma smá segul á bakið á möttu pappaspjaldi, t.d. baksíðu úr minnisblokk eða sambærilegu, þá má smella þessum bakgrunni á svo til allt í grennd við þvinguna ef hún er ekki útbúinn pinna eins og mín þannig að ég læt mér nægja að vera með litla klemmu í hnýtingartöskunni. Franskur rennilás sem límdur er á pappaspjald kemur að svipuðu gagni þannig að það má tylla spjaldinu þar sem hentar.

Stórar flugur, stórir …

Hver hefur ekki heyrt Stórar flugur, stórir fiskar? Ég í það minnsta fæ að heyra þetta reglulega frá góðum vini mínum þegar hann virðist hafa misst alla trú á litlum flugum eða langar orðið í fisk, helst stóran. Svo eru þeir til sem segja þetta reglulega án sérstaks tilefnis, einfaldlega vegna þess að hér um árið hafði viðkomandi reynt við þann stóra með öllum flugum í boxinu og ekkert orðið ágengt. Það var ekki fyrr en stærsta flugan fór undir að fiskurinn brást við og tók.

Alveg burtséð frá því hvort stórar flugur veiði stóra fiska eða ekki, þá eru nokkur atriði sem eru oft fylgja þessum stóru flugum sem vert er að gefa gaum. Eitt af því er þyngd þeirra flugna sem hnýtarar setja saman og efnisvalið í flugurnar. Ég er svolítið með ákveðna tegund flugna í huga þegar ég velti þessu fyrir mér og reyni að koma í orð; flugur sem innihalda náttúrulegt hár eins og t.d. zonker flugur. Eins og nærri má geta þá er þurr zonker í þvingu ekkert sérstaklega þungur og því sér maður oftar en ekki að lokahnykkur flugunnar er ekki endahnúturinn heldur málm hjálmur sem er vel við vöxt. Hugsunin á bak við þetta er vitaskuld að koma flugunni niður í vatnið og það er vert að hafa í huga ef veiða skal straumharða á þar sem sá stóri liggur á botninum.

En það læðist stundum að manni sá grunur að þegar flugan er kominn niður í vatnið og skinnið hefur náð að blotna í gegn, þá verði flugna eitthvað aðeins þyngri en til stóð og þegar fyrsta inndrætti er lokið, þá vandast málið. Ég las það einhvers staðar (finn því miður ekki viðkomandi grein til að vísa í hana) að góður zonker sem hnýttur er úr kanínu eða minkaskinni geti auðveldlega tvöfaldað þyngd sína þegar skinnið hefur blotnað. Ef sú þyngdaraukning bætist við níðþungann skullhead sem prýðir fluguna, þá getur heildarþyngdin beinlínis orðið lífhættulegt fyrir nærstadda þegar lagt er af stað í næsta kast, sérstaklega stöngina sem á að geyma aflið sem þessi þyngd felur í sér.

Til að ráða bót á þessu er þrennt í stöðunni. Fyrir það fyrsta, þá er hægt að velja stærri (þyngri) stöng sem ræður örugglega við þessa þyngd. Í annan stað er hægt að nota gerviefni í fluguna í stað náttúrulegs hárs, gerviefni hrindir frekar frá sér vatni, en síðast en ekki síst er hægt að nota léttan hjálm úr sílikon í stað skullhead úr málmi til að ganga frá flugunni ef þú vilt endilega hafa á henni kjaft og glyrnur.

Mynd tengist færslu aðeins lauslega

Kveikjan að þessum hugleiðingum mínum er fluga sem ég fann á bökkum veiðivatns í sumar sem leið. Ég hef enn ekki fundið krók í mínum fórum sem passar við þessa flugu, en reglustikan mín segir að heildarlengd hárlufsunnar sé 16 sm og þá er hausinn á flugunni ekki meðtalinn. Það hvarflaði að mér að hin óheppni veiðimaður sem týndi þessari flugu, hafi mögulega gert það viljandi, búinn að fá nóg af þyngd hennar og erfiðleikum að koma henni skammlaust út á vatnið.

Hausverkur af hnýtingum

Það flokkast undir almenna skynsemi að sitja rétt við hnýtingarnar, vera á góðum stól og sitja beinn í baki, þetta segir sig sjálft og þarf ekki að tyggja aftur og aftur, eða hvað?

