Vatnssöfnun

Eins og kunnugt er þá hef ég ákveðna tilhneigingu til að safna vötnum, þá helst hérna á síðuna. Aðrir safna vötnum í atvinnuskyni og þá helst með því að stífla allar mögulegar og ómögulegar sprænur og bein þeim í risavaxin forðabúr til orkuframleiðslu. Hvaða álit sem menn kunna að hafa á forðabúrum þessum þá er ekki óalgengt að við tilbúning þeirra lokast göngu leið fisks eða íbúar náttúrlegra vatna sem hverfa undir forðabúrin verði að leita nýrra búsvæða.

 

Það er í eðli þessara forðabúra að vatnshæð þar sveiflast nokkuð á milli árstíða. Frá hausti og fram á vor er tappað af þeim með tilheyrandi lækkun og tærir hlutar þeirra sem í rennur allt árið um kring verða meira áberandi. Verður þá oft heilmikill handagangur í öskjunni hjá veiðimönnum og þeir flykkjast upp á heiðar og nýta tækifærið að egna fyrir fisk í þessum lónum. Þegar síðan snjó- og jökulbráð tekur að streyma aftur inn í lónin hverfa þessir góðu veiðistaðir undir litað jökulvatnið, en eins víst er að þar heldur fiskurinn þó enn til.

Þegar kemur að því að velja flugu í vötnum sem tekið hafa að skolast aftur, þá eru nokkrar flugur sem að sögn standa uppúr. Flugur sem nefndar hafa verið eru; Flæðarmús, Black Ghost Sunburst, Bleik og blá og mosagrænn Nobbler. Þessar flugur má síðan poppa enn frekar upp með því að nota UV efni í þær og þá helst rautt, appelsínugult og gult, því þeir litir ku vera mest áberandi UV lita í skoluðu vatni.

Þoka

Veiðimenn eru bara mannlegir, rétt eins og annað fólk. Að vísu eru þeir til sem hafðir eru svo upp til skýjanna að þeir nálgast guði, en flestir erum við samt fastir við jörðina þegar öllu er á botninn hvolft. Rétt eins og aðrar manneskjur lærum við mest af því sem reynslan færir okkur og það er einmitt reynslan sem mótar sannfæringu okkar.

Nýlega las ég áhugaverða grein eftir Lamar Underwood, handbókahöfund þar sem hann smellir fram þessari áhugaverðu setningu Foggy Weather Fishing: Forget About It!  I have never, anywhere, anytime, been able to catch fish when dense fog covers the water.  Ég hélt fyrst að þessi annars ágæti rithöfundur væri að grínast og það kæmi eitthvað tvist í greinina þar sem hann drægi í land, en það fór nú ekki svo, þetta var greinilega hans sannfæring sem væntanlega hefur orðið til út frá hans reynslu. Ég veit ekki hvort Lamar hafi í nokkurn tíma komið til Íslands, en hann hefur örugglega aldrei verið við Frostastaðavatn þegar þokan læðist út á vatnið niður af Dómadalshrauni, fikrar sig yfir vatnið og þéttist við hraunið undir Suðurnámum.

Þoka á Frostastaðavatni
Þoka á Frostastaðavatni

Eflaust fara veiðimöguleikar í þoku mikið eftir því hvort um er að ræða kalda, hráslagalega þoku eða þoku sem losar léttan úða yfir vatnið og hækkar súrefnismagn yfirborðsins. Eins og mér er minnisstætt frá Frostastaðavatni, þá getur klak flugunnar magnast ótrúlega þegar þokan leggst yfir og bleikjan fer hamförum í uppitökum með tilheyrandi færi á þurrfluguveiði. Ég segi því fullum fetum, njóttu þokunnar og veiddu eins og þig lystir, það er mín sannfæring.

Fuglalíf

Ég hef áður sagt frá aðdáun minni á himbrimanum, þessum fisknasta fugli okkar. Í sumar sem leið hitti ég fyrir mann sem var hreint ekki á sama máli og ég. Himbriminn er eins og hvalurinn, étur og étur frá okkur fiskinn sagði hann eða eitthvað á þá leið. Síðan nefndi hann tölu yfir þau kíló sem einn himbrimi getur látið ofan í sig af silungi á einum degi, margfaldaði það svo með 365 og fékk út svimandi fjölda kílóa sem einn himmi getur látið ofan í sig. Því miður man ég ekki þessar tölur, en ég viðurkenni að mér brá við þær.

