Febrúarflugur 2019

Nú stendur undirbúningur Febrúarflugna 2019 sem hæst. Þótt þetta sé sára einfaldur viðburður í eðli sínu, þá er að ýmsu að hyggja í undirbúningi, meðal annars að útvega styrktaraðila og setja saman dagskrá fyrir hnýtingarkvöldin sem að venju verða fjögur í mánuðinum.

Sem endranær höfum við ekki verið í vandræðum með styrktaraðila og nú þegar hafa 7 fyrirtæki og félagasamtök staðfest þátttöku sína og munu styrkja átakið myndarlega. Þeir sem hafa staðfest stuðning sinn nú þegar eru; Ármenn, Árvík, JOAKIM’S, Mistur.is, Veiða.is, Veiðihornið og Veiðikortið. Á meðal þessara aðila eru tveir nýir styrktaraðilar og bjóðum við þá velkomna í hópinn. Hafir þú lesandi góður, áhuga á að styrkja þetta átak er þér bent á að senda okkur tölvupóst á fos(hjá)fos.is eða skilaboð hér á síðunni. Það er ekki seinna vænna að leggja sitt að mörkum því allir styrktaraðilar verða auglýstir rækilega hér á FOS.IS og í Facebook hópinum Febrúarflugur og það eru ekki nema fjórir dagar þar til átakið hefst formlega.

 

Eins og áður segir þá eru áformuð fern hnýtingarkvöld í febrúar þar sem gestum og gangandi er boðið í Árósa, félagsheimili Ármanna, Dugguvogi 13 frá kl. 20:00 – 22:00. Á liðnum árum hefur oft á tíðum skapast hin skemmtilegasta stemming á þessum hnýtingarkvöldum og reynt hefur verið að höfða jafnt til reyndra sem óreyndra hnýtara. Margir nýliðar í sportinu hafa gripið þetta tækifæri til að prófa hnýtingar og nýtt sér auðfengna aðstoð reyndari hnýtara við þau fyrstu skref.

Tveir aðrir viðburðir eru á döfinni í febrúar, en dagskrá þeirra er enn ekki að fullu frágengin. Allar nánari upplýsingar um viðburðinn þetta árið, sem og fyrri ára, má nálgast hér á síðunni og auðvitað á Fésbókarhópinum þar sem þungi átaksins fer fram eins og venjulega.

Vatn vikunnar – Nýrað

Vatn vikunnar er eitt af minni vötnum Veiðivatnasvæðisins, Nýrað. Þótt vatnið renni oft saman við nágranna sinn, Rauðagíg, þá fær það nú samt að fljóta hér með undir eigin nafni. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Nýrað í Veiðivötnum

Á sama tíma í næstu viku er kominn enn einn föstudagurinn og það þýðir aðeins eitt, þá kemur enn eitt vatnið fram á síðunni.

Veiðikortið 2019

Eins og glöggir veiðimenn hafa tekið eftir, þá brást Veiðikortið ekki væntingum og kom út fyrir síðustu jól. Ef að líkum lætur þá eru flestir búnir að blaða í gegnum veglegan bækling kortsins og kynna sér þær breytingar sem hafa orðið frá fyrra ári.

Veiðikortið 2019

Nýtt vatn á kortinu er Hreðavatn í Norðurárdal ásamt Hólmavatni og Laxárvatni í Dölum sem koma nú aftur inn á kortið eftir smá fjarveru. Meðalfellsvatn í Kjós sem kom aftur inn á kortið s.l. sumar eftir örstutta fjarveru er nú formlega komið aftur inn, eflaust mörgum til ánægju. Verði kortsins er að venju stillt í hóf og kostar það aðeins 7.900,- kr. sem gera 232,35 kr. á vatn sé farið í öll 34 vötnin sem bjóðast, þó ekki nema einu sinni hvert þeirra.

Þau vötn sem hverfa (enn og aftur) af kortinu eru vötnin í Svínadal en þar að auki hverfur Hítarvatn nú af kortinu eftir að hafa verið með frá upphafi.

Upplýsingar um mörg þeirra vatna sem eru á kortinu má einnig finna hér á síðunni:

 

Upplýsingar um öll vötnin á Veiðikortinu má finna á heimasíðu kortsins og í bæklingi þess sem aðgengilegur er á netinu og auðvitað einnig hér á síðunni með öðrum merkum vefritum.

