Að skjóta í mark, hvort sem það er með byssu eða bolta í skemmtigarði er alveg ágæt skemmtun. Það er ákveðin leikni sem felst í þessari afþreyingu og auðvitað keppni, gera betur heldur maður sjálfur hefur gert eða einfaldlega betur heldur en næsti maður. Svo er það þetta með verðlaunin, þau freista flestra.
Til að fá verðlaunin þarf maður að skjóta í markið, eiga sér markmið. Auðvitað er hægt að taka alla körfuna af boltunum og sturta úr henni í átt að markinu í þeirri von að einhver bolti nái því, en árangurinn er sjaldnast fyrirhafnarinnar virði. Ef maður velur sér einn bolta og leggur alúð í kastið og gerir það markvisst, þá aukast líkurnar verulega.
Minnugur þess að lesandi hafði samband og tjáði mér að hann hefði fengið alveg nóg af orðaleikjum sem birtust, þá ætla ég að sleppa frekari myndlíkingum og orða þetta hreint og beint; Ef þú ert ekki að leita að fiski, þá er óþarfi að kasta flugunni út og suður í sífellu, hættu að spreða köstum á fisk ef þú þykist sjá eða vita hvar hann liggur. Notaðu færri og vandaðri köst þannig að þú náir að leggja agnið niður á þann stað sem líklegast er að fiskurinn nái að festa augu á því. Fleiri ónákvæm köst með tilheyrandi truflun í vatninu gera lítið annað en eyða eigin orku og umburðarlyndi fisksins, hvoru tveggja á sér takmörk og það er bara tímaspursmál hvort klárast fyrst.
Ég bara veit ekki hversu oft ég hef staðið mig að því í bráðræði að byrja að draga inn of snemma þegar ég er með þyngda púpu eða staumflugu á endanum. Stundum læt ég eins og fiskurinn sé eitthvað tímabundinn, sé að missa af strætó og ég þurfi endilega að byrja að dilla flugunni fyrir hann um leið og hún er lent. Stundum er asinn svo mikill að ég leyfi stönginni ekki einu sinni að síga niður að vatnsborðinu úr fremra stoppi.
Það er ýmislegt sem ég uppsker þegar svona nokkuð gerist hjá mér. Ef við tilgreinum vandmálin í þeirri röð sem þau geta komið fyrir, þá er fyrst að nefna að flugan er ekkert búin að koma sér fyrir. Hún er bara að dinglast þarna á eða við yfirborðið og þar mun hún halda áfram að dinglast þegar ég byrja á að draga hana inn.
Númer tvö er slakinn á línunni frá stangartoppi og niður að flugu. Hann verður næstum örugglega til þess að ég finn ekki þegar fiskurinn tekur. Eina tilfellið sem veit af töku er þegar fiskurinn tekur með látum, stekkur og djöflast, en þá er líka alveg eins víst að hann losi sig af í fyrsta djöfulgangi eða stökki, slakinn sér til þess.
Verði ég nú samt sem áður var við tökuna, þá er nokkuð öruggt að fyrsta viðbragðið mitt fari í að taka slakann af línunni, ekki í að setja fluguna fasta.
Nei, þessi ímyndaða tímaþröng verður að láta undan og ég verð að muna það alltaf að stoppa í framkastinu, leyfa flugunni að komast út og niður og … leyfa stangartoppinum að síga rólega niður að vatnsborðinu. Kostirnir eru ótalmargir; ég slaka á, flugunni gefst tími til að koma sér fyrir og eftir atvikum að sökkva, ég get tekið slakan af línunni þannig að inndrátturinn verður markvissari og ég er líklegri til að finna tökuna. Sem sagt; niður með stangartoppinn, byrja svo að veiða fluguna.
Ég hef alveg komið því til skila í gegnum árin að mér finnst vindur ekkert sérstaklega til trafala í veiði, þvert á móti. Þetta hef ég sett fram með smáa letrinu að hann megi ekki vera of mikill og helst ekki mikil rigning meðfylgjandi. Með enn smærra letri hafa sumir lesendur séð að hitastigið verður líka að vera þokkalegt, ég er kuldaskræfa.
Ég hef talið það upp að öldurót við bakka undan vindi safnar oft saman ýmsu æti sem bæði urriði og bleikja gera sér að góðu. Í einhvern tíma hef ég líka haldið því fram að með vindi eykst súrefnisinnihald vatnsins og þá fara pöddurnar frekar á stjá og fiskinum hleypur kapp í kinn. Eitt hef ég vísast ekki nefnt og það er að í vindi losna oft ýmis efni úr bökkum vatna, sérstaklega þar sem gróður nær vel niður að vatninu. Þessi efni, oft leir eða mold, skolast út undan ágangi öldunnar og eiga það til að dreifa sér yfir nokkurt svæði við bakkana. Þegar vind lægir og alda fer að stillast fara síðustu gárurnar oft í að þjappa þessum efnum saman í rönd við bakkann eða skammt úti á vatninu.
