Veiðikortið 2018

Það er alltaf jafn skemmtilegt að fá gamladags póst, það er þennan sem berst inn um bréfalúguna og þá sérstaklega þennan sem kemur í desember. Mér skilst að formlega komi engar veiðibækur út fyrir þessi jól, en það kemur nú samt alltaf ein veiðibók út; fylgirit Veiðikortsins. Og nú er þessi góða bók kominn inn á mitt heimili, meira að segja í tveimur eintökum þannig að við hjónin þurfum ekki að rífast um hana þegar við viljum fletta henni og láta okkur dreyma um sólríka og fengsæla veiðidaga sem bíða okkar næsta sumar.

Veiðikortið er árviss glaðningur veiðimanna fyrir jól og mér skilst að jafnt aldnir sem ungir taki sig nú til og stilli vöðluskóm út í gluggann í von að Flugnasníkir, Bleikjukrókur eða Urriðakrækir laumi eins og einu Veiðikorti í skóinn. Ef svo ólíkega vill til að enginn jólasveinn á leið um hverfið þessa dagana, geta veiðimenn fest kaup á kortinu á vef Veiðikortsins með því að smella hérna.

Krydd

Veiðimenn hafa á sér margvíslegt orðspor, sumt af því er satt en flest eru reyndar gömul hindurvitni og kreddur. Það er til dæmis lífseigt að telja veiðimenn í hópi skrautlegustu lygara mannskynssögunnar. Grunsamlegar aflatölur og gríðarleg stærð fiska, sérstaklega þeirra sem sleppa, eru nefndar sem sönnun þessa. Það skemmtilega við þetta orðspor er að veiðimenn ýta gjarnan sjálfir undir það, bera brigður á veiðisögur annarra og leggja síðan eigin stórkostlegar frásagnir í púkkið sem yfirleitt gera ekkert annað en toppa hina meintu skreytni. Aldrei dettur mér í hug að telja þetta til lyga, þetta er krydd sem er sérsniðið að menningu veiðimanna og órjúfanlegur partur af samræðum þeirra í millum.

Góð veiðisaga öðlast oft sjálfstætt líf, stækkar í meðförum og fylgir strangt þeim reglum sem settar hafa verið fram í málsháttum eins og Góð vísa verður aldrei of oft kveðin og Ekki láta góða sögu gjalda sannleikans. En það eru takmörk fyrir öllu, meira að segja veiðisögum. Samfélag veiðimanna er ekki lítið á Íslandi, en fréttir af þessu samfélagi bera þess nú ekki beint vitni. Yfir sumarmánuðina les maður sömu fréttina af veiði og veiðimönnum á nokkrum mismunandi miðlum, rétt eins og eitthvað eitt hafi aðeins gerst og ekkert annað. Verandi sjálfur að ströggla við það heimatilbúna markmið að færa þokkalega gáfulegar greinar á borð fyrir lesendur í það minnsta tvisvar í viku árið um kring, getur tekið á. Því er ekki að leyna að oft hefur mig langað til að taka áhugaverða frétt, breyta orðaröð hennar örlítið og gera að færslu hér á síðunni. Ég hef í 90% tilfella staðist þessa freistingu en ég get vel sett mig í spor þeirra sem láta undan henni og smyrja sömu brauðsneiðina upp á nýtt og bera á borð fyrir lesendur sína. Auðvitað verða svona fréttir svolítið einsleitar fyrir bragðið. Það er lítið krydd í lífið að lesa um sama laxinn á fjórum miðlum, sama vatnsleysið og sömu fluguna, viku eftir viku eftir viku.

Smalar að Fjallabaki

Það er nú ekki svo að ég telji mig til blaða- eða fréttamanna, smalanna eins og ég kalla þá stundum. Starf veiðifréttamanna á Íslandi á mikið skylt með smalamennsku. Það er ekki endalaust sem hægt er að skrifa frá eigin brjósti, það kemur að því að upplifun manna dugir ekki í frétt og því verða þeir að hringja í vin og smala í fréttir. Þá vill auðvitað brenna við að sama rollan er dregin í tvo eða fleiri dilka og eiginlega ekkert við því að gera. Þeir eru nefnilega ekki margir veiðimennirnir sem eru tilbúnir að segja frá að fyrra bragði og því reynir á smalana að finna ærnar sem földust í fyrstu leitum þannig að það endi ekki með því að allri séu að segja sögu sömu rollunnar.