Gleðilegt nýtt ár

FOS.IS óskar öllum lesendum gleðilegs nýs árs með ósk um margar skemmtilegar stundir á nýju ári. Á undanförnum árum hefur dagatalið hér á síðunni verið opnað að jafnaði um 3.000 sinnum á ári og því hefur verður haldið í þann sið að setja saman dagatal ársins og birta hér á síðunni þegar nýtt ár gengur í garð. Í dagatalinu má finna tímasetningu árdegis- og síðdegisflóða, ásamt sólaruppkomu og sólalagi hvers dags ársins. Jafnframt má finna stöðu tungls, þ.e. nýtt tungl, fyrsta kvartils, fulls tungls og síðara kvartil. Dagatalið má nálgast með því að smella hérna.

Veiði 2017 – samantekt

Þótt stutt sé frá árinu 2017, þá var ég eiginlega búinn að gleyma því hvernig sumarið æxlaðist og þurfti því aðeins að grafast fyrir um ástæður þessara talna.

Haustið var undirrituðum sérstaklega happasælt uppi á hálendi og því ná bláu súlurnar að skjóta þeim rauðu ref fyrir rass. Það vekur þó athygli að fyrstu tveir mánuður sumarsins voru eiginlega rauðliðar á meðan lítið gekk hjá þeim bláa.

 

Vatn vikunnar – Litlisjór

Vatn vikunnar er Litlisjór í Veiðivötnum. Flestir sem komið hafa í Veiðivötn þekkja eitthvað til vatnsins og margir mjög mikið enda eitt vinsælasta vatn svæðisins. Það er því væntanlega ekkert margt nýtt sem kemur fram í umfjöllun um vatnið hér, en hver veit nema þetta gagnist einhverjum sem hyggja á sína fyrstu ferð í Veiðivötn á næsta ári. Allar upplýsingar um vatnið má finna með því að smella á myndina hér að neðan.

Litlisjór í Veiðivötnum

Í næstu viku munum við halda uppteknum hætti og bæta enn einu vatnið við á síðuna.

Vatn vikunnar – Litla Breiðavatn

Veiðivatn vikunnar er Litla Breiðavatn. Til gamans má geta þess að nafn vatnsins er með yngri nöfnun í Veiðivötnum, lengi framan af var vatnið einfaldlega talið eitt af pyttlunum og bar ekkert sérstakt heiti þar til Litla Breiðavatn festist á því. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Litla Breiðavatn í Veiðivötnum

Við höldum síðan áfram að viku liðinni og bætum þá einu vatni við í safnið.

Töflur yfir króka

Hér á síðunni eru nokkrar handhægar töflur yfir hitt og þetta, töflur sem geta komið að góðum notum við hnýtingar og ýmislegt fleira. Ein af þessum töflum er samanburðartafla króka frá nokkrum framleiðendum sem nú hefur verið uppfærð allverulega auk þess sem sverleika vírs og lengd leggjar hefur verið bætt við. Töfluna má finna hérna.

Auk þessa hefur nú verið bætt við nýrri töflu yfir nokkra algengra króka frá Kamasan í mismunandi stærðum sem hafa verið mældir að heildarlengd og vídd öngulbils.

Eflaust hafa fleiri en ég lent í því að ákveðin stærð króks frá einum framleiðanda er hreint ekki eins og sama stærð frá öðrum framleiðanda og því lítið að marka þegar maður segist vera að nota flugu #8 ef ekki fylgja upplýsingar um tegund króksins.

Það eru til nokkrar leiðir til að finna standard stærð króks en raunar er ekki til neinn einn staðlaður mælikvarði, þar liggur hundurinn grafinn. Sumir, þar á meðal ég, hafa nota svokölluð hook chart til að finna rétta stærð króka. Þessi kort eru ágæt til síns brúks, en því miður eru þessi kort alls ekki öll eins. Sum þeirra taka mið af asíu staðli, önnur local japönskum staðli og enn önnur bandarískum staðli eða evrópskum.

Til að komast hjá þessu hafa sumir hnýtarar valið sér ákveðinn krókaframleiðanda, mælt heildarlengd króka og öngulbil helstu stærða mismunandi króka og sett í töflu. Þessa töflu hafa menn síðan notað til að staðsetja króka í stærð og geta því alltaf sagt með nokkurri vissu að fluga sé í ákveðinni stærð viðkomandi framleiðanda. Mína töflu má nálgast hérna.

Vatn vikunnar – Langavatn

Vatn vikunnar ætti ekki að koma unnendum Veiðivatna á óvart, flestir hafa nú þegar gert sér grein fyrir því að vötnin koma einfaldlega hér inn í stafrófsröð og nú er komið að Langavatni. Allar upplýsingar um vatnið má finna með því að smella á myndina hér að neðan.

Langavatn í Veiðivötnum

Í næstu viku höldum við áfram með stafrófið í Veiðivötnum og þá kemur ……