Himbrimi
Himbrimi

Þrátt fyrir þetta er ég ennþá mikill aðdáandi himbrimans og raunar allra annarra fugla sem veiða í vötnum landsins. Mér hefur alltaf þótt það góðs viti að fugl sé á vatni, helst í æti og nái hverjum fiskinum á fætur öðrum. Það kemur oft og iðulega fyrir að ég er ekki að veiða þar sem fiskurinn heldur sig og þá er ekki mikið annað að gera en skima í kringum sig á meðan flugan er dregin inn á milli kasta. Kemur þá fyrir að maður rekur augun í fugl; kríu, máf, himbrima eða lóm. Fylgist maður með atferli fuglsins, má gjarnan sjá hvar hann sækir æti og þá kemur auðvitað til greina að færa sig um set og nálgast staðinn sem fugli veiðir á eða setja sig niður í gönguleið fisksins sjái maður fuglinn færa sig eftir ákveðnu mistri eða slóð. Sé hann aftur á móti bara að lóna fram og til baka án þess að vera nokkru sinni með fiski í goggi, þá er hann væntanlega í sömu ördeyðunni og maður sjálfur. Svona getur fuglinn gefið manni vísbendingar eða verið manni huggun í gæftaleysinu.

Meira að segja litlu vaðfuglarnir geta hjálpað okkur að velja rétta flugu. Skyggnist maður eftir þeim við vatnsbakkann er eins víst að maður geti skoðað hvað þeir eru kroppa upp undan steinum, í gróðrinum eða bara í flæðarmálinu. Þá er lag að skipta um flugu, það sem er við bakkann er oft einnig á sveimi úti í vatninu, meira að segja skemur frá bakkanum en okkur grunar.

Könguló, könguló

Könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó. Eða það sem betra er, leyfðu mér að kíkja í vefinn þinn. Þeir sem hafa arkað eða staulast í gegnum hraunið við austanvert Hítarvatn kannast eflaust við köngulóavefina sem liggja þar oft þvert á gönguleiðina. Án þess að fara ítarlega í skordýrafælni, þá þekki ég nokkra aðila sem mundu væntanlega taka á sig stóran krók framhjá þessum vefum frekar en stíga í gegnum þá, sem er útaf fyrir sig bara gott.

Upplýsingabanki
Upplýsingabanki

Þegar grannt er skoðað má finna ýmsar vísbendingar um skordýralíf hvers staðar með því að kíkja á köngulóarvefi. Köngulær eru mjög iðnar og taka reglulega til í vefjum sínum, endurnýja þá og ganga úr skugga um að netið sé nægjanlega tryggt. Þess vegna má ganga að því með nokkurri vissu að í vefjunum leynast sýnishorn allra þeirra fljúgandi skordýra sem er að finna á viðkomandi stað. Þetta getur gefið okkur, veiðimönnunum dýrmætar upplýsingar um það æti sem fiskurinn er mögulega í. Því nær vatninu sem vefurinn er, því betra.

Kíkt upp

Hver kannast ekki við þegar sólin er lágt á lofti og maður keyrir á móti henni? Ekkert sérstaklega þægilegt og ósjálfrátt pírir maður augun, fálmar eftir skyggninu, setur það niður og sólgleraugun upp. Þegar þið lendið í þessu næst og þurfið að stoppa á rauðu ljósi, prófið að skyggnast um og takið eftir því að eiginlega allir litir hverfa á milli ykkar og sólarinnar. Dökkir skuggar og form segja okkur miklu meira hvað er á ferðinni heldur en litir.
Kannski er ég alveg úti á túni með þessar pælingar, en þegar fiskurinn horfir á eftir mýpúpunni stíga upp á yfirborðið og umbreytast í fullvaxna flugu, þá ímynda ég mér hann svolítið svipað sjálfum mér á móti sól. Stærsti munurinn er sá að ég get pírt augun, hann ekki. Þessar pælingar mínar urðu til þess að ég skoðaði svolítið litaflóru þurrflugna og viti menn; það eru til þurrflugur sem veiða heil ósköp án þess að eiga sér nokkra fyrirmynd í lífríkinu.

Bull-fluga
Bull-fluga

Hefur einhver sér svona skordýr á Elliðavatni? Nei, vonandi ekki því þá hefur eitthvað stórkostlegt farið úrskeiðis í frárennslismálum í Kópavogi. Formið er nokkuð þekkt meðal skordýra, en litirnir eru eiginlega alveg út úr kú. Getur verið að fiskurinn sé bara að spá í formið og þess vegna veiðir Royal Coachman? Mér er sagt að grænn Coachman veiði ekkert síður en rauður og þá velti ég fyrir mér hvort al-svartur Coachman veiði og þá er ég að meina alveg svartur en hnýttur í Coachman-útlínum.

