Ertu upprennandi?

ATHUGIÐ: Þessi þvinga skipti um heimilsfang á innan við 10 mín og er trúlega á leið í stórvirkar hnýtingar ungs og efnilegs hnýtara.

Í mars s.l. birtist grein á FOS.IS undir fyrirsögninni Nýta, gefa, geyma? Í greininni voru hnýtarar hvattir til að koma ónotuðum hnýtingarþvingum í notkun í stað þess að láta þær liggja óhreyfðar ofan í kassa eða skúffu, engum til gagns.

Svo skemmtilega vill til að einn fylgjenda FOS.IS bað mig á dögunum um að auglýsa eftir nýjum eiganda, ungum eða upprennandi hnýtara að klassískum Danvise (sjá mynd) sem hann vildi gefa. Auðvitað er FOS.IS hrein ánægja að verða við þessari bón og hér með auglýsingum við eftir upprennandi hnýtara sem vantar góða þvingu fyrir ekkert annað en vera áhugasamur um fluguhnýtingar.

Ef þú, lesandi góður, ert í þessum hópi eða þekkir til einhvers slíks, þá mátt þú endilega senda okkur línu eða setja komment undir þessa færslu og við tengjum þig við þennan elskulega fylgjanda FOS.IS sem vill gefa þennan vise.

Engin veiði?

Það er ein spurning sem stendur upp úr þeim sem FOS.IS hafa fengið í sumar og hún er Er engin veiði þetta sumarið?  Svarið er margþætt þó það felist aðeins í einu orði; .

Jú, þrátt fyrir að sumarið hafi eiginlega varla komið fyrir utan stöku dag og dag.

Jú, og mér hefur bara gengið ágætlega í þeim ferðum sem ég hef farið.

Jú, það er slatti af fiski sem liggur í kistunni og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Jú, en ég ákvað orðið í fyrra að halda veiðiferðum mínum út af fyrir mig og hætta að birta þær hér á vefnum.

Það hefur lengi loðað við FOS.IS að tíðni pistla fellur nokkuð hratt yfir sumarmánuðina, svo er einnig þetta árið. Með haustinu gefst mér vonandi tími til að setjast niður og setja nokkrar greinar á blað, en fram að því safna ég í reynslu- og mistakabankann sem ég vinn síðan úr þegar fyrstu frost ganga í garð.

Að tala um fyrstu frost er vitaskuld kaldhæðnisleg, þar sem ég er þegar búinn að upplifa fyrsta frostið í veiði eða var það síðasta frost síðasta vetrar? Eins og sumarið kom undan vetri (ef það gerði það þá) þá er ómögulegt að segja til um hvaða frost tilheyrði hvorum vetri. Blessunarlega hafa einhverjir dagar verið með eindæmum góðir og nú styttist í nýtt tungl sem oft færir okkur veðrabreytingar. Það væri óskandi að mánuðirnir til hausts verði langir, mildir og gjöfulir. Þar til það kemur í ljós, þá eru hér nokkrar svipmyndir úr ferðum mínum það sem af er.

Einu feti framar

Ég held að það hafi verið í einni af Ástríks bókunum sem þessi gullvæga setning var höfð eftir Spartverjum; Ef stóra tá þín er of stutt, gakktu þá fetinu framar. Mér er til efs að þetta sé sannleikanum samkvæmt, ekki ber að trúa öllu sem Ástríkur hefur sagt. Jæja, þá er ég búinn að ná athygli lesandans og tókst meira að segja að lauma að þessu eina feti inn sem getur skipt máli.

Mínir taumar skiptast oftast í þrjá hluta; sverasta partinn sem er næst línunni (60%), miðju parturinn (20%) og taumaendinn (20%). Eins og gengur þá styttist taumaendinn eftir því hve oft ég skipti um flugu og þá vantar stundum allt í einu eitt fet á tauminn þannig að hann sé af æskilegri heildarlengd. Úr þessu er vitaskuld einfalt að bæta, hnýta eitt fet til viðbótar eða klippa taumaendann af og setja nýjan í upprunalegri lengd. Þetta er ekkert flókið, eða hvað?

Gefum okkur að ég standi lánlaus á bakkanum eftir ótilgreindan fjölda kasta og að mér kemur reynslubolti, gjóir augunum á tauminn minn og segir; Ég er nú alltaf með lengri og grennri taum hérna, hún er svo stygg. Til einföldunar skulum við segja að ég sé með heildarlengd taums upp á 10 fet, 6 fet af 0.50 mm (sem er u.þ.b. 2/3 af línusverleikanum mínum) 2 fet af 0.30 mm (0X) og 2 fet af 0.22 (2X).

Mér væri í lófa lagið að lengja tauminn minn með 4 fetum af 0.18 mm (4X) þá væri hann samtals 14 fet í stað 10 áður, ég væri þá næstum því að taperingunni á tauminum (0.50 > 0.30 > 0.22 > 0.18) eða hvað? Nei, það er víst ekki svo að þessi taumur sé til stórræðanna. Væntanlega yrði ég smækka fluguna ef þá taumurinn í heild sinni réði við að rétta úr sér á annað borð, en það er alltaf hætt við að aflið í kastinu dræpist í þessum nýju 4 fetum af fremsta efninu.

Nær væri að taka fram 7 fet af 0.50, hnýta 4 fet af 0.30 og 4 feta taumaenda úr 0.20 í nýjan taum. Formúlan væri þá að vísu ekki 60/20/20 en nógu nálægt því til að virka og ég væri búinn að ná lengri taum og í raun einu feti framar.

Að lengja taum, annað hvort með því að lengja taumaendann umtalsvert eða bæta nýjum (grennri) taumaenda sem fremstra parti, virka afar takmarkað. Það er ekki bara sverleiki taumsins frá byrjun til enda sem skiptir máli, líka það sem er þarna á milli. Það má hugsa sér alla missmíð á taum eins og hlykk á garðslöngu, hver einasti hlykkur seinkar því að vatnið komi fram úr henni, vatnið skila sér síðar eða ekki.

