Veiði 2012 – samantekt

Áfram heldur samantekt áranna 2010 – 2018. Komið er að 2012 sem var eitt af betri árum áratugarins þegar kemur að veðurfari, ef undan er skilinn maímánuður sem var nokkuð kaldur.

Auðu súlurnar eru hennar, bláu eru mínar og hér má glögglega sjá að heldur er tekið að halla á mínar veiðitölur og hefur sú þróun haldist, nær óslitið síðan.

Veiði 2011 – samantekt

Árið 2011 var annað árið sem ég safnaði skipulega saman upplýsingum um veiði okkar félaganna. Veðurfar sumarsins var með ágætum, þótt júní hafi verið heldur hráslagalegur.

Sem fyrr eru rauðu súlurnar veiðifélaga míns og þær bláu mínar eigin.

Veiði 2010 – samantekt

Undanfarin átta ár hef ég skráð nokkuð nákvæmlega veiði mína og veiðifélaga míns og birt hér á síðunni. Vegna smá verkefnis sem ég var að vinna að um daginn, þá tók ég veiðitölur þessara ára og setti upp í súlurit og datt þá í hug að setja þetta hér inn á síðuna til að fylla inn í fyrri samantektir sem ég hef gert í loks flestra ára.

Elstu gögnin sem mark er takandi á eru frá árinu 2010. Rauðu súlurnar tákna afla veiðifélaga míns, en þær bláu tákna minn afla. Þetta ár lögðum við leið okkar helst í Hlíðarvatn í Hnappadal í nokkur skipti og er júlí áberandi þar.

Langavatn, 15. sept.

Fyrst við vorum í Borgarfirðinum í gær og ekki með neitt sérstakt fyrir stafni, þá lá auðvitað beinast við að kíkja í eitthvert vatnanna á svæðinu og fyrir valinu varð Langavatn. Það er ekki oft sem ég viðurkenni að ég keyri aðeins með annað augað á veginum, en í þetta skiptið var það nú svo að ég stóð mig ansi oft að því að gjóa á hitamælinn í bílnum. Hitastigið rokkaði reglulega um eina til tvær gráður á leiðinni, en fór aldrei neðan er svo að fiskur ætti að vera á stjái.

Vert er að geta þess að vegurinn upp frá Gljúfurá var hreint og beint frábær, nýlega búið að hefla ofan af honum stærsta grjótið og bera í hann þannig að það er fólksbílafært alveg inn að Torfhvalastöðum við Langavatn og ég er ekki frá því að spottinn inn að Barónskletti hafi eitthvað verið lagfærður líka. Slóðinn þar fyrir norðan var bara eins og venjulega, seinfær en fær 4×4 bílum.

Horft inn að botni frá Stórusteinum

Þegar inn að vatni var komið var ljóst að það hefur verið hleypt vel úr vatninu til að vökva laxinn í Langá þetta sumarið. Fljótt á skotið hefur vatnshæðin verið lækkuð um einn metra og því var vel fært inn að botni og við lögðum leið okkar langleiðina þangað, inn að Stórusteinum.

Veðurblíða við Stórusteina

Veðrið kom þægilega á óvart, stillt og fallegt en mikið rosalega var vatnið kalt eftir næturfrost undangenginnar nætur. Það var því e.t.v. engin furða að við yrðum ekkert vör við fisk þar sem við renndum öllum mögulegum flugum út í dýpið og drógum hratt, hægt og allt þar á milli. Eftir dágóða stund færðum við okkur til baka og renndum niður að Beilárvöllum, nánar tiltekið undir hlíðina austan við Galtarholtsvík, gengt tanganum.

Við Beilárvelli

Heldur var tekið að þykkna í lofti en við gerðum okkur vonir um að vatnið væri eitthvað hlýrra þarna í vari fyrir norðanáttinni. Ekki munaði nú miklu á vatnshitanum, en þarna tókst okkur að særa upp tvær bleikjur sem úðuðu í sig hornsílum í víkinni austan við tangann og þegar þær voru komnar á land létum við gott heita og héldum heim á leið.

Helmingur aflans

Þar sem Langavatn lokar núna 20. sept. á ég ekki von á að við förum þangað aftur þetta sumarið, en það er greinilega fiskur enn á ferðinni og hann er bara þokkalega vænn og vel haldinn ef marka má þessa tvo sem við tókum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 67 / 85 / 0 48 / 38 19 / 22

Geitabergsvatn 14. sept.

Þar sem við veiðifélagarnir áttum leið í Skorradalinn í gærkvöldi þá þótti okkur ekki úr vegi, sem það reyndar þó var, að fara um Hvalfjörðinn og Svínadal í stað þess að fara fyrir Hafnarfjall. Við vorum nokkuð seint á ferðinni, en síðustu skímu dagsins langaði okkur að njóta við norðanvert Geitabergsvatn og sjá til hvort einhver kulsækinn urriði væri þar á sveimi.

Útsýnið þegar við komum

Ekki var nú hitastigið upp á tvær tölur, reyndar rétt slefaði það í 6°C þegar við drógum á okkur veiðigallann og úr norðri gustaði heldur nöprum vindi. Ekkert líf var sjáanlegt á grynningunum í Innri-Vatnsvík þannig að við fetuðum okkur smá spotta út undir Klifi án þess að verða vör við fisk.

Útsýnið þegar við fórum

Þegar svo tunglið var orðið bjartasti punkturinn á himninum fetuðum við okkur til baka og létum gott heita. Það er nú svo merkilegt að ekki þarf alltaf fisk til að njóta þess að baða flugur og þessi kvöldstund, þótt stutt væri, sannaði það svo um munaði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 66 / 84 / 0 48 / 38 18 / 21

Hópið 8. & 9. september

Fyrsti í sumarauka 2018 var að þessu sinni norðan heiða. Eftir heldur ótuktarlegt sumar hér sunnan heiða höfðum við veiðifélagarnir ekki alveg fengið nægju okkar af veiði og því var fylgst vel með veðurspá helgarinnar. Spá fyrir hálendið var ekki upp á marga fiska, Vesturlandið virtist ætla að bjóða upp á rigningu og rok, Suðurlandið var svona í og úr eins og maður segir, en Norðurlandið kom sterkt inn með hitatölum vel á annan tuginn. Úr varð að pakka í snarhasti í veiðihúsið á föstudag eftir vinnu og renna norður í Húnaþing, nánar tiltekið að Hópi á mörkum vestra og eystra.

Hópið á laugardagsmorgninum

Það var nú ekki sprengurinn á okkur norður, þannig að við rétt mörðum það að kaupa veiðileyfi í Víðigerði og svo skröltum við framhjá Borgarvirki í átt að Ásbjarnarnesi og inn í Nesvík. Þangað höfðum við áður komið á miðju sumri  fyrir einhverjum árum en orðið frá að hverfa vegna mývargs sem blessunarlega var víðsfjarri á föstudagskvöldið. Það verður nú að segjast eins og er að við vorum hreint ekki alveg viss hvar við nákvæmlega settum vagninn niður undir stjörnubjörtum himninum því það var komið svarta myrkur þegar við loksins komum á staðinn. Ég taldi okkur vera töluvert frá bakkanum þannig að það var e.t.v. eins gott að frúin gekk hægum skrefum út í móa því það hafa tæplega verið fleiri skref en 20 – 30 í vatnið frá þeim stað sem vagninn stóð.

Ætli það sér fiskur hér, gæti höfundur verið að velta fyrir sér við Vaðhvamm

Laugardagsmorguninn vakti okkur með stilltu og dásamlegu veðri og eftir morgunverð héldum við troðninginn frá Nesvík og upp á Bjargás með stefnuna á Myrkurbjörg. Við sem sagt skröltum þennan troðning eins langt og okkur þótti hæfilegt og fikruðum okkur niður að vatninu þar sem heitir Vaðhvammur. Strax í fyrsta kasti varð ég heldur betur var við fisk þar sem tekið var harkalega í hjá mér og í loftköstum kom þessi líka drjóli upp úr vatninu og hristi fluguna úr sér. Einmitt, það var þá fiskur á þessum slóðum og nú hófst leitin að réttu flugunni sem hann tæki án þess að hrækja henni umsvifalaust út úr sér. Veiðifélagi minn varð fyrri til og setti í alveg einstaklega fallegan sjóbirting sem losaði rúm 3 pund og bætti síðan tveimur þokkalegum sjóbleikjum við. Ef mig misminnir ekki þá tóku þessir fiskar ólívu litaðan Nobbler og það var ekki fyrr en ég hafði þrætt mig í gegnum nokkrar flugur að ég setti loksins í fisk sem ég var sáttur við að hirða. Sá var nú samt ekki nema tittur í samanburði við birting konunnar, en ég er nú ekkert óvanur því að veiða færri og smærri fiska en hún, þannig að ég var ágætlega sáttur.

Fallegur birtingur úr Hópinu

Upp úr hádeginu fórum við á vísindaveiðar út frá Ásbjarnarnesi til austurs, norðurs og vesturs, en allar áttir reyndust jafn rólegar þannig að við brugðum okkur í smá gönguferð í vatninu norður frá Nesvík og út með björgunum, ríflega 1 km. en áttum þá enn eftir töluverðan spotta að dýpi sem stærri fiskum væri þóknanlegt. Þar sem lítið annað en smáfisk var að finna á þessum kílómetra spotta sem við óðum, héldum við til baka í kvöldhúminu, fengum okkur bita og skriðum undir sæng, bara þokkalega sæl með daginn.

