Á leið okkar ofan úr Fellsendavatni á fimmtudaginn, komum við stuttlega við í Dómadalsvatni. Það er ólíkt með vötnunum norðan Tungnaár að vatnsstaða virðist almennt vera með ágætum sunnan árinnar og því er einmitt svo farið með Dómadalsvatn.
Það sem af er sumri hefur vatnið gefið með ágætum, að sögn helst snemma morguns en það er vitaskuld háð því hvenær flugan eða lífríkið er í mestum blóma. Nú þegar líður á sumarið og hlé virðist vera á milli fyrra og síðara klaks flugunnar er veiðin að færast til jafns yfir daginn. Ef einhver tími dagsins ætti að vera betri en annar, þá væri það undir ljósaskiptin þegar hornsílið fer á stjá og fiskurinn kemur upp á grynningarnar.
Dómadalsvatn – Smellið á mynd fyrir fulla upplausn
Það var e.t.v. vegna veðurblíðu síðustu daga að ég sá ekki eitt einasta landrekið hornsíli á bökkum Dómadalsvatns þegar við veiðifélagarnir röltum inn með vatninu að vestan. Gróður virðist ekki vera kominn langt á leið í vatninu, örlítil rönd þó sem gera má ráð fyrir að hýsi einhver hornsíli sem fiskurinn ætti að sækja í.
Þegar ég kom að vatninu undir kvöldmat þá datt mér helst í hug að það hefði verið töluvert ásetið þennan dag. Fiskurinn virtist heldur skekinn eftir áreiti og hafði sig lítið í frammi. Við stöldruðum ekki lengi við, en á þeim tíma tókst mér þó að setja í og landa ágætum fiski sem var rétt um 55 sm. Vel haldinn, rennilegur urriði sem greinilega hafði átt ágæta daga. Það vakti þó athygli mína að hann var ekkert sérstaklega rauður á holdið sem gefur vísbendingu um að hann hafi mögulega misst af fyrra klaki flugunnar í sumar eða hún hafi ekki verið sérstaklega mikil.
Eftir annars tíðindalitla viðdvöl við vatnið þar sem við nutum fegurðar þess og umhverfis í ríku mæli þetta kvöld, héldum við inni að Löðmundarvatni þar sem biðu okkar óþreyjufull grisjunarnet sem vildu ólm komast út í vatnið.
Oft og mörgum sinnum höfum við veiðifélagarnir ekið framhjá þessu vatni og barið það augum. Veiði í Fellsendavatni er, líkt og í mörgum öðrum vötnum á þessu svæði, háð sleppingum því urriði nær ekki að viðhalda sér í vatninu. Nú er mér ekki kunnugt um tíðni eða umfang sleppinga í vatnið síðustu ár og því vorum við að renna svolítið blint í sjóinn með veiði en þar sem við áttum stund aflögu á fimmtudag þá renndum við úr náttstað við Landmannahelli og inn að Fellsendavatni til að prófa aðstæður.
Það kann einhverjum að virðast það einkennilegt að vegur 208 (héraðsvegur) frá Frostastaðavatni upp að Sigöldu sé ekki fjallvegur og ég er einn þeirra. Viðhald þessa vegar er lítið eftir að hann er opnaður í byrjun sumars og ástand hans er alveg eftir því. Þvottabretti og hraunnibbur skiptast á við að gera þessa leið einhverja þá leiðinlegustu sem finnst utan fjallvega á Íslandi og ég þekki marga betri F-vegi en þennan, t.d. F225 Landmannaleið sem er þó landsvegur og nýtur minna viðhalds.
Fellsendavatn – Smellið á mynd fyrir fulla upplausn
Víða er vatnsbúskapur norðan Tungnaár heldur í minna lagi þetta sumarið og Fellsendavatn hefur ekki farið varhluta af því. Eiðið (Skeifan) á milli norður- og suðurhluta vatnsins stendur allt uppi þannig að vatnið hefur skilið sig í tvö vötn eins og gjarnan gerist á þurrum sumrum.
