300 Febrúarflugur

Í kvöld er þriðja Febrúarflugukvöldið þetta árið í Árósum, Dugguvogi 13 kl. 20:00 og það má teljast skemmtileg tilviljun að seinni partinn í dag datt 300. flugan inn í átak ársins.

Í kvöld ætlar Kjartan Antonsson að leiða gesti um leyndardóma Zeldu, þ.e. flugunnar í Árósum og eflaust detta einhverjar flugur inn á hópinn á Facebook í lok kvöldsins því það verður örugglega hnýtt eitthvað á hliðarlínunni eins og venjulega.

Febrúarflugukvöld 19. febrúar

Þriðja Febrúarflugukvöld ársins verður nú á mánudaginn í Árósum Ármanna að Dugguvogi 13. Að þessu sinni mun Kjartan Antonsson, höfundur Zeldu heimsækja okkur en sú fluga var trúlega mest á milli tanna bæði fiska og manna á liðnu ári. Saga Zeldu er nokkuð lengri en margir vilja halda, flugan var fyrst reynd árið 1999, en þá hafði Kjartan gengið með hugmyndina að henni í kollinum í einhver ár.

Kjartan Antonsson með vænan fisk sem auðvitað tók Zeldu

Þátttakendur í Febrúarflugum eru sérstaklega hvattir til að mæta með hnýtingagræjurnar með sér og smella í eins og eina eða fleiri flugur á milli þess sem þeir geta fylgst með Kjartani á skjánum. Auk þess eru allir áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar ævinlega velkomnir til að fylgjast með því sem um er að vera á staðnum. Veðurútlitið ætti ekki að skemma fyrir, hitatölur í kortunum og skaplegt veður almennt.

Sem sagt; Mánudagskvöld kl.20 í Árósum, Dugguvogi 13.

222 Febrúarflugur

Það sem af er Febrúar hafa 222 flugur verið lagðar fram í átakinu og það stefnir í metfjölda þetta árið ef fram fer sem horfir. Það er líka eftirtektrarvert að á bak við allar þessar flugur stendur 41 hnýtari og þar með er þegar slegið fyrra met sem var 38.

Aðstandandi Febrúarflugna er í skýjunum yfir þessari þátttöku og þakka þessar gríðarlega góðu undirtektir.

Eins og venjulega eru flugurnar færðar reglulega yfir í eitt safn á FOS.IS sem má nálgast hérna.

Febrúarflugukvöld 12.feb.

Á Febrúarflugukvöldi í Árósum, mánudaginn 12. febrúar gefst gestum kostur á að kynnast tilurð einnar af spútnik-flugum aldarinnar, Frigga. Höfundur Frigga, Baldur Hermannsson mætir í Árósa og segir frá tilurð flugunnar og sýnir gestum hvernig eigi að bera sig að við að hnýta hana svo vel sé.

Þeim sem þekkja til ætti ekki að koma á óvart að höfundinum er umhugað að flugan sé hnýtt rétt og úr réttum hráefnum. Þeir eru víst fáir veiðimennirnir sem hafa ekki í það minnsta reynt fluguna í fiski eða í hnýtingarþvingunni og lengi vel var talað um ‚leynivopnið Frigga‘ eða ‚ofurfluguna Frigga‘ og margar ótrúlegar sögur sem sagðar hafa verið af þessari flugu frá því uppvíst varð um tilvist hennar.

Af gefinni reynslu síðasta Febrúarflugukvölds, þá verður bætt við hnýtingaraðstöðuna því ljóst var að færri komust að heldur en vildu. Sem fyrr, þá er öllum heimill aðgangur, hvort heldur til að hlýða á og fylgjast með Baldri eða hnýta nokkrar flugur, já eða bara hvoru tveggja. Húsið opnar stundvíslega kl.20:00 og Árósar eru auðvitað í Dugguvogi 13.

Vesturröst styrkir Febrúarflugur

Síðasti, en ekki sísti styrktaraðilinn sem við kynnum hefur stutt við Febrúarflugur frá upphafi. Vesturröst hefur í gegnum árin stutt dyggilega við bakið á Febrúarflugum og þetta árið verður engin undantekning á. Það má segja að stuðningurinn hafi verið jafnt á borði sem í orði, því utan veglegra styrkja verslunarinnar, hafa starfsmenn verslunarinnar verið sérlega duglegir að vekja athygli á Febrúarflugum við viðskiptavini sína.
Vesturröst hefur allt frá árinu 1957 verið ein helsta veiðivöruverslun landsins og þar bjóðast heimsþekktar stangaveiðivörur, svo sem; Orvis, Airflo, Royal Wulff, Shimano, Daiwa o.fl.
Það er væntanlega ekki á neinn hallað þegar því er haldið fram að Vesturröst bíður upp á eitt mesta úrval hnýtingarvara hér á landi enda eru unnendur flugna og fluguhnýtinga eins og gráir kettir í versluninni um leið og fréttist af einhverju nýju og spennandi.
Að þessu sinni leggur Vesturröst til gjafakort fyrir hnýtingarvörum sem viðurkenningu fyrir þátttökuna í Febrúarflugum, eitthvað sem örugglega kemur sér vel eftir að hafa lagt fram sæg af flugum í mánuðinum.

112 Febrúarflugur

Febrúarflugurnar hafa heldur betur farið vel af stað. Fyrstu átta dagana komu fram 112 flugur frá 30 hnýturum og síðustu styrktaraðilarnir voru að detta í hús með vegleg framlög til viðurkenninga til handa heppnum hnýturum átaksins. Ekki má heldur gleyma öllum þeim sem fylgjast með átakinu, en þar hefur heldur betur bæst í hópinn því þegar eru 140 einstaklingar að fylgjast með á Facebook og þeir hafa aldrei verið fleiri.

Febrúarflugurnar eru ekki aðeins á Facebook, þær eru einnig færðar reglulega inn á FOS.IS, sjá hér.

Eins og hér hefur verið kynnt þá hafa 10 fyrirtæki og einstaklingar lagt að mörkum einstaklega glæsilegar viðurkenningar sem veittar verða heppnum hnýturum á lokakvöldi Febrúarflugna sem verður 28. febrúar í Árósum, félagsheimili Ármanna að Dugguvogi 13. Við þökkum öllum þessum aðilum kærlega fyrir stuðning þeirra og velvild til átaksins.

Vesturröst styrkir Febrúarflugur
Veiðikortið styrkir Febrúarflugur
Valdemarsson styrkir Febrúarflugur
Sunray styrkir Febrúarflugur
Mistur styrkir Febrúarflugur
Langskeggur styrkir Febrúarflugur
JOAKIM’S styrkir Febrúarflugur
Flugubúllan styrkir Febrúarflugur
Árvík styrkir Febrúarflugur
Ármenn styrkja Febrúarflugur

Valdemarsson styrkir Febrúarflugur

Valdimarsson Fly Fishing styrki Febrúarflugur nú í annað sinn. Verslunin hefur um árabil boðið upp á flugustangir og hjól að ógleymdum flugum sem eigandi verslunarinnar, Eiður Valdimarsson hefur hnýtt. Síðustu misserin hefur Eiður lagt aukna áherslu á framboð vara til fluguhnýtinga; UV lím, búkefni ýmiskonar, hár, fjaðrir og margt fleira.

Valdemarsson hefur sett saman gjafakassa sem inniheldur Royal Vice, tvenn skæri, tvo spóluhaldara og fjaðratöng, auk úrvals af Perlunni í fluguboxi og allt þetta hlýtur einhver heppinn hnýtari að launum fyrir framlag sitt til Febrúarflugna þetta árið.