Framvötn, 3. sept.

Það eru tveir dagar á flestum helgum, stundum fleiri, en aldrei aðeins einn. Þetta er nú ekki merkileg speki, en í samhengi hlutanna gefur það augaleið að það er algjör óþarfi að láta sunnudaginn falla flatan þótt farið hafið verið í veiði á laugardeginum. Þegar maður vaknað síðan við það á sunnudagsmorgni að Brúsi byrjar að suða og suða um að komast aftur út í náttúruna, þá drattast maður auðvitað framúr, kveikir á kaffikönnunni og smellir á eins og tvær samlokur með meiru.

Á leið í Framvötn

Eftir heldur grámóskulegt ferðalag yfir heiðina var það með töluverðri ánægju að ég tók eftir sólstöfum norðaustan Heklu og þegar upp á Landmannaleið var komið tók nú heldur betur við þetta líka fallega veður og það var með örlitlum votti af kæti að ég renndi í hlað við Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að fylla af fallegum tölum, vonandi.

Frostastaðavatn um hádegið á sunnudag

Frostastaðavatn var það heillin sem átti að kanna og þá sérstaklega hvernig bleikjan hefði haft það í sumar. Síðast þegar ég koma í vatnið, vantaði nokkuð upp á að stærri bleikjan væri komin upp að hrauninu og þær sem voru mættar voru ekkert í sérstaklega góðum holdum. Minnugur þess að vatn stóð mjög hátt fyrripart sumars var ég líka svolítið spenntur að sjá hvað mikið hefði lækkað í vatninu. Jú, það hefur lækkað töluvert í vatninu og er það núna u.þ.b. í þeirri hæð sem maður er vanur að sjá snemmsumars, ystu sker óaðgengileg og enn töluvert vatn á leirunum við norðurbakka vatnsins. Hvað um það, ég smellti mér í vöðlurnar og arkaði inn fyrir Suðurnámshraun, kom mér fyrir við óbrigðula vík og setti auðvitað Peacock með orange skotti undir. Niðurstaðan? Ekkert. Black Zulu? Ekkert. Pheasant Tail? Allt á fullt og þannig hélst það þangað til rúmlega 20 bleikjur lágu í netinu, þá datt þetta eitthvað niður og lagaðist ekki fyrr en ég setti toppflugupúpu undir, einlita svarta með hvítum hnakka. Sjö stykki til viðbótar og þá rankaði ég við mér, þyngdin var komin að þolmörkum skrifstofumannsins og þar að auki voru komnir gestir í víkina sem biðu í ofvæni eftir því að fá sér eitthvað í gogginn, himbrima par hafði síðasta korterið lónað yst í víkinni þannig að ég settist niður, fékk mér kaffisopa og leyfði þeim að pikka upp þær bleikjur sem eftir voru.

Brúsi við Frostastaðavatn

Eftir þrautagöngu mína út að bílastæði, með nokkrum stoppum því þau sigi í þessi tæpu 20 kg. sem voru í netinu, þá svolgraði ég í mig hálfum lítra af vatni og kom fiskinum fyrir í kælikassanum. Ástand fisksins var alveg þokkalegt, allur fiskurinn sem ég tók var í matfiskastærð, flestir voru virkilega vel haldnir en inni á milli voru fiskar sem greinilega höfðu átt betri daga. Það verður áhugavert að lesa niðurstöður nýlegra rannsókna á bleikjunni í Frostastaðavatni og þá sérstaklega  til hvaða ráða er rétt að grípa til að stemma stigu við offjölgun í vatninu.

Vottur af regnboga

Þegar ég renndi norður fyrir vatnið hélt ég að veiðigyðjan væri að senda mér skilaboð í formi regnboga á milli mín og Ljótapolls. Gat verið að fjársjóðurinn lægi við enda regnbogans? Minnugur þess að vatnið gaf ágætlega í síðustu ferð safnaði ég kjarki og kröftum og lét mig hafa það að fikra mig niður að steininum. Það er skemmst frá að segja að niðri við vatnið var vindur, vindur úr öllum áttum og þráðbein flugulínan tók ítrekað upp á því að skipta um stefna og lenda rétt við fætur mér. Eftir ekki langan tíma, eiginlega mjög skamman tíma rifjaðist sú staðreynd upp fyrir mér að það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér heldur en vindur sem veit ekki í hvaða átt hann vill ferðast. Eftir þessa hugljómun tók ég til við að fikraði mig í rólegheitum, reyndar mjög miklum rólegheitum aftur upp á brún og kláraði þar hálfan lítra af vatni til viðbótar. Það er ekkert eðlilegt hvað maður getur svitnað mikið í vöðlunum þegar það er 14°C hiti.

Frostastaðavatn séð úr norðri

Já, það er væntanleg rétt að segja frá veðrinu. Sunnan og suðaustan léttur vindur, nema niðri í Ljótapolli. Ætli skýjafarið kallist ekki dumbungur með glætum, en þær glætur voru ansi margar þegar ég var við Frostastaðavatnið þannig að vel sást til botns og eiginlega gat maður pikkað fórnarlömbin upp með augunum áður en flugan tók þau.

Herbjarnarfellsvatn

Eftir Ljótapollsleikfimina renndi ég inn að Landmannahelli, gerði að þeim fiski sem komin var og hugsaði ráð mitt. Það endaði með því að ég renndi yfir hálsinn að Herbjarnarfellsvatni. Síðast gaf vatnið mér ekki einn einasta fisk og ég var nú satt best að segja ekkert sérstaklega bjartsýnn á að það gæfi mér eitthvað í þetta skiptið. En stundum er fiskur ekki allt, sko bara stundum. Veðrið og umhverfið í gær var mér eiginlega nóg ttilefni il að eyða tæpum tveimur tímum við vatnið án þess að fá svo mikið sem eitt nart, sama hvaða flugur ég setti undir. Upp úr kl. 20 tók ég mitt hafurtask, skipti yfir í gallabuxur og hélt heim á leið eftir að hafa skilað skýrslunni í Landmannahelli.

Vel að merkja, það verður opið hjá Hellismönnum fram yfir göngur í lok þess mánaðar og ef veður heldur áfram að vera svona milt og gott á hálendinu, þá er ekkert því til fyrirstöðu að skjótast í Framvötnin og næla sér í nokkrar bleikjur eða urriða í kistuna fyrir veturinn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 27 107 / 140 / 0 27 / 30 13 / 15

Hlíðarvatn í Hnappadal, 2. sept.

Þegar maður keyrir í hálfan annan tíma í veiði, þá hefur maður auðvitað nægan tíma til að íhuga hvernig maður ætti að hefja frásögnina af veiðiferðinni. Þegar kötturinn er úti, leika mýsnar sér… – Til að rétta veiðitölurnar af… – Einn ég sit og keyri… o.s.frv. Ekkert af þessu var neitt spennandi eða skemmtilegt þannig að ég byrja bara svona:

Að þessu sinni var ég einn á ferð í veiði, veiðifélaginn fjarri góðu gamni eða öllu heldur í allt öðru góðu gamni. Samt engin ástæða til að láta góðan laugardag renna sér úr greypum þannig að eftir að ég hafði smurt nesti og smellt kaffi á brúsa, renndi ég vestur á bóginn með stefnuna á Hlíðarvatn í Hnappadal.

Nestið klárt

Eins og góður maður hafði á orði á Fésbókinni í morgun, þá á maður alls ekki að láta veðurspánna ráða, þá fengi maður bara sigg á óæðri endann. Útlitið var reyndar þannig í morgun að ég mátti eiga von á töluverðum vindi, ausandi rigningu og eiginlega bara ömurlegu veðri. Ég hélt nú samt ótrauður af stað, þetta yrði þá bara ágætur bíltúr.

Þokuslæðingur við Hlíðarvatn

Svona tók nú Hlíðarvatnið, eða það sem eftir er af því, á móti mér rétt fyrir hádegi. Staflogn, léttur þokuúði og vatnið spegilslétt. Ég hætti umsvifalaust að íhuga afsakanir fyrir aflaleysi, snaraði mér í vöðlurnar, smellti hægsökkvandi línu á stöngina og Orange Nobbler á taum. En viti menn, ekkert gerðist í næstum klukkutíma og ég fór að efast um þessa pottþéttu uppskrift að veiði sem hefur gert sig ágætlega í Hlíðarvatni hingað til. Hvað er þá til ráða? Jú, spóla til baka og gera það sem maður hefði átt að gera í upphafi, setjast niður og horfa á vatnið. Einmitt, þarna var fluga að klekjast og þarna var önnur og svo enn önnur, eiginlega alveg glás af þeim. Hvaða flugur voru þetta eiginlega? Jú, toppflugur og einhverjar óræðar stærri flugur. Eftir kaffisopa og samloku skipti ég yfir í flotlínu, smellti Black Zulu undir og viti menn, fyrsti fiskur í fyrsta kasti og þannig hélt þetta áfram þangað til urriðarnir fóru að missa af flugunum rétt undir yfirborðinu. Ég lengdi því í tauminum og skipti yfir í þurrflugu. Það verður nú bara að segjast að það er fátt skemmtilegra heldur en taka ljóngrimman urriða á þurrflugu, þvílíkt kick sem maður fær út úr þessu.

Hlíðarvatn fyrir landi Hraunholta

Af vatninu er það helst að frétta að það fer minnkandi, eins og svo oft áður. Enn rennur þó úr því í gegnum hraunið en það er töluvert langt síðan hætti að renna í Hraunholtaá. Sem sagt, ekki það lægsta sem ég hef séð í vatninu, en lágt er það nú samt.

