Flýtileiðir

Líf í vatni

Ef einhver velkist í vafa um það hvað craft fur er, þá er það einfaldlega gervihár sem upprunalega var framleitt í kraga á úlpur, alveg satt. Máttur fluguveiðinnar er aftur á móti slíkur að flest þekkjum við þetta frekar sem hráefni í flugur. Löng, fíngerð hár sem afar margir hnýtarar nota í stað náttúrulegra hára sem oft vilja vera nokkuð óþjál, beinlínis óstýrlát og haldin almennri þvermóðsku þegar maður ætlar að hnýta þau niður.

En það er ýmislegt annað sem aðskilur craft fur og náttúruleg hár heldur en meðfærileikinn. Þegar maður kaupir náttúruleg hár þá er 99,9% öruggt að hárin eru ekki öll jafn löng og það getur tekið töluverðan tíma að jafna þau þannig að úr verði jafn og fallegur vængur á flugu. Þegar það tekst á endanum, þá kemur annar munur þessara efna í ljós; þau eru heldur ekki öll jafn sver sem kemur berlega í ljós þegar hnýtt er niður á krókinn. Grönnu hárin sem kremjast undan þræðinum, jafnvel undan sverari hárum, taka upp á því að standa út í loftið. Klippa eða kippa? Svarið er alltaf klippa. Ef maður kippir í grönnu hárin, þá er eins víst að næstu hár losni þannig að vængurinn er allur í tætlum.

Hvoru tveggja er sjaldan vandamál þegar hnýtt er úr gervihárum. Þau eru öll eins í laginu, bæði hvað varðar sverleika og lengd. Þetta er að vísu sett fram með fyrirvara um ákveðna framleiðendur sem sumir hverjir hafa tekið upp á því að líkja eftir feldi dýrs og raða hárunum á gerviskinnið í raðir með smækkandi hárum yst. Hvers vegna, hef ég ekki hugmynd um og finnst það í raun álíka gáfulegt eins og framleiða gervi bacon. Ef ég þarf styttri hár, þá klippi ég einfaldlega aftan af vöndlinum.

Einmitt, þetta með að klippa gervihár minnir mig á að þau eru ekki hol eða með holrými eins og margt náttúrulegt hár og fljóta því síður. Sumum finnst það kostur, þar á meðal mér, á meðan öðrum hentar það ekki. Gervihár eru heilsteypt og yfirleitt sveigjanlegri heldur en náttúruleg hár af stórgripum. Samanburður gervihárs og t.d. kanínu eða minks er ekki sanngjarn, þar skákar náttúran alltaf gervihárum, ennþá.

Í vetur sem leið, hnýtti ég töluverðan fjölda af hefðbundnum flugum, þ.e. litasamsetningum sem þekktar eru að gefi vel á ákveðnum veiðisvæðum, lesist sem Veiðivötn. Í stað þess að þyngja flugurnar með glannalegum glyrnum frá Grohe eða ótilgreindum vafningum af tungsten þræði, þá hnýtti ég þær léttar úr craft fur á lítið eitt þyngri krók. Ég viðurkenni það fúslega að ég var undir áhrifum af öllum þessum flottu horsílaeftirlíkingum sem tröllriðið hafa netinu undanfarin ár en vildi samt ekki ganga eins langt í dúlleríinu. Það sem ég sóttist eftir var einföld útfærsla, auðhnýtt og endingargóð.

Auðvitað prófaði ég nokkrar útfærslur í vatni hér heima, en það gefur vitaskuld ekki alveg rétta mynd að máta flugu í glasi fullu af vatni. Ég beið því óþreyjufullur eftir sólríkum degi við íslaust, spegilslétt vatn. Slíkt augnablik gafst nú um daginn og ég hélt af stað með tilraunaboxið, vopnaður flot- , intermediate- og heilsökkvandi línum til að sjá með eigin augum hvort flugurnar stæðust væntingar mínar og væru nægjanlega hlutlausar í vatni til að leyfa línunni að stjórna því á hvaða dýpi þær sætu.

Niðurstaðan kom skemmtilega á óvart. Craft fur er lifandi efni í vatni, það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta. Dillandi flugurnar á flotlínu veiddu sig í gegnum vatnið á 10 – 20 sm dýpi. Hefði ég haft örlítið meiri biðlund hefður þær að öllum líkindum náð neðar. Þær sem dingluðu á endanum á intermediate línunni fóru einfaldlega þangað sem ég leyfði línunni að sökkva, rétt eins og þær á heilsökkvandi línunni. Tilraunin lofar góðu; léttari flugur, minni loftmótstaða og lifandi í vatni. Hvenær opnar í Veiðivötnum?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com