Árla á sunnudagsmorgun

Ekki var nú sunnudagurinn síðri og hreint ekki sem verst að eyða brúðkaupsafmælinu við Hópið. Dagurinn byrjaði stilltur og fagur og svo hlýnaði upp í 12 – 16 °C og aldrei var langt í sólina. Yfir árbítnum ákváðum við að reyna aftur við Myrkurbjörg og því pakkaði ég öllu nauðsynlegasta dóti í bílinn og gerði klárt fyrir daginn, eða það hélt ég að minnsta kosti. Það var ekki fyrr en við vorum næstum komin þessa þrjá kílómetra inn að Myrkurbjörgum að mig rámaði í veiðivestið mitt hangandi inni í vagni. Já, einmitt, ég skildi konuna eftir á veiðistaðnum, skrölti þetta til baka og sótti vestið mitt. Þegar ég hafði loksins klætt mig og var kominn niður að vatni, var þar fyrir nokkuð grobbinn veiðifélagi sem þegar hafði tekið rígvæna fiska og ég sá ekki betur en hún væri bara í flottum málum. Ekki óraði mig, né hana fyrir því sem tók við þar til við urðum að hætta upp úr hádeginu. Í hvert skipti sem sólin náði yfirhöndinni og hellti sér yfir okkur, þá tóku bæði birtingar og sjóbleikjur orange Nobbler eins og enginn væri morgundagurinn. Það var ekki nema rétt á meðan sólin hvíldi sig á bak við ský að tökurnar duttu niður, sem var í sjálfu sér ágæt hvíld því á þessum slóðum er sterkur straumur í vatninu sem tekur í til lengdar.

Afli helgarinnar, hnossgæti næstu vikna

Það er ekki oft sem ég birti hér myndir af afla veiðiferða því það hefur brugðið við að dauðir fiskar fari eitthvað illa í suma. Í þetta skiptið geri ég undantekningu því við tókum með okkur 24 gómsæta fiska á bilinu pund og upp í fjögur úr þessari ferð og það er næsta víst að við eigum eftir að endurnýja kynni okkar af Hópinu næsta sumar. Já, við veiddum okkur til matar og vonum að þeir stuttu sem við slepptum eigi náðuga daga þangað til næst og hafi ekki orðið meint af veiðum og sleppingum okkar yfir helgina.

Þeim sem lítið þekkja til við Hópið skal bent á að fylgjast með síðunni á næstunni því ég hef ákveðið að taka saman gagnlegar upplýsingar um Hópið, þekkta veiðistaði og koma á kort og setja hér inn á síðuna.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 6 66 / 84 / 4 48 / 38 17 / 20

Framvötn 10. & 11. ágúst

Það var með nokkurri tilhlökkun að við lögðum af stað út úr bænum á föstudaginn, stefnan var tekin á Fjallabak og ætlunin að ná í nokkrar bleikjur í harðfisk. Það tekur um það bil 3 klst. að keyra úr Reykjavík inn að Landmannahelli, en þessi tími er fljótur að líða, ólíkt þeim þremur sem sem það tekur að keyra til baka. Svona virkar svæðið einfaldlega á mann, það laðar og vill helst ekki sleppa manni lausum.

Eftir að við höfðum komið færanlega veiðihúsinu fyrir við Landmannahelli var stefnan tekin á Frostastaðavatn. Þetta sumar eru þegar skráðir rétt um 700 fiskar á land úr vatninu og ekki eru öll kurl komin til grafar enn, eitthvað óskráð og oft hefur vatnið verið gjöfult langt fram í haustið. Eins og kunnugir vita, þá hefur farið ýmsum sögum af aflabrögðum og ástandi fiska í vatninu þetta sumar. Síðastliðin ár hafa gefið það til kynna að bleikjan í vatninu hafi það ekkert oft gott, hún er orðinn heldur liðmörg og hefur farið smækkandi. Það er reyndar reynsla okkar hjóna að stærri og betur haldin bleikja leitar inn í kastfæri flugustanga þegar líður á sumarið og því ætluðum við að ná okkur í nokkrar slíkar í þessari ferð.

Frostastaðavatn

Við lögðum leið okkar inn fyrir Suðurnámshraun, kíktum í nokkrar víkur og enduðum á því að leggja flugur okkar niður á þremur stöðum. Himbriminn gerði sitt besta til að fækka bleikjunni í innstu vík hraunsins og við hjálpuðum til. Til að gera langa sögu stutta þá tókum við 20 fiska með okkur úr vatninu og því miður var aðeins lítill hluti þeirra af nýtanlegri stærð. Kenning okkar um stærri fiska féll þar með um sig í þetta skiptið, en við heyrðum reyndar frá góðum kunningjum okkar sem við hittum á laugardaginn að þær (stærri bleikjurnar) hefðu gefið færi á sér í miklu magni undan bílastæðinu að norðan um síðustu helgi.

Blautaver

Úr Frostastaðavatni lögðum við leið okkar í Blautaver eftir að hafa heyrt ágætar sögur af veiði þar. Á síðustu árum hafa ekki margir fiskar verið skráðir úr verinu, en eitthvað hefur ræst úr aflatölum á þessum sumri. Kannski hjálpar það til að Tungnaá hefur valið sér farveg fjær Blautaveri síðustu mánuði heldur en oft áður og því ekki alveg eins greiður samgangur á milli núna. Vatnið er ekki alveg eins litað og oft áður og gera má ráð fyrir að gróður og pöddulíf hafi nýtt sér tærara vatn og dafnað vel í sumar. Það hefur vitaskuld áhrif á fiskinn og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað bleikjan var vel haldin og að Tungnaár-urriðinn væri knár þótt smár væri.

Sólin að setjast á bak við Hnausa  við Eskihlíðarvatn – tekið við Blautaver kl.21

Á leið okkar í náttstað renndum við inn að Dómadalsvatni þar sem við settum í sitthvort parið af urriðum í yngri kantinum. Af öllum ummerkjum að dæma, lífi og narti þá er ekki skortur á upprennandi boltum í vatninu og það verður spennandi að kíkja á þá að ári eða tveimur þegar þeir hafa bætt aðeins á sig. Einn urriði var tekin og kíkt inn í. Var sá pakkaður af skötuormi frá koki og aftur í rauf og greinilegt að nóg er af þessu urriðasælgæti í Dómadalnum. Þegar hitastigið féll skyndilega niður í 5°C rétt fyrir kl.23, var eins og skrúfað væri fyrir allt nart og tökur þannig að við pökkuðum saman og fórum inn í veiðihúsið okkar við Landmannahelli, settum miðstöðina á og bjuggumst í ból eftir síðbúinn kvöldverð.

Við Dómadalsvatn kl.23:00

Það var úr vöndu að ráða á laugardagsmorgun, hvert skyldi halda? Úr varð að við fórum í rannsóknarferð inn að Eskihlíðarvatni. Leiðin að vatninu var víst fær jeppum á 44“ dekkjum og því var það með varúð að við lögðum í þennan leiðangur á okkar borgar- og slyddu jepplingi. Hvað sem menn hafa um þessa ákveðnu tegund bifreiðar að segja, þá átti hann ekki í nokkrum vandræðum með brekkur, sneiðinga og lausan sand og inn að vatni komumst við án nokkurra vandræða. Eskihlíðarvatn er trúlega frægasta dæmi um ris og fall bleikjuvatns að Fjallabaki. Á sínum tíma var sleppt í það bleikju, fiskurinn óx og dafnaði með miklum myndarbrag í nokkur ár en svo tók við skeið offjölgunar, tilraun til grisjunar og að lokum hreinnar uppgjafar fyrir fjölda bleikjunnar. Fyrir nokkrum árum fórum við viðlíka rannsóknarferð inn að vatninu og þóttumst merkja að fiskurinn væri eitthvað að koma til. Þá gátum við meira að segja nýtt eihvern hluta fisksins í harðfisk, en í þetta skiptið var það aðeins 10% sem töldust hæf til slíks. Við tókum sem sagt 20 fiska upp úr vatninu á nokkrum stöðum og aðeins tveir þeirra urðu að flökum sem nýtast.

Eskihlíðarvatn, Löðmundur í baksýn

Eftir þessa vísindaferð okkar komum við rétt aðeins við í Löðmundarvatni og strengdum á línum á móti vindi undir bílastæðinu við Löðmund. Eftir ótilgreindan fjölda kasta og fluguskipti sem færðu öðru okkar það sem líst er sem ‚tikk, tikk, tikk nart‘ þá héldum við leið okkar áfram í vestur og kíktum á Herbjarnarfellsvatn. Eitthvað vorum við lúin eftir vindsperringinn undir Löðmundi og því nenntum við ekki að labba inn með vatninu og reyna fyrir okkur í norð-vestur horninu þar sem líklegast var að fiskur héldi sig undan austan stæðum vindinum. Að vísu sáum við aðeins til fiskjar undir bílastæðinu, en ítrekaðar tilraunir til að lokka hann til töku með ýmsum tegundum nobblera báru ekki árangur. Vel að merkja, það stendur óvenju hátt í Herbjarnarfellsvatni m.v. árstíma, ströndin við suðurbakka vatnsins er á eins metra dýpi og flæðir inn í skútana og hef ég ekki séð jafn hátt í vatninu áður.

