Það þarf ekki alltaf mikið til að kveikja í manni, sérstaklega á þessum árstíma. Er eitthvað vit í að fara í Hlíðarvatn í Hnappadal á þessum árstíma? spurði góður vinur minn í gær (laugardag). Já, ef vatnið er komið undan ís, þá er urriðinn oft svangur þarna á vorin, svaraði ég. Skömmu síðar fékk ég senda mynd og hún var alveg nóg til að ég tæki ákvörðun í gærkvöldi, fyrstur á fætur í fyrramálið, smyrja nesti og renna vestur.
Hlíðarvatnið tók á móti mér með hraðfara golu úr norðaustri og 11°C hita, frábært veður og ég tölti út að Rifi. Já, ég tók þá ákvörðun að labba síðasta spölinn frá Jónsbúð, vegurinn er mjög blautur og er eiginlega ekki alveg kominn undan vetri. Vatnið er aftur á móti 99,99% komið undan ís, þótt enn sé hægt að kæla drykki á vatnsbakkanum á ís eða snjó.
Til að gera langa sögu stutta, þá tók það ekki nema 20 mín. að setja í fyrsta fisk ársins úti á Rifi. Að þessu sinni lá hann í vari vestan við skoruna norðan við Rif, lá djúpt og var ekkert mikið að bera sig eftir flugunni. Tók tvisvar í hana, en það var ekki fyrr en í þriðju tilraun að hann tók hana og það verður alveg að viðurkennast að hann var ekkert að taka mikið á móti. Hann var þó þokkalega haldinn og mig grunar að þetta sé flottasti fiskur ársins (það sem af er) í Hlíðarvatni, í það minnsta þann sem tekinn er á flugu.
Fyrsti fiskur ársins kallar alltaf á veislu, að þessu sinni smurt með heitu kaffi og kraftmiklu gæða súkkulaði, ekki veitti af því nú var karli hlaupið kapp í kinn og hugði strax á meiriháttar göngutúr við vatnið.
Ég reyndar tölti fyrir Rifið, setti í tvö aðra fiska á leiðinni; einn við blá-endann og annan um það bil miðja vegu innan við Rifið. Þaðan lagði ég leið mína inn með Fellsbrekku, setti í tvö aðra á leið minni út að Svartaskúta. Þar staldraði ég aðeins við, teygði úr tánum, kláraði nestið mitt og naut þess í tætlur að vera kominn aftur í gallann. Það var ekkert betra en liggja úti og anda að sér því ómengaða lofti sem mér tókst að fanga þegar það þaut með látum fram hjá mér. Já, það var smá goluskítur, en hlýtt og eiginlega frábært veður.
Á leið minni til baka var töluvert um nart, ein og ein alvöru taka (sem sagt tvær) og nokkuð ljóst að strákarnir eru vaknaði, svangir eftir veturinn. Stelpurnar eru aftur á móti ekki komnar á kreik, í það minnsta ekki þar sem ég lagði leið mína. Viltu komast í fisk? Taka mesta hrollinn úr þér? Fáðu þér Veiðikortið, kíktu á Hlíðarvatni í Hnappadal á FOS og drífðu þig af stað, þeir eru þarna (allir sem ég veiddi) og ég veit fyrir víst að þeim þykir Gullbrá, svartur Nobbler og Litla rauð svolítið spennandi flugur.
Fyrir tveimur árum síðan svaraði ég mjög beittri gagnrýni með því að draga úr og hætti raunar alveg að birta frásagnir af veiðiferðum mínum. Hvort ég birti fleiri veiðisögur opinberlega á komandi sumri ræðst alveg af þeim viðbrögðum sem þessi stutta frásögn fær eða öllu heldur hvort hún uppsker eingöngu neikvæð ummæli. Fyrsti fiskur ársins verðskuldar, að mér finnst, alltaf smá umfjöllun og því birtist þessi frásögn, í það minnsta.