Alltaf gaman að kveðja með færslum í þessa

Fiskar dagsins voru allir urriðar, trúlega eru bleikjurnar farnar að sinna öðru en áti og það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá þær í hundraðatali fyrir landi Heggsstaða hérna um árið, pússandi botninn, rauðar á bumbunni, dökkar á bakinu og með hvítar bryddingar á uggum. Mig minnir fastlega að það hafi verið um þetta leiti sumars og því ekki ólíklegt að þær hafi verið fjarri góðu gamni í dag með hugann við allt annað en flugur veiðimanna og náttúru. Heim fóru fimm fiskar, engir boltar en matfiskar þó. Tveimur skilaði ég aftur í vatnið og þakkaði þeim hetjulega baráttu og skemmtileg tilþrif í loftfimleikum. Að lokum, ef einhver hefur áhuga, þá vildi ég bara segja að sumarið er alls ekki búið og ýmislegt getur ennþá gerst ef flugan heldur áfram að klekjast.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 107 / 113 / 7 27 / 30 13 / 14

Kvíslavatn, 20. ágúst

Það ber auðvitað vott um einhverja bilun að rífa sig á fætur kl.06 á sunnudagsmorgni til þess eins að keyra í rúmlega 3 klst. og þar af klukkutíma á einhverjum lélegasta fjallvegi sem við eigum, F26 Sprengisandsleið. En þetta gerir nú veiðibakterían við mann og við veiðifélagarnir létum slag standa og ‚skruppum‘ dagsferð inn að Kvíslavatni í gær.

Það blés reyndar nokkuð byrlega þegar við komum að Svartárós rétt upp úr kl.10, stíf norðaustanátt og ekkert líf að sjá á vatninu enda hitastigið ekki nema rétt um 6°C. Við könnuðum svæðið nokkuð ítarlega, skiptum um flugur nokkuð ört en ekki hljóp á snærið hjá okkur, þannig að við héldum áfram för að Svörtubotnum þar sem við stöldruðum nokkuð lengi við og veiðifélagi minn setti í fyrsta fisk dagsins. Sá var í þokkalegum holdum og hafði verið að gæða sér á skötuormi sem greinilega er nóg af á þessum slóðum eins og víða á hálendinu um þessar mundir.

Með magann fullan af mat

Það er ekki oft sem maður nær fiski sem nýlega hefur verið að gæða sér á þessari fornaldarskepnu sem skötuormurinn er en að þessu sinni náði ég nokkrum skemmtilegum myndum af þessu ljúfmeti. Þetta er skemmtileg skeppna að skoða og eiginlega ótrúlegt að svona furðuverk finnist í vötnunum á okkar tímum,

Skötuormur

Við könnuðum svæðið sunnan Svörtubotna nokkuð vel og það verður eiginlega að segjast að þarna var nóg af fiski sem hafði einstaklega gaman af því að taka flugu, naumt og sleppa henni með látum eða þá taka flugu grimmt og slíta hana af taum með smelli. Heilt yfir, þá held ég að við höfum misst jafn mikið af fiski og við tókum þennan dag í Kvíslavatni.

Kvíslavatn

Þegar degi fór að halla ákváðum við að nú væri nóg komið af Svörtubotnum og héldum aftur í Svarárós í þeirri von að hitastigið sem hafði þá skriðið yfir 10°C hefði náð að laða einhvern fisk í tökustuð. Sú von brást, það var jafn dautt við Svartá eins og um morguninn og við ákváðum því að ljúka deginum að sunnan við ósinn þar sem rennur úr Ölduveri í vatnið. Vel að merkja, það sást vel á bökkum að vatnshæðin er eitthvað döpur og eiginlega var ekki að marka eitt einasta kort af svæðinu, svo margt stóð á þurru sem hefði átt að vera umflotið við eðlilega vatnshæð.

Sólsetur við Kvíslavatn

Við mættum við ós Ölduvers rétt upp úr kl.19 og því ekki mjög langur tími til stefnu þar til skyggja tók og við áttum þá eftir að fikra okkur eftir ógreinilegum slóðum aftur út á Sprengisandsleið. Hvað um það, veður hafði stillst verulega og hitastigið hélst ofan við 10°C langt fram eftir kvöldi og þá tók nú urriðinn við sér. Þarna tókum við samtals 10 fallega urriða á bilinu 1,5 til 2,5 pund og flestir þeirra tóku með látum og gáfu lítið eftir í viðureigninni. Eins og áður er getið áttu nokkrir til viðbótar snögga spretti sem færðu þeim frelsið á ný og einhverjir þeirra eru með flugu í kjaftinum. Það var skrautlegur orðaforði sem ómaði í kvöldkyrrðinni þarna þegar svo bar undir að sýnd veiði lét sig hverfa með fluguna í kjaftinum. Vinsælustu flugur dagsins voru svartur Nobbler, Black Ghost og svo öfga-grænn og hvítur Cats wiskers þegar sólin hafði sest handan Kerlingarfjalla.

Förum við aftur í Kvíslavatn? Jú, trúlega verður það nú ofaná þótt síðar verði. Enn eigum við eftir að kanna svæðið vestan við vatnið en þá munum við væntanlega útvega okkur gistingu í grennd, þetta er svolítið löng dagsferð, svona í einum rykk.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 107 / 113 / 7 27 / 23 13 / 13

Hlíðarvatn í Selvogi, 13. & 14. ágúst

Allt of langt síðan, en alls ekki langt. Þessu skaut niður í kollinn á mér í gær, sunnudaginn, þegar við veiðifélagarnir renndum suður að Hlíðarvatni í Selvogi. Við áttum fyrir höndum heilan sólarhring í veiði við Hlíðarvatnið og það var ekki laust við að maður gleymdi næstum alveg kvefi og pestarvotti sem var eitthvað að hrjá mig. Þegar suður í Selvog var komið var stillt og fallegt veður, næstum alveg eins og veðurspáin hafði lofað.

Eftir að hafa tekið félaga úr síðasta holli hjá Ármönnum tali, var ekki laust við að tvær grímur rynnu á okkur; var bleikjan bara hætt við eftir allt saman? Það var aðeins eitt til ráða, drífa sig í gallann og renna á einhvern þeirra ótal veiðistaða sem vatnið geymir. Vestasta-Nef varð fyrir valinu og þar setti annað okkar í væna bleikju eftir smá tíma, mér liggur við að segja að segja að það hafi „auðvitað“ verið veiðifélagi minn. Ég er reyndar viss um að bleikjan sú arna hafi verið sú sem slapp frá mér, nokkrum mínútum áður.

Horft yfir Hlíðarvatn til norðurs

Þegar fór að halla í kvöldið, fórum við að Brúarbreiðu þar sem við höfðum séð eitthvert líf þegar við renndum í hlað fyrr um daginn. Það líf var greinilega farið að sofa þegar við mættum með flugurnar, þannig að við héldum áfram inn með vatninu að austan eftir stutt stopp. Mölin varð fyrir valinu og við lá að maður hefði sig varla til að eyðileggja stilluna með flugulínunni, svo fallegt var síðkvöldið og útsýnið eftir því. Eftir tíðindalaus köst ákváðum við að fara tiltölulega snemma í bólið og taka daginn í dag snemma.

Sunnudagskvöld við Hlíðarvatn

Já, einmitt. Blessunarlega getum við þakkað fyrir að vera á Íslandi þegar kemur að veðri. Ef það er leiðinlegt, þá þarf maður í mesta lagi að bíða í eins og klukkutíma, þá hefur það örugglega breyst annað hvort til hins verra eða til hins betra. Þannig var það í morgun, heldur mikil gjóla og eiginlega bölvanlega blautt þegar við fórum á fætur, en eftir smá tíma hafði auðvitað lægt og næstum því stytt upp. Raunar var veðrið meira og minna í því að stytta upp í allan dag á milli þess að það var algjört logn, sól, þoka, rigning, gola og svo ágætis hiti. Þetta var sem sagt alveg týpískt íslenskt sumarveður sem fylgi okkur úr Kaldós út á Djúpanef, Austurnes og inn að Skollapollum. Á þessu ferðalagi okkar setti ég í þrjár mjög góðar bleikjur og veiðifélagi minn í eina áður en við héldum til baka í hús og fengum okkur mjög síðbúinn hádegisverð.

Skyggnst í átt að Mölinni

Deginum lukum við á Réttarnesinu þar sem ég tók grunnnámskeið í almennu skeytingarleysi. Kennarinn var alveg ágætis bleikja sem ég sá vel til, rétt innan við Réttarnes. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að fylgjast með því hvernig hún brygðist við þeim flugum sem ég setti fyrir hana. Í stuttu máli, ég hef greinilega alls ekki sama smekk á flugur og bleikjurnar. Það sem mér fannst að hefði átt að gera þessa bleikju alveg brjálaða, lét hún bara eins og hún sæi ekki. Í besta falli sýndi hún misheppnuðum köstum mínum einhvern áhuga og þá helst ef línan kipptist til og lenti í einhverri bendu á vatninu. Trúlega varð henni bara svona skemmt yfir þessum aulaskap. Á meðan ég sat á skólabekk bætti veiðifélagi minn einni bleikju við í netið, þannig að við enduðum í 3 + 3 bleikjur á bilinu 30 – 38 sm. Öðrum eins fjölda var trúlega sleppt, þær verða orðnar veiðanlega að ári og þá munu veiðimenn örugglega bítast um þær. Það voru sælir og sáttir veiðimenn sem héldu heim úr Hlíðarvatni í kvöld og nú bíða 6 gómsætar bleikjur eftir því að verða matreiddar í vikunni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 107 / 113 / 0 23 / 16 12 / 12

Helluvatn, 26. júlí

Það fór víst ekki framhjá neinum sem var staðsettur í grennd við höfuðborgina að það var sérstakt veðurfar í borginni í dag. Sól með þokuívafi, heitt og stillt veður. Sem sagt; kjöraðstæður fyrir ýmislegt silungafæði að klekjast út og krydda matseðil vatnabúa. Við veiðifélagarnir létum því slag standa og renndum upp að Elliðavatni seinnipart dagsins. Raunar endaði það með því að við fórum í Helluvatn og þar var nú heldur betur sýning í gangi. Fiskurinn velti sér í æti um allt austanvert vatnið þannig að litlu veiðimannahjörtun fóru á yfirsnúning af spenningi.

