Hlíðarvatnsdagurinn 11. júní

Hinn árlegi Hlíðarvatnsdagur veiðifélaganna við Hlíðarvatn í Selvogi verður á sunnudaginn. Þennan dag gefst öllum sem vilja, tækifæri til að heimsækja veiðifélögin við Hlíðarvatn og kynnast vatninu af eigin raun því öllum er heimil veiði frá morgni og fram undir kvöld.

Það er ekki annað að heyra heldur en heitt verði á könnunni hjá öllum félögunum og nægar tröllasögur til áheyrnar fyrir þá sem fá aldrei nóg af slíku.

Allir áhugamenn um stangveiði og þeir sem vilja kynnast sportinu eru hvattir til að gera sér ferð í Selvoginn á sunnudaginn og láta það eftir sér að renna fyrir bleikju því vatnið hefur verið að gefa með besta móti það sem af er sumri.

Úr Stakkavík við Hlíðarvatn

Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru; Ármenn, Stangaveiðifélagið Stakkavík, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss og Stangaveiðifélagið Árblik.

Nýjar bækur um Veiðivötn

Um daginn hafði ég spurnir af því frá góðum félaga mínum að út væri komin bók um Veiðivötn á Landmannaafrétti. Ekki grunaði mig þvílíkt rit þetta væri fyrr en ég handlék þessi tvö bindi sem um var rætt á verði sem er í engu samræmi við innihaldið; 8.500,- kr. fyrir þetta verk er gjöf, ekki gjald.

Ég væri að skrökva ef ég héldi því fram að ég væri búinn að lesa bæði bindin. Samtals eru ritið 910 bls. í tveimur veglegum bindum, prýddar fjölda mynda, bráðskemmtilegra frásagna og upplýsinga um Veiðivötn á Landmannaafrétti. Það tekur mig trúlega einhverjar vikur að drekka í mig þann fróðleik sem bækurnar geyma.

Að sögn hóf höfundur ritsins, Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún að safna efni í það árið 1984 samhliða daglegum störfum sínum, en frá 2012 hafa allir kraftar hans farið í að draga efnið saman í það mikla rit sem komið er nú út. Sú vinna hefur farist honum vel úr hendi, af því að dæma sem ég hef þegar lesið og gluggað í. Efnistök bókarinnar spanna allt frá jarðsögu svæðisins frá síðustu ísöld til okkar daga, sögu staðarins frá Landnámsöld, horft til framtíðar með tilliti til náttúrverndar, auk þess sem lífríki svæðisins eru gerð góð skil.

Það fer vel á því að óska unnendum svæðisins og síðast en ekki síst höfundi til hamingju með þetta mikla rit, þetta er fágætur og fallega fram settur fróðleikur sem hér birtist og ætti að vera sjálfsögð lesning þeim sem unna Veiðivötnum og náttúru Íslands almennt.

Eins og áður segir kostar ritið einungis 8.500,- kr. og er til sölu á Selfossi í Árvirkjanum, Veiðivon í Reykjavík, Söluskálanum við Landvegamót, í Mosfelli á Hellu og í Fóðurblöndunni á Hvolsvelli.

Vöðluskór

Það eru ekki aðeins vöðlurnar sem gefa reglulega upp andann í mínum meðförum. Vöðluskórnir fá reglulega að kenna á eggjagrjóti og löngum göngutúrum. Gömul tugga, en ég er óttaleg kuldaskræfa og því voru fyrstu vöðlurnar mínar neoprene vöðlur með áföstum stígvélum, næstu vöðlur líka og þar næstu sömuleiðis. Við erum ekki að tala um mörg ár sem það tók mig að slátra stígvélunum á þessum vöðlum, fyrir utan sauma, rassa og hné. Já, ég er böðull á vöðlur, en ég þráaðist við neoprene því ég hafði bara ekki sérlega mikla trú á öndunarvöðlum til að halda á mér hita í skítköldum vötnum landsins. Þar kom þó loks að ég gafst upp og tók til við að slátra öndunarvöðlum, hélt kannski að þær entust eitthvað betur hjá mér. En, nei það var nú ekki svo.

