Flokkur: Hnýtingar

Ýmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.

Taktu afrit

Nú hljóma ég eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni, en í yfir 25 ár vann ég mest í tölvubransanum og lagði þar endalaust áherslu á að menn tækju afrit af vinnunni sinni. Að vísu er þetta svipað hjá mér eins og hjá bifvélavirkjanum sem ekur alltaf um á druslum og trésmiðnum sem á heima í hálfkláraða húsinu, ég tók ekki alltaf afrit sjálfur.

Afritunargeymsla
Afritunarbúnaður

En að taka afrit af flugu sem maður hnýtir fyrir sumarið getur alltaf komið sér vel. Ekki setja endilega allar flugurnar sem þú hnýtir í fluguboxið sem þú ferð með í veiði. Það getur komið sér vel að eiga afrit af nýrri flugu til að kíkja aðeins á hana næsta vetur ef allar klárast yfir sumarið. Sjálfur hef ég lent í því að veiðifélagi minn gerði góða veiði á ákveðna flugu og þegar hnýtingarlisti næsta vetrar var settur saman, þá gat ég ómögulega fundið mynd eða uppskrift af flugunni sem frúnna vantaði og líst var; hún var svona brún, með vír og haus. Þá hefði nú verið gott að eiga eins og eitt stykki í afritunarboxinu til að bera undir frúnna.

Árleg leit að flugu

Það er næstum árlegt að ég reyni að finna not fyrir allar fjaðrirnar af hringfasananum sem ég keypti fyrir mörgum árum síðan. Fjaðrirnar af þessum ham hafa vissulega komið mér að ýmsum notum í gegnum árin, en þeir sem þekkja til geta vottað að einn svona hamur af hringfasana samanstendur af ansi mörgum fjöðrum og enn hefur mér ekki tekist að nýta nema brot af þeim.

Fasanafjaðrir
Fasanafjaðrir

Á ferð minni í Veiðivötn sumarið 2016 fyllti ég örlítið á reynslubrunninn með því að veiða í vötnum sem ég hafði ekki prófað áður. Þeirra á meðal var Arnarpollur, sem eftir sumarið er orðinn eitt af mínum uppáhalds. Fallegt umhverfi og mikilúðlegir urriðar sem leynast þar í dýpinu. Sú fluga sem gaf mér jómfrúarfiskinn í vatninu var úr smiðju Stefáns Hjaltested. Mikill Nobbler, brúnn og eins og Stefáns er von og vísa, haganlega hnýttur. Án þess að slá því endanlega föstu, þá held ég að þetta hafi verið fyrsti brúni Dog Nobblerinn sem ég hef veitt á um ævina og það var enginn smá fiskur sem lét glepjast af honum. Sá brúni hefur verið mér hugleikinn alla tíð síðan, bæði Nobblerinn og urriðinn, og þegar ég rakst á mynd af flugu sem Nýsjálendingar nota töluvert í urriða, þá sá ég heilmikil not fyrir töluvert af fjöðrum hringfasanans gamalkunna.

fos_mrssimpson_big
Mrs. Simpson

Við fyrstu sýn virðist ekki mikið mál að hnýta slatta af fasanafjöðrum á öngul, en þessi fluga leynir töluvert á sér og það tók mig nokkrar tilraunir að ná henni þokkalegri. Ein útgáfa hennar verður örugglega með keiluhaus. Og hvar ætla ég henni fyrst í vatn? Jú, Arnarpollur í Veiðivötnum fær heiðurinn ef að líkum lætur. Uppskriftin og saga flugunnar kemur svo hér inn á síðunni á næstunni.

Vangaveltur um hnýtingar

Það líður nú ekki langur tími frá því veiðitímabilinu lýkur þangað til hugurinn leitar á veiðislóðir aftur. Þetta árið held ég að það hafi tekið innan við hálfan mánuð frá því ég fór síðasta að veiða, að ég fór að hugsa til næsta sumars. Auðvitað er þetta bara brjálæði, en ég hef þó þessa vefsíðu til að fleyta mér yfir köldustu mánuðina og ylja mér við endurminningar liðins sumars.

Á næstu dögum fer maður að taka til á hnýtingarborðinu, setja saman einhver gáfulegan lista til að hnýta eftir og ráðast á eitthvað af hnýtingarefninu sem maður hefur sankað að sér í haust og það sem af er vetrar. Ég er reyndar fyrir löngu farinn að leiða hugann að flugum og þá skaut upp í kollinn á mér hversu mikið viðhorf mitt til fluguhnýtingar hefur breyst frá því ég steig fyrstu skrefin í hnýtingum. Þegar ég byrjaði að hnýta, snérust fyrstu flugurnar um að koma þræðinum á öngulinn án þess að slíta hann í tíma og ótíma, festa einhverjar fjaðrir niður í væng, vefja eða skeggja þær eftir því sem maður treysti sér til og fela síðan fluguna fyrir allra augum. Reyndar á ég ennþá einhverjar af þessum einstaklega ljótu, illahnýttu flugum. Einhver kann að segja að mér hafi lítið farið fram, en ég er alltaf að verða sáttari.

fos_adstada

Síðar tók við það lengsta tímabil sem hefur varað í mínum hnýtingum. Tímabil hinna ítarlegu leiðbeininga sem fylgt var út í ystu æsar og hvergi brugðið frá uppskriftinni. Ég vil reyndar meina að þetta tímabil hafi verið mér holt og ég lært mikið af því. Með tíð og tíma hef ég sannfærst um að flugur verða eiginlega að fylgja ákveðnum reglum til að ganga í augun á silunginum. Vængur á vorflugu á sér sinn rétta stað, skegg þarf að vera rétt vaxið niður og skott má ekki vera úr hófi langt. Eitthvað svipað má segja um púpur, þær þurfa að eiga sér haus, miðju og hala (ef það á við) í þokkalegum hlutföllum. Allar þessar óskráðu reglur hefur maður lært af því að fylgja uppskriftum þekktra flugna í gegnum tíðina og það síast inn hvað gengur og hvað gengur ekki í hnýtingum.