Einhvern tímann verður allt fyrst og sá tími var á sunnudaginn í mínu tilfelli. En segjum fyrst frá föstudeginum 13. ágúst sem einhverjir óttast óumræðanlega, rétt eins og svarta ketti, upprétta stiga og ýmislegt annað sem einhverjum grallara datt í hug að segja að væru illur fyrirboði. Eins gott að ég er ekki hjátrúarfullur, annars hefði ég trúlega ekki lagt í ferðalag með okkar færanlega veiðihús inn að Veiðivötnum þennan dag.
Tjaldvatn og útsýnið okkar úr vagninum
Vötnin tóku á móti okkur af sinni alkunnu gestrisni sem hefur smitað menn og konur í fjölda ár. Ef eitthvað var út á veðrið að setja, þá var það mögulega aðeins og gott. Þótt sumarið stefni í yfir 20.000 fiska sem er betra heldur en í fyrra, þá hafa veiðimenn*) verið að glíma við of gott veður; hita og stillur.
*) mögulega er aðeins um veiðimenn eins og mig að ræða, óheppna með aflatölur.
Eftir að hafa heilsað upp á kunningja og vini, meðal annars þrjá úr fasta hollinu okkar sem voru á staðnum, leitað frétta af veiði og veiðistöðum, héldum við inn að Stóra Hraunvatni þar sem Augað hafði dregið sig í pung og var nær alveg þurrt. Það var heldur ekki mikið eftir af Jöklavíkinni og út úr Höfðanum til norðausturs var kominn tangi sem væntanleg hefur hrellt veiðimenn með festum hér áður fyrr. Þrátt fyrir að við hefðum áreiðanlegar fréttir af veiði fram undan Höfðanum, þá urðum við ekki vör við fisk og héldum við því til baka og kíktum á Litlutá við Litlasjó.
Þó Litlisjór standi ekki beint undir nafni, þá fer hann nú samt minnkandi og við vorum sammála um að við höfum aldrei sé jafn lágt í honum áður. Þegar við þóttumst hafa baðað nóg af flugum, færðum við okkur yfir á suðurbakka Grænavatns, ókum yfir Kvíslar og komum okkur fyrir þar sem pláss var á milli veiðihópa sem höfðu búið um sig á bakkanum. Það var ákveðið traust í því að sjá veiðimenn vera búna að skjóta rótum á einum ákveðnum stað, það var nefnilega svolítið ráp á svæðinu, eitthvað eirðarleysi meðal veiðimanna.
Fyrsta alvöru taka ferðarinnar var síðla kvölds, glæsilegur fiskur sem sýndi fimleika sinn, ólmaðist og stökk þannig að flugan fór úr honum. Sjálfur get ég ekki eignað mér nokkur einasta heiður af þessu, það var veiðifélagi minn sem lagði fluguna út, dró inn og fékk tökuna. Sjálfur var ég einn í heiminum með mínar flugur sem ekki einn einasti kjaftur hafði áhuga á.
Sunnudagurinn vakti okkur svolítið seint en með þokusúld og það var bara alls ekkert of hlýtt. Kannski meira svona veður sem maður á von á uppi á hálendi á þessum árstíma. Við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í smá akstur, nýta tímann meðan hann hristi þetta af sér og renna inn að Skyggnisvatni.
Skyggnisvatn séð úr norðri – smellið fyrir stærri mynd
Það opnaði ekki inn í Skyggnisvatn fyrr en í fjórðu viku tímabilsins og þegar við ókum um skarðið á milli Skyggnis og Vatnaalda þá vorum við ekkert hissa á þessari síðbúnu opnun. Það styttist væntanlega í að vegurinn um skarðið hækki um nokkra metra, hlíðarnar hafa þrengt svo að skarðinu að við liggur að það sé ekkert pláss lengur fyrir veginn á botninum.
Við byrjuðum rétt innan við ósinn, færðum okkur inn að Eyrinni en urðum ekki vör við fisk. Við höfðum raunar heyrt af því að bleikjan væri sérlega treg þetta sumarið, en ekki áttum við samt von á því svona rólegu og færðum okkur því norður fyrir Ógöngunef og reyndum fyrir okkur í vatninu að norðan. Sjálfur fékk ég eina töku, nauma, en veiðifélagi minn tók eina sérlega væna bleikju á land. Bíð spenntur eftir því að mér verði boðin gómsæt bleikjumáltíð.