Við byrjuðum við höfðann vestan við vatnið og það má eiginlega segja að við höfum þrætt okkur með allri ströndinni til norðurs og austur að eiðinu. Við þá vatnsstöðu sem er í vatninu um þessar mundir, virðist töluvert vanta upp á að áberandi dýpi sé að finna í vatninu. Það er drjúgur spotti og ekki djúpt að einhverju því sem gæti kallast dýpi í vatninu og hefði eitthvert líf verið að sjá á vatninu, uppitökur eða veltur, þá hefði maður trúlega vaðið dýpra en við gerðum, en því var ekki til að dreifa.
Það var ekki fyrr en frá austurbakkanum að annað okkar varð vart við fisk, tittur sem fékk líf og lét sér tökuna ekki að kenningu verða og nartaði ítrekað í fluguna á eftir. Eftir þetta þótti okkur fullreynt á þessum slóðum, hvorugt okkar nennti að bíða eftir ljósaskiptinum ef þau mögulega færðu fiskinn upp á grynningarnar. Við reyndum ekkert fyrir okkur í syðra vatninu, héldum þess í stað suður á bóginn, örstutta 36 km í Dómadal að Fjallabaki í átt að næturstað.
Um þessar mundir sinnir Árni Friðriksson makrílrannsóknum hringinn í kringum landið en inn á hálendi eru nokkrir veiðimenn einmitt með slíkan fisk í farteskinu á slóðum Arnbjörns Guðbrandssonar (Ampa). Við veiðifélagarnir vorum að vísu ekki með neinn fisk eða aðra lífræna beitu í farteskinu þegar við renndum í hlað í Veiðivötnum á fimmtudaginn í okkar árlegu Veiðivatnaferð, þeirri áttundu í röð með vöskum hópi. Ferðin inn að Vötnum var ánægjuleg, vegur og veður í góðu standi. Ég ætla annars að láta það eiga sig að fara ítarlega í veður einstaka daga ferðarinnar, eitt dugi fyrir þá alla sem við vorum í Vötnunum; blíða.
Á köflum var reyndar svo mikil blíða að maður hafði sig aðeins með herkjum út á vatnsbakkann til að veiða, hitinn langt yfir 20°C og hverjum andvara var tekið fagnandi því fluga var töluverð á svæðinu.
Þó flestar flugnanna hafi verið af ætt toppflugu, og gengu því ekki á blóðbirgðir veiðimanna, þá voru þarna inni á milli nokkrar sem bitu hressilega.
Við byrjuðum á fimmtudaginn inni í Norðurbotni Litlasjós og röltum inn með hlíðinni í átt að Álftatanga. Reyndar var ferðinni ekkert endilega heitið alla leið þangað, en það var bara svo mikið líf á þessum slóðum að við stóðumst ekki mátið að tölta áfram. Ef ferðinni hefði verið heitið beint á Álftatanga hefði verið nær að hefja ferðina úr Austurbotni. Á þessum slóðum hittum við félaga okkar sem hafði einmitt sömu sögu að segja og við, það vantaði ekkert upp á fjölda fiska, en þeir stóru voru lítið að veita viðtal.
Við stöldruðum töluvert lengi við í víkinni norðan við Álftatanga, dáðumst að kvöldinu og öllum uggunum og sporðunum sem sýndu sig, en höfðum ekki brjóst í að taka með okkur þá sem tóku og voru við pundið. Tala á slepptum fiskum riðlaðist fljótlega, en heilt yfir í þessari ferð giska ég á að við höfum sleppt á bilinu 40 – 50 fiskum. Vel að merkja, við vorum ekkert í bleikju enda á alls ekki að sleppa henni í Veiðivötnum. Að gefnu tilefni, þá vil ég vekja athygli á því að best er taka sig tímanlega upp ef langur gangur er í bíl, það á nefnilega að vera komin á ró og allir búnir að skila sér í aðgerð fyrir kl. 01:00 Fyrsta kvöldið misreiknuðum við okkur aðeins og vorum heldur sein og fengum vinsamlegt tiltal, skiljanlega.