Nú leitar hugurinn aftur til þess að setja mark mitt á flugurnar, hnýta örlítið frábrugðið uppskriftinni í efnisvali eða áherslum, gera flugurnar svolítið að mínum í stað þess sem höfundarnir hugsuðu sér nákvæmlega í upphafi. Ég er ekki að tala um að mínar útfærslur veiði endilega betur en þær upprunalegu, þær eru bara aðeins meira mínar. Samhliða hefur hugurinn leitað á ókunnar slóðir og sífellt oftar hef ég leitað í smiðju lítt þekktra hnýtara eða þá gleymdra flugna og gefið þeim nýtt líf í boxinu mínu. Nú kann einhver að segja að það þurfi ekki sífellt að finna upp nýjar flugur, þær hafi þegar komið fram sem veiða og það er mikið til í því. En þá færi nú fyrst að hilla undir leiðindi við hnýtingarnar ef maður hnýtti aðeins Pheasant Tail og Peacock.

Er tími hreinskilni liðinn?

Það er langt því frá að þær flugur sem spretta af minni hnýtingarþvingu séu einhver listaverk en þær eru alls ekki þær verstu sem hafa sést, þó ég segi sjálfur frá. Ég fylgist með mörgum hnýturum á veraldarvefnum og í tímaritum og smátt og smátt hefur maður tekið ástfóstri við handbragð nokkurra þeirra, ekki endilega hvaða flugur þeir hnýta, heldur hvernig þeir hnýta. Þetta eru snillingar í sínu fagi, nákvæmir í vinnubrögðum og hreinn unaður að horfa á afrakstur þeirra. Þessum hnýturum hrósar maður, spyr þá ráða um aðferð eða handbragð og þeir svara yfirleitt uppbyggilega eins og sönnum heiðursmönnum og konum er lagið.

Mér hefur líka þótt áhugavert að fylgjast með nokkrum hnýturum sem ég hef talið vera byrjendur. Sumir þeirra eru duglegir að pósta myndum af flugunum sínum, aðrir eitthvað feimnari eða á ég að segja; þeir veigra sér við að sýna verkin sín. Ég skil sumar þessara hnýtara mæta vel því sumar athugsemdir (komment) sem settar eru við myndirnar eru heldur óvægnar. Reyndar bíður mér svo í grun að einhverjar þeirra séu meira settar fram í gríni heldur en alvöru, en stundum er erfitt fyrir ókunnugan að gera sér grein fyrir glensinu á milli vina.

Eitthvað mjög rangt við þessa
Eitthvað mjög rangt við þessa

Ég varð eitt sinn vitni að því að hnýtari setti mynd af flugu á spjallsíðu og fékk einstaklega alúðleg viðbrögð við henni. Reyndir hnýtarar gáfu honum ágæt ráð um breytingar sem hann gæti gert, hlutföll eitthvað einkennileg, hausinn heldur stór, vængur allt of stuttur o.s.frv. Eftir þrjár ábendingar kom heldur snubbótt svar frá unga hnýtaranum; Mér finnst hún fín svona!. Æ, þarna brást einhverjum bogalistinn í ábendingum, hugsaði ég og renndi yfir það sem skrifað hafði verið. Ég fann að vísu ekkert særandi eða dónalegt, allt uppbyggilegar athugasemdir sem ég sjálfur hefði þegið þegar ég var að byrja að hnýta. Engu að síður lét ungi hnýtarinn ekki við þetta svar sitja, heldur fjarlægði fluguna af spjallsvæðinu og hefur ekki átt innlegg þar síðan.

Ófögur fluga eftir höfundinn

Ég veit aftur á móti að þessi fyrrum ungi hnýtari er enn iðinn við kolann. Hann hnýtir mikið, veigrar sér ekkert við að hnýta heilu seríurnar af þekktum silunga- og laxaflugum, en því miður eru margar þeirra ennþá heldur óásjálegar. Auðvitað skiptir mestu að hann sé sáttur við sínar flugur, en hefði hann ekki nema tekið örlítið mark á ábendingunum, þá væru flugurnar hans í dag örugglega snöggtum fallegri á að líta. Mikið vildi ég að ég hefði fengið þær ráðleggingar sem honum voru boðnar hér um árið, þá væri ég ekki með hálfan vegginn í horninu mínu fullan af ljótum flugum. Ég vona að tími hreinskilni og vinsamlegra athugasemda sé ekki liðinn, það væri synd ef reyndari hnýtarar hættu að leiðbeina þeim ungu og óreyndu. Og að sama skapi, þá hvet ég byrjendur til að taka fagnandi ábendingum sem þeim eru boðnar, það getur verið erfitt að kyngja þeim til að byrja með, en það borgað sig margfalt þegar fram líða stundir.