Við Helluvatn

Til að gera langa sögu stutta þá er eins gott að segja það strax að annar eins fjöldi flugna hefur trúlega aldrei verið prófaður á einni kvöldstund eins og sá fjöldi sem við prófuðum í mjög harðri samkeppni við náttúrulega fæðu silungsins í vatninu. Á endanum var það Royal Coachman þurrfluga sem sannaði sig og mjög falleg bleikja rann á hana og tók með látum, hjá veiðifélaga mínum. Ekki svo löngu síðar, eiginlega þegar við vorum að hætta og taka saman þá rann þessi líka fallegi urriði á sömu flugu og kom veiðifélaga mínum stórkostlega á óvart. Sá fiskur var svo svakalegur að ég varð að aðstoða við að losa fluguna úr honum enda ekki á eins manns færi að losa þurrflugu #12 úr skoltum u.þ.b. 7 sentímetra urriða þannig að hægt væri að sleppa honum. Flott kvöld við Helluvatn, nóg af fiski og fiskamat en ekki ein einasta taka hjá undirrituðum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 104 / 110 / 0 23 / 16 11 / 11

Framvötn, 22. & 23. júlí

Biðin hefur verið nokkuð erfið eftir því að Landmannaleið F225 opnaðist um Dómadal, en loksins var komið að því og helgi + sumarfrísmánudagur runnu saman um síðustu helgi og því var ákveðið að renna inn að Landmannahelli á föstudagskvöld. Þar sem þetta var fyrsta ferð sumarsins skal vegum og vegleysum gerð skil. Vegurinn inn að Landmannahelli er bara með ágætasta móti, einn og einn gamalkunnur hnullungur á sínum stað og aðrir nýir að skjóta upp kollinum, samt ekkert til að setja fyrir sig eins og sannaðist þegar inn í Landmannahelli var komið.

Vöðin undir Sauðleysu

Eina vaðið á leiðinni er tvöfalda vaðið á Helliskvísl undir Sauðleysu, en vatnavextir að Fjallabaki hafa greinilega ekki náð að hækka neitt í ánni þannig að það er vel fært öllum 4×4 bílum, fellihýsum, tjaldvögnum og hjólhýsum.

Hjólhýsi við Landmannahelli

Þetta myndarlega hjólhýsi, ekki af smærri gerðinni, stóð hnarreist á tjaldstæðinu við Landmannahelli þegar við hjónin renndum þar í hlað á föstudagskvöldið. Ég tók eiganda þess talið og spurði hvernig honum hefði gengið að komast þetta og þá sérstaklega yfir vaðið við Sauðleysu. Hann sagði mér að þetta væri ekkert mál, bara fara varlega og kanna vel hvernig lægi í vaðinu, sneiða það rólega og þá kæmist þetta auðveldlega yfir. Ég er ekkert sérstaklega að mæla með búferlaflutningum sem þessum en langar að geta þessa sem dæmi um hvað hægt er að komast ef varlega og rólega er farið. Það skal tekið fram að ég kíkti sérstaklega undir hjólhýsið og það sást ekki á nokkrum hlut að það hefði rekist niður eða orðið fyrir hnjaski.

Nýipollur í Dómadal – horft frá Dómadalshálsi til austurs

En áfram með fréttir af færð og þá sérstaklega úr Dómadal. Nýipollur hefur hopað hratt síðustu daga, svo hratt að við sáum mun á honum og leiðinni um Dómadal frá laugardegi og fram á sunnudag. Nú er svo komið að vegurinn er allur á þurru, ekki einn einasti pollur, hvorki nýr né gamall á leiðinni, þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að planta sér við Landmannahelli og renna í Eskihlíðarvatn, inn að Frostastöðum eða í Ljótapoll.

Pollurinn séður úr austri

Víkur þá sögunni að veiðiskap og aflabrögðum. Við ákváðum að byrja laugardaginn inni við Frostastaðavatn og þar bar nú ýmisleg fyrir augu, þó aðallega mikið vatn. Það er í það minnsta einum metra hærra í vatninu heldur en í meðalári, bílastæðið að norðan á bólakafi og víða engin strönd þar sem áður voru 2-4 m. út í vatnið. Fyrir botni vatnsins, þ.e. að sunnan áður en komið er að hrauninu, ætti að vera ávalur og fallegur malarkambur sem aðskilur vatnið frá polli undir fjallshlíðinni. Þar er ein samfelld vík núna, en vel fært yfir að hrauninu eftir kambinum sem liggur á 20 – 30 sm. dýpi. Víkur og pollar í hrauninu hafa máðst út í töluverðan flóa með stöku skerjum og hreint ekki fært út í ystu sker, jafnvel ekki þeim sem þykjast muna hvar skerin eru.

Horft til suðurs við austurbakka Frostastaðavatns

Af fiski er það því miður að frétta að hann er í smærri kantinum og allt of mikið af honum. Þetta verður því miður bara að segjast eins og það er. Þeir fáu í góðri stærð, þ.e. lengd sem við náðum voru illa haldnir, magrir og hausstórir. Reyndar verður að taka það fram að það er okkar upplifun síðari ára að því lengra sem líður að hausti, því stærri og betur haldinn verður fiskurinn. Það er óskandi að svo verði þetta árið einnig. Stærstur hluti fiskanna, þ.e. þeir sem voru rétt um hálft pund voru aftur á móti í góðum holdum og fallegir, jafnt að innan sem utan. Við héldum okkur að mestu við syðstu víkina í hrauninu sem að vísu er næstum óþekkjanleg og það fer mjög lítið fyrir dýpisköntum og fyrrum þekktir veiðistaðir eru bara þarna einhversstaðar úti í vatninu. Flestar tóku bleikjurnar hefðbundnar flugur, með öðrum orðum Peacock með orange skotti.

Eftir Frostastaðavatnið og aðgerð afla renndum við inn að Dómadalsvatnið í þeirri von að austanstæð áttin færði einhverja urriða í kastfæri út frá vesturbakka vatnsins. Sú von brást því við urðum ekki vör við einn einasta fisk og snérum því tiltölulega snemma til Landmannahellis um kvöldið.

Nýipollur í Dómadal, glittir í Dómadalsvatn

Hér er rétt að smella inn gleðilegri frétt fyrir þá sem hafa nýtt sér aðgerðarborðið við Landmannahelli; það er búið að koma fyrir tunnu fyrir slóg og úrgang við borðið a‘la Veiðivötn og eiga Hellismenn / Veiðifélag Landmannaafréttar hrós skilið fyrir framtakið.

Ekki vorum við árrisul á sunnudaginn þannig að við vorum ekki komin á veiðislóðir fyrr en upp úr hádegi. Fyrstan hittum við fyrir félaga okkar í Ármönnum sem hafði það helst fyrir stafni að ferja afla upp úr Ljótapolli fyrir veiðifélaga sína sem gerðu þar fantagóða veiði og enduðu í að mér skilst 16 fiskum frá kl.11 og eitthvað framyfir hádegi. Skemmtileg veiði úr því vatni sem margir hafa einungis upplifað sem kvöldvatn og vitaskuld kitlaði það veiðibakteríuna í okkur hjónum að sjá þennan flotta afla. Við stóðumst samt mátið og reyndum stundarkorn fyrir okkur í Blautuverum í þeirri von að hástæð Tungnaá hefði náð að dæla þar inn einhverjum stórum bleikjum. Ekki fór nú mikið fyrir því, en verin eru mjög lituð af vatni úr ánni og vel getur verið að þær stóru leynist þarna þótt við séum ekki til frásagnar um það.

Eftir Blautuver renndum við niður að Frostastaðavatni að norðan og leituðum að fyrra vatnsborði framundan Frostastaðahrauni. Jú, kamburinn er þarna ennþá, lengst úti í vatninu og ekkert tiltökumál að vaða yfir fyrrum gróið land og út á kambinn sem marar þarna í u.þ.b. 40 sm. djúpu vatninu. Ég játa alveg að ég var ekkert óskaplega spenntur fyrir því að bæta tittum við í netið mitt, þannig að ég reyndi að höfða til hornsílaæta með því að setja lítinn Dentist undir og kasta út í dýpið og meðfram kantinum í von um aðeins stærri fisk. Ég er ekki frá því að mér hafi tekist þetta að því marki að flugan vakti töluverðan áhuga þannig að á skömmum tíma var ég kominn með á annan tug þokkalegra bleikja í netið. Að vísu hefðu þær mátt vera örlítið stærri, en þær voru í fínum holdum. feitar og þrifalegar.

Að þessari heimsókn okkar lokinni var sest á rökstóla í mosaþembu undir Norðurnámum, stungið úr eins og einni kókómjólk og japlað á kleinum. Umræðuefnið var hvort við ættum að láta slag standa og prófa Ljótapoll eða bara renna í Dómadalinn og athuga með gæftir þar. Úr varð að við fórum í Ljótapoll, fikruðum okkur niður slóðann að norðan og komum okkur fyrir í kverkinni þar sem stutt var í dýpið. Það er annars merkilegt hvað við urðum lítið vör við fisk, mjög fáar uppitökur og eiginlega fátt sem bar þess vitni að þarna væri fiskur. Eftir nokkurn tíma læddist að mér sá ljóti grunur (orðaleikur í tilefni staðsetningar) að félagar okkar í Ármönnum hefðu tæmt pollinn fyrr um daginn, það væri bara ekkert eftir fyrir utan þennan eina titt sem þeir slepptu.

