1. desember

Það bar aldeilis vel í veiði í dag, fullur silungapoki með 24 vandlega númeruðum pökkum í. Pakki #1 var frá sveini sem kallar sig Rugludallur og í honum voru þessar líka fínu taumaklippur sem mér sýnist vera úr byssustáli, lífstíðareign.

Vetur genginn í garð

Nú er vetur genginn í garð og FOS.IS vaknar af örstuttum dvala um þetta leit líkt og undanfarin ár. Þó rólegt hafi verið á vefnum síðustu vikur, þá hefur verið í nógu að snúast að raða niður efni fyrir veturinn og nokkuð fram á næsta sumar.

Líkt og undanfarin ár verða reglulegar færslur á vefnum í vetur þetta 2 – 3 á viku og reynt að tappa af kollinum nokkrum hugleiðingum sem fengu að gerjast á bakkanum í sumar sem leið. Það vita það eflaust einhverjir að ég reyni að klára allar greinar að hausti sem eiga að birtast yfir veturinn, því yfir veturinn hef ég í ýmsu öðru að snúast heldur en fanga hugsanir niður á blað. Svo verð ég líka að viðurkenna að ef of langur tími líður frá því ég set einhverja hugmynd niður í orð og móta hana í grein, þá veit ég hreint ekki hvert ég var að fara í punktum mínum.

Hliðarskref FOS.IS sem hefur dafnað og stækkað ár, frá ári undanfarin ár verður á sínum stað. Febrúarflugur verða á sínum stað, vonandi með enn skemmtilegra sniði heldur 2020. Það var ekki annað að sjá heldur en formið félli lesendum og þátttakendum í geð, hver veit nema einhverjar nýjungar líti dagsins ljós í febrúar en það er jú allt undir þátttakendum komið. Eins og ástandið er í dag, þá er það ótvíræður kostur að viðburðurinn eigi sér sitt aðalaðsetur á vefnum, ekki er COVID-kvikindið að skemma það að hnýtarar setjist niður heima hjá sér, hnýti nokkrar flugur og smelli inn á hópinn á Facebook.

Undanfarin ár hef ég boðað hefðbundið efnisval á vefnum og það geri ég enn og aftur. Þegar ég lít yfir þær greinar sem ég hef nú tímasett til birtingar, þá virðist vera einhver beinskeyttari tónn í einhverjum þeirra. Það leyfist vonandi líka, ég hef mínar skoðanir á ýmsu sem hefur fengið að gerjast í samfélagi stangveiðinnar á undanförnum árum sem mér sannast sagna hugnast ekki og leyfi mér því að segja það sem mér í brjósti býr. Það verður í það minnst af nógu að taka á vefnum komandi mánuði.

Skoðanakönnun um Veiðivötn

Veiðitölur stangaveiðitímabilsins úr Veiðivötnum gefa til kynna nokkurn samdrátt síðasta sumar. Nú leikur FOS.IS forvitni á að vita hvernig upplifun einstaka veiðimanna af Vötnunum var því upplifun veiðimanna er ekki alltaf sú sama og tölurnar gefa til kynna. Okkur þætti því vænt um að þið sem fóruð í Vötnin í sumar, gæfuð ykkur tíma til að svara smá skoðanakönnun sem við höfum sett upp með því að smella á myndina hér að neðan:

Eins og spurningarnar í könnuninni bera með sér, þá er þetta ekki hávísindaleg könnun en svörin verða væntanlega notuð í smá hugvekju á vefnum og birtist síðar í vetur.

Með fyrirfram þökk fyrir þátttökuna,

Kristján Friðriksson

Fluguhnýtingarmyndbönd

Af og til gerist það að úr þeim aragrúa fluguhnýtara sem finnast hér á landi, þá gægist einn hógvær upp úr fjöldanum og fær umsvifalaust athygli fyrir fágað handbragð og flottar flugur. Þeir sem fylgst hafa með Febrúarflugum í gegnum árin, hafa eflaust tekið eftir flugum Eiðs Kristjánssonar. Hér að neðan eru nokkrar sem hann lagði fram í febrúar síðastliðnum.

Það verður nú ekki annað sagt en þessar flugur séu aðlaðandi, hógværar en að sama skapi ögrandi. Þeim sem til Eiðs þekkja kom það því ekkert á óvart að flugan hans (efst til vinstri) var kosinn besta silungaflugan í nýlegri samkeppni Fishpartners.

