Fréttir af Febrúarflugum

Föstudagurinn fyrir Febrúarflugur er nærri orðinn að föstum pósti á FOS.IS  Við höfum það fyrir satt að hnýtarar eru farnir að bíða nær jafn óþreyjufullir eftir 1. febrúar eins og við. Eins og undanfarin ár munum við kynna styrktaraðila átaksins formlega til leiks í fyrstu viku febrúar en dagskráin okkar verður létt og leikandi eins og endranær.

FOS.IS verður með örútgáfu að hlaðvarpi (viðtalsþáttum) á föstudögum í febrúar, tveir fyrstu þættirnir eru klárir og við munum leita hófanna hjá þátttakendum Febrúarflugna þegar líður á mánuðinn fyrir þá tvo sem eftir er að taka upp. Þættirnir eru afar einfaldir og lítið fyrir þeim haft, rétt eins og átakinu sjálfu, lauflétt spjall í gegnum fjarfundabúnað sem er einfaldlega tekið upp og verður deilt á FOS.IS og Febrúarflugum.

Tveir þemadagar verða í Febrúarflugum þar sem meðlimir verða hvattir til að hnýta ákveðna(r) flugu(r) en vitaskuld er ekkert skilyrði að taka þátt í slíku, en það gæti orðið skemmtileg tilbreyting fyrir hnýtara að bregða fyrir sig að hnýta eitthvað sem þeir gera ekki að öllu jöfnu.

Þegar hefur kvisast út að Sigurður Héðinn (Haugur) stendur fyrir hnýtingakeppni í tengslum við Febrúarflugur þar sem keppt verður í fjórum flokkum; Meistaraflokki, Almennum flokki, Púpuflokki og Unglingaflokki. Haugur veitir vegleg verðlaun í öllum flokkum en fyrirkomulag keppninnar verður kynnt nánar 1. febrúar.

Fyrir þá sem vilja stytta biðina eftir 1. febrúar, þá er hér brakandi nýr, beint úr þurrkaranum og sjóðandi heitur hlaðvarpsþáttur þeirra félaga Þrír á stöng, þar sem FOS.IS og Febrúarflugur koma heldur betur við sögu:

Í aðdraganda átaksins setti FOS.IS könnun á netið og kunnum við öllum þeim 176 sem svöruðu henni bestu þakkir fyrir þátttökuna. Margt áhugavert koma fram í tillögum svarenda sem FOS.IS mun reyna að nýta eins og kostur er, sumt hefur þegar komið hér fram, annað er mögulega í deiglunni.

Annars voru helstu niðurstöður könnunarinnar sem hér segir: Svarendur voru 176, þarf af ætluðu 91 að setja inn flugur, 64 voru ekki alveg vissir og 17 kusu að fylgjast bara með. Flestir sem svöruðu voru í SVFR (41) en fast á hæla þeirra voru Ármenn (39), önnur félög voru með 8 svör eða færri.

Áramótakveðja – stutt könnun

Eins og bjartsýnustu einstaklingum veraldar er einum lagið, sem veiðimenn eru að upplagi, gerir FOS.IS ráð fyrir að geta bryddað upp á nýjungum í tengslum við Febrúarflugur sem eru rétt handan við hornið. Allar áætlanir og hugmyndir að óhefðbundinni dagskrá hljóta samt að taka mið af gildandi reglum um samkomuhald í febrúar en okkur þætti samt gott að heyra undirtektir áhugafólks um fluguhnýtingar við því sem FOS.IS og samstarfsaðilar eru að velta fyrir sér og jafnvel fá uppástungur lesenda að nýbreytni sem kryddað geti þetta árlega átak okkar.

FOS.IS þakkar þér og öðrum lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar öllum farsældar á nýju og spennandi ári. Vonandi gengur þessi veiruskolli yfir sem fyrst þannig að við getum komið saman í raunheimum á nýju ári.

Nánar má fræðast um Febrúarflugur með því að smella á myndina hér að ofan.