Augað upp eða niður

Ekki alls fyrir löngu átti ég gæðastund með nokkrum hnýturum úti í bæ þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, innan flugufræðinnar þó. Mér finnst alltaf jafn gaman að eiga svona stundir og eins og gerist, þá teygðist á umræðuefninu í allar áttir og ýmislegt ber á góma. Meðal þess sem kom upp í þessari heimsókn minni var spurningin um það hvers vegna sumir önglar væru með augað uppsveigt og aðrir með það niðursveigt, já eða beint af augum.

Ég vona að ég hafi komið þessu þokkalega frá mér og þegar heim kom, þá tékkaði ég til vonar og vara í mínu efni hvort ég hefði ekki farið með rétt mál. Það er reyndar erfitt að segja að einhver rétt skýring sé á þessum mun króka. Sumir spekingar vilja meina að það sé í raun enginn munur á þessum önglum, þetta snúist miklu meira um smekk og venjur veiðimanna heldur en einhverjar rökréttar skýringar. Sjálfur hallast ég nú frekar að skýringum eðlisfræðinnar sem segja mér að þegar taumurinn togar í krók með uppsveigt auga, þá færist þyngdarpunktur flugunnar framar og aftari hluti flugunnar lyftist meira heldur en sá fremri, þ.e. flugan heldur sér því næst 180° í vatninu þótt hún rísi aðeins í vatnsbolnum. Sem sagt; slíkar flugur synda lárétt í vatninu. Nú veit ég ekkert hvort laxmenn séu viljandi að sækjast eftir þessu, en þær flugur sem kallaðar hafa verið laxaflugur eru yfirleitt hnýttar á króka með uppsveigt auga. En þarna getur svo sem einhver hefð verið að kallast á við eðlisfræðina.

fos_ongulaugu

Þegar flugur eru hnýttar á króka með niðursveigt auga, snýst dæmið aftur á móti við. Þyngdarpunktur flugunnar færist aftar, hausinn rís meira heldur en skottið og því stefna þessar flugur meira í áttina upp að yfirborðinu, á móti afli taumsins.

En hvað þá með króka sem horfa beint af augum? Jú, átak taumsins kemur beint á krókinn og þyngdarpunkturinn færist næstum ekkert til, þær fljóta í láréttu plani og því hafa margir valið þessa króka í þurrfluguhnýtingar.

Nafnavenjur

Rétt eins og fleiri veiðimenn er ég farinn að leiða hugann að hnýtingum í vetur. Þessa dagana kemur það reyndar sífellt oftar fyrir að ég setjist niður við hnýtingarþvinguna og setji í eins og eina eða tvær flugur, ekkert endilega til að eiga, oftar til þess að prófa einhverja aðferð eða þá heila flugu sem ég hnýt um við lestur veiðitímarita. Í framhjá hlaupi má geta þess að töluverður fjöldi veiðitímarita er aðgengilegur hér á síðunni undir Vefrit og oft er að finna nýjar flugur inni á milli þekktari flugna í þessum tímaritum.

Ég hef verið að skoða svolítið s.k. soft hackle flugur upp á síðkastið. Þetta eru eiginlega flugurnar sem hófu þetta allt saman, ekki hjá mér heldur fluguveiði í árdaga þannig að þær eiga sér afskaplega langa sögu. Það eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvort soft hackle flugur séu sérstakur flokkur eða bara tegund af votflugum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda, einfaldlega vegna þess að það er oftar en ekki erfitt að gera greinarmun á hefðbundinni votflugu og soft hackle flugu.

Skemmtilegt staðreynd um soft hackle flugur er venjan sem skapast hefur um nafnagiftir þeirra. Nöfn þeirra eru yfirleitt samsett úr tegundarheiti fjaðrarinnar sem notuð er og litarins á búknum. Partridge and Green til dæmis er einfaldlega akurhæna og grænn búkur. Mér til mikillar ánægju voru menn ekkert endilega að velta sér upp úr því hvaða hráefni var notað í þessar flugur, ef hringvafið var úr akurhænu og búkurinn var grænn, þá var þetta Partridge and Green, ef búkurinn var appelsínugulur þá var þetta Partridge and Orange. Þess má geta að margar af upprunalegu soft hackle flugunum hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem hefðbundnar votflugur með væng, skotti og skeggi.

Composit - Mynd fengin að láni af www.classicflytying.com/
Composit Soft Hackle – Mynd fengin að láni af http://www.classicflytying.com

Eins og sjá má af myndum þá eru þessar flugur einstaklega sparneytnar á hnýtingarefni og ákaflega einfaldar í útliti. Þetta telur Sylvester Nemes, höfundur The Soft Hackle Fly Addict einmitt vera mesta kost þessara flugna. Ekkert prjál, einfaldar í hnýtingu og ákaflega veiðnar, að hans sögn. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af flugum sem þessum, það sem ég kemst næst reynslu af þeim eru þær votflugur sem ég hef hnýtt og notað sem hnýttar eru með hringvafi úr hænufjöður. Dettur mér þá fyrst í hug nokkrar Pheasant Tail sem ég hnýtti um árið og nota enn mikið. Að vísu skemmir það formúluna algjörlega að þær eru með kúluhaus og kannski full mikið af hráefnum í þeim. Búkurinn er of sver og allt of mikið í hann sett þannig að þær gætu talist til soft hackle flugna. Strangtrúarmenn í þessum fræðum vilja meina að búkurinn eigi að vera afskaplega grannur, vafningar ekki fleiri en þrír hringir og að hámarki þrjár tegundir hráefnis í honum.