Ónefndavatn – smellið fyrir stærri mynd
Þegar okkur þótti fullreynt færðum við okkur aftur inn á hefðbundið Veiðivatnasvæðið, renndum inn að Ónefndavatni og reyndum fyrir okkur á móti öldu við syðsta hluta vatnsins. Staðsetningin var auðvitað valin vegna þess að veiðimenn veiða oft fiska sem áður hafa veiðst sbr. fyrstu ferð okkar í Vötnin þetta árið. Vitaskuld fór svo að við náðum ekki að veiða þá fiska sem liggja í kistunni heima og því færðum við okkur yfir í Ónýtavatn, sem líkt og mörg önnur vötn hefur dregist töluvert saman.
Ónýtavatn – smellið fyrir stærri mynd
Þegar þarna var komið sögu hafði hitastigið hækkað verulega, hann hafði rifið af sér og vind hafði lægt. Í Ónýtavatni tók ég einn titt í fyrsta kasti og uppskar nokkurt nart eftir það. Veiðifélagi minn fékk aftur á móti góða töku en nauma þannig að fiskurinn losaði sig fljótlega af.
Sólsetrið eins og það blasti við frá Álftatanga
Eftir síðdegishressingu og töluverðar vangaveltur um vænlega staði, þá ákváðum við veiðifélagarnir að skilja að borði, hún skutlaði mér inn fyrir Eiðið við Litlasjó og hélt síðan til baka í Grænavatn. Sjálfur lagði ég land undir fót og labbaði út á Álftatanga í blíðunni. Ég er ekkert að grínast, það var með eindæmum fallegt og hlýtt veður og fiskur að sýna sig nær alla þessa leið. Við og við staldraði ég við og tældi þá sem voru í kastfæri til fylgilags við fluguna mína. Þeir sem ég tók á ferð minni og úti á Álftatanga voru allir innan við pundið og fengu því líf. Ég er staðráðinn í að setja flugu fyrir þessa fiska eftir 2 – 3 ár, þá verður þeim ekki gefið líf.
Þegar líða fór á kvöldið, tölti ég til baka og elti fisk alla leið inn í víkina austan við Eiðið þar sem veiðifélagi minn beið mín með þær frábæru fréttir að 2ja punda fiskur tók, skemmti henni vel og endaði á landi hjá henni í Grænavatni.
Kvöldkyrrð, veiðimaður og dásamlegt umhverfi
Auðvitað freistaði þessi frásögn aðeins og við ákváðum að renna inn að Grænavatni eftir að hafa hitað okkur kaffi í kvöldkyrrðinni. Raunar komum við aðeins við í Eyvíkinni, tókum nokkur köst á fiska sem gerðu vart við sig, en fengum engar ákveðnar tökur. Aftur á móti hittum við þar fyrir góðan félaga okkar sem við raunar hittum yfirleitt í fyrstu ferð okkar hvert ár. Sá var með góðum hópi sem komið hafði í Vötnin á sama tíma og við, og verið álíka farsæll. Við vorum í ákveðnum sjokki, þegar þessi vinur okkar er ekki í fiski, þá er lítil von fyrir aðra, svo fiskinn er hann. Hvað um það, við héldum inn í norðurbotn Grænavatns og rétt náðum að lagfæra tauma og velja okkur flugur áður en rökkrið færðist á stig myrkurs. Veiðifélagi minn fékk nart, kannski tvö, en ég setti (einhversstaðar þarna úti í myrkrinu) í vænan fisk sem tók vel á, tók trúlega tvöfalt flikkflakk með skrúfu og losaði sig af.
Það gustaði aðeins á sunnudaginn, hitastigið náði rétt 10°C og var eiginlega miklu nær því sem maður átti von á. Fyrir valinu varð að nýta vindáttina og reyna fyrir okkur við miðjuna og suðurrenda Grænavatns. Þegar við komum við á aðgerðarborðinu á hittum við fyrir félaga okkar úr veiðifélaginu, glaðbeitta og káta eftir laugardaginn. Þeir höfðu náð að særa upp væna fiska í Fossvötnunum á laugardag og stefndu glaðbeittir á Litlasjó.