Þar sem ég var aðeins vopnaður mjög hægsökkvandi línu, lét ég mig hafa það að brúkast við sökktaum til að koma flugunni niður, nokkuð sem ég er ekki vanur að nota. Ég þakka mínum sæla fyrir að áhorfendur að þessum aðförum mínum voru ekki margir, aðeins veiðifélagi minn og einn Ármaður til sem rölti niður til okkar þegar leið á kvöldið. Sá hafði verið í Herbjarnarfellsvatni og gert ágæta veiði undir hlíðum Herbjarnarfells um daginn. Þegar leið á kvöldið rofaði aðeins til og stöku fiskur fór að sýna sig og skyndilega var fiskur á hjá okkur hjónum báðum í einu. Var veislan að byrjað? Ef svo var þá var þetta stutt partí, hjá mér í það minnsta. Ég fékk þennan eina fisk, veiðifélagi minn hélt reyndar áfram og bætti fjórum við eftir að hafa misst nokkrar flugur í bæði fjallshlíð og fiskikjaft því ekki vantaði hressilegar tökurnar hjá henni. Félagi okkar fór upp úr vatninu með tvo eða þrjá fiska og kvaddi með þeim orðum að stundum hefði hann nú farið fisklaus upp úr pollinum. Að lokum þakkaði ég reyndar fyrir að vera ekki með fleiri en þessa sex fiska í pokanum, þeir sigu alveg nóg í á uppgöngunni og ég játa það fúslega að leiðin var tekin í nokkrum áföngum, það var orðið lítið eftir á tankinum eftir daginn þegar upp á brún var komið.

Þegar upp var komið blöstu Blautuver, Tungnaá og hluti Veiðivatna við okkur í miðnætursólinni og við gáfum okkur góðan tíma til að kasta mæðinni og dást að kyrrð og fegurð sumarnæturinnar. Hvorki myndir né orð fá lýst því sem fyrir augu bar, þetta verða menn að upplifa á eigin skinni.

Horft til norðurs frá Ljótapolli

Heilt yfir erum við afskaplega sátt við þessa fyrstu ferð okkar í sumar í Framvötnin og vonum að bleikjurnar í Frostastaðavatni hætti þessum megrunarstælum, stækki og fitni eins og mögulegt er á næstu vikum þannig að síðsumarið og haustið verði okkur gjöfult á fallega fiska eins og svo oft áður.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 39 / 52 103 / 110 / 1 22 / 16 10 / 10

Hlíðarvatn í Hnappadal, 9. júlí

Það getur alltaf ræst úr veðrinu og það sannaðist svo um munar í dag, sunnudag. Þegar við millilentum í Borgarnesi eftir heldur kuldalega vist við Langavatn var skollið á þessi líka blíða að við stóðumst ekki mátið að renna vestur að Hlíðarvatni í Hnappadal. Frá því við vorum síðast í Hlíðarvatni rétt um miðjan júní, hefur heldur betur lækkað í vatninu og það er þegar komið niður fyrir meðalhæð eftir að hafa verið vel yfir meðalhæð fyrstu mánuði sumars.

Hlíðarvatn eins og það hefur trúlega verið sunnudagskvöldið

Við stoppuðum stutt við vatnið, tæpa þrjá tíma en á þeim tíma náðum við að setja í 12 væna fiska, alla á Orange Nobbler, utan tveggja sem létu glepjast af heimatilbúnu hornsíli sem ég prufukeyrði einmitt í Hlíðarvatni í fyrra. Alla fiskana tókum við beint undan Fellsbrekku þar sem mögulegt var að komast út í ystu sker og kasta út í dýpið til norðurs. Það má með sanni segja að Hlíðarvatn svíkur ekki þegar vorgállinn hefur sjatnað í vatninu.

Að gamni okkar athuguðum við hvor enn rynni úr vatninu í Hraunholtaá, en því fer víðs fjarri, tvær góðar stíflur eru þegar á milli vatns og ár og væntanlega rennur ekki deigur dropi úr Hlíðarvatni ofanjarðar lengur. Mest af vatninu ferðast nú neðanjarðar og fæðir væntanlega Haffjarðará til viðbótar því sem kemur úr Oddastaðavatni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 64 / 58 / 5 17 / 15 / 9

Langavatn, 7.- 8. júlí

Hvort sem við mislásum veðurspár helgarinnar eða þær voru eitthvað misvísandi, þá afréðum við að renna út úr bænum á föstudaginn og tókum stefnuna á Langavatn á Mýrum. Ég gæti best trúað að við höfum bæði verið hálft í hvoru með það í huga að veiða dauða fiska, þ.e. þá sem við veiddum þegar við renndum síðast í vatnið. Þá var vatnsstaða Langavatns lág og við áttum greiðan aðgang að veiðistöðum sem að öllu jöfnu eru utan kastfæris og þeir staðir gáfu okkur feitar og pattaralegar bleikjur.

Langavatn á föstudagskvöldið

Langavatnsdalurinn tók á móti okkur í blíðskapar veðri og töluvert hærri vatnsstöðu heldur en vonir okkar stóðu til. Eftir að við komum okkur fyrir á Beilárvöllum og reyndum aðeins fyrir okkur utan við vellina, gerðum við okkur ferð inn fyrir Barnónsklett. Vegarslóðinn með vatninu að austan er ekki upp á marga fiska um þessar mundir og fyrir ‚venjulega‘ 4×4 bíla er eiginlega ekki fært nema rétt inn fyrir klett. Lítið varð um afla þetta kvöld og þá meina ég aðallega stærð þeirra sem létu glepjast af flugunum okkar. Fjöldinn var einhver en við hirtum aðeins sitthvora bleikjuna, annar fiskur var langt undir máli.

Langavatn á laugardaginn

Laugardagurinn var langt því frá eins fallegur eins og við höfðum talið okkur trú um að hann ætti að vera. Það gekk á með skúrum, skítkaldri gjólu af norðri mestan part dags og það sást eiginlega ekki til sólar nema örfá augnablik. Veiðin var með svipuðum hætti og á föstudagskvöldið, smælki og aðeins meira smælki og það endaði með því að við bættum aðeins sitthvorri nýtanlegri bleikjunni við í kælikassann en skiluðum vatninu einhverjum ótilgreindum fjölda undirmálsfiskjar.

Væntanlega verða aðrar veiðislóðir aðgengilega síðar í sumar þegar vatnsborðið verður komið í upprunalegt horft, þ.e. eins og það stóð í áður en útfall vatnsins var stíflað fyrir einhverjum tugum ára. Hver veit nema við kíkjum þá í Langavatn og reynum okkur að nýju við bleikjurnar, þ.e. þær stóru og feitu sem við vitum að leynast í vatninu.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 62 / 56 / 0 14 / 10 8

Veiðivötn, 1. – 4. júlí

Með tilhlökkun sem hefur varað í að verða heilt ár lögðum við hjónin af stað í árlega ferð okkar í Veiðivötn á laugardaginn. Ferðin hafði verið undirbúin vandlega, meira að segja hafði græjum og fatnaði verið pakkað fyrir rúmri viku síðan, allt sem sagt gert klárt og aðeins eftir að renna við á Selfossi til að kaupa ferskvöru. Þegar í Vötnin var komið, tók þetta venjulega stúss við; bera mat og ýmsan varning inn í hús, taka í höndina á veiðifélögunum og kyssa þá sem slíkt heimiluðu. Þar sem við vorum aðeins með seinni skipunum vorum við hjónin síðustu út úr húsi, taka fram veiðistangir og vöðlur og gera okkur klár. Og fer þá frásögnin að æsast.

Í Veiðivötnum 2017

Þennan kafla ætla ég að ramma inn í frásögn af einstakri lipurð og þjónustulund þeirra sem reka veiðiverslanir af köllun og brennandi áhuga. Hvar í heiminum væri hægt að hringja í veiðiverslun kl.16:45 á laugardegi, með grátstafina í kverkunum frá stað sem er 130 km. í burtu og spyrja; Áttu nokkuð vöðluskó nr.38 og 44, ég gleymdi mínum heima og er kominn upp í Veiðivötn? Svarið hennar Hrefnu í Veiðisport kom mér reyndar ekkert á óvart; Jú, við hljótum að finna eitthvað passandi, hringdu bara þegar þú nálgast Selfoss og við mætum niður í búð. Ég ætla rétt að vona að veiðimenn geri sér grein fyrir því hversu ómetanleg þjónusta þeirra hjóna, Gústa og Hrefnu í Veiðisport á Selfossi er. Það verður mikill missir þegar þau loka versluninni, því allt stefnir í að svo verði innan tíðar. Við ykkur heiðurshjón vil ég ítreka þakkir mínar fyrir aðstoðina og einstaka lipurð í aulalegum vandræðum mínum á laugardaginn; Takk, þið eruð frábær.

