Ekki með fullum fimm

Það er löngu sannað að mannskepnan er ekki með fullum fimm. Ég vona að þetta sé ennþá viðurkenndur og þekktur frasi í íslensku máli þótt hann sé ættaður úr dönsku, ef ekki þá bara skjús mí.

Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum ég fór að velta mér upp úr greinum sem fjalla um rannsóknir á sársaukaskyni og tilfinningagreind fiska. Já, þið heyrðuð rétt; tilfinningagreind fiska. Ætli kveikjan að þessu grufli mínu hafi ekki verið einhver umræða um veiða og sleppa, veiða og meiða, agnahald eða ekki.

Ég er nú ekki svo skyni skroppinn að ég hafi ekki álit á framangreindu, en ég er nú einu sinni þannig gerður að ég virðist vera hálfgerður frummaður í þessu öllu. Alla mína ævi hef ég meira eða minna verið að hamast við að tileinka með aukið umburðalyndi gagnvart mismunandi skoðunum manna og lífsviðhorfum. Á sama tíma og mér hefur orðið eitthvað ágengt í þessu, þá hef ég í auknu mæli tekið eftir ágengni og forsjárhyggju þeirra sem aðhyllast aðra skoðun en ég sjálfur geri. Eitt sinn las ég grein eftir einn af þessum pirrings púkum sem láta ýmislegt fara í taugarnar á sér. Hún var eitthvað á þá leið að ef maður segði ekki STOPP við sölumanninn í upphafi, þá reyndi hann að selja þér ömmu sína, jafnvel þó þú eigir þegar tvær sem flestum þykir nú nóg.

Í gegnum tíðina hef ég heldur hallast að því að sleppa því að veiða fiska sem eiga undir högg að sækja heldur en veiða þá og sleppa. Hér á Íslandi erum við svo dásamlega sett að það er enginn skortur á veiðistöðum þar sem fiskistofnar eru í góðu standi og umfram allt sjálfbærir. Það er ekki þar með sagt að ég snerti ekki á því að veiða og sleppa, en ég viðurkenni það fúslega að ég geri það yfirleitt með hálfum huga.

Nei, ég held ekki að fiskar séu með tilfinningagreind en þeir eru með eðlishvöt og hana ekki litla. Eðlishvöt fiska hefur ekki orðið fyrir áhrifum af skoðunum annarra og er því ómenguð og snýst fyrst og fremst um að éta til að stækka og ná því að viðhalda stofninum. Mitt einfalda álit er að ef einhverjar mannanna gjörðir hafa orðið til þess að stefna fiskistofni í hættu, þá ættum við að reyna að leiðrétta þær gjörðir og láta fiskinn í friði á meðan hann réttir úr kútnum.

Með þessu er ég ekki að segja að ég sé á móti sportveiðimönnum sem veiða og sleppa nær öllum fiski sem þeir setja í. Þetta er val hvers og eins og ég virði það val, en á sama tíma frábið ég mér að vera stimplaður sem annars flokks veiðimaður ef ég tek mér í soðið úr fiskistofni sem vel getur séð af nokkrum einstaklingum. Ég á enn eftir að öðlast þá visku að vita fyrir víst hvenær ég hef svo rétt fyrir mér að ég geti lagt öðrum lífsreglurnar út frá eigin skoðun, kannski kemur það ef ég borða meiri fisk. Á meðan verð ég víst að vera einn af þeim sem er ekki alveg með fullum fimm.

Hvað var í fréttum helst?

Þessi greinarstúfur hefur verið að velkjast í hausnum á mér frá því í sumar, allt haustið og það sem af er vetrar. Það er nú alls ekki svo að ég birti hér allt sem mér dettur í hug, en í þetta skiptið var ég staðráðinn í að koma varfærnum orðum að því sem var að veltast í kollinum á mér, hugrenningar um orðaval og orðfæri.

Þannig er mál með vexti að mér fannst nokkuð áberandi í sumar sem leið að veiðimenn og þeir sem um veiði fjalla á opinberum vettvangi fóru að mínu mati nokkru offari í ræðu og rit. Í tímabili einkenndust frásagnir af sleggjudómum og dómhörku, nokkuð sem hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra, fyrir utan kannski eitt skipti sem mér er sérlega minnisstætt. Það var þegar dauðdómur var kveðinn upp yfir vatni einu hér sunnan heiða. Skömmu eftir þessa ótímabæru andlátsfregn varð ég vitni að því þegar Dauðahafsdómarinn setti í og landaði einni stærstu bleikju sem veiðst hefur í umræddu vatni. Bleikjan sú arna er nú uppstoppuð uppi á vegg og ber bæði vatni og veiðimanni fagurt vitni. Síðan þá hefur hver stórfiskurinn veiðst í þessu vatni og ástundun þess verið með ágætum. Það er ekki að illum hug að ég rifja þessa sögu hér upp, þvert á móti. Bæði bleikjan og umræddur veiðimaður eru mér sérstaklega kær, svo ekki sé nú talað um vatnið.

Miðnætti við Hlíðarvatn í Selvogi

Síðasta sumar var með eindæmum óskemmtilegt hér sunnan heiða og uppi á hálendi hvað veðráttu snertir. Margir veiðimenn létu þetta fara í taugarnar á sér eins og vonlegt var. Verst þótti mér þó þegar umræðan snérist úr gæftaleysi á veiðislóð í að vötnin væru tóm, allt svik og prettir og menn fóru að efast um nafngiftir eins og t.d. Veiðivötn, þar veiddist aldrei neitt. Ekki kemur mér til hugar að mótmæla því að sumir dagar gáfu lítið sem ekkert uppi í Vötnum, en það er nú kannski ekki von á öðru þegar vindstyrkur fer vel yfir 10 m/sek. svo dögum skiptir og hitastig dettur á sama tíma niður fyrir 7°C. Kannski er þörf á orðskýringum hér, því orðið gæftaleysi á við um það þegar ekki gefur til veiða og hefur ekkert með ástand fiskistofna að gera. Jú, það var gæftaleysi stöku daga en Vötnin voru ekki fisklaus, á þessu er stór munur.

Miðnætti í Veiðivötnum

Talandi um vatnaklasa og nú einn sem stendur mér töluvert nærri. Um árabil hef ég fylgst með og stundað vötnin sunnan Tungnaár, Framvötnin. Þar hef ég átt óteljandi góðar stundir en mér kemur ekki til hugar að mótmæla því að bleikjunni þar hefur hnignað undanfarin ár. Þetta vita allir sem hafa stundað vötnin, en því má heldur ekki gleyma að á svæðinu eru fleiri vötn en bleikjuvötn sem vissulega þarfnast aðhlynningar og þó fyrst of fremst meiri nýtingar við. Á svæðinu eru einnig vötn sem í áratugi hafa verið þekkt fyrir góð vaxtarskilyrði urriða sem í þau er sleppt. Veiði í þessum vötnum sveiflast í takti við sleppingar, það tekur nefnilega alltaf smá tíma fyrir fisk að vaxa. Já, FOS.IS er oft fyrst með fréttirnar.