Uppgefnir vöðluskór
Uppgefnir vöðluskór

Með öndunarvöðlum kom nýtt vandamál inn á mitt borð, vöðluskórnir. Nú hafði ég tvennt til að misbjóða í göngutúrum; bæði vöðlum og skóm. Eftir að hafa stagað í og bætt skóna mína oftar en tölu verður á komið, neyddist ég s.l. sumar til að gefa út dánarvottorð fyrir bæði pörin mín og fór á stúfana og leitaði mér að nýjum skóm. Ég hafði augastað á ákveðinni tegund sem ég hafði lesið mér til um að hentuðu vel þeim sem væru gefnir fyrir gönguferðir, svona sambland af göngu- og vöðluskóm. Því miður reyndust þeir ekki lengur fáanlegir, hafa trúlega enst of vel og því var framleiðslu þeirra hætt. Ég leitaði því á önnur mið og skoðaði fjölda tegunda, en flestir sem voru á viðráðanlegu verði voru meira eða minna úr ofnu efni sem ég hef ekki sérlega góða reynslu af. Þeir sem voru aftur á móti aðeins verklegri voru á verði sem var nokkuð utan minna veiðilenda. Það endaði með því að ég fjárfesti í pari af ódýrum skóm til að klára sumarið, ég geri síðan aðra leit að skóm sem mér hef trú á þegar þeir hafa endað ævi sína. Hingað til hefur mín reynsla verið sú að dýrir vöðluskór endast ekkert betur hjá mér heldur en ódýrir og því gæti alveg svo farið að ég endurnýi skóna bara oftar og þá ódýrar í hvert skipti. Þetta er e.t.v. ekki sérlega gott viðhorf þegar litið er til sóunar, en kannski hafa einhverjir öflugir vöðluskór lækkað eitthvað í verði þegar ég fer næst á stúfana og þá tek ég vitaskuld tillit til þess.

Nýr formaður Ármanna

Þann 11. júní 2014 birti ég hér á síðunni frétt þess efnis að ég hefði hlotið inngöngu í Ármenn, félagsskap veiðimann sem berst lítið á og hugsa fyrst og fremst um gott sambýli við allt sem að veiðum lýtur. Á þessum tæpum þremur árum sem liðin eru frá inngöngu minni í Ármenn hef ég átt einstaklega gott samstarf við fjölda félagsmanna og notið leiðsagnar mér eldri og reyndari félaga í öllu því sem að stangveiði með flugu lýtur.

Á aðalfundi Ármanna sem fram fór þann 8. mars, lét Árni Þór Sigurðsson af störfum sem formaður eftir fjögur farsæl ár í því embætti. Það er missir af jafn öflugum formanni og Árni Þór reyndist, en maður kemur í manns stað og sá veit fyrir víst að hægt verður að leita til fyrrum formanns, rétt eins og annarra félagsmanna, í því starfi sem hann var kosinn til næstu tvö árin.

Ármenn er öflugur og þéttur félagsskapur yfir 300 veiðimanna sem umfram allt njóta þess að veiða og vera í sem nánustu tengslum við náttúruna. Félagsstarfið hefur einkennst af gróskumiklu vetrarstarfi þar sem hæfileg blanda gamans og alvöru hefur ráðið för í viku hverri frá hausti og fram á vor. Vikuleg hnýtingarkvöld Ármanna sem ganga undir nafninu Skegg og skott hafa laðað félagsmenn til sín á mánudagskvöldum og reglulegir fræðslufundir á miðvikudagskvöldum hafa ekki síður verið burðarás í vetrarstarfinu. Þegar vorar færa Ármenn sig út, safnast saman við kastæfingar og fínpússa í sameiningu þá list að kasta flugu fyrir fisk svo sómi sé að.

Starf félagsins og markmið eru vel mörkuð í 2. grein laga þess:

  1. Að auka hróður þeirrar íþróttar að veiða vatnafisk á flugu.
  2. Að efla virðingu veiðimanna fyrir íslenskri náttúru.
  3. Að hvetja til góðrar umgengni, hófsemi við veiðar og háttvísi á veiðislóð.
  4. Að stuðla að því að félagar geti stundað stangaveiði fyrir hóflegt verð.
  5. Að auka rétt almennings til veiða á stöng í almenningum og þjóðlendum.

