Sauðlauksdalsvatn á FOS.IS

Sauðlauksdalsvatn – Smelltu fyrir stærra kort

Þriðja vatnið sem bætist við á síðuna í þessari atrennu er Sauðlauksdalsvatn í nágrenni Patreksfjarðar. Er þá skemmtilegri veiðislóð Veiðikortsins um Dalina, Barðaströndina og vestur á Firði gerð nokkur skil á vefnum,

Sem fyrr eru lesendur beðnir um að miðla upplýsingum um fengsæla veiðistaði við vatnið, en að sögn eru þeir flestir við vestanvert vatnið.

Upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella hérna.

Vatnsdalsvatn á FOS.IS

Vatnsdalsvatn – Smelltu fyrir stærra kort

Enn bætist við umfjöllun um veiðivötn hér á síðunni. Nú er röðin komin að Vatnsdalsvatni í Vatnsfirði.

Vatnið er mörgum veiðimönnum kunnugt, en sjálfur hef ég ekki enn veitt í þessu vatni og því hef ég orðið að stóla á frásagnir annarra veiðimanna um þær flugur sem helst hafa gefið í vatninu.

Eitthvað fer lítið fyrir merktum veiðistöðum við vatnið, en hafi lesendur einhverjar upplýsingar sem þeir vilja deila, þá væru allar upplýsingar um það vel þegnar í skilaboðum eða kommentum.

Umfjöllun um vatnið má nálgast með því að smella hérna.

Berufjarðarvatn á FOS.IS

Berufjarðarvatn – Smelltu fyrir stærra kort

Nú eru smá upplýsingar um Berufjarðarvatn sem er á milli Hríshólsháls og Hofstaðaháls við Berufjörð komnar inn á vefinn. Vatnið hefur verið inn á Veiðikortinu frá því í vor, en því miður hefur ekki farið miklum sögum eða myndum af veiði í vatninu það sem af er sumri, hverju sem það kann nú að sæta.

Í umfjöllun um vatnið má finna kort af því ásamt nokkrum tenglum, en því miður höfum við ekki fengið neinar upplýsingar um flugur sem hafa gefið í vatninu. Lesendur sem þekkja til vatnsins mættu senda okkur upplýsingar um það, flugur og helstu veiðistaði.

Upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella hérna.

 

Veiðimaðurinn kominn út

Að þessu sinni er mér málið örlítið skylt og því langar mig að vekja athygli á veglegu sumarblaði Veiðimannsins, málgagns stangveiðimanna, sem kom nýverið út.

Þetta tölublað er óvenju efnismikið og víða hefur verið leitað fanga. Meðal efnis eru veiðistaðalýsing á Úlfarsá, sem sumir kalla Korpu, frásögn af einni minna uppáhalds, Black Zulu og leitað álits veiðimanna og spekúlanta á vindátt og veiði hérna á Íslandi þar sem undirritaður á smá innlegg.

Áskrifendur geta vænst þess að blaðið detti inn um bréfalúguna hvað úr hverju, aðrir geta nálgast það í helstu veiðiverslunum landsins og kostar það 2.190,- kr. í lausasölu.

Nokkur atriði til að varast

Það vantar yfirleitt ekki varnaðarorð til veiðimanna um hitt eða þetta og litlu við þau flest að bæta. Það er því með mikilli ánægju sem hér verða sett fram nokkrar minna þekktar staðreyndir sem gefa til kynna skort á veiðiferðum.

Þú lítur ekki út eins og þvottabjörn – Ef þú hefur ekki áunnið þér náttúruleg gleraugnaför eftir sumarið, þá er það örugg vísbending um að fjöldi veiðidaga hefur verið langt innan ásættanlegra marka.

Það var þarna um daginn – Ef veiðisögurnar þínar í sumar hafa byrjað á óræðum tímasetningum í stað; Í gær… eða það sem er enn betra; Í morgun… þá hefur þú ekki farið nógu oft í veiði.

Óþarfa myndir á Facebook – Ef veiðimyndir eru ekki í meirihluta allra þinna mynda á Facebook, þá er það vísbending um of fáar veiðiferðir. Fyrir hverja ættarmótsmynd ættu að vera í það minnsta tvær veiðimyndir. Göngutúrar án veiðistangar teljast ekki lögmætar veiðiferðir.