Vera má að ég hafi sérstaklega orðið var við neikvæða umræðu um Framvötnin þar sem í mig hefur verið hnippt vegna skrifa minna um þau hér á vefnum gegnum tíðina. Vera má að ég sé sérstaklega útsettur fyrir því þegar gífuryrði eru höfð um þessi vötn, hvort heldur einhverjum þykir úrræði til úrbóta ekki ómaksins verð eða ekki nægjanlega mikil. Sérkennilegast er þó þegar sami aðilinn hefur þau uppi við sitthvort tækifærið, en svona er það nú þegar besservisserar setjast við lyklaborðið. Ég er ekki eini unnandi t.d. Frostastaðavatns sem hef dregið úr viðveru minni þar, en þar með er ekki sagt að öll vötnin á svæðinu séu undir það sama sett. Þegar ástundun dregst saman í einu vatni, þá leita menn oft annað og greinilegt af aflatölum að það gerðu menn í sumar sem leið. Kýlingavatn og Blautaver komu sterk inn í aflatölum síðasta sumar eftir margra ára fjarveru af veiðiskýrslum. Mestu skiptir að þau vötn og fiskistofnar sem þess þurfa, fái aðhlynningu og það er ekkert leyndarmál að fjöldi unnenda Framvatna hafa lýst sig reiðubúna til verka þegar aðgerðaráætlun liggur fyrir. Það er vonandi að stórkostlega ýktar andlátsfregnir Framvatna verði ekki til þess að menn þrjóti örendið til verka þegar til kemur.

Miðnætti í Framvötnum

Og ef offjölgun bleikju var ekki fréttaefni, þá mátti alltaf grípa til þess að drepa eins og einn eða fleiri stofna af sjóbleikju. Það var að heyra í fyrrasumar að sjóreiður hefði þurrkast út fyrir vestan og norðan, ekki væri branda eftir, hvorki til matar né misþyrmingar. Og þetta var einmitt sumarið sem færði veiðimönnum í Hraunsfirði þessa líka býsn af sjóbleikju að mörgum þótti nóg um. Þetta var einmitt það sumarið sem þekktar sjóbleikjuár á Norðurlandi tóku upp á því að sýna veiðimönnum stórar og fallegar bleikjur sem aldrei fyrr. Sumarið sem ég endurnýjaði kynni mín af Hópinu í Húnaþingi og gerði frábæra sjóbleikjuveiði. Samfélagsmiðlar loguðu í andlátsfréttum og stöku veiðimenn lögðust í skrif minningagreina um sjóbleikjuna upp á heilu og hálfu skjáfyllirnar. Þeir sem nýlega höfðu snætt hnossgætið, urðu miður sín; Getur verið að ég hafi verið að éta síðustu sjóbleikjuna? Einn og einn veiðimaður reyndi að benda á eðlilegar sveiflur milli ára, en því miður voru það helst háværir besservisserar sem lesið höfðu þessar andlátsfréttir, þannig að eftir sumarið stendur að sjóbleikjan er útdauð, amen.

Miðnætti við Hóp

Ég er með töluverðan fjölda fjölmiðla í vöktun í tölvunni minni, hef eiginlega komið mér upp minni eigin fjölmiðlavakt þar sem lykilorðin eru m.a. stangveiði, urriði, bleikja og ýmislegt í þeim dúr. Sé hin fræga höfðatala Íslendinga tekin með í reikninginn, þá erum við bara nokkuð vel settir með fréttaflutning af veiði hér á landi, þótt veiðifréttamenn séu e.t.v. ekki margir. Mér er enn í fersku minni umræða sem fór af stað hér um árið þegar veiðimenn kvörtuðu hávært undan skorti á veiðifréttum. Þeir voru ekkert sérstaklega margir sem kvörtuðu, en þeir höfðu hátt og fréttamenn svöruðu þeim til baka; Sendið okkur þá fréttir þannig að við þurfum ekki að sækja allt. Það er mín tilfinning að veiðimenn hafi brugðist vel við og látið vita af sér og sinni veiði í auknu mæli, fréttirnar báru þess merki.

En það er ekki laust við að inni á milli hafi einhverjir argir veiðimenn séð sér leik á borði að ausa úr skálum reiði sinnar í gegnum aðsendar veiðifréttir. Þá helst þegar lítið hafði verið við að vera. Vönduð fréttamennska nær að sía ergelsið út, sannreyna sögurnar og milda gífuryrði sem mögulega hafa fokið. Heilt yfir held ég að þetta hafi alveg tekist bærilega og trúlega ekki allt birt sem berst, en stundum sleppur eitthvað í gegn, þá helst í gúrkutíð þegar lítið er að frétta og dálksentímetrarnir standa auðir þegar komið er að prentun. Það veit almættið að ég veit að það er ekki alltaf auðvelt að standa við fyrirheit eða skuldbindingar um greinar, en stundum er betra að segja ekki neitt heldur en eitthvað þreytt, sérstaklega þegar maður getur ekki sannreynt gildi þess.

Þá hefur mér loksins tekist að koma þessum hugrenningum mínum í orð og setningar. Mikið hef ég mildað af því sem upphaflega skaut niður í kollinn á mér og þessi grein hefur tekið miklum og mörgum breytingum með tímanum. Stundum er nefnilega betra að leggja hlutina frá sér, lesa þá yfir eftir nokkra daga, því fyrstu drög, rétt eins og fyrstu fréttir, eru ekki alltaf þær bestu.

Undanlátssemi urriða

Það er ýmislegt sem maður dettur í að skoða þegar árstíðin gefur ekki tilefni til að standa við eitthvert vatn og baða flugur. Vegna ákveðins verkefnis sem ég hef brennandi áhuga á, sökkti ég mér nýlega í töluverðan massa af fræðigreinum um fæðu silungs og undanlátsemi urriða þegar kemur að samkeppni um fæðu við bleikjuna.

Í grunninn er fæða bleikju og urriða ekki svo ósvipuð, svo lengi sem þessar tvær tegundir deila ekki búsvæði. Algengast er að silungurinn éti botndýr á vetrum, aðallega rykmýslirfur og aðra hryggleysingja, s.s. vatnabobba. Þegar vorar og rykmýið púpar sig verða púpurnar stærri þáttur í fæðu silungsins, nokkuð sem gefur augaleið þar sem framboð þeirra eykst. Yfir sumarið étur silungurinn að auki stærri tegundir svifdýra og botnlæg krabbadýr, s.s. kornátu. Báðar tegundirnar leggja sér hornsíli og seiði til munns, í mismiklu mæli þó, urriðin heldur meira.