Ég játa það alveg að taka laugardagskvöldsins var enn í fingrum mér og réði miklu um staðarvalið. Aldan var ágæt, stóð vel á suðurenda vatnsins og það gruggaði þegar hún kom upp á grynningarnar. Þrátt fyrir þetta fengum við ekki eina einustu töku og þegar við þurfum að hrökkva eða stökkva, ákváðum við að færa okkur og reyndum aðeins fyrir okkur í Stóra Fossvatni inn undir Bátseyri. Eftir að hafa reynt, árangurslaust, að koma flugunni þessa tvo metra sem uppá vantaði þannig að hún næði til eins höfðingja sem þar úðaði í sig, ákváðum við að klára ferðina í Ónýtavatni þar sem veiðifélaginn neyddist til að taka mjög svangan urriða í minni kantinum sem kokgleypti fluguna.
Við Stóra Fossvatn
Við smelltum öllum aflanum á veiðiskýrsluna, komum við í Varðbergi og skeggræddum veiði, grisjun og ýmislegt annað við Rúnar og tvo aðra félaga okkar úr veiðifélaginu sem þar bar að garði. Annar þeirra var í sama flokki og ég og ég fann fyrir miklum létti að ég væri ekki sá eini á staðnum. Hann hefur þó vonandi rétt úr þessu þegar leið á sunnudaginn. Við tókum okkur saman í rólegheitunum, snæddum ágætan miðdegisverð og biðum félaga okkar sem höfðu leyft okkur að gerast hjáleiga við Nýberg þessa daga. Það var ekki mikil breyting á veiðisögum þeirra, sumir veiddu ágætlega, aðrir síður, en það breytir engu að þetta var flottur hópur sem seint verður sakaður um leti. Takk fyrir frábæra samveru strákar, við eigum örugglega eftir að hittast síðar í Vötnunum, trúlega ekki þetta árið en örugglega síðar.
Þannig fór það svo, sunnudagurinn 15. ágúst 2021 varð dagurinn sem ég fór í fyrsta skiptið fisklaus heim úr Veiðivötnum. Dapurleg ferð? Nei, hreint ekki, það er alltaf frábært að koma og vera í Veiðivötnum og ég lærði helling og naut mikils.
Að þessu sinni munaði aðeins einum degi að það væri heilt ár á milli ferða okkar í Kvíslavatn. Í fyrra fórum við 8. ágúst, þetta árið fórum við 7. ágúst. Að þessu sinni vorum við ekki ein á ferð, þriðja hjól var undir vagninum því við plötuðum með okkur góðan félaga sem aldrei hafði heimsótt vatnið.
Við vorum mætt inn við Svartárós rétt um kl. 10 og ósinn speglaði blíðuna yfir og allt um kring. Stundum segja menn að þegar vatnið er spegill, þá veiðist lítið sem ekkert. Hvort sem það var ástæðan eða eitthvað annað, eins og t.d. að það var enginn fiskur á staðnum, þá fengum við ekki eitt einasta nart þannig að við færðum okkur yfir í Ölduver í þeirri von að skötuormurinn væri eitthvað á stjái og væri að laða að sér urriðann.
Smellið á mynd fyrir fulla upplausn
Þegar við mættum á staðinn voru þar fyrir einir 6 veiðimenn í blönduðum hóp sem beitti öllum brögðum til þess að ná fiski. Eitthvað lét hann bíða eftir sér og eftir því sem ég best veit, þá kom aðeins einn hirðanlegur fiskur á land hjá öllum þessum veiðimönnum og einhverjir undirmálsfiskar sem var sleppt. Óvanaleg staða var á s.k. Skötustöðum því nær ekkert tært vatn var við bakkana, eitthvað líf var að sjá gengt okkur en lítið að gerast okkar megin.