Til að taka þátt í könnuninni getur þú smellt á hnappinn hér að neðan, það ætti aðeins að taka örfáar mínútur að svara henni.

Gleðilega hátíð

FOS.IS óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári sem er rétt handan við hornið. Jólagjöfin frá okkur til ykkar að þessu sinni er hið árlega dagatal með helstu tillidögum, sólargangi og tímasetningum árdegis- og síðdegisflóða sem finna má hér á síðunni. Að þessu sinni hefur verið aukið lítillega við upplýsingarnar  á dagatalinu og nú má finna alla stærstu strauma ársins 2022 á einum stað í því.

Hólmavatn á Tvídægru

Óhjákvæmilega færist ákveðin ró yfir færslur hér á FOS.IS á meðan veiðitímabilið stendur sem hæst og við söfnum nýjum efnivið í sarpinn. Veiðitengdar færslur ráða för og eftir því sem vinnst bætir maður vötnum í reynslubankann, gjarnan vötnum sem maður hefur haft á stefnuskránni að heimsækja.

Eitt þeirra vatna sem hafa verið á listanum mínum er Hólmavatn á Tvídægru, þ.e. ofan Hvítársíðu í Borgarfirði. Þetta vatn hefur kunningi minn oft fært í tal við mig og mælt með að ég kannaði. Einhverju kann að þykja það bratt farið að setja vatnið hér inn á síðuna eftir aðeins eina heimsókn, en þar kemur á móti að veiðistaðir við vatnið eru þokkalega vel þekktir og þeir, ásamt flugunum koma úr viskubrunni annarra en sjálfs mín, að mestu.

Kort af vatninu og tengdan fróðleik má nú finna hér á síðunni með því að smella á myndina hér að neðan og svo auðvitað í safninu hérna.

Ölfusárós – Eyrarbakka

Það hafa nokkrir spurst fyrir um Ölfusárós hér á FOS.IS og þá sérstaklega austanverðan ósinn. Þeim sem þekkja til undirritaðs kemur þetta e.t.v. ekkert á óvart í ljósi þess að ég er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka og það hefur víst komið fram að ég byrjaði mína stangveiði að töluverðu í ósi Ölfusár.

Það er þrákelkni minni um að kenna að ósinn hefur ekki fengið sinn sess hér á síðunni, þar til núna. Eftir töluvert hlé á stangveiði minni, hef ég ekki farið oft til veiða á þessar slóðir og þá sér í lagi lítið eftir að fluguveiðin varð mitt aðal áhugamál, en nú hef ég sett saman kort af ósinum og merkt inn á það þá staði sem ég heimsótti á sínum tíma.

Upplýsingarnar má nálgast með því að smella á kortið hér að neðan og vitaskuld í safninu hér á síðunni.

Að auki hef ég leyft mér að smella hér inn mynd af blaðsíðu 207 í þeirri góðu bók Sölva Björns Sigurðarsonar, Stangveiðar á Íslandi þar sem uppistaða textans er hluti míns framlags til bókarinnar og fjallar einmitt um Ölfusárósinn.

Hreðavatn í Borgarfirði

Það ber stundum við að veiðimenn setja sig í samband við FOS.IS og spyrjast fyrir um hitt eða þetta vatnið, jafnvel vötn sem undirritaður hefur ekki prófað sjálfur. Nú bar svo við að okkur barst fyrirspurn í fyrra um Hreðavatn sem við gátum litlu svarað en skömmu síðar fengum við svipað erindi frá öðrum aðila. Það erindi hefur nú undið upp á sig með greinagóðum lýsingum veiðistaða og ýmsum fróðleik og kunnum við Ragnari Viðarssyni bestu þakkir fyrir.