Jafnvel þótt þessi rönd beri ekki með sér æti, sem gerist reyndar mjög oft, þá sækir fiskur ótrúlega nálægt bakkanum þegar röndina leggur að landi. Eðlishvöt vatnafisks er að verja sig árás úr lofti og því leitar hann oft í að sveima undir svona rönd því þar telur hann sig óhultan fyrir loftárásum og það er stutt í fengsælt hlaðborð skordýra og hornsíla við bakkann.
Kveikjan að þessum pistli er minning af svona grugg-rönd sem lagði upp að vatnsbakka og fór eitthvað í pirrurnar á mér þannig að ég kastaði flugunni í gríð og erg út fyrir til að allir fiskarnir sæju hana nú nógu vel. Jú, hún sást og ég sá þegar fiskurinn tók sporðaköst að henni, rétt frá fótum mér í miðju grugginu fyrir framan mig. Það fylgir ekki sögunni hvort hann hafi tekið fluguna, það er mitt að vita og ykkar að geta ykkur til um.
Ég gleymdi alveg um daginn þegar ég stakk nokkrum orðum niður á síðuna um litlar straumflugur sem í mínu tilfelli eru klassískar votflugur, að það er einn frábær kostur við að veiða svona minni flugur. Í eðli sínu eru þessar flugur náttúrulega miklu léttari í kasti og í vatni heldur en stórvaxnar straumflugur og það getur bara skipt töluverðu máli. Bónusinn er því að það er hægt að leyfa sér að vera með léttari línu og stöng með votflugu heldur en stóra straumflugu.
Þegar ég tók minn stærsta fisk á klassíska votflugu eftir töluvert bras með stærri straumflugu í læk sem rennur á milli vatna norður í landi, þá runnu upp fyrir mér kostir léttari útbúnaðar undir viðkvæmum kringumstæðum. Þannig var að ég var búinn að rölta töluverðan spotta með vatnsbakka og var með nokkrar hefðbundnar straumflugur og marabou flugur úti til skiptis. Jú, ég setti í fiska og þeir eltu þessar eftirlíkingar af hornsílum alveg upp í harðaland, en þegar ég kom að afskaplega penum og vatnslitlum læk, vaknaði forvitni mín; er einhver fiskur í þessu litla vatni?
Til að byrja með var ekkert mál að koma straumflugu niður í lækinn en eftir því sem ég gekk lengra með honum, þá þrengdist hann og þar sem ég í brasi mínu gafst upp og stöðvari för var breidd lækjarins ekki meiri en svo að ég gat staðið á báðum bökkum með sitthvorn fótinn. Að vísu var þetta sérlega auðveld leið til að veiða álitlega hyl sem ég kom að, mér dugði að teygja stöngina fram og gefa út þannig að straumflugan fór beint niður í dýpið sem var reyndar verulegt, en trúlega voru þetta ekki fallegar aðfarir að sjá.
Vandamálið sem ég upplifði var aftur á móti að bæði flugurnar mínar og línan tóku allt of mikinn straum á sig og náðu ekki að veiða allan hylinn áður en þær flutu upp úr honum. Þar sem ég þóttist vita að þessi hylur geymdi fisk, þó þröngur væri, voru mér aðeins tvær leiðir færar; þyngja fluguna eða nota nettari flugu og græjur. Hið síðar nefnda varð ofan á og til að toppa umbreytinguna, skipti ég úr straumflugu í hefðbundna Watson‘s Fancy votflugu #14. Og viti menn, lónbúinn hélt greinilega til við enda hylsins þar sem straumfluguna var tekinn að fljóta upp en votflugunni tókst að læðast að honum.
Þetta var vænn fiskur og í fyrstu var ég hissa á að hann héldi til í þessum litla og þrönga læk, en vitaskuld var þetta besti staðurinn á öllu svæðinu. Þarna þjappaðist allt ætið sem flæktist á milli vatnanna saman á mjög litlu svæði og hann þurfti væntanlega ekki að gera neitt annað en opna munninn reglulega til að ná munnfylli. Þarna sem sagt, lærðist mér að léttari flugur í svipuðum búningi og gáfu í stöðuvatninu, gátu verið vænn kostur á léttari græjur í rennandi vatni við erfiðar aðstæður.
Enn eitt grundvallaratriðið sem er vert að tyggja enn og aftur, af gefinni reynslu. Trúlega eru algengustu mistök hvers veiðimanns þau sem ættu að halda honum á tánum, vera ofarlega í huga hans og hann ætti að gera allt sem í hans valdi stendur til að leiðrétta þau. Því miður, í mínu tilfelli, þá er því bara alls ekki þannig farið. Um leið og ég hef endurtekið mistökin, þá eru þau gleymd og ég get alveg eins endurtekið þau, strax við næstu töku.
