Meira marabou

Það hefur ósjaldan komið fyrir að ég er helst til sparsamur á marabou fjaðrir þegar ég hnýti flugur eða ég nota ranga tegund þeirra í þær flugur sem ég er að hnýta í það og það skiptið.

Marabou fjaðrir, sem vitaskuld eru ekki af marabou storkinum heldur kalkún eða hænu, eru sérlega líflegt og púffí efni til fluguhnýtinga. Um leið og þær eru komnar í vatn þá verður oft heldur lítið úr þeim, nánast ræfilslegar ef ekki er nóg af þeim. Ég hef oft heyrt hvíslað í eyra mér; Meira marabou þegar ég hnýti með félögunum og ég er að vinna í þessu.

En hvað er þetta með mismunandi tegundir af marabou og hvað á maður að hafa í huga þegar maður kaupir slíkar fjaðrir? Gróflega má skipta marabou fjöðrum í þrjá flokka, hver með sína eiginleika og tilgang í fluguhnýtingum.

Frá vinstri; Plums – Blood quill – Stems

Langsamlega algengustu fjaðrirnar eru s.k. plums. Gríðarlegt magn þeirra í umferð ræðst einfaldlega af því að þetta eru algengustu fjaðrirnar á fuglinum, þær sem raða sér við enda fjöðurstafsins á stærri fjöðrum. Þessar fjaðrir eru helst nýttar með því að fjarlægja fanirnar eða staka geisla hennar frá hryggnum og nota í hringvöf eða sem dup í flugur. Raunar nota ég þessar fjaðrir gjarnan í skott á Damsel eða Nobbler flugum sem ég hnýti í stærð #12 og smærri.

Blood quill eru yfirleitt saumaðar saman í vöndul þannig að þær enda nær allar jafn langt frá sauminum og mynda þannig bústinn pensil með tiltölulega beinum enda. Fjaðrirnar eru gjarnan nýttar í væng eða skott á straumflugu og hver fjöður eða nokkrar saman eru hnýttar niður með stilkinum áföstum sem síðan er klipptur frá eða notaður til að þykkja búk hennar fyrir framan skottið.

Stems eða einfaldlega Woolly Bugger marabou eru lengstu og grófustu fjaðrirnar í fjölskyldunni. Hæpið er að nota nema 2/3 af þessari fjöður í hringvöf með stilkinum áföstum því neðsti hluti hans er yfirleitt svo sver að hann brotnar frekar en að vefjast um legg eða búk flugunnar. Þessar fjaðrir eru ofast notaðar í stórar flugur eða fanir reittar af stilkinum í smærri flugur. Almennt eru geislar þessara fjaðra heldur grófari heldur en hinna tveggja tegundanna hér að ofan og ekki alveg eins líflegar í vatni.

Þegar kemur að því að velja marabou fjaðrir, þá kaupi ég ekki marabou fjaðrir óséðar nema þá frá framleiðanda sem ég treysti og hef góða reynslu af. Það er eiginlega tvennt sem ég hef helst í huga þegar ég vel fjaðrir. Nær allar marabou fjaðrir eru litaðar og þegar ég vel mér quills eða stems, þá horfi ég fyrst á það hvort liturinn sé þéttur og einsleitur og hafi örugglega náð allri fjöðrinni. Það kemur ósjaldan fyrir að neðsti partur þessara fjaðra sé lítið sem ekkert litaður sem skerðir nýtingu þeirra. Hitt atriðið sem ég skoða er hvort fjaðrirnar séu óskemmdar, ekki tættar og rifnar þannig að jafnvel hluta vanti í fjöðrina sem gerir hana álappalega þegar hún er hnýtt. Brotinn stilkur er líka eitthvað sem ég skoða, því það getur verið óttalegt vesen að ná ósködduðum fönum af brotnum stilk.

Það er mín reynsla að ákveðin vörumerki tryggja ákveðin gæði, annað hvort ásættanleg eða framúrskarandi, þannig að ég treysti mér alveg til að versla nokkrar tegundir á netinu, óséðar. En, rekist ég á nýtt eða óþekkjanlegt vörumerki, þá reyni ég alltaf, ef mögulegt er, að opna pakkann og renna lauslega yfir fjaðrirnar áður en greitt er fyrir vöruna. Ég hef aðeins einu sinni fengið svip frá starfsmanni í verslun þegar ég hef gert þetta. Sá svipur fór nú fljótlega af honum þegar ég dró brotna fjöður upp úr honum og spurði; Hver er afslátturinn af þessari?

Þróun veiðimanns

Í þröngum hópi veiðinörda er stundum talað um fimm þroskastig veiðimanna, stundum með glotti á vör og jafnvel einhver nafngreindur og flissað. Best er að setja þann fyrirvara strax að ég þekki nokkra einstaklinga, ekkert endilega veiðimenn, sem hafa sáralítið þroskast frá því þeir voru á gelgjunni og því er alveg eins von á að það finnist háaldraðar gelgjur meðal veiðimanna eins og annars staðar. Eins og annað sem sett hefur verið fram, þá eru ekki allir sammála um ástæður þroska. Sumir segja að reynsla (ástundun) þroski veiðimanninn einna mest á meðan aðrir segja að öldrun hans ráði mestu, alveg óháð því hve duglegur veiðimaður hann sé. Mig grunar að þarna séu menn að rugla saman þroska og færni, þetta fer alls ekki endilega saman.

Fyrsti fiskurinn er stigið þegar veiðimaður hefur himinn höndum tekið þegar fiskur bítur á. Stundum er þetta einfaldlega fyrsti fiskurinn en stundum endurtekur þetta sig nokkrum sinnum á lífsleiðinni; fyrsti á maísbaun, fyrsti á spún, fyrsti á flugu (undirflokkur: fyrsti á eigin flugu). Hvaða afbrigði af fyrsta fiskinum sem þetta er, þá hefur viðkomandi náð ákveðnum toppi á lífsleiðinni og það sést langar leiðir.

Fullt af fiski er mislangt skeið hjá veiðimönnum. Þetta er eiginlega gelgjuskeiðið og það smellur stundum harkalega inn rétt á eftir fyrsta fiskinum og það er mjög misjafnt hve lengi það varir. Eins og ég nefndi hér að framan, þá eru til eilífðargelgjur sem alltaf eru á eftir fullt af fiski, sama hvað, þannig að það er alveg eins víst að þú, lesandi góður, þekkir einhvern þannig. Því miður fylgir þessu stigi oft örlítið dómgreindarleysi, allur fiskur telur, sama hvað hann er lítill. Annars er grunnt á næsta stigi meðal allra þessara fiska, viðkomandi keppist við allt og alla og vill helst ekki aðeins vera með flesta fiska í veiðiferðinni, sá stærsti verður að vera meðal þeirra.

Stórfiskaleikur kviknar stundum án fyrirvara, eiginlega alveg óvart eða með einum fiski meðal margra. Þegar fyrsti stóri fiskurinn hleypur á snærið, þá er eins og magnþörfin hverfi og veiðimaðurinn metur gæði umfram magn. Oft eru gæðin metin í stærð, sem er eiginlega svolítið sérstakt því stór fiskur er ekkert endilega betri matfiskur, en þetta markast náttúrulega af því að ég kýs að éta það sem ég veiði. Eftir stendur að á þessu stigi þykir stærðin skipta máli, en það kemur ekki í veg yfir að gelgjan grípi um sig og veiðimaðurinn verði að landa stærsta fiskinum.