Skipað gæti ég, væri mér hlýtt

Frá því skötuhjúin Adam og Eva komu einhverjum króum á legg, þá fór kynslóðabilið að gera vart við sig. Þegar ég lét mér þetta orðtak (fyrirsögnin) um munn fara hér um árið, þá stóð ekki á viðbrögðum yngri kynslóðarinnar á mínu heimili; Hva, er þér kalt? Að öllu gamni slepptu, þá rifjaðist þetta atvik upp fyrir mér þegar ég las annars ágætan pistil um daginn þar sem höfundurinn fór fimum orðum um hitt og þetta (sem tengdist að vísu ekki veiði, þannig að málefnið skiptir ekki máli). Undirtónninn í greininni var allur í skipanatón; gerðu þetta, gerðu hitt og það örlaði hvergi á hógværð, allt í boðhætti þess manns sem allt veit best. Hugrenningartengslin fóru á yfirsnúning hjá mér og upp fyrir mér rifjuðust samskipti sem ég átti á veiðistað við mér mun eldri veiðimann.

Þetta samtal átti sér stað fyrir áratugum síðan, svona um það bil sem ég var enn miðaldra og umræðuefnið var hvað þyrfti til þess að verða góður veiðimaður. Mögulega kveikti ég umræðutóninn með greddukenndum spurningum / yfirlýsingum um að fjöldi fiska hlyti að gera mann að góðum veiðimanni. Ég sá blóðþrýstingin rjúka upp hjá viðmælanda mínum, sjáöldrin víkka í öfugu hlutfali við augun sem pírðust saman og ég get svarið að eftir fyrsta svarið sá ég örla á svitaperlum á enni hans.

Heyrðu mig, Kristján minn. Fiskar skipta ekki máli, fiskur skiptir máli. Allir geta veitt fiska þar sem nóg er af þeim. Góður veiðimaður veiðir fisk þar sem þeir eru fáir.

Labbaðu varðlega, hættu þessu trampi og gættu orða þinna. Þó þú heyrir ekkert í sjálfum þér, þá finnur fiskurinn þegar þú nálgast.

Svo skaltu setjast niður. Opnaðu augun, lokaðu munninum, horfðu, hlustaðu. Horfðu á vatnið, þar eiga fiskarnir heima. Horfðu á vatnsborðið, þar eiga pöddurnar heima. Hlustaðu því þá veistu hvort þær eru á ferðinni.

Ekki standa upp fyrr en þú hefur séð eitthvað, heyrt eitthvað eða hvorugt. Ef ekkert er að sjá eða heyra, þá skaltu standa varlega upp og velta einum steini við, horfðu.

Opnaðu boxið og veldu eitthvað í samræmi við það sem þú hefur séð, allt annað er rugl, nema Peacock.

Mig skortir ritleikni til að koma tóninum til skila, en þessi orð hafa verið mér ofanlega í sinni síðan. Verst hvað mér hefur aumkunanlega tekist til að fara eftir þessum orðum, það er svo skolli margt sem maður veit að er rétt, en ástundar ekki.

Ég veit að þessi grein er full af orðum sem yngri kynslóðir vita hreint ekki hvað þýða, þeim bendi ég einfaldlega á að leita til sér eldri einstaklinga og spyrjast fyrir. Það er jú þannig sem við flest lærum eitthvað.

Líf í vatni

Ef einhver velkist í vafa um það hvað craft fur er, þá er það einfaldlega gervihár sem upprunalega var framleitt í kraga á úlpur, alveg satt. Máttur fluguveiðinnar er aftur á móti slíkur að flest þekkjum við þetta frekar sem hráefni í flugur. Löng, fíngerð hár sem afar margir hnýtarar nota í stað náttúrulegra hára sem oft vilja vera nokkuð óþjál, beinlínis óstýrlát og haldin almennri þvermóðsku þegar maður ætlar að hnýta þau niður.

En það er ýmislegt annað sem aðskilur craft fur og náttúruleg hár heldur en meðfærileikinn. Þegar maður kaupir náttúruleg hár þá er 99,9% öruggt að hárin eru ekki öll jafn löng og það getur tekið töluverðan tíma að jafna þau þannig að úr verði jafn og fallegur vængur á flugu. Þegar það tekst á endanum, þá kemur annar munur þessara efna í ljós; þau eru heldur ekki öll jafn sver sem kemur berlega í ljós þegar hnýtt er niður á krókinn. Grönnu hárin sem kremjast undan þræðinum, jafnvel undan sverari hárum, taka upp á því að standa út í loftið. Klippa eða kippa? Svarið er alltaf klippa. Ef maður kippir í grönnu hárin, þá er eins víst að næstu hár losni þannig að vængurinn er allur í tætlum.

Hvoru tveggja er sjaldan vandamál þegar hnýtt er úr gervihárum. Þau eru öll eins í laginu, bæði hvað varðar sverleika og lengd. Þetta er að vísu sett fram með fyrirvara um ákveðna framleiðendur sem sumir hverjir hafa tekið upp á því að líkja eftir feldi dýrs og raða hárunum á gerviskinnið í raðir með smækkandi hárum yst. Hvers vegna, hef ég ekki hugmynd um og finnst það í raun álíka gáfulegt eins og framleiða gervi bacon. Ef ég þarf styttri hár, þá klippi ég einfaldlega aftan af vöndlinum.

Einmitt, þetta með að klippa gervihár minnir mig á að þau eru ekki hol eða með holrými eins og margt náttúrulegt hár og fljóta því síður. Sumum finnst það kostur, þar á meðal mér, á meðan öðrum hentar það ekki. Gervihár eru heilsteypt og yfirleitt sveigjanlegri heldur en náttúruleg hár af stórgripum. Samanburður gervihárs og t.d. kanínu eða minks er ekki sanngjarn, þar skákar náttúran alltaf gervihárum, ennþá.

Í vetur sem leið, hnýtti ég töluverðan fjölda af hefðbundnum flugum, þ.e. litasamsetningum sem þekktar eru að gefi vel á ákveðnum veiðisvæðum, lesist sem Veiðivötn. Í stað þess að þyngja flugurnar með glannalegum glyrnum frá Grohe eða ótilgreindum vafningum af tungsten þræði, þá hnýtti ég þær léttar úr craft fur á lítið eitt þyngri krók. Ég viðurkenni það fúslega að ég var undir áhrifum af öllum þessum flottu horsílaeftirlíkingum sem tröllriðið hafa netinu undanfarin ár en vildi samt ekki ganga eins langt í dúlleríinu. Það sem ég sóttist eftir var einföld útfærsla, auðhnýtt og endingargóð.