Hellisskútarnir við Herbjarnarfellsvatn – mynd frá 2017

Lífið í Dómadalsvatni frá síðasta kvöldi freistaði okkar og því renndum við aftur að vatninu og tókum okkur stöðu við vesturbakkann á móti öldunni. Þar tók frúin ágætan urriða, en ég var helst í því að hrekkja ungviðið sem gerði sér ýmsa fæðu að góðu í öldurótinu við bakkann. Við enduðum daginn á að rölta undir hlíðina við austanvert vatnið, ég fékk eitt högg á mína flugu meðan frúin tók einn þokkalega stóran, en sérstakan í vextinum. Þetta einkennilega vaxtarlag skýrðist síðan þegar gert var að honum. Lengd fisksins hefði gefið til kynna að um 2,5 punda fisk væri að ræða, en hann var sérstaklega linur og mjósleginn. Fyrst datt mér einhver sýking í hug þegar ég flakaði hann, svo ljós var hann og rýr á holdið. Ekkert benti til að hann ætti við heilsubrest að ræða, hvorki sníkjudýr né æxli fundust í honum, raunar fannst ekkert í maga hans heldur, hvorki síli né skötuormur. Það var ekki fyrr en ég þuklaði kokið að skýringin fannst. Þvert í kokinu með nappa sem stungist hafði í gegn, sat steinn kyrfilega fastur og hafði greinilega verið þar nokkuð lengi og þannig komið í veg fyrir að fiskurinn gæti kyngt því sem hann át. Það var því sannkallað náðarhögg sem frúin veitti þessum fiski með rotaranum.

Eftir kvöldverð pökkuðum við veiðihúsinu okkar saman og lögðum af stað heim á leið. Það voru blendnar tilfinningar sem veltust um í kollinum á okkur á leiðinni og þær styttu ekkert þennan þriggja tíma akstur heim. Vonandi koma fiskifræðingar fram með skeleggar tillögur að aðgerðum í Frostastaðavatni því í næstu viku munu þeir væntanlega hnýta endahnútinn á rannsóknir á vatninu sem hófust í fyrra, unnendur Framvatna bíða þeirra og aðgerða spenntir.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
20 / 23 57 / 78 / 4 43 / 34 16 / 19

Veiðivötn 19. & 20. júlí

Það eru rétt rúmar tvær vikur síðan við fórum í okkar árlegu Veiðivatnaferð en síðasta daginn í þeirri ferð vorum við sammála um að við værum einfaldlega ekki búinn að fá nóg af Vötnunum þetta árið og því stefndum við leynt og ljóst á að kíkja þangað aftur. Úr Hrauneyjum er aðeins um 1 klst. akstur upp í Veiðivötn og fyrst við vorum með allt við höndina; veiðigræjur, veiðihús og mat, þá var alveg tilvalið að slá á þráðinn upp í Veiðivötn og athuga hvort ekki væri pláss fyrir eitt fellihýsi og tvær stangir í vötnunum, fimmtudag og föstudag. Jú, það var sjálfsagt mál og þar með vorum við lögð af stað.

Á leið í Veiðivötn – Fossarnir í Vatnakvísl

Þar sem við vorum tímanlega á ferðinni höfðum við nægan tíma til að koma okkur fyrir undir hólnum gengt Ampahól og biðum fimmtudagsins í ofvæni. Að vísu var það einkennileg tilfinning að sjá yfir í Setur þar sem allt aðrir bílar stóðu fyrir utan heldur en við þekktum og annað fólk á ferðinni. Það var ekki laust við að það vantaði einhverja sex góða veiðifélaga í hópinn, við vorum þarna ein án stuðnings og félagsskapar sem við höfum átt að venjast síðustu ár.

Færanlega veiðihúsið okkar í Veiðivötnum

Þið sem í Veiðivötn hafa komið vita auðvitað að svæðið er ekki aðeins veiðisvæði, þarna er náttúrufegurð einstök og þegar maður vaknar til veðurblíðu eins og hún getur best orðið þá er ekkert sem dregur úr aðdáun manns á svæðinu, nema þá helst flugan. Þar sem ákveðin álög virðast loða við mig í Veiðivötnum sem tengjast vöðluskóm, skal það tekið skýrt fram að ég gleymdi þeim ekki heima í þetta skiptið. Aftur á móti gleymdi ég þeim við vagninn þennan morgun og varð því að skjótast til baka eftir þeim úr Hermannsvíkinni austanverðri þar sem veiðifélagi minn byrjaði daginn.

Hellavatn í morgunsárið

Þegar ég var loksins kominn í vöðlur og skó, þótti félaga mínum fullreynt í Hermannsvík þannig að við kíktum í Hellavatn þar sem fiskurinn vakti og át á sig gat af flugu / púpum sem hvorugu okkar tókst að keppa við. Næst kíktum við í Stóra Hraunvatnið en eins og nokkur skipti áður, náðum við ekki miklu sambandi við vatnið, þannig að við héldum til baka að Litlasjó og stoppuðum í Fyrstuvíkinni.

Fyrstavík um nón

Veðrið var gott um morguninn og batnaði bara þegar leið á daginn. Ekki skemmdi fyrir að um alla Fyrstuvík vakti fiskur í óræðu æti, velti sér og hafði greinilega ekkert annað fyrir stafni en fylla kviðinn. Stutta útgáfan hljómar einfaldlega þannig að við yfirgáfum víkina ekki fyrr en við hættumál, rétt fyrir kl. 23:00

Lengri útgáfan hljómar þannig að til að byrja með settum við í nokkra undirmálsfiska sem allir fengu líf, en þegar við færðum köstin örlítið lengra út á víkina komu stærri og stæðilegir fiskar, þetta á bilinu 2 til 4 pund og þeir voru ekki fáir.

Fyrstavík í síðdegissólinni

Hermann kom reglulega við hjá okkur og fékk fréttir af aflabrögðum og flugum sem gáfu; Olive Nobbler með gulum rassi, Svartur og gylltur Nobbler, Veiðivatnagullið, Svartur Nobbler með grænum rassi, sem sagt allar helstu Veiðivatnaflugur sem maður hafði tiltækar í vestinu. Svo voru það aðrar flugur sem ekki gáfu, þær tóku og stundum helst til hressilega. Auk þeirra fiska sem ég tók fékk ég óræðan fjölda af flugnabiti á víð og dreif um kroppinn og eflaust hefur það verið spaugilegt í meira lagi að sjá til mín, berjandi flugur frá mér þegar verst lét. Ég reyndi eins og mögulegt var að fela mig undir flugnanetinu, en mér finnst það bara svo pirrandi að ég laumast ítrekað til að taka það af mér og auðvitað verð ég þá umsvifalaust stunginn.

Á einhverjum tímapunkti, hvenær er mér ómögulegt að tilgreina því tímaskynið hverfur algjörlega á stað sem þessum, duttu tökur aðeins niður eins og gengur. Eftir stutta ládeyðu í aflabrögðum sem við nýttum fyrir kaffi og kleinur tóku fiskarnir aftur við sér þegar leið að kvöldi. Ég er ekki frá því að almennt hafi uppitökur og veltur væru heldur svifaseinni þennan síðari helming og þá helst á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Þar sem það var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér í víkinni færði ég mig út að Hrauni og fylgdist grannt með yfirborðinu. Jú, það var ekki um að villast, þarna var einhver að velta sér í sílinu. Þar sem Veiðivatnagullið var þegar undir var aðeins að velja hvar ég skildi setja fluguna niður; utan við byltuna eða austan við hana? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá man ég ekkert lengur hvar ég setti hana niður, en við fyrsta inndrátt var tekið í fluguna og henni var ekki sleppt fyrr en yfir lauk. Fiskurinn sem tók fór nokkuð víða með fluguna, tók t.d. næstum alla línuna út af hjólinu þar til fór að glitta í undirlínu, rauk til hægri og vinstri, út og þó helst suður. Eftir nokkrar rokur sýndi hann loksins öll sín 8 pund í loftinu með góðu stökki og töluverðu skvampi. Eftir þetta stökk tekur við annað óminni hjá mér, það næsta sem ég man eftir er að fyrir fótum mér liggur þessi glæsilega hrygna í sandinum sem ég tek upp og rölti með til baka að bílnum.

Við bættum síðan nokkrum vænum fiskum við vestast á Hrauninu áður en við pökkuðum saman, vigtuðum okkar 14 fiska og gerðum að, elduðum okkur mjög síðbúinn kvöldverð og lögðumst sæl og ánægð til svefns eftir daginn.

Fyrstavík eins og hún leggur sig

Meira að segja í 10 m/sek og rigningu eru Veiðivötn fallegur staður, en kannski ekkert sérstaklega veiðilegur. Þannig var nú veðrið meira og minna allan föstudaginn. Eins og oft áður reynir maður alltaf að veiða fiskana aftur sem veiðst hafa áður og því byrjuðum við í Fyrstuvíkinni. Eins veiðilegt og það var nú þarna í öldurótinu á móti 8 m/sek, þá urðum við lítið vör við fisk. Held raunar að það hafi aðeins verið nartað lauslega hjá öðru okkar einu sinni. Þegar suðaustanáttin náði spáðum 10 m/sek. tókum við að leita fyrir okkur um veiðistað með hentaði betur fluguveiði í roki.

Við höfðum fregnir af vænum fiskum úr Stóra Hraunvatni og þangað héldum við. Þegar við mættum á staðinn var þar nokkur fjöldi veiðimanna en enginn hafði komið sér fyrir á austanverðu rifinu við Augað þannig að þar settum við okkur niður. Ýmsar flugur reyndar og kastar fram af rifinu inn í Augað. Þegar svo nartað var í Svartan Nobbler með grænum rassi fór hann undir hjá okkur báðum og endaði með því að góður þriggja pundari náðist á land. Þar með er veiði dagsins talin, grín laust. Þrátt fyrir töluvert nart og lausatökur í Auganu, náðum við ekki fleiri fiskum á land og eftir að við prófuðum að veiða beggja vegna við eyðið á milli Augans og Jöklavíkur í smá tíma, héldum við til baka og kíktum á önnur vötn.