Litlisjór – smellið fyrir stærri mynd
Vatnshæð í Litlasjó er undir meðallagi þetta árið, sama má segja um Hraunvötnin og nokkur af vötnunum í suðrinu, en mikið æti til staðar í lofti og í legi. Við höfum sjaldan vaðið í gegnum eins miklar breiður af flugu og beinlínis grútarrönd (1 til 4 metra) við bakka margra vatna. Ánægjulegt að sjá að vötnin virðast frjósöm og eftir því mikið af fiski að sýna sig, þótt hann hefði mátt vera stærri svona nær landi og í kastfæri okkar flugunördanna.
Eins og gengur vorum við svolítið að rúntinum um svæðið og í þeim ferðum okkar gaf að líta skemmtilega afþreyingu á nokkuð mörgum stöðum. Ónafngreindur prakkari hafði haft fyrir því að festa nokkra frasa og hnyttyrði á skilti og plantað víðsvegar um svæðið. Eftir því sem ég best veit, gaf viðkomandi prakkari sig fram við staðarhaldara og bauðst til að fjarlægja skiltin áður en hann héldi heim á leið, en það þótti hinn mesti óþarfi, skiltin hefði laðað fram bros margra á svæðinu og þau mættu alveg standa til hausts. Ég held að mér hafi tekist að smella myndum af öllum skiltunum á svæðinu, en gef ekkert uppi um staðsetningar þeirra, hver og einn verður bara að finna þau á ferð sinni um Vötnin.
Eins og áður segir, þá fórum við nokkuð víða um svæðið og heilt yfir var mikið líf að sjá, nokkuð sem maður hefur saknað síðustu tvö ár í Vötnunum. Til viðbótar við Litlasjó, þá var Ónefndavatn mjög líflegt en nokkur gáfu ágætlega þótt ekki væri mikið líf að sjá við fyrstu sýn. Hellavatn, eða það sem eftir er af því, gaf ágætlega þó ekki sæjum við fisk í þau skipti sem við fórum að því. Miðvatnið var á sínum stað og við urðum vör við fisk, en erfiðlega gekk að fá hann á okkar band. Sama má segja um Arnarpoll, þar var lífið helst langt utan kastfæris og vatnið gaf okkur ekkert í aðra hönd að þessu sinni.
Sama hvað, þá var dásamlegt að vera þessa daga í Vötnunum og eins víst að við heimsækjum þau aftur að ári. Ef einhver er sérstaklega forvitinn um afla, þá tókum við 11 urriða með okkur heim, þar af 3 stk sem voru yfir 4 pund, við erum fullkomlega sátt og fengum að takast á við smáfiskinn í 40 – 50 skipti og hann er bara glettilega sprækur.
Það var smá glufa í dagskrá helgarinnar sem við veiðifélagarnir nýttum til að merkja við Langavatn á Mýrum. Þegar við skruppum upp á Langavatni á laugardag, skartaði vatnið sýni fegursta í gjólunni og það kveikti heldur betur í okkur. Illu heilli var ekki alveg nákvæmlega það sama upp á teningnum á sunnudaginn þegar við mættum á staðinn með allar græjur og heitt á brúsa.
Þokan átti eiginlega allt sviðið þegar við mættum upp úr hádeginu og þannig hélst það þá klukkutíma sem við stöldruðum við. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, er töluvert hátt í Landavatni um þessar mundir, raunar með því hærra sem við höfum séð síðustu árin, en trúlega á það eftir að breytast þegar laxarnir í Langá og Gljúfurá verða þyrstir þegar líður á sumarið.
Við beinlínis sundriðum vélfáki okkar yfir Barónsvík og ókum eins langt undir Múlabrekkur og vatnsborðið leyfði, sem var ekki langt. Það gáraði nokkuð á köldu vatninu og enn og aftur féll maður í þá freistni að halda að urriðinn kæmi upp að bakkanum. Það varð nú ekki svo, því eini fiskurinn sem kom á land þar var bleikja sem lét glepjast af flugu sem betur er þekkt sem ein af Veiðivatnaflugunum. Og slíkt var offors þessarar bleikju að hún varð ekki losuð af önglinum öðruvísi en hennar beið bráður bani, að öðrum kosti hefði henni trúlega verið sleppt.
