Hefur þú í einhvern tíma lent í því að kaupa kúlur af ákveðinni stærð en fá eitthvað allt annað upp úr pokanum en þú áttir von á þegar heim er komið? Ég er ekki að gera því skóna að þú veiðir upp króka eða koparvír úr pokanum, en þú gætir fengið aðra stærð af kúlum heldur en þú áttir von á.
Þegar aðeins 1/5 úr mm skilur stærðirnar að þá getur verið svolítið erfitt að greina á milli stærða og þá er gott að eiga hjálpartæki, eins og t.d. skíðmál.
En það eru ekki allir svo vel settir að eiga svona græju og þá þarf að hugsa út fyrir boxið eins og benti hnýtara á sem leitaði ráða hjá FOS. Einföldustu lausnirnar, þær sem ættu að liggja í augum uppi eru stundum afar fjarlægar þegar menn leita ráða hjá Google, en það eina sem þarf er reglustika og 10 kúlur.
Raðaðu 10 kúlum í röð á eða við reglustikuna og lestu af henni, deildu í heildarlengdina með 10 og þú veist upp á hár af hvaða stærð kúlurnar eru. Einhverjum kann að þykja þetta svo augljóst að ekki þurfi að nefna þetta, en ekki gleyma því að flestir hnýtarar eru líka veiðimenn og veiðimenn eru smá græjufíklar og leita því stundum langt yfir skammt.
Mér er sagt að gamlir hundar verða stundum gráhærðir. Ég veit ekki hvort þetta átti að vera skot á mig eða hvort það er eitthvað til í þessu, en þessi ummæli voru höfð uppi þegar litskrúðugar flugur bárust í tal og ég lét það út úr mér að það væri nú takmarkað hvað fiskar gera mikinn greinamun á litaafbrigðum. Eins og umræðurnar þroskuðust, þá var ég ekkert að tefla fram mínum efasemdum um ákveðna liti umfram aðra.
Sumir hnýtarar hafa sterkar skoðanir á lit flugna, jafnvel litatón hráefnis í ákveðinni flugu. Þeir sem hafa sterkustu skoðanir á þessu skiptast reyndar oft í tvær fylkingar; þá sem vilja meina að fiskurinn vilji ekkert annað en ákveðinn lit í flugu og svo þá sem segja að þennan lit hafði höfundur flugunnar í henni upprunalega og því skal fylgja, amen.
Burtséð frá hreintrúarstefnu hnýtara, þá vitum við að ákveðnir litir og litasamsetningar höfða betur til fiska heldur en aðrir, sérstaklega ef litaskil eða öllu heldur birtuskil (e: contrast) eru skörp. Ákveðnir litir hafa fengið það orðsspor að ganga sérstaklega vel í silung, t.d. rauður og þá sérstaklega á móti svörtum. Þetta kann að hljóma svolítið á skjön við kenninguna um birtuskil, en þá kemur einmitt að því sem augað ekki sér.
Við sjáum rauðan lit, já eins og við sjáum hann, en laxfiskar sjá hann í nokkuð öðru ljósi. Litir sem eru með lengri bylgjulengd eru skærari í þeirra augum en okkar og því má álykta að laxfiskar laðast frekar að þeim en öðrum.
Myndin sýnir aðeins eina af ótal niðurstöðum rannsókna á ljósdrægni vatns og er ekki algild
Rauður er sá liturinn sem hefur lengsta bylgjulengd og hann er því skærastur lita sem laxfiskar sjá. Það er þó einn galli á gjöf Njaðar, því lengri sem bylgjulengd litar er, því fljótari er hann að hverfa þegar niður í vatnið er komið, eins og myndin hér að ofan gefur vísbendingu um. Vatn virkar eins og ljóssía og síur eiga auðveldast með að grípa fyrirferðamikla hluti og langar bylgjur eru fyrirferðarmeiri en þær stuttu. Eins kjánalegt og það virðist, þá er rétt að árétta það að þó litur hverfi þá verður flugan ekki gegnsæ, hún hverfur ekki, hún verður bara svört.
