Flýtileiðir

Hart í bak

Hart í bak er ekki aðeins heiti á leikriti Jökuls Jakobssonar, það er líka snaggaraleg stefnubreyting til vinstri. Ef stefnubreytingin væri til hægri, þá væri það hart í stjór þar sem stjór væri stjórnborði. Eins og oft áður er inngangur þessa pistils aðeins eitthvað úr skúmaskotum hugar höfundar og þarf ekkert endilega að eiga við efni pistilsins, en alltaf þó einhver tenging.

Inndráttur er með ýmsu móti, hægur, hraður, stuttur, langur, rykkjóttur eða jafn, þetta og allt þarna á milli hefur komið fram á FOS og ég þóttist alveg vera búinn að dekka 90% af þessu, þangað til ég gerðist boðflenna á námskeiði um daginn og leiðbeinandinn spurði salinn hvernig hornsíli synda.

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá tókst mér að þegja á meðan svörin röðuðust inn úr salnum sem tengdust mismunandi inndrætti eins og ég taldi hér upp að framan. Svo féll stóra bomban þegar leiðbeinandinn spurði hvort hornsíli syntu alltaf beint áfram. Aha, þarna var enn eitt atriðið sem vantaði inn í það sem fjallað hefur verið um inndrátt hérna; hornsíli geta sveigt af leið, beygt undan öldu, straumi og ekki síst undan rándýrinu í vatninu.

Hvernig væri nú að bæta enn einni breytunni inn í dæmið og færa stangartoppinn annað slagið til hliðar og ná þannig líf- og raunverulegri hreyfingu í straumfluguna? Við það að færa stangartoppinn til hliðar og taka í línuna, þá sveigir ‚hornsílið‘ af leið í vatninu.

Hornsíli eru af öllum stærðum. Fæst þeirra eru í þeim stærðum sem við notum yfirleitt, þó margir hafi smækkað nobblerana sína á undanförnum árum, kannski vegna þess að þeir hafa áttað sig á því að horsíli hafa í hundruðir ára verið fyrirmyndir margra klassískra votflugna sem sjaldnast eru hnýttar á stærri króka en #10.

Ein gömul og góð fluga hefur oft komið mér til bjargar á miðju sumri þegar massinn af hornsílum í vötnunum eru nýliðar sem enn eiga töluvert langt í land að vera í stærð #8. Umrædd fluga er Héraeyrað, sú klassíska sem enginn veit með vissu hver hannaði, en nýmóðins útfærsla hennar með örlitlu dassi af gyltu vafi er glettilega góð eftirlíking af ungviði hornsílis. Dregin inn með rykkjum og skrykkjum, beint eða með því sem ég hef áður gleymt að nefna; í sveig, þá hefur hún oft gefið mér fisk þegar allt annað brást.

Var ég kannski búinn að segja þetta allt áður? Kannski, en þetta er góð vísa og þær má kveða aftur og aftur.

Eitt svar við “Hart í bak”

  1. thorarinna Avatar

    Ef þú ert með 15-20 metra úti af línu og svegir stöngins til vinstri (hart í bak) fullyrði ég flugan beygir ekkert, heldur togast beint til þín.

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com