Línan í pásu
Eftir hádegishressingu færðum við okkur niður að útfalli Ölduvers þar sem við sáum loks eitthvað til fiskjar, en settum ekki í neinn, hvað þá lönduðum, þannig að við stöldruðum ekkert mjög lengi við.
Við héldum til baka um Ölduver og fórum alveg inn í botn, þ.e. við mörkin milli vatns og þar sem rennur til þess úr Svörtubotnum. Þessi staður hefur oft reynst okkur vel þegar tært vatnið nær lítið sem ekkert niður með bökkum vatnsins. Veðrið lék við okkur og það var eins og við manninn mælt að þarna leyndust nokkrir vænir urriðar þannig að allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Eins og gengur voru ungliðar þarna innan um þannig að eitthvað var um sleppingar.
Þriðja hjólið að landa fiski
Eins og hendi væri veifað snérist vindáttin og það var eins og flautað hefði verið upp úr lauginni, allir fiskar drógu sig í hlé og það gerðum við líka. Eftir síðdegishressingu tókum við stöðuna á urriðanum aftur, einhver kom á land en var sleppt og úr varð að við færðum okkur aðeins til baka, prófuðum aðeins meira og færðum okkur síðan alla leið niður í Svartárós þar sem við byrjuðum daginn.
Uppskeran í Svarárósi var heldur rýr, enginn fiskur, aðeins ein naum taka og þar með er sagan öll. Það var tilfinning mín að hefðbundna veiðistaði skorti fyrst og fremst eitt; fæðu. Sá fiskur sem ég sá var að því er mér fannst á óvanalegum stöðum, oft innarlega í víkum og vogum, eiginlega svolítið til hlés. Annars vorum við samtals með vel á annan tug fiska þennan dag en heim fóru sjö fiskar sem eiga eftir að kæta einhverja bragðlauka. Heilt yfir var þetta hinn besti dagur, þó akstur hafi tekið stóra part af honum. Af færð; sá partur af Sprengisandsleið sem við ókum var í þokkalega góðu ásigkomulagi, hefur oft verið verri.
Sólarlagið við Kerlingafjöll
Lokaorðin tengjast holdafari og magafylli þeirra fiska sem ég skoðaði. Eins og margir vita, þá er fiskurinn í Kvíslavatni af stofni Veiðivatnaurriða. Í sínum upprunalegu heimskynnum er þessi urriði frekar þéttur og holdmikill. Undir venjulegum kringumstæðum er hann ekki alveg eins holdmikill í Kvíslavatni, en vænn þó. Þetta skýrist væntanlega af því að vatnið er ekki alveg eins frjósamt og flest Veiðivatna.
Þeir fiskar Kvíslavatns sem ég hef skoðað síðustu ár hafa yfirleitt verið pakkaðir af skötuormi, en nú bar svo við að lítið þurfti að greina magafylli þeirra sem við tókum með okkur. Magafyllin var lítil og samanstóð helst af flugu og óverulegu magni kuðunga. Það var ekki einn einasti skötuormur í fiskunum sem komust á mitt borð sem er vissulega óvanalegt en ekki óeðlilegt. Af þeim þremur fiskum sem þriðja hjólið í veiðiferðinni tók með sér heim, var aðeins einn sem innihélt þetta klassíska svargræn gums sem gefur vísbendingu um skötuorm í fæðu. Viðkoma skötuorms er brokkgeng og sum ár virðist hann alveg hverfa, en kemur tvíefldur til baka næsta ár. Í fljótu bragði virðist sem önnur fæða hafi ekki náð að fylla það skarð sem skötuormurinn skildi eftir sig og því hafi fiskurinn farið á óhefðbundnar slóðir í fæðuleit.
Hvað sem öðrum verkefnum og veðurútliti leið, þá ákváðum við veiðifélagarnir að taka okkur frí frá störfum við Löðmundarvatn eftir hádegið á sunnudaginn og leggja leið okkar inn að Veiðivötnum. Vegalengdin um Landmannaleið (F225), Fjallabak nyrðra (208), Sprengisandsleið (26) og inn á Veiðivatnaleið (F228) er að vísu ekki nema 68 km inn að Veiðivötnum, en einhverra hluta vegna gerði Google ráð fyrir að við yrðum einn og hálfan klukkutíma á leiðinni. Kannski reiknaði Google með öllum þvottabrettum á leiðinni og trúið mér, það er nóg af þeim, en við vorum eitthvað skemur á leiðinni og þóttumst því hafa snúið á gagnaveituna.