Þeir heyra til undantekninga, hnýtararnir sem ég sé á vetrum sem sitja rétt. Jú, flestir þeirra sitja beinir í baki og passa upp á líkamsstöðuna, alveg upp í háls. Þá tekur annað við, því eftir smá stund sér maður þegar höfuðið fer að síga fram á við og það er ekki vegna þess að það er fullt af hugmyndum að flottum flugum.

Ef hnýtingarþvingan er ekki nægjanlega hátt staðsett fyrir framan þig, þá er ekki von á öðru en höfuðið á þér fari að halla fram á við eftir smá tíma. Það er misjafnt hvað hverjum og einum þykir heppileg hæð á þvingunni, en sjálfur er ég kominn með þvinguna undir handarkrikana í hæð og finn mikinn mun á úthaldinu og er alls ekki eins stífur í hnakkanum og áður.

Hefur þú hnýtt upp úr ruslinu?

Eftir nokkur skipti af góðum dögum við hnýtingarþvinguna er ýmislegt sem fellur til af afklippum, hálfnýttu hráefni og fleiru. Það eru mörg ár síðan ég kom mér upp ruslafötu við hnýtingarborðið og sú góða fata hefur gengið í gegnum einhverja endurnýjun (stækkun) á þeim árum sem liðið hafa síðan. Það var svo fljótlega að ég tók upp á því að hafa box á borðinu hjá mér fyrir það sem ég mögulega gæti notað síðar.

Ekki alls fyrir löngu rakst ég á einhverjar pappaöskjur undir borðinu mínu og viti menn, þetta voru þessi box sem ég hef alltaf ætlað að mögulega nota síðar. Það hljóp í mig einhver kergja og ég ákvað að hnýta upp úr þessum boxum, bætti aðeins við þráð og krók eftir því sem passaði.

Upphaflega ráðgerði ég að hnýta þekktar flugur, þ.e. einhverjar með nafni og eftir uppskrift, en fljótlega varð ljóst að ég yrði annað hvort að laumast í nýtt efni eða bregða verulega út frá uppskriftinni, þannig að ég hnýtti bara eitthvað.

Það verður að viðurkennast að þær flugur sem ég hnýtti úr þessum afgöngum voru ekkert ósvipaðar þeim sem ég er vísvitandi hnýtti úr nýju hráefni með það eitt fyrir augum að fá útrás fyrir nýjungagirnina eða sköpunargáfuna. Hver um sig verður bara að dæma hvernig tókst til hjá mér, en það leynist ýmislegt nothæft í ruslinu og kannski rétt að kíkja oftar í það.

Skemmtileg spurning

Fyrir mörgum er það að tala um hnýtingarþvingur svipað og að tala um barnið sitt eða bílinn, svo ég tali nú ekki um veiðistangir. Það er fátt betra í heiminum og sumir hverjir skilja bara alls ekki hvers vegna allir eiga ekki jafn dásamlegt barn, pottþéttan bíl eða frábæra hnýtingarþvingu eins og þeir sjálfir.

Um daginn fékk ég mjög skemmtilega spurningu frá fluguhnýtara sem var að spá í að endurnýja hnýtingarþvinguna sína. Mér skildist að hann hefði um árabil notað sömu þvinguna og verið afar sáttur, en nú langaði hann í eða þyrfti nýja þvingu og hafði augastað á eins þvingu og ég nota lang oftast. Spurninginn byrjaði á orðunum; getur þú sagt mér gallana við þvinguna þína? Mér fannst þetta frábær byrjun og sagði honum hreinskilningslega af þeim eina galla sem ég varð var við í upphafi, sem ég reyndar lagfærði með einni skinnu undir skrúfu og málið var dautt.

Hefði hann byrjað á að spyrja mig um alla kosti þvingunnar, þá hefði ég trúlega fallið í sömu gryfju og margir aðrir sem spurðir eru álits á dótinu sínu. Þess í stað naut ég þess að standa með báða fæturna á barmi gryfjunnar sem svo margir hafa fallið í sem eiga bestu og flottustu þvingu sem framleidd hefur verið og þóttist geta svarað af fullri hreinskilni.

