Út fyrir malbikið

Nú er hálendisfærð farin að taka á sig þá mynd sem margir veiðimenn vilja sjá. Fjallabaksleiðs nyrðri (208) hefur opnað og að sögn er hún í ágætu ástandi, jafnvel fólksbílafær frá Sigöldu og niður í Landmannalaugar. Þar með er fólksbílafært í Frostastaðavatn og Ljótapoll en F208 frá Landmannalaugum og niður að Eldgjá er enn lokuð. Menn verða því að bíða aðeins þar til þeir komast inn að Langasjó (F235).

Færð þann 18.6 skv. Vegagerðinni

Vegurinn inn að Veiðivötnum (F228) er reyndar orðinn fær enda búið að opna þar fyrir veiði og vegir, gróður og fiskar í toppstandi. Vel að merkja er enn ófært fyrir Hermannsvík og Eyvík þegar þetta er ritað, en vatnsstaða er ólíkt hagstæðari nú heldur en á sama tíma og í fyrra og því standa vonir til að fært verði í víkurnar innan örfárra daga.

Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) hefur verið opnuð og því fært inn að Landmannahelli / Dómadal og inn að Frostastaðavatni. Þar með er fært inn að öllum vötnunum sem ganga undir heitinu Framvötn. Það er langt síðan ég tók ástfóstri við þessi vötn og nú er ég farinn að hugsa mér heldur betur til hreyfings. Rétt er að taka það fram að nokkur vöð eru á Landmannaleið og ekki er mælt með að fara þá leið nema á 4×4 eða AWD bílum, en sé varlega farið er ekkert því til fyrirstöðu að ferðast með viðhengi þessa leið, hvort heldur tjaldvagn, fellihýsi eða verklegt hjólhýsi.

Framvötn – vötn, vegir og þjónusta

Í Framvötnum ræður Veiðifélag Landmannaafréttar ríkjum, hið sama og Veiðivötn heyra undir. Þótt aðbúnaður veiðimanna í Framvötnum sé nokkuð annar en í Veiðivötnum, þá er ýmsa þjónustu að fá hjá Hellismönnum við Landmannahelli og vert að kanna gistimöguleika þar, hvort heldur í húsum eða á tjaldsvæði. Veiðileyfi í vötnin má kaupa hjá Hellismönnum við Landmannahelli.

Margir bíða enn eftir að Sprengisandsleið (F26) opni inn að Þúfuveri þannig að fært verði í Kvíslavatn, en flökkusagnir herma að einhverjir veiðimenn hafi þegar gert sér ferð þangað nú í sumar. Mér skilst að vatnsstaða sé í hámarki og menn hafi ekki orðið varir við fisk í því flæmi sem vatnið er nú. Þetta eru að vísu óstaðfestar fréttir og mér hefur ekki tekist að fá upplýsingar um vatnshæð í Kvíslavatni og hvort það megi eiga von á að sjatni í því á næstu vikum eða mánuðum.

Tilboð á Vatnaveiði -árið um kring

Uppfærð frétt: Lager Heimakaupa dugði aðeins í rúmar 6 klst. en ….. hún er ennþá til hjá Forlaginu, sjá hér.

Dagana 12. júní til 25. júní verður bókin Vatnaveiði -árið um kring á sérstöku tilboði í netverslun Heimkaupa á aðeins 1.990,- kr. Smelltu hér til að tryggja þér eintak.

Fyrir þá sem enn hafa ekki splæst í eintak, þá er þetta tilvalið tækifæri til að eignast bókina á þessu kostakjörum því óvíst er að annað eins tilboð komi fram síðar.

Meðalfellsvatn á Veiðikortinu

Unnendur Meðalfellsvatns geta tekið gleði sína aftur, því óvænt var það tilkynnt í dag að vatnið verður með á Veiðikortinu 2018 eftir stutta fjarveru.

Þar sem bæklingur Veiðikortsins er fyrir löngu kominn út, er veiðimönnum bent á að kynna sér vel veiðireglur við vatnið áður en haldið verður til veiða 19. apríl, en þann dag opnar vatnið.

Korthöfum er heimilt að veiða í vatninu öllu, þó ekki nær ósum áa og lækja sem í það og úr því renna en sem nemur 50 metrum. Vel verður fylgst með að þessum reglum sé fylgt. Daglegur veiðitími í vatninu er frá kl. 07:00 til 22:00.

Veiðitímabilið hefst eins og áður segir, þann 19. apríl og því líkur 20. september.

Veiðimönnum er sérstaklega bent á að snyrtileg umgengni er skilyrði fyrir veiði og bannað er að skilja rusl eftir við vatnið. Allur akstur utan vega og slóða er að sjálfsögðu bannaður og verður kærður til lögreglu. Veiðikostshafar sem valda umhverfisspjöllum eru ábyrgir gagnavart landeiganda.

Meðalfellsvatn er á Náttúruminjaskrá og nýtur sérstakrar verndar. Í aðalskipulagi er  50 m. breið ræma umhverfis vatnið skilgreint sem “opið svæði” þar sem ekki er gert ráð fyrir mannvirkjagerð m.t.t. undantekningum. Þá er rétt að árétta að öll lögmæt umferð gangandi manna er heimil umhverfis vatnið og óheimilt er að hindra slíka umferð. Hlið eða stigar skulu vera á öllum girðingum sem ná fram í vatnið. Veiðimenn eru í fullum rétti til að veiða við vatnið, hvort heldur fyrir framan sumarhús eða aðrar byggingar við vatnið.

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Veiðikortsins.