En hvað með þá liti sem eru á hinum enda litrófsins, blár, fjólublár og útfjólublár (UV)? Sjá laxfiskar þessa liti þá bara í einhverri móðu? Nei, hreint ekki. Svo lengi sem fiskurinn er ekki orðinn 5 til 7 ára, þá sér hann þessa liti alveg þokkalega skýrt. Af hverju ég nefni sérstaklega aldur fiskar á sér einfalda skýringu, með árunum daprast hæfileiki fiska til að greina UV ljós og þegar hæfileikinn hverfur alveg, þá sjá þeir UV liti með alveg sama hætti og liti sem eru með lengri bylgjulengd. En, sem sagt, litir með styttri bylgjulengd eiga auðveldara með að ná niður í vatnið, sjást á meira dýpi af því þeir smjúga auðveldar í gegnum ljóssíu vatnsins.
Það var alveg ástæða fyrir því að forgangsljós lögreglu og sjúkraflutninga var á sínum tíma breytt úr rauðum í blá. Bláa ljósið sést lengra að og á auðveldara með að smjúga í gegnum rigningu og dimmviðri heldur en það rauða.
Nei, nú er ég ekki að skrifa um þurrflugur með hárkollu eða toppflugur almennt, bara þurrflugur með þyrlutopp úr gerviefni eða CDC, t.d. Klinkhammer.
Hér um árið, finnst það hafa verið fyrir löngu síðan en það var trúlega bara fyrir einu til tveimur árum, fann ég það út eða var bent að á nota hvítan tökuvara vegna þess að ég átti afar erfitt með að sjá aðra töluvara. Síðan þá hef ég alltaf gengið úr skugga um að eiga slíkan tökuvara og hef sett í nokkrar þurrflugur með hvítum toppi til svipaðra nota og þetta hefur bara virkað mjög vel, yfirleitt.
Það koma samt upp þær aðstæður að hvítur tökuvari eða þurrfluga með hvítum toppi sést bara ekkert sérstaklega vel og þá er ég alveg jafn blindur og áður á staðsetningu flugunnar eða tökur fisksins. Mér, rétt eins og öðrum mannskeppnum, hættir til að sveiflast öfganna á milli og því prófaði ég einlita svarta þurrflugu þegar sú með hvíta toppinum hvarf mér sjónum (ekki í kjaft fisksins). Og viti menn, þessi einlita svarta sást alveg ágætlega á meðan sú ljósa með hvíta toppinum hvarf mér sjónum.
Ég fór því á stúfana og fann túss eða öllu heldur tússpenna og dundaði mér við að lita hvítan tökuvara svartan og undir þessum kringumstæðum sá ég þann svarta álíka vel og ég hafði áður séð þann hvíta. Þessar umræddu kringumstæður eru þegar sólin er lágt á lofti og beint á móti kaststefnunni hjá þér, glæran (spegillinn á vatninu) getur einfaldlega drepið ljósan lit á flugu, frá þér séð, og það sama á við um ljósa töluvara.
Ég veit ekki hvort allir þekkja hugtakið dálkasentímetrar úr heimi blaðamanna en það er það pláss sem fylla þarf á blaðsíðu í tímariti eða dagblaði þannig að úr verði samfella. Oft vilja ónýttir dálkasentímetrar safnast saman á síðustu blaðsíðum tímarita eða blaða og þá er gott að eiga nokkrar minna mikilvægar greinar, myndir eða auglýsingar til að grípa í.
Hjá þeim sem halda úti veiðibloggi eða fréttasíðum verður þrettándinn stundum þunnur þegar líða fer að lokum tímabils og ónýttir dálkasentímetrar fara að dúkka upp. Þetta er ekki eins áberandi á vefjum eins og á pappír, en þegar aðilar hafa skuldbundið sig til birta ákveðin fjölda greina á viku eða mánuði en hafa úr litlu að moða, þá sér maður uppfyllingaefnið koma fyrir.
Þegar ég renndi yfir ólesnar greinar í lok sumars, þá datt ég um nokkrar sem voru augljóslega uppfyllingarefni í lok veiðitímabils hérna megin á hnettinum eða í upphafi tímabils hinu megin á kúlunni. Toppurinn á þessu uppfyllingarefni sem ég rakst á var listi yfir 10 bestu listana yfir 10 bestu listana … um eitt og annað.