Kannski eru allir þessi litir á flugum meira fyrir veiðimanninn heldur en fiskinn, hver veit. Mér dettur aftur á móti ekki í hug að mælast til þess að menn hætti að hnýta Royal Coachman, Royal Wulff eða aðrar litskrúðugar þurrflugur. Eiginlega þvert á móti, hnýtið nú eins margar þurrflugur og mögulegt er og notið þær eins oft og ykkur sýnist næsta sumar.

Svartur Royal
Svartur Royal

Alveg að verða að flugu

Þegar mýið hefur fengið nóg af því að hanga á botninum sem lirfa hugar hún að umbreytingu í púpu. Þegar umbreytingunni er lokið losar hún sig upp af botninum, leitar ofar í vatnsbolinn og hættir sér út í óvissuna þar sem hungraður fiskurinn tekur oftar en ekki á móti henni. Þetta hljómar svolítið eins og fiskurinn sitji fyrir hverri einustu mýpúpu og hremmi hana um leið og hún hefur ferð sína upp á yfirborðið, en þannig er þetta í raun ekki.

Toppflugan
Toppflugan

Hefðum við kost á og þol til að svamla undir yfirborði vatnsins snemma vors þegar vatnshitinn hefur stigið rétt yfir 4°C þá sæjum við heilu strókana af mýpúpum losa sig upp af botninum og berast út í vatnsbolinn. Hér gildir að fela sig innan fjöldans til að lifa af þetta stutta ferðalag upp að yfirborðinu. Ég hef hvergi séð hve hátt hlutfall mýpúpunnar lendir í fiskkjafti, en óábyrgt gæti ég skotið á að 80-90% púpa nær ekki upp að yfirborðinu og kemst til flugu. Þetta byggi ég aðeins á eigin lauslegri athugun þegar fluga klekst með því að telja flugur á u.þ.b. einum fermetra vatnsins. M.v. að á botninum getum við fundið 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra, þá er eru það í besta falli 20% sem ná því að verða að flugu. Ég tek það skýrt fram að ég hef samt aldrei náð að telja 1000 flugur klekjast á yfirborði nokkurs fermetra, en þar kemur á móti að ég sat svo sem ekki lengi við og taldi. Hæst náði ég í 100 og þá ruglaðist ég.

Mobuto
Mobuto

Á þessum árstíma erum við ekki alveg komin í þau spor að þurfa á flugum að halda sem eru eftirlíkingar mýpúpunnar, en það er rétt að huga að betri tíð og blómum í haga. Flugurnar sem við ættum að hafa tiltækar þegar mýpúpan er á ferli gætu t.d. verið Toppfluga Engilberts og Mobuto. Auðvitað koma Krókurinn og Kibbi þarna líka sterkt inn. Eru ekki allir örugglega með einhverja þessara í hnýtingu eða þegar klárar í boxi?

Litlar flugur, litlir fiskar?

Flugur sem notaðar eru í stóra fiska, eins og lax eru yfirleitt nokkru stærri heldur en þær sem við notum í silunginn. Undantekningar? Já, stórir ísaldarurriðar virðast vera hrifnari af stórum flugum. En hvort kom á undan, stór fluga og stór fiskur, eða stór fiskur og stór fluga? Rétt svar er; hvorugt. Það var nefnilega lítill fiskur sem kom fyrstur, svo stækkaði hann með því að éta lirfur, flugur og síli. Þegar hann var orðinn svo stór að minni fæða var honum ekki nóg, þá réðst hann á stærri fisk, dvergbleikju, murtu og seiði stærri bleikju. Þá tók vöxtur urriðanns kipp og veiðimenn þurftu færa sig upp um flugustærð. Ástæðan er óskaplega einföld, það er affærarsælast að bjóða fiskinum eitthvað sem hann ásælist, ekki smárétti þegar stórsteikur eru á boðstólum.

Blóðormur
Blóðormur

En það eru nú samt til stórir fiskar sem sem éta smágerða fæðu og braggast bara nokkuð vel. Því megum við ekki gleyma að hnýta litlar flugur þessa dagana. Trúlega er mýið einhver smágerðasta fæða silungs sem við getum líkt eftir. Til að byrja með eru lirfur mýflugunnar af svipaðri stærð og krókur #18 og niður í #22, rauðar og hreyfa sig ekkert sérstaklega mikið á botninum. En, ekki gleyma því að þegar fiskur rótast í blóðormi á botninum, þá nær hann ekki að éta nema örlítinn hluta af því sem losnar af steinunum. Restin flýtur burt og getur verið á sveimi í vatninu innan um annað líf sem ekki er botnfast. Sem sagt; það má alveg draga Blóðorminn, hann þarf ekkert að liggja sem dauður á botninum. Og blóðormur þarf ekkert endilega að vera þyngdur, léttur Blóðormur sem leyft er að reka getur líka gefið fisk. Litlar flugur, litlir fiskar? Já, en ekki bara.

