Lokaspretturinn

Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að ég hef misst fisk alveg við háfinn minn. Ég get engum um kennt nema sjálfum mér í þessum tilfellum og oftast hefur þetta gerst vegna þess að ég hef glatað ró minni og þolinmæði, hlaupið beinlínis á mig og vanmetið úthald fisksins.

Þessi slapp ekki
Þessi slapp ekki

Þannig er að yfirleitt hjálpar ákveðin teygja í flugulínunni okkur við að halda fiskinum við efnið. Þegar við erum aftur á móti komnir með næstum alla línuna inn, aðeins taumurinn eftir, þá er lítið sem ekkert eftir af þessari teygju og allar hreyfingar okkar og fisksins eru beintengdar í gegnum stöngina. Það má segja að línan okkar virki svolítið eins og fjöðrun í bíl, mýkir það þegar við keyrum í holu eða yfir stein. Ef engin er fjöðrunin, þá finnum við fyrir öllum ójöfnum á veginum og aksturinn verður hastur, ekki aðeins fyrir okkur heldur einnig bílinn, það endar með því að eitthvað gefur eftir. Í tilfelli veiðimanns og fisks er það veikasti hlekkurinn í tengingunni; hnúturinn á tauminum, við fluguna eða flugan sjálf í fiskinum. Því skiptir miklu máli að vanda sig á lokasprettinum og gæta þess að snöggar hreyfingar, manns sjálfs eða fisksins geta orðið til þess að eitthvað brestur og hann syndir burt.

Ekki svo vitlaus

Það hefur stundum verið sagt um silunginn að hann sé nú ekki eins vitlaus og veiðimennirnir vilja vera láta. Hvort sem það eru nú vitsmunir eða eðlislæg viðbrögð silungsins, þá tekur hann stundum upp á því að skipta um stefnu í miðri viðureign. Fer frá hægri til vinstri, vinstri til hægri eða það sem kemur veiðimanninum oftast í opna skjöldu, beint í fangið á honum.

fos_urridi2016b
Skarpari heldur en margur heldur

Ég er í svolitlum vafa um hvort ég eigi að segja að fiskurinn víki sér yfirleitt undan sársaukanum því ekki eru allir veiðimenn sammála því að fiskur hafi sársaukaskyn. Sumir segja að hann víki sér undan þrýstingnum, átakinu þegar flugan festist í honum og togar hann í ákveðna átt. Við getum í það minnsta verið sammála um fiskurinn víkur sér undan flugunni, hver sem ástæðan er. Ef hann tekur nú á rás í áttina frá okkur, þá herðum við á en þá getur fiskurinn tekið upp á því að snúa sér í 180° og stefna beint á okkur. Þá er eins gott að vera viðbúin og ná að taka allan óþarfa slaka af línunni því annars getur flugan losnað úr fiskinum. Ábending til veiðimanna; verið ekkert að reyna að spóla línunni inn á hjólið undir þessum kringumstæðum, dragið hana inn með höndunum, það tekur yfirleitt allt of langan tíma að gera það með hjólinu. Ég hef sagt þetta áður og segi það enn, kannski vegna þeirra sem hafa sloppið hjá mér undir þessum kringumstæðum.

Er best að byrja á straumflugu?

Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

fos_spunar2_big
Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

Ekkert gauf

Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

fos_fluguhjol3_big
Umfram allt, línugeymsla

Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.

Hjarðhegðun

Nú ætti eiginleg allt að vera að gerast, sumarið sprettur fram undan síðustu vorhretunum og vötnin taka við sér hver af öðru. Þó enn sé nokkur tími í að rollum verði hleypt á fjall, er þegar farið að gæta ákveðinnar hjarðhegðunar þar sem örlítil græn slikja er farin að sýna sig. Veiðimenn streyma hver af öðrum í svipaðar áttir, nálgast hvorn annan af varúð á veiðistað, það er aldrei að vita hvernig næsti maður er að koma undan vetri.