Undirritaður hefur undanfarna mánuði legið yfir og sníkt nýlegar loftmyndir sem nýtanlegar eru til kortagerðar og nú gefur hér að líta á síðunni kort og helstu upplýsingar sem unnar hafa verið upp úr aðsendu efni Ragnars, fyrirspurnum til kunningja og loftmynd sem tekin var síðla sumars 2020. Þess ber að geta að við samanburð þessarar loftmyndar við ýmsar kortasjár sem aðgengilegar eru á netinu virðist vatnshæð Hreðavatns vera nær lágmarki heldur en meðaltali og þess ber kortið merki.

Upplýsingar um Hreðavatn má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan og að sjálfsögðu í safninu okkar á síðunni.

Veiðitölur og önnur tákn

Nú hefur aðeins verið bætt í upplýsingar á vötnunum hér á síðunni. Nýjasta viðbótin er veiðitölur síðustu ára eins og þær hafa verið skráðar í veiðibækur og skilað inn til Hafró / Fiskistofu. Svipist því um eftir þessari táknmynd

og prófið að smella á hana. Þegar hafa verið settar inn veiðitölur fyrir 30 vötn og von er á fleirum á næstu vikum.

Annað slagið hefur FOS borist fyrirspurn um ákveðnar upplýsingar um veiðivötnin á síðunni og í mörgum tilfellum eru þær upplýsingar þegar til staðar og eiga sér yfirleitt ákveðna táknmynd sem unnt er að smella á til að nálgast þær. Til að hnykkja á þeim helstu, þá má lesa sér til um þær hér að neðan.

Veiðikort FOS.IS af vatninu

Önnur vötn á sama svæði

Veiðiferðir FOS.IS í viðkomandi vatn

Dýptarkort
Dýptarkort frá Orkustofnun af vatninu

Veðurathuganir frá Veðurstofunni

Verðurspá fyrir vatnið frá Windy

Veðurspá frá Bliku fyrir vatnið

Veðurspá frá YR.NO fyrir vatnið

Veðurstöð
Staðbundin veðurstöð við vatnið

Myndavél
Vefmyndavél við eða í grend við vatnið

Tengill á bækling eða lesefni um vatnið

Það er von okkar að þessar leiðbeiningar komi veiðimönnum að góðum notum þegar stefnt er á ákveðinn eða leitað að heppilegum veiðistað fyrir næstu ferð.

Áttu veiðitölur?

Á FOS.IS er að finna upplýsingar um nær 100 vötn á Íslandi og nú höfum við hug á að bæta við þær upplýsingar allverulega. Við höfum viðað að okkur upplýsingum um árlega heildarveiði úr nokkrum fjölda þeirra vatna sem finna má á síðunni, en töluvert vantar enn upp á. Ef svo heppilega vill til að þú lesandi góður, lumir á veiðitölum úr einhverju því vatni sem finna má hér á síðunni og ert tilbúinn að deila þeim upplýsingum með okkur, þætti okkur vænt um að þú sendir okkur þær á tölvupósti á fos(hjá)fos.is

Við erum m.a. að eltast við veiðitölur úr eftirtöldum vötnum; Dratthalavatni (Stóraverslóni) – Elliðavatni – Eyrarvatni í Svínadal, Fellsendavatni, Geitabergsvatni, Gíslholtsvatni, Glammastaðavatni, vötnunum á Skagaheiði, Hafravatni, Haukadalsvatni, Hópi, Hlíðarvatni í Hnappadal, Hlíðarvatni í Selvogi, Hraunsfjarðarvatni, Hraunsfirði, Kleifarvatni, Langavatni á Mýrum, Meðalfellsvatni, Sauðafellsvatni, Sporðöldulóni, Vatnsdalsvatni, Vífilsstaðavatni og Þórisvatni. 

Í gær var 1. apríl

Í gær var 1. apríl og ég gat ekki stillt mig um að bæta smá bulli við greinina um Sleppingar og veiði sem birtist hér. Niðurlag greinarinnar var í tilefni dagsins og því ættu veiðimenn að fara varlega í að stóla á aukna veiði þó þeir séu í nýjum vöðlum.

fos_veidiv_afli_vodlur

Annað í greininni á sér þó einhvern rökstuðning í raunverulegum tölum.