Það var einfaldlega ekkert sérstaklega veiðilegt í vötnunum það sem eftir lifði dags. Fámennt var á aðgerðarborðinu um kvöldið, en því fjölmennara í öllum skálum. Sem dæmi um rok og ölduhæð í suðurvötnunum, þá heyrði ég frá einum sem kroppaði nokkrar bleikjur upp úr Snjóöldunni að þar hefðu menn helst verið að halda í við spúninn, ekki hefði verið um eiginlega inndrátt að ræða því hann kom sjálfur á móti mönnum í öldunni, ef hann þá flaug ekki beinlínis í fangið á mönnum.

Svona getur það nú verið í Veiðivötnum, alltaf frábært en stundum ekki mikil veiði í veðrum. Það var nú reyndar ekkert til að kvarta yfir, veðrið á laugardaginn þegar við tókum okkur saman, en því miður lá leið okkar heim á ný og ekki um annað að ræða heldur en koma sér heim, flaka og koma 15 gómsætum urriðum í frystinn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 65 / 6 39 / 30 15 / 18

Kvíslavatn 17. & 18. júlí

Ekki dugði landsfjórðungaferð okkar í síðustu viku til þess að svala veiðifýsninni nema í örfáa daga. Óbyggðirnar kölluðu svo sterkt á okkur í vikunni að við vorum hreint og beint að ærast hér á malbikinu, létum undan á þriðjudaginn og pökkuðum veiðidóti í færanlega veiðihúsið okkar og héldum af stað út úr bænum. Fyrsta stopp voru Hrauneyjar þar sem leitað var upplýsinga um ástand Sprengisandsleiðar, verð á veiðileyfi í Kvíslavatni og hvort ekki væri örugglega hægt að kaupa hálfan og hálfan dag.

Síðast þegar við fórum Sprengisandsleið komu ítrekað upp í huga mér orð eins veiðibloggara með meiru; þessi volaði vegur en að þessu sinni var vegurinn ekki svo volaður og við komumst með veiðihúsið okkar í heilu lagi inn að Kvíslavatni rétt fyrir kvöldmat. Við komum okkur fyrir gengt Þjófanesi, rétt norðan Svartáróss, settum saman stangir og stefndum inn að Svörtubotnum. Við höfðum verið vöruð við því í Hrauneyjum að þann daginn hefði verið seldur nokkur fjöldi veiðileyfa í Kvíslavatn, en ég átti satt best að segja ekki von á að annar hver merktur veiðistaður við vatnið væri setinn, en sú var raunin.

Kerlingarfjöll séð frá Kvíslavatni

Við eyddum lunganu úr kvöldinu á sama staða við Svörtubotna enda engin ástæða til að færa sig þegar fiskurinn hefur áhuga á því sem honum er boðið. Við félagarnir tókum sitt hvora tvo urriðana áður en við héldum til baka að fellihýsinu. Þar sem klukkan var ekki nema rétt um 22:00 og allir sem verið höfðu við Svartárós voru á bak og burt, þá ákváðum við að renna út á tánna og veiða skil Svartár og Kvíslavatns. Kvöldið lék hreint og beint við hvern sinn fingur og sólarlagið á bak við Hofsjökul smellti rauðleitum blæ á himinn.

Ómetanlegt KODAK moment á fjöllum

Kvöldinu lauk þannig að veiðifélagi minn setti í tvö prýðilega urriða í skolaða hlutanum á meðan ég rembdist eins og rjúpa við staur að ná þessum skemmtilega sem var að skvetta sér í tæra hlutanum, án árangurs.

Morguninn eftir fórum við alveg inn að botni í Svörtubotnum, þóttumst alveg vera með þetta þar sem vindurinn stóð inn víkina og að öllu gefnu þá hefði urriðinn átt að vera að rótast í ætinu þar. Annað kom nú á daginn og við enduðum á því að fara aftur á staðinn þar sem við höfðum verið kvöldið áður. Það sem hafist upp úr því krafsi voru fimm rígvænir urriðar hjá veiðifélaga mínum og þrjú hressileg flugnabit hjá mér.

Tilraun til sköturoms

Vel að merkja, allir urriðarnir sem við tókum voru smekkfullir af skötuormi en enginn þeirra leit við tilraunum mínum með flugu sem á að líkjast því kvikindi. Kannski þarf ég aðeins að spá betur í inndrætti o.s.frv. þegar ég prófa þá flugu næst. Hvað um það, eftir að við kláruðum síðari hálfan daginn okkar renndum við aftur niður í Hrauneyjar, fylltum á bílinn og héldum ferðalaginu okkar áfram ….

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 65 / 2 30 / 24 14 / 17

Ferðalok 13. júlí

Eftir sérstaklega ánægjulegt ferðalag okkar um Austfirðina og Hérað í síðustu viku, lá leið okkar heim á leið að kvöldi 13. júlí og valið stóð um að keyra í einni lotu eða koma við á einum stað, hvort heldur til að gista eða bleyta færi. Fyrir valinu varð að staldra við rétt austan Jökulsár á Breiðamerkursandi.

Breiðamerkursandur geymir nokkur áhugaverð vötn sem eiga samgang við Jökulsárlón. Þetta svæði er viðkvæmt frá náttúrunnar hendi, sand- og urðaröldur með víkjandi gróðri og því sérstaklega áríðandi að menn virði lokanir slóða og haldi sig sem mest á fæti, sleppi eins og mögulegt er að aka um svæðið.

Jökulsárlón á miðnætti

Stoppið okkar var ekki langt, en nóg til þess að við tókum með okkur eina sjóbleikju og átta mjög góða urriða, fylltum þannig á orkubirgðirnar og ókum heim á leið rétt fyrir miðnættið.

Þessi ferð okkar hjóna austur á land var tvíþætt. Í fyrsta lagi vorum við hreint og beint búin að fá upp í kok af sunnlenska sumrinu og svo hefur okkur lengi langað að leggja í svona óvissuferð um Austfirðina, leita veiðileyfa þar sem okkur þóknaðist, helst beint frá bónda án nokkurs milliliðakostnaðar, prófa eitthvað nýtt.

Við leituðum víða upplýsinga, gættum þó hófs í að banka uppá hjá ábúendum, en alls staðar þar sem okkur bar að garði var okkur vel tekið og elskulega. Mér tókst að afla töluverðra upplýsinga um svæðið og ástand bleikjunnar, eitthvað sem ég kem örugglega til með að nýta í pælingum mínum næsta vetur. Í þessum greinarkornum mínum frá 11. til 13. júlí hefur berlega komið í ljós að við gerðum ekki feita för í afla þar sem okkur bar niður. Við leituðum fyrir okkur á nokkrum stöðum, bæði fyrir ferðina og eftir því sem okkur miðaði áfram, staðir sem ekki hafa verið nefndir hér en fengu því miður umsagnir eins og; áin er hreint og beint ónýt, fiskur úr Lagarfljóti hefur alveg horfið, engin veiði síðustu ár, alveg drepist eftir að fiskeldið kom í fjörðinn o.s.frv. Þetta eru ljótar lýsingar, en því miður koma þær ekki allar á óvart en vekja ótal spurningar í huga mér um það gildismat sem þessi þjóð leggur til grundvallar þegar kemur að framkvæmdum og atvinnubótum. Úr þessari ferð tek ég með mér fullvissu um endalausa möguleika á ferðatengdri þjónustu við stangveiðimenn, möguleika sem geta skapað viðvarandi störf en eiga enga samleið með núverandi framkvæmdagleði og útþennslu fiskeldis í sjó.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 65 / 2 21 / 22 13 / 16

Hamarsá 12. & 13. júlí

Eftir ánægjulega dvöl okkar við Stöðvará héldum við ferð okkar áfram um austfirðina og við tók róleg heimför. Við vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að keyra enn eitt skiptið síðasta ómalbikaða spotta þjóðvegar nr. 1 á leið okkar um Berufjörð á leið okkar til Djúpavogs. Frá Djúpavogi lá leið okkar inn Hamarsfjörð þar sem við ætluðum að leita færis á veiðileyfi í Hamarsá. Kunnugir muna væntanlega eftir stórfelldum vatnavöxtum í Hamarsá s.l. haust og enn má sjá nokkur merki þeirra í farvegi og umhverfi árinnar.

Veiðileyfi fengum við á Bragðavöllum og með þeim heldur daprar fréttir af bleikjuveiði í ánni. Svo virðist sem viðkoma bleikjunnar hafi algjörlega brugðist á liðnum árum og er ekki nema svipur hjá sjón m.v. það sem áður var. Enn og aftur, vel getur verið að við höfum verið heldur snemma á ferðinni í sumrinu, en mér skilst að tveir veiðimenn hafi eytt heilum degi við að berja ána fyrir nokkru og aðeins uppskorið tvær bleikjur.

Snædalsá

Við renndum inn að Snædalsá ofan við Bragðavelli, skimuðum nálægt alla ána niður að ármótum við Hamarsá en sáum ekki nein ummerki bleikju. Það eitt að hvorki seiði né uppvaxta fiskur sæist í Snædalsá var ekki góðs viti, því að sögn er áin mjög mikilvæg hrygningar- og uppeldisá bleikjunnar í Hamarsá.

Kvöldinu eyddum við í dásamlegu veðri, gengum með Hamarsá og skimuðum eftir fiski alveg niður að gömlu brúnni við Bragðavelli. Það var huggun harmi gegn að við sáum töluvert af veturgömlum bleikjuseiðum í aflænu undir hömrunum rétt ofan Bragðavalla, þar sem er ungviði, þar er von.

Hamrarnir neðan Bragðavalla

Þegar okkur þótti fullreynt þetta kvöldið, drógum við okkur í bólið og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar á flóðinu morguninn eftir.