Það hefur lengi viljað loða við þennan þriðjung þjóðarinnar, þ.e. stangveiðimenn að þeir sækja á sína staði og þá sérstaklega ef sá staður hefur gefið sérstaklega vel, áður fyrr. Vitaskuld eru ákveðin vötn sem koma fyrst undan vetri og ekkert óeðlilegt að þangað flykkist veiðimenn fyrst á sumrin. En þar með er veiði ekki gefin, hún er nánast ekki einu sinni sýnd þessar fyrstu vikur sumars. Samt er það svo að þegar maður lítur yfir sjóndeildarhringinn við ákveðin vötn, þá er engu líkara en aðeins einn staður gefi þessa dagana við hvert þeirra.

fos_saudur
Einmana sauður

Eins og sauðirnir hafa lært í gegnum aldirnar, þá þarf stundum að hafa svolítið fyrir því að finna fyrstu grænu tuggur sumarsins og alls ekki víst að forystusauðurinn hafi alltaf rétt fyrir sér hvar hana er að finna. Þeir eru til sem stendur slétt á sama hvort þeir eru kallaðir villuráfandi, þeir kljúfa sig frá hjörðinni og leita fanga þar sem eðlisávísunin segir þeim að grasið geti verið grænna. Stundum gengur þetta upp hjá þeim, stundum ekki, en oftar en ekki eru þetta feitustu sauðirnir í hjörðinni þegar kemur að því að hleypt er á fjall þegar sumarið hefur endanlega gengið í garð. Ég leita yfirleitt veiði snemmsumars á þeim stöðum þar sem hjarðirnar hafa ekki troðið svörðinn. Stundum gengur það upp, stundum ekki, en ég græði alltaf eitthvað á því að breyta út af vananum. Ykkur er alveg frjálst að kalla mig villuráfandi, ég fitna af fleiru en fiskum.

Að hvíla

Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

Örlítil uppitaka
Örlítil uppitaka

Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

Að veiða tvær flugur

Flestir eru kunnugir því hvernig veiðimenn veiða tvær flugur á taumi, aðal- og aukaflugu, veiða með dropper eða afleggjara eins og kallað er. Þetta er sagt auka veiðimöguleika manna til muna og vissulega hef ég séð veiðimenn raða inn fiskum á sitthvora fluguna, þó algengara sé að menn veiði aðallega á aðra þeirra. Þá velja menn mismunandi týpur á tauminn, eina til að laða fiskinn að, vekja forvitni hans, en hina sem hann svo tekur þegar hún skýst inn í sjónsvið hans.

fos_peacock_orgEn það er líka hægt að veiða tvær flugur á allt annan hátt. Við veiðifélagarnir rottum okkur yfirleitt saman þegar við komum á veiðislóð um það hvaða flugu hvort okkar um sig byrjar á að veiða. Já, við veiðum tvær mismunandi flugur þar til ein þeirra hefur sannað sig. Þá vill bregða við að sama flugan endar á hjá okkur báðum. En stundum dugar það einfaldlega ekki til. Það hefur alveg komið fyrir að Alma Rún hefur gefið og gefið, en aðeins öðru okkar. Hitt hefur þá þurft að fara í tilraunastarfsemi og endað kannski á Peacock. Það er nú ekki margt líkt með Peacock og Ölmu Rún, þannig að einhver ókunnur faktor er greinilega í spilinu. Drögum við veiðifélagarnir misjafnlega inn, leggst önnur þeirra betur niður heldur en hin eða er einfaldlega um það að ræða að ætið sem fiskurinn er í sé allt annað handan þessara 10 metra sem skilja okkur að við vatnið?

fos_almarun

Ég get svo sem ekki fullyrt eitthvað um þetta, en ég þori samt sem áður að draga eina mjög mikilvæga ályktun af þessu. Sú fluga sem sögð er veiða á ákveðnum stað, á ákveðnum tíma af ákveðnum veiðimanni, er alls ekki heilög og mögulega passar hún alls ekki tækni næsta manns eða inn á matseðil fisksins síðar. Undir liðnum vötnin hér á síðunni er að finna fjölda flugna sem gefið hafa í tilteknum vötnum. Þessar flugur eru aðeins sýnd veiði, ekki gefin, það eitt er víst.