Þegar bleikja og urriði deila búsvæði kemur upp allt önnur mynd af fæðuvali þeirra. Urriðinn beinir sjónum sínum meira að botndýrum á grynningum, vorflugulirfum og eykur ásókn sína í hornsíli og silungaseiði á meðan bleikjan heldur uppteknum hætti og lifir mest á sviflægri fæðu og vatnabobba. Vísbendingar eru til staðar um að bleikjan haldi nokkuð uppteknum hætti í sambúð við urriðann, svo fremi stofn hennar nái ekki þolmörkum fæðuframboðs. Vilji svo til að bleikjan verði heldur liðmörg, leitar hún í auknu mæli inn á búsvæði urriðans og þrengir þannig að honum. Hafi urriðinn ekki vanist á að hafa bleikju á matseðlinum, þá lætur hann einfaldlega undan, sveltur með öðrum orðum.

Það er langt því frá að allir urriðar leggi sér bleikju til munns þó þekkt sé að velflestir þeirra éti bleikjuseiði til jafns við hornsíli. En til eru þeir stofnar urriða hér á landi sem éta allt frá dvergbleikju og upp í fullvaxna kuðungableikju, þekktastir þeirra eru til dæmis Þingvallaurriðinn og urriðinn í Langavatni á Mýrum.

Skapa eftirspurn

Það er oft nokkuð rólegt á haustin, mesti æsingurinn er farinn úr fiskinum og sjálfur er maður frekar slakur og kippir sér ekkert upp við að lítið gerist í tökum, jafnvel tímunum saman. Þá gefst oft ágætur tími til að íhuga hitt og þetta, svona á milli þess að maður gónir á haustlitina og lætur sig dreyma.

Þannig var það að ég hafði rótast í gegnum vinsælustu flugurnar í boxinu og reynt allt sem mér datt í hug en ekkert gerðist. Ástæðan var í raun ósköp einföld og það sem meira er, ég vissi nákvæmlega hver hún var. Fæturnir á mér höfðu þegar sent mér skilaboð um að hitastig vatnsins væri komið niður fyrir ferlihita silungsins og hann hafði lagst fyrir. Hann hafði kannski ekki alveg tekið á sig náðir fyrir veturinn, en hann var í það minnsta ekkert að flækjast um í þessum kulda sem streymdi inn í vatnið.

Í þessum rólegheitum fór ég að hugsa um þau tilfelli þar sem ég hef þverskallast við og þóst vita betur en fiskurinn hvaða fluga ætti að gefa og haldið áfram, langt umfram mín 5 köst sem reyndar eru alltaf 10 áður en ég skipti um flugu. Ég er ekki að segja að það hafi komið oft fyrir, en í einhver skipti hefur mér tekist að fá fisk til að taka ákveðna flugu þegar ég er búinn að henda henni fyrir hann í hundraðasta skiptið (lesist ekki bókstaflega). Það sem mér datt í hug var hvort fiskurinn væri í raun ekkert skárri en manneskjan þegar kemur að sífelldu áreiti? Við þekkjum það að áreiti auglýsinga og nú á síðari tímum, samfélagsmiðla getur skapað ákveðna eftirspurn eftir vöru eða þjónustu. Á endanum lætur ákveðin hópur undan þessu áreiti og kaupir vöruna og svo grípur um sig ákveðin hjarðhegðun og allir verða að eignast þetta. Þannig varð til dæmis fótanuddtækisþörf Íslendinga til hér um árið og allar kjallarakompur fylltust af þessum græjum.

Orange Nobbler

Ég setti þetta alveg óvart í samhengi við flugu sem ég veiddi mjög mikið á fyrir örfáum árum, Orange Nobbler. Eftir að hún hafði gefið mér nokkra fiska í byrjun sumars, þá fór hún lengi vel alltaf fyrst undir og var þar þangað til fiskur tók og þegar einn hafði tekið, þá kom annar og svo koll af kolli. Ég gekk meira að segja svo langt að segja að það sumar hafi verið sumar hins appelsínugula Nobblers. Næsta sumar á eftir þá var ég ekki alveg eins þolinmóður, ef Orange Nobbler gaf ekki strax, þá skipti ég um og á endanum allt önnur fluga fékk heiðurssætið það sumar.

Hvenær er matatími?

Ég hef stundum heyrt talað um að ekkert hafi veiðst í tiltekin tíma vegna þess að fiskurinn hafi legið á meltunni. Sjálfur hef ég aldrei upplifað það að sjá silung liggja á meltunni og hef satt best að segja ekki minnstu hugmynd um hvernig það ætti að fara fram. Hingað til hef ég trúað líffræðingum sem halda því fram að silungur éti stöðugt svo lengi sem fæðuframboð er til staðar og hitastig vatnsins fellur ekki þannig að orkubúskapurinn verði neikvæður. En, svo lengi má halda einhverju fram að maður fer að leggja trúnað á það, eða hvað?

Ég hef séð bleikju leggjast fyrir þegar vatnshitinn fer upp fyrir 9°C, þá leitar hún niður á botn eða eins og þekkt er í Frostastaðavatni, inn í víkur þar sem kalt vatn sprettur fram undan hrauninu. Urriðinn dregur sig víst í hlé þegar hitastigið nær 12°C en mér hefur aldrei tekist að sjá hvar og hvernig hann leggst fyrir. En þetta kemur matarást silungs eiginlega ekkert við. Meira að segja þegar bleikjan sækir í kaldara vatn, leggst fyrir, þá hættir hún alls ekkert að éta, annars væri lítið um fluguveiði á sumrum víðast hvar.

fos_bleikja_rod
Bleikja

Veiðimenn þurfa væntanlega að leita annarrar ástæðu heldur margumtalaðs matarhlés þegar silungurinn hættir skyndilega að taka agn þeirra. Frá vori og fram á haust er líklegasta skýringin að fiskurinn hafi fært sig til í vatnsbolnum vegna hita eða vegna þess að álitlegra æti hafi skyndilega tekið að klekjast eða komið inn á veiðisvæði hans. Veiðimenn mega ekki gleyma því að silungur er nýjungagjarn, hann tekur nýframkomið æti fram yfir það sem hefur verið á matseðlinum fram að þeim tíma. Fiskurinn færir sig meira að segja til í vatnsbolnum til að nálgast nýja ætið, snýr eiginlega baki við gamla matseðlinum þótt nóg sé eftir á honum. Dæmi um svona háttalag er þegar urriði tekur Nobbler grimmt fyrri part dags, en hættir því skyndilega um hádegisbil eða um seinna kaffi þegar t.d. toppflugan tekur að klekjast. Þá færir fiskurinn sig til í vatninu, leitar örlítið út frá ströndinni eða skerjum, utar á vatnið og tekur toppfluguna rétt undir yfirborðinu. Ef þessi breyting fer framhjá veiðimanninum, þá virkar þetta eins og urriðinn verði skyndilega saddur, hætti að éta og leggist á meltuna, en því fer fjarri. Hann er einfaldlega að skipta um rétt á matseðlinum sem þýðir að veiðimaðurinn verður þá að skipta um agn, hvíla Nobblerinn og taka fram Toppfluguna.