Auðvitað prófaði ég nokkrar útfærslur í vatni hér heima, en það gefur vitaskuld ekki alveg rétta mynd að máta flugu í glasi fullu af vatni. Ég beið því óþreyjufullur eftir sólríkum degi við íslaust, spegilslétt vatn. Slíkt augnablik gafst nú um daginn og ég hélt af stað með tilraunaboxið, vopnaður flot- , intermediate- og heilsökkvandi línum til að sjá með eigin augum hvort flugurnar stæðust væntingar mínar og væru nægjanlega hlutlausar í vatni til að leyfa línunni að stjórna því á hvaða dýpi þær sætu.

Niðurstaðan kom skemmtilega á óvart. Craft fur er lifandi efni í vatni, það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta. Dillandi flugurnar á flotlínu veiddu sig í gegnum vatnið á 10 – 20 sm dýpi. Hefði ég haft örlítið meiri biðlund hefður þær að öllum líkindum náð neðar. Þær sem dingluðu á endanum á intermediate línunni fóru einfaldlega þangað sem ég leyfði línunni að sökkva, rétt eins og þær á heilsökkvandi línunni. Tilraunin lofar góðu; léttari flugur, minni loftmótstaða og lifandi í vatni. Hvenær opnar í Veiðivötnum?

Ferðabakgrunnur

Fyrir einhverjum árum síðan benti ég hér á kosti þess að vera með ljósan, helst mattan bakgrunn þegar maður situr við fluguhnýtingar. Það kemur víst fyrir að hnýtingaraðstaðan sé ekki alveg eins snyrtileg og efni standa til, ýmislegt efni liggur á víð og dreif fyrir aftan þvinguna þannig að bakgrunnur flugunnar sem maður er að hnýta er oft svolítið óreiðukenndur.

Nú er það svo að margur hnýtarinn flakkar með græjurnar sínar, skreppur á hnýtingakvöld annað slagið eða grípur græjurnar með sér upp í bústað og þá er ekki gott að taka með sér of mikið af dóti.

Með því að líma smá segul á bakið á möttu pappaspjaldi, t.d. baksíðu úr minnisblokk eða sambærilegu, þá má smella þessum bakgrunni á svo til allt í grennd við þvinguna ef hún er ekki útbúinn pinna eins og mín þannig að ég læt mér nægja að vera með litla klemmu í hnýtingartöskunni. Franskur rennilás sem límdur er á pappaspjald kemur að svipuðu gagni þannig að það má tylla spjaldinu þar sem hentar.

Stórar flugur, stórir …

Hver hefur ekki heyrt Stórar flugur, stórir fiskar? Ég í það minnsta fæ að heyra þetta reglulega frá góðum vini mínum þegar hann virðist hafa misst alla trú á litlum flugum eða langar orðið í fisk, helst stóran. Svo eru þeir til sem segja þetta reglulega án sérstaks tilefnis, einfaldlega vegna þess að hér um árið hafði viðkomandi reynt við þann stóra með öllum flugum í boxinu og ekkert orðið ágengt. Það var ekki fyrr en stærsta flugan fór undir að fiskurinn brást við og tók.

Alveg burtséð frá því hvort stórar flugur veiði stóra fiska eða ekki, þá eru nokkur atriði sem eru oft fylgja þessum stóru flugum sem vert er að gefa gaum. Eitt af því er þyngd þeirra flugna sem hnýtarar setja saman og efnisvalið í flugurnar. Ég er svolítið með ákveðna tegund flugna í huga þegar ég velti þessu fyrir mér og reyni að koma í orð; flugur sem innihalda náttúrulegt hár eins og t.d. zonker flugur. Eins og nærri má geta þá er þurr zonker í þvingu ekkert sérstaklega þungur og því sér maður oftar en ekki að lokahnykkur flugunnar er ekki endahnúturinn heldur málm hjálmur sem er vel við vöxt. Hugsunin á bak við þetta er vitaskuld að koma flugunni niður í vatnið og það er vert að hafa í huga ef veiða skal straumharða á þar sem sá stóri liggur á botninum.

En það læðist stundum að manni sá grunur að þegar flugan er kominn niður í vatnið og skinnið hefur náð að blotna í gegn, þá verði flugna eitthvað aðeins þyngri en til stóð og þegar fyrsta inndrætti er lokið, þá vandast málið. Ég las það einhvers staðar (finn því miður ekki viðkomandi grein til að vísa í hana) að góður zonker sem hnýttur er úr kanínu eða minkaskinni geti auðveldlega tvöfaldað þyngd sína þegar skinnið hefur blotnað. Ef sú þyngdaraukning bætist við níðþungann skullhead sem prýðir fluguna, þá getur heildarþyngdin beinlínis orðið lífhættulegt fyrir nærstadda þegar lagt er af stað í næsta kast, sérstaklega stöngina sem á að geyma aflið sem þessi þyngd felur í sér.

Til að ráða bót á þessu er þrennt í stöðunni. Fyrir það fyrsta, þá er hægt að velja stærri (þyngri) stöng sem ræður örugglega við þessa þyngd. Í annan stað er hægt að nota gerviefni í fluguna í stað náttúrulegs hárs, gerviefni hrindir frekar frá sér vatni, en síðast en ekki síst er hægt að nota léttan hjálm úr sílikon í stað skullhead úr málmi til að ganga frá flugunni ef þú vilt endilega hafa á henni kjaft og glyrnur.

Mynd tengist færslu aðeins lauslega

Kveikjan að þessum hugleiðingum mínum er fluga sem ég fann á bökkum veiðivatns í sumar sem leið. Ég hef enn ekki fundið krók í mínum fórum sem passar við þessa flugu, en reglustikan mín segir að heildarlengd hárlufsunnar sé 16 sm og þá er hausinn á flugunni ekki meðtalinn. Það hvarflaði að mér að hin óheppni veiðimaður sem týndi þessari flugu, hafi mögulega gert það viljandi, búinn að fá nóg af þyngd hennar og erfiðleikum að koma henni skammlaust út á vatnið.