Við ströggluðumst þarna þó nokkuð lengi, en urðum ekki vör enda var vatnið frekar kalt ennþá og almennt var ekki mikið líf að sjá, skordýr og gróður enn einhverjum vikum á eftir áætlun. Ekki bætti þokan úr skák og á einhverjum tímapunkti, trúlega þegar veiðifélaga mínum varð litið á bleikjuna sem lét lífið með vofeiginlegum hætti, varð til málshátturinn Sjaldan vakir dauður fiskur.
Þegar okkur þótti fullreynt, færðum við okkur í átt að Beilárvöllum þar sem ég setti í eina bleikju á sígildan Peacock sem var sleppt, þ.e. bleikjunni og þar með er öll sagan sögð af veiðiferð okkar í Langavatn að þessu sinni. Eitt að lokum, vegurinn upp að Langavatni frá Svignaskarði er sérstaklega góður, fær öllum bílum inn að Torfhvalastöðum, bara þannig að það sé sagt.
Sumarið er alveg að detta inn, maður velur sér bara staðsetningu, stillir sig inn á veðrið og lætur slag standa. Með þetta að leiðarljósi héldum við veiðifélagarnir út úr bænum fyrir hádegið á föstudaginn, tókum stefnuna vestur í Hnappadal.
Það hafa fáar fréttir borist úr Hlíðarvatninu það sem af er sumars og því fátt annað að gera en skoða aðstæður upp á eigin spýtur, nesta sig upp og ganga úr skugga um að nægt gas væri á kútunum ef hitastigið þyrfti einhverja hjálp til að halda þolanlegum hita yfir nóttina. Veðurspáin var jú, svona og svona, í og úr, þessi eða hin áttin og hitastigið eftir því. Jákvæðasta spáin var eitthvað í áttina við skýjað, skúrir og sólarglæta á köflum.
Til að klára þetta strax með veðrið, þá var það alls ekki eins svalt og spár gáfu tilefni til að ætla. Fyrripartur föstudags til sunnudags einna fallegastir, oft stillur og almennt fallegt veður. Skúri urðum við ekki vör við fyrr en á sunnudag, sem skipti okkur engu máli því við vorum búinn að pakka og ganga frá þegar þessir fimm dropar duttu niður úr skýjunum.
Og þá að sívinsælli spurningu veiðimanna; Var vatn í vatninu? Stutta svarið er einfaldlega já og það var í meðallagi góð vatnsstaða eins og sjá má á víðmyndinni hér að neðan sem tekin er af vesturenda Fellsbrekku.
Smellið á mynd fyrir fulla stærð
Undanfarin ár hafa verið upp og ofan, aðallega ofan í vatnsborði Hlíðarvatns og miklir þurrkar hafa sett verulegt strik í reikninginn, en það var ánægjulegt að sjá það núna að upp úr miðjun júní er staðan bara tiltölulega góð.
Það er að verða einhver frasi hér að lýsa fasi okkar á veiðistað sem tiltölulega slöku, vorum ekkert að flýta okkur en vorum þó komin út í vatnið rétt upp úr hádegi. Það var annað hvort að hafa sig af stað og ná í endann á fyrriparti dagsins eða þá veðja á kvöldið. Auðvitað stóðumst við ekki blíðuna og töltum út að Rifinu norðanverðu og það var eins og við manninn mælt, það var búið að opna hlaðborð Hlíðarvatns og bleikjurnar fóru hamförum í yfirborðinu.
Þó það væri ekki algjör stilla, þá nægðu sólargeislarnir til þess að vekja klakið og við settum því þurrflugur og klekjur (emergers) undir og uppskárum eftir því. Áður en bleikjurnar fengu sér eftirmiðdagslúr, lágu nokkrar vænar í netum okkar og einhverjar til viðbótar fengu leyfi til að snúa aftur til systra sinna og gátu þá sagt sögur af grunsamlega girnilegum en stingandi mýflugum sem þær höfðu komist í kynni við.
Það varð lítið úr veiði eftir kvöldmat þar sem snögglega kólnaði og tók fyrir allar uppitökur og eitthvað tók hann að blása meira í þokkabót.