Þvingan hans Lefty

En það hafa ekki allir verið jafn ánægðir með sínar þvingur. Einhverju sinni varð Lefty Kreh svo pirraður á lélegum kjöftum hnýtingarþvinga, að hann beinlínis sauð saman sína eigin þvingu til að geta hnýtt stærri flugur en einhverjar títlur á krók #14. Ég hef stundum sagt að það séu forréttindi að hafa greinst jákvæður af veiði- og flugubakteríunni því það er svo margt misjafnt sem er fullkomlega rétt og eiginlega ekkert rangt í þessari dellu. Veiðimenn njóta þess að þurfa ekki að vera sammála um allt milli himins og jarðar, síst af öllu það sem á við veiði og flugur. Ég vona að umsögn mín um daginn standist og eigi jafn vel við kunningja minn eins og þvingan á við mig, allt snýst þetta jú um að finna það sem manni hentar best.

Nýta, gefa, geyma?

Það er kunnara en frá því þurfi að segja að veiðimenn eru (flestir) græjufíklar. Reglan um æskilegan fjölda af hinu eða þessu er núverandi fjöldi + 1 og virðist eiga alveg glettilega vel við flesta. Nýjar græjur eru auðvitað betri, nákvæmari, öflugri og allt það sem veiðimenn telja upp sem réttlætir kaup á einhverju nýju. En þessi grein fjallar ekki um nýjungagirni veiðimanna og þá einna helst fluguhnýtara, heldur hvað hægt er að gera við gamla dótið og þá helst hnýtingarþvinguna.

Oftast er það svo að þegar hnýtarar kaupa sér nýja þvingu, þá er hún af annarri gerð, með annarri virkni eða einfaldlega úr betra hráefni heldur en sú gamla. Sú gamla fellur þá af vinsældalistanum og er aldrei tekin fram aftur. Án þess að upplýsa of mikið um fjölda þvinga sem ég á í mínum fórum, þá held ég að þær spanni ágætlega þróunarsögu hnýtara til nokkurra ára. Sú fyrsta var þvinga með kjálka með föstum halla og virkni hennar var einfaldlega sú að kjafturinn var annað hvort opinn eða lokaður. Kjálkinn er trúlega úr einhverju skriðdrekastáli frá Þýskalandi og enn þann dag í dag sér ekki á honum. Síðar kom svo ein sem var örlítið meiri um sig og ég gat (með sexkannt að vopni) breytt halla kjálkans eins og mig listi og kjaftinum gat ég snúið í 360° til að kíkja upp undir fluguna. Að vísu hoppaði flugan svolítið fyrir augunum á mér því snúningurinn var ekki það sem kallað er true rotation þ.e. eftir beinni línu, en þessa þvingu notaði ég í mjög mörg ár.

Eftir þó nokkrum tíma og einhverjum þvingum síðar eignaðist ég netta og mjög ódýra 360° true rotation þvingu sem ég nota enn þann dag í dag þegar ég bregð mér af bæ, jafnvel í veiðitúra. Með árunum hef ég gert smá breytingar á henni, skipt föstum skrúfum út fyrir bolta með vængjaró þannig að ég get auðveldlega fellt hana saman og breytt hæð og halla eftir þörfum.

Aðal tækið mitt í dag er ættað frá Ítalíu, lífstíðareign sem kostaði sitt, er ekki til sölu og verður ekki ánafnan neinum fyrr en að mér látnum og er því ekki til umfjöllunar í þessari grein.

Að staðaldri nota ég, rétt eins og flestir aðrir, aðeins eina þvingu í einu en það getur verið gott að smella upp einni eða tveimur þvingum til viðbótar, því þegar maður hnýtir nokkur eintök af sömu flugunni getur það hentað ágætlega að festa krók í 3 – 4 þvingur og forvinna hnýtingu jafn margra flugna í röð. Flugur eins og t.d. Dog Nobbler og Mýslu er ágætt að taka í bulki til undirbúnings, þ.e. að festa niður vaskakeðjuna og lakka/líma yfir. Þetta er undirbúningsvinna sem gerir ekki miklar kröfur til þvingunnar, það er nóg að hún haldi króki og það stendur yfirleitt á endum að þegar maður klárar síðasta krókinn, þá getur maður tekið þann fyrsta úr og endurtekið leikinn eða farið að hnýta fluguna til enda.

Önnur not fyrir gömlu þvinguna er einfaldlega að gefa hana einhverjum byrjanda í sportinu. Margir sem eru að byrja og vilja prófa að hnýta eigin flugur, veigra sér aðeins við því að fjárfesta í nauðsynlegum áhöldum, þ.á.m. þvingu. Vert er þó að geta þess að oft fylgir böggull skammrifi, því það vill stundum brenna við að gefnar þvingur eru orðnar svo slitnar að nýliðinn er í tómu basli með að festa krókinn í kjaftinum eða þvingan jagast öll til þegar hnýtt er. Slíkar græjur eru ekki sem best til þess fallnar að kynda undir áhuga á fluguhnýtingum og ætti bara að nota í varahluti.