Sem sagt; á meðan ég brá mér 260 km. til að útvega vöðluskó í stað þeirra sem stóðu einmana í bílskúrnum heima, brá veiðifélagi minn sér í göngutúr á strigaskónum inn að Langavatni, auðvitað með stöng í hönd og nokkrar vel valdar flugur í vestinu. Við hittumst síðan rétt upp úr kl.19 í Setrinu og kláruðum að græja okkur upp fyrir síðustu klukkustundir vaktarinnar, í þetta skiptið í vöðlum og brakandi nýjum vöðluskóm. Arnarpollur lá nokkuð vel við vindátt og því stoppuðum við smá stund þar en hurfum síðan á vit Snjóölduvatns í 7°C hita og norðan gjólu þar sem við lögðum okkar lóð á vogaskálar bleikjugrisjunar með því að kippa 18 þeirra upp úr vatninu með Orange og gyltum Nobblerum. Ekki voru nú allar þeirra hæfar til matar, þannig að eitthvað af þeim lenti í úrkasti.

Það rignir líka stundum í Veiðivötnum

Það hefur lengi verið á dagskrá hjá okkur hjónum að kanna ástand bleikjunnar í Skyggnisvatni og sunnudagurinn virtist ekkert verr til þess fallinn heldur hver annar dagur þannig að við ákváðum að byrja undir Skyggni. Veðrið lék við okkur þann tíma sem við vörðum á bökkum vatnsins og það var sannanlega eitthvað dásamlega fallegt við auðnina sem umlykur vatnið. Þetta er mun meira aðlaðandi veiðivatn heldur margur hefur af látið. Bleikjan hefur komið vel til og flestir þeir fiska sem við tókum þarna voru vel yfir pundið, vel haldnir og í góðum holdum. Vinsælasta fluga dagsins í Skyggnisvatni: Hot Pink Nobbler, stuttur #12.

Við Hermannsvík

Sunnudagskvöldinu eyddum við með hollinu okkar á Hrauninu við Litlasjó þar sem sumir gerðu gott mót og settu í væna fiska á meðan aðrir voru hófsamari. Vinsælasta flugan var væntanlega svartur Nobbler með kopar- eða gullbúk, alveg í stíl við hornsílin sem rekið hafði upp í fjöruna. Annars er rétt að setja þann fyrirvara að það sem er strönd við Litlasjó í dag, var vegkantur eða eitthvað þaðan af hástæðara á sama tíma í fyrra. Vatnshæðin er með ólíkindum og sumir eru hættir að tala um Hermannsvík, nú er bara talað um Hermannsflóa og í nokkrum öðrum vötnum er svipaða sögu að segja, Rauðigígur heitir til að mynda Rauðahafið í dag.

Mánudeginum eyddum við í vettvangskönnun í Stóra Hraunvatni, Hellavatni og Norðurbotni Litlasjávar sem leiddi til þeirrar niðustöðu að víðast væri mikið vatn og á sumum stöðum enn meira vatn. Nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum voru nú samt á sínum stað, eins og til dæmis Litlatá við Litlasjó sem við heimsóttum og tókum þar fimm urriða upp úr miðjum degi, en síðan ekki söguna meir.

Ekki óalgeng sjón við Litlasjó þessa dagana

Síðasta daginn okkar í veiði byrjuðum við í Ónefndavatni sem hreint og beint kraumaði í uppitökum og klaki þennan morgun. Samkeppnin var gríðarlega hörð og það var alveg sama hvaða flugur við buðum urriðanum, hann hélt sig algerlega við náttúrulegu fæðuna sem var ekki af skornum skammti. Rétt áður en túristaþyrla sveimaði yfir vatninu skaut hugmynd upp í kollinn á veiðifélaga mínum; Hvað með Higa‘s SOS? Jú, það var eins og við manninn mælt; tveir fiskar í fyrstu tveimur köstunum og svo tveir til viðbótar, en þá kom umrædd þyrla og það var hreint og beint eins og skrúfað hefði verið fyrir náttúruna í kjölfar hennar, hvorki uppi- né flugutökur eftir það.

Urriði úr Ónefndavatni

Það var svo Langavatn sem naut þess að færa okkur síðustu fiska ferðarinnar. Það er ekki af bleikjunni í vatninu skafið að hún er einstaklega væn þessi árin. Stærsta sem ég tók var 2,5 pund og skemmtileg viðureignar eftir því. Síðasti fiskur dagsins setti heildarafla ferðarinnar í þriggja stafa tölu; 100 fiskar í ferðinni hjá okkur hjónum og við þokkalega sátt við það.

Vænar bleikjur úr Langavatni

Hvað stendur þá eftir í huga manns eftir þessa ferð? Jú, það er ekki á vísan að róa með veður í Veiðivötnum. Hitastigið var ekkert til að hrópa húrra fyrir, þokkalegt samt og vindur getur blásið úr fjórum höfuðáttum auk allra átta þar á milli og svo rignir líka stundum uppi á Hálendi, svona eins og þess þurfi eitthvað sérstaklega þetta sumarið. En, það er alltaf jafn skemmtilegt að koma í Veiðivötn, taka króka vegna ófærðar og prófa ný vötn og endurnýja kynni við önnur eldri. Næsta ferð? Auðvitað að ári og ég er þegar farinn að útbúa gátlista yfir allt það sem þarf að vera með í þeirri ferð; 1. Muna eftir mínum vöðluskóm, 2. Muna eftir hennar vöðluskóm.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 46 / 42 60 / 54 / 8 14 / 10 7

Fullsæll, Brúará, Þingvallavatn 22. júní

Það er alltaf gaman að skipuleggja veiðiferðir með töluverðum fyrirvara, bíða eftir stóra deginum, hlakka til í það sem virðist vera óendanlegan tíma þar til loks kemur að ferðinni. En það er líka skemmtilegt að láta sleggju ráða kasti, pakka veiðigræjunum í bílinn og bruna bara eitthvað út í buskann. Við veiðifélagarnir áttum erindi austur að Laugarvatni í gær, þannig að það lá beinast við að keyra í gegnum Þjóðgarðinn á Þingvöllum og yfir Lyngdalsheiðina og athuga með veiðimöguleika í Tungunum.

Eftir erindi okkar á Laugarvatni datt okkur í hug að renna niður að Syðri Reykjum og spyrjast fyrir um veiði í Fullsæl. Einhver hafði sagt mér að þetta væri lítill og nettur lækur sem rynni í Brúará milli Efri- og Syðri Reykja. Smá misskilningur eða misminni hjá mér; Fullsæll er ekkert lítill lækur, í það minnsta fyrir óvanan straumveiðimann eins og mig. Kannski hafa rigningar síðustu daga eitthvað með það að gera, en mér fannst yfirdrifið vatn í þessari nettu á.

Fullsæll

Við hófum leika neðan brúar og fikruðum okkur niður með ánni. Ég eyddi töluverðum tíma í að losa fluguna mína úr nálægum birkihríslum á meðan veiðifélagi minn setti í væna bleikju á þurrflugu rétt ofan við Byrgishyl. Því neðar sem kemur í ánni, fellur hún hraðar og ég átti fullt í fangi með að strippa fluguna mína á milli þess sem ég losaði hana úr nálægum gróðri fyrir aftan mig og bægði mýflugum frá andlitinu á mér.

Flúðir í Fullsæl

Það verður ekki af umhverfi Fullsæls skafið að það er fallegt og ekki síðra þar sem árin rennur í Brúará. Það var einmitt við ármótin sem veiðifélagi minn tók þokkalegan urriða á Dentist og ég hélt áfram að losa fluguna mína úr nálægum gróðri. Áfram héldum við niður eftir Brúará með viðkomu á þeim stöðum sem við héldum að gætu gefið okkur fisk. Það stóðst auðvitað hjá veiðifélaga mínum sem veifaði skyndilega öllum öngum og bað um aðstoð við að landa enn einum fiskinum sem sótti stíft í að renna sér undir bakka Brúarár og vildi hreint ekki í háfinn. Auðvitað varð ég við þessari beiðni, um leið og ég hafði losað fluguna mína úr nálægum trjágróðri og aðstoðaði við að landa glæsilegum, rúmlega tveggja punda urriða sem kom á Prince #12.

Ármót Brúaráar og Fullsæls

Þegar hér var komið sögu var kast og stripp þreyta farin að segja eitthvað til sín og við röltum aftur upp með Brúará og Fullsæl þar til við vorum komin aftur í beygjuna neðan brúar. Það þarf töluverða jákvæðni til að segja að urriðinn sem ég fékk þarna á breiðunni hafi verið tittur, en hann var það mikill kjáni að eltast þrisvar við þurrfluguna mína þar til hann náði loksins að opna munninn það mikið að hann náði að bíta í krók #16. Auðvitað fékk stýrið líf og vonandi nær hann að éta eitthvað af þessum mýflugum við Fullsæl sem annars munu herja á andlitið á mér í næstu veiðiferð, því það er næsta víst að við eigum eftir að leggja leið okkar að Fullsæl aftur. Skemmtileg veiði í fallegu umhverfi fyrir lítinn pening; hálfur dagur á 1.500,- kr.

Á heimleiðinni stoppuðum við í blíðunni á Nautatanga við Þingvallavatn þar sem ég náði að klóra örlítið í aflatölur veiðifélaga míns með því að taka eina fallega bleikju. Ég naut aðstoðar innfædds íbúa Þjóðgarðsins við veiðarnar því lítil hagamús trítlaði þarna rétt við fætur mér á tanganum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af lífi í vatninu er það að segja að það var merkilega lítið þrátt fyrir stillu kvöldsins og þegar fór að halla í miðnættið létum við gott heita og héldum heim á leið eftir skemmtilega óvissuferð, eitthvað út og suður.