Enn og aftur var asinn á okkur hjónum í lágmarki á laugardaginn, stungið úr heilum kaffibrúsa í morgunsárið og fyllt á maga áður en við hreyfðum okkur nokkuð umfram nauðsynlegustu ferðir inn í vagn til að bæta á veitingar. Þegar við loksins drógumst í vöðlurnar var enn og aftur brostið á með klaki og enn fengu þurrflugurnar að njóta sín. Við sáum svo sem litla ástæðu til að breyta mikið út frá vananum og héldum okkur við fyrstu og aðra rennu út frá Rifinu. Þeir sem þekkja til við Hlíðarvatn vita að þar á ég við staðina þar sem vatnar yfir og á milli skerja út frá Rifinu. Þarna þjappast oft ætið saman og er nærri ávísun á fisk, sem raunin varð einmitt á.
Eins og venjulega, í það minnsta í okkar tilfelli, þá gerðist það upp úr miðjum degi að fiskurinn dró sig í til hlés og það var eins og skrúfað væri fyrir alla veiði. Við töltum því aftur í vagninn, sumir fengu sér lúr á meðan aðrir stússuðust í veiðigræjum og veltu því fyrir sér hvað yrði ofaná í kvöldmat.
Þar sem nær allur afli okkar hafði verið bleikja hingað til, þá stóð minn hugur til þess að vaða út í skerin undir Fellsbrekku um kvöldið og tæla nokkra urriða upp úr dýpinu með vel völdum nobblerum. Ég tölti því af stað og hugsaði mér gott til glóðarinnar, minnugur fyrri ferða út á skerin þaðan sem stutt er í fengsæl urriðamið. Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og þrátt fyrir töluverðar tilraunir með litróf nobblera á hægsökkvandi línu, þá kom ekki eitt einasta bein upp úr vatninu. Þetta voru tíðindi til næsta bæjar, hefði ég bara nennt að ganga þangað, og ég var lengi að velta þessu fyrir mér.
Ég komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hún er nú rétt eða röng, að sveiflur undangenginna ára í vatnshæðinni hafa mögulega komið verr niður á urriðastofni vatnsins heldur bleikjunnar. Þeir urriðar sem við tókum voru smávaxnir og fáir, ekki meira en tveggja ára fiskur utan eins sem trúlega var orðinn fimm ára en hefði mátt vera bústnari. Ekki skorti ætið, nóg af hornsíli úti á skerjunum en það var einfaldlega ekki nokkurt líf með djúpinu.
Þetta kemur í raun ekkert niður á vatninu, bleikja var einstaklega vel haldin og hefur sjaldan verið jafn spræk og kröftug á flugu. Ekki ein einasta bleikja sem náð hafði matstærð vantaði gramm upp á að vera yfir meðallagi í holdum.
Sunnudagurinn byrjaði á svipuðum nótum og laugardagurinn, blíðviðri og bleikjur í uppitökum. Við bættum aðeins í netin okkar og skiptum yfir í þyngri flugur þegar hann hallaði sér óþyrmilega í norðvestan átt með tilheyrandi kulda.
Eins og áður segir náðum við að pakka saman áður en örfáir dropar féllu á okkur og það sem meira er við náðum í heimahagana áður en óvæntar tafir urðu á umferð um göngin. Hreint út sagt, frábær helgi sem minnst verður sem þurrfluguhelgarinnar miklu. Er samt enn að velta fyrir mér fjarveru urriðanna.
Hann getur verið dyntóttur, Hraunsfjörðurinn, en það er alltaf eitthvað við það að setja vagninn niður í Berserkjahrauni, draga á sig vöðlur, græja stangirnar og renna jakkanum upp í háls.
Þess síðast nefnda reyndist þörf s.l. helgi þegar við eyddum laugardagseftirmiðdeginu og sunnudeginum við Hraunsfjörðinn. Það var raunar afskaplega milt og fallegt veður, sól á Stökustað, rigning eða léttur úði í Grennd og víðar, en heilt yfir hlýtt og stillt veður. Frábært til þess að eyða í kyrrðinni og fegurðinni á Snæfellsnesi.