Ummæli

26.02.2015 – Sigurður Kr.: Áður en ég fór í fyrsta skipti upp í veiðivötn kom ég við í veiðibúð og bað um flugur sem virkuðu þar. Þegar afgreiðslumaðurinn lét mig fá Black ghost #2 með keiluhaus varð mér á orði að mig vantaði sko flugur, ekki rotara. „Stórir fiskar, stórar flugur“ var þá svarið sem ég fékk.Ég hef reyndar ekki enn kastað fyrrnefndum Black ghost en ég fékk fleiri flugur þarna í svipaðri stærð og fékk á þær fiska uppfrá. Þegar ég var úti í BNA fyrir nokkrum árum álpaðist ég inn í í stóra veiðibúð og kíkti á flugrnar hjá þeim. Þar var meðal annars hægt að fá svokallað „trophy trout collection“ og þar voru á ferð stórir og feitir streamerar. Greinilegt að kaninn trúir líka á „stórir fiskar, stórar flugur“. Svona streamerkall eins og ég stóðst ekki mátið og keypti náttúrulega einn svona pakka. Hef reyndar ekki fengið neinn trophy fisk á þetta en það er aldrei að vita.

Eftir varp

Væntanlega er það í yfirgnæfandi tilfellum sem menn veiða vorfluguna sem púpu eða lirfu, þ.e. þegar hún er á botninum eða við það að brjótast upp úr vatninu. Þá erum við með Peacock eða einhverja þeirra ótal Caddis eftirlíkinga á taumi sem má finna í flugnaúrvalinu, má þar nefna húsnæðislausar vorflugur og Hérann.

Á eftir púpu og lirfuveiðum eru alltaf einhverjir sem spreyta sig á að líkja eftir vorflugunni þennan stutta tíma sem hún situr á vatninu eftir að hafa brotið sér leið upp á yfirborðið. Þetta er tiltölulega stuttur tími, því vorflugan er kröftugt kvikindi sem staldrar ekki lengi við á yfirborðinu eftir að hafa tekið á sig mynd flugunnar. Þó ekki sé alveg komið að því að vorflugurnar fari að verpa næstu kynslóð, þá er vert að geta þess að fullorðin flugan er hlutfallslega miklu meira áberandi og staldrar lengur við þegar hún verpir heldur en þegar hún brýst upp á yfirborðið. Eftir mökun, snýr flugan aftur út á vatnið til að verpa og er nokkuð áberandi á yfirborðinu á meðan að á því stendur og fiskurinn oft nokkuð agressífur í flugunni.

Fljótlega eftir varpið deyr flugan og það er eins og hún hverfi þá sjónum veiðimanna, en ekki fisksins. Það getur verið erfitt fyrir okkur að greina fluguna þegar hún flýtur á vatninu, en fiskurinn sér hana tiltölulega vel og oft eru það stærri fiskarnir sem týna þær í sig af yfirborðinu. Verðum við varir við uppitökur að loknu varpi flugunnar, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að bregða Elk Hair Caddis undir og sjá hvort við náum ekki einhverjum stórum, svöngum fiski.

Útsýnið yfir lækinn

Tweed
Tweed

Þær eru næstum ljóðrænar, lýsingarnar af yfirvegaða veiðimanninum sem nálgast lækinn hægum, varfærnum skrefum rétt áður en hann tyllir sér niður í öruggri fjarlægð og gjóir augum eftir vatnsborðinu. Ef við bætum nú tweed jakka, hnébuxum og sixpensara við, þá er komin mynd úr handbók hins heiðarlega veiðimanns frá fyrrihluta 20. aldar. Þetta er einhver elsti veiðimaður sögunnar, hann er nefnilega enn í fullu fjöri rúmlega 100 árum síðar. Að vísu er hann komin í önnur föt en háttarlagið er enn það sama. Hann er að skima eftir ummerkjum fiskjar í læknum. Fyrstu merkin eru auðvitað uppitökur. Ef engar uppitökur er að sjá, þá má alltaf skima eftir skordýrum; tegund, stærð og háttalagi, því þau eru fæða fisksins.