Ein útgáfa vakti sérstaka athygli mína því hún innihélt lista yfir samtals nærri 100 bestu flugurnar í urriða að hausti. Listarnir áttu allir ættir að rekja vestan Atlantshafs þannig að ég átti von á að finna sömu fluguna á nokkrum listum og renndi því í gegnum þessa lista til að finna hina einu sönnu bestu flugu. Mér til furðu reyndust sömu flugurnar teljandi á fingrum annarrar handar. Ein og ein tískufluga skaut upp kollinum á nokkrum listum og klassískar, þrautreyndar og þekktar flugur komu líka fyrir á fleiri en einum lista, en flest fluguheiti voru einstök og gáfu til kynna sérstaka flugu.
Þarna datt ég til að byrja með í gryfju afbrigða sem hinir og þessir aðilar gáfu ný nöfn án þess að vísa til fyrirmyndarinnar. Fjálgleg heiti eða vísan til nafns hnýtara voru afar algengar, en þegar betur var að gáð, þá voru afbrigðin oft aðeins lítillega frábrugðin áberandi fyrirmynd. Flestar þessara fyrirmynda voru oftar en ekki þekktar flugur með góðu og gildu nafni, sem hefði að ósekju mátt tilgreina. Ég var svo sem ekkert að láta þetta fara í taugarnar á mér, en eftir á að hyggja, þá þóttu mér þessar nafnabreytingar óþarfur dónaskapur við fyrirmyndina og höfund hennar.
Á móti kemur að sumum hnýturum er ekkert um það gefið að afbrigði flugna þeirra sé teflt fram með vísan til fyrirmyndarinnar og vilja lítið sem ekkert af þessum afbrigðum vita. Það getur því verið tvíbent að setja sig í dómarasætið um nafnagiftir flugna og mögulega á maður ekkert að vera skipta sér af eða agnúast út í öll þessi heiti flugna sem í raun eru beinir afkomendur flugu eins og Damsel sem áttu ótrúlega marga afkomendur á þessum listum. Það sem yfirferð þessara lista vakti þó helst hjá mér var uggur yfir því hve margir veiðimenn og hnýtarar mundu mögulega rjúka upp til handa og fóta, kaupa sér efni og hnýta flugur sem væru nákvæmlega eins og einhverjar þessara nærri 100 bestu flugna, jafnvel þótt þeir eigi nú þegar í boxum sínum flugur sem væru 99% eins en hétu einhverjum öðrum eða þá upprunalegum heitum. Ætla nú samt að viðurkenna að ég tók niður nokkrar flugur (afbrigði) sem ég mun trúlega hnýta í vetur, bara svona til vonar og vara ef þær verða nú einfaldlega miklu betri en þær sem ég á þegar í boxunum mínum.
Ef einhver velkist í vafa um það hvað craft fur er, þá er það einfaldlega gervihár sem upprunalega var framleitt í kraga á úlpur, alveg satt. Máttur fluguveiðinnar er aftur á móti slíkur að flest þekkjum við þetta frekar sem hráefni í flugur. Löng, fíngerð hár sem afar margir hnýtarar nota í stað náttúrulegra hára sem oft vilja vera nokkuð óþjál, beinlínis óstýrlát og haldin almennri þvermóðsku þegar maður ætlar að hnýta þau niður.
En það er ýmislegt annað sem aðskilur craft fur og náttúruleg hár heldur en meðfærileikinn. Þegar maður kaupir náttúruleg hár þá er 99,9% öruggt að hárin eru ekki öll jafn löng og það getur tekið töluverðan tíma að jafna þau þannig að úr verði jafn og fallegur vængur á flugu. Þegar það tekst á endanum, þá kemur annar munur þessara efna í ljós; þau eru heldur ekki öll jafn sver sem kemur berlega í ljós þegar hnýtt er niður á krókinn. Grönnu hárin sem kremjast undan þræðinum, jafnvel undan sverari hárum, taka upp á því að standa út í loftið. Klippa eða kippa? Svarið er alltaf klippa. Ef maður kippir í grönnu hárin, þá er eins víst að næstu hár losni þannig að vængurinn er allur í tætlum.