Eftir að hafa komið við í Varðbergi og vitjað veiðileyfis lögðum við leið okkar inn með Litlasjó í þeirri von að sjá eitthvað til fiskjar. Það eina sem við sáum var að enn hefur lækkað í og áður óséður botn blasti við í blíðviðrinu ofan af hólunum við Litlasjósver. Við héldum því til baka, höfðum fengið smá skúbb frá vinum að það hefði verið líf í Grænavatni fyrr um daginn.
Norðurbotn Grænavatns varð fyrir valinu og það stóð á endum að við sáum til fiskjar á meðan við settum saman stangirnar og drógum á okkur sjóklæði. Af gömlum vana hélt ég í mitt venjulega bakkarölt, kastaði nokkrum sinnum á hverjum stað og var duglegur að skipta um flugur. Veiðifélagi minn aftur á móti tölti beint niður að bakka, skaut rótum í sömu sporunum og innan skamms var fyrsti fiskur kominn á land. Ég hélt áfram röltinu mínu og stuttu síðar kom annar fiskur á land, hjá veiðifélaganum. Ég færði mig nær henni og fékk hint um fluguval (Koparinn með svörtu skotti) þá kom þriðji fiskurinn á land, hjá henni. Ég er ekki frá því að hún hafi notað „Hvað er eiginlega að gerast?“ sem einhverja forvörn við mögulegri geðvonsku eða öfundsýki en ég hafði einfaldlega ekkert svar við spurningunni, það var ekkert að gerast hjá mér.
Það var eins og örstutt hlé yrði á tökum hjá henni þannig að ég sætti lagi og tók einn vænan fisk á meðan og andaði léttar, var kominn á blað. Eftir að við höfðum síðan fengið töluvert af narti (mjög naumt) og sleppt sitthvorum fiskinum, gerðum við hlé á veiðum og smelltum feitum og fallegum pylsum á pönnuna og hituðum okkur sterkt og gott kaffi. Eitthvað prófuðum við að baða flugur eftir hressinguna, en þegar leið á seinni helming veiðitímans okkar héldum við til baka inn að Litlasjó.
Í Fyrstuvík eru mikið breyttar aðstæður og mögulegt að vaða töluvert lengra en áður. Þar að auki glittir nú í nokkur sker útí í vatni sem ég hef ekki séð áður. Það blundaði í mér að þrátt fyrir allt væri fiskur á ferðinni þarna og því stoppuðum við og reyndum fyrir okkur. Eftir að hafa vaðið töluvert út við mörk Fyrstuvíkur og Hraunsins og veitt í raun þvert á víkina að norðan, fékk ég nart. Næsta kast var jafn langt, ekkert nart. Þar næsta kast var töluvert lengra og þá var nartað aftur. Jæja, einhver þreyta varð til þess að ég reyndi ekki einu sinni að lengja í kastinu og veiddi því framundan í staðinn enda fiskurinn alveg við það að vera á hlutlausa beltinu á milli okkar hjóna. Eftir nokkur árangurslaus köst og fluguskipti hjá mér landaði veiðifélagi minn auðvitað fiski og þar með vorum við komin með sjö fiska á ekki lengri tíma. Þar sem við vorum satt best að segja orðin mjög sátt, hituðum okkur kaffi og héldum til baka niður í náttstað við Landmannahelli. Það er alltaf frábært að koma í Vötnin og ekki skemmir að fá fisk(a). Í þessari ferð var t.d. svo skemmtilegt að við veiðifélagarnir gleymdum alveg að taka myndir, við einfaldlega vorum á staðnum og nutum þess í botn. Til að vega upp á móti myndaskorti, kemur hér ein af Veiðivatnavatni, þ.e. vatnsflöskunni minni sem ég vitaskuld fyllti á uppi í Vötnum til að eiga fyrir heimferðina.
