Þegar vetur gengur í garð þá vinnur maður úr því sem maður hefur safnað í sarpinn yfir sumarið. Eitt af því sem ég geymdi í sarpinum er umræða sem ég átti s.l. sumar við afar lunkinn veiðimann um ljót köst. Einhverra hluta vegna var ég fullur afsakana og sagði eitthvað á þá leið að ljót köst veiða líka. Ég var leiðréttur hið snarasta og sagt að þetta ætti að vera ljótar flugur veiða líka. Jú, ég kannaðist eitthvað við þetta um ljótu flugurnar og fór að klóra í bakkann með köstin, var greinilega umhugað um réttlæta eitthvað.
Við vorum sammála um ljótu köstin geta styggt fisk ef þau verða til þess að línan skellur niður á vatnið. Einmitt þetta getur verið ókosturinn við framþungar skotlínur í dag. Hraði þeirra er mikill, þær vaða út og eiga það til að skella niður á vatnið. Skothausinn er oft tiltölulega þungur og stuttur þannig að línan er svolítið eins og svipa þegar hún lendir á vatninu. Góð skotlína í höndum þokkalegs kastara á yfirleitt ekki í vandræðum með að vaða fram úr stangartoppinum þannig að það má alveg leyfa sér að tempra hraða hennar í framkastinu rétt nóg til að taumurinn leggist beint fram og hvorki lína né taumur skelli á yfirborðinu. Með því að halda örlítið við línuna þegar framkastið hefur náð hámarkshraða, þá hægir línan á sér, það réttist betur úr tauminum og hvoru tveggja leggst rólegar niður. Hver og einn veiðimaður verður að finna sinn takt í þessu viðhaldi línunnar en með smá æfingu er leikandi hægt að ná þessu þokkalega.

En hvað með þennan stygga fisk ef línan hefur nú lagst rólega fram, taumurinn rétt vel úr sér og flugan er ekki með ógnar læti þegar hún lendir? Verður fiskinum virkilega jafn brugðið við tauminn eins og margir vilja vera láta? Já, trúlega eru til þau vötn sem eru svo tær og laus við allt fljótandi að taumurinn sker sig úr öllu því sem fiskurinn hefur vanist, að hann styggist. En, það kemur veiðimönnum eflaust á óvart hve margt og misjafnt er á ferðinni og flækist um í vatninu að öllu jöfnu. Gróður og gróðurleifar, aðskotahlutir sem fokið hafa út í vatnið og að ógleymdum skuggum þess sem flýtur á yfirborðinu. Allt þetta og fleira til er líklegra til að skjóta fiskinum skelk í bringu heldur en taumurinn. Eitt er það þó sem styggir fisk, meira að segja þann ódauðlega sem hefur náð meira en 1 metra og það er allt sem getur orðið honum skeinuhætt og erfðir hans hafa kennt honum að varast, m.a. maðurinn eða réttara sagt; fótatak hans og skuggi.
Senda ábendingu