Gamla brúin yfir Hamarsá

Næsta morgun bar svo við að langþráð úrkoma Austfirðinga lét á sér kræla. Fyrir okkur var léttur úðinn aðeins áminning þess hvernig sumarið hefur verið sunnan heiða það sem af er, en hitastigið var samt sem áður með því besta sem gerst hefur þannig að úrkoman kom ekki að sök. Við hófum leika fyrir neðan brúnna á þjóðveginum, veiðifélaginn stefni út að ós en ég upp að brú. Aðfallið kom, liggjandinn leið og ekkert gerðist þrátt fyrir að allar þekktar sjóbleikjuflugur væru viðraðar, hnýttar á og baðaðar. Að vísu fékk veiðifélagi minn einhver viðbrögð (bleikjunart fullyrti hún) niður undir ós, en síðan ekki söguna meir. Í sameiningu töltum við upp með ánni að gömlu brúnni, prófuðum ýmsa álitlega staði og þekktar flugur, en ekkert kom á land. Að lokum fórum við síðan bæði niður undir ós, þöndum línur út á breiðuna, skiptum um flugur í nokkur skipti til viðbótar, en gáfumst fljótlega upp og pökkuðum saman.

Eftir að hafa komið veiðifréttum áleiðis til ábúenda að Bragðavöllum, renndum við sem leið lá inn í sunnlensku rigninguna sem tók mjög ákveðið á móti okkur upp af Hamarsfirði og fylgdi okkur allt til Reykjavíkur. Að vísu áttum við smá viðkomu rétt austan Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi um kvöldið sem sagt verður frá síðar. Að lokum langar mig að geta þess fyrir þá sem ekki draga veiðihúsið sitt með sér eins og við hjónin, þá er afskaplega snotur smáhýsaútgerð að Bragðavöllum og vel þess virði að staldra þar við og njóta umhverfis og aðbúnaðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 12 / 15

Stöðvará 12. júlí

Áður en kemur að frásögn úr Stöðvará, þá kemur hér formáli í nokkrum liðum. Á leið okkar um Berufjörð og inn að Öxi keyrðum við yfir og meðfram Berufjarðará. Mér er eiginlega ómögulegt að leggja mat á hvort þessi fallega á beri einhvern fisk því það mátti vart sjá í hana fyrir haugum af möl sem ýtt hafði verði upp úr farvegi hennar. Það er greinilegt að þar sem meiri peningur fæst fyrir möl heldur en sölu veiðileyfa, þá er lífríkið látið víkja. Það getur eiginlega ekki annað verið heldur en þessi snotra á hafi, einhverra hluta vegna þegar verið ónýt, því annars hefði Fiskistofa ekki heimilað efnistökuna eina og hún var framkvæmd þarna.

Eftir heimsókn okkar í Skriðuvatn og stuttan stans á Egilsstöðum renndum við yfir á Reyðarfjörð og þaðan yfir á Eskifjörð því við höfðum haft spurnir af því að bleikjan væri farin að sýna sig þar. Mér dettur ekki í hug að tala ár niður í ræðu eða riti, en vegsummerki efnistöku og almennt umhverfi Eskifjarðaár var hreint og beint ekki til þess fallið að við hefðum hug á að bleyta þar færi. Auðvitað er það gulls í gildi að hafa sjóbleikjuá við bæjardyrnar og ég sá ekki betur en bæjarbúar, og mögulega gestir, væru sáttir við þessa á og nýttu hana. Ekki sá ég neinn taka fisk, en ég stoppaði heldur ekki lengi á bökkunum og hélt þess í stað aftur inn á Reyðarfjörð og þaðan yfir til litla Frakklands, Fáskrúðsfjarðar þar sem við náttuðum.

Fyrir botni Stöðvarfjarðar, næsta fjarðar sunnan Fáskrúðsfjarðar, rennu Stöðvará til sjávar um fallegt ósasvæði. Eftir því sem mér skilst er helst von á bleikju á neðsta svæði árinnar fram undir ágúst en þá fikrar hún sig ofar í ána. Ósasvæðið er í sölu hjá ferðaþjónustunni að Óseyri og þangað snérum við okkur um leyfi sem var auðsótt mál.

Stöðvará ofan brúar

Það má segja að ósasvæði árinnar skiptist við brúnna. Neðan brúar er víðfermt svæði og ofan brúar er töluverður spotti áður en kemur að landamerkjum Óseyrar og Stöðvar. Við vorum svo heppin að vera á staðnum á aðfallinu og vel fram fyrir liggjandann sem kunnugir segja mér að sé besti tíminn í sjóbleikjunni. Ekki urðum við mikið vör við fisk, sáum tvo rétt innan við brú á liggjandanum, en þeir vildu ekkert sem ég bauð þeim og voru víst meira á leiðinni til sjávar en lengra upp ána.

Hreiður við Stöðvará

Hvort við vorum yfir höfuð of snemma á ferðinni, þ.e. á sumrinu skal ég ósagt látið en þetta var eina lífið sem við sáum í ánni. Öðru máli gegnir um lífið á óseyrinni, þar voru kollur með unga sína, kríur í ham og töluvert af fugli í flæðarmálinu. Það er því vissara að gæta sín hvar stigið er niður fæti á þessum slóðum. Þetta er fallegt svæði og ætti að vera auðvelt viðureignar, meira að segja fyrir byrjanda eins og mig og ég mæli hiklaust með því að leita fyrir sér um leyfi í ósnum þegar líður á sumarið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 11 / 14

Skriðuvatn 11. júlí

Það verður að teljast mikil blessun að til séu vötn sem maður á eftir að prófa. Þótt skömm sé frá því að segja, þá hef ég í ótal skipti keyrt framhjá Skriðuvatni í Skriðdal en á miðvikudaginn skyldi ekki keyrt framhjá. Þegar við komum niður að vatninu að norðan lifnaði heldur betur yfir okkur veiðifélögunum, stinningskaldi úr suðri, hlýtt og þurrt veður og aldan boðaði eitthvert rót af æti við bakkann.

Rétt í þann mund sem við vorum að draga á okkur veiðigallann, mættu fleiri veiðimenn á svæðið vopnaðir kast- og flugustöngum. Á daginn kom að þar var mættur við annan mann veiðimaður sem hafði þegar farið þrisvar í vatnið án þess að verða var við fisk. Allt er þegar þrennt er, fullkomið í fjórða og nú hafði hann hug á næla í fisk. Miðað við allt og fyrri reynslu okkar af urriðavötnum eins og Skriðuvatni, þá hefði það átt að vera auðvelt mál. En svo bregðast krosstré sem önnur og það fór svo að enginn fiskur lét sjá sig og samtals voru það fjórir veiðimenn sem fóru heim með öngulinn í rassinum eftir ýmsar tilraunir meðfram norðurbakkanum og allt niður að landamerkjum í Múlaá.

Espresso að malla við Skriðuvatn

Það verður víst að bíða betri tíma að ná fiski úr þessu vatni, en það er þó loksins búið að prófa það. Sárabót dagsins var að espressokaffið smakkaðist sérstaklega vel beint af ferðaprímusinum áður en við héldum ferð okkar áfram niður á Egilsstaði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 10 / 13

Búlandsá 11. júlí

Það voru ekki aðeins sleitulausar rigningar síðustu mánaða sem urðu til þess að við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í víking í vikunni. Okkur hefur lengi langað til að kanna veiðimöguleika á suðaustan- og austanverðu landinu. Þriðjudagur er ekkert verri dagur en hver annar til að leggja af stað í veiðiferð, sérstaklega ekki þegar maður er í sumarfríi.

Rétt norðan Djúpavogs er lítil, mjög lítil og krúttleg á sem forðum var orðlögð fyrir öflugar göngur sjóbleikju en hefur hin síðari ári lotið í lægra haldi fyrir almennu áhugaleysi sjóbleikjunnar á uppgöngu í hana sem viðmælandi minn á miðvikudaginn vildi tengja á einhvern óskiljanlegan hátt við uppbyggingu sjókvíaeldis í Berufirði hin síðari ár. (Vonandi fer kaldhæðni mín ekki á milli mála hér að framan).

Búlandsá

Eftir að við höfðum tryggt okkur leyfi til veiða voru léttari græjurnar teknar fram, þurrflugur hnýttar á tauma og haldið að Silungahyl sem er einn margra veiðilegra staða í Búlandsá. Það er ekki ofsögum sagt að áin er ekki vatnsmikil en falleg er hún og sömu sögu má segja af umhverfinu. Það leið ekki löng stund þar til fyrsti fiskurinn óð í þurrfluguna sem ég lagði niður með öllu hinu ætinu sem safnast hafði saman við hylinn. Lítil á, lítill fiskur skaust upp í huga mér þegar ég losaði fluguna varlega úr bleikjunni og sleppti henni aftur út í hylinn.

Ég rölti upp að Brekkuhyl og Nafnlausahyl í leit að fiski en því miður var lítið um stærri fisk í ánni heldur en sem samsvarar 15 gr. Toby spún. Þegar nálgaðist liggjandann færðum við okkur á neðri svæði árinnar, skönnuðum hverja einustu breiðu, hyl og poll, vel niður fyrir brú á þjóðveginum og út að ós. Veiðifélagi minn setti í einn titt á breiðunni ofan við brú, en síðan ekki söguna meir.

Tittur úr Búlandsá

Það er greinilega af sem áður var með á þessa og hver sem orsök þess er, þá er það miður. Áin er falleg og þótt hún sé ekki með vatnsmestu fljótum landsins, þá getur hún örugglega fóstrað nokkrar sjóbleikjur ef þær væru til staðar á annað borð.