Síðla sumars og á haustin er ekki óalgengt að fiskurinn dragi sig niður á botn eða út í dýpið þegar skyndilega hvessir eða langvarandi goluskítur hefur verið við vatnið. Vindkæling getur verið töluverð og fellt vatnshita um nokkrar gráður á skömmum tíma ef hressilega blæs. Fiskurinn hættir ekkert endilega að éta, hann étur bara eitthvað allt annað og á öðru dýpi heldur en áður. Það er undir veiðimanninum komið að finna út úr því hverju hann er að sinna og koma réttu agni niður eða út til hans. Auðveldlega sagt, erfiðara við að eiga.

Kjánaprik

Kjánaprik finnast víða. Stöngin sem ég festi myndavélina mína á gengur undir heitinu kjánaprik. Fyrsta flugustöngin mín gengur líka undir heitinu kjánaprik og með því priki kynntist ég mörgum öðrum kjánaprikum sem létu glepjast af fyrstu flugunum mínum.

Stundum hef ég verið að velta því fyrir mér hvað gangi eiginlega á þegar bleikjan er að skoppa þetta í vatnsborðinu, rekur upp haus og eyrugga og við hátíðleg tækifæri kemur hún öll upp úr vatninu. Til að byrja með hélt ég að þetta væru bara litlu kjánaprikin að leika sér, en þegar betur var að gáð, þá kom í ljós að þetta voru líka stæðilegir fiskar, reynsluboltar sem fá skyndilega þessa þörf til að stökkva upp úr vatninu. Mér sjáanlega var ekkert sérstakt æti á ferð og ekki var um sjógöngufisk að ræða sem var að reyna að losa sig við laxalús. Ég hef líka séð þetta háttalag í vatni þar sem aðeins er kuðungableikja, hvorki ránbleikja né urriði sem gæti hafa verið að hrekkja hástökkvarana.

Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu
Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu

Oftast hef ég séð þetta háttarlag nokkuð vel utan kastfæris og þá verður manni oft hugsað til skýringarinnar sem segir að fiskar stökkvi vegna þess að þeir eru ekki með neina fingur. Þetta er þeirra leið til að rétta veiðimanninum fingurinn af því hann nær ekki til þeirra.

Mér skilst reyndar að þetta háttarlag sé fiski, rétt eins og öðrum dýrum, sé einfaldlega eðlislægt. Það er skemmtilegt að hoppa og þeir einfaldlega ráða ekkert við þessa þörf sem hleðst upp innra með þeim og því einfaldlega láta þeir undan og stökkva upp úr vatninu. Hvers vegna stekkur þá ekki mannskepnan í tíma og ótíma? Ætli það tengist ekki því að við höfum fjarlægst uppruna okkar og þykjumst yfir það hafin að gera hluti af því bara og njóta þess. Ég stekk þegar mér sýnist, helst á öll tækifæri til að komast í veiði og komast þannig nær náttúrunni, þaðan sem ég á uppruna minn að rekja. Ég er örugglega kominn af rándýrum, ekki grasbítum.

Grisjað að vetri

Því er nú þannig farið að flest veiðivötn á Íslandi eru að hluta eða mestu leiti í eigu bænda. Auðvitað eru nokkur vötn svo nærri byggð að ákveðin sveitarfélög, einstaklingar eða stofnanir eiga land að og þar með veiðirétt í vötnum. Vötn og einstaklingar njóta þess yfirleitt ágætlega þegar sveitarfélögin eða stofnanir eiga veiðiréttinn. Þá eru töluverðar líkur á að um vötnin sé hugsað, þau undir eftirliti og breytingum í þeim gefin gaumur. Síðast en ekki síst, þá njóta veiðimenn góðs af því aðgengi að þessum vötnum er yfirleitt með ágætum.

Aðgengi veiðimanna að vötnum í umsjá bænda, beint eða í gegnum afréttarfélög er yfirleitt einnig með ágætum. Stærri veiðifélög eru þess megnug að ljá rannsóknum og eftirliti einhverja fjármuni og því er ástand þeirra vatna sem undir þau heyra yfirleitt með ágætum. Sömu söguna er ekki alveg að segja um öll vötn sem heyra undir einstaka bændur. Þar gefst sjaldnast tími né fjármunir til að sinna þeim eins og best væri á kosið og því vilja þessi vötn oft verða afskipt ef þau eru ekki nýtt af eigendum.

Mér hefur annað slagið orðið tíðrætt um ofsetin bleikjuvötn, enda af nægum vötnum að taka. Samfara minni netaveiði hafa mörg vötn orðið offjölgun bleikju að bráð og orðið nánast óveiðanleg fyrir kóði.

Á þessum árstíma, þegar mörg vötn eru undir ís hefur mér oft orðið hugsað til þess hve auðvelt það væri að grisja þau núna. Grisjun að vetri hefur marga kosti umfram grisjun að sumri. Oftar gefst meiri tími frá búskap að vetri heldur en að sumri, auk þess sem kostnaður við grisjun undir ís er lítill þar sem ekki þarf bát og tengdan útbúnað til að leggja net.

Hvað leynist undir ísnum?
Hvað leynist undir ísnum?

En hvað á svo að gera við aflann? Ég veit það fyrir víst að margur bóndinn hefur nýtt silung og annan fisk sem fóðurbæti með lélegum heyjum í gegnum árin. Eins hefur fiskur verið nýttur í minka- og refarækt með ágætum. Stærri fisk sem fellur til við grisjun má síðan örugglega nýta til manneldis og kemur þá kuldinn að vetrum í góðar þarfir ef geyma þarf fisk fyrir lengri flutninga. Það er svo ótalmargt sem mæli með grisjun undir ís. Síðast en ekki síst gætu síðan veiðimenn lagt sitt að mörkum á sumrin, tekið vötnin í fóstur, annast þau og viðhaldið fiskistofninum með hóflegri veiði.

Bleikja á rápi

Á ferðum mínum síðasta sumar vestur í Hraunsfjörðinn á Snæfellsnesi, vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar sem hafa ekki látið mig í friði það sem af er vetrar. Janúar er ágætur mánuður til að eyða í svona grúsk og því leitaði ég mér nokkurra upplýsinga, greina og rannsóknarniðurstaðna til að svala forvitni minni.

Sem inngang að þessari grein er ef til vill rétt að taka það fram að þekkt eru tvenn lífsform bleikju; sú sem elur allan sinn aldur í ferskvatni (staðbundin bleikja) og svo sú sem elst upp í ferskvatni en leitar síðan til sjávar (sjóreiður). Síðar nefnda formið, þ.e. sjóreið er að finna á öllu svæðinu kringum norðurskaut jarðar, nokkuð misjafnt hve langt til suðurs og ráða sjávarstraumar þar væntanlega mestu. Nokkrar vísbendingar eru um að útbreiðslusvæði bleikjunnar hafi verið að dragast saman hin síðari ár í kjölfar aukinnar hlýnunar sjávar á norðurhveli jarðar.