Næsta stig er hreint ekki sjálfgefið og margir veiðimenn þekkja ekkert til þess og vilja því meina að þetta sé ekkert ákveðið stig. Aðrir kannast þó við að hvorki magn eða stærð skipta lengur máli, gjarnan þegar þörf hvoru tveggja hefur verið fullnægt á fyrri stigum. Þá leita menn í að sækja fisk með fyrirhöfn, gjarnan á ókunnar slóðir, þangað sem erfitt er að komast eða ná orðlögðum þverhaus á sitt band. Það er svolítið erfitt að hengja ákveðin frasa á þetta stig, en sumir hafa viljað meina að þetta sé úrvalsdeildin sem segir e.t.v. meira um meðlimina heldur en nokkuð annað.

Ef mér telst rétt til og hef farið nokkurn veginn rétt með þessi stig, þá er komið að fimmta og síðasta stigi þroskaferils veiðimanns. Það eru til skemmtilegar greinar um þetta stig en sumar hverjar eru hálfgerðar minningargreinar um orðlagða veiðimenn þar sem þeir eru hafnir upp til skýjanna sem nánast ómennskir öðlingar. Þeir mæta á veiðistað, setja mögulega ekki einu sinni saman og hafa mesta unun af því að horfa á aðra veiða og samgleðjast innilega þeim veiðimanni sem tekst að glepja fisk. En það er til önnur útgáfa af þessu stigi og það eru einfaldlega þeir veiðimenn sem fá alveg jafn mikið út úr því að vera, hlusta á vatnið eða ekkert, gleyma jafnvel að draga inn af því þeir sjá eitthvað merkilegt í fjarska. Þetta er þeir veiðimenn sem vakna til lífsins þegar einhver fær fisk, taka þátt í gleði annarra og láta sér fátt um finnast ef gelgjan grípur um sig.

Um þennan seinasta flokk er hreint ekki einhugur. Veiðimenn? Eru það ekki þeir sem veiða eða í það minnsta gera tilraun til þess? Jú, jú, þetta er alveg sjónarmið, en ég held samt að sá sem hefur einu sinni hefur fengið stimpilinn veiðimaður losni nú ekki svo glatt við hann og því geti fimmta stigið alveg átt við.

Hvaða þráð í fluguna?

Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það að flugur eru misjafnar. Fíngerðar, grófar, stórar og litlar, svo ekki sé nú farið út í það til hvaða veiða þær eru ætlaðar. Sumar flugur eru eyrnamerktar löxum, aðrar urriða, enn aðrar bleikju og þar fram eftir götunum. Nei, ég ætla ekkert að efast um eyrnamark flugna, bitin aftan vinstra gefur einfaldlega til kynna að urriði hafi tekið í hana, nartað skotti aftan er einkenni bleikjunnar rétt eins og skóflað upp að framan. Ég hef ekki hugmynd um það hvað eyrnamark laxaflugu er, hann tekur ekki flugu, hann agnúast víst helst út í þær og festist bara óvart. Við skulum sjá til hvort einhver hafi ekki eitthvað við þessa setningu að athuga.

Í fljótu bragði man ég aðeins eftir einu sem allar flugur eiga sameiginlegt og það er hnýtingarþráðurinn. Þessi dásemd sem getur leikið í höndum manna, orsakað fúkyrðaflaum þegar hann slitnar eða lagst svo vitlaust að efnið undir og ofaná verður eins og kroppinbakur Frúarkirkjunnar í París.

Til langs tíma var hnýtingarþráðurinn spunninn úr silki, síðan hör og nú síðast komu gerfiefninn og þeim fjölgar ár frá ári. Eins og fram hefur komið hér á síðunni, þá er sverleiki þráðar helst gefinn upp með þremur mismunandi stöðlum. Núll skalanum (e: aught) sem við þekkjum sem einhver tala með viðskeytinu /0 þar sem hærri tala táknar grennri þráð. Denier skalinn sem snýr þessu á hvolf þar sem hærri tala táknar grófari þráð. Svo datt einhverjum í hug að fara merkja hnýtingarþráðinn með tex eða decitex sem er eiginlega sama aðferðin og notuð er við denier. Gallinn við allar þessar aðferðir er eftir sem áður að engin þeirra mælir raunverulegan sverleika þráðar, þeir byggja allir á vigt og því er ekki hægt að bera saman sverleika mismunandi hráefna með því að styðjast við þessa skala. Ef hnýtarar vilja virkilega sökkva sér niður í þessar pælingar, þá er hægt (með smá snúningum og stússi) að finna micron einingu hnýtingaþráðar hjá nokkrum framleiðendum og þá sjáið þið svart á hvítu hver sverleiki þráðarins er. Meira að segja ég nenni ekki að sökkva mér niður í þessar pælingar. Þess í stað ætla ég aðeins og henda hér inn grófa flokkun á nokkrum sverleikum og til hvers þeir hafa hentað mér best og byggja á því sem er til staðar við mitt hnýtingaborð.

UNI 1/0 þráðurinn er eiginlega steypustyrktarjárnið í fluguhnýtingum. Sérstaklega sver þráður sem hentar nær eingöngu í stærri straumflugur, saltvatnsflugur og aðrar flugur sem hætt er við að verði fyrir miklu áreiti. Þennan þráð keypti ég nær eingöngu fyrir forvitnis sakir og hef nær ekkert notað hann.

UNI 3/0 þráðurinn er eiginlega sá sverarsti sem ég hef notað og þá helst til að spinna og festa niður mökk af dádýrahárum á flugu. Almennt nota ég þennan þráð ekki mikið, en það kemur fyrir að ég styrki púpur með honum ef ég vil ekki nota vír.

UNI 6/0 er að sögn annar af algengustu hnýtingarþráðunum. Hentar vel í vel flestar straumflugur, púpur og flugur þar sem ekki er endilega gerð krafa um nettan haus eða flothæfni flugu, nema þá til að hnýta niður flotefni eins og holhár eða svamp því sver þráður sker síður svampinn og hárin. Í einhvern tíma var talað um að byrjendur ættu að nota þennan þráð þar til þeir hefðu náð tökum á styrkleika þráðar og átaki við hnýtingar. Þótt ég hafi fært mig svolítið til á skalanum, þá nota ég þennan þráð ennþá þegar ég hnýti stærri púpur og straumflugur.

UNI 8/0 er sagður vera algengasti hnýtingarþráðurinn. Hentar ágætlega þeim sem hafa náð tökum á hnýtingum, passar vel í all flestar flugur og gefur möguleika á snyrtilegum frágangi hauss og fjaðra. Hann er enn í ákveðnu uppáhaldi og ég nota hann mikið. Þráðurinn sem ég hef bundist ástar- og haturssambandi við, tek hann alltaf fram og byrja með hann, en þegar hann hefur slitnað þrisvar til fjórum sinnum í einni flugu, þá skipti ég yfir í aðra tegund sem er jafnvel léttar.

Veevus 10/0 er eiginlega minn alhliða þráður í dag. Þó aught tala hans gefi til kynna að hann sé veikari en UNI 8/0, þá er því þveröfugt farið. Hann er eins og talan gefur til kynna, grennri en hann er töluvert sterkari og heldur sér vel í keflishöldunni. Þennan nota ég óspart í miðlungs straumflugur, votflugur og púpur sem ekki krefjast rennislétts yfirborðs.