Annar af veiðifélögum mínum við Þingvallavatn
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 14 / 12 / 0 10 / 2 6

Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. – 18. júní

Stundum smellur maður einfaldlega ekki í gírinn. Því var næstum því þannig farið með mig um helgina þegar við veiðifélagarnir fórum í Hlíðarvatn í Hnappadal. Þegar við mættum á staðinn á föstudagskvöldið varð manni eiginlega ekki til setunnar boðið, vatnið skartaði sínu fegursta í kvöldkyrrðinni og við gátum ekki annað en smellt í okkur smá bita og fórum út í vatn. Ekki skemmdi það fyrir eða dró úr eftirvæntingu okkar að húrrahróp og glaðhlakkalegur hlátur nokkurra yngir veiðimanna ómaði úr víkinni við Jónsbúð, veiðihúsi Borgnesinga. Það var greinilega fiskur í tökustuði á ferðinni.

Hlíðarvatn í Hnappadal á 17. júní

En, það var ekki mikið tökustuð á þeim fiskum sem ég engdi fyrir þannig að aðeins ein bleikja lá í mínu neti eftir kvöldið. Veiðifélagi minn small aftur á móti alveg í gírinn og setti í fjóra væna fiska þetta kvöld.

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með allt öðru veðri heldur en spáð var og við héldum okkur á svipuðum slóðum, þ.e. i grennd við Rifið sem vel að merkja stendur orðið allt upp úr vatninu. Síðast þegar við kíktum við í Hnappadalnum vatnaði nefnilega á milli lands og Rifs, það stóð sem sagt mjög hátt í vatninu í lok maí en það hefur heldur sjatnað í því. Ég vil reyndar meina að það lækki hratt í vatninu, á þessum rúmlega tveimur dögum sem við stoppuðum þar um helgina mátti merkja mun á flæðarmálinu við Rifið.

Heilt yfir vorum við frekar slök við veiðarnar, byrjuðum seint og hættum snemma á laugardag og sunnudag en náðum engu að síður 19 fiskum samanlagt. Það gefur alltaf Hlíðarvatnið, meira að segja þegar maður er hreint ekki í stuði. Þeir fiskar sem við tókum voru almennt vel haldnir og í góðu standi, þannig að það er eins víst að gott sumar er í vændum í vatninu. Eitt langar mig þó að nefna að lokum; skráning í veiðibókina við Jónsbúð mætti vera betri. Þessa daga sem við vorum að veiða var alltaf einhver slæðingur af veiðimönnum við vatnið sem tóku fisk, en aðeins við og einn annar kvittuðu afla í bókina.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 13 / 11 / 1 / 2 5

Hlíðarvatn í Selvogi, 11. júní

Ég og veiðifélagi minn vorum náttúrulega við Hlíðarvatn í Selvogi í gær, sunnudag. Að vísu fór mestur okkar tími í önnur verk heldur en að veiða, en þegar um hægðist í gestamóttöku í Hlíðarseli Ármanna, skrapp veiðifélagi minn með góðum kunningjum okkar suður að Mið-Nefi og gerði þar gott mót á þeim stutta tíma sem hún staldraði við. Fórnarlambið var auðvitað bleikja, rétt um 30 sm. sem féll alveg í stafi fyrir Peacock með orange skotti.

Annars var fjölmennt við vatnið í gær en bleikjan sýndi gamalkunna takta og sá við ansi mörgu agni veiðimanna sem reyndu allt hvað af tók frá um kl. 7:00 fram yfir kl. 17:00 að ná henni á sitt band.

Það skal tekið fram að kortið af vatninu sem er að finna hér á síðunni hefur verið uppfært lítillega þannig að vinsælir veiðistaðir við sunnanvert vatnið eru nú inni á kortinu, þ.á.m. vinsæll veiðistaður ofan flundrugildrunnar sem hefur tekið að festast í sessi sem Brúarbreiða. Kortið er að finna í umfjöllun um vatnið hérna.

Veðursældin við Hlíðarvatn í gær
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 6 / 0 / 1 4

Hlíðarvatn í Selvogi, 3. og 4. júní

Ég lét þau ummæli falla um daginn að veður væri hugarástand. Ef svo væri, þá voru skapsveiflurnar töluverðar í Selvoginum síðustu tvo daga. Einstaka sólarglæta, norð-austan strekkingur, austar gola, logn, sunnan andvari, skýjað, ekki eins skýjað og svo ausandi rigning. Ekkert af þessu fær því breytt að veiðiferð í Hlíðarvatn er nærandi, bæði fyrir sál og líkama.

Skömmu eftir komuna í Hlíðarvatn á laugardaginn fékk ég þær fréttir að heldur hefði nú verið fátt um fisk úr vatninu þann daginn og það var látið fylgja að ekki hefði byrjað að rigna fyrr en við mættum á staðinn. En, við tókum okkur til og ákváðum að kíkja inn í Stakkavík í austanáttinni. Eftir lítil viðbrögð færðum við okkur á Mölina því það hafði sagt mér maður að þar væri von á fiski þegar hann hallaði sér í norð-austanátt sem reyndist rétt því þar tókst okkur að særa upp þrjár þokkalegar bleikjur. Flugurnar sem hjálpuðu til við þetta voru Peacock með orange skotti og Watson‘s Fancy púpa. Undir hættumál ákváðum við að fara heldur lengri leið að Hlíðarseli og renndum niður að brú þar sem ég setti í mína stærstu bleikju úr Hlíðarvatni til þessa, 46 sm ljóngrimma og stútfulla af mýlirfu.

Þokkalega sátt við kvöldið fórum við síðan í bólið með þá von í brjósti að veðrið léki kannski örlítið meira við okkur á sunnudeginum.

Jú, veðrið lék sér, en kannski ekki neitt sérstaklega við okkur. Hann rofaði til, hann dró fyrir, hann lygndi og hann hvessti og svo endaði hann eiginlega á því að hella úr sér yfir okkur. Við reyndum fyrir okkur á Mosatanga þar sem ein væn kom á land á Peacock með orange skotti og þaðan héldum við yfir á Réttarnesið þar sem einn stubbur slæddist á Prince Nymph.

Stilla í Botnavík

Eftir síðdegishressingu lægði skyndilega og við ákváðum að rölta niður í Botnavík í stillunni. Það er ekki alltaf sem maður getur skimað botninn í allri víkinni, en slík var stillan á köflum að ævafornar tunnur og annað skran varð sérstaklega vel sýnilegt, því miður. En Adam var ekki lengi í paradís, því skyndilega dró ský fyrir önnur ský og úr þeim gusaðist þvílík rigning að Nóa hefði þótt nóg um. Það merkilega við þetta var nú samt, að klak flugunnar tók kipp og inn á milli dropa mátti sjá bleikjur gæða sér á flugu. Að vísu voru flestar vökurnar vel utan kastfæris en samt sem áður tókst veiðifélaga mínum að særa upp væna bleikju í úrhellinu á; já einmitt Peacock með orange skotti.

Rigning í Botnavík

Á heimleiðinni könnuðum við nýjar slóðir við sunnanvert vatnið. Við lögðum við nýlegt bílastæði gengt Gunnutanga og röltum með vatninu að Austasta Nefi. Á leiðinni setti félagi minn í tvær bleikjur, önnur fór í netið en hinni var sleppt og því sannað að það er fiskur út um allt vatn í Selvoginum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 6 / 1 / 1 4

Hraunsfjörður, 25. og 26. maí

Það var löngu komin tími á að fara í alvöru veiðiferð. Veðurspá helgarinnar var svona og svona, helst hinsegin en samt eiginlega engin. Einn daginn var spáð stilltu veðri, skýjuðu en þurru. Hinn daginn var kominn væta í kortin, meira að segja einhvern vindur, jafnvel úr ýmsum áttum.

Eins gott að við tókum ekki mark að neinum spám, létum slag standa og tókum stefnuna vestur á Snæfellsnes á miðvikudagskvöldið og lentum í Berserkjahrauni laust upp úr kl.22.  Þar sem við komum seint og frá ýmsu að ganga í okkar færanlega veiðihúsi, ákváðum við að láta veiðigræjur alveg eiga sig og sjá til hvort þokusúldinni mundi ekki létta á fimmtudagsmorgun.

Jú, það má víst segja að þokusúldin léti undan síga með morgninum, fyrir rigningunni og goluskít sem var frekar nöpur. Við ákváðum að kíkja fyrst á Baulárvallarvatn en gerðum ekki langt stopp, hitastigið ekki upp á marga fiska og ekki veiðilegar aðstæður þannig að við renndum að Hraunsfirðinum þar sem gráðugar bleikjur veltu sér um í klaki flugunnar. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir undirritaðs kom ekki ein einasta bleikja á land en veiðifélagi minn setti auðvitað í eina við mikinn fögnuð.

Hraunsfjörður

Föstudagurinn rann upp, sínu ljósari yfirlitum en þar sem við sváfum af okkur árdegisflóðið ákváðum við að feta ótroðnar slóðir, þ.e. kanna nokkra staði í hrauninu að norðan sem við höfðum ekki prófað áður. Eftir nokkrar tilraunir við afskaplega litlar undirtektir Hraunsfjarðarfiska, ákváðum við að feta okkur aftur út á gamla þjóðveginn í stað þess að skakklappast í gegnum hraunið til baka. Rétt í þann mund sem við komum að bílnum hafði dregið svo fyrir sólu að heita mátti rökkur og þétt þokan skóflaðist inn úr austrinu. Eftir að hafa tekið smá krók inn með vatninu að vestan, ákváðum við að útbúa okkur veglegan síðdegisverð og taka á móti síðdegisflóðinu við Hraunsfjörð að vestan.

Ekki rofaði mikið til í lofti með kvöldinu, en vissulega mætti síðdegisflóðið á sínum tíma og reyndar af því umfangi sem ég hef aldrei áður séð í Hraunsfirðinum. Það flæddi mjög vel yfir alla stífluna undir brúnni og mikið hugsaði maður sér vel til glóðarinnar, allt þetta æti mundi örugglega draga með sér bleikjur í miklu mæli. Hvort þær komu ekki eða voru bara svona tregar til tökur veit ég ekki, en líf var ekki mikið að sjá í firðinum þótt háflóð væri. Ég held raunar að við höfum ekki séð eina einustu bleikju velta sér, en náðum þó sitt hvorri á land og …. tveimur sjóbirtingum sem voru vel troðnir af æti. Reyndar hafði annar þeirra greinilega lent í fuglsgoggi, för á báðum síðum og djúpt sár á kviðnum.

Aflinn

Þrátt fyrir heldur votviðrasama daga, var þessi fyrsta lengri ferð okkar þetta sumarið fyllilega þess virði að leggja í, Hraunsfjörðurinn er alltaf jafn fallegur, sama hvernig veðrið er.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 1 / 1 / 1 3

Þingvallavatn, 21. maí

Loksins, loksins, loksins. Nei, ekki fiskur en við veiðifélagarnir fórum sérstaka ferð í þeim eina tilgangi að veiða og njóta þess að vera úti við, án þess að þurfa að óttast frostbit eða kal á fingrum og tám. Þingvellir urðu fyrir valinu, smurt nesti og kaffi á brúsa og við mætt í Þjóðgarðinn rétt upp úr kl.9 í morgun.

Dásamlegt veður í Vatnskotinu og þó nokkri veiðimenn á stjái, en engar bleikjur. Þannig fór nú um sjóferð þá, en nokkurra vikna múr veiðileysis rofinn í það minnsta. Næsta veiði? Þegar færi gefst.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 2

Gíslholtsvatn, 1. apríl

Veðurguðirnir og sérlegir fulltrúar þeirra hér á landi, Veðurstofan, stóðu við allt sitt í dag. Það var kalt og dumbungur við Gíslholtsvatn fyrir hádegið í dag, en það rofaði heldur betur til upp úr því. Hæst náði hitinn í 8°C og sól skein í heiði allt þar til ég hélt heim á leið rétt fyrir kl.16

Vatnið er trúlega laust undan ís fyrir einhverju síðan, en hitastig þess náði 6°C í dag og skordýrin fara væntanlega á stjá hvað úr hverju og þá lifnar heldur yfir tilverunni. Ég var mátulega vongóður þegar ég rölti inn fyrir Svanhildartanga og prófaði á leiðinni allar mögulegar og ómögulegar flugur, hægan inndrátt, hraðan og með rykkjum eða bara hreint ekki neinn inndrátt.

Þannig að stutt saga verði ekki of löng, þá varð ég ekki var við fisk þá fimm klukkutíma sem ég var við vatnið. Reyndar fór drjúgur tími hjá mér í röltið inn með vatninu að norðan og annað eins í að sitja bara og njóta þess að vera loksins kominn aftur fram á vatnsbakkann, glápa út í loftið og njóta rjúkandi kaffibolla úti í guðsgrænni náttúrunni.

Þrátt fyrir fiskleysið, þá var þetta kærkominn dagur og langþráður eftir alla biðina í vetur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 1

Í lok árs 2017

Í lok árs er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og geta þess sem gert hefur verið. Inn á fos.is slæddust tæplega 85.000 gestir á árinu. Ef síðan hefði náð 90.000 heimsóknum hefði hún náð hálfri milljón gesta á þeim árum sem hún hefur verið í loftinu, en það náðist ekki alveg nú fyrir áramót. Þessi aðsókn verður samt að teljast nokkuð góð fyrir einn grúskara að ná. Takk, öll þið sem heimsóttuð grúskið mitt á árinu, ég vonast til að geta haldið þessu áfram á næsta ári og reyni sífellt að gera betur.

fos_nytt2017

Það væri reyndar ekki úr vegi að þakka gestum síðunnar á fleiri tungumálum heldur en íslensku því töluverður fjöldi heimsækir hana reglulega frá Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Þýskalandi, Danmörku og Bretlandi svo eitthvað sé nefnt. Margir þessara gesta fylgjast með síðunni á samfélagsmiðlum, s.s. Twitter (64), Facebook (378), G+ (234) og Instagram (125) auk þeirra 58 sem eru áskrifendur að síðunni og fá tölvupóst í hvert skipti sem nýjar færslur birtast.

Á árinu birtust hér tæplega 300 færslur og nú þegar bíða 100 birtingar á næsta ári. Þar á meðal eru nokkrar spennandi flugur til að hnýta, umfjöllun um nokkur vötn og svo ýmislegt annað grúsk. Hér eftir sem hingað til verður allt efni síðunnar aðgengilegt lesendum án endurgjalds. Síðunni hefur aldrei verið ætlað að skapa tekjur og yfirleitt hefur hún þurft einhverja meðgjöf úr vasa eigandans eða velviljaðra auglýsenda sem hafa hlaupið undir bagga og styrkt úthaldið við og við.

fos_feb2017

Á síðasta ári stóð fos.is fyrir viðburði á Facebook sem heitir Febrúarflugur þar sem hnýtarar lögðu til 390 flugur á 29 dögum og kepptu um fjölmörg vegleg verðlaun. Með viðburðinum fylgdust á annað hundrað manns og eftir því sem ég hef hlerað þá þótti flestum þetta hin besta skemmtun og því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn 2017. Áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks á Facebook með því að smella hérna. Endanlegt fyrirkomulag viðburðarins er að taka á sig mynd og verður kynnt von bráðar.

Nokkrar tilraunir voru gerðar á árinu sem er að líða til að kalla eftir efni frá áhugasömum; fréttum, upplýsingum um unga og efnilega veiðimenn eða hverju því sem stangveiðifélög og klúbbar vildu koma á framfæri. Undirtektir voru fáar en góðar og því er líkt um þessa síðu og fleiri sem fjalla um veiði, aðstandendur verða mest að útbúa efnið sjálfir. Eftir sem áður er einstaklingum, stangveiðifélögum og fyrirtækjum velkomið að senda mér efni til umfjöllunar eða kynningar, svo fremi það eigi erindi til stangveiðimanna, flugugrúskara og aðra þá sem heimsækja vefinn.

Að lokum vil ég enn og aftur þakka gestum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og megi komandi ár verða ykkur öllum farsælt veiðiár.

Kristján Friðriksson

Framvötn, 11. sept.

Það er víst ekki einleikið hvað við veiðifélagarnir erum alltaf heppin með veður. Eins og áður hefur komið fyrir, þá vorum við veiðifélagarnir vinsamlegast beðnir um að vera ekki heima við einn dag um þessa helgi. Sunnudagurinn varð fyrir valinu og við lögðumst í veðurspár. Ég var nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á mikla veiði þegar ég rakst á þessi veðurtákn í kortunum fyrir sunnudaginn

vedur_takn

Hvað um það, við drifum okkur á fætur fyrir allar aldir, hituðum vatn í kaffi, smurðum samlokur, stungu þessu öllu í bakpoka og vorum mætt upp við Landmannahelli rétt upp úr kl.9 á sunnudagsmorguninn.

Eftir stutt spjall við staðarhaldara, m.a. um slakar heimtur á veiðiskýrslum, þá tókum við stefnuna á Frostastaðavatn. Að vísu fórum við ekki nema hálfa leið í fyrstu atrennu því við ákváðum að kanna ástand slóðans inn að Eskihlíðarvatni, þ.e. þess sem liggur úr Dómadal. Að mínu mati er þetta einhver fallegasta leið að veiðivatni sem hægt er að finna sunnan Tungnaár. Þar sem slóðinn fikrar sig upp á Dómadalshraun liggur hann á milli hraundranga sem eflaust geta skotið einhverjum skelk í bringu í rökkrinu. Maður getur vel skilið tilvist gamalla ófreskjusagna þaðan sem svona landslag er að finna.

Eskihlíðarvatn - Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri
Eskihlíðarvatn – Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri

Það verður ekki af Eskihlíðarvatni skafið að þar er nægur fiskur. Rétt eftir að við höfðum rennt niður að vatni og komið okkur í veiðigallana, hófu bleikjurnar uppitökur rétt undan syðstu víkinni og þær héldust þar til við höfðum veitt nægju okkar af sýnishornum fiskistofnsins. Það var ekki eins og haustið væri gengið í garð á þessum slóðum, flugan klaktist í þúsundavís og bleikjan velti sér í ætinu. Það verður aftur á móti ekki sagt að bleikjan þarna sé stór, liðmörg er hún væntanlega og það æti sem vatnið gefur af sér nægir engan veginn til að brauðfæða hana svo vel sé. Fullþroska bleikja í vatninu virðist vera rétt um 20 sm. og getur þá haldið áfram að fjölga stofninum, eins og ekki sé nóg komið. Ekkert að vaxtalagi hennar, höfuðið í samræmi við búklengd en öll mjög smágerð. Einhvers staðar las ég að þar sem sverfur að bleikjunni hvað fæðu varðar, þá grípur náttúran inní og sér til þess að hlutfallslega fleiri hrygnur komast á legg heldur en hængar. Ef eitthvað er að marka tilraunaveiði okkar á sunnudaginn, þá styður hún þessa kenningu. Af þeim 16 bleikjum sem við tókum upp úr vatninu voru aðeins tveir hængar. Stærsta var rétt innan við 25 sm. en flestar rétt undir 20 sm. Það var langþráður draumur að heimsækja Eskihlíðarvatn og við eigum eflaust eftir að heimsækja það aftur, þó ekki væri nema fyrir náttúrufegurðina þarna. Veðrið? Það var ekkert í líkingu við spánna, hreint út sagt frábært.