Pheasant Tail með mjúkum kraga
Pheasant Tail með mjúkum kraga

Upphaflega voru algengustu fjaðrirnar sem notaðar voru í soft hackle flugur einmitt algengar, þ.e. þær sem féllu til þegar menn voru á fuglaveiðum og þá helst af akurhænu, hrossagauk, skógarhænu, fasana eða skógarsnípu. Það er næsta víst að maður yrði litinn hornauga ef maður mætti með hnakka af hrossagauk á hnýtingarkvöld í vetur.

Getur einhver átt flugu?

Við erum eflaust margir sem fylgjumst með veiðifréttum hinu megin af hnettinum, t.d. Nýja Sjálandi. Um daginn hnaut ég um skemmtilega samantekt á mögnuðum flugum í vorveiðina, vorið var einmitt að ganga í garð hjá þeim þarna hinu megin um daginn. Ein flugan þar snart mig sérstaklega, ekki vegna þess að hún kæmi mér á óvart, öðru nær.

Flugunni var lýst nokkurn veginn þannig að hún væri oftast hnýtt í stærð 10 til 18, alltaf með kúluhaus þannig að hún væri meira áberandi í vatninu og ætti auðveldara með að komast til botns, sérstaklega ef hnýtt með tungsten kúlu. Skoppandi eftir botninum, líkti hún m.a. eftir vorflugulirfu og væri ómótstæðileg í augum urriðans. Í greininni var heimavöllur flugunnar sagður Nýja Sjáland þar sem urriðinn væri almennt talinn með fælnustu fiskum sem fyndust í lífríkinu.

Það laumaðist örlítið glott á mig þegar nafngreindum höfundi flugunnar var hrósað fyrir einfaldleik hennar og bráðdrepandi áhrifum á urriðann. Sem sagt, þarna hinu megin á hnettinum gengur þessi nýja fluga undir nafninu Hare and Copper og lítur svona út:

fos_hareandcopper

Ef hún kemur einhverjum kunnuglega fyrir sjónir, þá er það trúlega vegna þess að hér heima gengur þessi fluga undir heitinu Hérinn og er hreint ekki ný af nálinni. Á prent komst þessi fluga fyrst árið 2009 í bókinni Silungaflugur í náttúru Íslands þar sem Jón Aðalsteinn Þorgeirsson segir hana alltaf veiða.

fos_herinn_big

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þetta afbrigði af Héraeyra væri einhver heimatilbúningur okkar á norðurhjara, en vitaskuld þarf það ekki svo að vera. En eitt er víst, þetta er hreint ekki ný fluga af nálinni og tæplega hægt að eigna hana einhverjum einum hnýtara. Þessari flugu, rétt eins og svo mörgum öðrum, hefur skotið niður í kollinn á einhverjum góðum manni og það sem getur skotist í kollinn hjá einum, getur alveg eins skotist í koll annars án þess að nokkur tenging sé þar á milli.

Stundum velti ég því fyrir mér hve margir hnýtarar hafi dundað við nýja, stórkostlega flugu sem raðar inn fiskum en síðar komist að því að einhver Jón eða John hefur þegar útfært sömu fluguna og jafnvel fengið einkaleyfi á henni. Hversu súrt ætli það sé?

Afmæliskveðja

Þegar svo bregður við að flugur eiga 20 ára stórafmæli er ekki úr vegi að rifja upp sögu þeirra. Ekki síst þegar um er að ræða einfalda, skæða og vinsæla flugu sem vel flestir veiðimenn þekkja. Afmælisbarnið heitir BAB en margir þekkja hana sem Kibba eða jafnvel Orminn Kibba. Það var Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni sem smellti þessu upprunalega nafni á fluguna eftir að höfundur hennar hafði unnið Íslandsmótið í silungsveiði árið 2000. Mótið sótti Björgvin A. Björgvinsson með þessa óþekktu 4. ára flugu í farteskinu og bæði hann og flugan uppskáru verðskuldaða athygli og aðdáun á mótinu.

BAB eins og hún kom mönnum fyrst fyrir sjónir – Ljósm. Björgvin Björgvinsson

Einhverra hluta vegna vildi upprunalega nafn flugunnar ekki festast við hana, nema þá helst hjá kunningjum Björgvins og sérlegum vinum flugunnar sem gáfu henni gæluheitið Babbinn og undir því heiti hefur hún verið skráð fyrir óteljandi fiskum í veiðibókum við Laxá í Mývatnssveit, Brúará og víðar.
Aðspurður tjáði Björgvin mér að flugan ætti uppruna sinn að rekja til ársins 1996 þegar hann setti fyrstu útgáfu hennar saman og prófaði þá um sumarið. Ungdómsárum sínum eyddi flugan síðan í nokkrum útfærslum í boxi Björgvins, prófuð reglulega, betrumbætt, prófuð enn og aftur og þannig koll af kolli þar til Björgvin var orðinn ánægður með útlitið og ekki síst lögun flugunnar og hegðun í vatn. Eins og áður segir, kom hún fyrst opinberlega fram á sjónarsviðið þegar Björgvin hafði landað Íslandsmeistaratitlinum árið 2000. Svo dult fór Björgin með fluguna að ekki einu sinni mótshaldarar sá til hennar fyrr en í lok keppninnar.