Hvoru tveggja er sjaldan vandamál þegar hnýtt er úr gervihárum. Þau eru öll eins í laginu, bæði hvað varðar sverleika og lengd. Þetta er að vísu sett fram með fyrirvara um ákveðna framleiðendur sem sumir hverjir hafa tekið upp á því að líkja eftir feldi dýrs og raða hárunum á gerviskinnið í raðir með smækkandi hárum yst. Hvers vegna, hef ég ekki hugmynd um og finnst það í raun álíka gáfulegt eins og framleiða gervi bacon. Ef ég þarf styttri hár, þá klippi ég einfaldlega aftan af vöndlinum.
Einmitt, þetta með að klippa gervihár minnir mig á að þau eru ekki hol eða með holrými eins og margt náttúrulegt hár og fljóta því síður. Sumum finnst það kostur, þar á meðal mér, á meðan öðrum hentar það ekki. Gervihár eru heilsteypt og yfirleitt sveigjanlegri heldur en náttúruleg hár af stórgripum. Samanburður gervihárs og t.d. kanínu eða minks er ekki sanngjarn, þar skákar náttúran alltaf gervihárum, ennþá.
Í vetur sem leið, hnýtti ég töluverðan fjölda af hefðbundnum flugum, þ.e. litasamsetningum sem þekktar eru að gefi vel á ákveðnum veiðisvæðum, lesist sem Veiðivötn. Í stað þess að þyngja flugurnar með glannalegum glyrnum frá Grohe eða ótilgreindum vafningum af tungsten þræði, þá hnýtti ég þær léttar úr craft fur á lítið eitt þyngri krók. Ég viðurkenni það fúslega að ég var undir áhrifum af öllum þessum flottu horsílaeftirlíkingum sem tröllriðið hafa netinu undanfarin ár en vildi samt ekki ganga eins langt í dúlleríinu. Það sem ég sóttist eftir var einföld útfærsla, auðhnýtt og endingargóð.
Auðvitað prófaði ég nokkrar útfærslur í vatni hér heima, en það gefur vitaskuld ekki alveg rétta mynd að máta flugu í glasi fullu af vatni. Ég beið því óþreyjufullur eftir sólríkum degi við íslaust, spegilslétt vatn. Slíkt augnablik gafst nú um daginn og ég hélt af stað með tilraunaboxið, vopnaður flot- , intermediate- og heilsökkvandi línum til að sjá með eigin augum hvort flugurnar stæðust væntingar mínar og væru nægjanlega hlutlausar í vatni til að leyfa línunni að stjórna því á hvaða dýpi þær sætu.
Niðurstaðan kom skemmtilega á óvart. Craft fur er lifandi efni í vatni, það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta. Dillandi flugurnar á flotlínu veiddu sig í gegnum vatnið á 10 – 20 sm dýpi. Hefði ég haft örlítið meiri biðlund hefður þær að öllum líkindum náð neðar. Þær sem dingluðu á endanum á intermediate línunni fóru einfaldlega þangað sem ég leyfði línunni að sökkva, rétt eins og þær á heilsökkvandi línunni. Tilraunin lofar góðu; léttari flugur, minni loftmótstaða og lifandi í vatni. Hvenær opnar í Veiðivötnum?
Fyrir einhverjum árum síðan benti ég hér á kosti þess að vera með ljósan, helst mattan bakgrunn þegar maður situr við fluguhnýtingar. Það kemur víst fyrir að hnýtingaraðstaðan sé ekki alveg eins snyrtileg og efni standa til, ýmislegt efni liggur á víð og dreif fyrir aftan þvinguna þannig að bakgrunnur flugunnar sem maður er að hnýta er oft svolítið óreiðukenndur.
Nú er það svo að margur hnýtarinn flakkar með græjurnar sínar, skreppur á hnýtingakvöld annað slagið eða grípur græjurnar með sér upp í bústað og þá er ekki gott að taka með sér of mikið af dóti.
Með því að líma smá segul á bakið á möttu pappaspjaldi, t.d. baksíðu úr minnisblokk eða sambærilegu, þá má smella þessum bakgrunni á svo til allt í grennd við þvinguna ef hún er ekki útbúinn pinna eins og mín þannig að ég læt mér nægja að vera með litla klemmu í hnýtingartöskunni. Franskur rennilás sem límdur er á pappaspjald kemur að svipuðu gagni þannig að það má tylla spjaldinu þar sem hentar.