Um þessar mundir sinnir Árni Friðriksson makrílrannsóknum hringinn í kringum landið en inn á hálendi eru nokkrir veiðimenn einmitt með slíkan fisk í farteskinu á slóðum Arnbjörns Guðbrandssonar (Ampa). Við veiðifélagarnir vorum að vísu ekki með neinn fisk eða aðra lífræna beitu í farteskinu þegar við renndum í hlað í Veiðivötnum á fimmtudaginn í okkar árlegu Veiðivatnaferð, þeirri áttundu í röð með vöskum hópi. Ferðin inn að Vötnum var ánægjuleg, vegur og veður í góðu standi. Ég ætla annars að láta það eiga sig að fara ítarlega í veður einstaka daga ferðarinnar, eitt dugi fyrir þá alla sem við vorum í Vötnunum; blíða.
Á köflum var reyndar svo mikil blíða að maður hafði sig aðeins með herkjum út á vatnsbakkann til að veiða, hitinn langt yfir 20°C og hverjum andvara var tekið fagnandi því fluga var töluverð á svæðinu.
Þó flestar flugnanna hafi verið af ætt toppflugu, og gengu því ekki á blóðbirgðir veiðimanna, þá voru þarna inni á milli nokkrar sem bitu hressilega.
Við byrjuðum á fimmtudaginn inni í Norðurbotni Litlasjós og röltum inn með hlíðinni í átt að Álftatanga. Reyndar var ferðinni ekkert endilega heitið alla leið þangað, en það var bara svo mikið líf á þessum slóðum að við stóðumst ekki mátið að tölta áfram. Ef ferðinni hefði verið heitið beint á Álftatanga hefði verið nær að hefja ferðina úr Austurbotni. Á þessum slóðum hittum við félaga okkar sem hafði einmitt sömu sögu að segja og við, það vantaði ekkert upp á fjölda fiska, en þeir stóru voru lítið að veita viðtal.
Við stöldruðum töluvert lengi við í víkinni norðan við Álftatanga, dáðumst að kvöldinu og öllum uggunum og sporðunum sem sýndu sig, en höfðum ekki brjóst í að taka með okkur þá sem tóku og voru við pundið. Tala á slepptum fiskum riðlaðist fljótlega, en heilt yfir í þessari ferð giska ég á að við höfum sleppt á bilinu 40 – 50 fiskum. Vel að merkja, við vorum ekkert í bleikju enda á alls ekki að sleppa henni í Veiðivötnum. Að gefnu tilefni, þá vil ég vekja athygli á því að best er taka sig tímanlega upp ef langur gangur er í bíl, það á nefnilega að vera komin á ró og allir búnir að skila sér í aðgerð fyrir kl. 01:00 Fyrsta kvöldið misreiknuðum við okkur aðeins og vorum heldur sein og fengum vinsamlegt tiltal, skiljanlega.

Vatnshæð í Litlasjó er undir meðallagi þetta árið, sama má segja um Hraunvötnin og nokkur af vötnunum í suðrinu, en mikið æti til staðar í lofti og í legi. Við höfum sjaldan vaðið í gegnum eins miklar breiður af flugu og beinlínis grútarrönd (1 til 4 metra) við bakka margra vatna. Ánægjulegt að sjá að vötnin virðast frjósöm og eftir því mikið af fiski að sýna sig, þótt hann hefði mátt vera stærri svona nær landi og í kastfæri okkar flugunördanna.
Eins og gengur vorum við svolítið að rúntinum um svæðið og í þeim ferðum okkar gaf að líta skemmtilega afþreyingu á nokkuð mörgum stöðum. Ónafngreindur prakkari hafði haft fyrir því að festa nokkra frasa og hnyttyrði á skilti og plantað víðsvegar um svæðið. Eftir því sem ég best veit, gaf viðkomandi prakkari sig fram við staðarhaldara og bauðst til að fjarlægja skiltin áður en hann héldi heim á leið, en það þótti hinn mesti óþarfi, skiltin hefði laðað fram bros margra á svæðinu og þau mættu alveg standa til hausts. Ég held að mér hafi tekist að smella myndum af öllum skiltunum á svæðinu, en gef ekkert uppi um staðsetningar þeirra, hver og einn verður bara að finna þau á ferð sinni um Vötnin.
Eins og áður segir, þá fórum við nokkuð víða um svæðið og heilt yfir var mikið líf að sjá, nokkuð sem maður hefur saknað síðustu tvö ár í Vötnunum. Til viðbótar við Litlasjó, þá var Ónefndavatn mjög líflegt en nokkur gáfu ágætlega þótt ekki væri mikið líf að sjá við fyrstu sýn. Hellavatn, eða það sem eftir er af því, gaf ágætlega þó ekki sæjum við fisk í þau skipti sem við fórum að því. Miðvatnið var á sínum stað og við urðum vör við fisk, en erfiðlega gekk að fá hann á okkar band. Sama má segja um Arnarpoll, þar var lífið helst langt utan kastfæris og vatnið gaf okkur ekkert í aðra hönd að þessu sinni.
Sama hvað, þá var dásamlegt að vera þessa daga í Vötnunum og eins víst að við heimsækjum þau aftur að ári. Ef einhver er sérstaklega forvitinn um afla, þá tókum við 11 urriða með okkur heim, þar af 3 stk sem voru yfir 4 pund, við erum fullkomlega sátt og fengum að takast á við smáfiskinn í 40 – 50 skipti og hann er bara glettilega sprækur.
Senda ábendingu