Við suðurenda Eskihlíðarvatns
Við suðurenda Eskihlíðarvatns

Eftir ferð okkar inn að Eskihlíðarvatni héldum við áfram í austur, inn að Frostavatni. Vatnið tók á móti okkur af stillingu, varla að það gáraði og við ákváðum að taka stöðuna á víkunum undir Suðurnámshrauni. Eftir að hafa gegnið úr skugga um að fyrstu tvær, þrjár víkurnar væru algjörlega lausar við fisk, lögðum við leið okkar að innstu vík. Eitthvað óvanalega rólegt var yfir öllu og eftir nokkrar tilraunir á hefðbundnum stöðum, varð ég aðeins var við einn fisk sem tók hressilega en losaði sig fljótlega af. Það lá í loftinu að við héldum leiðar okkar, svo dapurlegt var ástandið. Ég kíkti samt aðeins innar í víkina og þar lágu þær, blessaðar bleikjurnar í mestu makindum. Einhverjar þeirra voru komnar í stuðið, byrjaðar að pússa botninn, en flestar gerðu lítið annað en veiða sér eitt og eitt hornsíli, kroppa í bobba eða taka flugu eftir því sem þær klöktust. Þarna var þá kominn aðeins önnur kynslóð bleikju heldur en við fundum í fyrri ferðum okkar í sumar. Þessar voru öllu þroskaðri, stærri og feitari. Flestar á bilinu 1,5 til rúmlega 2 pund.

Frostastaðavatn 11.sept. 2106
Frostastaðavatn 11.sept. 2016

Þegar ég segi að þær lægju þarna í mestu makindum sínum, þá var það svo að við þurftum að hafa töluvert fyrir því að ná fiskinum upp úr sófanum og taka flugur okkar. Ég held að ég fari ekki með mikið fleipur þegar ég segi að allar gerðir, litir og stærðir af eggjandi og pirrandi flugum hafi verið reyndar. Sumar gáfu einn til tvo fiska, svo þurfti að skipta um taktík og reyna einhverja aðra flugu. Svona gekk þetta þar fullreynt var og við skildum þá eftir sem ekki varð haggað.  Þegar degi tók að halla, héldum við til baka inn úr hrauninu því við vildum helst ekki vera á einhverju brölti þar í svarta myrkri. Við ákváðum að stoppa örstutt í austustu vík hraunsins og reyna orange Nobbler þar í ljósaskiptunum. Og viti menn, þótt við sæjum ekki einn einasta fisk, pikkuðum við upp þó nokkrar þokkalegar bleikjur sem greinilega stóðust ekki UV hnýttan Nobbler. Veðrið? Ef þetta er haustveður, þá má vera haust allan ársins hring fyrir mér.

Eftir að hafa skotið veiðiskýrslunni í póstkassann við gatnamótin inn að Landmannahelli, héldum við heim á leið, meira en sátt við þessa haustlita óvissuferð að Fjallabaki. Miðað við allt klak flugunnar og tökuvilja bleikjunnar, er ekkert sem bendir til að veturinn sé á næsta leiti á þessum slóðum. Nú spáir hlýnandi í næstu viku og fyrirséð að suðrænar lægðir leggi leið sína upp að Íslandi þannig að það er greinilega nægur tími til stefnu fyrir þá sem ekki eru enn svo þreyttir eftir veiðisumarið að þeir hafi hug á að komast í góða vatnaveiði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 33 / 22 249 / 259 / 0 36 / 43 20 22

Hlíðarvatn í Selvogi 3. & 4. sept.

Ef einhver heldur að það sé snúður á mér eftir veiðiferð helgarinnar, þá er það nú ekki svo. Þannig að það sé fært strax til bókar, þá fékk ég eina 25 sm. bleikju á laugardagskvöldið og svo ekki söguna meir. En, ég er miklu meira en sáttur við ferð okkar veiðifélaganna í Hlíðarvatn í Selvogi.

Hlíðarvatn í Selvogi - 4. sept .2016
Hlíðarvatn í Selvogi – 4. sept .2016

Eins og sjá má skartaði Selvogurinn sínu fegursta um helgina, þótt sunnudagurinn hefði mátt vera örlítið hæglátari framan af heldur en raunin varð á. Bleikjurnar tóku á móti okkur á laugardaginn með ærslafullum skvettum og greinilega í töluverðu tökustuði í Botnavíkinni. Frúin setti í fyrsta fisk, sem var aðeins of lítill á pönnuna og fékk því líf. Ég setti í næsta, sem sömuleiðis stóðst ekki mál sem varð honum til lífs, en svo tók frúin öll völd og smellti í þrjár sem smellpassa á pönnuna, rétt pláss fyrir smjör og nokkrar hvítlaukssneiðar með flökunum. Nýjar kartöflur úr garðinum og það verður veisla á morgun. Vel að merkja, bleikjurnar tóku Peacock með orange skotti í stærð #12 og #14. Við þurftum reyndar ekki að bíða eftir því að opna þær til að sjá hvað þær voru að éta því þegar frúin hugaði að fiskinetinu sem lá í fjöruborðinu, var það svart af marfló, nokkuð sem ég hef ekki áður séð við Hlíðarvatn.

Það er eiginlega ekki einleikið hvað veðrið hefur leikið við okkur í sumar og sunnudagurinn varð eiginlega engin undantekning þar frá. Veðurspáin hljóðaði upp á töluverða rigningu, svona eins og 10 dropa á korti, en þeir urðu nú bara 10 droparnir sem smelltu sér niður í Selvogin rétt á meðan við létum renna á könnuna um morguninn. Að vísu var vindurinn eitthvað svipað og spáð var, þannig að við tókum bara sjöurnar með okkur út að Skollapollum, inn í Botnavík, Stakkavík og út að Hlíðarey. Eitthvað varð frúin vör við fisk, smá nart og stöku bleikja sýndi sig, en ég var algjörlega lánlaus, ekki eitt nart og virtist missa af öllum byltum bleikjunnar í yfirborðinu. Svona eru bara sumir dagar í veiði, stundum gengur bara ekkert upp, í það minnsta hjá mér.

Við Stakkavík
Við Stakkavík

Þegar við höfðum tekið veiðistangirnar saman í lok dags, vopnuðumst við öðrum tækjum og tólum og héldum til annarskonar veiða. Frúin kíkti til berja, vopnuð berjatínum og ég skaut á allt sem fyrir varð með myndavélum. Það stóð á endum að þegar veiðitíma okkar lauk, stillti vind svo um munaði og þá fóru flugur á stjá, gárurnar hurfu í Stakkavíkinni og ég er handviss um að þeir sem áttu veiði á eftir okkur, hafa fengið að kynnast tökustuði bleikjunnar, rétt eins og við urðum vitni að á laugardagskvöldið. Svo lengi sem flugurnar klekjast og fara á stjá, þá er bleikjan í Hlíðarvatni til í tuskið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 216 / 237 / 0 36 / 43 19 21

Hlíðarvatn í Hnappadal 27. & 28. ágúst

Það lyktar svolítið af hausti núna‘ var haft á orði þegar ég keypti leyfi að Hraunholtum á laugardaginn. Já, það var svolítið haust í lofti, en dásamlegt veður innan við bílrúðuna. Það er bara eins og aðeins ein vindátt sé þekkt við Hlíðarvatn, af norð-austri, og um helgina tók Kári sig til og blés köldu úr þeirri átt, svo köldu að stóru fiskarnir í vatninu tóku sér frí, lögðust á botninn og létu eiginlega ekki sjá sig.

Hlíðarvatn 27.ágúst 2016
Hlíðarvatn að kvöldi 27. ágúst 2016

Við höfðum verið vöruð við því að enn hefði lækkað í vatninu og hvött til að taka með okkur vatn á brúsa, en ekki óraði okkur fyrir þeirri sjón sem mætti okkur við Jónsbúð á laugardaginn. Aðeins smá pollur eftir fyrir framan veiðihúsið og töluvert langt í næsta vatn. Að vísu höfum við komið að vatninu enn lægra, en þá var það við austurenda þess, þannig að okkur brá nokkuð við þá sjón sem mætti okkur að vestan. Hvað um það, við komum okkur fyrir innan við Jónsbúð og héldum til veiða. Kraftaveiðar, uppásnúningar og bakköst voru það sem þurfti til að koma flugunni út á vatnið á laugardaginn. Vindurinn náði næstum tveimur tölustöfum í m/sek. og blés einmitt á kasthöndina þar sem við vorum við vatnið.  Ef það hefði verið vatn í vatninu frá Rifi og inn að Álftatanga, þá gæti ég sagst hafa þrætt alla ströndina, en þá væri ég að ljúga. Þess í stað röltum við frá eðlilegu fjöruborði og út að vatninu á nokkrum völdum stöðum á þessari leið og náðum að særa upp nokkra fiska á laugardaginn, stærsta um pundið, aðra nokkru minni.

Útsýnið úr Fellsbrekku til vesturs
Útsýnið úr Fellsbrekku til norðurs – þarna ættu að vera stöku hólmar og sker, ekki stöku pollar

Aðfararnótt sunnudags kólnaði heldur betur þannig að slaknandi vindur sem sunnudagurinn bauð uppá fór fyrir lítið og fiskurinn var mjög tregur eftir rok og kulda næturinnar. Aðeins ein bleikja hafði komið á land um þrjúleitið þegar við pökkuðum saman, kíktum til berja og renndum síðan heim á leið. En, það er alls ekki þar með sagt að vetur sé genginn í garð í Hnappadalnum, hann spái hlýnandi seinni part vikunnar og Hlíðarvatn hefur oft gefið vel langt inn í haustið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 212 / 236 / 3 36 / 43 18 20