BAB úr mínum væs
BAB úr mínum væs

Eins og sést á meðfylgjandi myndum er flugan einstaklega nett og tiltölulega létt þótt hún sé með kúluhaus. Björgvin notar fínt vínylrip í fluguna og hefur hnýtt hana smæsta á krók #16. Til að koma flugunni niður í straumvatni hefur hann gjarnan notað hana sem afleggjara með mun þyngri flugum. Sjálfur hef ég laumast til að hnýta hana nokkuð þyngri, jafnvel úr sverari vínyl og notað hana á mun styttri taum heldur en Björgvin gerir. Þetta eitt segir okkur að flugan er einstaklega veiðin, hvernig svo sem menn beita henni. Kannski fellst styrkur hennar einmitt í einfaldleikanum og því hversu alhliða hún hefur reynst mönnum.

Það má með sanni segja að þetta afmælisbarn eldist einstaklega vel og það er vart til það flugubox sem ekki inniheldur einhverja útgáfu hennar; fínt vínyl, svert vínyl, grubber eða beinn, það virðist vera alveg saman hvernig menn hnýta hana, hún einfaldlega gefur. Takk, Björgvin A. Björgvinsson (BAB) fyrir þessa frábæru flugu.

Pensill eða nál

Það er nokkuð misjafnt hvernig menn ganga frá haus á flugu, þ.e. lakka hann. Sumir nota aðeins nál sem þeir dýfa í lakkið og renna síðan í hring um hausinn og ná þannig heilli lökkun með einu handbragði. Aðrir hafa paufast þetta með nálina í nokkrum atrennum, þar á meðal ég, á meðan enn aðrir nota lakkpensil og lakka hausinn í einni til tveimur strokum.

Nál og pensill
Nál og pensill

Eitt er það þó sem getur auðveldar mönnum verulega lökkunina og það er hnýtingarklemma sem hægt er að snúa flugunni í, þ.e. heilan hring þannig að nálinni eða penslinum er haldið kjurum við hausinn og flugunni snúið. Eftir að hafa klaufast við þetta í nokkur skipti er maður nokkuð fljótur að komast upp á lagið og nær þá einni umferð í einu handtaki.

Beygja og kreppa

Þegar ég hnýti t.d. tinsel í skott á flugu, þá nota ég í það minnsta tvöfalt efnið þar sem því verður komið við. Það er náttúrulega hægt að hnýta hvern þráð fyrir sig en þá er hætt við að hnýtingin verður of klunnaleg þegar allir fjórir til fimm strimlarnir eru komnir niður á búkinn. Þess í stað tek ég efnið niður í ríflega tvöfalda lengd skottsins, hnýti það beint niður á búkinn og brýt það aftur til að ganga frá því. Með þessu móti festist efnið betur niður og það þarf færri vafninga af hnýtingarþræði til að tryggja það. Að vísu eru til þær flugur sem þessu verður ekki viðkomið, en þær eru fáar og það lærist fljótt af endingu flugnanna hver þeirra hefur verið hnýtt með tryggu skrauti og hver ekki.

Beygja og kreppa
Beygja og kreppa

Ofgnótt af þræði

Það hefur alveg farið það orð af mér að ég sé helst til nískur og nýtinn, en þegar kemur að hnýtingarþræði hef ég frekar verið fullur vantrausts á þessum auma spotta sem notaður er í flugur. Trúlega hef ég verið allt of duglegur að nota hnýtingarþráð í gegnum árin, notað allt of mikið af honum og verið helst til mikill groddi.

Hér hefði nú mátt spara í vængfestingu og haus
Hér hefði nú mátt spara í vængfestingu og haus

Góður hnýtingarþráður er ótrúlega sterkur, meira að segja einn og stakur, svo ekki sé talað um þegar þrír til fimm vafningar koma saman. Ég hef mér það til málsbóta að það eru trúlega algengustu mistök hnýtara að nota of mikinn þráð, bæta einum til tveimur vafningum við, setja hnút og svo annan til að vera alveg öruggur. Þetta á sérstaklega við þegar maður er að vinna á einum og sama punktinum á flugunni með nokkur hnýtingarefni. Oft vill þá brenna við að maður full-hnýtir fyrsta efnið niður, bætir svo öðru eða tveimur ofaná og vefur allt til fullnustu og hnýtir allt of marga hnúta á milli efna.

Þegar ég fór að spara vafningana, notaði aðeins einn til tvo fyrir hvert efni og lét það eiga sig að hnýta half hitch á milli, þá fóru flugurnar mínar að verða töluvert rennilegri svo ekki sé talað um fallegri. Síðustu hnútana í hverja flugu spara ég að vísu aldrei, þeir verða að vera tryggir því lakk herðir ekki hnút, það heldur honum ekki einu sinni saman ef hann er lélegur.

Ekki snurfusa of mikið

Þegar ég byrjaði að hnýta var ég sífellt með skærin á lofti, klippti, klippti meira og snurfusaði svo enn og aftur áður en ég hnýtti næsta efni á fluguna. Auðvitað er þetta misjafnt eftir flugum, sumar eru það efnislitlar að allt sem talist getur ofaukið verður að hverfa, en sumar flugur þarf alls ekki að snyrta eins og ég gerði áður.