Stutta strippið

Mér finnst ekkert leiðinlegra að strippa skrautlega straumflugu heldur en næsta manni, í það minnsta flestum veiðimönnum. Jú, ég trúið því alveg að það séu til veiðimenn sem elska það eitt að draga fluguna alveg löturhægt, en sorrý, þið eruð ekki umfjöllunarefnið í þessari grein, eða hvað?

Það mætti halda að ég hafi ekkert annað að gera en vafra um á netinu og lesa veiðiblogg, en það er ekki satt, ég les líka töluvert af greinum um vötn og dýralíf. Það var einmitt ein slík sem rifjaðist upp fyrir mér í sumar sem leið þegar ég óð yfir grynningar í vatni þar sem urmull af hornsílum syntu um. Dýpi vatnsins var ekki meira en svo að ég sá vel til botns og gat fylgst með atferli þeirra og í fyrstu koma það mér á óvart að þau voru ekkert svo stygg, syntu bara þarna á milli lappanna á mér og létu sér fátt um finnast. Annað slagið kom þó einhver styggð að þeim og þau tóku á sundsprett.

Hornsíli

Þegar ég horfði þarna á þau þá fór ég að líta í eigin barm. Jú, þarna voru festar nokkrar flugur sem gátu alveg átt við stærð og litarhaft þessara hornsíla en þegar mér varð litið á hendur mínar, þá skaut annarri hugsun niður í kollinn á mér. Það var þessi grein frá Kanada um atferli hornsíla sem ég las fyrir margt löngu síðan. Eflaust var margt merkilegt í þessari grein, en það sem ég man helst var að höfundur hennar fullyrti að sundsprettur hornsíla væri töluvert styttri heldur en veiðimenn virðast halda, sérstaklega þegar heitt er í veðri.

Hornsílin sem ég fylgdist með voru hreint ekkert að taka löng sundtök, miklu frekar á rólegu dóli án sýnilegra kippa. Þegar styggð komst að þeim, hvort sem það var vegna mín eða einhvers annars, þá voru þetta stuttir kippir, ekki nema 2 til 5 sm í hvert skipti með miklu lengri pásum heldur ég hef vanið mig á að taka í inndrætti. Svo ég vísi nú aftur í þessa grein sem ég las, þá nefndi höfundur hennar mini-strip sem miklu vænlegri inndrátt heldur en þennan 1 – 2 feta sem margir nota. Það sem hann kallaði mini-strip var ekki nema 1 til 2 tommur, jafnvel styttra og með töluverðum pásum á milli.

Það var raunar ekki fyrr en nokkru síðar að mér gafst færi á að prófa þetta stutta stripp og viti menn, það hljóp alveg ágætur 4 pundari á hjá mér eftir að ég hafði verið að hamast með mitt venjulega, lengra og hraðara stripp í þó nokkurn tíma án árangurs. Nú skal alveg ósagt látið hvort ég hafi einfaldlega verið heppinn eða stutta strippið hafi verið meira í ætt við það sem hornsílið ástundaði.

Lengd og þyngd

Ef ég veiði urriða sem er 45 sm að lengd og eðlilegur í holdafari, hvað ætli hann sé þá gamall og þungur? Ef urriðinn hefur veiðst í Stóra Fossvatni í Veiðivötnum, þá getur hann verið á bilinu 7 til 9 ára, nákvæmar er nú ekki sem hægt er að skjóta á aldur hans. Að sama skapi getur þyngd hans getur verið frá 800 og upp 1.100 gr. eða jafnvel meiri ef hann er sérlega vænn.

Aldursgreining hreisturs og kvarna úr frænda Veiðivatnaurriðans, þ.e. þess sem gotið var á Þingvöllum, sýna ágætlega vaxtarhraða eftir árum en gefa því miður litlar upplýsingar um þyngd hans:

Aldur (ár)Meðallengd (sm)Lenging á milli ára (sm)Vaxtarstuðull á milli ára
14,21,00
29,65,41,29
317,37,70,80
425,380,46
535,910,60,42
647,411,50,32
759,912,50,26
870,810,90,18
973,62,80,04
1076,12,50,03
Heimild: Aldursrannsóknir á urriða úr Öxará 1999 – VMST-S/00006X

Skyndilegur samdráttur í vexti 8 – 9 ára urriða skýrist væntanlega af því að þegar urriðinn verður kynþroska, þá dregur verulega úr vexti hans.

Afkomendur Þingvallaurriða sem sleppt var í Skorradalsvatn á áttunda áratug síðustu aldar víkur í nokkrum atriðum frá rannsóknum á Þingvöllum:

Aldur (ár)Meðallengd (sm)Meðalþyngd (gr)Lenging á milli ára (sm)Þynging á milli ára (gr)
31980
43139712317
533,54552,558
641,38677,8412
751,8161510,5748
Heimild: Fiskirannsóknir í Skorradalsvatni 2008-2009 – Jón Kristjánsson 2010

Verulegt frávik er í vexti 4 til 5 ára urriða í þessari rannsókn, snögglega dregur úr vexti sem tekur þó aftur við sér þegar fiskurinn nær 6 ára aldri. Þess ber að geta að fjöldi fiska í hverjum árgangi var ekki mjög mikill og um meðaltal er að ræða þar sem eitt sýni getur aflagað niðurstöður.

Það eru til ýmsar góðar töflur um þyngd urriða út frá lengd hans, en það er líka til ágæt formúla Fulton’s (1911) sem gefur þokkalega nálgun á þyngd fiska m.v. lengd. Formúlan styðst við ákveðin stuðul ástands (holdafars) þannig að hana má auðveldlega aðlaga mismunandi tegundum að undangengnum nokkrum mælingum og vigtun. Þumalputtaregla fræðinga hefur verið að urriði í venjulegum holdum sé með stuðul 1.0, sá magri 0.8 og sá væni 1.2