Rannsóknir eru nokkuð misvísandi um aldur bleikjunnar þegar hún leggur í sína fyrstu sjógöngu. Sumar rannsóknir segja að hún sé á bilinu 2 – 6 ára, aðrar 1 – 9 ára. Rannsóknum ber þó saman um að bleikjan fer ekkert sérstaklega langt frá ferskvatnsbóli sínu og í einhverjum tilfellum getur hún verið á töluverðu rápi á milli ferskvatns og sjávar yfir sumartímann, ræður þar mestu seltustig vatnsins. Þar sem því háttar þannig til að sjór gengur inn í ós og blandast ferskvatni er ekki óalgengt að sjóreiður fylgi sjávarföllum.

Þar sem sjóreiður finnst er ætíð staðbundin stofn bleikju sem aldrei gengur til sjávar og parast þessir stofnar óhindrað. Afkvæmi þessarar pörunar geta tekið upp hegðun hvort heldur sjóreiðar eða staðbundinnar bleikju og ekki víst hvað ræður mismunandi atferli einstaklinganna.

Fyrir veiðimenn er væntanlega áhugaverðast að vita að svo langt sem seltu gætir í ós eða lóni er von á sjóreið þegar fellur að, rétt eins og ég hef orðið vitni að í Hraunsfirðinum. Því innar í fjörðinn sem dró var meiri von á staðbundum fiski þótt sjóreiður gæfi sig töluvert inneftir firðinum.

Úr Hraunsfirði
Úr Hraunsfirði

Hvenær gerist bleikja ránfiskur?

Hversu margir hafa ekki heyrt sögur af stórum ránbleikjum í Þingvallavatni sem eigra þar um djúpin og ráðast á meðbræður sína af stofni bleikju? Lengi vel hvarflaði það að mér að þessar sögur væru hindurvitni ein, fiskurinn hefði vaxið meira í augum veiðimanna heldur en í vatninu sjálfu. En svo er nú víst ekki, þær finnast þarna þó ég sjálfur hafi aldrei náð einni einustu þeirra.

Það er aftur á móti þekkt að bleikja, rétt eins og urriði, leggist í afrán á eigin stofni og taki upp á því að stækka langt umfram meðbræður sína. Helst gerist þetta í þeim vötnum þar sem því háttar þannig til að ofsetningar gæti, stofninn stækkar umfram það sem framleiðni vatnsins annar og fæðuskorts fer að gæta. Þá skera ákveðnir einstaklingar sig úr, leggjast í afrán og stækka verulega umfram það sem fjöldin gerir.

Þar með er þó ekki sagt að þessi fiskur verði að ránbleikju. Hér er um venjulega bleikju að ræða sem bregður út af vananum, dregur sig til hlés og leitar á nýjar slóðir í vatninu þar sem hún getur dulist og sótt sér æti upp á grunnslóð þar sem 3-4 ára fiskur heldur gjarnan til. Nú set ég allan fyrirvara við þetta en ég hef hvergi séð niðurstöður rannsókna sem sína fram á annað en þessi ránhegðun bleikju sé bundin við einstaklinga sem bregða á það ráð að stunda afrán sér til framfærslu. Hin eiginlega ránbleikja, sú sem finnst á Þingvöllum, er aftur á móti afbrigði bleikju sem hefur þróast til þessa háttalags og sérhæft sig til þess.

Sílableikja eða afræningi?
Sílableikja eða afræningi?

Í þeim vötnum sem þannig háttar til að fjöldi bleikja leggst í afrán, má oft veiða 3 – 5 ára fisk sem er mun vænni en gengur og gerist í bleikjuvötnum. Þetta markast af því að ránfiskurinn heldur fjölda einstaklinga í skefjum, stundar náttúrulega grisjun og gefur þannig annarri bleikju sem lifir á skordýrum og kuðungum, jafnvel murtu sem lifir á svifi, meira svigrúm til að stækka. Færri fiskar, meira æti fyrir þá sem eftir eru.

Grisjun grunnra bleikjuvatna

Víða hafa nytjar veiðivatna dregist mjög saman síðustu áratugi. Netaveiði hefur víða lagst af og því er hætt við að mörg vötn, sérstaklega grunn bleikjuvötn verða þá ofsetin á skömmum tíma. Ekki er einhlítt hvernig best sé staðið að grisjun bleikju, margt spilar þar inn í.

Heilbrigður stofn bleikju er samsettur úr fjölda einstaklinga á mismunandi aldri, stærð, kyni og kynþroska. Bregði verulega út frá eðlilegri samsetningu er framtíð stofnsins stefnt í hættu. Í ofsetnum vötnum má oft greina nokkur atriði sem segja til um ástand stofnsins. Eitt af því sem fyrst er tekið eftir er samþjöppun einstaklinga af ákveðinni stærð. Svo virðist sem fiskur nái aðeins tiltekinni stærð, hættir að vaxa og verður þá kynþroska eins og bleikju er háttur. Vegna harðnandi samkeppni um fæðu og afráns eldri fiska, fækkar ókynþroska fiski hratt undir þessum kringumstæðum. Með öðrum orðum, við sjáum nokkra einsleitni í þeim fiski sem veiðist í vatninu.

Nokkuð örugg vísbending um að vatn sé ofsetið er að þeir fiskar sem veiðast eru smáir en kynþroska, nokkuð höfuðstórir, ljósir á hold og tilfelli sýkinga af sníkjudýrum nokkuð hátt. Þetta verður vatn sem almennt eru nefnd ‚ónýtt‘ og hér þarf að bregðast við með þeim hætti að grisja verulega í hópi kynþroska fiska. Varast ber að grisja stærri fisk, þess sem mögulega hefur breytt um lifnaðarhætti og gerst ránfiskur í eigin stofni. Sá fiskur hjálpar til við grisjun og honum ætti að hlífa.

Löðmundarvatn
Löðmundarvatn

Sé veitt vel umfram ársframleiðslu vatnsins af kynþroska fiski, aukast lífslíkur þeirra sem yngri eru, þeir verða stærri, heilbrigðari og verða kynþroska síðar á lífsleiðinni. Með þessu móti má fækka einstaklingum, ná upp vexti og byggja heilbrigðari stofn. Umfang slíkra aðgerða er auðvitað háð fjölda kynþroska einstaklinga í vatninu, en sé það viðmið notað að grisja um tveggja ára nýliðun kynþroska fisks, má gera ráð fyrir að verkið taki 3-4 ár. Þetta kann að hljóma óyfirstíganlegt og víða hafa menn gefist upp á grisjun áður en árangur hennar hefur komið í ljós. Þrjóti menn ekki örendið má vænta þess að uppskera næstu ára verði að vísu færri fiskar en áður, en stærri, holdmeiri og nýtanlegri.

Helstu heimildir: Áhrif veiða á silungastofna og nýting veiðivatna, Tumi Tómasson, Veiðimálastofnun, 1985.

