Vatn vikunnar – Tjaldvatn

Síðasta veiðivatn vikunnar er heimavatn þeirra sem gista Veiðivötn, Tjaldvatn. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Tjaldvatn í Veiðivötnum

Líkur hér með upptalningu veiðivatna á Landmannaafrétti og þá eru flest öll þeirra komin hér á vefinn, ekki aðeins þau sem finnast á Veiðivatnasvæðinu heldur og þau sem liggja sunnan Tungnaár, s.k. Framvötn.

Kortið af Tjaldvatni er kort nr. 80 sem ég hef teiknað eftir loftmyndum af veiðivötnum á Íslandi og sett hér á vefinn ásamt upplýsingum um álitlegar flugur sem gefið hafa. Næstu vikur munu leiða í ljós hvort fleiri vötn bætist í flóruna, af nógu er að taka, en það eru víst bara 24 klst. í hverjum sólarhring og þar af tekur vinna og önnur störf sinn skammt. Öll vötnin 80 má vitaskuld nálgast hér á síðunni auk yfirlita yfir nokkur vatnasvæði, s.s. Skagaheiði, Veiðivötn og Framvötn.

Allt í plati

Í dag er 1. apríl og þá vakna allri fiskar upp af værum vetrarblundi, þeir vita nefnilega að þessi dagur er merktur með rauðum hring á dagatali veiðimanna sem nú streyma fram á bakkana til að veiða. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað fiskarnir eru spenntir eftir aðgerðaleysi vetrarins, nú lifnar yfir þeim og þeir skjótast fram og gefa veiðimönnum færi á sér. Til hamingju með daginn, veiðimenn.

Mikið vildi ég að reynsla mín síðustu árin væri eitthvað í ætt við þetta, en því fer fjarri og með tíð og tíma hef ég orðið rólegri í tíðinni, fagna deginum innandyra og fylgist með fréttum að harðjöxlum sem láta sig hafa það og uppskera, vonandi. Mér skilst helst að það séu helst veiðimenn í birtingi og einstaka staðbundnum fiski sem hafi orðið varir við fisk, en nú um hádegisbil hef ég enn ekki heyrt af neinum aflabrögðum. Höldum í bjartsýnina og vonum að menn séu svo uppteknir við löndunum að þeir komist ekki í að senda fréttir.

Uppskera mín í vorveiði síðustu 10 ára

Í hugum margra er það talið þroskamerki að geta setið hjá og horft á aðra veiða, kannski ég sé að þroskast eða þá að ég noti þetta bara sem afsökun fyrir því að mæta til vinnu 1. apríl og vera ekki á stjái við eitthvert vatnið.

Læt hér eina mynd fylgja með sem tekin var 1. apríl við Meðalfellsvatn fyrir nokkrum árum síðan.

Að Fjallabaki 2019

Á fjölmennum fræðslufundi sem Veiðifélag Landmannaafréttar hélt í félagsheimili Ármanna í gær, kom m.a. fram að á sumri komandi mun veiðifélagið hefja sölu á veiðileyfum í Sauðafellsvatni norðan Heklu. Þeim sem ekki kannast við nafnið, skal bent á að það hefur lengi verið misritað sem Grænavatn á kortavefjum. Vatnið var fisklaust fram til 1993 þegar í það var sleppt umtalsverðu magni af urriða af Grenlækjarstofni. Hin síðari ár hefur sögum farið af því að fiskurinn í vatninu hafi dafnað mjög vel, náð að endurnýja sig að með ágætri viðkomu þótt einhverjar gloppur hafi orðið í nýliðun á milli ára. Nú hyggst veiðifélagið láta reyna á sölu veiðileyfa í vatninu, hyggst selja fimm stangir sem seldar verða saman í holli. Vatnið er 45 hektarar að stærð í um 322 metra hæð fyrir sjávarmáli, skammt norðan Heklu. Það má sem sanni segja að þarna er náttúrufegurð með því stórbrotnasta sem finnst á Íslandi; svartur sandur, fjallahringurinn tignarlegur og sjálf Drottning íslenskra eldfjalla, Hekla gæfir yfir vatninu. Þetta er spennandi viðbót við allan þann fjölda vatna sem má finna í næsta nágrenni að Fjallabaki.