Þegar veiðimaðurinn hefur náð að kortleggja lækinn hvað varðar lífið og gróður þá er stór partur eftir; straumurinn. Eins og nærri má geta er straumurinn ekki eins um allan læk og ekki er allur straumur fiskinum þóknanlegur. Annars erum við svolítið heft að því leiti til að við sjáum bara yfirborðið. Það sem getur virkað sem ólgandi straumur í okkar augum er hreint og beint stöðuvatn þar sem fiskurinn liggur. Svo má ekki gleyma þeim stöðum þar sem straumurinn á yfirborðinu verður að engu eða þar sem ekkert verður að straum. Dýpið í læknum hefur mikil áhrif á það hversu hratt vatnið rennur eins og nærri má geta. Sama má segja um breidd lækjarins. Allur fiskur vill súrefni og umfram allt fæðu án þess að þurfa að djöflast of mikið til að ná henni.

Gömul vísa verður aldrei of oft kveðin, skimaðu eftir því sem ekki að sjá við fyrstu sýn. Fæðan berst með strauminum og stundum er meira að segja hægt að veiða andstreymis undan straumi. Ha? Jú, þar sem straumurinn fer fyrir nes eða tá, snýst straumurinn stundum við og þar safnast oft fiskur saman í æti sem hefur þjappast saman.

Ummæli

12.01.2014 – Veiði-Eiður:  Góður pistill Kristján!  Það sem stendur hvað mest upp úr frá s.l sumri er þegar ég fór í litla bleikjuá á norðurlandi. Var búinn að skima eftir veiðilegum stað en fann engan. Stoppaði svo við litla “breiðu” sem var nú ekki beint veiðileg. En úti í henni miðri var spegill, svona einskonar “læna”. Ég starði lengi á hana og ákvað að lokum að prófa að kasta andstreymis og viti menn, 26 gleyptu púpuna áður en ég fékk nóg. Það var merkilegt að ef ég kastaði til hliðar við spegilinn þá gerðist ekkert, en ef ég hitti akkúrat í hann þá var nánast alltaf fiskur á.

Svar: Já, þeir lifa lengi í minningunni þessir staðir og augnablik þegar maður hittir akkúrat á. Stundum eru það aðeins örfáar tommur sem skilja að veiðistaðina og ‘dauðahafið’.

Skolað

Þegar ekkert er að gerast á hinum enda línunnar verður maður að taka sig saman í andlitinu og leita skýringa. Ein nærtækasta ástæða gæftaleysis er röng fluga. Þá er ekkert annað að gera en skima eftir því sem er náttúrulega á ferli, já eða ekki lengur á ferli.

Skolað fæði
Skolað fæði

Í flæðarmálinu leynast ýmsar vísbendingar um það sem fiskurinn er að éta í það og það skiptið. Myndina hér að ofan tók í við veiðivatn hér í sumar, skömmu eftir að þokkalegur stormur hafði gengið yfir. Fersk fæða lá þar í hrönnum eftir að hafa skolað á land. Frá vinstri; þrjár tegundir snigla, vatnarækja og seiði. Til að gefa smá vísbendingu um stærð, þá var seiðið rétt um 3 sm að lengd.

En étur silungurinn þetta allt? Í þessu tilfelli er uppistaða fiskjar í þessu vatni bleikja. Ég hef svo sem ekki rekist á snigla í bleikju hingað til en þar með er ekki sagt að hún éti þá ekki. Þeir eru lindýr og leysast því mjög hratt upp í meltingarvegi fisksins. Ég hef það fyrir satt að Tékkar noti ákveðnar púpur vegna þess að þær líkjast svo mikið ákveðnum sniglum sem falla af bökkum lækja í vatnið. Því miður tókst mér ekki að finna mynd af umræddri púpu, en hún var alls ekki ósvipuð fyrstu tveimur sniglunum.

Ég treysti mér ekki til að greina rækjuna á myndinni en fundarstaður hennar (vatnið) liggur að sjó og því ekki útilokað að rækjur slæðist inn í vatnið á stórstreymi. Þarna hefði geta komið sér vel að eiga appelsínugula marfló eins og margir nota í Hraunsfirðinum.

Þó ég hafi hér aðeins smá sýnishorn þess sem ég fann í flæðarmálinu, þá var umfang snigla og seiða mjög mikið og greinilega ekki fæðuskortur á þessum slóðum.