FOS þóttist vita að Eiður hefði eitthvað fiktað við að taka hnýtingarnar sýnar upp á myndband, en það var ekki fyrr en nú á síðustu vikum að hnýtingarmyndbönd frá honum tóku að birtast á YouTube. Þegar svona nokkuð gerist, þá er vert að vekja athygli á því og koma á framfæri, hreint út sagt frábær myndbönd sem allir fluguhnýtarar og áhugamenn um flugur ættu að berja augum.

Smellið á myndina til að skoða myndbönd Eiðs Kristjánssonar

 

 

Afþreying á netinu

Óneitanlega er ástandið í þjóðfélaginu nokkuð sérstakt þessa dagana og margir virðast glíma við mikið af óráðstöfuðum tíma og þá er nú eins gott að geta drepið eitthvað af honum með glápi. Á næstu vikum setur Orvis á netið seríu 2 af Orvis Guide to Fly Fishing þar sem íslandsvinurinn, Tom Rosenbauer flækist um víðan völl eins og í fyrri seríu, veiðir og spjallar við staðkunnuga um mismunandi veiðiaðferðir o.fl. Forsmekk að seríunni má skoða hér að neðan.

Alls verða þættirnir 13, sá fyrsti kemur á YouTube á morgun, laugardaginn 4. apríl en fyrri seríuna má þegar finna á YouTube með því að smella hérna. Það er til verra efni til að drepa tímann heldur en þessi þættir, það er alveg öruggt.

Vatn vikunnar – Fellsendavatn

Vatn vikunnar, sem er jafnframt það síðasta inn á síðuna að sinni, er Fellsendavatn austan Vatnsfellsvirkjunar. Vatnið kannast Veiðivatnafarar við, það er fyrsta vatnið sem komið er að eftir að malbikinu sleppir þegar komið er framhjá Vatnsfellsstöð.

Smellið á myndina fyrir upplýsingar um Fellsendavatn

Á þessu ári hafa þá upplýsingar og kort af fjórum nýjum vötnum bæst við á síðuna og eru þá vötnin farin að nálgast 90 sem finna má á síðunni.

Vefrit á FOS.IS

Það er engin ástæða til að láta sér leiðast þótt samkomubann eða önnur óáran sé að herja á okkur. Á FOS.IS er ágætt safn af fríum vefritum um veiði og veiðitengd málefni. Við vorum rétt í þessu að uppfæra listann á síðunni og meðal nýrra tímarita eru:

 

Öll vefritin má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan:

Fish Quiz

Það er engin ástæða til að sitja heima með hendur í skauti og bíða eftir fyrsta veiðideginum. Ármenn ætla að láta reyna á eitthvað nýtt í kvöld og efna til spurningakeppni um veiði, veiðistaði og mistengd málefni. Sérstaklega er tekið fram að allir séu velkomnir á þennan tímamóta viðburð Ármann sem hefst kl. 20:00 í kvöld, föstudagskvöldið 6. mars og verður eins og nær allt annað starf Ármanna í Árósum, Dugguvogi 13.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Ármanna með því að smella hérna.

Vatn vikunnar – Dratthalavatn

Vatn vikunnar er Dratthalavatn á Holtamannaafrétti. Margir veiðimenn þekkja þetta vatn, en ekki endilega undir þessu heiti. Vatnið gengur einnig undir heitinu Stóraverslón og er eitt lóna Kvíslaveitna.

Smellið á mynd til að skoða upplýsingar um Dratthalavatn

Að viku liðinni kemur svo enn eitt nýtt vatn á síðuna.

Ný frétt um eldri grein

Þær eru mismikið lesnar greinarnar sem koma hér á síðuna eins og gengur. Ein er sú grein sem hefur staðið upp úr síðustu vikurnar og það er uppskriftin að Burton. Þess er vert að geta að síðunni barst afskaplega vinsamlegur póstur um daginn frá höfundi flugunnar með góðu ítarefni um þessa mögnuðu flugu. Við höfum því uppfært uppskriftina og aukið við greinina. Smellið hér til að skoða uppfærða uppskrift að Burton.

Mynd: © Hafsteinn Björgvinsson