Einelti

Eins og margir aðrir hóf ég mína veiðimennsku með maðk undir floti. Um leið og ósinn hafði rutt sig af ís var hugað af græjunum. Nú brestur minni mitt aðeins, en mér finnst eins og fyrsta röltið vestur að Ölfusá hafi yfirleitt verið upp úr mánaðarmótum apríl-maí. Nú er ég samt ekki alveg viss, finnst það ekki alveg passa við þann fisk sem engt var fyrir. Eitt sinn þegar ég var á þessu ferðalagi mínu gekk ég fram á reyndan veiðimann af Bakkanum þar sem hann hafði lagt flot og maðk rétt utan við skurð sem féll út í ósinn. Þarna háttar því þannig til að ósinn er stilltur og nokkuð gruggugur af framburði úr skurðunum, utar þar sem straums gætti var vatnið tært. Á þessum slóðum gat maður séð glitta í fiskinn þar sem hann úðaði í sig ætinu sem skurðurinn bar með sér.

Ég man enn eftir undrun minni á veiðiaðferð þessa manns því hann lagði agnið nokkuð nálægt skurðinum og lét svo reka út að vatnaskilunum. Sjálfur hafði ég alltaf vanist því að leggja flotið miðja vegu frá bakka og að skilum, draga síðan rólega í land. Auðvitað var hans veiðiaðferð mun gáfulegri heldur en mín. Með tíð og tíma hefur skilningur minn á háttarlagi fisks aukist eitthvað og nú þykist ég gera mér grein fyrir því að það borgar sig ekki að lesa yfir hausamótunum á fiskinum eða leggja hann í einelti. Þess í stað les ég vatnið örlítið lengur og reyni af fremsta megni að kasta ekki yfir fiskinn. Flugurnar sem maður dembir út í vatnið og dregur í gegnum borðstofu fisksins gera lítið annað en stökkva honum á flótta. Mér skilst að fiskinum sé bara ekkert um að vera lagður í einelti af einhverjum smápöddum eða sílum sem ráðast beint að honum, hvað þá koma honum að óvörum aftanfrá. Betra sé að leggja fluguna inn að sjónsviði hans, dilla henni nokkrum sinnum og leyfa fiskinum að taka af skarið. Ef hann hefur áhuga, þá lætur hann sig hafa það að synda á eftir henni.

Einelti, tvíelti, þríelti
Einelti, tvíelti, þríelti

Á hádegi veiðinnar

Hádegi vatnaveiðinnar á ársvísu er væntanlega júlí. Þá er skordýraflóran í mestu stuði og fiskurinn étur eins og hann getur. Hádegi dagsins er aftur á móti sagt vera á milli kl.12 – 13 og þá vill nú stundum vera heldur lítið um að vera í veiðinni, eða hvað? Ég hef aldrei alveg skilið hvers vegna veiðimenn taka sér eða eru skyldaðir til að taka hádegishlé í veiði. Raunar væri réttara að kalla þetta nón-hlé í ýmsum ám því víða er hlé gert frá 14 – 16. En hvað um það, ég ætlaði ekki að skeggræða þetta út frá siðum og venjum manna, heldur atferli fiska.

Það er ekki víða sem því háttar þannig til að allur flötur vatns hitni það mikið að fiskurinn hægi svo stórkostlega á sér að öll veiði detti niður um hádegið. Jú, á ákveðnum tímapunkti kemur slaki í veiðina eftir að mesti æsingur morgunsins hefur gengið yfir og áður en rökkurveiðin hefst. En sjaldnast verður allt dautt og vel má finna staði í og við vötnin þar sem fiskurinn tekur enn af áfergju. Erlendis leita veiðimenn að fiski í skugga trjáa en hér heima verðum við víst frekar að leita að klettum eða stórum steinum sem skýla honum aðeins fyrir sólinni. Innstreymi í vatn er líka alltaf gjöfult, ekki síður á hádegið en í annan tíma. Á þessum stöðum má, þegar vel stendur á, sjá nokkurn fjölda fiska í hnapp.

Innstreymi
Innstreymi

Í þeim vötnum sem hitna eitthvað að ráði yfir hádaginn, þá er um að gera að koma agninu djúpt. Vatnið er kaldara á dýpi heldur en á grynningum og þangað gæti fiskurinn leitað, svona rétt á meðan hitastigið er óbærilegt fyrir hann. Uppsprettur og lindir í vötnum geta svo auðvitað svalað fiskinum á heitum dögum, rétt eins og þau ylja honum yfir köldustu mánuðina.

Neisti að veiði

Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

Frá Öxará
Frá Öxará

Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service

Fyrstu fyrst, eða….

Það getur kostað mig töluverða sjálfsstjórn að láta ekki vaða á fyrsta fiskinn sem ég kem auga á, hvort sem það er uppitaka, skvetta eða bara skuggi á botni. Þegar ég blaða í gegnum minningarbunkann minn, þá finn ég samt ekki eitt einasta tilfelli þar sem ég hef komið að vatni, séð fisk, kastað og fengið töku um leið. Þetta eitt ætti að kenna mér að taka mér meiri tíma þegar ég kem að vatninu. Þetta á ekki hvað síst við á vorin og snemma sumars þegar fiskurinn er ekki komin alveg í gang.

Ég las í vetur sem leið grein frá nágrönnum okkar í vestri, Kanadamönnum, þar sem vísindamenn höfðu kortlagt hvaða fiskur vaknar fyrst til lífsins á vorin, verður fyrst mest áberandi í vötnunum. Í stuttu máli, það eru stubbarnir sem skvetta sér mest og leita í það litla klak sem hefst snemma vors. Stóru drjólarnir halda sig mun lengur á botninum og fara sér rólegar, koma upp þegar sólin hefur yljað vatnið aðeins síðari hluta dags og eru þá gjarnan í síli rétt utan við og á grynningunum.

Fyrstir á fætur eru sem sagt stubbarnir sem geta ekki hamið sig, kíkja aðeins í sólina og láta öllum illum látum í þeirri flugu sem asnast til að klekjast snemma dags eða um hádegið. Fram að þeim tíma liggja þeir stærri og feitari aðeins lengur í bólinu og hafa auga með þeim litlu. Bíddu aðeins, þetta er nú bara ekkert ósvipað því hvernig ég hagaði mér um helgar hér um árið þegar guttarnir mínir ruku á fætur með látum áður en ég hafði einu sinni rænu til að opna annað augað.

Glaðbeittur fiskur
Glaðbeittur fiskur

Og sjá ……

Túpa
Túpa

Þar kemur ætið eða þannig sko. Augu fiska eru töluvert frábrugðin augum manna. Á meðan við þróuðumst í hálfgerða flatskjái þá eru augu fiska eins og gömlu túpusjónvörpin, kúpt sem henta mun betur til að sjá í vatni. Annars hafa fiskar álíka, ef ekki betri sjón heldur en við. Að vísu eru fiskar, vegna lögunar augnanna frekar nærsýnir og sjónsvið þeirra því töluvert styttra heldur en okkar, rétt um 15 metrar. Það er því ekkert bull þegar kastkennarinn okkar leggur ofuráherslu á nákvæm köst, við verðum að koma flugunni inn í sjónsvið fisksins ef hann á að sýna henni áhuga. Svo hefur staðsetning augnanna á hausnum töluverð áhrif á sjónsvið fisksins. Silungurinn er með augun nokkuð framvísandi og ofarlega á hausnum. Sjónsviðið er því best fram- og uppá við, síður til hliðanna. Raunar er því þannig farið að silungurinn er hvattur til athygli fyrst og fremst með þef-og bragðskyninu þar til bráðin er komin í árásarfæri, þá taka augun fyrst við.

Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að fiskar gera greinarmun á rauðum, grænum, gulum og bláum litum. Aha, sem sagt þeir geta séð regnbogann í vatninu eða hvað? Jú, svona fræðilega séð gætu þeir það niður á 7-8 m dýpi. Þar fyrir neðan fara ákveðnir litir að síast út og litunum fækkar ört því neðar sem dregur og fiskurinn fer frekar að stóla á lögun og hegðun bráðarinnar heldur en útlit hennar.

Eins nærsýnn og með eins takmarkaða sjón og fiskurinn hefur er eins gott að hann blikki ekki augunum því þá gæti hann misst af bráðinni. Ég veit ekki alveg hve oft ég  hef tuggið þetta, en fiskar hafa ekki augnlok og geta því ekki blikkað augunum. Þess vegna er þeim alveg meinilla við skært sólarljós.

Fussum svei, mannaþefur….

sm_lyktÞó tröllkerlingar séu þefvísar, þá komast þær samt ekki í hálfkvisti við silunginn. Stórheilinn í fiskum sem er í kvörnum hans, vinnur fyrst og fremst með þefskynið, ekki ósjálfráðu hreyfingarnar eins og í okkur mönnunum. Það má því nærri geta hvort fiskurinn hafi gott lyktarskyn. Það er nokkuð misjafnt hve mikið fiskar stóla á þefskyn við fæðuöflun og vísindamenn greinir nokkuð á um vægi þef- og sjónskyns þegar kemur að fæðuleit laxfiska. Sumir halda því fram að sjónskyn ráði mestu í fæðuöflu en aðrir að þefskyn ráði meiru. Hið síðarnefnda er auðvitað sjokk fyrir þá sem því trúa og veiða á flugu en gæti skýrt hvers vegna maðka- og beituveiði gefur oft eins vel og raun ber vitni, það er jú meiri og væntanlega matarlegri lykt af maðki heldur en flugu. Öfgamenn í fluguhnýtingum, ef þeir eru þá til, hafa því lagt mikla áherslu á að vera ekkert með neitt í höndunum sem truflað getur lyktarskyn fisksins þegar þeir hnýta. Sumir ganga meira að segja svo langt að nota aldrei gerviefni við hnýtingar, aðeins náttúruleg hráefni. Hvað um það, lyktarskyn silungs getur náð hundruð metra í kyrrstæðu vatni og bætist straumur við þá margfaldast skynsviðið auðveldlega. Það er því e.t.v. engin tilviljun að laxfiskar sem ganga úr sjó nota mest lyktar- og bragðskyn til að rata upp í ánna ‚sína‘ þegar þeir hyggja á hrygningu.

Áttu heima í Bónus?

Fæðuleit
Fæðuleit

Asnaleg spurning, auðvitað á engin heima í Bónus. Meira að segja starfsmennirnir fara oftast heim til sín, nema þá helst rétt fyrir verslanahelgina sem sumir kalla jól. En hvað er ég eiginlega að fara með þessu bulli? Jú, ég er að velta fyrir mér stórum muni á mönnum og fiskum.

Búseta mannfólksins ræðst oft af fjölskylduhögum. Á barneignaraldri viljum við vera sem næst leikskólanum, svo grunnskólanum en færum okkur síðan aðeins til í hverfinu þegar börnin vaxa úr grasi og nándin við uppeldisstofnanirnar skiptir minna máli. Síðan hefur það orðið tilhneiging okkar að hópast saman á stofnunum fyrir heldriborgara þegar aldurinn færist yfir. En sama hver búsetan er, þá höfum við haldið í þann sið forfeðra okkar að draga fæðuna í náttstað okkar og neyta hennar þar, svona að mestu leiti.

Laxfiskar velja sér aftur á móti búsvæði á allt öðrum forsendum. Þeir búa sjaldnast nálægt leikskólanum, raunar stinga þeir ungviðið snemma af á lífsleiðinni og vitja þess aldrei aftur. Laxinn ferðast síðan langar leiðir frá fæðu til leikskóla, eru meira að segja sagðir ekki éta neitt á leið sinni á milli staða. Samt sem áður heldur hann til á ákveðnum stöðum í ánum. Hann velur straumharða staði á meðan frænka hans, bleikjan velur sér lygnustu staðina og urriðinn svamlar þarna einhvers staðar á milli. Nú er ég auðvitað að bera saman atferli laxfiska í ám og lækjum, ekki vötnum.

Einfalda myndin er þannig að laxinn velur sér strauminn og hreyfir sig afskaplega lítið, bleikja hreyfir sig mest og enn og aftur er Meðal-Jónin okkar, urriðinn. Fræðingar sem fylgjast með atferli laxfiska skipta þessum tíma gjarnan í tvo fasa; fæðuleit þegar hann bara bíður eftir því að geta étið og fæðunám þegar hann er að éta. Þegar hlutfall tegunda innan hvors fasa er skoðaður, þá hafa rannsóknir sýnt að 11,7% laxa hreyfa sig í fæðuleit, 12,7% urriða og 27,1% bleikju. Þegar fiskurinn er síðan komin í fæðuna þá hreyfa aðeins um 3,3% laxa sig, 8,8% urriða og 14,9% bleikju. Heimild: Fæðuatferli og búsvæðaval laxfiska í ám, Stefán Ó. Steingrímsson & Tyler D. Tunney, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólanum á Hólum.

En hvernig hjálpar þetta okkur við veiðarnar? Tja, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör, ekki nema þá fyrir það eitt að ef við finnum ekki nákvæmlega staðinn þar sem fiskurinn er að éta (fæðunám) þá er helst að finna bleikjuna á flakki þegar hún er að leita (fæðuleit). Ef við finnum aftur á móti þeirra Bónus, þá er eins gott að við getum lagt fluguna nokkuð nákvæmlega fyrir fiskinn því hann hreyfir sig miklu minna í æti heldur en þegar hann leitar.

Ummæli

06.12.2013 – Valdimar SæmundssonVill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

Svar: Já, ekki get ég lesið annað út úr þessari rannsókn. Að vísu gæti rannsóknin tekið til fiska á s.k. ‘niðurgöngu’ tímabili þó þess sé ekki sérstaklega getið. Svo má alltaf velta því fyrir sér hve fjarskyldur Atlantshafslaxinn sé Kyrrahafslaxinum sbr. grein á Deneki frá því í fyrra sem má skoða hér. Hvað sem því líður, þá vitum við að lax bregst við agni í ám á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum. Hvort það sé eingöngu af eðlislægri grimmd eða því að hann éti nú bara þrátt fyrir allt í ám einhvern hluta uppgöngu, læt ég ósagt. Það hafa sagt mér veiðimenn að lax éti örugglega ekkert á hrygningartímanum, meltingarfæri hans séu hreint ekki neitt, neitt á þessum tíma. Síðan hafa aðrir sagt mér, í hálfum hljóðum að þeir hafi nú fundið ýmislegt í maga laxa úr Íslenskum ám og í meira magni en svo að það hafi ‘slæðst’ upp í hann á leiðinni.