Nýr matseðill

Með hækkandi meðalhita á Íslandi eykst fjölbreytileiki skordýra í náttúrunni. Sum þessara skordýra eru innflutt en aðrir eru innflytjendur upp á eigin spýtur. Það sem ég á við með þessu er að sum skordýr eru beinlínis fluttar inn í gámum af grænmeti, ávöxtum og svo því sem mörgum hrís hugur við; jarðvegi. Það er nefnilega fluttur inn töluverður massi af jarðvegi, já og sveppamassa sem í geta leynst egg og lirfur skordýra. Sum þessara skordýra eru ekki beint æskileg, hafa jafnvel valdið stórum skaða erlendis og við værum betur laus við. Má þar t.d. nefna Spánarsnigilinn sem hefur breytt úr sér nánast um allt land, garðeigendum til hryllingar. Innflytjendurnir eru aftur þeir sem berast hingað með vindum frá nálægum löndum og ekkert við því að gera. En ekki eru öll skordýr til ama. Sum þessara skordýra lenda á matseðli silungsins og því ættu þau einnig að lenda á gátlista okkar veiðimannanna. Enn sem komið er hefur stór innrás silungafæðu ekki birst hér á Íslandi, en þess getur vart verið langt að bíða ef fram fer sem horfir og við ættum að vera á tánum og vakandi fyrir nýjungum í fluguhnýtingum. Meðal áhugaverðra nýbúa á Íslandi er t.d. smávaxið fiðrildi, Birkikemba sem verðu lítið stærra en 5 mm að lengd og svo frændi hennar Birkifetinn sem getur orðið þrisvar sinnum stærri eða allt að 1,5 sm. Í sumar sem leið varð ég vitni að því þegar Birkifeti flæktist undan vindi út á Hlíðarvatn í Selvogi, bleikjunni eflaust til bragðbætis við allt mýið. Ég efast um að margir veiðimenn hér á landi eigi eftirlíkingu af Birkifeta í þurrfluguboxinu sínu.

Birkifeti
Birkifeti

Áhugavert efni um nýjar tegundir á Íslandi má finna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ætið: Galdralöpp

Galdralöpp

Galdralöpp eða Galdraflugan er nokkuð útbreidd um landið norðan- og vestanvert. Flugan er stærst þriggja flugna af hármýsætt sem finnast á Íslandi. Lengd hennar er um 1 sm. og vænglengd rétt þar um bil sú sama. Hinar tvær flugurnar af hármýsætt sem finnast á Íslandi eru; Þerrifluga (Þerrilöpp) og Sóttarfluga (Sóttarlöpp) sem eru öllu minni og útbreiddari sunnanlands og austan. Veiðimenn taka oft feil á þessum tegundum, enda mjög áþekkar.

Galdraflugan er auðþekkt af rauðum fótunum sem hanga niður af henni á flugi og hefur útlit hennar skotið mörgum ungliðanum skelk í bringu þó hún sé í raun meinlítil mönnum þá mánuði sumars sem hún er á ferli, þ.e. frá júní og fram í september. Lirfur flugunnar finnast ekki í vötnum eins og t.d. rykmýs eða bitmýs. Þess í stað lifa þær í rökum jarðvegi, jafnvel innan um rotnandi jurtaleifar og oft þá í töluverðu magni á afmörkuðu svæði.

Alþekkt er að sveiflur í stofninum séu nokkrar, e.t.v. ekki á milli ára en vel merkjanlegar yfir lengri tíma. Þegar þetta er ritað (2012) virðist sem stofninn hér á landi sé í góðri uppsveiflu og oft krökkt af flugunni á vötnum norðan heiða og á Vestfjörðum.

Black Zulu
Bibio – Hopper
Black Gnat

Ummæli

24.11.2012 – Hilmar: Hér er Þurrfluguútgáfan:

mbk, Hilmar

Svar: Já, einmitt. Nú varstu aðeins á undan mér, er með færslu á döfinni þann 27. einmitt með þessari 🙂

25.11.2012 – Hilmar: Obbosí, afsakið það. Þér er alveg frjálst að ritskoða / eyða ummælum frá mér, svo ég sé nú ekki að eyðileggja fyrir þér heilu pistlana eða færslur.

mbk, Hilmar

Svar: Ekki hafa neinar áhyggjur, mér er miklu meira í mun að menn láti álit sitt í ljósi, komi með leiðréttingar og láti aðeins í sér heyra. Ef einhver rekur augun í sama eða svipað efni og ég hef gert, þá er það bara staðfesting fyrir mig á því að ég sé ekki þessi ‘Palli’ sem var einn í heiminum að grúska á flugubloggum 🙂