Í púpur sem ég vil hafa rennisléttar, þá nota ég annan tveggja; Veevus 140 eða UTC 70. Þessir þræðir eru báðir gefnir upp í denier og UTC þráðurinn er sverari, en hann er hreint ekki tvöfalt sverari þó hann sé tvöfalt þyngri. UTC var lengi vel minn þráður, en hann á það til að trosna svolítið hjá mér og því leitaði ég að arftakanum og fann hann í Veevus 140 sem heldur sér betur og er þess að auki grennri. Þessa þræði nota ég gjarnan í votflugur og þeir hafa reynst mér vel þar sem ég vil hafa rennislétta áferð og snyrtilega vafninga.

Þá er aðeins eitt af mínum algengustu þráðum eftir og það er sá sem ég nota í smávaxnar flugur, hvort heldur þær tilheyra ættbálki púpa, votflugna eða straumflugna. Eftir að hafa prófað nokkuð margar tegundir, þá sættist ég á nota Veevus 16/0 og sé ekki eftir því. Hvað sem ræður, þá leikur þessi þráður við mismunandi hráefni, heldur vel í hnútum og tekur lakki vel þannig áferðin verður falleg. Það sem þessi þráður er spunninn, rétt eins og Veevus 10/0, en ekki flatur eins og Veevus 140 og UTC 70, þá næ ég að vísu ekki alveg eins sléttu yfirborði en þráðurinn vegur það upp með því að vera sérlega sterkur og meðfærilegur.

Að lokum er vert að geta þess að val á hnýtingarþræði er mjög persónubundið og eflaust skilja sumir ekkert í þessu vali mínu og vilja meina að einhver annar eða önnur tegund sé miklu, miklu betri. Þó uppskrift að flugu segi svona og svona marga vafninga af þessum eða hinum þræðinum, þá getur einn hnýtari vafið þennan þráð þétt og áferðafallega á meðan sá næsti gerir ekkert annað en slíta hann eða búa til hóla og hæðir. Við erum berum okkur misjafnlega að og beitum mismiklu átaki, svo er sumum það gefið að láta hvern vafninginn renna saman við þann næsta á undan á meðan aðrir flengjast út og suður, fram og til baka og það grisjar samt sem áður í undirlagið.

Boltabull

Mér skilst að það sé hreinn ótrúlegur fjöldi fólks sem lifir og hrærist í fótbolta. Virkir iðkendur knattspyrnu eru trúlega rétt innan við 30 þ. manns í dag, voru 25.343 árið 2017 og því telst knattspyrna vera fjölmennasta hreyfing íþróttafólks á landinu. Ekki dettur mér í hug að dissa knattspyrnuiðkendur og áhangendur, ég bara skil ekki hvers vegna ég hef 0% áhuga á þessu sporti. Þess í stað vel ég mér sport sem iðkað er af 80 þ. manns (2017) hér á landi og er ekki viðurkennd íþrótt.

Flest knattspyrnulið eiga sér heimavöll, sumir veiðimenn líka. Stóri munurinn er að knattspyrnumenn keppast við að ná áhorfendum á leiki, en veiðimenn (flestir) kjósa að vera lausir við þá. Hróp og köll, húúú og trommusláttur er ekki sérstaklega vel séð á veiðislóð.

Til að spila fótbolta þarf einn bolta, eitt eða fleiri mörk en notast má við góða bílskúrshurð eða tvo steina við enda grasflatar. Sko, þegar maður fer í veiði þá þarf stöng, línu, hjól, flugur eða annað agn og ýmislegt annað smálegt.

Til að velja um það hvort liðið byrjar með boltann þarf tíkall, en notast má við kóktappa eða eitthvert annað drasl sem henda má í loft upp. Þegar ég byrja leikinn, þá þarf ég að velja mér veiðistað, opna nokkur flugubox og velja úr óteljandi flugum þá einu réttu og rétt eins og fótboltamenn, þá þarf ég að teygja og toga (línu og taum) áður en leikurinn hefst.

Fótboltamönnum þykir ekki verra að vera í þar til gerðum skóm. Ég sé á ráfi mínu um heimasíður íþróttavöruverslana að þær hamast við að telja fótboltafólki trú um að það þurfi par fyrir gras, annað fyrir þétt undirlag og helst innanhússpar líka. Æ, þetta er nú afturför frá minni barnæsku þegar venjulegir strigaskór dugðu. Jú, ég þarf vissulega skófatnað í veiðina, en mér dugir alveg eitt par, sýnist í fljót bragði að þeir séu aðeins eða töluvert dýrari heldur en fótboltaskór, þ.e.a.s. parið.

Eigum við eitthvað að bera saman klæðaburð veiðimanna og fótboltaiðkenda? Veiðimenn hafa lengi legið undir því að líta allir eins út á veiðistað, sami græn/grái gallinn og pollabuxur upp í háls. Þetta hefur verið að breytast, en vissulega eiga veiðimenn langt í land með toppa fótboltatreyjur og búninga. Raunar sé ég oftast þessa vatteruðu fótboltamenn á hliðarlínunni (þjálfarar?) fyrir mér eins og Michelin manninn. Ef þeir væru ekki rækilega merktir sínu liði (hvaða lið er þetta Emirates annars?) þá næði ég ekki að greina þá í sundur. Þennan samanburð er e.t.v. ekkert að marka, ég viðurkenni það, sá þetta bara í einhverjum raunveruleikaþætti í sjónvarpinu um daginn sem þröngvaði sér yfir kvöldfréttirnar mínar.

Já, eigum við að tala um sjónvarpið. Ég er ekki með greidda áskrift að fótboltarásum, bara þennan venjulega heimilispakka með fréttum og Landanum en ég fæ í kaupbæti einhverjar 6 rásir af svona raunveruleikafótboltaþáttum, en ekki eina einustu veiðirás. Svo eru leikararnir í þessum þáttum ekkert sérstaklega góðir, þeir kunna ekki að halda sannfærandi um ökklann eða velta sér grenjandi í grasinu. Má ég þá frekar biðja um svekktan veiðimann að telja upp allar ástæðurnar fyrir lélegu fiskiríi.

Ég er kannski að fikra mig út á hálan ís þegar ég minnist á heilu landsliðinn sem eru í vandræðum vegna ávirðinga um ósæmilega hegðun iðkenda. Í veiðinni hefur það nú ekki verið tiltökumál að strippa eins og brjálæðingur og ég get lofað þér að það kippir sér enginn upp við góða sögu af strippi og það besta, þær koma örugglega ekki á forsíðu slúðurmiðlanna næsta dag.

Guði sé lof, þá blandast þessi áhugamál eitthvað. Ég þekki einn og einn veiðimann sem nennir að sparka í tuðru, en ég þekki fleiri tuðrusparkara sem sækja beinlínis í að veiða og ég skil þá vel. Að komast í veiði og ná bolta á stórkostlegasta þjóðarleikvangi stangveiðimanna, ám og vötnum Íslands, er eitthvað sem Laugardalurinn toppar ekki. Eina sem ég næ ekki alveg utan um er, af hverju er stangveiði ekki viðurkennd íþróttagrein?