Febrúarflugum 2018 er lokið

Á lokakvöldi Febrúarflugna þann 28. febrúar var fjölmennt í Árósum svo ekki sé meira sagt. Viðar Egilsson fór eins og honum er einum lagið, fimum fingrum um nokkrar flugur og margir gesta nýttu tækifærið til að spjalla við Viðar eftir sýninguna, enda er hann margs vís um flugur, fluguhnýtingar og hnýtingarefni.

Það brást ekki að nokkrir hnýtarar settust við þvingurnar í kvöld en þegar kom að útdrætti viðurkenninga gerðu þeir hlé á hnýtingunum og fylgdust grannt með eins og aðrir gestir. Viðurkenningar og nöfn þeirra heppnu eru eftirfarandi:

Hnýtingartaska frá Árvík: Kristján Hauksson
TFO 8,6′ #4 flugustöng og veiðihúfa frá Langskegg: Sigþór Steinn Ólafsson
Flextec XRD 9′ #7/8 flugustöng frá Flugubúllunni: Sigurður Kristjánsson
Hnýtingarstandur, pad og úrval af fluguboxum frá JOAKIM‘S: Ingólfur Dan Þórisson
TFO veiðihúfa frá Langskegg: Marinó Heiðar Svavarsson
Veiðikort og veiðihúfa frá Veiðikortinu: Jón Aðalsteinn Þorgeirsson
Gjafabréf frá Vesturröst: Auke van der Ploeg
Veiðikort og veiðihúfa frá Veiðikortinu: Valdemar Friðgeirsson
Stálbrúsi og nestispokar frá Mistur: Gústaf Ingvi Tryggvason
Gjafabréf frá Vesturröst: Sigurberg Guðbrandsson
Magic Quills frá Sunray.is: Ingvar Samúelsson
Veiðikortið og veiðihúfa frá Veiðikortinu: Steinþór Bjarni Ingimarsson
TFO veiðihúfa frá Langskegg: Stefán Bjarni Hjaltested
Gjafabox með hnýtingaráhöldum og flugum frá Valdemarsson: Bjarnfinnur Sverrisson

Að útdrætti loknum stigu stjórnameðlimir Ármanna á stokk og kunngerðu úrslit í Hlíðarvatnsflugan 2018. Fluga Steinars Vignis Þórhallssonar varð hlutskörpust að mati dómnefndar Ármanna og hlýtur hann að launum ársaðild að Ármönnum með öllum þeim kostum sem því fylgja.

Hlíðarvatnsflugan 2018: Steinar Vignir Þórhallsson

FOS.IS óskar öllum til hamingju með viðurkenningarnar og þakkar þeim, ásamt öllum öðrum sem þátt tóku í Febrúarflugum þetta árið, kærlega fyrir samfylgdina að þessu sinni. Vonandi hafa allir haft jafn mikið gagn og gaman af þessu eins og við sem stóðum að þessum viðburði.

Alls voru 523 flugur lagðar fram þetta árið af 62 hnýturum. Fjöldi þeirra sem fylgdust með hópinum á Facebook voru 247 auk þeirra tæplega 800 sem fylgjast með FOS.IS á Facebook og í áskrift í gegnum tölvupósta. Þetta ár voru öll fyrri met Febrúarflugna slegin, sama hvar litið er á fyrri tölur.

Að lokum vill FOS.IS þakka öllum styrktaraðilum Febrúarflugna kærlega fyrir ómetanlegan stuðning og velvilja, án þeirra hefði okkur ekki verið unnt að veita þær glæsilegu viðurkenningar sem við gerðum í kvöld. Kærar þakkir fyrir stuðninginn.

500 Febrúarflugur

Þær eru orðnar 500 flugurnar sem 60 hnýtarar hafa sett inn á Febrúarflugur á Facebook og í kvöld er lokakvöld átaksins í Árósum, Dugguvogi 13, kl.20:00

Klukkan 21:00 tökum við stöðuna og nöfn þeirra sem skilað hafa inn flugum þetta árið, setjum í pott og drögum nöfn heppinna þátttakenda út og veitum þeim viðurkenningar sem styrkaraðilar okkar hafa látið okkur í té. Við treystum okkur ekki til að slá á heildarverðmæti viðurkenninganna, en þær eru vissulega veglegar þetta árið.

Lokakvöld Febrúarflugna 28.febrúar

Það verður öllu tjaldað til á lokakvöldi Febrúarflugna þetta árið. Viðar Egilsson ætlar að setjast í heiðurssætið og hnýta girnilegar silungaflugur eins og honum einum er lagið. Viðar þarf ekkert að kynna frekar, en við getum ekki stillt okkur um að slúðra að við fengum að sjá mynd af afskaplega flottum flugum sem hann ætlar að smella í af sinni alkunnu snilld í Árósum, Dugguvogi 13 kl.20:00 á morgun. Áhugamenn um einfaldar og veiðnar flugur verða ekki sviknir af handbragði og flugum Viðars, svo mikið er víst.

Rétt til þess að árétta að annað kvöld, upp úr kl. 21:00 munum við draga út nöfn nokkurra hnýtara sem lagt hafa til flugur þetta árið og veita þeim viðurkenningar fyrir þátttökuna. Það er því um að gera að vera búinn að setja inn flugur fyrir kl.21:00 á morgun, því eins og segir næstum í auglýsingunni Fluga er möguleiki. Dómnefnd Ármanna ætlar líka að stíga á stokk og kunngera hvaða Febrúarflugu hún telur líklegust til afreka í Hlíðarvatni í Selvogi á sumri komanda.

Að vanda verður heitt á könnunni og gómsætt bakkelsi í kílóavís í boði Ármanna, hnýtingaraðstaða í boði og auðvitað eru allir velkomnir. Ekki má gleyma því að Veiðikortið verður á staðnum, ef svo ólíklega vildi til að einhver sé ekki búinn að tryggja sér kort fyrir sumarið.