Hvað sem þú gerir við gömlu þvinguna þína, komdu henni í einhver not frekar en láta hana liggja óhreyfða í einhverjum kassa.

Euro flugur

Og áfram heldur þetta Euro dæmi, en nú kveður við aðeins annan tón. Euro flugur hafa þróast tiltölulega hratt frá því Pólverjar fóru að fikra sig áfram með mjög þyngdar flugur upp úr 1980. Sjálfur hnýtti ég nokkrar pólskar flugur hérna um árið en á nútíma mælikvarða eru þær trúlega ekki nógu þungar og alls ekki nógu straumlínulagaðar til að standast Euro viðmið í dag.

Það eru nokkur lykilatriði sem vert er að hafa í huga ef hnýta skal flugur sem nota á við Euro Nymphing. Fyrir það fyrsta ættu þær að vera afskaplega mjóslegnar, nánast renglur þannig að straumur hafi sem minnst áhrif á þær og auðvelda þeim að sökkva hratt, hvoru tveggja er jú lykillinn að Euro Nymphing. Til að auka enn á hæfni flugunnar til að sökkva eru þær gjarnan hnýttar á þunga króka og til að toppa það nota menn tungsten kúlur, gjarnan í yfirstærð. Til að sporna við því að þessi grey festist í botninum, þá eru þær gjarnan hnýttar á s.k. skrykkkróka (e: jig) þannig að þær snúist við í vatninu og krækjast því síður í botni.

Hvaða krók

Það er ýmislegt sem lærist með tímanum en það getur vafist töluvert fyrir byrjandanum í fluguhnýtingum í hvaða flugur hvaða krókar eru ætlaðir, þó ekki væri nema svona rétt um það bil. Ef maður dregur nú þessa eldgömlu sögu af mismun lengdar og sverleika vírs með öllum hliðarskrefum sem einhverjum datt í hug að taka þegar krókar voru hannaðir, þá má með þokkalegri nálgun staðsetja ákveðnar tegundir flugna á skalanum LEGGUR vs. VÍR:

Til glöggvunar á tegundum króka, þá eru númerin á myndinni skv. töflu frá Tiemco (TMC) en vert er að taka það fram að þessi númer eru alls ekki tæmandi yfir þeirra gerðir.

Aldrei hnýtt fleiri en tvær

Hver kannast ekki við að finna frábæra flugu, hnýta eina eða tvær og snúa sér síðan að einhverri allt annarri? Ef einhver kannast hreint ekkert við þetta, þá bara gott hjá þér. Athugið, þeir sem aldrei hafa hnýtt flugu hafa ekki atkvæðarétt.

Fluguhnýtingar eru rétt eins og flest annað í lífinu, æfingin skapar meistarann, ef það er á annað borð markmiðið. Ég held raunar að ég sé ekki einn um að vera fullsáttur við að ná sæmilegum flugum og ber gjarnan fyrir mig að fiskurinn hefur aldrei séð uppskrift að flugu og veit því ekkert hvernig rétt fluga lítur út.

En, það er samt eitthvað til í því hjá hnýtingarsnillingunum þegar þeir gefa nýliðum í föndrinu það ráð að velja sér flugu sem þeir hafi veitt á, setjast niður með öll nauðsynleg hráefni og hnýta kvikindið í 5 – 10 eintökum, jafnvel fleirum. Það að hnýta sömu fluguna aftur og aftur verður til þess að flugan verður einsleit, nokkurn veginn alltaf eins og af góðum gæðum. Þegar færninni er síðan náð, þá er aldrei að vita nema þú komir auga á eitthvað sem betur má fara í upprunalegu uppskriftinni eða þér hentar betur að gera með öðrum hætti heldur en höfundur flugunnar setti upprunalega niður á blað.