Lengd (sm)Magur (gr)
stuðull 0.8
Eðlilegur (gr)
stuðull 1.0
Vænn (gr)
stuðull 1.2
15,0273441
17,5394959
20,0648096
22,591106128
25,0125156188
27,5166208250
30,0216270324
32,5275343412
35,0343429515
37,5422527633
40,0512640768
42,5614768921
45,07299111.090
47,58571.0701.290
50,01.0001.2501.500
52,51.1601.4501.740
55,01.3301.6602.000
57,51.5201.9002.300
60,01.7302.2002.600
62,51.9502.4002.900
65,02.2002.7003.300
67,52.5003.1003.700
70,02.7003.4004.100
72,53.0003.8004.600
75,03.4004.2005.100
77,53.7004.7005.600
80,04.1005.1006.100
82,54.5005.6006.700
85,04.9006.1007.400
87,55.4006.7008.000
90,05.8007.3008.700
92,56.3007.9009.500
95,06.9008.60010.300
97,57.4009.30011.100
100,08.00010.00012.000
102,58.60010.80012.900
105,09.30011.60013.900
107,59.90012.40014.900
110,010.64813.31015.972
Útreikningar skv. Fulton (1911)

Hausverkur af hnýtingum

Það flokkast undir almenna skynsemi að sitja rétt við hnýtingarnar, vera á góðum stól og sitja beinn í baki, þetta segir sig sjálft og þarf ekki að tyggja aftur og aftur, eða hvað?

Þeir heyra til undantekninga, hnýtararnir sem ég sé á vetrum sem sitja rétt. Jú, flestir þeirra sitja beinir í baki og passa upp á líkamsstöðuna, alveg upp í háls. Þá tekur annað við, því eftir smá stund sér maður þegar höfuðið fer að síga fram á við og það er ekki vegna þess að það er fullt af hugmyndum að flottum flugum.

Ef hnýtingarþvingan er ekki nægjanlega hátt staðsett fyrir framan þig, þá er ekki von á öðru en höfuðið á þér fari að halla fram á við eftir smá tíma. Það er misjafnt hvað hverjum og einum þykir heppileg hæð á þvingunni, en sjálfur er ég kominn með þvinguna undir handarkrikana í hæð og finn mikinn mun á úthaldinu og er alls ekki eins stífur í hnakkanum og áður.

Hefur þú hnýtt upp úr ruslinu?

Eftir nokkur skipti af góðum dögum við hnýtingarþvinguna er ýmislegt sem fellur til af afklippum, hálfnýttu hráefni og fleiru. Það eru mörg ár síðan ég kom mér upp ruslafötu við hnýtingarborðið og sú góða fata hefur gengið í gegnum einhverja endurnýjun (stækkun) á þeim árum sem liðið hafa síðan. Það var svo fljótlega að ég tók upp á því að hafa box á borðinu hjá mér fyrir það sem ég mögulega gæti notað síðar.

Ekki alls fyrir löngu rakst ég á einhverjar pappaöskjur undir borðinu mínu og viti menn, þetta voru þessi box sem ég hef alltaf ætlað að mögulega nota síðar. Það hljóp í mig einhver kergja og ég ákvað að hnýta upp úr þessum boxum, bætti aðeins við þráð og krók eftir því sem passaði.

Upphaflega ráðgerði ég að hnýta þekktar flugur, þ.e. einhverjar með nafni og eftir uppskrift, en fljótlega varð ljóst að ég yrði annað hvort að laumast í nýtt efni eða bregða verulega út frá uppskriftinni, þannig að ég hnýtti bara eitthvað.

Það verður að viðurkennast að þær flugur sem ég hnýtti úr þessum afgöngum voru ekkert ósvipaðar þeim sem ég er vísvitandi hnýtti úr nýju hráefni með það eitt fyrir augum að fá útrás fyrir nýjungagirnina eða sköpunargáfuna. Hver um sig verður bara að dæma hvernig tókst til hjá mér, en það leynist ýmislegt nothæft í ruslinu og kannski rétt að kíkja oftar í það.

Þungar púpur eða þyngri taum?

Allt frá því kúluhausar í yfirþyngd komu fram á sjónarsviðið, þá hefur maður ekkert endilega viljað snerta mikið á þungum taumum, kúlurnar hafa eiginlega séð um að koma flugunni niður fyrir mann. En með tíð og tíma hafa farið að renna á mann tvær, ef ekki þrjár grímur og maður fer að velta fyrir sér hvort þungar púpur séu endilega rétta svarið. Ég hef ekkert endilega komist að ákveðinni niðurstöðu um þetta, en það er ýmislegt sem ég hef velt fyrir mér um kosti og galla þyngri flugna.

Eigum við ekki að byrja á því augljósa; þungar flugur eiga stundum erfitt með að hefja sig til flugs. Þó randaflugan sé sögð brjóta öll lögmál loftfræðinnar, á hreint og beint ekki að gera flogið með þennan bústna, loðna búk og litlu vængi, þá ná önnur lögmál yfir þungar flugur sem við framleiðum. Við beitum tækjum og tólum til að láta fluguna fljúga, hnýtum hana á taum sem tengdur er línu sem fær afl sitt úr stönginni sem við höldum á. Þannig komum við, með mis miklu átaki, þungum flugum út á vatnið þar sem þær sökkva. Auðvitað er þetta svolítið ýkt, það þarf sjaldnast mjög mikið afl til að koma þyngdri púpu út á vatnið. En þegar í vatnið er komið, þá tekur annað lögmál við. Hreyfing þungrar flugu er stirðbusalegri heldur en léttrar flugu, það gefur augaleið. Jafnvel þótt flugan sé tengd við flotlínu, þá er eigin þyngd hennar alltaf sú sama og sú þyngd dregur úr hreyfanleika hennar.

Ef við setjum okkur í spor fisksins, þá horfir hann á skordýr sem svamlar um eða rís upp að yfirborðinu nokkuð átakalaust, svona yfirleitt. Mikið af þessum skordýrum sem hann á að venjast að séu á ferðinni, hafa safnað í smá loftbólu til að hjálpa sér við að rísa upp að yfirborðinu og þar af leiðandi er hreyfing dýrsins létt og leikandi, ekki þung og silaleg. Einfaldasta lausnin á þessum stirðbusahætti þungu flugunnar er að hafa hana léttari og hnýta hana á léttan taumaenda sem festur er á þungan eða þyngdan taum. Þetta er í raun þrautreynd aðferð sem fluguveiðimenn masteruðu hér á árum áður, áður en ofurþyngdar púpur tóku völdin, þ.e. að veiða með þungum taum eða taum sem hefur verið þyngdur með s.k. höglum til að koma honum niður. 10 – 20 sm taumaendi á slíkum taum nægir oftast til að leyfa flugunni að líða fram og til baka, upp og niður, létt og áreynslulaust.