Skynjar hann titring?

Hávaðaseggur?
Titrari?

Það er engin vafi á því að fiskur skynjar titring og þrýstingsbreytingar miklu betur en við. Í roði fisksins á hliðum hans er rák sem hann notar til að skynja hreyfingu í vatninu og þrýstingsbreytingar. Svo næm er þessi hliðarrák fisksins að hún nemur hreyfingar annarra fiska og lífvera í allt að 100 m fjarlægð. Jamm, duglegustu kastarar eiga ekki einu sinni séns að felast ef þeir vaða ógætilega. Og svo megum við ekki vanmeta hvað bakkarnir geta borið mikinn titring með sér út í vatnið. Þótt okkur takist að felast á bak við stein svo hann sjái okkur nú örugglega ekki þá þurfum við ekki nema missa vatnsflöskuna í grjótið til að hann verði var við okkur. Ég tala nú ekki um ef menn fara í tiltekt á bakkanum eða hlaða vörður til að merkja góða veiðistaðinn.

En hvað með bátaumferð? Verður fiskurinn ekki var við bölvaðan hávaðan í utanborðsmótornum? Nei, í raun ekki, en hann verður örugglega var við lélegar legur, brotin skrúfublöð og allan annan titring sem utanborðsmótorinn getur haft í för með sér. Rafmagns utanborðsmótorar voru ekki fundnir upp vegna orkusparnaðar eða umhverfisverndar, þeir eru einfaldlega hljóðlátari heldur en bensínbullurnar.

Hvað heyrir hann?

sm_heyrnHeyrir hann vel? Heyrir hann í mér? Spurningar um heyrn fiska eru margar og ekki alltaf auðvelt að gera sér grein fyrir því hvað, hvernig og hversu vel hann heyrir. Fiskar hafa innra og ytra eyra rétt eins og við mennirnir. Þar sem eðlisþyngd fiskjar er ekki ósvipuð vatninu sem þeir lifa í, streyma hljóðbylgjur í gegnum hold þeirra án þess að dofna neitt að ráði þar til þær skella á beinagarðinum sem tekur við hljóðinu og  ber það til eyrnanna. Þeir sem eru svo óheppnir að hafa upplifað beinbrot kannast e.t.v. við þetta óhugnanlega hljóð sem nístir merg og bein og kemur að innan þegar bein brotnar. Ég hef meira að segja upplifað snöggan smell, nánast eins og byssuskot sem ég trúði varla að menn í kringum mig hefðu ekki heyrt þegar hásin hrökk í sundur í fætinum á mér á gervigrasi um árið. Ég hélt fyrst að ég hefði sprengt tuðruna þegar ég sparkaði í hana, svo mikill var hvellurinn. En, nei. Það var bara ég sem heyrði þennan hvell og enginn kannaðist við að hafa sprengt pappírspoka við eyrun á mér.

Beinagarður fiska flytur umhverfishljóð beina leið til haussins og þannig heyra þeir hljóð jafnvel betur innra með sér heldur en inn um ytri eyrun. Það er e.t.v. skýringin á því að silungurinn getur heyrt steinvölu skrapast í botni, já eða neglda vöðluskó í meira en km. fjarlægð. Nú kann einhver að segja að nú fari ég með fleipur, en ég hef þetta fyrir satt eftir að hafa lesið töluvert af greinum um heyrn fiska.

Aftur á móti heyrir fiskurinn sára lítið af þeim hljóðum sem berast ofan vatnsborðs. Okkur er því alveg óhætt að raula á meðan við veiðum, sleppum bara öllum upphrópunum og gleðilátum þegar hann tekur. Við eigum það nefnilega til að hoppa af kæti og það nemur annað skynfæri fisksins; hliðarrákin.

Ofar þýðir minna

Það er ekki átroðningi fjölskyldumeðlima á grúskinu mínu fyrir að fara á mínu heimili. Að vísu er ég giftur veiðifélaga mínum en hún er að mestu laus við allt grúskið sem ég sökkvi mér reglulega niður í. En, það vildi nú samt svo skemmtilega til um daginn að eldri sonur minn uppfræddi mig óumbeðinn um formúluna fyrir sjónsviði silungsins. Það kom mér skemmtilega á óvart að hann hafði verið að stúdera ljósbrot o.fl. í líffræði í skólanum og fannst þetta eiga fullt erindi við mig með mína dellu. Mér datt í hug hvort fleiri hefðu ekki gagn af þessari framsetningu stráksins þannig að ég kom henni á mynd og í orð sem hér fara á eftir. Það er auðvitað langt því frá að hér sé einhver nýr sannleikur á ferðinni og hefur oft sést á netinu og í bókum, en til að bæta um betur þá hef ég útbúið smá Excel reiknilíkan aðgengilegt hérna sem mönnum er velkomið að hlaða niður.

Sjónsvið silungsins
Sjónsvið silungsins

Skýringar:

  1. Ljós berst fiskinum inn um glugga í vatnsborðinu sem myndar 97° keilu.
  2. Sjónsvið fisksins ofan þessa glugga takmarkast mest af yfirborði vatnsins. Gárað yfirborð skerðir útsýnið verulega, regndropar sömuleiðis.
  3. Blindi punktur fisksins eftir vatnsbolnum nemur u.þ.b. 10° með fráviki allt að +10° sé yfirborð vatnsins óstöðugt.
  4. Allt utan við 97° gluggann sér fiskurinn í raun sem endurspeglun vatnsbolsins á því sem er undir yfirborðinu. Þetta er svæðið undir dökk-gráu geirunum.
  5. Allt innan vatnsbolsins og 15 m fjarlægðar sér fiskurinn bara þokkalega vel, utan þess sem leynist aftan við hann.

Ef við gefum okkur að fiskurinn sé á svamli við mörk efra fæðusvæðisins (50 sm dýpi) og u.þ.b. 10 m frá landi, þá fer hann létt með að greina hreyfingu okkar því hann sér allt sem er 166 sm og hærra á bakkanum. Ef fiskurinn færir sig aftur á móti ofar í vatnsbolinn, segjum 20 sm þá sér hann aðeins það sem er 172 sm á hæð eða hærra.

Ummæli

12.11.2013 – UrriðiHeyrði einu sinni að þetta væri ástæðan fyrir að krakkar grísast oft til að setja í stóra fiska, þeir eru hreinlega það litlir(<160 cm) að fiskarnir sjá þá ekki og eru ekki jafn varir um sig. Fyrir nokkrum árum varð ég vitni að 8 ára gutta taka 5 punda urriða beint fyrir framan mig svo ég útiloka ekki þessa kenningu :)

Einnig hefur mér gengið mun betur á viðkvæmum veiðistöðum eftir að ég byrjaði að nánast skríða á árbakkanum… skiptir engu máli þó ég líti kjánalega út, það sér mig hvort sem er enginn.