Að finna upp hjólið

Heiðurinn af því að finna upp hjólið er almennt eignaður Súmerum sem voru uppi fyrir 5.500 árum þannig að það er eiginlega óþarfi að finna það upp aftur. Hjólið hefur þróast frá því að vera einfaldur trjábolur og til þess sem við þekkjum í dag. Á einhverjum tímapunkti sagði einhver, einhversstaðar, að nú væri komið nóg, kerruhjólið með leguhúsi, pílárum og gjörð væri endapunkturinn, ekki væri þörf á að betrumbæta það. En samt datt einhverjum í hug að losa sig við pílárana og fóðra gjörðina með mýkra efni, meira að segja loftfylltri blöðru.

Það er eiginlega alveg sömu söguna að segja af fluguhnýtingum. Það er töluverður fjöldi ára síðan að t.d. mjög góð fluga var fundin upp, segjum að hún hafi verið nefnd Black Gost og höfundur hennar hafi verið Herbert L. Welch. Það veit enginn hve margar lagfærðar útgáfur þessarar flugu hafa litið dagsins ljós frá því hún var fyrst hnýtt á Boston Sportsman‘s sýningunni árið 1927.

Eftir því sem ég kemst næst, þá var Herbert hin mestu öðlingur og umburðalyndur gagnvart tilraunum hnýtara til þess að finna Black Ghost hjólið upp, aftur og aftur og aftur. Hvort hann hafi samþykkt mína tilraun er svo aftur allt annað mál. Flugan virðist vera óskilgetið afkvæmi Dog Nobbler og Black Ghost og hafi eitt klukkustundum fyrir framan spegilinn og reynt að stæla Cat‘s Wisker.

Sumar flugur bera lagfæringarnar afskaplega vel og eru engum til ama. En aðrar flugur verða einfaldlega aldrei betri en fyrirmyndin eða eins og einn æringinn sagði; Láttu þetta bara eiga sig, þessari flugu verður ekki viðbjargað.

Ruglandi

Yfirleitt er allt við fluguveiði eðlilegt, hvað leiðir af öðru og flest af þessu öllu fylgir náttúrulögmálum. Það eru þó til undantekningar frá þessari reglu og það eru sverleiki tauma og króka. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum þá er lægri tala minni heldur en hærri, er það ekki náttúrulega virknin í þessum arabísku tölum sem við styðjumst við? Jú, en því er öfugt farið þegar einhver merkir tauma og króka og til að bæta gráu ofan á svart, þá er annarri hverri tölu sleppt þegar þær eru hengdar við króka, yfirleitt.

Upprunalega var stærð króka ákvörðuð út frá öngulbilinu og leggurinn var tvöfalt öngulbilið að lengd. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar hlutirnir voru einfaldlega einfaldir. Ef þörf var á lengri öngli var lengd augans bætt við legginn og þá voru þeir merktir 1XL. Næsta lengd þar fyrir ofan var 2XL (tvö augu) og þannig koll af kolli. Í þessu samhengi er X-ið ekki eitthvað Extra eins og við þekkjum í fatastærðum, heldur einfaldlega sinnum og talan fyrir framan hve mörgum sinnum auganum var bætt við staðlaða lengd. Sama formúla var notuð fyrir styttri öngla en þá var ein lengd augans eða fleiri dregin frá leggnum og þeir einkenndir 1XS, 2XS o.s.frv. þar sem S-ið stendur fyrir shorter. Öngulbilið og bugdýptin hélst alltaf hin sama, það var aðeins leggurinn sem var lengdur eða styttur.

Hvað öngulbilið var upprunalega sem ákvarðaði stærð króka veit ég ekki fyrir víst en eitt sinn heyrði ég að það var eignað honum Mathias Topp frá Gjøvik (Mustad) en það sel ég ekki dýrar en ég keypti það. Ég hef aldrei fundið upprunalega stærðartöflu (málsetningu) króka þannig að þetta er óstaðfestur orðrómur af götunni.

Með tíð og tíma viku framleiðendur frá upprunalegu reglunni og lengdir króka hættu að vera samkvæmt ofangreindu. Sumir framleiðendur tóku meira að segja upp á því að vera með eina staðlaða lengd fyrir votflugukróka, aðra fyrir púpukróka og enn aðra fyrir straumflugukróka, en allir hættu þeir að taka mið af öngulbilinu og hver um sig setti sér öngulbil króks eins og hann vildi. Þegar svo einhverjum datt í hug að búa til Wide Gap (WG) króka fór nú málið fyrst að flækjast. Í sjálfu sér er WG krókur #6 jafn langur og staðlaður #6 krókur en öngulbilið svipað og á krók #4. Það væri nánast hægt að merkja viðkomandi krók sem #4 2XS í stað þess að merkja hann #6 WG. Ætli sami krókur í Extra Wide Gape (EWG) væri þá ekki u.þ.b. #2 4XS.