Óklipptur Nobbler
Óklipptur Nobbler

Nefnum sem dæmi Dog Nobbler. Bústinn vöndull af marabou í skott skilur auðvitað eftir sig heilan helling af efni þegar maður er búinn að hnýta skottið eðlilega niður. Til að byrja með tók ég upp skærin og klippti allt umfram efni frá þegar skottið hafði verið hnýtt tryggilega niður. Svo tók heilmikið vesen við að byggja búkinn, ná honum þéttum og bústnum eins og ég vil hafa hann. Fljótlega fór ég þó að stytta mér leið með allt þetta efni. Eftir að hafa hnýtt skottið niður, tryggt það vendilega og jafnvel lakkað í hnútana, lagði ég restina af storkinum einfaldlega fram eftir flugunni, hnýtti hann niður fyrir framan augu og þá fyrst klippti ég af. Þ.e.a.s. ef eitthvað var eftir af fjöðrinni.

Með þessu móti var einfaldara að hnýta vöf eða vír niður á búkinn, klára svo fluguna með nokkrum einföldum vafningum af búkefni og ganga frá við hausinn. Þessa aðgerð nota ég við fjölda flugna í dag og ef eitthvað er, þá hafa þær enst mér betur svona.

Efnisþörf

Eins og lesendum ætti að vera kunnugt um, þá leiðist mér ekki að hnýta flugur. Þetta er svo sem engin stórframleiðsla, en yfirleitt þarf ég að hnýta þetta 6 nothæfar flugur í þremur stærðum, þrjár fyrir mig og þrjár fyrir veiðifélagann.

Efnið klárt í þrjár flugur
Efnið klárt í þrjár flugur

Þegar ég hef dundað mér við fyrstu fluguna, prufustykkið, þá veit ég nokkurn veginn hvað ég þarf af efni í næstu eintök og þá raða ég gjarnan því efni sem til þarf á mottuna mína þannig að það sé innan seilingar. Sumt efni klippi ég strax niður, annað tek ég úr stömpum og af spólum eftir þörfum. Mér skilst að sumir gangi svo langt að hreinsa allar fjaðrir af dún áður en þær eru notaðar í hnakka eða vöf en það geri ég sjaldnast. Vængfjaðrir reyni ég aftur á móti að klippa niður og para saman fyrirfram þannig að þær séu klárar þegar kemur að notkun. Það sparar ótrúlegan tíma að græja þær allar á einu bretti og vængirnir ættu að verða fallegri ef maður gefur sér góðan tíma í að para fjaðrirnar rétt.

Gefðu þér tíma

Enginn verður óbarinn biskup – Ekki er flas til fagnaðar – Góðir hlutir gerast hægt og svo má lengi telja alla málshættina sem ættu að fá menn til að slaka á og fara sér hægt. Ég hallast reyndar alltaf meira að; Það er ekki eftir neinu að bíða, en hinkrum nú samt aðeins við.

Enginn asi á þessari
Enginn asi á þessari

Þegar ég set í nýja flugu eða einhverja sem nokkuð er um liðið frá því ég hnýtti síðast, hef ég þann háttinn á að fara mér hægt, mjög hægt. Fyrir kemur að ég bakki meira að segja til baka í miðri flugu, reki upp eða losi eitthvað sem ég hef þegar fest, bara til þess að reyna aðra aðferð eða röð á efni ef ske kynni að sú aðferð sparaði mér tíma og/eða efni þegar ég byrja síðan í alvöru að hnýta þau eintök sem þarf. Svo nota ég oft fyrstu fluguna til að mæla það magn af efni sem ég vil hafa í henni, stundum þarf að taka af væng, minnka dubb eða spara í haus flugunnar þannig að hún verði ekki eins og fílamaðurinn þegar búið er að lakka hausinn.

Allt þetta káf á mér við fyrstu fluguna verður vitaskuld til þess að hún verður heldur óásjáleg, illa hnýtt og endist örugglega ekki nema í einn eða tvo fiska. En, þetta verður samt yfirleitt til þess að ég spara mér tíma og hnýtingin verður öruggari þegar kemur að flugum nr. 2 – 7 sem fylgja yfirleitt í kjölfarið. Sjáið til, yfirleitt þarf ég nefnilega að hnýta fyrir tvo veiðimenn og leiðist það ekki.

Skipulag

Yfirleitt er það nú þannig að þeim sem sæi hnýtingaraðstöðuna mína dytti eflaust í hug að ég sé algjörlega laglaus. Í það minnsta fer ekki mikið fyrir þessu Skipu-lagi hjá mér þegar ég er að hnýta en áður en ég hefst handa horfir öðruvísi við. Þetta tek ég fram hér í upphafi nokkurra greina sem ég hef tekið saman um æskileg vinnubrögð við fluguhnýtingar. Myndirnar sem ég tók fyrir þessar greinar voru auðvitað teknar eftir rækilega tiltekt og snurfus á hnýtingarborðinu mínu, en þetta skipulag vill oft hverfa eins og dögg fyrir sólu eftir nokkrar flugur og við tekur mjög vel skipulagt kaos.