Þessi markmið hafa alltaf fallið mér mjög í geð og tóna vel við það ég hef reynt að koma á framfæri hér á FOS.IS og því er mér það mikill heiður að hafa verið kosinn formaður Ármanna á framangreindum aðalfundi þann 8. mars.

Ég vonast til að eiga gott og farsælt samstarf við Ármenn í anda félagsins, en síðast en ekki síst vonast ég til þess að eiga eftir að kynnast dyggum lesendum þessarar síðu innan félagsstarfs Ármanna á komandi mánuðum. Ég bendi áhugasömum á að kynna sér upplýsingar um aðildarumsókn á nýjum vef Ármanna sem nálgast má hérna.

Ármaður #861
Kristján Friðriksson, formaður

Útfjólublátt ljós við barinn

Ég hef áður haft orð á því að vöruúrval veiðiverslana hér heima er eiginlega ótrúlega gott, í það minnsta m.v. þær erlendu verslanir sem ég hef heimsótt. Þetta á ekki síst við um hnýtingarvörur og þar hefur Vesturröst heldur betur bætt í úrvalið síðustu vikur og gott var það þó fyrir.

Eftir áhugavert kvöld með Robert Nowak í Árósum á mánudaginn, hef ég aðeins verið á höttunum eftir UV efni. Á þeim buxunum kíkti ég við í Vesturröst og skoðaði aðeins úrvalið sem þeir voru að taka upp úr kössunum. Ég verð nú eiginlega að játa að mér hafði ekki komið til hugar allar þær fjaðrir, þræðir og kúlur sem hægt er nálgast til að nýta í UV útgáfur af flugum. Rekkarnir eru beinlínis fullir af nýju skemmtilegu hnýtingarefni og ekki síst nýjum áhugaverðum UV flugum. Ég þarf í það minnsta að taka örlítið til í mínum boxum til koma einhverjum UV flugum þar fyrir.

Fréttir og fróðleikur

Flestir veiðimenn þekkja vel til Árvíkur og þeirra vara sem fyrirtækið flytur inn og dreifir til velflestra veiðiverslana hér á landi. En á heimasíðu fyrirtækisins má finna ýmislegt annað en upplýsingar um vörur þeirra. Árni Árnason, framkvæmdastjóri hefur um árabil viðað að sér áhugaverðum upplýsingum um veiðistaði, skrifað töluvert sjálfur um veiðitengd málefni og birt lýsingar á áhugaverðum flugum á heimasíðunni.

Meðal flugna er uppskrift og hugleiðingar Árna um eigin flugu, Rjúpan. Greinin er skemmtilega krydduð frásögn af tilurð flugunnar og hugmyndum höfundar að framtíðarútfærslum hennar. Þegar Árni benti mér á þessa flugu undir lok Febrúarflugna, varð mér auðvitað hugsað til rjúpuvængjanna sem ég verkaði fyrir margt löngu og ég hef gripið í af og til undanfarin ár. Sjálfur hef ég gert nokkrar tilraunir með útfærslu þessarar flugu eins Árni hugleiddi og það verður að segjast að veiðileg er hún t.d. í útfærslu sem karri.

Rjúpan - smellið á myndina fyrir umfjöllun
Rjúpan – smellið á myndina fyrir umfjöllun

Ef áhugamenn um stangveiði vantar gáfulega dægrastyttingu, þá er um að gera að kanna það sem leynist á vef Árvíkur, þar kennir ýmissa góðra grasa.

Með morgunkaffinu

Það er orðið nokkuð síðan að við höfum vakið athygli á nýjum veftímaritum á FOS.IS Hér eru þau sem bætt hefur verið inn frá síðustu frétt. Þetta er víst nokkrir kaffibollar og ætti að duga helgina eða jafnvel alla vikuna.

catch-51
Catch
Villaks
HookedUp
HookedUp
Revive
Revive
Scale
Scale
Anglers Edge
Anglers
North40
North40
Angling
Angling
Lure
Lure
Backcast
Backcast
TroutTalk
TroutTalk
SCOF
SCOF
Southern
Southern
TFM
TFM
Dun
Dun