Engjaflugan

Það verður seint af Elliðavatni tekið að það hafi ekki veitt veiðimönnum innblástur þegar kemur að fluguhnýtingum. Hér gefur að líta flugu Jóns Pedersen sem hann nefndi eftir Engjum Elliðavatns. Þótt flugan hafi oftast verið nefnd í sömu andrá og Elliðavatn, þá hefur hún vissulega reynst vel víðar og engin ástæða til að spara hana fyrir það vatn.

Höfundur: Jón Pedersen
Öngull: votfluguöngull #10 – #16
Þráður: svartur
Búkur: koparvír
Vængurstubbur: fanir úr stéli gullfasana
Skegg: sfanir úr svartri hanafjöður
Haus: svartur, lakkaður

Eins og fyrir margar aðrar klassískar íslenskar flugur, hefur Flugusmiðjan sent frá sér kennslumyndband fyrir þessa flugu:

Einn sér eða í smærri hópum

Fyrirsögn þessa greinarstúfs er fyrir löngu orðinn að frasa, en stendur alltaf fyrir sínu. Ég sjálfur tengi ég vel, líður almennt vel einn sér eða í smærri hópum. Þetta þýðir alls ekki að mér líði illa í stórum hópi eða á mannmörgum stöðum, en þegar ég er í veiði þá sækist ég oftar en ekki eftir því að vera svolítið einn í mínum eigin heimi og einfaldlega njóta þess að vera. Þetta ætti að vera farið að síast inn hjá lesendum, svo oft hef ég komið þessu á framfæri.

Stangveiði er í raun einverusport og hentar sérstaklega vel þeim sem njóta þess að vera einir eða þurfa virkilega að kúpla sér út, vinda ofan af sjálfum sér og tengjast upp á nýtt. Meira að segja í þokkalegum hópi í veiðiferð næst ákveðin einvera, ef hópurinn er réttur, því veiðimenn eru almennt ekkert að kjá framan í hvorn annan í veiði. Þeir miðla upplýsingum, spjalla þegar færi gefst, en meðan einhver er að veiða, þá er hann almennt látinn í friði. Hann skilar sér örugglega inn í spjallið ef hann hefur áhuga á því.

Með árunum hef ég kynnst eða verið meðlimur í sífellt fleiri hópum sem fara saman á veiðislóð. Í mínu tilfelli er það svo að þessir hópar hafa einfaldlega smollið saman eða ekki. Sjálfur held ég að það sé ekki farsælt að reyna að smyrja eða slípa saman veiðihóp. Nú er ég ekki að tala um ólík sjónarmið eða veiðiaðferðir meðlima, heldur karaktera, þeir verða að smella saman. Fjölmennasti hópurinn sem ég hef verið í, hingað til er hópur fólks þar sem engum dettur í hug að agnúast út í veiðiaðferðir, allir sleppa því að predika veiða og sleppa, þetta er hópur þar sem skynsemin ræður.

Veiðihópar eru ekkert öðruvísi heldur en aðrar hjarðir og því þarf meðlimum að líða vel í návist hvers annars því óhjákvæmilega er alltaf eitthvert samneyti í veiðihóp. Að morgni hittist hópurinn og þá geta verið mis-morgunfúlir einstaklingar innan hans sem taka verður tillit til. Sumir virka einfaldlega ekki fyrr en á öðrum eða þriðja kaffibolla og eru ekkert endilega tilbúnir til að kryfja gærdaginn og leggja á ráðin fyrr en að þeim loknum. Æðibunukarlinum gæti þótt það heldur seint í rassinn gripið, hann er kominn í vöðlurnar áður en fyrsti bolli er búinn og mættur á veiðistað áður en bolli tvö er hálfnaður. Ef það er sátt um þetta fyrirkomulag, þá er það vel, en það er hætt við að einhver fái á sig stimpilinn að vera frekjuhundurinn ef hann er alltaf fyrstu niður á bakka eða vera letihaugur ef hann sleppir fyrsta klukkutímanum í veiði.

Það þarf líka að vera gott samkomulag um matmálstíma og ef einhver annar sér um matinn, þá þýðir ekkert að vera gikkurinn í hópinum sem hvorki étur þetta eða hitt. Ég hef verið svo heppinn með þá hópa sem ég hef verið í að samkomulag um matreiðslu er til fyrirmyndar. Alls ekki eins í þeim öllum, en í góðu samkomulagi. Í lengri ferðum er t.d. tilvalið að skipta með sér matreiðslu og frágang eftir sameiginlegar máltíðir, þannig að einn eða tveir sjá um matseldina eitthvert kvöldið og eiga því frí önnur kvöld, morgunmatur og millimál eru á ábyrgð hvers og eins. Í styttri ferðum er sjálfsagt að hver sjái um sig, frjáls mæting í mat og ekkert stress hjá kokkinum hvort allir nái í hús á tilsettum tíma.

Í sumar sem leið var ég svo heppinn að vera nokkrum sinnum í frábærum hópi á veiðislóð sem eiginlega pússaðist saman úr tveimur mismunandi hollum sem við veiðifélagarnir höfum veitt með. Mér fannst þessi hópur virka fullkomlega, fjórir veiðimenn á svipaðri línu sem náðu vel saman, virtu einveruþörf hvers annars, skiptust á upplýsingum og gátu kjaftað hvern annan í hel á kvöldin. Að vísu hélt ég mínu striki og var sá morgunfúli sem þurfti nokkra bolla áður en talfærin fóru í gang, en það slapp allt til vegna þess að einn kom yfirleitt ekki fram fyrr en ilmurinn af bacon og eggjum var orðinn ómótstæðilegur og fram að þeim tíma naut ég umburðalyndis þeirra tveggja sem ótaldir voru og fékk að  vera í morgunfýlunni minni í friði.

Áramótakveðja – stutt könnun

Eins og bjartsýnustu einstaklingum veraldar er einum lagið, sem veiðimenn eru að upplagi, gerir FOS.IS ráð fyrir að geta bryddað upp á nýjungum í tengslum við Febrúarflugur sem eru rétt handan við hornið. Allar áætlanir og hugmyndir að óhefðbundinni dagskrá hljóta samt að taka mið af gildandi reglum um samkomuhald í febrúar en okkur þætti samt gott að heyra undirtektir áhugafólks um fluguhnýtingar við því sem FOS.IS og samstarfsaðilar eru að velta fyrir sér og jafnvel fá uppástungur lesenda að nýbreytni sem kryddað geti þetta árlega átak okkar.

FOS.IS þakkar þér og öðrum lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar öllum farsældar á nýju og spennandi ári. Vonandi gengur þessi veiruskolli yfir sem fyrst þannig að við getum komið saman í raunheimum á nýju ári.

Nánar má fræðast um Febrúarflugur með því að smella á myndina hér að ofan.

Til að taka þátt í könnuninni getur þú smellt á hnappinn hér að neðan, það ætti aðeins að taka örfáar mínútur að svara henni.

Brúnka

Þessa flugu hannaði Jón Sigurðsson með Elliðavatn í huga, en flugan hefur að sögn sannað sig víðar en þar. Eins og sjá má sver flugan sig í ætt við aðrar nymphur sem ættaðar eru úr Elliðavatni.