Allt í röð og reglu
Allt í röð og reglu

Yfirleitt er það nú svo að ég skipulegg hnýtingarnar mínar með smá fyrirvara, tek til á borðinu og raða áhöldum, koppum og kirnum á sinn stað þannig að ég viti nákvæmlega hvar hvað er þegar ég set í fyrstu fluguna. Ég nota mottu, gjarnan aflagða músamottu á röngunni, fyrir þær græjur sem ég þarf í viðkomandi flugu. Þá þarf ég ekki að kippa græjunum upp úr svampinum, þar sem þær eiga heima að öllu jöfnu og þá eru þær á vísum stað. Trúlega er ég með einhvers konar brest, afbrigði sem ég kann ekki að nefna, því ég vil helst hafa græjurnar alltaf í sömu röð. Lengst til vinstri er keflishaldarinn, svo skærin sem ég nota í vír og tinsel, síðan kemur nálin mín og svo skæri fyrir hnýtingarþráð og fjaðrir. Ef ég held mig við þessa röð í gegnum heila flugu, þá þarf ég aldrei að líta upp úr stækkunarglerinu til að finna það áhald sem ég þarf í það og það skiptið.

Þetta ráð, eins og með svo mörg önnur, er auðveldara að gefa heldur en ástunda. En hafi maður þetta í huga áður en lagt er af stað, þá er aldrei að vita nema það skjóti þannig rótum að það venjist.

Að kíkja upp undir

Þegar maður hnýtir straumflugu, þá horfir maður oftast á hlið hennar og reynir að hnýta hana sem líkasta hornsíli eða ungviði, einhverju sem er á matseðli fisksins. En hversu oft hafa menn tekið væsinn og snúið honum að sér þannig að horft sé aftan á fluguna? Sjálfur get ég sagt með fullri vissu að það hefur aldrei komið fyrir mig. Ég glápi á fluguna frá hlið, kíki undir hana, ofaná og mögulega athuga ég hausinn sérstaklega, en aldrei kíki ég upp undir hana aftan frá.

Það er eitthvað bogið við þetta allt saman. Straumfluga á að líkja eftir smáfiski. Smáfiskar hræðast stærri fiska og það er aðeins í augnablik sem smáfiskurinn horfist í augu við þann stóra, svo snýr hann sporðinum í hann og reynir að forða sér, allt hvað af tekur. Sjónarhorn stóra fisksins er því aftan á smáfiskinn, ekki á hlið eða ofan á.

Urriðaseiði
Urriðaseiði

Mér hefur alltaf þótt Black Ghost vera einhver fallegasta straumfluga sem til er. Þar fer smekkur minn og laxfiska saman. Eggjandi kinnarnar úr fjöðrum frumskógarhanans setja mikinn svip á fluguna, rétt eins og á Dr.Burke eða Dentist ef hann er í sparifötunum. En þessar kinnar eru ekki aðeins flottar séðar frá hlið. Þegar straumfluga með kinnum er á flótta undan svöngum silungi, leggjast kinnarnar að búknum og rétta úr sér á víxl, rétt eins og eyruggar sílisins þegar það reynir í örvæntingu að forða sér.

Næst þegar ég hnýti straumflugu ætla ég að kíkja upp undir hana að aftan og athuga hvort kinnarnar standi hæfileg út í loftið, hvort fjöðrin í vængnum rísi nægjanlega til að líkja eftir bakugganum og síðast en ekki síst, er skottið á flugunni eitthvað í líkingu við sporðinn sem gengur fram og til baka þegar smáfiskurinn forðar sér. Ef allt gengur upp, þá er ég með flugu í höndunum sem silungin langar í.

Flugur á floti

Svona getur farið þegar maður missir sig alveg út í eðlisfræðina út frá þurrfluguhnýtingum: Ég var svo sem búinn að læra þetta í barnaskóla og aftur í framhaldinu og þannig búinn að gera ýmsar tilraunir með yfirborðsspennu vatns. Við þekkjum yfirborðsspennuna sem kúfinn á yfirfullu glasi, vatnsdropa og … það sem gerir skordýrunum kleift að setjast á vatnið, þ.e.a.s. þeim sem eru ekki of þung.

En hverju skiptir þetta okkur veiðimennina máli? Er ekki allt vatn jafn blautt og ber það ekki alltaf sömu pöddurnar uppi? Nei, ekki aldeilis. Heitt vatn er t.d. miklu blautara heldur en kalt, þ.e. yfirborðsspenna vatnsins er lægri í heitu vatni heldur en köldu. Þetta gerir heitt vatn hentugra til þvotta heldur en kalt og kalda vatnið hentugra til þurrfluguveiði heldur en það heita. Einmitt þarna vaknaði áhugi minn fyrir alvöru. Hversu miklu munar hver gráða í vatnshita? Áhrif hita á yfirborðsspennu vatns eru nokkur og skýtur enn frekar stoðum undir það að við ættum ekki að láta undir höfuð leggjast að prófa þurrfluguna í öðru veðri en því sem gengur undir viðurnefninu ‚þurrfluguveður‘, þ.e. sól og hita.

En það er ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á yfirborðsspennu vatns. Sápa og leysiefni minnka yfirborðsspennu verulega, raunar svo mjög að sápuleifar frá síðustu þrifum línu og taums geta orðið til þess að sökkva þurrflugunni þinni. Klausan að skola línuna vel úr volgu, hreinu vatni að þrifum loknum er ekki alveg út í hött. Svo er alls ekki saman hvaða línubón er notað, ef þá nokkuð.

Spenntar þurrflugur
Spenntar þurrflugur

Of þungar flugur?

