Þriðja hnýtingarkvöldið

Þriðja, en þó í raun fjórða hnýtingarkvöld Febrúarflugna verður haldið n.k. mánudagskvöld 18. febrúar í Árósum, Dugguvogi 13 og hefst að venju kl.20:00.  Undanfarin mánudagskvöld og síðasta miðvikudagskvöld hafa áhugmenn og hnýtarar kíkt við, smellt í nokkrar eða fylgst með öðrum hnýta flugur sem síðar hafa slegist í hóp þeirra 210 flugna sem þegar hafa komið fram í mánuðinum á Fésbókinni. Allar flugurnar má einnig sjá á einum stað hér á síðunni.

Bara þannig að það sé áréttað, þessi hnýtingarkvöld eru öllum opin og þar er öruggt athvarf og aðstaða fyrir þá sem vilja prófa fluguhnýtingar og mögulega njóta smá leiðsagnar í fyrstu skrefunum. Það eru alltaf einhverjir vanir hnýtarar á staðnum sem eru reiðubúnir að miðla af reynslu sinni.

Auka hnýtingarkvöld

Nú eru tvenn hnýtingarkvöld Febrúarflugna að baki og það hefur verið ágæt mæting í Árósa, félagsheimili Ármanna, þessi kvöld. FOS.IS hafa borist ábendingar um að nokkrir áhugasamir eigi ekki heimangengt á mánudagskvöldum og því höfum við tekið þá ákvörðun að á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar verður skotið inn auka-hnýtingarkvöldi Febrúarflugna í Árósum, Dugguvogi 13.

Að venju opnar félagsheimilið kl. 20:00 og auðvitað eru allir velkomnir. Tvö síðustu kvöld hafa ný andlit kíkt inn og það er mál manna að þær flugur sem hrotið hafa af hnýtingarþvingum þeirra beri miklum metnaði vitni og það sé greinilegt að fluguhnýtingar eigi sér bjarta framtíð.

Við viljum einnig vekja athygli á að nú hefur myndasafnið með Febrúarflugum ársins verið uppfært með þeim 168 flugum sem þegar hafa verið settar inn á Fésbókarsíðu Febrúarflugna. Safnið má nálgast með því að smella hér.

Sýnishorn af flugum ársins – smellið á myndina til að skoða þær allar

Fréttir af Febrúarflugum

Á umliðnum árum hefur umhverfisvitund veiðimanna, rétt eins og annarra, aukist stórum. Þar kemur Mistur sterkt inn og bíður útivistarfólki og innipúkum upp á umhverfisvæna kosti í ferðavörum, hreinlætis- og heimilisvörum. Að vera útbúinn góðu nesti í veiðiferðina er nauðsyn og ekki skemmir fyrir að taka það með sér í umhverfisvænum og endingargóðum nestisboxum með rjúkandi kaffi á stálbrúsa sem þolir slark og hnjask í misjöfnu veðri.

Mistur styrki Ferbrúarflugur nú fjórða árið í röð og eflaust búa heppnir hnýtarar enn að þeim viðurkenningum sem þeir hafa hlotið í nafni Misturs.

Fréttir af Febrúarflugum

Þegar kemur að föstum póstum í styrktaraðilum Febrúarflugna, þá kemur JOAKIM‘S einna fyrst upp í hugann. Í gegnum árin hefur verslunin stutt dyggilega við átakið, meira að segja fyrsta árið sem hugmyndin varð að veruleika.

Hjá JOAKIM‘S fá finna allt frá smæstu krókum, kúluhausum og ormalöppum upp í stangveiðigræjur fyrir stórlaxa sem ekkert gefa eftir.

Hnýtingarkvöld Febrúarflugna

Annað hnýtingarkvöld Febrúarflugna og Ármanna verður haldið á morgun, mánudagskvöldið 11. febrúar kl. 20:00 í Árósum, Dugguvogi 13. Síðasta mánudag mætti eitthvað á þriðja tug gesta og nú er bara stóra spurningin hvort það verða á fjórða tug eða þann fimmta sem mæta í kvöld.

Ármenn

Ármenn bjóða hverjum þeim sem vilja prófa að hnýta flugur að setjast niður við einhvern af þeim þremur hnýtingarbásum sem settir hafa verið upp og eru boðnir og búnir að leiðbeina óreyndum í fyrstu skrefunum. Hvernig væri nú að láta langþráðan draum rætast, stíga fram og mæta á hnýtingarkvöld Febrúarflugna og láta reyna á að smella í eins og eina flugu, það er alltaf miklu skemmtilegra að veiða á flugu sem veiðimaðurinn hefur hnýtt sjálfur.