Ætið: Vatnabobbar

Vatnabobbi

Vatnabobbi finnst nánast í öllum vötnum á Íslandi, í óteljandi stærðum og afbrigðum. Oftast eru skeljar bobbanna frá því að vera gulhvítar yfir í það að vera móbrúnar. Ekki er óalgengt að skeljarnar taki til sín lit úr umhverfinu, svo sem rauðleitan blæ úr mýrarrauða. Stærð vatnabobba er allt frá 5 mm og upp í 25 mm. Útbreiðsla vatnabobba innan einstaka vatn getur verið mjög mismunandi. Eitt vatn getur boðið upp á kjör aðstæður fyrir vatnabobba á miklu dýpi á meðan önnur virðast snauð af bobba nema í flæðarmálinu. Fræðingar virðast ekki vera á eitt sáttir um ástæður þessa þannig að væntanlega er best að skoða sig vel um við hvert vatn og velta varlega við einstaka steinum og skima eftir þeim.

 

Killer
Killer – svartur
Watson’s Fancy

Ætið: Vatnaklukka

Vatnaklukka

Aðeins ein tegund vatnaklukku hefur fundist um allt Ísland, séu Vestfirðirnir undanskildir. Fullorðin vatnaklukka lifir í lækjum, vötnum og tjörnum. Bæði lirfan og fullorðin klukkan lifa fyrst og fremst á gróðri. Fullorðin hefur vatnaklukkan fundist frá miðjum apríl og vel fram í ágúst.  Flest bendir til að varp eigi sér stað upp úr miðju sumri, júli og ágúst. Það sama á við um vatnaklukkuna og brunnklukkuna, ekki er vitað með vissu hve stóran sess hún skipar í fæðu silungs á Íslandi.

 

Peacock
Killer – svartur

Ætið: Brunnklukka

Brunnklukka

Fjórar tegundir af brunnklukkuætt finnast á Íslandi. Allar eiga þær það sameiginlegt að teljast til rándýra, bæði sem lirfur og sem klukkur. Brunnklukkan er mjög algeng um allt land og finnst í flestum vötnum, þó ekki ám og straumhörðum lækjum. Lirfa brunnklukkunnar nefnist vatnsköttur og finnast helst í júlí og ágúst. Fullvaxta klukkur finnast allt árið um kring.  Skoðanir eru mjög á reyki um það hve stóran sess klukkur skipa í fæðu fiska, en tæplega er hann þó stór þar sem viðkoma klukkna er ekki mikil í Íslenskum vötnum.

 

Peacock
Killer – svartur

Ætið: Hornsíli

Hornsíli

Hornsíli er lítill fiskur, oftast 4 – 8 sm að lengd. Hann er straumlínulagaður og er sverastur um miðjan bol. Hornsílið er algengt í ferskvatni á Íslandi og í sjó við strendur. Litur hornsíla er nokkuð breytilegur, alveg frá silfruðum yfir í blágræn, dökkna verulega á hrygningartímanum og hængarnir verða allt að því rauðir. Hrygning á sér stað að vori, í maí og júní þegar vatnshitinn hefur náð 6-8°C. Frá því ísa leysir og fram að þeim tíma er sílið ekki mikið á ferðinni, nema þá þegar næst er komið að hrygningu þegar hængurinn byrjar undirbúning hreiðurgerðar. Hornsílið er eini fiskurinn á og við Ísland sem gerir sér hreiður til hrygningar. Eggin klekjast á innan við viku til mánaðar, allt eftir hitastigi og súrefnismagni. Þar sem hornsílið er nánast ránfiskur í eggjum annarra fiska, má segja að skrattinn hitti ömmu sína þegar urriðanum og sílableikjunni bregður fyrir og gera sér hornsílin að góðu.

Nytsemi hornsíla er afskaplega takmörkuð, nema þá fæða stærri fiska.

 

Nobbler – orange
Nobbler (olive)
Nobbler – svartur
Black Ghost
Connemara Black
Dentist

Ætið: Dægurfluga

Dægurfluga

Egg flugunnar þroskast á tveimur til þremur vikum og eftir það lifir flugan í vatninu sem gyðla í eitt ár eða þar til vatnshiti hefur náð í það minnsta 6°C oft ekki fyrr en við 9°C. Þá skríður gyðlan á land og hálf-þroskast (unglingur) á um 24 klst. Þrátt fyrir að þessi einstaklingur hafi vængi, er hann ófleygur og nær ekki flugi fyrr en hann hefur náð fullum þroska við næstu hamskipti. Líftími fullvaxta flugu er mjög skammur, aðeins um sólarhringur. Flugan hefur mjúkan búk, þrískiptan með liðmörgu skotti. Stuttir fálmarar, aðeins eitt par vængja.