Bíllinn þinn er hreinn – Ef bíllinn þinn er svo hreinn að ekki einn einasti farþegi fitjar upp á trýnið, þá hefur hann ekki lent í nægjanlegu slarki í sumar. Ergo: skortur á veiðiferðum.

Engin táfýla – Ef engar kvartanir hafa borist yfir táfýlunni úr geymslunni þinni, þá hafa vöðlurnar ekki verið hreyfðar nægjanlega mikið í sumar. Eina undantekningin er ef þær hafi slitnað upp til agna og endað í ruslinu.

fos_plagur

Almenn leiðindi og óþol fyrir stjórnmálum – Ef það ber á almennum leiðindum í þínu fari og óþoli fyrir stjórnmálum, þá hefur þú ekki farið nægjanlega oft í veiði. Ásættanlegur fjöldi veiðiferða veitir veiðimanninum þvílíka hugarró að ástand heimsmála og framkoma stjórnmálamanna ættu ekki að skipta hann neinu máli.

Meira en helmingurinn eftir í fluguboxinu – Alvarlegasta vísbendingin um að fjöldi veiðidaga hefur ekki verið nægjanlegur er þegar fluguboxið er enn hálf-fullt. Hefur þú eitthvað hugsað fyrir því hvað þú ætlar að hafa fyrir stafni næsta vetur? Drífðu þig nú út að veiða þannig að þú hafir eitthvað að hnýta næsta vetur.

Hlíðarvatnsdagurinn 11. júní

Hinn árlegi Hlíðarvatnsdagur veiðifélaganna við Hlíðarvatn í Selvogi verður á sunnudaginn. Þennan dag gefst öllum sem vilja, tækifæri til að heimsækja veiðifélögin við Hlíðarvatn og kynnast vatninu af eigin raun því öllum er heimil veiði frá morgni og fram undir kvöld.

Það er ekki annað að heyra heldur en heitt verði á könnunni hjá öllum félögunum og nægar tröllasögur til áheyrnar fyrir þá sem fá aldrei nóg af slíku.

Allir áhugamenn um stangveiði og þeir sem vilja kynnast sportinu eru hvattir til að gera sér ferð í Selvoginn á sunnudaginn og láta það eftir sér að renna fyrir bleikju því vatnið hefur verið að gefa með besta móti það sem af er sumri.

Úr Stakkavík við Hlíðarvatn

Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru; Ármenn, Stangaveiðifélagið Stakkavík, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss og Stangaveiðifélagið Árblik.

Nýjar bækur um Veiðivötn

Um daginn hafði ég spurnir af því frá góðum félaga mínum að út væri komin bók um Veiðivötn á Landmannaafrétti. Ekki grunaði mig þvílíkt rit þetta væri fyrr en ég handlék þessi tvö bindi sem um var rætt á verði sem er í engu samræmi við innihaldið; 8.500,- kr. fyrir þetta verk er gjöf, ekki gjald.

Ég væri að skrökva ef ég héldi því fram að ég væri búinn að lesa bæði bindin. Samtals eru ritið 910 bls. í tveimur veglegum bindum, prýddar fjölda mynda, bráðskemmtilegra frásagna og upplýsinga um Veiðivötn á Landmannaafrétti. Það tekur mig trúlega einhverjar vikur að drekka í mig þann fróðleik sem bækurnar geyma.

Að sögn hóf höfundur ritsins, Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún að safna efni í það árið 1984 samhliða daglegum störfum sínum, en frá 2012 hafa allir kraftar hans farið í að draga efnið saman í það mikla rit sem komið er nú út. Sú vinna hefur farist honum vel úr hendi, af því að dæma sem ég hef þegar lesið og gluggað í. Efnistök bókarinnar spanna allt frá jarðsögu svæðisins frá síðustu ísöld til okkar daga, sögu staðarins frá Landnámsöld, horft til framtíðar með tilliti til náttúrverndar, auk þess sem lífríki svæðisins eru gerð góð skil.

Það fer vel á því að óska unnendum svæðisins og síðast en ekki síst höfundi til hamingju með þetta mikla rit, þetta er fágætur og fallega fram settur fróðleikur sem hér birtist og ætti að vera sjálfsögð lesning þeim sem unna Veiðivötnum og náttúru Íslands almennt.

Eins og áður segir kostar ritið einungis 8.500,- kr. og er til sölu á Selfossi í Árvirkjanum, Veiðivon í Reykjavík, Söluskálanum við Landvegamót, í Mosfelli á Hellu og í Fóðurblöndunni á Hvolsvelli.