Þegar ég er ekki á tánum, með hugann á reiki eða augun á glápi út í buskann, þá tekur hann. Það er í það minnsta þannig sem ég útskýri fyrir sjálfum mér allar þær tökur sem ég missi af eða bregst allt of seint við.
Á veiðislóð, þar sem von er á fiski, þá er um að gera að vera með hugann við það að fiskur gæti tekið, hvenær sem er. Ég tel sjálfum mér trú um að það sé allt í lagi að vera með augun á umhverfinu, skima eftir fiski, álitlegum stöðum eða vísbendingu um æti sem fiskurinn gæti haft áhuga á. En þetta nær aðeins ákveðið langt, þegar fyrsta nart gerir vart við sig eða ákveðin taka, þá ætti maður samt sem áður að vera tilbúinn að meta aðstæður; hvar lagði er fluguna niður, hvernig var ég að draga inn, á hvaða dýpi var flugan o.s.frv. Því miður er því þannig farið með mig að þegar ég hugsa baka, þá er ég hreint ekki með svör við neinu af þessu og ég verð að byrja allt ferlið upp á nýtt. Leggja fluguna niður á mismunandi staði, draga inn með mismunandi hraða eða aðferð o.s.frv.
Það getur verið dýrkeypt að vera ekki á tánum, trúið mér.
Ég hef um árabil verið að nota litlar straumflugur í stærð #10 og #12 með, að því ég tel, bara alveg ágætis árangri og mér þykir alltaf jafn gaman að nota gamlar klassískar votflugur sem eru hnýttar á svipaða stærð eða jafnvel minni.
Hér um árið gaf ég mér smá tíma til að horfa á veiðimann sem var að veiða með hefðbundinni straumflugu í stöðuvatni. Stærðin á flugunni var að því mér fannst umtalsverð og eftir á þykist ég sannfærður um að hún hafi verið hnýtt á legglangan krók #2. Ég var svo sem ekkert sérstaklega að velta mér upp úr stærðinni á flugunni, mér finnst hverjum manni frjálst að veiða á þá stærð á flugu sem hann kýs eða með hverju því agni sem hann kýs ef því er að skipta. Það sem ég var að velta fyrir mér á meðan ég fylgdist með þessum veiðimanni var aðferðin sem hann notaði við inndrátt og hvar hann lagði fluguna niður og hve lengi hann leyfði henni að sökkva og allt þar fram eftir götunum. Mér var fljótlega ljóst að hann veiddi þessa stóru straumflugu á nær alveg sama hátt og ég veiddi litla votflugu. Nú ætla ég ekkert að segja til um hvort hann gerði eitthvað rangt eða ég. Raunar getur alveg eins verið að báðir gerðum við eitthvað rétt, því það er ekkert rétt eða rangt í fluguveiði, svo lengi sem fiskurinn tekur.
Ég þykist vita að stór fluga virki á fisk sem loforð um meiri mat heldur en lítil en reglulega dúkka upp fréttir af betri veiði þar sem litlum (mjög litlum) flugum er beitt. Hvað er þetta með litlu flugurnar? Ég hef minna en ekkert vit á laxveiði á flugu, þannig að ég get ekki svarað neinum þar um. Silungurinn aftur á móti hefur alveg sýnt mér að hann getur verið hvefsinn í grunnu og tæru vatni, styggist við minnstu hreyfingu í vatninu og tekur hreint ekki stórar flugur, víkur sér meira segja gjarnan undan þeim. Þá er um að gera að prófa minni flugur.
Í mínu tilfelli er það þá yfirleitt votfluga eða lítil marabou fluga sem hnýtt er á stuttan krók #12 eða #14 og ég veiði hana eiginlega alveg nákvæmlega eins og ég væri með stærri straumflugu. Kosturinn við litla votflugu er að það er mun auðveldara að staðsetja hana, yfirleitt. Hún leggst gjarnan betur niður, jafnvel þar sem einhver straumur er, heldur en stór fluga og þegar fiskurinn er eitthvað stressaður þá er auðveldara að læðast að honum með lítilli flugu heldur en stórri.
Ef einhver skyldi vera velta því fyrir sér hvaða votflugu ég noti undir svona kringumstæðum, þá er það Watson‘s Fancy, til vara Watson‘s Fancy og ef allt bregst, þá Dentist hnýttur eins og votfluga með fjaðurvæng eða lítill Black Ghost með sömu formúlu. Sem sagt, þrjár uppáhalds litasamsetningarnar mínar í straum- og votflugum. Og bara þannig að það sé á hreinu, það er alveg hægt að hnýta þessar litasamsetningar í marabou flugum til að fá dillandi smáflugu í vatni.