Uppskrift flugunnar má, eins og fjölda annarra flugna, finna í Veiðiflugur Íslands sem Jón Ingi Ágústsson tók saman um árið, en Ívar Örn Hauksson (Ívar’s Fly Workshop) endurvakti áhuga landanns á flugunni fyrir skemmstu og gerði ágæt skil.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundin púpukrókur #12 – #18
Þráður: svartur
Vöf: koparvír
Búkur: afturbúkur úr rauðbrúnu flosi, frambúkur úr dökkbrúnu flos
Vængstubbur: vængfjöður hringfasana eða aðrar tvílitar fjaðrir
Haus: svartur, lakkaður

Hér að neðan má sjá þegar Ívar hnýtir Brúnku, Jóns Sigurðssonar:

Gleðilega hátíð

FOS.IS óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári sem er rétt handan við hornið. Jólagjöfin frá okkur til ykkar að þessu sinni er hið árlega dagatal með helstu tillidögum, sólargangi og tímasetningum árdegis- og síðdegisflóða sem finna má hér á síðunni. Að þessu sinni hefur verið aukið lítillega við upplýsingarnar  á dagatalinu og nú má finna alla stærstu strauma ársins 2022 á einum stað í því.

Spænska rótin

Aðstæður til fluguveiði eru mismunandi og það upplifðu Spánverjar fljótlega þegar allir byrjuðu á því að prófa Pólsku, Tékknesku og Frönsku stuttlínu tæknina.

Eins og fram hefur komið í þessum stuttu pistlum um mismunandi rætur Euro Nymphing, þá henta framangreindar uppsetningar á taum ekkert sérstaklega vel þegar vatnið er dýpra en 6 fet og rennur hægt. Þetta vissu veiðimenn á Spáni sem þekkja ljónstyggan fisk hálendisins á Spáni þar sem fjarlægð veiðimanns frá fiski þarf að vera u.þ.b. 30 fet ef hann ekki að styggjast. Ein leið til að vinna bug á þessu er að nota taum sem er 25 fet eða lengri, en þá reynir heldur betur á kasttæknina.

Almennt eru Spænskir taumar nær 15 fetum, þessir ógnarlöngu 30 feta taumar eru frekar undantekning.

eru 10 – 20 fet af 4X glæru taumaefni sem tengd eru flugulínunni.

eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.

er 1 fet af 5X ljómandi / marglitu fluorocarbon taumaefni, tökuvarinn.

eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.

Það sem vekur athygli við þennan taum er að hann er nánast í level frá byrjun til enda, þ.e. hann byrjar í 4X sverleika og enda í 5X. En þetta er vitaskuld aðeins ein útfærsla hans og það kæmi mér ekkert á óvart að útfærslurnar séu nærri eins margar og sprænurnar á Spáni eru, ef það segir einhverju eitthvað.

Í ákveðinni útfærslu þessa taums sem ég rakst á var notaður kónískur taumur í hluta í mismunandi lengdum eftir því hver heildarlengd taumsins átti að vera. Fyrir 18 feta taum var byrjað á 9 feta kónískum 4X taum og fyrir 21 feta var byrjað á 15 feta kónískum af sama sverleika. Það fylgir sögunni að vilji menn veiða afleggjara á svona taum, þá sé farsælast að festa hann við samsetningu hluta og þannig að tökuvarinn sé því sem næst yfir ofan yfirborðið.

Þurrar vöðlur

Um þessar mundir ættu flestar vöðlur að vera orðnar þurrar, hanga snyrtilega afsíðis í skugga eða í það minnsta þar sem vetrarsólin nær ekki til þeirra. En það eru líka til þau augnablik, jafnvel heilu dagarnir á sumrum þegar vöðlurnar ættu að fá að þorna og haldast þurrar.

Síðasta sumar, rétt eins og fleiri sumur, glímdi ég við þann krankleika í vöðlum að þær héldu ekki vatni alveg eins og til er ætlast. Sjálfur glímdi ég við þann krankleika að geta ekki fyrir mitt litla líf munað eftir því að eltast við óþéttan saum eða núning í efni þegar ég var búinn að veiða, þannig að þær héldu bara áfram að leka þegar ég dýfði tánni næst í vatn.

Þar sem mér er meinilla við að vera blautur í fæturna tók ég ósjálfrátt upp á því að halda mig meira og meira á bakkanum og viti menn, ég lærði ágæta lexíu af því. Fyrir það fyrsta, þá náðu köstin mín frá bakkanum alveg jafn langt, jafnvel aðeins lengra heldur en þau sem ég náði með vatnið upp í klof; ERGO ég var oft að vaða að óþörfum.

Á ákveðnum veiðistöðum sem ég heimsótti í sumar voru vel upplýstir fiskar á ferð, þ.e. þeir höfðu náð ákveðnum þroska og stærð sem fæst náttúrulega ekki ef viðkomandi fiskur hunsar öll viðvörunarmerki eins og t.d. urg í steinum, gusugang og skugga veiðimanns. Nei, þessir höfðingjar höfðu náð stærð sinni og aldri vegna þess að þeir tóku mark á því þegar þrýstingsbylgja frá landi lenti á þeim, hraunbotninn urraði og brakaði undan vöðluskóm og skyndilegur skuggi færðist yfir búsvæðið. M.ö.o. þeir vissu að þeim stæði ógn af vaðdýrum og létu sig hverfa niður á meira dýpi eða út á vatnið.

Nú er það svo að ég gef ekki lengur upp fjölda veiddra fiska hér á síðunni, en trúið mér að þótt sumar ferðir hafi ekki verið upp á marga fiska, þá var fjöldi fiska alveg með ágætum síðasta sumar. Það að ég dýfði vart tá í vatn hafði engin áhrif á aflabrögðin. Ég mæli alveg með því að leyfa vöðlunum að þorna við og við, sjáðu til hvort þú verðir var við fleiri fiska og nær jafnvel að setja fluguna niður á heppilegri stað ef þú heldur þig á bakkanum.

Franska rótin

Það verður nú ekki af Frökkum skafið að þeir eru slyngir veiðimenn, annars væru þeir ekki áttfaldir heimsmeistarar í fluguveiði. Á tímaskala Euro Nymphing, þá komu Frakkar sterkir inn um síðustu aldamót í kjölfar Pólverja og Tékka sem höfðu nánast einokað verðlaunasæti fram að þeim tíma. Frakkar, rétt eins og aðrir Evrópubúar höfðu fiktað við þessa aðferð, þ.e. að veiða með löngum taum eingöngu, en það var ekki fyrr en þeir léttu alla uppsetninguna að þeir slógu í gegn.

Það kann að hljóma sem öfugmæli að segja að Frakkar hafi létt uppsetninguna frá því sem áður þekktist því þeir hurfu aftur til Pólvera og notuðu tiltölulega langan part af venjulegu og sveru taumaefni til að tengja við flugulínuna.

eru 6 fet af 0X glæru taumaefni sem tengd eru hefðbundinni flugulínu.

eru 3 fet af 2X ljómandi eða lituðu taumaefni sem virkar þá sem tökuvari.

eru 2 fet af 4X glæru fluorocarbon taumaefni.

eru 5 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.

eru 3 – 5 fet af 6X (eða grennra) glæru fluorocarbon taumaefni sem fest er í þyngri flugu uppsetningarinnar.

eru 3 – 5 fet af 6X (eða grennra) glæru fluorocarbon taumaefni sem fest er í léttari flugu, jafnvel þurrflugu.