Allt væri þetta bara í góðu lagi ef maður notaði alltaf sömu tegund króka í flugurnar, en það geri ég ekki alltaf. Oftast verður þó ein ákveðin tegund fyrir valinu sem fer skemmtilegan milliveg gæða og verðs, en það er allt önnur saga. Í þeim tilfellum sem ákveðin krókur er ekki til hjá mínum venjulega birgja og ég þarf að fara á stúfana, þá tek ég fyrirmyndina með mér og ber saman við þá sem ég finn. Þannig þarf ég ekki að stóla á upplýsingarnar sem eru prentaðar á umbúðirnar, hvorki varðandi stærð eða lengd. Það hefur oftar en ekki komið fyrir að ég enda með allt of stuttan eða allt of langar krók í höndunum og meira að segja munar stundum nær heilu númeri þegar ég ber þá saman.

Pokaloka

Á mínu heimili er brauðskápur í eldhúsinu og einhverra hluta vegna verða þessar pokalokur alltaf eftir í skápnum þótt brauðið sé löngu búið. Raunar hefur þeim farið fækkandi, þessum litlu plastflipum á síðustu árum og því ekki víst að allir eigi svona pokaloku tiltæka, en þá má alveg athuga hvort gömul gítarnögl frá rokk- eða pönkárunum leynist ekki einhversstaðar ofan í skúffu.

Mér hefur ekkert alltaf gengið jafn vel að brjóta saman geislana á fjöðrum þegar ég er að vesenast með hringvöf á flugu, sumar fjaðrir eru einfaldlega óstýrlátari heldur en aðrar. Svo var mér bent á að klippa V í svona pokaloku og nota hana til að leggja geislana aftur. Það var svo um daginn að þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á þetta myndband Tim Flaglers og datt í hug að miðla þessu til lesenda:

Hnýta og nýta krókinn

Í upphaf skyldi endinn skoða og þegar kemur að fluguhnýtingum, þá er krókurinn upphafið. Tómur krókurinn er allt og sumt sem þú hefur fyrir framan þig og yfirleitt er hnýtingarþráðurinn það fyrsta sem snertir krókinn. Ég hef áður birt hér nokkrar greinar um æskileg hlutföll ýmissa flugnagerða, en mér finnst eins og eitthvað hafi vantað í þær greinar, nefnilega hvar og hvernig maður eigi að byrja með hnýtingarþráðinn á krókinum og hvernig sé einfaldast að mæla efnið m.v. krók þannig að það sé í æskilegum hlutföllum.

Byrjum á því einfaldasta, hvar maður byrjar á krókinum og hvert undirbyggingin skuli ná. Það er eignlega alveg sama hvaða flugu ég ætla að hnýta, mér gefst alltaf best að byrja rétt u.þ.b. tvöfaldri augalengd frá endanum. Þá á ég örugglega nóg pláss eftir til að ganga frá skeggi, haus og öðru sem þarf á fluguna. Í raun er þessi staðsetning sú sama og vængur votflugu er festur niður á. Það sem ég merki hér sem enda er í raun þar sem skott votflugu ætti að festast niður.

Krókurinn er í raun hin ágætasta mælistika, mun betri heldur en skífumál eða reglustika einfaldlega vegna þess að krókar eru nær eins misjafnir og framleiðendur þeirra eru margir og mm sem passa á eina tegund, passa hreint ekki á næstu tegund. Sem sagt; til að mæla efni í flugu er best að nota krókinn sem mælistiku.

Ágætt skott á votflugu er því sem næst jafn langt og leggur króksins. Hér er reyndar sýndur 2XL krókur sem oftar er notaður í straumflugu og þá er skottið oft ekki haft nema ½ legglengd króksins.

Skegg á púpu er yfirleitt fest niður rétt aftan við haus flugunnar og er u.þ.b. fjórðungur af legglengd króks.

Skegg á votflugu er því sem næst legglengd króks, þó aldrei styttra en svo að það snerti ekki öngulbroddinn.

Skegg og straumflugu er töluvert lengra heldur en á votflugu, það lætur nærri að það ætti að snerta bug króksins.

Það má einnig nota krókinn til að mæla lengd vængja á flugur, en þá koma ýmsir fyrirvara um tegundir flugna að málinu og oft verður maður að bæta verulega í eða draga verulega frá.