Gyðlur flugunnar nærast eingöngu á plöntuleyfum, unglingurinn og flugan ekkert. Mökun á sér stað á flugi, verpir stökum eggjum í vatnið með því að dýfa afturbolum í yfirborðið örskamma stund. Flugan finnst um allt land.

 

Héraeyra
Pheasant Tail
Gyðla dægurflugunnar

Ummæli

27.06.2012 – G. HjálmarEngin furða að Héraeyra og Pheasant Tail eru svona fengsælar, þær ná vel yfir skordýraflóruna. Ég hef ekki verið duglegur við að nota þær en það breytist hér með. Takk fyrir allan fróðleikinn!

Ætið: Steinfluga

Steinfluga

Egg flugunnar þroskast á tveimur til þremur mánuðum og eftir það lifir flugan í vatninu sem gyðla allt þar til hún skríður á land og þroskast skömmu síðar í fullvaxta flugu. Fullvaxta fluga er ófleyg og heldur sig mest á vatnsbökkum eða þar til hún skríður aftur út á vatnið og verpir í mars og fram í maí, allt eftir hitastigi (vatnshiti 4-6°C) og veðráttu. Dæmi eru til þess að varp hennar hefur ekki hafist fyrr en mjög síðla sumars ef vorkoma hefur brugðist.

Flugan er meðalstór 4 -6 mm, frumstæður búkur með mjúkan bol. Fálmarar er langir, þráðlaga. Tvö pör vængja sem liggja flatir yfir afturbolnum, afturvængir breiðari en framvængir. Hausinn er ferkantaður, flugan sjálf flatvaxta í heild. Karlflugurnar eru allar dvergvaxnari heldur en kvendýrin. Gyðlan er yfirleitt dekkri en flugan sjálf, gljáandi með áberandi fálmurum.

Gyðlurnar nærast að mestu á plöntuleyfum og halda sig gjarnan í möl og smásteinum á botni vatna og lækja. Flugurnar halda sig til hlés á landi eða allt þar til þær skríða aftur út á vatnið. Mökun á sér stað á landi, verpir stökum eggjum í yfirborð vatnsins þaðan sem þau sökkva til botns.

 

Pheasant Tail
Tailor
Gyðla steinflugu

Ætið: Vorfluga

Vorfluga

Vorflugan tekur fullkominni myndbreytingu, þ.e. hún þroskar frá eggi til lirfu, frá lirfu til púpu og frá púpu til fullvaxta. Klak vorflugunnar á sér stað alveg frá því í mars og fram i október, þó ekki í lægri vatnshita heldur en 6 – 8°C að jafnaði. Egg klekjast skömmu eftir að þeim er orpið og lirfan tekur strax til við að byggja sér hylki úr plöntuleyfum og smásteinum. Lirfan étur lifandi og dauðar vatnaplöntur og þörunga. Þegar kemur að púpun skríður hún úr hylkinu og syndir oft á tíðum um í vatninu í nokkurn tíma og hefur þá tekið á sig nokkra mynd fullvaxta flugu. Þegar hún tekur síðasta stökkið yfir í fullvaxta einstakling hangir hún í vatnsskorpunni og umbreytist á skömmum tíma í flugu.

Lirfur vorflugunnar má finna í vötnum og straumvatni á Íslandi allan ársins hring og hefur þannig stóran sess að skipa sem helsta fæða silungs. Hér á landi finnast 12 tegundir hennar að staðaldri, flestar grá- eða brúnleitar og ekki mjög áberandi.

Ætið: Rykmý

Rykmý

Á Íslandi hafa fundist yfir 80 tegundir rykmýs. Flugurnar eru næstum eins mismunandi að stærð, lögun og lit eins og tegundirnar eru margar. Karlflugurnar gera orðið allt að 1.5 sm að lengd, kvenflugurnar yfirleitt nokkuð minni. Líftími flugnanna sjálfra er frekar stuttur, aðeins nokkrir dagar þegar best lætur. Lirfa rykmýs nefnist blóðormur.Lirfurnar festa sig við botninn, oft í þéttum klösum og standa upp á endann í vatninu

Alþekkt er að fyrsta klak mýflugna á sér stað snemma að vori þegar vatnshitinn hefur rétt skriðið upp fyrir 4°C og því eru þær oft fyrsta merki um líf að vori í vötnum landsins. Íslenska Toppflugan verður stærst rykmýs, nær allt að 2 sm. á lirfustigi og er gríðarlega mikilvæg fæða silungs hér á landi.