Þessar vangaveltur mínar eiga kannski helst við í vatnaveiði þar sem straumur er hvorki til trafala eða aðstoðar við hreyfingu púpunnar. Eftir sem áður eru þyngdar púpur eflaust besti kosturinn til að koma flugunni niður, fljótt og örugglega fyrir fiskinn í rennandi vatni.

Litlir eða stórir

Eins og gjarnan var sagt í útvarpinu hér í (eld) gamladaga; Kannast hlustendur við … að myndir af stórum fiskum laði frekar að heldur en myndir af litlum fiskum? Því hefur verið haldið fram að það sé eðlishvöt að sækjast í að ná stærri fisk heldur en lítinn. Jú, trúlega er ennþá grunnt á eðlishvötinni sem árhundruð eða þúsundir mótuðu meðal veiðimanna. Stærri fiskur er jú meiri matur heldur en lítill og því eftirsóttari.

Þessi frumkvöt hefur aðeins þynnst út, því nú þarf fiskunnandi ekki lengur að veiða sér til matar, hann getur farið út í næstu búð og keypt snyrtilegt flak, roðflett og jafnvel beinlaust og smellt því á pönnuna. Að vísu veit viðkomandi ekkert endilega alla söguna á bak við flakið, hvaðan það kemur eða hvernig og á hverju fiskurinn var alinn. Umbúðirnar geta meira að segja verið villandi og á þær prentað Viltur urriði úr Fáránleikafirði – framleiðandi Langt nef ehf. Bæði Fáránleikafjörður og Langt nef ehf ættu að vekja einhverjar efasemdir, er það ekki? Mestar líkur eru á að þetta fyrirtæki sé að gefa kaupandanum og náttúrunni langt nef og sjálfur mundi ég seint trúa því að viltur urriði veiðist í Fáranleikafirði. En nú er ég kominn langt út fyrir efnið.

Hin síðari ár hafa samfélagsmiðlar orðið til þess að fleiri og fleiri veiðimenn kvitta fyrir frábærum degi í veiði með mynd af einum, helst mörgum, stórum fiskum í fallegu umhverfi. Það hefur meira að segja gengið svo langt að áheyrendur íkjukenndra veiðisagna krefjast sönnunargagna í formi mynda í miðri frásögn og skemma þannig góða veiðisögu og vilja tengja hana sannleikanum. Þetta er dapurleg þróun á sagnahefð veiðimanna, sjálfur vil ég frekar heyra góða veiðisögu einu sinni heldur en sjá sama fiskinn á mörgum myndum, í margra manna höndum, jafnvel ár eftir ár. Jú, samfélagsmiðlar eru ákveðinn hvati að myndatökum veiðimanna, ekki nokkur vafi.

Svo er það metnaðurinn, hann dregur veiðimenn oft á stórfiskaslóðir. Ég held að hann blundi nú alltaf einhvers staðar, metnaðurinn til að gera betur. Ekkert endilega í keppni við næsta mann, heldur fremur að gera betur en maður sjálfur, bæta metið og þá kemur stærð fiska sterk inn. Að ná stærri fisk á land krefst yfirleitt meiri reynslu og færni. Að ná sífellt stærri og stærri fiski er þá nokkurs konar próf í hvoru tveggja, kvittun fyrir því að þú hefur æft þig nóg og ert veiðimaður með veiðimönnum.

Neikvæður fylgifiskur allra stóru fiskanna er að þeir sem aldrei ná stórum fiskum eða verða ekki varir við fisk þar sem skrímslið kom á land í síðustu viku, brotna smátt og smátt niður ef þeir eru í einhverjum vafa um eigin færni. Það er öllum holt að efast, en það má ekki verða að einhverjum kvíðahnút sem hamlar veiðiferðum að fá aldrei stóran fisk. Þá er gott að hafa það á bak við eyrað að fyrir hvern einn stóran fisk á samfélagsmiðli, þá hafa veiðst hundruðir titta, þeir eru bara sjaldnast myndefni, jafnvel þótt þeir hafi fært veiðimönnum ánægju og umbun.

JS Buzzer

Sumar flugur fara ekki hátt í umræðunni svo árum og áratugum skiptir þangað til einhver góðhjartaður maður tekur upp á því að kunngera hana. Því er þannig farið með þessa flugu Jóns Sigurðssonar, hún fór ekki hátt meðal þorra fluguveiðimanna á Íslandi þar til Ívar Hauksson kynnti fluguna til sögunnar í heimildarmynd sinni um Jón Sigurðsson.

Einfaldleikinn er oft bestur og það verður ekki sagt um þessa flugu að hún sé flókinn, aðeins tvö hráefni, ef þráður og krókur eru undanskilin. Sjálfur hef ég átt þessa flugur í mínu boxi í einhver ár, hef einhvers staðar rekið augun í hana í boxi annars og hnýtti hana enn einfaldari; krókur, svartur þráður og Peacock herl.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Búkur: svart glansandi Árórugarn
Hringvöf: peacock herl
Haus: svartur, lakkaður

Uppskriftin hér að ofan er fengin úr skýringum við myndband Flugusmiðjunnar sem líta má hér:

Er ódýrara að hnýta sjálfur?

Þetta er spurning sem ég hef fengið í nokkur skipti, sérstaklega eftir að einhver hefur fengið að gægjast í fluguboxin mín. Tvímælalaust getur það verið ódýrara að hnýta sínar flugur sjálfur. Hérna er lykilorðið getur því þegar allt er talið og áhuginn á fluguhnýtingum kominn á fullt, þá er örugglega ódýrara að kaupa flugurnar sínar úti í næstu búð eða taka sjensinn og panta þær á netinu frá einhverju fjarlægu heimshorni.

Flestir byrja sínar fluguhnýtingar til að spara aurinn og það er alveg hægt ef þú notar tiltölulega fáar tegundir flugna sem kalla ekki á mikið úrval hnýtingarefnis. Ég þekki marga slíka veiðimenn og þeir hafa masterað fáar og pottþéttar flugur sem þeir hnýta og nýta. Ef þá langar að prófa einhverja nýja flugu, þá kaupa þeir nokkur eintök og sjá svo til hvor þeir bæti því hnýtingarefni við í safnið ef það er þá ekki þegar til.