Vængur votflugu er yfirleitt örlítið lengri en leggur króksins. Mér hefur reynst ágætlega að miða við lengdina frá auga og aftur að agnhaldi og festa vænginn niður þétt við haus flugunnar.

Vængur straumflugu getur verið allt að tvöföld lengd leggjar, yfirleitt þó aldrei styttri en sem nemur 1 ½ legglengd.

Spegill

Þegar ég fæ að skyggnast í flugubox annarra veiðimanna fer stundum af stað einhver einkennilegur kokteill af tilfinningum innra með mér. Oft sé ég vel skipulagt box, öllum flugum raðað upp eftir greinilegu skipulagi og hvergi einhver óboðinn gestur í röðinni. Þá verður mér hugsað til þeirra sem leynast í mínum vösum, oftast kaos með lýtur engu skipulagi. Svo er það þessi tilfinning sem ég finn fyrir þegar hver einasta fluga í boxinu er nákvæm eftirlíking þeirrar næstu, hver fluga í þremur eða fjórum stærðum o.s.frv.

Boxið mitt er hreint ekki þannig að hver einasta fluga sé nákvæmlega eins og systir hennar sem er þarna einhvers staðar innan um allar hinar. Það kemur hreint ekki oft fyrir að úr minni þvingu fæðist eineggja tví-, þrí,- eða fjórburar, sérstaklega ekki ef heilt sumar líður á milli þess að ég hnýti umrædda flugu. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef verið í ágætri veiði, svo trosnar flugan eða ég glata henni með einhverjum grunsamlegum hætti og verð að seilast í boxið eftir annarri eins. Einmitt, hún ætti að vera eins, en er það ekki alveg. Kannski er skottið aðeins styttra, vængurinn annar eða skeggið miklu lengra. Fyrir bragðið hreyfist flugan með öðrum hætti í vatninu og ég veiði ekki neitt á númer tvö.

Svo er það sem var sagt við mig eitt sinn; Eins flugur bera vott um öguð vinnubrögð. Þetta var náttúrulega smá skens á mig og flugurnar mínar, en ég reyndi að kjafta mig út úr þessu með því að nefna fjölbreytileika náttúrunnar og benti á þróunarkenningu Darwins. Þessi útúrsnúningur þótti ekki merkilegur og var ekki virtur viðlits. Auðvitað vissi ég að þetta var alveg satt, ég ætlaði alltaf að hnýta flugurnar allar eins, en svo brast eitthvað í höndunum á mér og ég þurfti að grípa til þess að skrökva einhverju í flugunni til að redda málunum.

Að vísu er það svo að þegar ég hnýti hefðbundinn skammt af tiltekinni flugu að vetri, þá á ég það alveg til að efna niður í þær allar áður en ég byrja að hnýta, þá verða þær oftar en ekki nærri allar eins og ég verð að viðurkenna að þær taka sig miklu betur út í geymsluboxinu. Næsta skref er að hætta að framkvæma einhverjar skítareddingar ef eitthvað klikkar, rekja frekar upp eða þá bæta nýrri flugu í hnýtingarröðina. Svo er loka skrefið sem kemur e.t.v. síðar, halda boxunum í vösunum mínum svolítið snyrtilegri næsta sumar.

Nördakrukka

Hér kemur smá ráð fyrir þá sem eru hættulega langt leiddir af nördisma. Þegar þið safnið sýnishornum af pöddum, ekki geyma þær í plastboxi. Litlar glerkrukkur með skrúfuðu álloki eru mun endingarbetri og ekki eins hætt við að opnast ef þær kremjast eða verða fyrir hnjaski.

Að safna sýnishornum af vatnalífverum sem fyrirmyndum fyrir fluguhnýtingar er trúlega ein besta leiðin til að ná eftirlíkingu í formi flugu sem hægt er að hugsa sér. Þar sem formalín liggur ekki alveg á lausu fyrir okkur flugunördana, þrátt fyrir sögusagnir um ákveðnar bleikjur sem geymdar eru árum saman í slíkum vökva, þá má nota ólitað spritt eða própanól í krukkuna. Geymslutími er þó takmarkaður þar sem alkóhólið vinnur smám saman á vefjum og getur aflitað skordýrið.