Á fyrrgreindum fundi kom einnig fram að stjórn veiðifélagsins hefur ákveðið að veiði í Frostastaðavatni að Fjallabaki verður gjaldfrjáls sumarið 2019, bæði til stang- og netaveiði. Með þessu freistar veiðifélagið að auka veiði í vatninu allverulega á sumri komanda og grisja liðmargan bleikjustofn þess eins og unnt er. Eins og kunnugt er hafa fiskirannsóknir þar síðustu ára fært mönnum heim sannindi þess að ástand bleikjunnar í vatninu er hreint ekki gott og umfangsmikillar grisjunar er þörf. Eins og áður segir, þá verður gjaldfrjálst að veiða í Frostastaðavatni, en farið verður fram á góða umgengni við vatnið og ítarlegrar skráningar á afla, bæði á stöng og í net. Skrá skal fjölda fiska, tegund og þyngd. Þeim sem hyggjast veiða í net í vatninu er bent á að þessu til viðbótar skal skrá fjölda neta, möskvastærð og lagnartíma. Mælt er með netaveiði í 30 mm. möska eða minni. Veiðitími í Frostastaðavatni verður frá 18. júní og fram til 15. september.

Frostastaðavatn

Það skal tekið sérstaklega fram að þessi gjaldfrjálsa veiði á aðeins við um Frostastaðavatn, ekki önnur vötn að Fjallabaki. Veiðileyfi í þau vötn má nálgast hjá Hellismönnum við Landmannahelli og auðvitað með félagsaðild að Ármönnum, en þeir veiða sem kunnugt er gjaldfrjálst að Fjallabaki.

En það stendur ekki aðeins til að grisja í Frostastaðavatni næsta sumar. Veiðifélag Landmannaafréttar og Stangaveiðifélagið Ármenn hafa gert með sér samkomulag um grisjun Löðmundarvatns næstu þrjú sumur. Um er að ræða verkefni þar sem félagsmenn Ármanna í sjálfboðavinnu munu freista þess að ná ríflega 1.700 kg. upp úr vatninu á hverju sumri, flokka og skrá allan afla og nýta eins og kostur er fyrir menn og skepnur.

Löðmundarvatn

Samkvæmt rannsóknum Hafró er ástand fiskistofna í Löðmundarvatni eitthvað skárri en í Frostastaðavatni og vonir standa til að með þessu átaki Ármanna náist að endurreisa fyrra orðspor vatnsins, en staðsetning þess og aðkoma er sérlega góð og það því tilvalið til fjölskylduveiði. Vinna Ármanna mun vonandi bera þann ávöxt á næstu árum að veiði þar glæðist og unnt verði að segja í gómsæta og feita bleikju þar líkt og áður.

Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Veiðifélags Landmannaafréttar, á heimasíðu Ármanna og upplýsingar um gistingu að Fjallabaki má nálgast á heimasíðu Hellismanna. Fljótlega mun sölusíða Sauðafellsvatns opna þar sem hægt verður að kaupa leyfi og nálgast allar upplýsingar um vatnið. Hver veit nema það vatn bætist þá við hér á FOS.IS með korti og nánari upplýsingum.

Veiðivötn og Framvötn

Næstkomandi sunnudag, þann 24. mars býður Veiðifélag Landmannaafréttar til opins fræðslufundar um fiskirækarstarf í Veiðivötnum og vötnunum sunnan Tungnaár, Framvötnum.

Fundurinn verður haldin í félagsheimili Ármanna að Dugguvogi 13 og hefst kl.15:00  Allir áhugamenn um fiskirækt og veiði á hálendi Íslands eru hvattir til að mæta.

Hnýtingarnámskeið fyrir byrjendur

Stangaveiðifélagið Ármenn er þessa dagana að taka við skráningum á byrjendanámskeið í fluguhnýtingum sem haldið verður dagana 26. 28. og 29. mars. Síðastliðið vor stóðu Ármenn fyrir tveimur slíkum byrjendanámskeiðum sem opin voru almenningi og vegna fjölda áskorana, þá var ákveðið að endurtaka leikinn núna. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Hjörleifur Steinarsson sem hefur haldið slík námskeið víða á undanförnum árum.

Allar nánari upplýsingar og skáningarform má nálgast á heimasíðu Ármanna með því að smella hér.

Fræðslufundur um fiskirækt

Veiðifélag Landmannaafréttar boðar til fræðslufundar um fiskirækt í Veiðivötnum og vötnunum sunnan Tungnaár, sunnudaginn 24. mars kl.15:00 í Árósum, félagsheimili Ármanna, Dugguvogi 13 í Reykjavík.

Á fundinum munu þeir Magnús Jóhannsson og Benoný Jónsson frá Hafró á Selfossi segja frá fiskirannsóknum undanfarin ár í Veiðivötnum og Framvötnum, þ.e. vötnunum sunnan Tungnaár. Heyrst hefur að þá muni veiðifélagið kynna eitthvað mjög spennandi og skemmtilegt sem býðst veiðimönnum á sumri komandi í veiði.