Ekkert af ofangreindu er ástæða þess að heldur rólegt hefur verið á þessari síðu síðustu vikur. Efni síðunnar er ekki byggt á fréttum, það er byggt á sumarlöngum göngum og eigin smalamennsku sem ég legg inn í reynslubankann. Banka sem ég síðan tæmi hægt og rólega yfir vetrartímann. Þar að auki hefur þrek veiðimanna heldur dvínað á þessum árstíma og heimsóknir í september og október hafa alltaf verið heldur fáar á síðunni, rétt á milli 100 – 200 á dag. En veiðimenn eru þrautseigir einstaklingar og þurfa yfirleitt ekki langan tíma til safna kröftum og í byrjun nóvember byrja þeir aftur að kíkja hér inn, lesa og grúska í veiði og veiðimennsku, flugum og fiðri. Um leið og fyrstu vetrarlægðirnar fara af stað taka því nýjar greinar til við að birtast og vonandi veita þær einhverjum fró yfir köldustu mánuðina, verða krydd í undirbúningi næsta sumars.

Urriðadans 14. október

Að vanda bíður urriðinn á Þingvöllum upp í dans í október og þetta árið verður engin undantekning frá reglunni. Að þessu sinni verður 14.  október partýdagur á Þingvöllum, veislustjóri verður að vanda Jóhannes Sturlaugsson og um skemmtiatriði sjá urriðar af ísaldarstofni.

Einn af höfðingjum Öxará

Skemmtunin hefst klukka 14 á bílastæði P5, þar sem Valhöll stóð og gengið verður með bökkum Öxarár upp undir Drekkingarhyl þar sem nokkrir höfðingjar árinnar verða hafði til sýnis og um þá fjallað.

Framvötn 2017

Það eru fleiri lokatölur sem eru að detta í hús þessa dagana heldur en úr laxveiðinni. Á vef Veiðivatna voru að koma lokatölur úr Framvötnum, vötnunum sunnan Tungnaár. Þeir sem fylgjast með FOS.IS vita náttúrulega að mér er þetta svæði sérstaklega hugleikið og því hef ég rýnt í þær og borið saman við tölur síðustu ára.

Framvötn – veiðitölur 2017

Eins og við mátti búast var Frostastaðavatn með flesta fiska þetta árið, rétt eins og síðustu árin. Samt sem áður eru tölurnar núna ekki svipur hjá sjón miðað við síðustu ár, raunar þær lægstu sem sést hafa frá árinu 2010. Eins og flesta rekur minni til, hamlaði Nýipollur nokkuð ferð manna inn að Froststaðavatni lengi frameftir sumri, í það minnsta þeim sem lögðu leið sína um Landmannaleið og getur að skýrt þessar lélegu aflatölur að einhverju leiti.

Frostastaðavatn 2010 – 2017

Eins og fram kom í fréttum síðla sumars var það álit fiskifræðinga sem öfluðu gagna í vatninu nú í sumar, að vatnið væri ofsetið og bleikjan þar liðmörg og smá. Þetta voru í sjálfu sér ekki nýjar fréttir fyrir þá veiðimenn sem þekkja til, en ég hef rökstuddan grun um að einhverjir veiðimenn hafi oftúlkað ummæli fiskifræðinga og talið vatnið ónýtt. Svo slæmt er ástandið ekki orðið, þótt ýmis merki ofsetningar megi finna í fiskinum. Mín persónulega reynsla er sú að vænni fiskur gengur nær landi þegar sumri fer að halla og oft má gera ágæta veiði í vatninu síðla sumars og er sá fiskur í flestum tilfellum mun heilbrigðari heldur en sá sem veiðist snemmsumars og á miðju sumri. Það verður spennandi að rýna í niðurstöður rannsóknanna þegar þær koma fram í vetur.

Ljótipollur 2010 – 2017

Tölurnar fyrir Ljótapoll styðja að einhverju leiti þá tilgátu að Nýipollur hafi dregið úr ásókn veiðimanna austur fyrir Dómadal, en ég á mjög bágt með að trúa því að aðeins 56 fiskar hafi verið dregnir upp úr Ljótapolli þetta árið. Okkur veiðifélögunum tókst að telja vel á fjórða tug fiska sem við höfðum spurnir af í sumar og þá eru aðeins taldar 5-6 veiðiferðir. Þessar tölur segja mér frekar að skil á veiðiskýrslum hafi ekki verið góð þetta árið, í það minnsta hjá þeim sem lögðu leið sína í Ljótapoll.