En hjá þeim sem hnýtingarnar eru komnar út í hreint og beint áhugamál og afþreyingu, þá getur kostnaðurinn á hverja flugu orðið verulegur, ef kaupa þarf sérstakt efni í hverja eina og einustu sem mönnum dettur í hug að prófa. Þegar allt kemur þó til alls, þá stendur það eftir að áhugamálið fluguhnýtingar er langt því frá að vera dýrt áhugamál, því með tímanum eignast menn efni í nær allar flugur sem hugsast getur. Verst er þetta framboð af nýju hnýtingarefni sem er alltaf hreint að koma fram.

Sem áhugamál eru fluguhnýtingar náttúrulega bara hrein og bein skemmtun sem nær langt út fyrir hnýtingarþvinguna, fljótlega eru hnýtarar orðnir meðlimir í hinum og þessum hópum á samfélagsmiðlum, lagstir í Pinterest vafr í tíma og ótíma og þar fram eftir götunum. Það er náttúrulega þekkt að forfallnir veiðimenn eyði töluverðum tíma utan hefðbundins veiðitíma í að hnýta flugur, æsa þannig sjálfa sig upp í eftirvæntingu og margir hverjir standa upp frá hnýtingum að vori með fullt, fullt af flugum sem á að prófa yfir sumarið. Þessi frómu áform eiga ekkert endilega eitthvað sammerkt með efndum, því margar þessara flugna týnast í glatkistu fluguboxanna og eru aldrei prófaðar.

Hnýtarar geta þó í það minnsta huggað sig við einn stærsta ávinning eigin hnýtinga, þeir eiga flugu sem er nákvæmlega eins og þá langaði í, svona yfirleitt.

Keeper

Flugan er vel þekkt og fjölmargir hnýtarar hafa hnýtt eitthvað í þessa áttina og veitt vel á. Það vita væntanlega færri að þessi fluga á ættir að rekja til Japan eða því sem næst. Þessi fluga í hefðbundinni Tenkara útfærslu hefur verið þekkt þar austur frá í áratugi ef ekki hundruð ára enda er efnisval hennar nægjanlega einfalt til að standast kröfurnar.

Upphafleg flugan var hnýtt á stóra króka m.v. púpu, allt upp í #2 XXL og þannig var hún kynnt til sögunnar vestur í Bandaríkjunum upp úr síðustu aldamótum. Að vísu var hún kynnt undir heitinu Sakakibara til heiðurs Masami Sakakibara sem er vel þekktur í Tenkara heiminum fyrir að hnýta sérlega stórar flugur.

Löngu áður en hún kom fram á sjónarsviðið vestanhafs voru veiðimenn á Írlandi með hefðbundna og almennt minni útgáfu þessarar flugur í sínum boxum og var hún talin eiguleg fluga (e: keeper) og það nafn hefur fest við hana.

Höfundur: óþekktur
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Vöf: koparvír
Búkur: brúnt ullargarn
Hringvöf: brún hænufjöður
Haus: svartur, lakkaður

Taka sjóbbar ekki þurrflugu?

Hin síðari ár hef ég lítið farið í sjóbirting nema þá helst til að prófa einn og einn veiðistað og athuga hvort ég hafi eitthvað skipt um skoðun á því að láta niðurgöngufisk í friði. En á árum áður þótti það sjálfsögð björg að hausti að veiða spikfeitan urriða, hvort heldur staðbundinn fisk eða þann sem var að skila sér upp í árnar eftir sumardvöl í saltinu. Áður en einhver fer að missa sig, fussa og sveia og predika um veiða og sleppa, vernda birtinginn o.s.frv. þá skulum við hafa það á hreinu að á þessum tíma dagaði fiskur ekki uppi í frystikistum þorpsbúa og það var sá fiskur í ánni sem hún bar og það var nóg handa öllum. Veiðimenn þá, rétt eins og obbi veiðimanna í dag, voru ábyrgir og veiddu það eitt til matar sem fjölskyldan gat torgað. Veiða og sleppa var óþekkt, menn einfaldlega slepptu því að veiða ef fiskurinn var of smár eða lítið af honum.

Fyrir einhverjum árum síðan varð mér hugsað til þessa tíma og orðað það í framhjá hlaupi við ágætan veiðimann hvaða flugur hann notaði í sjóbirtinginn. Jú, ég fékk greið svör um lit og lögun ýmissa straumflugna en svo gerði ég mig sekan um eitt allsherjar bull sem setti allt samtalið í hnút. Bullið kom fram í spurningunni um það hvort birtingurinn tæki ekki þurrflugu rétt eins og annar urriði. Ég sleppi því alveg að lýsa viðbrögðum viðmælanda míns, en það var nokkuð ljóst að ég var á einhverjum stórkostlegum villigötum, ef ekki hraðbraut til helvítis; Sjóbirtingur tekur ekki þurrflugu! 

Seinna komast ég að því að þessi álitsgjafi minn hafði hreint ekki rétt fyrir sér, sjóbirtingur tekur þurrflugu ef hún er í boði. Það eru nokkrar kenningar uppi um það hvers vegna sjóbirtingur tekur þurrflugu rétt eftir að hann er kominn úr saltinu. Ein þeirra snýr að því að á meðan birtingurinn er í útvötnun, þ.e. að aðlaga sig ferskvatninu, þá sé fluga auðmelt miðað við margt annað æti og því sækir fiskurinn í hana. Önnur kenning sem ég heyrði snýr einfaldlega að því að ferskvatnið kveikir ákveðnar æskuminningar sjóbirtingsins þegar hann kemur til baka úr sjó. Sjóbirtingur er jú einfaldlega urriði sem eytt hefur fyrstu tveimur til fimm árum ævi sinnar í ferskvatni og þar étur hann jú flugu þegar hún er á boðstólum.

Því miður virðist það vera sem svo að veiðimenn setji þurrfluguna allt of sjaldan undir þegar þeir eru í birtingi. Helst gerist þetta þegar ekkert hefur gefið, öll boxin prófuð og aðeins þurrfluguboxið eftir. Þær eru nokkrar sögurnar sem ég hef heyrt af slíkum tilfellum og margur maðurinn hefur gert glimrandi góða veiði í birtingi á þurrflugu, jafnvel í köldu veðri eða skoluðu vatni.