Fundurinn er öllum opinn og áhugamenn um þessi vinsælu veiðisvæði eru hvattir til að mæta og fræðast nánar um fiskirækt og ástand fiskistofna á þessum svæðum.

FOS.IS vill að þessu tilefni vekja athygli á að nú fara síðustu vötnin í Veiðivatna-seríunni að koma fram hér á síðunni og þegar hefur öllum vötnunum sunnan Tunganár verið gerð góð skil hér. Nánar má skoða umfjöllum um þessi veiðisvæði með því að smella á myndirnar hér að neðan:

Veiðivötn á Landmannaafrétti
Framvötn sunnan Tungnaár

Vatn vikunnar – Skeifan

Veiðivatn vikunnar er að vanda úr Veiðivatnaklasanum. Að þessu sinni er það Skeifan, eitt Hraunvatnanna. Allar upplýsingar um vatnið má finna með því að smella á myndina hér að neðan.

Skeifan í Veiðivötnum

Til viðbótar öllum Veiðivötnunum sem hafa komið hér fram er hægt að finna hér upplýsingar um Veiðivötn í heild sinni, kort og tengla á ítarefni og auðvitað uppdrátt að svæði Veiðifélags Landmannaafréttar við Tjaldvatn með nöfnum veiðiskálanna.

Febrúar er liðinn

Febrúarflugum 2019 er lokið. Þetta árið jöfnuðu hnýtarar fjölda flugna frá því í fyrra; 523 flugur. Meðlimir í hópinum á Fésbókinni bættu um betur og fjölgaði úr 247 í 335 og gestum á viðburðum Febrúarflugna fjölgaði einnig.

FOS.IS þakkar öllum hnýturum, fylgjendum og styrktaraðilum fyrir ómetanlega góðar stundir þennan mánuð.

Myndasafn með öllum flugum ársins má skoða með því að smella hérna og hér að neðan má finna nöfn þeirra sem hlutu viðurkenningar frá styrktaraðilum okkar þetta árið fyrir sitt framlag.

Að 11 mánuðum liðnum vonumst við til að sitja hér spennt og skoða fyrstu flugurnar sem birtast í Febrúarflugum 2020.

 

Afmælisveisla Febrúarflugna

Febrúarflugur í sinni núverandi mynd eiga fimm ára afmæli þetta árið. Í tilefni ársins verður boðið til afmælisveislu á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar kl.20:00 í Árósum, félagsheimili Ármanna að Dugguvogi 13.

Aðstandendur Febrúarflugna hafa notið þess síðustu árin að geta veitt heppnum hnýturum viðurkenningar fyrir framlag sitt til átaksins og annað kvöld munum við draga nöfn heppinna aðila úr pottinum og færa þeim glaðninga frá styrktaraðilum átaksins. Enn og aftur hafa styrktaraðilar toppað sig og leggja til sérlega glæsilegar viðurkenningar.

Auk þess að gestir afmælisveislunar setjist niður og hnýti nokkrar flugur í góðra vina hópi, munu styrktaraðilar átaksins kynna sig og vörur sínar og hver veit nema hægt verði að gera góð kaup á völdum vörum.

Það væri afmælisbarninu sérstakt ánægjuefni ef sem flestir sæju sér fært að mæta og smella í eins og eina, eða tvær, eða fleiri flugur í tilefni dagsins. Að kvöldi 28. febrúar mun síðan koma í ljós hvort flugnamet síðari ári verði slegið enn einu sinni. Þátttakendametið hefur þegar verið slegið og það vantar ekki nema örfáar flugur í nýtt flugnamet.

Fréttir af Febrúarflugum

Það hefur verið rífandi gangur í Febrúarflugum síðustu viku. Fjöldi nýrra hnýtara hafa lagt sitt að mörkum og sífellt fleiri fylgjast með í hópinum á Facebook auk þeirra sem eru sérlega duglegir að fylgjast með myndasafninu hér á síðunni.

Þegar þetta er ritað, þá eru flugurnar komnar yfir 350 stk. og þeim fjölgar væntanlega hressilega um þessa helgi rétt eins og síðustu helgar.

Síðasta hnýtingarkvöld Febrúarflugna verður n.k. mánudagskvöld 25. febrúar í Árósum og hefst að venju kl.20:00 stundvíslega og auðvitað eru allir velkomnir. Að venju verður heitt á könnunni í boði Ármanna og kunnum við þeim sérstakar þakkir fyrir allan stuðninginn í febrúar, veitingar, veittan beina og afnot af félagsheimilinu.