Smá viðbót

Nú eru allar myndirnar sem komu fram í hópinum á Facebook og á Instagram komnar inn í myndasafnið hér á síðunni. Það reynið aðeins á þolinmæðina ef þið viljið skoða safnið því það tekur smá tíma fyrir rúmlega 1430 myndir að raðast upp. Vinsamlegast athugið að safnið opnast aldrei í sömu röð, þannig að það getur orðið smá leit að einni ákveðinni flugu eða verkum einhvers eins af þeim 192 hnýturum sem lögðu sitt að mörkum að gera síðasta mánuð einn skemmtilegasta mánuður ársins eins og einn þeirra komast að orði í kveðju sem hann sendi FOS.IS

FOS.IS er þegar farið að dreyma um 22022 og hvað við getum gert skemmtilegt á næsta ári, vonandi saman í raunveruleikanum, ekki aðeins á vefnum.

Lokafréttir Febrúarflugna 2021

Nú er Febrúarflugum lokið að þessu sinni. Það má eiginlega segja að þátttakendur hafi farið á kostum síðustu daga mánaðarins og það beinlínis streymdu inn flugur og nýir þátttakendur á hverjum degi.

Að lokum fóru leikar svo að alls bárust 1.430 flugur / myndir inn í mánuðinum, meðlimum hópsins á Facebook fjölgaði snarlega upp í 952 og á endanum voru það 192 hnýtarar sem lögðu til flugur í mánuðinum.

Íslendingum er tamt að hampa hópíþróttum á góðum degi, fótbolta-, handbolta- og körfubolaliðum. Ef við heimfærum þann fjölda sem lagði sitt að mörkum í febrúar, þá má smala saman í nokkur slík lið og hefði það eflaust þótt fréttaefni.

FOS.IS hefur lengi staðið í þeirri trú að fjöldi hnýtara væri töluvert meiri en almennt væri talið og það væri mjög orðum aukið að fluguhnýtingar væru deyjandi á Íslandi. Eigum við eitthvað að ræða þann fjölda sem tók þátt í Febrúarflugum 2021 eða þann fjölda af flugum sem komu fram í mánuðinum?

Ekki má gleyma styrktaraðilum Febrúarflugna, þeir fóru á kostum og gerðu okkur kleyft að draga út nöfn 27 heppinna hnýtara sem hlutu viðurkenningar fyrir sitt framlag í ár. Nöfn og viðurkenningar hafa verið birtar í hópinum á Facebook og samband verið haft við styrktaraðilana. Enn og aftur, kærar þakkir fyrir stuðninginn þetta árið.

FOS.IS er fyrst og fremst þakklæti í huga, en líka örlítill aðgerðarkvíði. Sökum ýmissa anna hefur myndasafnið með flugum ársins ekki verið uppfært hér á síðunni í 3-4 daga og það er töluverður haugur af myndum sem bíður vinnslu og innsetningar. Vonandi tekst okkur að ljúka þeirri vinnu á morgun og þá uppfærum við myndasafnið þannig að það verður hægt að skoða allar flugurnar á einum stað.

Það er von okkar að meðlimir hópsins og allur sá fjöldi sem fylgdist með átakinu hér á FOS.IS hafi haft jafn gaman að þessu eins og við. Þetta var frábær mánuður, takk fyrir þátttökuna.

Fréttir af Febrúarflugum

FOS.IS má bara til með að hrósa meðlimum Febrúarflugna þetta árið, öllum 915 meðlimum hópsins og þeim 161 hnýtara sem hafa lagt til meistarastykki í mánuðinum.

Við vorum rétt í þessu að hlaða inn nýjum myndum sem hafa komið síðustu daga og nú eru allar 1.041 flugumyndirnar komnar inn á myndasafnið hér á síðunni. Það langt því frá að gamanið sé búið, það eru fjórir heilir dagar eftir af febrúar og enn hlaðast inn flugur og nýir þátttakendur bætast í hópinn á hverjum degi.