Þar sem Franski taumurinn er töluvert lengri heldur bræður hans austan járntjaldsins, þá hentar þessi uppsetning  sérstaklega vel fyrir s.k. örflugur (e: micro nymphs) í stærðum #12 og niður í #20. Lengd afleggjara er yfirleitt höfð tvöföld eða meira, en dýpt vatnsins sem veiða skal.

Það er víst ekki óalgengt að Frakkar lengi hluta allverulega þannig að heildarlengd taumsins geti verið allt að 24 fetum, sem gefur þeim töluvert forskot í andstreymisveiði, borið saman við Pólska og Tékkneska tauma.

Á síðari þróunarstigum Franska taumsins tóku menn upp á því að vefja ljómandi / marglita taumaefnið þétt um t.d. penna þannig að það varð að gormi. Tilgangur þessa er að auka sýnileika tökuvarans og það virðist virka, til skamms tíma. Taumaefnið réttir að vísu úr sér og því þarf að endurtaka gormunina reglulega þegar lengi er veitt. Þessi útfærsla hefur gengið undir nafninu French Coil eða French Slinky.

Franska aðferðin hentar einna best í hægari straum, grunnu vatni (3 fet eða grynnra) og þar sem fiskur er tiltölulega styggur, að sögn. Önnur sögn segir að Franski uppsetningin hafi ekki náð mikilli útbreiðslu, hvað þá hylli veiðimanna vegna þess að hún krefst mikillar leikni sem hreint ekki mörgum veiðimönnum tókst að ná tökum á. En, hún virkar greinilega því hún færði Frökkum marga titla í liða- og einstaklingskeppnum í fluguveiði.

Marfló

Í stað þess að birta hér uppskrift að ákveðinni flugu með ákveðnu nafni, þá ætla ég að brjóta normið og setja fram það sem ég kýs að kalla eina af ótal aðferðum til að hnýta marfló. Aðferðir, hráefni og útfærslur marflóa eru nær óendanlegar og til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá eru sumar marflær svo flóknar og útheimta sértæk hráefni að flesta rekur í strand á fyrstu mínútum hnýtingarinnar.

Flugan hér að ofan er hnýtt samkvæmt aðferð sem meistari Davie McPhail birti árið 2013. Þetta er sú aðferð sem ég hef notað frá upphafi þegar ég hnýti marfló. Hér set ég þann fyrirvara að þegar ég hnýti örsmáar marflær eða vatnakrabba, þá nota ég hefðbundin hnýtingarþráð í stað koparvírs til að klára fluguna og oftar en ekki þá sleppi ég fálmurunum og hef aðeins skott á flugunni, ef ég man þá eftir því.

Búkefnið getur verið allt frá ólituðum héra, yfir í eitthvað bleikt, appelsínugult, rautt, grænt, brúnt, svart eða drappað.

Eins og Davie McPhail er einum lagið þá er hann ekkert að flækja málið, beitir aðferð sem allir ættu að ná tökum á og heldur sig við fá hráefni sem flestir ættu að eiga. Sjálfur hef ég um árabil notað latexhanska sem ég klippti í renninga fyrir margt löngu síðan, einn hanski endist mér trúlega ævina og ég er ekkert kræsin á efnið í búkinn, hvað eina sem er í heppilegum lit getur orðið fyrir valinu.

Höfundur: Davie McPhail
Öngull: grupper í stærð #10 til #16
Hnýtingarþráður og vöf: mjúkur koparvír
Fálmarar og skott: stokkandarfjöður
Bak: plast renningur / plast foil
Búkur: héradub í æskilegum lit, gjarnan með íblönduðu glitefni

Það eru til ótal útfærslur af flugum sem hnýttar hafa verið og líkja eiga eftir marfló og vatnakröbbum eins og sjá má þegar rennt er yfir þær  flugur sem komið hafa fram í Febrúarflugum síðustu ár. Hér má sjá nokkrar af þeim sem komið hafa fram:

Tékkneska rótin

Rétt fyrir 1990 höfðu Tékkar svo fínússað Pólsku rótina að Euro Nymphing að það var réttlætanlegt að þeir nefndu aðferðina Czech nymphing. Raunar hafði þeim orðið vel ágengt árið 1985 með frumútgáfu sína þegar þeir hrepptu annað sætið í meistarakeppninni í Póllandi, fast á hæla heimamanna. Ári síðar náðu Tékkar toppsætinu þegar Slavoj Svobota hlaut heimsmeistaratitilinn í Belgíu. Á þessum árum var ekki óalgengt að Pólvejar og Tékkar skiptust á um að taka fyrsta sæti einstaklinga og landsliða í alþjóðlegum mótum.

Tékkneski taumurinn er í nokkru frábrugðinn þeim Pólska. Efsti partur taumsins hefur horfið og litað taumaefni tengt beint við flugulínuna og leiðarinn hafður töluvert langur og afleggjarar festir beint á hann. Ég þori ekki að fullyrða það, upplýsingar á netinu nokkuð misvísandi, en því hefur verið haldið fram að Tékkar hafi verið þeir fyrstu til að setja tippahring (e: tippet ring) á milli parta á taumi, í þessu tilfelli á milli hluta og .

eru 1 – 2 fet af 1X ljómandi / marglitu taumaefni sem tengt er flugulínunni, tökuvarinn.

eru 6 – 10 fet fet af 3X glæru fluorocarbon taumaefni, s.k. leiðari.

er valkvæður afleggjari úr allt að 5 fetum af 4X (eða grennra) glæru fluorocarbon taumaefni fyrir næst þyngstu fluguna í uppsetningunni.

er 5 – 7 feta afleggjari úr 4X (eða grennra) glæru fluorocarbon sem ætlaður er þyngstu flugunni í uppsetningunni.

eru allt að 5 fet af sama efni og í og og er ætlað léttustu flugunni í uppsetningunni.

Það sem Tékkar gerðu til að fullkomna sína aðferð umfram Pólvera var að koma fram með nokkrar byltingakenndar aðferðir og útfærslur á flugum. Nú verða lesendur að setja sig aðeins í spor hnýtara í Tékklandi árið 1988, skömmu fyrir Flauelsbyltinguna í árslok 1989. Hráefni til fluguhnýta var af skornum skammti á þessum árum og fyrstu flugurnar sem kenndar hafa verið við Tékknesku rótina voru gerðar úr fábrotnum hráefnum sem voru auðfáanleg; þvottasvampur, hrosshár, sælgætisbréf og ýmsar trefjar úr náttúrunni. Oftast voru þetta eftirlíkingar vorflugulirfa og svipaðra flugna, þyngdar með óræðum efnum og ekkert endilega með kúluhaus. Fljótlega mátti þó sjá ákveðin einkenni þessara flugna, þær voru með sléttara yfirborð heldur en þær Pólsku, gjarnan lakkaðar í drep til að vernda lélegt hráefni og sérlega grannar. Þegar hefðbundin hráefni urðu algengari upp úr 1995 tóku þessar flugur stökkið í átt að þeim sem við þekkjum í dag.

Raunar var alls ekki allt bölvað við þetta haftatímabil fluguhnýtingaefna í Tékklandi. Tékkar eru úrræðagóðir og á þessum tíma tóku margir sig til og fundu einfaldar lausnir á hráefnaskortinum, t.d. að framleiða efnið sjálfir úr afgöngum úr nálægum verksmiðjum og endurnýta ýmislegt úr daglegu lífi. Þeir leynast víða Skoda bílarnir á taumum enn þann dag í dag í einni eða annarri mynd og enn sjáum við rauðrassa flugur með fíngerðan þvottasvamp í eftirdragi.