Veiðivatnavatn
Ferðalagið til baka snérist á sveif með Google því við vorum tæpa tvö tíma á leiðinni í þokunni sem lagðist yfir um leið og við höfðum farið yfir vaðið á Fossvatnakvísl og það má eiginlega segja að það hafi ekki rofað til fyrr en við vaðið á Helliskvísl við Landmannahelli. Svona ykkur að segja, það vantar eiginlega allar vegstikur á Veiðivatnaleið þannig að þvottabrettin komu sér vel. Svo lengi sem þvottabrettið lág þvert fyrir framan bílinn, þá var ég nokkuð viss um að vera enn á veginum. Kæra Vegagerð, það hefði verið til hægðarauka að hafa einhverjar stikur með endurskyni í þessari þoku.
Ef maður væri með það að markmiði að veiða öll Hólmavötn á landinu þá væri úr nógu að moða því samkvæmt örnefnaskrá eru þau 42 á landinu og eflaust vantar einhver í þá skrá. En við hvert þeirra drápum við veiðifélagarnir niður fæti á laugardaginn? Eflaust kveikja einhverjir ef ég segi að við byrjuðum á því að keyra upp frá bænum yfir Skriðu, Vörðumel, rétt við Árhnúk, yfir Lónholt og upp á Hallkelsstaðaheiði, alveg niður að Hólmakeldu. Vegurinn eða slóðinn sem við keyrðum heitir því hljómfagra nafni Álftasundsvegur og virtist vera þokkalega viðhaldið, vel fær jepplingum og hærri fólksbílum.
Hólmavatn
Ofan af Lónholti blasið Hólmavatn við og teygir sig úr suð-suðvestri til norð-norðausturs. Umhverfið er gróið og tjarnir og pollar eru þarna nær óteljandi. Þetta er sem sagt á sunnanverðri Tvídægru ofan Hvítársíðu. Bærinn sem getið var er Þorvaldsstaðir í Hálsasveit inn af Hvítársíðu. Þar má kaupa veiðileyfi í Hólmavatn á 6.500 kr dagurinn. Seldar eru 8 stangir í vatnið sem teljast verður hógvær fjöldi stanga í þetta fallega vatn sem er nær 2,5 km2 að flatarmáli.
Hólmavatnshólmi
Þegar ég sló á þráðinn til Halldórs á Þorvaldsstöðum fyrir helgina, þá var aðeins ein stöng af þessum átta laus og við slógum til enda er ekki vandamál hjá okkur veiðifélögunum að deila stöng og upp að Hólmavatni vorum við mætt úr kl.10 á laugardagsmorgun. Dásamlegt veður, stöku ský á lofti og örlítill norðan andvari þegar við settum saman á bakkanum gengt Hólmavatnshólma. Þessi létti andvari átti síðar eftir að snúa sér til vestlægrar áttar og meira í suðrið og með hverri gráðu sem hann færðist nær suðri, þá óx honum heldur betur ásmegin.
Hólmavatn – smellið á mynd fyrir fulla upplausn
Við höfðum fengið upplýsingar frá staðkunnugum að ef hann stæði úr norðri, þá væri helst von sunnan í vatninu og við vorum svo sem nokkuð vongóð að einhver þeirra fiska sem var að vaka úti á vatninu mundir færa sig nær bakkanum ef hann hallaði sér í vestrið. Það gerðist reyndar ekki, það líf sem við urðum helst vör við í kastfæri var fiðrað og var úr sama frændgarði; lómur og himbrimi sem gerðu sér smáfiska að góðu.
Þegar leið að hádegi færðum við okkur inn með vatninu til norðurs, framhjá hópi veiðimanna sem höfðu komið sér fyrir við Hvannalækjarhól og hittum á þrjá vaska veiðimenn sem voru á leið til baka af Riðavíkurhól. Lítið höfðu þeir orðið varir við fisk, eiginlega steindautt eins og einn þeirra sagði, en bætti síðan við að þó þeir hefðu ekki orðið varir við fisk, þá gæti hann verið kominn þar núna. Þetta var nóg til þess að við héldum áfram slóðann norður með vatninu í stefnuna á Riðavík. Frá Hvannalækjarhól og að Riðavík er umræddur slóði það sem væri trúlega merkt mjög mikil torleið ef það merki væri til hjá Vegagerðinni.