Það var enginn sprengur á okkur á laugardaginn, þannig að við vorum frekar seint á ferðinni, ekki mætt niður við vatn fyrr en rétt um kl.14 en vorum þá búinn að tjalda vagninum í fyrsta skiptið í sumar, þ.e.a.s. í útilegu. Á leið okkar út á Búðanes mættum við þremur fræknum veiðimönnum af Skaganum sem létu lítið af veiðinni en höfðu hitt frækinn veiðimann sem hafði krækt í 6 bleikjur, skömmu síðar mætti ég nokkrum til viðbótar sem höfðu sömu sögu að segja. Hraunfjörðurinn var því greinilega í sínu dyntótta skapi þennan daginn, afar misjafnt hvort menn höfðu orðið varir og þá hvar.
Við skönnuðum vatnið frá tánni á Búðanesi og inn að eyjunni / skerinu undan hrauninu. Það sást lítið til fiskjar en það er svo sem ekkert nýtt, hún gefur sig líka þótt hún sýni sig ekkert. Eftir töluverðar tilraunir og nokkrar pásur kom að því að veiðifélagi minn tók eina væna og skömmu síðar tók ég aðra rétt við eyjuna. Hængur og hrygna sem bæði létu glepjast af Pheasant Tail.
Það leið töluvert langur tími þar til ég varð var aftur og þá var ég kominn í gamalkunnugan gír sem grípur yfirleitt um sig þegar lítið er að gerast. Eftir að hafa prófað stærri flugur, minni flugur og bleikan Nobbler ákvað ég að setja Buzzer með raunar kinnar undir, þrykkja honum vel út og ekkert leyfa honum að sökkva, heldur draga hann inn með tiltölulega hröðum rykkjum. Þetta bar þann árangur að það var nartað í fluguna. Þá var úr vöndu að ráða; átti ég að hægja á eða átti ég að auka hraðann? Úr varð að ég kastaði styttra en áður og dró hraðar og það var tekið með látum, en …… eftir stutta en snarpa viðureign með skvampi og sporðaköstum stakk bleikjan af með fluguna mína. Eins og flestir fiskar sem ekki nást á land, þá var þessi ótrúlega stór, trúlega 80 til 90 sm, tennt eins og hákarl og með sporð á við tennisspaða. Þetta er í annað skiptið í sumar sem bleikja stingur af með varaskraut úr mínum fórum. (Þegar ég verð búinn að skrifa þessa grein, þá ætla ég að ná mér í girni og æfa nokkra nýja hnúta eða vanda mig betur). Skömmu síðar létum við gott heita, fórum ásamt kunningjum okkar í náttstað, átum á okkur gat og kjöftuðum í kyrrðinni fram í nóttina.
Það var ekki sprengurinn á okkur á sunnudagsmorgun, sváfum næstum af okkur Sjómannadagsmessuna, stungum úr nokkrum kaffibollum og spáðum í veður og veiðistaði. Enn áttum við veiðifélagarnir eftir að tölta brölta smá kafla í hrauninu neðan Arnarsteins til að loka hring okkar um Hraunsfjörðinn, þannig að úr varð að klára hringinn, það hafði hvort hið er ekkert verið mikið líf við Búðanesið.
Þetta byrjaði rólega, lifnaði lítið við og það bar helst til tíðinda að kunningjakona okkar tók upp svipaðan veiðistíl og ég, missti vænan fisk rétt í þann mund sem hann hefði átt að koma á land. Veiðifélagi minn tók til við ýmsar tilraunir með afleggjara og tökuvara og uppskar væna bleikju sem fékk far með okkur heim. Annars var lítið um að vera nema að það var sérstaklega áberandi að eftir rigningarskúrina, sem voru nokkrir, var eins og bleikjan færi hamförum í uppitökum, lengst úti á vatninu.
Lengi héldum við í vonina og ekki síst þegar kvöldkyrrðin tók við, en á endanum létum við undan klukkunni og dröttuðumst yfir hraunið og að Mjósundi þar sem bíllinn beið okkar. Þar bar að garði félaga okkar sem við höfðum hitt á Búðanesi deginum áður við þriðja mann, nú var sögustund. Þeir félagar höfðu ákveðið að halda aftur á Búðanesið á sunnudag og þar lentu þeir í fínni veiði, tóku 18 bleikjur og félagar hans voru enn að þegar hann þurfti frá að hverfa. Já, Hraunsfjörðurinn getur verið dyntóttur og ekki getur maður alltaf verið á réttum stað.