Lokasamkoma Febrúarflugna fer síðan fram miðvikudaginn 27. febrúar og við viljum vekja sérstaka athygli á því að það kvöld drögum við út nokkur nöfn heppinna hnýtara og komum þannig á framfæri viðurkenningum styrktaraðila okkar fyrir þátttökuna þetta árið. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta og hver veit nema styrktaraðilar okkar sláist í hópinn, mæti og kynna sig og sínar vörur. Eitt er víst, við stefnum á skemmtilegt kvöld sem verður auglýst rækilega þegar nær dregur.

Vatn vikunnar – Skálavatn

Veiðivatn vikunnar heitir ekki Stóra Skálavatn, það heitir hér einfaldlega Skálavatn eins og það hefur heitið frá því vatnakarlar byrjuðu að leggja leið sína í Veiðivötn. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Skálavatn í Veiðivötnum

Eins og áður hefur verið getið, þá má finna öll vötnin sem hafa komið fram með því að smella hérna.

Þriðja hnýtingarkvöldið

Þriðja, en þó í raun fjórða hnýtingarkvöld Febrúarflugna verður haldið n.k. mánudagskvöld 18. febrúar í Árósum, Dugguvogi 13 og hefst að venju kl.20:00.  Undanfarin mánudagskvöld og síðasta miðvikudagskvöld hafa áhugmenn og hnýtarar kíkt við, smellt í nokkrar eða fylgst með öðrum hnýta flugur sem síðar hafa slegist í hóp þeirra 210 flugna sem þegar hafa komið fram í mánuðinum á Fésbókinni. Allar flugurnar má einnig sjá á einum stað hér á síðunni.

Bara þannig að það sé áréttað, þessi hnýtingarkvöld eru öllum opin og þar er öruggt athvarf og aðstaða fyrir þá sem vilja prófa fluguhnýtingar og mögulega njóta smá leiðsagnar í fyrstu skrefunum. Það eru alltaf einhverjir vanir hnýtarar á staðnum sem eru reiðubúnir að miðla af reynslu sinni.

Auka hnýtingarkvöld

Nú eru tvenn hnýtingarkvöld Febrúarflugna að baki og það hefur verið ágæt mæting í Árósa, félagsheimili Ármanna, þessi kvöld. FOS.IS hafa borist ábendingar um að nokkrir áhugasamir eigi ekki heimangengt á mánudagskvöldum og því höfum við tekið þá ákvörðun að á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar verður skotið inn auka-hnýtingarkvöldi Febrúarflugna í Árósum, Dugguvogi 13.

Að venju opnar félagsheimilið kl. 20:00 og auðvitað eru allir velkomnir. Tvö síðustu kvöld hafa ný andlit kíkt inn og það er mál manna að þær flugur sem hrotið hafa af hnýtingarþvingum þeirra beri miklum metnaði vitni og það sé greinilegt að fluguhnýtingar eigi sér bjarta framtíð.

Við viljum einnig vekja athygli á að nú hefur myndasafnið með Febrúarflugum ársins verið uppfært með þeim 168 flugum sem þegar hafa verið settar inn á Fésbókarsíðu Febrúarflugna. Safnið má nálgast með því að smella hér.

Sýnishorn af flugum ársins – smellið á myndina til að skoða þær allar

Fréttir af Febrúarflugum

Á umliðnum árum hefur umhverfisvitund veiðimanna, rétt eins og annarra, aukist stórum. Þar kemur Mistur sterkt inn og bíður útivistarfólki og innipúkum upp á umhverfisvæna kosti í ferðavörum, hreinlætis- og heimilisvörum. Að vera útbúinn góðu nesti í veiðiferðina er nauðsyn og ekki skemmir fyrir að taka það með sér í umhverfisvænum og endingargóðum nestisboxum með rjúkandi kaffi á stálbrúsa sem þolir slark og hnjask í misjöfnu veðri.

Mistur styrki Ferbrúarflugur nú fjórða árið í röð og eflaust búa heppnir hnýtarar enn að þeim viðurkenningum sem þeir hafa hlotið í nafni Misturs.

Fréttir af Febrúarflugum

Þegar kemur að föstum póstum í styrktaraðilum Febrúarflugna, þá kemur JOAKIM‘S einna fyrst upp í hugann. Í gegnum árin hefur verslunin stutt dyggilega við átakið, meira að segja fyrsta árið sem hugmyndin varð að veruleika.

Hjá JOAKIM‘S fá finna allt frá smæstu krókum, kúluhausum og ormalöppum upp í stangveiðigræjur fyrir stórlaxa sem ekkert gefa eftir.