Dómadalsvatn 2010 – 2017

Hafi Nýipollur stöðvað för mann að Ljótapolli, þá er eins víst að þeir hafi komið við í Dómadalsvatni. Af öllum Framvötnum er Dómadalsvatn aðeins annað þeirra tveggja sem gáfu fleiri fiska þetta ár heldur næstu ár á undan. Raunar þarf að leita allt aftur til 2010 til að sjá fleiri fiska á land úr vatninu. Svo virðist vera sem vatnavextir í Dómadal hafi ekki haft slæm áhrif á urriðann þar, heldur þvert á móti.

Löðmundarvatn 2010 – 2017

Löðmundarvatn er hitt vatnið sem státar af aukningu á milli ára. Hún er kannski ekki mikil, en einhver þó og skemmtilegt að sjá að meðalþyngd fiska þar er að tosast eitthvað upp.

Framvötn 2010 – 2017

Að öllu þessu sögðu, þá eru það heildartölur vatnanna sem stinga hve mest í augu. Þær eru hreint út sagt afskaplega lélegar og verður að leita allt aftur til kuldasumarsins 2012 til að finna svipaðar tölur. Vafalaust hefur margumræddur Nýipollur haft veruleg áhrif á ástundun í Framvötnum þetta sumarið, en svona getur nú hálendisveiðin verið óútreiknanleg. Eins og sagt var um árið, það gengur bara betur næst. Veiðitölur ársins í heild sinni má finna á vef Veiðivatna með því að smella hérna.

Tilfæringar og nýtt efni

Örlitlar tilfæringar hafa verið gerðar á valmynd síðunnar til að rýma fyrir nýju efni og vonandi gera vafur um síðuna markvissara. Undir valkostinum Ýmislegt hefur verið safnað saman ýmsum töflum og upplýsingum sem áður voru dreifðar um valmyndina. Þangað fluttist meðal annars Dagatalið og nýtt safn Laga og reglna sem tengjast veiði og veiðifélögum. Þá hafa Vefritin einnig flutt sig um set og eru nú undir Tenglunum.

Flýtileiðum á forsíðunni fækkað til samræmis við yfirflokkana í valmyndinni

Til gamans má geta þess að það sem af er árs hafa 14.500 aðilar heimsótt síðuna rétt rúmlega 95.000 sinnum, meðal annars til að lesa þær 165 greinar ársins sem þegar hafa birst.

Kvíslavatn á FOS.IS

Það safnast alltaf eitthvað í reynslubanka þeirra sem reyna eitthvað nýtt. Að þessu sinni höfum við bætt enn einu vatni hér inn á síðuna; Kvíslavatni á Sprengisandi.

Við Svartárós

Kvíslavatn er ekki gamalt vatn en margir veiðimenn hafa lagt leið sína í vatnið frá því það tók á sig sína fyrstu mynd á níunda áratug síðustu aldar. Vatnið hefur tekið nokkrum eðlis- og útlitsbreytingum frá þeim tíma og sitt sýnist hverjum um þær breytingar.

Í umfjöllum um vatnið má finna nokkuð nákvæmt kort af vatninu og þekktum veiðistöðum í því, ásamt yfirlitskorti af Kvíslaveitum í heild sinni. Jafnframt má þar finna tengil á kynningarefni um veiði á Holtamannaafrétti frá árinu 2011. Umfjöllunina má finna með því að smella hér.

Sauðlauksdalsvatn á FOS.IS

Sauðlauksdalsvatn – Smelltu fyrir stærra kort

Þriðja vatnið sem bætist við á síðuna í þessari atrennu er Sauðlauksdalsvatn í nágrenni Patreksfjarðar. Er þá skemmtilegri veiðislóð Veiðikortsins um Dalina, Barðaströndina og vestur á Firði gerð nokkur skil á vefnum,

Sem fyrr eru lesendur beðnir um að miðla upplýsingum um fengsæla veiðistaði við vatnið, en að sögn eru þeir flestir við vestanvert vatnið.

Upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella hérna.