Tékkneska rótin, rétt eins og sú Pólska, hentar vel til veiða í straumhörðum ám og lækjum. Aðferðin, taktíkin er nær sú saman og ef eitthvað er, þá hentar taumurinn jafnvel betur í meira vatni heldur en sá Pólski. Dýpt vatnsins var enn vandamál og það var ekki leyst fyrr en Spánverjar komu til sögunnar með sína útfærslu. Það segja mér gáfumenn að Tékkneski taumurinn henti einna best til veiða í 2ja til 6 feta djúpu vatni og vösum (e: pocket) þar sem veiðimaðurinn þarf að koma flugunni vel niður á skömmum tíma og hefur til þess tiltölulega lítið svigrúm.

Euro flugur

Og áfram heldur þetta Euro dæmi, en nú kveður við aðeins annan tón. Euro flugur hafa þróast tiltölulega hratt frá því Pólverjar fóru að fikra sig áfram með mjög þyngdar flugur upp úr 1980. Sjálfur hnýtti ég nokkrar pólskar flugur hérna um árið en á nútíma mælikvarða eru þær trúlega ekki nógu þungar og alls ekki nógu straumlínulagaðar til að standast Euro viðmið í dag.

Það eru nokkur lykilatriði sem vert er að hafa í huga ef hnýta skal flugur sem nota á við Euro Nymphing. Fyrir það fyrsta ættu þær að vera afskaplega mjóslegnar, nánast renglur þannig að straumur hafi sem minnst áhrif á þær og auðvelda þeim að sökkva hratt, hvoru tveggja er jú lykillinn að Euro Nymphing. Til að auka enn á hæfni flugunnar til að sökkva eru þær gjarnan hnýttar á þunga króka og til að toppa það nota menn tungsten kúlur, gjarnan í yfirstærð. Til að sporna við því að þessi grey festist í botninum, þá eru þær gjarnan hnýttar á s.k. skrykkkróka (e: jig) þannig að þær snúist við í vatninu og krækjast því síður í botni.

Pólska rótin

Pólska rótin að Euro Nymphing á rætur að rekja til áttunda áratugar síðustu aldar þegar Pólverjar tóku til við að þróa og veiða með afar lítilli línu í straumvatni, ef þá einhverri línu yfir höfuð. Þeir notuðu hefðbundnar fluguveiðistangir í stærðum #3 og #5 og taum sem var nokkuð frábrugðinn hefðbundnum taumum.

Árið 1984 kynnti einn af frumkvöðlum þessarar aðferðar, Jozef Jelenzki, nokkrum Tékkneskum landsliðsmönnum einhverjar flugur sem hann notaði með afar sérstakri veiðiaðferð sem Tékkarnir kölluðu stuttlínu tækni. Næstu árin á eftir var mjótt á mununum á milli Pólvera og Tékka í fluguveiðikeppnum. Árið 1989 má segja að þróunarferill Pólsku aðferðarinnar hafi náð ákveðnum tímamótum þegar Wladyslaw Trzebunia vann heimsmeistarakeppnina í fluguveiði sem haldin var í Finnlandi það árið og beitti til þess samsetningu taums sem hann hafði þróað um árabil og gekk lengi vel undir heitinu Pólski taumurinn.

Hvort Wladyslaw eigi hönnunina að hinum eina sanna Pólska taum þori ég ekki að fullyrða, það er líkt með Pólska tauminum og öðrum mannanna verkum, það hafa margir gert tilkall til hans eða það sem líklegra er, margir hafa verið með sömu eða svipaða hugmynd í kollinum á þessum tíma.

eru 1 – 2 fet af 1X glæru fluorocarbon taumaefni sem tengd eru hefðbundinni flugulínu.

eru 2 fet af 2X ljómandi eða lituðu fluorocarbon taumaefni sem virkar þá sem tökuvari.

eru allt að 5 fet af 2X glæru fluorocarbon taumaefni, s.k. leiðari.

eru 2 – 3 fet af 3X glæru fluorocarbon taumaefni sem hnýtt er utan um leiðarann þannig að það geti leikið laust, færst upp og niður eftir leiðaranum.

hnútur á samsetningu leiðaranns og 3X fluorocarbon taumaenda, þessi hnútur er gjarnan nefndur stoppari þannig að renni ekki að flugunni á enda

Þessi lýsing er, í sinni einföldustu mynd sá taumur sem kallaður hefur verið pólski taumurinn. Lengd og ræðst af dýpi þess vatns sem veiða skal.

Hér skal strax leiðrétta gamlan misskilning um Pólsku rótina; það var aldrei veitt með þremur flugum með þessari aðferð. Ástæðan er sára einföld, það var (er?) nefnilega bannað að veiða með fleiri en tveimur flugum í Póllandi.

Það sem vekur athygli við þennan taum er að eiginleg lengd hans er lítið lengri en hefðbundinn fluguveiðitaumur, u.þ.b. 9 fet. En það sem vakti enn meiri athygli og hafði ekki sést áður, var náttúrulega partur ②  Það að nota mislitt eða ljómandi taumaefni sem tökuvara þótti snilld því tökuvarar höfðu jú áhrif á drag en það losnuðu menn við með þessari aðferð. Taumurinn og sú aðferð að láta flugulínuna sjálfa nær aldrei snerta vatnið gerir það að verkum að Pólska aðferðin hentar sérstaklega vel í straumhörðum ám og lækjum sem eru tiltölulega grunnir.

Flugurnar sem Pólverjar notuðu voru töluvert þyngdar og gjarnan vafðar ull. Upprunalega ekki eins straumlínulagaðar og þær sem við sjáum í Euro Nymphing í dag, en mjóslegnar þó. Sú mýta varð fljótlega til að Pólsku flugurnar væru allar ofnar eða heklaðar listaverk, en mér skilst að Pólverjar glotti nú aðeins að því og segi þær flugur hafi meira verið ætlaðar til að selja ferðamönnum heldur en til daglegs brúks.

Evrópska aðferðin

Eins og fram hefur komið hér á síðunni, þá er Euro Nymphing samheiti yfir nokkrar aðferðir við stuttlínu veiði sem eiga það sammerkt að eiga ættir að rekja til Póllands, ég kem að því síðar. Flestar þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að þurfa afskaplega lítið á flugulínunni að halda, en það er betra að hafa eitthvað uppá að hlaupa ef fiskurinn tekur og tekur á rás. Hvort það er undir- eða flugulína sem veiðimaðurinn hefur í bakhöndina skiptir að margra mati ekki höfuð máli, því um eiginlegt flugukast er ekki að ræða.

Kastið er sjaldnast lengra en 10 – 15 fet og að því leitinu til og hvað aðferðina varðar, þá minnir hún glettilega mikið á Tenkara. Já, bara svo ég gleymi því ekki, þá er taumaendinn yfirleitt hafður úr fluorocarbon þannig að ekkert hægi á ferð flugunnar niður í vatnsbolinn. Með rennandi vatni og ekki meira úti en 12 – 15 fet gefst ekki langur tími til að koma flugunni niður og því skal öllum brögðum beitt.