Veiðileyfi í þessa krúttlegu á má nálgast hjá landverði að Teigarhorni, veiðistaðakort á vef Teigarhorns og þá ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir tvo veiðimenn að sitja fyrir sjóbleikjunni ef hún lætur sjá sig. Að því gefnu að eitthvað sé eftir að lifandi bleikju í Berufirði þá gæti það gerst á næstu vikum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 64 / 0 15 / 20 / 12

Veiðivötn 1. – 5. júlí

Þrátt fyrir misjafnar fréttir veiðimanna ofan úr Veiðivötnum, þá er alltaf jafn mikil spenna í loftinu þegar árleg Veiðivatnaferð okkar brestur á. Veðurspá, misjafnar aflatölur og almennur barlómur hefur engin áhrif á mann þegar malbikinu hefur sleppt og nýlendan við Tjaldavatn blasir við manni, maður er eiginlega kominn heim. Hitastig og tíðarfar uppi á hálendi hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir það sem af er sumri en um leið og það hlýnar örlítið, þá fara ævintýrin að gerast.

Skálavatn, Langavatn og Tjaldavatn 2018

Fyrsti dagurinn okkar í Veiðivötnum, sunnudagurinn 1. júlí var víst óvenju góður hvað hitastig varðar og við veiðifélagarnir ákváðum að kanna syðri vötnin til að byrja með og þá helst einhver þeirra smærri. Arnarpollur varð fyrir valinu enda hefur sá pollur alltaf togað í mig frá því ég fékk minn fyrsta fisk þar, stór og vænn drjóli sem kúrði sig á næstum 13 metra dýpi í gígnum. Að vísu hljóp enginn slíkur á mína flugu í þetta skiptið, en veiðifélagi minn tók einn vænan urriða eftir skamma stund við vatnið. Þess má geta að síðar í ferðinni fóru tveir félagar okkar í Arnarpoll og krydduð sagan segir að einn rosalegur drjóli í vatninu sé að safna skrautlegum tannfyllingum. Í þessari ferð hópsins safnaði hann koparlituðum Nobbler með taum og alles og til viðbótar hirti hann glitrandi spún af öðrum veiðimanni sem hann er nú með í hinu munnvikinu. Ef einhverjir hafa hug á að næla í þennan fisk eru þeir hvattir til að tryggja alla hnúta vel og vandlega áður en haldið er til veiða.

Ekki stöldruðum við lengi við í Arnarpolli því fljótlega bárust fréttir frá félögum okkar af góðri veiði í Fyrstuvík við Litlasjó. Það var eins og við manninn mælt að hækkað hitastig hafði hvetjandi áhrif á fiskinn til að sýna sig og þegar ætið fór að rótast upp við bakkann fór urriðinn hamförum. Því miður tók vind að hvessa svo hressilega eftir að við komum í Fyrstuvík að við, vegna þess að flugurnar okkar náðu ekki eins langt út og spúnar og beitur, urðum svolítið af öllu fjörinu. Mér tókst þó að særa einn fisk upp með Orange Nobbler eftir töluverðan barning við Kára karlinn.

Orange Nobbler með UV ívafi

Ekki var nú alveg sama hitastigið á mánudagsmorgun og daginn áður, en við kíktum aðeins á Stóra Hraunvatn og Hellavatn þar sem töluvert líf var með fiski sem óð þar í klakflugu. Veiðifélagi minn gerði ítrekaðar tilraunir til að keppa við náttúrulegu fæðuna en án árangurs þannig að við stoppuðum ekki lengi.

Eftir smá viðkomu í Ónefndavatni þar sem stórir fiskar ku leynast, fórum við aftur í Arnapollinn og þá helst með það fyrir augum að hvíla kastvöðvana og komast í örlítið stilltara veður því vind hafði tekið að sperra. Þar fækkuðum við urriðum vatnsins um þrjá, engir risar en ágætur fiskur sem lét glepjast af nokkuð klassískum útfærslum Veiðivatnaflugna, s.s. gyltum og brúnum Damsel afbrigðum.

Brúnn og gylltur Damsel

Blíða þriðjudagsmorguns var slík að við gátum ekki annað en stoppað í Fyrstuvík við Litlasjó og spreytt okkur með þurrflugur og ýmsar aðrar þar sem urriðinn vakti og velti sér í flugunni. Þar sem okkar flugur vöktu ekki neina sérstaka lukku, tókum við stefnuna að Hraunvötnunum, stöldruðum við á bökkum Nýrans og fengum okkur bita í blíðunni. Það hljóta að teljast forréttindi að geta snætt árdegisverð með útsýni sem þetta fyrir augunum, stund sem ekki gleymist.

Nýrað og Rauðigígur

Leynt og ljóst ætluðum við reyndar í Hellavatnið, en þegar þangað var komið reyndist margmenni þar nokkuð og því snérum við undan og leituðum til suðurs á ný.

Eskivatn er eitt þeirra vatna sem geyma urmul af bleikju sem við höfðum aldrei spreytt okkur á. Þegar við keyrðum framhjá Eskivatnskjafti var svo mikið líf þar að við gátum ekki setið á okkur og smelltum í nálega tug bleikja á mjög stuttum tíma. Eins og kunnugir vita, þá er nokkur stærðarmunur á bleikjunni í Eskivatni og þeirri sem hefur komið sér fyrir í Langavatni þar austanvið og það sannaðist heldur betur á þessum fiski sem við tókum. Heldur var hann smár og er greinilega liðmargur í Eskivatni.

Á vatnahringi okkar þennan dag reyndum við fyrir okkur á nokkrum stöðum, en heldur var fátt um fína drætti þannig að þegar vindur tók sig upp síðdegis og okkur taldist til að hann stæði næstum beint á Litlutá við Litlasjó, tókum við stefnuna þangað. Þar enduðum við daginn með því að taka sjö væna urriða á land á klassískar Veiðivatnaflugur. Litlatá hefur alltaf reynst okkur vel og það brást ekki frekar í þetta skiptið.

Svartur og gylltur Damsel

Síðasta daginn okkar í Veiðivötnum höfðum við ákveðið að byrja á bíltúr inn að Skyggnisvatni minnug þeirra ágætu fiska sem við tókum þar í fyrra. Eins og ég lét út úr mér, það gekk á með blíðu við vatnið og dulúð umhverfisins fékk heldur betur að njóta sín.

Útfall Skyggnisvatns
Sama sjónarhorn 15 mín. síðar

50 Shades of Grey hafði konan mín orði á þegar við ókum í dumbungi niður að vatninu. Hvergi aðra liti að sjá og kyrrðin algjör þegar þokuslæðingurinn lagðist yfir. Ég er ekki viss um að lesendur geti gert sér í hugarlund þvílík þögn getur orðið í veðri sem þessu. Það heyrist ekki einu sinni í línunni renna í lykkjum, flugan fellur hljóðlaust á vatnið, fuglar halda niðri í sér andanum og smágerð gáran fellur hljóðlaust að landi. Inni á milli braust sólin fram og baðaði Skyggni geislum sínum og bleikjan fór hamförum í uppitökum.

Rétt fyrir seinna kaffi fórum við niður í Norsaravík og tókum sitthvorn urriðann, en þegar verulega hægðist þar um ætluðum við að færa okkur inn á Litlutá eða þar í grennd. Reyndar fór það nú svo að við fórum aldrei lengra en inn í Fyrstuvík og eyddum kvöldinu þar í ævintýri eins og þau gerast skemmtilegust við Litlasjó. Létt gola stóð á ská upp á ströndina og fiskur óð þar um allar fjörur í æti þannig að við settum hefðbundnar Veiðivatnaflugur undir, þöndum köstin út að vöðunni og drógum hratt inn. Það má segja að fiskur hafi verið vaðandi alveg frá Hrauni og inn að miðri Fyrstuvík og þeir voru sérlega vænir. Veiðifélagi minn missti fjóra bolta sem höfðu betur í baráttunni, nýttu sér þreytta hnúta á taumaendum og flugum, sjálfur missti ég tvo, en þeir voru töluvert fleiri sem komu á land. Við urðum líka vitni að því þegar tröll eitt mikið tók alla línuna + undirlínu út hjá félaga okkar. Krafturinn í þeim fiski var slíkur að ekkert varð við ráðið og fór svo að hann losaði sig af og kvaddi með miklu skvampi.

Á ákveðnum tímapunkti var eins og brúnu- svörtu og orange flugurnar hættu að vera spennandi og það var ekki fyrr en félagi okkar datt niður á olive Nobbler að fjörið upphófst að nýju. Hvort það var birtustig eða fæðuframboð sem breyttist, þá sannaði þessi fluga sig heldur betur þetta kvöld.

Olive Nobbler

Í svona ævintýri hverfur allt tímaskyn, fjöldi kasta verða óteljandi og fingur sem halda við línu fara fljótlega að láta á sjá. Lærdómum kvöldsins varð helstur; tryggja hnúta, nota sterkara taumaefni og nota stripp-smokk áður en fer að blæða úr fingrum. Til marks um tökugleði urriðans þetta kvöld má nefna að á hálftímanum frá 22:30 – 23:00 tók félagi minn þrjá væna fiska og ég fimm, alla á sama staðnum og á sömu fluguna.

Heilt yfir þá var þessi Veiðivatnaferð hópsins mjög góð, átta veiðimenn veiddu nánast 300 fiska þessa daga, misjafnlega mikið hvern dag en alltaf einhver með flotta veiði. Sumir fóru sérstaklega rólega af stað (eins og ég og veiðifélagi minn) á meðan aðrir tóku fyrsta daginn með trompi og héldu góðum dampi alla dagana. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég horfði á aflatölur eftir fyrstu dagana, þá var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér, en síðan fór heldur betur að réttast úr þessu og eins og svo oft áður var síðasta kvöldið það besta. Ég og veiðifélagi minn enduðum ferðina í samtals 76 fiskum á land og ótöldum fiskum sem var sleppt. Það verður ánægjulegt að rifja upp stemminguna úr þessari veiðiferð þar til á næsta ári þegar við mætum aftur, full tilhlökkunar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
18 / 24 36 / 63 15 / 19 15 / 20 / 11

Þingvallavatn 24.júní

Þar sem ég fór einn í Framvötnin á laugardaginn og kom til baka með 25 bleikjur var ekki nema sanngjarnt að gefa veiðifélaga mínum færi á að jafna metin í dag, sunnudag. Þingvallavatn hafði enn ekki verið sigrað þetta sumarið, veðrið milt og gott og því var stefnan tekin á Tóftir í dag.