Trúlega legg ég nokkrar vikur á hverjum vetri undir í tiltekt í bókarmerkjum internetvafrans míns. Ekki alls fyrir löngu fór ég í gegnum greinar sem ég hafði bókamerkt fyrir einhverjum árum um hönnun flugna. Mögulega hefði ég átt að vera búinn að lesa þessar greinar áður en ég fyllti á fluguboxin mín fyrir sumarið, en betra er seint en aldrei.

Það sem vakti einna helst athygli mína var sá samhljómur sem vatnaveiðimenn höfðu uppi um of þungar flugur. Ég, eins og væntanlega margir aðrir, hef helst horft til þess að þyngja flugurnar mínar frekar en nota hæg- eða hraðsökkvandi línur eða tauma þegar á að koma flugunni niður. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að koma flugunni hratt og örugglega niður þangað sem fiskurinn liggur? En getur verið að við séum að hugsa hraðar heldur en fiskurinn? Þegar kemur að því að koma púpu niður í vatnið þurfum við mögulega ekki að þyngja fluguna neitt mikið. Þess í stað gætum við sneitt utan af flugunni alla óþarfa, sem oft er meira fyrir okkur gert heldur en fiskinn. Efnisminni óþyngdar flugur sökkva oft alveg eins vel og þær bústnu sem við höfum þyngt um einhver grömm með blýi eða kopar. Og það sem meira er, þær sökkva á mun eðlilegri hraða heldur en þær sem við höfum þyngt sérstaklega.

Ég get auðveldlega samsvarað mig með þeim sem telja að ofur-þyngdar flugur hafi frekar orðið til fyrir óþolinmæði veiðimannsins heldur en fiskinn á botninum. Óþolinmæði okkar veiðimannanna eftir því að fluga sekkur niður á æskilegt dýpi er oftar en ekki ástæða þyngdra flugna í vatnaveiði og hefur tíðkast lengi. Þegar hegðun slíkra flugna í vatninu er aftur móti skoðuð þá kemur oftar en ekki í ljós að hreyfing hennar þegar við drögum inn verður heldur hjákátleg í skásta falli, oftast óaðlaðandi í augum fisksins. Og svona til að setja þetta í eitthvert samhengi við það sem árstíðin bíður upp á, þá er engin spurning að þungur vörubíll étur sig betur niður í slyddu heldur en léttur smábíll, ekki satt? En því verður nú ekki á móti mælt að vörubíllinn er mun þunglamalegri heldur en smábíllinn. Ætli skordýrin í vatninu eigi ekki örlítið meira sameiginlegt með hreyfingum smábíls heldur en 12 tonna vörubíls.

Næsta sumar ætla ég að vera duglegri að prófa óþyngdar, rennilegar púpur og sjá hvort þær veiði eitthvað minna heldur en þær sem eru í yfirþyngd, þ.e.a.s. ef ég nenni að bíða eftir að þær sökkvi.

Nokkrar rennilegar Higa's SOS
Nokkrar rennilegar Higa’s SOS

Hinn svarti

Nobbler - hvítur
Nobbler – hvítur

Alveg eins og það er til vinstri og hitt vinstri hjá sumum, þá er til svart og hitt svart hjá einstaka veiðimanni. Margur hefur gert góða veiði með hvítum Dog Nobbler að vori þegar honum er brugðið fyrir svangan urriða á björtum degi. Hjá mér hafa það verið þeir með silfruðu tinsel sem hafa gefið helst rétt fyrir ljósaskiptin eða síðla dags. Svart er til í ýmsum litum.

Svo eru það ítölsku græningjarnir, ólívugrænir Nobblerar. Einhverra hluta vegna verða þeir að vera vafðir með gul-brúnni náttúrlegri fjöður og með gyltu tinsel í skottinu, annars gefa þeir mér ekkert. Þessa nota ég þegar rökkrið hefur náð að læðast aftan að mér eða dumbungur og rigning vomir yfir.

Að lokum, þ.e. þegar veiðidagur er kominn að kveldi, þá færi ég mig aftur í upprunalega svarta litinn, þennan dökka og þá snýst tinselið aftur í silfrað.

Var einhver að tala um tiktúrur í fluguveiðinni?

Nú verður það svart, maður

Nobbler - svartur
Nobbler – svartur

Þegar veiðimenn eru spurðir hvaða flugur þeir noti að vori, eru svörin oftar en ekki ‚stór og svört‘. En af hverju? Jú, lirfur ýmissa skordýra sem orpið var síðasta haust hafa haft allan veturinn til að éta og fita sig í vötnum. Sumir segja í ró og næði á meðan fiskurinn hefur haldið sig til hlés og slakað á í köldu vatninu síðustu vikur og mánuði, en það er ekki endilega víst. Það er ekki alveg allur fiskur sem hefur verið í megrun í vetur, eins og ísdorgarar hafa verið að sanna síðustu vikur. Margur fiskurinn er feitur og pattaralegur allan veturinn og því hlýtur hann að vera í æti.

Svart er vissulega liturinn á fjölda lirfa, en aðrir litir koma einnig sterkir inn í flugunum. Rauðar, einar sér eða í bland við jarðarlitina eru einnig alveg inni. Blóðrauði, frostlögurinn í pöddunum, verður til staðar næstu vikurnar eða alveg þangað til vötnin hafa hitnað upp að 5°C. Í dýpri og kaldari vötnum er blóðrauðinn til staðar allan ársins hring og því gengur Blóðormurinn allt sumarið.

En hvað með aðra liti? Jú, það eru til fleiri afbrigði af svörtu.