Riðavíkurhóll
Við Riðavíkurhól er til muna meira dýpi heldur en þar sem við byrjuðum gengt Hólmavatnshólma og við veiðifélagarnir vorum sammála um að þetta væri fiskilegur staður. Sögur fóru af því að í Riðavík væri frekar von á bleikju en utan við hólinn væri urriða von. Hvorug tegundin lét þó til leiðast og það endaði með því að við fikruðum okkur alveg inn að Skammá sem rennur úr vatninu til Lambár.
Þá var andvarinn orðinn að nokkrum metrum á sekúndu og stóð nær beint úr suðri. Rétt um það bil þegar aðrir veiðimenn við vatnið hurfu á braut, þá setti ég í vænan 44 sm urriða sem greinilega var að úða í sig horsíli í öldurótinu, rétt utan við bakkann.
Hólmavatnsurriði
Kannski er maður orðinn heldur vanur öðrum stofni urriða, t.d. úr Veiðivötnum eða af Þingvallastofni, en þessi fiskur var með öðru svipmóti og ég stóðst ekki mátið að taka mynd af honum og snyrta aðeins fyrir þessa grein. Ekki veit ég um uppruna þessa stofns, en skemmtilegur var fiskurinn og vel haldinn, rennilegur um trýnið og með ágætan vísi að krók.
Við Hvannalækjarhól
Þegar aldan var orðinn heldur mikil og vindurinn farinn að nálgast 9 m/sek færðum við okkur aftur til suðurs, prófuðum stutta stund við Hvannalækjarhól en hurfum síðan fljótlega á braut, skiluðum okkar veiðiskýrslu í póstkassann við Þorvaldsstaði og kíktum vitaskuld á aðrar veiðiskýrslur dagsins. Þennan laugardag voru skráðir 5 fiskar upp úr Hólmavatni á þær 8 stangir sem seldar eru og við vorum bara nokkuð sátt við að eiga einn þeirra á eina stöng.
Eftir viðburðarríka 4 daga að Fjallabaki, brugðum við veiðifélagarnir og vinafólk okkar í örstutta könnunarferð austur fyrir Kýlinga og kíktum síðan við í Blautaveri norðan Ljótapolls á leiðinni til baka að Landmannahelli á sunnudaginn.
Eitthvað dvaldist mér í bölvuðum farsímanum á brúnni vestan við Blautaver þannig að ég mætt seinna en félagar mínir í vatnið. Þeir höfðu þá þegar tekið á nokkrum fiskum, landað að mig minnir 5 fiskum á örskotsstund. Nú kann einhver að segja að það sé nú ekki mikið afrek, það sé allt of mikið af tittum í þessu vatni og lítið mál að setja í fisk, en það á ekki alveg við um þessar mundir.
Blautaver
Ekki treysti ég mér til að segja til um magnið af fiski í vatninu, það er nær ómögulegt því það hefur samgang við Tungnaá og fiskurinn þarna rápar inn og út eftir ástandi ætis. Ætið virðist vera töluvert og gott í Blautaveri um þessar mundir og fiskurinn eftir því stór og vel haldinn. Menn borga víða meira fyrir minni fisk (bæði í vigt og magni) hér á landi og eftir því sem ég kemst næst, þá hefur veiðin í Blautaveri verið með ágætum í sumar.
Veiðifélagi minn tók með sér 6 fiska, ég tvo og félagar okkar 6 að mig minnir á þeim stutta tíma sem við stöldruðum við. Allt fallegir fiskar á bilinu 35 – 50 sm vel haldnir og sumir hverjir þegar skreyttir hvítum bryddingum, allir fullir hrognum og svili. Flugurnar sem virtust gefa best voru dökkar, helst svartur stuttur Nobbler en glannalegri flugur gáfu líka, s.s. Gullbrá og bleikur Nobbler.