Til að koma stuttri sögu til skila, þá var ekki alveg eins mikið líf við Tóftirnar eins og við höfðum gert okkur vonir um, en vissulega vakti það vonir okkar um fisk þegar við mættum veiðimanni þar með nokkrar vænar bleikjur í farteskinu. Því miður náðum við hvorki að kasta kveðju á viðkomandi né rekja úr honum garnirnar um flugur eða aðferðir, þannig að við renndum bara blint fyrir þær bleikjur sem mögulega voru eftir við eyjuna, þaðan sem hann kom.

Eftir smá stund tókum við eftir hreyfingu við yfirborðið, jú þær voru þarna í æti og því settum við þurrflugur undir og niðurstaðan varð ein hjá mér og þrjár hjá veiðifélaganum. Að vísu voru þær allar undir máli og því sleppt, ekki einu sinni teknar myndir af þeim og því verður mynd af veiðifélaga okkar, óðinshananum að duga frá Þingvöllum í dag.

Þegar okkur þótti fullreynt að ná stærri fisk í Tóftum renndum við að Þjónustumiðstöðinni í smá kaffisopa og síðan í Vatnsvikið. Enn styttri útgáfa, ekki einn einasti fiskur gein við flugum okkar þannig að við fórum fisklaus heim. Eins gott að við eigum bleikjur úr Framvötnum í ísskápinum.

Ef að líkum lætur verður næsta veiðiferð okkar félaganna að viku liðinni í Veiðivötn. Fram að þeim tíma verða græjurnar bónaðar, flugur taldar og fyllt á það sem vantar. Sjálfur ætla ég að passa einstaklega vel upp á að taka með mér vöðluskó, helst öll þrjú pörin mín í þetta skiptið. Þeir glotta sem muna eftir síðustu ferð minni í Veiðivötn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 18 / 39 0 / 0 0 / 1 / 10

Framvötn 23.júní

Það er náttúrulega eitthvað að þeim veiðimanni sem smellir í 360 km. fram og til baka á 12 tímum til þess að komast í ákveðið vatn til að veiða, en það gerði ég einmitt á laugardaginn þegar ég brenndi upp að Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að skila í lok dags. Ferðinni var heitið í Frostastaðavatn og einhver þau önnur vötn sem lægju vel við höggi og þá helst töku.

Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) inn að Landmannahelli var nýlega opnuð og enn hafði þunglestuðum túristaferjum ekki auðnast að breyta henni í þvottabretti eða dusta af henni ofaníburðinn þar sem hann er þynnstur. Vel að merkja, vegurinn frá Landmannahelli til austurs er enn lokaður vegna bleytu þannig að ferðalangar verða að láta sig hafa það að aka til baka að vöðunum á Helliskvís og Rauðfossakvísl og þaðan inn Kringlu í átt að Dómadal og Frostastaðavatni.

Frostastaðavatn 23. júní 2018

Einhvers staðar las ég að meðalhæð Hollywood leikara væri vel undir meðalhæð almennings. Þetta kitlaði mig aðeins á laugardaginn þegar ég setti í hverja bleikjuna á fætur annarri í Frostastaðavatni sem náði ekki þeirri stærð sem ég hefði óskað. Samhengi þessa er e.t.v. heldur langsótt en það á rætur að tekja til nýlegs sjónvarpsþáttar þeirra tvibba Gunna og Ása þar sem þeir heimsóttu Frostastaðavatn. Gat það virkilega verið að skyndileg frægð bleikjunnar í Frostastaðavatni hefði stigið henni svo til höfuðs og aðeins væri teflt fram fiskum af svipaðri stærð og Hollywood leikurum? Nei, það er nú ekki svo, en vissulega var það áberandi hve fiskurinn var smágerður, nettur, stuttur í annan endann eða hvaða lýsingu maður getur gefið á fiski sem ekki nær meðalstærð síðustu ára. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að oftar en ekki hefur verið smá bið eftir stærri fiski upp að Suðurnámshrauni á vorin (vorið nær nokkuð langt inn í sumarið á hálendinu) þannig að það kom mér ekkert á óvart að þegar ég náði lengri köstum út á vatnið, þá komu aðeins vænni fiskar.

Væn bleikja úr Frostastaðavatni á laugardaginn

Eftir að ég hafði eytt tveimur tímum undan Suðurnámshrauni rölti ég til baka og færði mig að vatninu að norðan. Í fyrstu ferð minni í fyrra óð ég eftir malarrifinu undir Frostastaðahrauni og náði þannig til nokkuð vænni fiskjar ef ég veiddi eins utarlega og mér var unnt og þetta langaði mig að prófa aftur. Þetta árið er ekki eins mikið í Frostastaðavatni og á sama tíma og í fyrra en yfirdrifið samt. Næst austurbakkanum var nóg af fiski og á í hverju kasti, smár fiskur en nokkuð vel haldinn. Sem því næst fyrir miðju hrauni var fiskurinn aðeins stærri, ekki þó stór, en í mjög góðum holdum. Annars langar mig sérstaklega að taka það fram að í þessari ferð fékk ég ekki einn einasta sláp, þ.e. þessa hausstóru og mögru fiska sem stundum hafa verið áberandi í vatninu á vorin. Þegar allt var talið, stórt og smátt, voru það 25 fiskar sem ég tók úr vatninu (hirti allt, líka smælkið) og þeir vigtuðu tæp sex kíló. Það gerir meðalvigt upp á 240 gr. sem er vitaskuld ekkert sérstök vigt.

Nýipollur í Dómadal 2018

Eftir Frostastaðavatn renndi ég aftur í átt að Dómadal ef svo bæri undir að þokkaleg kastátt væri við Dómadalsvatn. Á leiðinni keyrði ég framhjá Nýjapolli sem enn eitt árið kom sér fyrir í Dómadal. Þetta árið er hann aftur á móti ekki til trafala og snertir Landmannaleið nánast ekkert.

Skaflar við vesturenda Herbjarnarfellsvatns

Þar sem vindur var nokkur í Dómadal og ég orðinn heldur blautur og kaldur, ákvað ég að renna til baka að Landmannahelli en kom þó við í Herbjarnarfellsvatni og barði það augum og flugum í smá stund. Ef mér skjátlast ekki því meir, þá var ég trúlega fyrsti veiðimaður að vatninu þetta sumarið því ekki sá ég nein bílför í átt að því og nokkurn spotta varð ég að aka eftir minni því vegurinn var hvergi sjáanlegur. Ég held að þetta sé það mesta sem ég hef séð í vatninu og greinilegt að það getur alveg hækkað enn meira í vatninu ef allur snjórinn sem var við bakkana skyldi taka upp á því að bráðna snarlega. Að vísu þarf þá eitthvað að hlýna eða rigna enn meira í sumar heldur en þegar hefur gert.

Skaflar í austurenda Herbjarnarfellsvatns

Þegar mér þótti fullreynt að ná fiski upp úr jökulköldu Herbjarnarfellsvatni hélt ég til baka að Landmannahelli, skilaði veiðiskýrslunni minni og kastaði kveðju á hóp Ármanna sem komnir voru í hús og annan hóp sem ég hitti fyrr um daginn. Það gladdi mitt litla hjarta þegar ég hitti þann hóp í Dómadalnum og sá að þeir voru með handbært prent af samantekt minni um Framvötn frá 2016. Það kemur þá mögulega einhverjum að gagni sem ég set hér fram á síðunni.

Því miður var það samdóma álit allra sem ég hitti á laugardaginn að þeim þótti fiskurinn heldur smár í Frostastaðavatni og deginum ljósara að bleikjan er heldur liðmörg. Til einhverra ráða verður að grípa þannig að ekki fari illa fyrir vatninu og bleikjustofninum. Ég ber nú samt þá von í brjósti að þegar sumarið gengur fyllilega í garð að Fjallabaki, þá komi stærri fiskar í kastfæri í Frostastaðavatni, rétt eins og gerst hefur undanfarin ár.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 25 15 / 38 0 / 0 0 / 1 6 / 9

Þingvallavatn 20.júní

Það var svei mér alveg eins og sumarið hefði skotið upp kollinum í dag hér sunnan heiða og því þótti okkur veiðifélögunum við hæfi að skunda á Þingvöll og halda upp á daginn. Við vorum langt því frá þau einu sem fengu þessa hugdettu, bæði ferðalangar og veiðimenn fjölmenntu á Þingvöll seinnipart dags.

Við fórum í Vatnskotið, gengum fyrir Vatnsvíkina, kíktum út í eyju og þræddum ströndina vestur að Breiðatanga og annað okkur uppskar eina góða töku, en enginn fiskur kom á land. Að lokum kíktum við í Vatnsvikið, en þar var fiskurinn ekkert í meira stuði þannig að við fórum fisklaus heim, en með lungun full af fersku lofti og sól í hjarta.

Í þessari ferð sannaðist það að það eru líka til þeir veiðimenn sem núlla á Þingvöllum þrátt fyrir að margir hafi gert mjög góða veiði þar upp á síðkastið. Eitt er þó víst, rykfallnar Þingvallaflugur fengu bað og eru nú hreinar og sætar, til í tuskið ef það kemur annar sumardagur þetta árið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 15 / 13 0 / 0 0 / 1 6 / 8

Hlíðarvatn í Selvogi 15. – 17. júní

Það er varla að maður þori að játa að ég tók veiðiferð og afmælisveislu fram yfir landsleik í fótbolta um helgina, en það var nú samt svo. Við veiðifélagarnir áttum sitt hvorn daginn í Hlíðarvatni í Selvogi og buðum með okkur afmælisbarni helgarinnar sem varð sextugur á laugardaginn.