Eins og annað flugnaval veiðimanna, þá eru þurrflugurnar misjafnar sem veiðimenn mæla með. Sumir telja klassískar flugur úr ranni Wulff vera þær bestu á meðan aðrir leita í framandi froðuflugur með lappir í allar áttir. Aðrir hafa nefnt til sögunnar klassískar þurrflugur eins og Muddler, en væntanlega snýst þetta töluvert um tilfinningu veiðimanna fyrir því sem gefur, trú þeirra á flugunni.

Rackelhanen

Rackelhahn er blendingur af fasanategund (Þiði) og hænsfugls (Orra) sem er af sömu ætt og rjúpan. Ég þori hreint ekki að kveða upp úr um það hvort þessi blendingur sé í raun til eða hvort hann er einhver þjóðsaga eins og íslenska skoffínið sem á að vera afkvæmi kattar og refs. Hvað sem því líður er Rackelhane afar einföld, einsefnisfluga sem seint verður talin til fallegustu flugna sem komið hafa fram. Meira að segja höfundur hennar, Kenneth Boström sem útbjó þessa flugu árið 1967, faldi fluguna lengi vel fyrir almenningi því honum þótti hún hreint ekki frambærileg. Engu að síður notaði hann þessa flugu töluvert og með góðum árangri og þannig fór að lokum að tilurð hennar lak út og nafnið Rackelhanen festist við hana.

Flugan er hástæð í vatni og gefur vel þegar vorflugan klekst út rétt undir yfirborðinu. Afbrigði þessarar flugur eru fjölmörg, allt frá því að vera úr öðrum lit en upprunalega brúna litnum og yfir í það að vera með ljósan væng og dökkan búk og yfir í það að vængurinn sé hnýttur úr CDC fjöður og jafnvel með hringvafi framan við haus.

Höfundur: Kenneth Boström
Öngull: fíngerður púpukrókur, jafnvel þurrfluguöngull  #10 – #16
Þráður: brúnn 12/0
Búkur og dub: polygarn með góðum floteiginleikum
Haus: svartur, lakkaður

Uppskriftin hér að ofan er upprunaleg uppskrift Kenneth, en myndbandið víkur nokkuð frá henni:

Skemmtileg spurning

Fyrir mörgum er það að tala um hnýtingarþvingur svipað og að tala um barnið sitt eða bílinn, svo ég tali nú ekki um veiðistangir. Það er fátt betra í heiminum og sumir hverjir skilja bara alls ekki hvers vegna allir eiga ekki jafn dásamlegt barn, pottþéttan bíl eða frábæra hnýtingarþvingu eins og þeir sjálfir.

Um daginn fékk ég mjög skemmtilega spurningu frá fluguhnýtara sem var að spá í að endurnýja hnýtingarþvinguna sína. Mér skildist að hann hefði um árabil notað sömu þvinguna og verið afar sáttur, en nú langaði hann í eða þyrfti nýja þvingu og hafði augastað á eins þvingu og ég nota lang oftast. Spurninginn byrjaði á orðunum; getur þú sagt mér gallana við þvinguna þína? Mér fannst þetta frábær byrjun og sagði honum hreinskilningslega af þeim eina galla sem ég varð var við í upphafi, sem ég reyndar lagfærði með einni skinnu undir skrúfu og málið var dautt.

Hefði hann byrjað á að spyrja mig um alla kosti þvingunnar, þá hefði ég trúlega fallið í sömu gryfju og margir aðrir sem spurðir eru álits á dótinu sínu. Þess í stað naut ég þess að standa með báða fæturna á barmi gryfjunnar sem svo margir hafa fallið í sem eiga bestu og flottustu þvingu sem framleidd hefur verið og þóttist geta svarað af fullri hreinskilni.

Þvingan hans Lefty

En það hafa ekki allir verið jafn ánægðir með sínar þvingur. Einhverju sinni varð Lefty Kreh svo pirraður á lélegum kjöftum hnýtingarþvinga, að hann beinlínis sauð saman sína eigin þvingu til að geta hnýtt stærri flugur en einhverjar títlur á krók #14. Ég hef stundum sagt að það séu forréttindi að hafa greinst jákvæður af veiði- og flugubakteríunni því það er svo margt misjafnt sem er fullkomlega rétt og eiginlega ekkert rangt í þessari dellu. Veiðimenn njóta þess að þurfa ekki að vera sammála um allt milli himins og jarðar, síst af öllu það sem á við veiði og flugur. Ég vona að umsögn mín um daginn standist og eigi jafn vel við kunningja minn eins og þvingan á við mig, allt snýst þetta jú um að finna það sem manni hentar best.

Shetland Killer

Það fer ekkert á milli mála hvaðan þessi fluga á ættir að rekja. Killer Bug er vitaskuld fyrirmynd hennar og þegar Killer Bug flækist til Hjaltlandseyja, þá verður hann vitaskuld Shetland Killer. Ástæðan fyrir því að þessi fornfræga fluga fékk þetta viðurnefni er einfaldlega efnisvalið sem nokkrir Ameríkumenn fundu á netinu; ullarband frá Hjaltlandseyjum (e: Shetland) og þá sérstaklega ein ákveðin tegund; Jamieson’s Shetland Spindrift Yarn sem fæst í fjölda útgáfa.

Killer Bug er ekki þekkt fyrir margbrotið hráefni; koparvír undir, Chadwick‘s #477 ullargarn og koparvír yfir. Þessi útgáfa sleppir því alveg að vefja garnið með koparvír, garnið eitt og sér er látið duga.

Shetland Killer er örugglega fluga sem á heima í flokkinum auðhnýttar flugur merkt með #þaðþarfekkiaðveraflókið 

Höfundur: Frank Sawyer, með síðari tíma breytingum
Öngull: grubber #10 – #16
Þráður: rauður UNI 8/0
Þynging: koparvír eða blýþráður ef vill
Búkur: ullargarn (tví- eða þrí spunninn lambsull)
Haus: rauður, lakkaður

Hér að neðan má sjá Jason Klass fara fimum höndum um þessa nútímaútfærslu af Killer Bug: