Í upphaf skyldi endinn skoða og þegar kemur að fluguhnýtingum, þá er krókurinn upphafið. Tómur krókurinn er allt og sumt sem þú hefur fyrir framan þig og yfirleitt er hnýtingarþráðurinn það fyrsta sem snertir krókinn. Ég hef áður birt hér nokkrar greinar um æskileg hlutföll ýmissa flugnagerða, en mér finnst eins og eitthvað hafi vantað í þær greinar, nefnilega hvar og hvernig maður eigi að byrja með hnýtingarþráðinn á krókinum og hvernig sé einfaldast að mæla efnið m.v. krók þannig að það sé í æskilegum hlutföllum.

Byrjum á því einfaldasta, hvar maður byrjar á krókinum og hvert undirbyggingin skuli ná. Það er eignlega alveg sama hvaða flugu ég ætla að hnýta, mér gefst alltaf best að byrja rétt u.þ.b. tvöfaldri augalengd frá endanum. Þá á ég örugglega nóg pláss eftir til að ganga frá skeggi, haus og öðru sem þarf á fluguna. Í raun er þessi staðsetning sú sama og vængur votflugu er festur niður á. Það sem ég merki hér sem enda er í raun þar sem skott votflugu ætti að festast niður.
Krókurinn er í raun hin ágætasta mælistika, mun betri heldur en skífumál eða reglustika einfaldlega vegna þess að krókar eru nær eins misjafnir og framleiðendur þeirra eru margir og mm sem passa á eina tegund, passa hreint ekki á næstu tegund. Sem sagt; til að mæla efni í flugu er best að nota krókinn sem mælistiku.

Ágætt skott á votflugu er því sem næst jafn langt og leggur króksins. Hér er reyndar sýndur 2XL krókur sem oftar er notaður í straumflugu og þá er skottið oft ekki haft nema ½ legglengd króksins.

Skegg á púpu er yfirleitt fest niður rétt aftan við haus flugunnar og er u.þ.b. fjórðungur af legglengd króks.

Skegg á votflugu er því sem næst legglengd króks, þó aldrei styttra en svo að það snerti ekki öngulbroddinn.

Skegg og straumflugu er töluvert lengra heldur en á votflugu, það lætur nærri að það ætti að snerta bug króksins.
Það má einnig nota krókinn til að mæla lengd vængja á flugur, en þá koma ýmsir fyrirvara um tegundir flugna að málinu og oft verður maður að bæta verulega í eða draga verulega frá.

Vængur votflugu er yfirleitt örlítið lengri en leggur króksins. Mér hefur reynst ágætlega að miða við lengdina frá auga og aftur að agnhaldi og festa vænginn niður þétt við haus flugunnar.

Vængur straumflugu getur verið allt að tvöföld lengd leggjar, yfirleitt þó aldrei styttri en sem nemur 1 ½ legglengd.