Eitt af því sem er hve ánægjulegast er að meðlimir hópsins hafa sýnt frábært viðbrögð við flugum hvers annars. Það eru örugglega ekki margir hópar á Facebook af þessari stærðargráðu sem státa af 32.304 like‘s á innan við mánuði og ummælin sem skráð hafa verið eru nú að nálgast 2.000

Svo hrósum við auðvitað styrktaraðilum okkar sérstaklega sem gera okkur kleift að veita heppnum hnýturum viðurkenningar í lok mánaðarins:

Cats Wisker

Veiðihár kattarins hefur verið í hópi vinsælustu vatnaveiðiflugna Bretlandseyja frá því hún kom fram árið 1985. Upphaflega notaði höfundur hennar, David Train, veiðihár af heimiliskettinum til að stífa marabou vænginn þannig að hann vefðist ekki um legginn. Grínverjar hafa síðan komið með þá sögu að nær allir kettir á Bretlandi hafi verið orðnir sköllóttir í framan og því hafi David hafi neyðst til að breyta uppskriftinni lítillega, slíkar voru vinsældir flugunnar.

Upphafalega voru hvorki vaskakeðja né önnur augu á þessari flugu, en fljótlega bættust þau við og nú er svo komið að flugan er til með öllum mögulegum útfærslum höfuðskrauts.

Þessi fluga hefur gefist mér vel í vatnaveiði hér heima snemmsumars og síðla sumars þegar skyggja tekur. Á drungalegum sumardögum hefur hún gert skemmtilega hluti og ekki er hún síðri þegar urriðinn liggur djúpt og chartreuse liturinn nýtir sín best.

Höfundur: David Train
Öngull: straumfluguöngull 6 – 12
Þráður: hvítur
Skott: hvítt marabou (UV marabou ef vill)
Búkur: ljómandi lime grænt Fritz eða sambærilegt chartreuse litað efni
Vængur: hvítt marabou (UV marabou ef vill)
Haus: kúla, vaskakeðja, dumbbell eða einfaldlega úr hnýtingarþræði

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi fóru flugurnar / myndirnar yfir 700 sem eru komnar inn á Febrúarflugur, bæði á Facebook og hér á síðunni. Meðlimir hópsins eru orðnir 865 og fjölgar dag, frá degi. Að gamni kíktum við á heimsóknartölurnar inn á myndasafnið hér á síðunni og svo skemmtilega vildi til að þær voru einmitt 2021 það sem af er og það eru u.þ.b. 8000 heimsóknir komnar inn á flugubankann okkar hérna á síðunni í febrúar.

FOS.IS gerði smá tilraun á mánudagskvöldið og opnaði Hnýtingaherbergi á Facebook frá kl.19 og fram til kl.22. Um og yfir 20 meðlimir Febrúarflugna litu við, hnýttu flugur eða voru bara að forvitnast hvað væri í gangi. Væntanlega gerum við þetta aftur innan skamms, enda létt og lipurt að stilla vefmyndavélinni upp og leyfa henni að rúlla á meðan við bætum í boxið fyrir næsta sumar.

Fréttir af Febrúarflugum

Hver hefði trúað því að það séu slétt 70 ár á milli hnýtaranna sem standa á bak við þessar tvær flugur sem komu inn á Febrúarflugur í dag, en það er nú samt svo.

Þessa flugu hnýtti Hilmar Þór 11 ára og setti inn á Febrúarflugur í dag. Hilmar hefur hrifið meðlimi Febrúarflugna þetta árið með flottum flugum. Sannanlega efnilegur hnýtari hér á ferðinni.

Góðvinur FOS.IS og Febrúarflugna, Stefán Bjarni Hjaltested fangar 81 árs afmælisdegi sínum í dag, en það kom ekki í veg fyrir að hann setti þessa flugu inn í dag.

