Urriðadansinn um næstu helgi

Hin árlega kynning og fræðsluerindi Jóhannesar Sturlaugssonar um Þingvallaurriðann verður um næstu helgi, nánar tiltekið laugardaginn 13. október kl.14:00. Þetta er 18. árið í röð sem Jóhannes leiðir gesti Þjóðgarðsins um leyndardóma urriðans í Öxará og sagnir herma að Jóhannes sé með einhver tromp uppi í erminni, spennandi upplýsingar um göngur urriðanna og atferli þeirra í vatninu.

Einn af höfðingjum Öxarár

Gangan hefst að venju við bílastæði P5, þar sem Valhöll stóð áður og gengið verður upp með ánni að Prestakrók undir Fangbrekku, rétt neðan Drekkingarhyls. Gert er ráð fyrir að dagskráin taki um eina og hálfa klukkustund og spáð er þokkalegasta veðri, hita yfir frostmarki með sólarglennum og hægum vindi þannig að það ætti að vera tilvalið að skunda á Þingvöll og njóta dagsins, urriðanna og haustlitanna sem skarta sínu fegursta þar um þessar mundir.

Vatn vikunnar – Arnarpollur

Í síðustu viku hófst hér fastur liður fram til vors, Vatn vikunnar. Þá var það Hópið í Húnaþingi, en núna færum við okkur suður fyrir heiðar og kynnum eitt af mínum uppáhalds.

Smellið á myndina til að opna upplýsingar um Arnarpoll

Hér er það Arnarpollur í Veiðivötnum sem kemur fram á sjónarsviðið. Hingað til hef ég látið það nægja að vísa til þeirra korta sem hægt er að finna á heimasíðu Veiðivatna, en nú munu mín eigin kort koma hér fram með þeim upplýsingum og tenglum sem ég hef viðað að mér. Kortin eru teiknuð upp úr loftmyndum frá árunum 2015 og 2016. Örnefnum hef ég safnað úr ýmsum áttum og reynt að merkja þau samviskusamlega inn á kortin. Þar sem vafi hefur leikið á hef ég kosið að styðjast við bækur Gunnars Guðmundssonar frá Heiðarbrún, Veiðivötn á Landmannaafrétti.

Vatn vikunnar – Hóp

Hér hefur göngu sína vikulegur pistill á FOS.IS sem ég hef kosið að kalla Vatn vikunnar. Fram til vors mun fjöldi vatna bætast hér við á síðuna með helstu upplýsingum, kortum og þeim flugum sem gefið hafa. Flest þessara vatna hef ég prófað sjálfur og þekktir veiðistaðir merktir inn skv. eigin reynslu og annarra sem miðlað hafa til mín.

Fyrsta vatnið í þessari röð er Hóp í Húnaþingi. Vatnið liggur á mörkum Vestur- og Austur Húnavatnssýslna og er fimmta stærsta náttúrulega stöðuvatn á Íslandi.

Smellið á myndina fyrir upplýsingar um Hópið

Í næstu viku mun síðan birtast eitt vatn enn og þannig koll af kolli, vikulega fram til vors.