töflur

Allar töflur sem komið hafa fram á FOS í gegnum árin, nú aðgengilegar á einum stað.

Hlutföll í flugum

Með tíð og tíma hafa orðið til ákveðnar reglur fyrir hlutföllum í helstu tegundum flugna. Þessi hlutföll, myndir og skýringa ætti að skoða sem viðmið, ekki reglur sem meitlaðar eru í stein.

Púpur

Skott púpu er alla jafna jafn langt búkinum í heild sinni sem jafngildir lengd öngulleggs að frádregnum haus flugunnar. Haus flugunnar getur verið nokkuð misstór, en yfirleitt á bilinu 1,5 mm til 3,0 mm og sem eftir er af búk púpunnar skiptist jafnt á milli fram- og afturbols hennar. Þegar kemur að skeggi púpu getur það verið allt frá því að vera jafn langt haus flugunnar og alveg í það að ná aftur að bug, jafnvel lengra eins og nokkrar frægar púpur sanna. Í þeim tilfellum er þó eins líklegar að púpan sé ekki með skott. Svipaða sögu má segja af hliðstæðum fálmurum púpu, sumir leggjast rétt að mörkum aftur- og frambúks á meðan aðrir liggja aftur að bug. Þess ber að geta að upphafleg útgáfa Pheasant Tail eins og Frank Sawyer hnýtti var hvorki með skeggi né fálmurum, aðeins skotti, aftur- og frambúk og haus sem var lítið annað en 2-3 vafningar af vír.

Þurrflugur

Skott hefðbundinnar þurrflugu er jafn langt öngulleggnum, þ.e. frá auga og aftur að skotti. Sé flugan með væng, er vængurinn sjaldnast lengri heldur en öngulleggurinn. Hringvöf flugunnar ættu aftur á móti alls ekki að vera lengri heldur en búkur flugunnar, oft ekki lengri en sem nemur öngulbili króksins.

Votflugur

Skott klassískrar votflugu er nánast jafn langt og búkur hennar sem nær frá haus og aftur að öngulbug. Skegg votflugunnar nær yfirleitt frá haus og að önguloddi. Vængur flugunnar er jafn langur legg öngulsins, staðall sem markar sérkenni votflugna og aðskilur þær frá frænku þeirra, straumflugunni sem yfirleitt er með öllu lengri væng.

Straumflugur

Fyrir það fyrsta, þá er skegg straumflugunnar nokkru styttra heldur en votflugunnar, ekki lengra heldur en nemur öngulbili króksins. Skott straumflugu er ekki nema helmingur búksins en þar kemur á móti að lengd vængs er jöfn búki flugunnar að viðbættu skottinu. Vænglengd straumflugu getur því verið nokkuð mikil sé hún hnýtt á legglangan krók.

Create a website or blog at WordPress.com