Ef eitthvað klikkar

Sumir segja að hjólið sé einhver merkilegast uppgötvun mannsins og sé á listanum yfir 10 mikilvægustu uppgötvanir hans, rétt á eftir eldinum. Ég vil meina að krókurinn sé líka á þessum top 10 lista. Enginn veit fyrir víst hvenær hann kom fyrst fram á sjónarsviðið en fyrstu krókarnir komu fram löngu áður en menn réðu við að bræða málm eða berja hann til hlýðni við hugmyndir sínar. Að öllum líkindum voru fyrstu krókarnir mótaðir úr beini fyrir um 42.000 árum síðan, sel það ekki dýrar en ég keypti það. Krókurinn er ekki flókið fyrirbrigði en ef einhvern hluta hans vantar, þá skerðist notagildi hans verulega.

Augað er ekki endilega bráðnauðsynlegt. Lengi vel voru krókar án auga og komu nú samt að ágætum notum og enn eru bindir krókar fáanlegir og notaðir af hnýturum fyrir ákveðnar tegundir flugna. Ef augað er aftur á móti til staðar, þá er vissulega betra að augað sé vel formað, vel opið en þó lokað þétt upp við legginn þannig að girnið eða taumaendinn smokrist ekki úr því.

Blindur krókur

Leggurinn þarf að vera jafn og vel formaður annars er hætt við að hann brotni við átak. Rétt eins og keðjan sem brestur á veikasta hlekknum, þá brestur krókurinn þar sem hann er þynnstur, gjarnan við beygju á bug. Annar staður sem krókurinn er veikur fyrir getur verið við agnhaldið. Já, þrátt fyrir allt þá eru krókar með agnhaldi ennþá útbreiddari heldur en agnhaldslausir krókar. Ef agnhaldið er skorið of djúpt, þá hættir krókinum til að vera veikur einmitt við oddinn.

Það er ekki aðeins að maður verður að nota ping testið þegar maður leggur af stað í að hnýta flugu. Það sem augað sér, er það sem flugan fer á og því er eins gott að þekkja og velja góða króka sem eru vel gerðir áður en fluga er hnýtt. Mér finnst í það minnsta fátt leiðinlegra heldur en kasta flugu sem ég hef haft fyrir því að hnýta yfir veturinn og krókurinn brotnar um leið og flugan lendir í fyrirstöðu eða uppi í fiski eða einfaldlega yfirgefur tauminn þegar minnst varir.

Allt í einni hrúgu

Ef þú hefur einhvern tímann eytt heilu kvöldi í að sortera kúlur sem hafa óvart blandast saman, þá ertu örugglega til í að heyra af einfaldri lausn til að aðskilja mismunandi stærðir í hrúgunni.

Náðu þér í eitthvað sem líkist tilraunaglasi, t.d. svona túpu sem fylgir með blómvöndum. Fylltu hana með slatta af kássunni og hristu upp og niður í smá stund. Vittu til, smæstu kúlurnar raða sér á botninn, þær næst smæstu þar fyrir ofan og svo koll af kolli þar til þær stærstu eru á toppnum. Svona má sortera kássuna án þess að pikka eina og eina úr hrúgunni.

Hálfbragð

Hálfbragðið (e: half hitch) er trúlega mikilvægasti hnúturinn sem hægt er að nefna þegar kemur að fluguhnýtingum. Eftir að hafa vafið fyrstu vafningana, setur maður hálfbragð. Áður en maður sleppir keflishöldunni, setur maður hálfbragð. Á milli hráefna í flugna, setur maður hálfbragð. Sumir nota hálfbragðið út í gegn við allar sínar flugur, en það kemur vitaskuld á undan whip fishing hjá þeim sem setja þannig endahnút á sínar flugur.

Það kunna allir hálfbragð, er það ekki?

Filmubox og ull

Einhvern veginn finnst mér eins og ég þurfi ekki að hafa orð á þessu hérna, en látum slag standa. Hver þekkir ekki hrufótta dubnál (e: bodkin) eftir að hafa verið að lakka nokkrar flugur? Það er tilvalið að taka gamalt filmubox eða eitthvað álíka, troða einum stálullarhnoðra ofan í boxið, stinga gat á lokið og nota sem nálahreinsi á milli þess sem lakkað er.

Ekki er verra að hafa gatið örlítið víðara heldur en nálin er þannig að þegar maður stingur nálinni niður í boxið, þá rennur hún óhindrað niður í ullina sem þá skefur lakk og límafganga af henni.