Við vorum mætt í Selvoginn rétt upp úr skiptitíma á föstudagskvöldið, fengum okkur í gogginn og tókum lauflétta hringferð um vatnið. Þar sem vindátt var norðanstæð ákváðum við að byrja á Brúarbreiðunni í þeirri von að æti hefði safnast þar saman undan vindi og fiskurinn léti öllum illum látum þar. Það hefur yfirleitt ekki tekið veiðimenn langan tíma að sjá hvort fiskurinn sé til staðar á breiðunni, þannig að eftir árangurslaus köst þriggja veiðimanna með ýmsum tegundum flugna í að verða 1 klst. þá ákváðum við að færa okkur um set og þá ekki síst koma okkur í skjól við töluverðan strekking sem tók sig upp um kvöldið. Stakkavík varð fyrir valinu og þar leyndist líf í öðrum hverjum hólma og í vatni; álftir, himbrimi og bleikja.

Ekki leið á löngu þar til afmælisbarnið fékk ágæta töku á Peacock og fyrsti fiskur hans í Hlíðarvatni var staðreynd. Fljótlega kom þó í ljós að þarna var á ferðinni fiskur sem hefði mátt eyða í að minnsta tveimur árum til viðbótar í vatninu, þannig að tekið var heldur mildum höndum á honum. Skyndilega kom þó sterklegur goggur í ljós sem vildi gera sér bleikjuna að góðu og small utan um fiskinn. Var þar kominn sjálfskipaður óðalsherra Stakkavíkur, háttvirtur Himbrimi. Fyrir snarræði veiðimanns var fiskurinn endurheimtur í goggi fuglsins, en ekki vildi þó betur til að hin tví-veidda bleikja hafði andast í öllum látunum og varð ekki sleppt. Af himbrimanum er það aftur á móti að segja að hann lónaði fyrir framan okkur þrjú það sem eftir lifði og ekkert okkar fékk högg þaðan í frá.

Stangirnar hvíla við Hlíðarsel á föstud.kvöldið

Laugardagurinn var tekin heldur rólega fram undir hádegi, fyrir utan að ég fór niður í Botnavík í austanáttinni og gerði heiðarlega tilraun frá því um 9 – 11 að líkja eftir ætinu sem bleikjurnar veltust í rétt utan Fóellutjarnar. Þær tilraunir báru engan árangur þannig að ég var heldur framlágur þegar ég tölti til baka í Hlíðarsel. Á leiðinni fékk ég fréttir í Árbliki þess efnis að himbriminn í skerjunum við Skollapolla hefði tekið illa í heimsókn veiðimanns kvöldið áður og beinlínis lagt til hans bæði ofan vatnsborðs og neðan. Einhverjum sögum fór af hlátrarsköllum veiðifélaga viðkomandi þegar hann átti fótum fjör að launa undan reiði himbrimans. Ég sel söguna ekki dýrar en ég keypti hana, en eitt er víst, himbriminn í Botnavík er ekkert að gefa sitt svæði eftir.

Eftir hádegið á laugardag skiptum veiðifélagarnir liði og völdum okkur veiðistaði eins og okkur sýndist við vatnið, því fækkað hafði verulega á staðnum þegar nær einhverjum fótboltaleik dró. Veiðifélagi minn stundaði ýmsa hrekki við Fóellutjörn, m.a. að kenna ungum bleikjum að fljúga eftir að hafa tekið þurrflugu. Ef einhver rekst á c.a. 5 sm. langa bleikju í kjarri við Fóellutjörn þá er það eitt slíkt ungviði sem óvart var kippt heldur harkalega á land og fannst síðan ekki þegar átti að sleppa. Hvort sem sagan er sönn eða ekki, þá var íturvaxin móðir þessa fisks eitthvað óhress með þessar aðfarir og tók púpu félaga míns mjög harkalega og gerði ítarlegar tilraunir til að hefna fyrir ungviðið og draga veiðimanninn út í vatnið. Eftir að hafa glímt lengi og vel við hvort annað, ákvað bleikjan að gefa eftir og sleppti púpunni og lét sig hverfa.

Við bræðurnir byrjuðum aftur á móti innarlega í Botnavíkinni en færðum okkur síðan út á Réttarnes þar sem mér tókst að setja í væna, klassíska Hlíðarvatnsbleikju af alþekktri punds stærð. Var þá farið að blása af suðri og eitthvert æti lagði upp að Réttarnesinu sem bleikjan sótti í. Að vísu varð ég frá að hverfa um seinna kaffi til að taka á móti gestum sem bar að garði í Hlíðarseli og fyrir kvöldmat voru allir hættir veiði og sestir að kræsingum í húsi.

Sunnudagurinn var heldur þungbúinn, gekk á með skúrum og hitastigið hefði alveg mátt vera hærra. Samt sem áður voru bleikjur í æti í Botnavík og þangað skunduðum við félagarnir um hádegið. Í Fóellustjörninni tók veiðifélagi minn væna bleikju undir vökulu auga himbrimans, aðra í algjörum friði við Kaldóshólma og síðan tvær mjög fallegar á leiðinni í til baka við Fóellutjörnina. Sjálfur reyndi ég allt mögulegt við Skollapolla og út af Fóellutjörninni, en varð ekki var við neinn fisk sem var kominn í matfiskastærð. Man í svipinn ekki fjölda þeirra sem ég setti í sem voru á bilinu 4 – 10 sm. sem vitaskuld var öllum sleppt eða sluppu sjálfir.

Alltaf slæðist ein og ein ný fluga í box okkar veiðifélagana og að þessu sinni prófaði veiðifélagi minn þessa flugu í gárunni á vatninu og hún sló greinilega í gegn hjá bleikjunni.

Black Foam Buzzer – ekki góð mynd, en dugar samt

Ef einhver hefur rekist á fuglahræðu sem virkar á himbrima á hreiðri, þá má hinn sami senda mér línu, því það var áberandi að fiskur hélt ekki til í næsta nágrenni við óðal himbrimans. Meira segja pottþéttir veiðistaðir við Skollapolla voru nánast fisklausir, helst hægt að finna smáfisk sem himbriminn nennti ekki að eltast við. Eins vænt og mér þykir nú almennt um himbrimann, þá finnst mér tvö pör á ekki stærra svæði en frá Botnavík og inn að Mosatanga vera heldur of mikið af því góða. Að vera með 2,5% himbrimastofnsins á þessu svæði er aðeins og mikið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 15 / 13 / 0 / 1 / 7

Baulárvallavatn og Hraunsfjörður

Þegar ekkert gengur í veiðinni þá má alltaf segja að maður hafi farið í útilegu, skoðunarferð, átt allt annað erindi á veiðislóð heldur en einmitt að veiða. Sem sagt; á föstudaginn áttum við veiðifélagarnir erindi vestur á Snæfellsnes. Og það voru fleiri á ferðinni heldur en við, því ungviði bænda af norðanverðu nesinu var líka á rúntinum með tilheyrandi jarmi þegar því var dreift út um allar koppagrundir í fylgd mæðra sinna.

Veðurblíða föstudagsins var eflaust með eindæmum á stöku stað, en því miður vorum við ekki á þeim slóðum, heldur fórum að Baulárvallavatni þar sem einhver reitingur manna var við veiði. Helst voru menn við ósa Vatnaáar þar sem hún rennur í vatnið að vestanverðu. Engar fregnir höfum við að veiði þeirra né okkar eigin og því líkur hér með frásögn af Baulárvallavatni að þessu sinni. Á ferð okkar í náttstað var að vísu komið við í Hraunsfirði að vestan og þar setti hin helmingur okkar í eina flundru við lítinn fögnuð.

Á laugardaginn var heilsað upp á Hólmara og kastað kveðju á Kerlinguna í Kerlingarskarði sem illu heilli faldi sig að mestu í þokunni sem grúfði þétt yfir þrátt fyrir töluverðan vind. Við ferðafélagarnir vorum sammála um að leita færis og kíkja betur á þessa gömlu þjóðleið síðar.

Eftir einhverja snúninga í Berserkjahrauni drógum við á okkur veiðifatnað og töltum inn að Hraunsfirði úr gryfjunni að norðan. Fyrir okkur varð kunningi okkar við annan mann og höfðu þeir gert ágæta veiði í bleikju og stöku flundrum, en heldur hafði dregið úr tökustuði þegar leið á daginn, enda töluverður vindur og úrkoma í meira lagi. Eftir nokkurn barning tókst mér að plata eina bleikju með rauðum Higa‘s og svo eina til á toppflugu með UV dúsk. Þeirri síðari tókst mér að sleppa en sú fyrri fékk far með okkur í náttstað.

Eitthvað höfðu veðurguðirnir mislesið veðurspá sunnudagsins en þokkalegt verður var þó á nesinu að norðan fram undir seinna kaffi. Á tímabili var meira að segja svo stillt og fallegt að þurrflugur fengu að baða sig við vestanverðan Hraunsfjörðinn. Þær eru reyndar ótrúlega kræsnar bleikjurnar á það sem þeim var boðið. Þrátt fyrir að það væri afskaplega lítið líf að sjá á vatninu, var greinilega aðeins ein ákveðin fluga á matseðlinum og sú fluga fannst ekki í okkar boxum. Ein flundran kom þó á land, en hún fékk hvorki líf né far til byggða.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 11 / 12 / 0 / 1 / 6