Annars er það að frétta af Febrúarflugum að fimmhundraðasta innleggið kemur að öllum líkindum inn í kvöld (fimmtudagskvöld). Meðlimum hópsins fjölgar sífellt og telja nú 821 og nýir meðlimir eru ótrúlega duglegir að setja inn myndir, það er gróska í fluguhnýtingum.

FOS.IS stendur fyrir tilraun n.k. mánudag þegar við ætlum að prófa að opna Hnýtingaherbergi með Facebook Room í hópinum. Tilgangurinn er að skapa vettvang þar sem hnýtarar geta án mikillar fyrirhafnar hitt aðra hnýtara á netinu, mögulega sett í nokkrar flugur, kastað fram fyrirspurnum eða hverju því sem þeim dettur í hug. Ef vel tekst til, þá gæti þetta orðið að reglulegum viðburði í hópi Febrúarflugna.

 

10.02.21 1.000.000

Undarleg fyrirsögn og ekki sú fyrsta hér á síðunni. Í dag er 10. febrúar 2021 og talan á bak við dagsetninguna er fjöldi heimsókna á vefinn frá því hann fór í loftið 21.05.2010

Aldrei hefði mig grunað að þetta pár mitt næði þessu flugi og nyti þess að vera með 873 áskrifendur á síðunni sjálfri, 673 fylgjendur á Facebook og 693 á Instagram.

Takk fyrir samfylgdina og þessar milljón heimsóknir á liðnum árum.
Kristján Friðriksson

Fréttir af Febrúarflugum

Nú er rétt tæp vika liðin af Febrúarflugum og flugurnar eru komnar vel yfir 300 og meðlimum hópsins hefur fjölgað úr 700 í 796. Af þessum 796 meðlimum hópsins á Facebook hafa rúmlega 90 sett inn myndir af flugum, þeir duglegustu á hverjum degi, aðrir eitthvað færri. Það er e.t.v. ekki fjöldinn sem skiptir máli, en vissulega alltaf gaman að sjá sem flestar flugur af öllum mögulegum gerðum.

Það er áberandi hve yngri meðlimum hefur hlutfallslega fjölgað mest það sem af er mánaðarins. Þetta gleður FOS.IS alveg sérstaklega því þetta er skýrt merki þess að það er bjart, ef ekki skjannabjart, framundan í fluguhnýtingum á Íslandi. Eina sem mætti mögulega setja út á í þessum tölum er rýr hlutur kvenna. Við þykjumst vita að mun fleiri konur hnýti flugur heldur en þessi 5% og það væri gaman að sjá fleiri í hópinum.

Viðbrögð þeirra sem fylgjast með framlagi hnýtara hafa heldur ekki látið á sér standa. Vinsælustu færslurnar hafa fengið allt að 120 þumla og yfir 20 ummæli, öll vinsamleg og uppbyggjandi.

Eins og endranær er flugunum bætt inn í myndasafn á FOS.IS nokkuð reglulega þannig að fleiri en Facebook notendur geti notið þeirra meistarastykkja sem koma fram í mánuðinum.

Fréttir af Febrúarflugum

Það var með ólíkindum hvernig fyrstu dagurinn í Febrúarflugum æddi áfram. Rétt fyrir miðnættið voru 52 flugur komnar inn í hópinn og þátttakendum fjölgaði snarlega úr 700 í 732. Frábærar undirtektir og greinilega mikil stemming í hnýturum.

Við munum uppfæra FOS.IS reglulega með myndum af Facebook og nú er fyrsti skammturinn kominn inn á myndasíðu Febrúarflugna 2021 hér á síðunni. Þannig gefst þeim sem ekki eru á Facebook einnig kostur á að fylgjast með framvindunni.

Svo má ekki gleyma Instagram þar sem hnýtarar merkja flugur sínar með #febrúarflugur og/eða #februarflugur