Þegar kemur að því að kasta flugunni, þá getur málið vandast örlítið þar sem þú ert ekki með neina flugulínu úti til að hlaða stöngina. Þú þarft fyrst og fremst að beita meiri kröftum en í venjulegu flugukasti til að ná flugunni út. Ekki skemmir að flippa úlnliðnum snaggaralega í kastinu til að auka á hröðunina í framkastinu. Vitaskuld hjálpar það til að flugurnar eru nokkuð þyngdar og ekki mikið vigt í tauminum, þannig að flestir eru snöggir að komast upp á lagið með kastið.

Þegar flugan er komin í vatnið, þá er stöngin haldið tiltölulega hátt og beint út og notuð til að stilla dýptina sem veiða á. Stangartoppurinn er síðan færður yfir vatnsborðinu með sama hraða og straumurinn þannig að flugan hreyfist með eðlilegum hraða. Það getur tekið nokkrar tilraunir að ná nákvæmlega réttum hraða á fluguna m.v. straum því toppurinn ætti alltaf að vera beint yfir flugunni. Ef hann er á undan henni, þá ertu að draga fluguna of hratt. Ef þú ert á eftir flugunni þá missir þú trúlega af fiskinum.

Ef ég man nú allt sem mér var sagt á Euro námskeiðinu s.l. vor, þá á maður að bregðast við minnsta grun um töku. Málið er að með svona beinni tengingu við fluguna þá eru miklu meiri líkur á að finna fyrir þessum 80% af narti fisksins sem maður annars missir af í hefðbundinni fluguveiði.

Þá er bara spurningin hvort ég sé að gleyma einhverju sem var dælt í mig s.l. vor? Eflaust, en þá gæti alveg verið að næstu greinar fylli þar inn í.

Euro

Nei, mér dettur ekki í hug að blanda mér í umræðu um upptöku evrunnar, einhliða, tvíhliða eða á nokkurn annan máta. Ég hef ekki hundsvita á þessum málum, ekkert frekar en meirihluti þjóðarinnar og held mig því alveg til hlés. Því er ekkert mjög ólíkt farið um efnið sem mig langar þó aðeins að fjalla um; Euro Nymphing, en þar er ég ekki einu sinni byrjandi, bara rétt aðeins kynnt mér og smakkað á.

Þegar ég fór að lesa mér til um Euro Nymphing þá fór mig strax að gruna að þetta væri eitthvert bandalag á milli Czech-, Polish-, Spanish- og French nymphing þannig að ég bakkaði aðeins og las mér til um þær aðferðir. Í rauninni hætti ég að skrifa þessa grein og setti hana á salt, en nú hef ég tekið hana úr salti, skolaði af henni eigin misskilning og skrifað upp á nýtt.

Það var alveg eins og mig grunaði, þessi frasi Euro Nymphing er ekkert annað en tilraun til að sjóða saman í eina krukku helstu aðferðum Evrópubúa til að veiða mjög þungar púpur sem festar eru á langan, grannan einþátta taum. Þessar aðferðir komu fyrst fram á sjónarsviðið upp úr 1980 í fluguveiðikeppnum sem mótleikur við hömlur sem settar voru við notkun ýmissa hjálpartækja s.s. tökuvara o.fl. Koll af kolli tóku landsliðin sig til og betrumbættu og aðlöguðu útfærslur vinningsliðs síðasta árs á þessari aðferð og á endanum varð úr það sem Ameríkanar kölluðu einu nafni; European Nymphing eða Modern Nymphing.

Kosturinn við allar þessar aðferðir er að það má í raun nota hefðbundna flugustöng og hjól, en vissulega má ná sér í sérstakar græjur ef áhuginn er brennandi. Einfaldasta útgáfan af græjunum gæti verið hefðbundin, frekar toppmjúka flugustöng #3, 10 fet eða lengri með viðeigandi large arbor hjóli. Í þessari einföldustu uppsetningu er ekki notuð flugulína heldur fyllir þú hjólið næstum því af undirlínu og setur fasta lykkju á endann.

Ef þú vilt alveg endilega nota flugulínu, þá spólar þú einfaldlega minna af undirlínu inn og getur þá valið um tvær útfærslur;

Gömul rennslislína: notast má við rennslislínu af gamalli flotlínu, helst léttri línu #3 eða #4. Þar sem rennslislína er jafn sver alla leið (e: level) skiptir ekki máli hvernig henni er spólað inn á hjólið. Á enda línunnar er gott að setja fasta lykkju ef hún er ekki til staðar.

Euro Nymphing lína: þú getur líka keypt sérhannaða Euro Nymphing línu fyrir þá stöng sem þú hyggst nota, en í fyrstu atrennu er það e.t.v. óþarfi.

Fremst á línuna eða undirlínuna setur þú sérhannaðan Euro taum sem getur verið allt frá 12 fetum og upp í rúmlega 30 fet að lengd eins og sá sem ég lærði að hnýta á námskeiði sem ég fór í s.l. vor.

eru 20 fet af 0X taumaefni sem tengt er flugu- eða undirlínu.

eru 3 fet af 2X taumefni.

eru 3 fet af 3X taumaefni.

eru 3 fet af 4X ljómandi / marglitu fluorocarbon taumaefni, tökuvarinn (e: sighter). Parturinn er tekinn í tvennt og hnýttur saman þannig að tveir góðir stubbar af efni standa út úr hnútinum til að auka sýnileika tökuvarans.

eru 3 fet 5X glæru fluorocarbon taumaefni, taumaendi.

Á milli hluta og er hafður tippahringur (e: tippet ring) þannig að tökuvarinn styttist ekki þegar skipt er um taumaendann.

Uppbygging taums og mögulega aðrir fylgihlutir taka annars mið af því hvaða afbrigði, eða öllu heldur rót Euro Nymphing þú ætlar að nota. Ég fer nánar í ræturnar á næstum vikum og það hvernig maður ber sig að við þessa aðferð sem kölluð hefur verið stuttlínu veiði.

Zebra Midge

Þessi fluga er eignuð Edward (Ted) Welling frá Arizona í Bandaríkjunum og sögð hafa komið fram á sjónarsviðið árið 1996. Það er engin ástæða til að efast um að Ted hafi gefið þessari flugu nafn sitt, en þegar ég sá þessa flugu fyrst, þá hélt ég að hún héti Black, Copper Bead-head og væri íslensk í húð og hár eftir Bjarna R. Jónsson og hafi komið opinberlega fram á sjónarsviðið í þeirri góðu bók Veiðiflugur Íslands árið 1997. Þessum flugum svipar óneytanlega töluvert saman þótt litum kúlu og vírs væri eitthvað víxlað.

Upprunalega var Zebra Midge hnýtt svört og silfruð, en með tíð og tíma hefur litum og afbrigðum hennar fjölgað ört, sumum gefin sérstök heiti en í grunninn eru þetta allt sömu flugurnar;  silfraðar, gylltar eða koparlitaðar í ýmsum litum.

Flugan er gjarnan hnýtt með kúlu í yfirstærð m.v. þumalputtaregluna um stærð kúlu m.v. krók, en eitthvað hefur sú tilhneiging dalað síðustu ár og kúlurnar minnkað eitthvað með tilkomu tungsten kúla.

Höfundur: Ted Welling
Öngull: grupper / emerger #12 – #20
Þráður: svartur
Vöf: silfraður vír
Búkur: þráðurinn
Haus: silfurkúla, gjarnan í yfirstærð m.v. krók

Hér má sjá Tim Flagler hnýta, því sem næst, upprunalega Zebra Midge: