Einu feti framar

Ég held að það hafi verið í einni af Ástríks bókunum sem þessi gullvæga setning var höfð eftir Spartverjum; Ef stóra tá þín er of stutt, gakktu þá fetinu framar. Mér er til efs að þetta sé sannleikanum samkvæmt, ekki ber að trúa öllu sem Ástríkur hefur sagt. Jæja, þá er ég búinn að ná athygli lesandans og tókst meira að segja að lauma að þessu eina feti inn sem getur skipt máli.

Mínir taumar skiptast oftast í þrjá hluta; sverasta partinn sem er næst línunni (60%), miðju parturinn (20%) og taumaendinn (20%). Eins og gengur þá styttist taumaendinn eftir því hve oft ég skipti um flugu og þá vantar stundum allt í einu eitt fet á tauminn þannig að hann sé af æskilegri heildarlengd. Úr þessu er vitaskuld einfalt að bæta, hnýta eitt fet til viðbótar eða klippa taumaendann af og setja nýjan í upprunalegri lengd. Þetta er ekkert flókið, eða hvað?

Gefum okkur að ég standi lánlaus á bakkanum eftir ótilgreindan fjölda kasta og að mér kemur reynslubolti, gjóir augunum á tauminn minn og segir; Ég er nú alltaf með lengri og grennri taum hérna, hún er svo stygg. Til einföldunar skulum við segja að ég sé með heildarlengd taums upp á 10 fet, 6 fet af 0.50 mm (sem er u.þ.b. 2/3 af línusverleikanum mínum) 2 fet af 0.30 mm (0X) og 2 fet af 0.22 (2X).

Mér væri í lófa lagið að lengja tauminn minn með 4 fetum af 0.18 mm (4X) þá væri hann samtals 14 fet í stað 10 áður, ég væri þá næstum því að taperingunni á tauminum (0.50 > 0.30 > 0.22 > 0.18) eða hvað? Nei, það er víst ekki svo að þessi taumur sé til stórræðanna. Væntanlega yrði ég smækka fluguna ef þá taumurinn í heild sinni réði við að rétta úr sér á annað borð, en það er alltaf hætt við að aflið í kastinu dræpist í þessum nýju 4 fetum af fremsta efninu.

Nær væri að taka fram 7 fet af 0.50, hnýta 4 fet af 0.30 og 4 feta taumaenda úr 0.20 í nýjan taum. Formúlan væri þá að vísu ekki 60/20/20 en nógu nálægt því til að virka og ég væri búinn að ná lengri taum og í raun einu feti framar.

Að lengja taum, annað hvort með því að lengja taumaendann umtalsvert eða bæta nýjum (grennri) taumaenda sem fremstra parti, virka afar takmarkað. Það er ekki bara sverleiki taumsins frá byrjun til enda sem skiptir máli, líka það sem er þarna á milli. Það má hugsa sér alla missmíð á taum eins og hlykk á garðslöngu, hver einasti hlykkur seinkar því að vatnið komi fram úr henni, vatnið skila sér síðar eða ekki.

Jólatré á taumi

Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

Styggur fiskur

Þegar vetur gengur í garð þá vinnur maður úr því sem maður hefur safnað í sarpinn yfir sumarið. Eitt af því sem ég geymdi í sarpinum er umræða sem ég átti s.l. sumar við afar lunkinn veiðimann um ljót köst. Einhverra hluta vegna var ég fullur afsakana og sagði eitthvað á þá leið að ljót köst veiða líka. Ég var leiðréttur hið snarasta og sagt að þetta ætti að vera ljótar flugur veiða líka. Jú, ég kannaðist eitthvað við þetta um ljótu flugurnar og fór að klóra í bakkann með köstin, var greinilega umhugað um réttlæta eitthvað.

Við vorum sammála um ljótu köstin geta styggt fisk ef þau verða til þess að línan skellur niður á vatnið. Einmitt þetta getur verið ókosturinn við framþungar skotlínur í dag. Hraði þeirra er mikill, þær vaða út og eiga það til að skella niður á vatnið. Skothausinn er oft tiltölulega þungur og stuttur þannig að línan er svolítið eins og svipa þegar hún lendir á vatninu. Góð skotlína í höndum þokkalegs kastara á yfirleitt ekki í vandræðum með að vaða fram úr stangartoppinum þannig að það má alveg leyfa sér að tempra hraða hennar í framkastinu rétt nóg til að taumurinn leggist beint fram og hvorki lína né taumur skelli á yfirborðinu. Með því að halda örlítið við línuna þegar framkastið hefur náð hámarkshraða, þá hægir línan á sér, það réttist betur úr tauminum og hvoru tveggja leggst rólegar niður. Hver og einn veiðimaður verður að finna sinn takt í þessu viðhaldi línunnar en með smá æfingu er leikandi hægt að ná þessu þokkalega.

En hvað með þennan stygga fisk ef línan hefur nú lagst rólega fram, taumurinn rétt vel úr sér og flugan er ekki með ógnar læti þegar hún lendir? Verður fiskinum virkilega jafn brugðið við tauminn eins og margir vilja vera láta? Já, trúlega eru til þau vötn sem eru svo tær og laus við allt fljótandi að taumurinn sker sig úr öllu því sem fiskurinn hefur vanist, að hann styggist. En, það kemur veiðimönnum eflaust á óvart hve margt og misjafnt er á ferðinni og flækist um í vatninu að öllu jöfnu. Gróður og gróðurleifar, aðskotahlutir sem fokið hafa út í vatnið og að ógleymdum skuggum þess sem flýtur á yfirborðinu. Allt þetta og fleira til er líklegra til að skjóta fiskinum skelk í bringu heldur en taumurinn. Eitt er það þó sem styggir fisk, meira að segja þann ódauðlega sem hefur náð meira en 1 metra og það er allt sem getur orðið honum skeinuhætt og erfðir hans hafa kennt honum að varast, m.a. maðurinn eða réttara sagt; fótatak hans og skuggi.

Lína og lína?

Ég hef í nokkur ár átt mér uppáhalds flugulínu en eftir síðasta sumar var deginum ljósara að dagar hennar voru taldir þannig að ný flotlína fór á jólaóskalistann minn. Þessi lína hefur hentað mér og aðal stönginni minni alveg ágætlega en svo gerðist það að ég keypti mér nýja stöng sem aðal stöng. Báðar eru þær #7, sú gamla 9,6 fet en sú nýja 10 fet, en í því liggur ekki helsti munur þeirra. Sú nýja er stífari, töluvert stífari og gerir þar af leiðandi kröfu til allt annarrar línu. Uppáhalds flotlínan mín var viðeigandi lína #7 og 185 grains en það vantaði alla hleðslu í nýju stöngina mína og ég var endalaust að falskasta til að ná einhverri lengd í köstin.

Ég hnippti því í kunningja mína og fékk að prófa aðrar línur af stærð #7. Viljandi spurði ég ekkert nánar út í þessar línur, smellti þeim bara á nýju stöngina mína og prófaði hverja á fætur annarri. Það voru tvær línur sem mér fannst passa stönginni, en þær voru mjög ólíkar. Önnur var með tiltölulega stuttum þungum haus og kostaði hreint og beint smáaura og þar sem ég sá strax fyrir mér nokkrar aðstæður þar sem hún mundi henta mér, þá festi ég kaup á henni. Eftir töluvert grúsk, vigtun og útreikninga, fann ég út úr því að hún var 192 grains, sem sagt aðeins þyngri heldur en gamla uppáhalds línan mín. Þar sem haus línunnar er óvanalega langt fyrir aftan fremsta part hennar, þ.e. línan frá haus og út að enda var mjög löng.

Hin línan sem smellpassaði stönginni var allt öðrum eiginleikum búinn, samt með áberandi skothaus og hagaði sér allt öðruvísi þegar hún hlóð stöngina enda kom á daginn að hún var 215 grains, sem er aðeins þyngra heldur en ‚standard‘ lína #7 ætti að vera að hámarki. Ég féll svolítið flatur fyrir þessari línu og þegar mér hafði tekist að draga annað augað í pung, þá var verðmunur þeirra ekki alveg eins rosalegur og ég ákvað að kaupa þær báðar.

Lærdómurinn af þessu gaufi mínu? Jú, lína #7 og lína #7 er alls ekki sama línan og maður á ekki að hika við að prófa þær nokkrar á móti tiltekinni stöng.

Snúningur

Stundum kemur það fyrir að flugulínurnar mínar og ég erum ekki alveg sammála. Þær liggja bara þarna fyrir fótum mér en þegar ég ‚þarf‘ að lyfta tánum örlítið í kastinu, þá þurfa þær endilega að smeygja sér undir vöðluskóinn og húkka sig þannig fastar að ekkert verður úr kastinu. Sumar línur eru líka í eðli sínu illkvittnar og finna sér hvern einasta stein, trjágrein eða gróður til að vefja sig utan um þegar minnst varir og virðast segja „Hingað, og ekki lengra. Ég nenni þessu ekki lengur.“

Svo kemur það fyrir að línan verður beinlínis andsetinn, snýr upp á sig og er bara með yfirgengilega almenna stæla. Í þeim tilfellum er víst ekki við línuna að sakast, þessir snúningar eru mér að kenna og þá þarf ég að gera eitthvað í mínum málum, jafnvel að strjúka línunni aðeins og fá hana aftur til fylgilags við mig.

Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að það snýst upp á flugulínuna. Ein ástæða þess að flugulína vindur upp á sig er falinn í kastinu mínu. Við breytingar á kastferlinum, þ.e. einhver frávik frá því að línan ferðast í beinni línu frá öftustu stöðu og í fremra stopp, þá snýst upp á línuna. Stundum er þetta með vilja gert, þ.e. maður tekur línuna upp í bakkast og breytir stefnu hennar til að leggja hana niður á nýjan stað, en stundum er þetta óviljandi frávik í framkastinu.

Notkun á stórum flugum, þeim sem taka á sig vind eða búa yfir mikilli loftmótstöðu, geta einnig framkallað smávægilegan snúning á línuna. Smá ábending; ef þessi snúningur hleðst ört upp, þá er það vísbending um að verið sé að nota of létta stöng / línu miðað við flugu og reynandi væri að hækka sig um eitt til tvö númer í stöng.

Annars er það þannig að öll þessi smávægilegu frávik hlaðast upp í línunni og ef ekkert er að gert, þá er kominn svo mikill snúningur á línuna að jafnvel lítill stubbur af henni sem lafir niður úr hjólinu er farinn að snúa upp á sig, flækjast. Í verstu tilfellum dregur maður þessa flækju inn á hjólið og skyndilega stendur allt fast. En áður en að þessu kemur, þá eru nokkur atriði sem má nýta sér til að snúa ofan af vandamálinu.

Það fyrsta sem maður getur gripið til er að taka minna af línunni út af hjólinu fyrir kastið og láta það nýta alla línuna sem leikur laus, alveg að hjólinu. Taka síðan aðeins meira út fyrir næsta kast og láta það nýta viðbótina líka. Það er glettilegt hvað nokkur góð köst geta undið ofan af snúningi.

Ef allt um þrýtur, þá þarf einfaldlega að draga alla línuna út af hjólinu og spóla rólega inn á það aftur og gæta þess að það étist ofan af snúninginum jafnt og þétt. Það væri meira að segja heppilegt að nýta tækifærið og bregða gleraugnaklút eða hreinsitusku á línuna þegar henni er spólað inn á hjólið, slá tvær flugur í einu höggi.

Algeng mistök þessu tengt er að fara að strengja á línunni til að losna við snúninginn, ekki gera það. Við strengjum aðeins á línunni ef hún herpir sig saman vegna hitabreytinga eða vegna þess að hún myndar gorm þegar hún kemur út af spólunni sem er allt annað vandamál og tengist mynni hennar, ekki snúningi.

Strekkingur

Allt frá þeim tíma sem byrjað var að framleiða flugulínur úr gerviefnum hafa veiðimenn glímt við minnisvandamál. Ég til dæmis gleymi oft hvaða lína er á hvaða spólu; er þetta heilsökkvandi línan eða er þetta intermediate línan? Nei, auðvitað veit ég alveg hvaða lína er á hvaða spólu. En ég, rétt eins og aðrir, glími stundum við þetta minnisvandamál í línunum mínum. Þó ein ákveðin lína sé í miklu uppáhaldi hjá mér, þá á ég línur frá fleiri en einum framleiðanda og þær eru allar því marki brenndar að muna óþægilega oft hvernig þær hafa legið á spólunum í einhverjar vikur eða mánuði.

Flestar flugulínur í dag eru framleiddar úr PVC, PU eða PE plastefnum og það liggur í eðli þessara efna að það bítur í sig ákveðna lögun ef það liggur kyrrt í langan tíma. Meira að segja venjulegar gosflöskur geta orðið flatbotna ef flöskurnar standa óhreyfðar svolítið fram yfir síðasta söludag innihaldsins. Flugulínurnar verða að vísu ekki flatbotna, en þær verða stundum eins og gormur þegar þær eru dregnar út af veiðihjólinu. Það sem við erum að sjá þarna er svo kallað langtímaminni plastefna. Línurnar muna nefnilega eftir því þegar þeim var spólað ilvolgum inn á stórar tromlur í verksmiðjunni. Þessari minningu línunnar bregður stundum fyrir þegar henni verður kalt, þá herpist hún saman einmitt í sömu áttina og hún fór inn á tromluna. Ef þið trúið mér ekki, þá skulið þið bara spyrja hann Air Rio von Cortland, hann hefur glímt við þetta vandamál í nokkuð mörg ár.

Þegar flugulínan tekur upp á þessum skolla, þ.e. að rifja um þessar gömlu minningar, þá er í raun aðeins eitt til ráða. Vera hæfilega ákveðinn, svona eins og við óþekkan krakka, ekkert ruddalegur, vera mjúkhentur en ákveðinn. Framkvæmdin er í raun afskaplega einföld; takið 3 – 4 fet af línunni út af hjólinu, togið þéttingsfast í þennan spotta, en umfram allt reynið að forðast að setja hlykk á línuna í öðrum hvorum lófanum eða báðum. Það á ekki að vefja línuna um aðra höndina eða báðar, slíkt átak er einfaldlega of mikið og gerir meira ógagn en gagn. Þegar þú hefur farið svona yfir alla línu, þá er tilvalið að spóla henni aftur inn á hjólið með því að halda þéttingsfast um hana með gleraugnaklút, mögulega vættum í smá línubóni eða hreinsiefni, það sakar ekki að hafa línuna hreina inni á hjólinu.

Því miður kemur það alveg fyrir að menn strekkja of harkalega á línunni og þá er hætt við að kápan (sá hluti línunnar sem er gerður úr plasti) losni frá kjarnanum. Það er raunar óþarfi að óttast að slíta venjulega flugulínu, þær eru yfirleitt framleiddar með 18 – 25 punda slitstyrk að lágmarki og sveigjuþol þeirra er oft vel yfir 20%. Eftir sem áður þá eru þær ekki gerðar fyrir fruntalegt átak, þá getur kápan losnað frá kjarnanum og hætt er við að línan virki þá verr eftir strekkinginn, rétt eins og hún sé brotinn eða kjarninn leiki laus inni í henni.

Örlítil varnaðarorð í lokinn, ekki strekkja á línu sem er snúin. Það er nefnilega ekki það saman að lína sé snúinn eða hafi krullað sig upp í gorm eða rétti ekki alveg úr sér. Ef þú þekkir ekki muninn á snúinni línu og krullaðri, þá skaltu bíða í nokkra daga og lesa þér til um það hvernig eigi að snúa ofan af línu áður en þú ferð að strekkja á línunni þinni.

Ný lína

Þessa dagana upplifa margir veiðimenn eða finna bara hjá sér óstöðvandi þörf að kaupa sér nýja flugulínu, því ekki endast flugulínur til eilífðar. Vissulega má framlengja líf flugulínunnar með ýmsum ráðum, helst ilvolgu baði og almennum þrifum, en það kemur alltaf að því að þær einfaldlega virka ekki sem skyldi lengur.

Það er að mörgu að hyggja þegar ný lína verður fyrir valinu, burtséð frá framleiðanda og gerð línunnar. Þegar allt hefur verið ákveðið og menn tilbúnir að taka upp veskið, þá er aðeins ein ákvörðun eftir; á maður að þiggja það að starfsmaður í veiðiversluninni setji línuna á hjólið eða ætlar maður að gera það sjálfur?

Ef maður er nú með hjólið með sér í búðarferðinni eða það sem enn skemmtilegra er, maður hefur keypt sér nýtt hjól í leiðinni, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þiggja þetta boð og láta setja nýju línuna á hjólið. En svo eru það þeir sem eiga eftir að færa línur á milli hjóla eða spóla og verða því að segja nei, takk ég geri það sjálfur.

Það þarf væntanlega ekki að segja reyndum veiðimönnum að það er ekki saman hvernig línu er spólað inn á veiðihjól, en það eru mögulega einhverjir óvanir sem reka augun í þessa grein og þá gætu eftirfarandi leiðbeiningar gagnast. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. að réttur endi línunnar eigi að fara fyrst inn á hjólið, oft með áföstum miða sem segir this end to reel eða eitthvað álíka, þá er alls ekki sama hvernig línan er tekin út af spólunni í pakkanum.

Stillið nýju línuna alltaf þannig af að hún spólist úr af geymsluspólunni að neðan og inn á fluguhjólið að neðan. Ef ekki er gætt að þessu, þá er hætt við að línan fari að vinda upp á sig í fyrstu köstunum því framleiðsluminni hennar er snúið við á fluguhjólinu.

Alls ekki taka nýju línuna út af geymsluspólunni í gormi, þá er hætt við að fyrstu köstin endi einmitt þannig.

Því miður hef ég nokkrum sinnum séð nýjar línur eyðilagðar vegna þess að þær eru settar rangt yfir á fluguhjólið og veiðimenn fara að strekkja línurnar í tíma og ótíma til að leiðrétta þessa skekkju, en það dugar skammt og gerir oft meira ógagn heldur en gagn ef öll línan er ekki tekin út af hjólinu og henni spólað inn aftur.

Mismunur línugerða

Það hafa komið hér á síðunni nokkrar greinar um línur í gegnum tíðina, en um daginn tók ég eftir því að það vantaði hér inn smá skýringar á því hvernig mismunandi línugerðir haga sér í vatni. Hér á eftir geri ég heiðarlega tilraun til að bæta úr þessu. Byrjum á mynd af þeim fjórum helstu gerðum lína sem í boði eru:

Flotlínan (F) er orange á myndinni og flestir fluguveiðimenn þekkja hvernig hún hagar sér, liggur bara þarna á yfirborði vatnsins og það eina sem getur dregið hana undir yfirborðið er þyngd flugunnar. Haus flotlína er yfirleitt þetta 35 – 45 fet og form hans getur verið með ýmsum móti. Það má lesa nánar um það í þessari grein.

Sökkendalína er gul á myndinni (T). Hefðbundin sökkendalína er í raun flotlína, en fremstu 10 – 15 fetin af hausnum eru þannig hönnuð að þeir sökkva. Svo fer málið aðeins að flækjast því það er hægt að fá þessar línur með mismunandi sökkhraða. Algengast er að sökkhraði sé mældir í tommum á sekúndu (IPS) og algengt að þær sökkvi frá 3 IPS og upp í 9 IPS. Á mannamáli þá þýðir þetta að 3 IPS fer frekar rólega niður í vatnið en 9 IPS steinsekkur.

Intermediate  (I) er heil flóra af línum og er sú bláa á myndinni. Sá partur línunnar sem í raun sekkur getur verið frá 15 fetum og allt að enda línunnar, þess sem er inni á hjólinu (full intermediate) sem ég verð að viðurkenna að mér finnst þá vera nokkuð nálægt því að vera síðasta gerðin, þ.e. sökklína. Sökkhraði intermediate lína er mis mikill, allt frá slow (0,5 IPS) og upp í fast (1,5 IPS). Það sem mér finnst vera góð intermediate lína er sú sem er með tiltölulega góðum haus (skothaus) og stöðvast í sökkinu um leið og ég tek í hana. Það má lesa nánar um intermediate línur í þessari grein.

Sökklínu (S) eru línur sem sökkva alveg frá byrjun til enda og er sú gráa á teikningunni. Hérna er ég ekki sérstaklega sterkur í lýsingum, hef lítið sem ekkert notað heilsökkvandi línu í vatnaveiðinni og um leið og ég skrifa þetta, þá rennur upp fyrir mér að ég veit bara hreint ekki af hverju ekki. Heilsökkvandi línur eru, eins og heiti þeirra segir til um, sökkvandi línur í hraða 3 IPS og alveg upp í 7 IPS rétt eins og sökkendalínurnar. Stærsti munurinn ku vera að þær sökkva alla leið, í tvennum skilningi, frá byrjun til enda og ef þeim er gefinn nægur tími, þá er ekkert það dýpi sem þær ná ekki niður á. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í hvar þeir fengsælustu hafa verið að veiða í Veiðivötnum síðustu árin, þá er þetta línan sem mig vantar í vötnin þar sem botninn er ekki urð og grjót alla leið.

En nú er sagan aðeins sögð að hálfu leiti, þessar línur haga sér náttúrulega með misjöfnum hætti við inndrátt. Sú saga verður sögð í öðrum pistli hér á síðunni.

Hvar á maður að draga línuna

Af mörgum ástæðum er rétti staður línunnar í vatninu. Ef hún er of lengi í loftinu, þá er flugan það líka og ekkert veiðist. Ef hún er alltaf inni á hjólinu, þá er engin fluga og ekkert veiðist. Ef hún er í sandinum, þá er maður að skrapa húðina af henni og hún hættir að renna.

Það eru ótal margar leiðir til að fara illa með línuna sína. Að dragnast með hana í eftirdragi á vatnsbakkanum er ein leið til þess. Ef það er ekki sandur sem sér um að skrapa og rispa yfirborð hennar, þá er trúlega einhver gróður sem hægt er að húkka í, jafnvel búa til skemmtilega slaufu eða hnút sem gæti í versta falli orðið að broti í línunni.

En það er lítið betra að dragnast með línuna á eftir sér í vatninu. Það þarf ekki nema einn góðan stein eða nibbu til að stöðva för og hvað gerir maður oftar en ekki þá? Jú, kippir í línuna eða reynir að vippa henni af steininum. Í augnablikinu eru nokkrar smá skeinur á einni af mínum línum vegna þessa sem ég efast um að ég nái að lagfæra.

Eins gott og það getur nú verið að setjast aðeins niður eftir drjúga stund við veiðar, þá geri ég oft á tíðum þau mistök að hanka línuna saman og leggja hana frá mér ásamt stönginni á öruggan stað. Þegar ég er svo búinn að fá mér kaffisopa og láta líða aðeins úr mér, þá stend ég upp og …. stíg á línuna. Meira að segja á mjúku undirlagi er ekki ólíklegt að ég merji línuna aðeins undir skónum. Því miður gengur mér erfiðlega að venja mig af þessu og spóla línunni inn á hjólið áður en ég tek mér pásu.

En það geta líka orðið ákveðin særindi ef maður spóla inn á hjólið. Ef það er of mikil undirlína á hjólinu og línan svo til rétt sleppur inn á hjólið, þá þarf nú ekki mjög mikið til þess að maður spóli henni inn í kryppu og þá fer hún að rekast í umgjörðina við hvern einasta snúning. Ef svo ber undir, þá er rétt að spóla allir línunni út og stytta undirlínuna til að skapa aðeins meira pláss á hjólinu fyrir hana.

Þá held ég örugglega að ég sé kominn með alla línuna af mistökunum sem ég geri mig uppvísan að. Nei, annars, það vantar eitt. Ég á það til að draga línuna svolítið mikið á ská út af hjólinu og þá nuddast hún við umgjörðina á spólunni og … einmitt, ég skef húðina af kápunni. Það ætti að vera auðvelt að venja sig af þessu, draga bara línuna beint fram eða niður í stað þess að skófla henni út á ská.

Sérsniðnir taumar

Þegar ég nefni sérsniðna tauma, þá er ég ekki að vísa til tauma sem veiðimaðurinn setur saman, styttir eða lengir eftir aðstæðum. Ég er að vísa til tauma sem eru sérsniðnir að ákveðinni línu, beinlínis niður í þyngd hennar og eiginleika. Áður en lengra er haldið, þá vil ég taka það fram að þetta er ekki aðkeypt umfjöllun þótt ég nefni framleiðanda línu og taums, ég er fyrst og fremst að dást að því að veiðimönnum gefst kostur á að finna lausn á línu + taum + taumaenda sem er sett saman af einum aðila og passar fullkomlega saman, þ.e. alls þess sem er frá 2 og upp í 5 á myndinni.

Þannig er að veiðifélagi minn féll alveg í trans eftir að hafa prófað ákveðna línu á stöngina sína s.l. vor.  Línan heitir Shooter WF og er frá Salmologic, þá er það sagt. Svo uppveðruð var hún af þessari línu að það var ekki um annað að ræða heldur en fara og versla svona línu, annars hefði heimilishald og sambúð verið stefnt í voða.

Þannig fór því að fest voru kaup á línu og passandi kónískum taum. Byrjum aðeins á þeim upplýsingum sem var ekki að finna á kassanum utan af línunni. Þar kom hvergi fram að hún væri ætluð stöng með ákveðnu AFTM númeri. Þess í stað var hún einfaldlega auðkennd með WF og þyngd í grömmum og grains. Þegar ég bar þetta saman við upplýsingar hér á síðunni, þá var viðkomandi lína nálægt því að vera fyrir stöng heilu númeri léttari en stöngin var skráð. Ég játa að ég varð svolítið efins um að þessi lína passaði, væri jafnvel aðeins of létt á þessa stöng.

Taumurinn sem læddist með í þessum kaupum var ekki ódýr en nokkuð augljóst að töluverð vinna hafði verið lögð í hönnun hans og hráefni. Kónískur taumur með mjúkri áferð, lykkjur á báðum endum og það sem vakti athygli mína var að hann var sérstaklega merktur með nákvæmlega sömu upplýsingum og voru á línunni (grömm og grain). Eins og góðum taum sæmdi, þá var sverari partur hans nánast upp á 1/1000 úr mm. 2/3 af þvermáli línunnar. Framan á þennan taum hnýtti frúin síðan stuttan taumaenda með fastri lykkju sem hún útbjó með Perfection Loop.

Þetta finnst mér til fyrirmyndar, framsetning og kerfi af taumum með passa línunni. Og hvernig virkaði þetta svo, jú alveg eins og smurt saman; stöng, lína og taumur. Léttleiki línunnar sem ég hafði haft áhyggjur af reyndist tilhæfulaus, eiginleikar þessarar skothausalínu vógu upp það sem ég taldi vera undirspekkun á línu.

Taumalengd

Eitt af því sem fluguveiðimenn spá reglulega í er lengd taums og þeir spyrjast reglulega fyrir um þetta. Stutta svarið er; Það ræðst nú af ýmsu. Á meðan sum vötn hafa fengið á sig það orð að þar verði að nota ákveðna lengd af taum, annað virki bara ekki, þá segja reynsluboltarnir eitt eða annað. Ekki dettur mér í hug að efast um reynslu manna en ég hef oftar en ekki orðið var við ákveðinn misskilning á lengd tauma og þá sér í lagi vegna meintrar taumafælni fiska. Í því sambandi vil ég benda mönnum á að það er sjaldnast lengd taums, eða öllu heldur skortur á lengd, sem fiskurinn mögulega fælist, það er sver- og sýnileiki hans sem fiskurinn getur mögulega hrokkið undan. Ef taumur er orðinn mattur eða taumaendinn er of sver, skiptu þá um taum en hugsaðu þig vel um áður en þú lengir hann um einhver fet, í það minnsta þar til þú hefur ná góðum tökum á þeirri lengd.

Taumar eru af mismunandi sverleika sem yfirleitt er í beinu samhengi við slitstyrk þeirra. Þegar menn hefja fluguveiði, þá er ekki óalgengt að þeir byrji með 9 feta taum, ná þokkalegu valdi á þeirri lengd og fikra sig síðan í lengri taum þar sem aðstæður og veiðiaðferðir krefjast þess. En 9 feta taumur er ekki það sama og 9 feta taumur. Sverasti partur taumsins þarf að passa sverleika línunnar, það er ekki nóg að hugsa eingöngu um lengd hans eða X númerið sem hann endar í. Þumalputtaregla fyrir sverleika taums þar sem hann tengist línunni er að hann ætti að vera u.þ.b. 2/3 af sverleika hennar. Í hverju hann endar ætti að ráðast af stærð flugunnar, sjá töflu hér. Athugið að þetta er þumalputtaregla sem á alls ekki alltaf við og brotnar mun oftar en þumalputtar gera. Kónískir taumar eru ekki allir eins, sumir byrja sverir og enda í t.d. 3X (u.þ.b. 0,20 mm) á meðan aðrir byrja grannir og enda líka í sama sverleika. Sá fyrri er því töluvert brattari ef segja má sem svo.

Þegar menn hafa náð góðu valdi á 9 feta taum, sverleika og því hve skart hann mjókkar niður í æskilegan sverleika, þá ættu menn að vera tilbúnir að ráðast í lengri tauma. Ég er alveg óhræddur við að játa það að það tók mig töluverðan tíma að ná sjálfum sátt við lengri tauma, þetta getur tekið tíma og fyrst og fremst æfingu.

Taumurinn úr lógóinu

Ákveðnar aðstæður og veiðiaðferðir kalla svolítið á breytilega lengd tauma, þannig að það má alls ekki útiloka lengri eða styttri tauma. Þurrfluguveiði kallar á lengri taum, kannski eitthvað í áttina að eða yfir 12 fet. En það má ekki skilja sem svo að þurrflugur beinlínis gargi á þetta, lunkinn veiðimaður sem ræður vel við 9 feta taum sem mjókkar skart niður í t.d. 5X (0,14 mm) á ekkert síður erindi í þurrfluguveiði heldur en sá sem ræður við langan taum. Þetta snýst svolítið um mýktina og ekki síst þyngd og eftirgefanleika stangar og línu.

Það að vera með mjög langan taum í púpuveiði þekkist vel í ákveðnum vötnum, helst þar sem veiðimenn eru að veiða alveg niðri við botn. Það getur verið mjög hentugt að vera með langan taum á flotlínu undir þannig kringumstæðum. Sami taumur getur aftur á móti verið ofrausn ef menn eru með intermediate eða sökkvandi línur, þá er styttri taumur jafnvel betri þannig að línan nái að stjórna dýpinu sem veitt er á.

Að veiða með styttri taum en 9 fet getur líka verið kostur. Að vera með allt niður í 3 eða 5 feta taum í þungu straumvatni er oft nauðsyn, einfaldlega vegna þess að lengri taumur er bara á einhverju flakki í vatninu og flugan á það til að rísa ef hún leikur laus á of löngum taum. Þetta á einnig við um þyngri flugur, þær kalla á styttri taum eða sverari annars skilar aflið í kastinu sér ekki út í fluguna og hún einfaldlega leggst ekki vel fram.

Að öllu þessu sögðu kemur hér fyrirvari; það er mín reynsla og grúsk sem markar þessi orð. Vertu duglegur að prófa þig áfram með mismunandi tauma, sverleika og lengd og þá getur þú fundið þína töfralausn sjálfur. Það er engin patent lausn í þessu taumaveseni, umfram allt, æfðu þig því það verður enginn óbarinn biskup í meðhöndlun tauma.

Að velja sér taum

Það sem ræður mestu um það efni sem er að finna á þessum vef er eigið grúsk. Það sem ræður næst oftast því sem ég skrifa um eru fyrirspurnir og spjall sem ég á við aðra veiðimenn. Eitt af því sem ber mjög oft á góma eru taumar. Það laumast að mér grunur að nokkuð margir veiðimenn telja sig vera í vandræðum með val á taumum og spyrja um hina gullnu, einföldu reglu fyrir besta tauminum. Því miður kann ég ekki þessa gullnu reglu og ég leyfi mér að efast um að hún sé til. Af samtölum mínum við veiðimenn, ræð ég það nú samt að margir gera grundvallar mistök í vali á kónískum taum.

Það eru þrír þættir sem menn þurfa að huga að við val á taum, ekki tveir. Mjög margir spá fyrst og fremst í lengd taums. Á hann að vera 7 fet, 8 fet, 9 fet eða miklu lengri? Aðrir spá fyrst og fremst í þeim sverleika taums sem hann endar í.

Í upphafi skildi taumaendann skoða en það er ekki nóg, ekki heldur að spá í lengd taumsins. Það eru ekki aðeins tveir þættir sem ættu að ráða vali á taum og þá er ég ekki að bæta eiginleikum taumsins við, þ.e. hvort hann er flot, hæg- eða hraðsökkvandi. Þegar maður velur taum, þ.e. kónískan taum þá byrjar maður á sverari endanum. Hve sver er endi línunnar? Sverari endi taumsins ætti að vera sem næst 2/3 af sverleika línunnar þannig að flutningur aflsins úr kastinu skili sér.

Ending flugulína

Þessi greinarstúfur er sérstaklega tileinkaður letipúka sem hefur fylgt mér í ótal mörg ár, sjálfum mér. Það er alveg sama hve oft ég einset mér að hugsa betur um flugulínurnar mínar, þá gerist það allt of sjaldan. Góð umhirða flugulínu lengir nefnilega líftíma hennar og þá verður hinn púkinn minn miklu ánægðari, nískupúkinn í mér.

Ég var spurður að því um daginn hve lengi línurnar mínar entust. Ég satt best að segja gat ekki svarað því nákvæmlega, eina sem ég veit að sumar hef ég átt lengi á meðan aðrar hafa lifað skemur. Kunnáttumaður sagði mér að góð flugulína, þar sem góð ræðst oftar en ekki af verðmiðanum, eigi að endast þetta 250 veiðidaga. Sami maður sagði mér að með góðri línu eigi maður að geta verið svona keppnis þótt flugustöngin sé langt því frá að vera í verðflokki keppnisstanga. Þessar línur kosta í dag á bilinu 12 – 16 þ.kr. Hér verð ég að taka það fram að ég hef átt línur sem kosta aðeins fjórðung af þessu verði og ég hef ekki fundið mikinn mun á þeim og dýrari línum og þær hafa enst mér ágætlega. Þetta síðasta var til að friða nískupúkann í mér.

En til að ýta aðeins við letipúkanum þá eru hér nokkrar línur um þrif og meðhöndlun flugulína:

Sum sumur er það sem hefur mest áhrif á plastið í flugulínunum ekkert vandamál á Íslandi, sólin. Of mikið sólarljós í of langan tíma styttir líftíma flugulínunnar verulega. Þótt nýjustu flugulínurnar séu merktar UV resistance þá hefur sólarljósið samt mjög mikil áhrif á þær. Mér liggur við að segja að þessi merking sé nærri jafn áreiðanleg og Anti age formula í hinum og þessum húðkremum. Þegar hiti og sólarljós fer saman, t.d. þegar veiðihjólið þitt liggur í aftursætinu og bakast þar í sólinni, þá fer niðurbrot plastsins fyrst af stað fyrir alvöru.

Það að þrífa línuna reglulega er ekkert svo mikið mál. Flestir mikla það eitthvað fyrir sér að láta ylvolgt vatn í skál eða fötu, bæta smá handsápu (ilmefnalausri) út í og leyfa línunni að liggja þar í 15 – 25 mín. Tíminn ræðst af því hvort menn hafa vanist á að nota eitthvert sleipiefni á línuna eða ekki. Því oftar sem sleipiefni er notað, því meiri leifar verða eftir á línunni sem gera lítið annað en safna í sig skít og óhreinindum sem hægja á henni í kasti. Fyrir alla muni, ekki freistast til þess að nota svamp eða grófan skrúbb á línuna þótt hún sé mjög skítug. Mjúkur bómullarklútur er alveg tilvalinn, eftir að línan hefur legið í vatninu og áður en skolað er af henni og hún hengd upp til þerris. Já, þú last rétt. Það verður að leifa línunni að þorna þokkalega áður en henni er spólað aftur inn á hjólið.

Það er líka mikilvægt að hugsa um línuna á milli þvotta. Það er ekki bara nóg að þvo hana að hausti og bíða síðan til næsta hausts að hugsa þá um hana. Það eru til ýmsar vörur sem eru ætlaðar til þess að næra flugulínuna á milli þvotta. Ég hef ekki hugmynd um hver fann upp á þessum frasa, en hann hafði ekki mikið vit á efnafræði og þá sér í lagi fjölliðum eins og í plasti. Í eitt skipti fyrir öll (er reyndar búinn að segja þetta svo oft áður); þau efni sem eiga að næra flugulínuna þína eru í flestum tilfellum bón eða sílikon og hafa ekkert næringarfræðilegt gildi fyrir plast.

Vissulega er hægt að nota bón til að ná betra rennsli í línuna og þá skiptir í raun engu máli hvaða bón þú notar. Allt bón inniheldur leysiefni af einhverri gerð og leysiefni er ekki besti vinur flugulínunnar þannig að því oftar sem þú notar bón, því oftar þarftu að nota það. Húð línunnar fer því hraðar af henni því oftar sem þú dregur hana í gegnum bónklútinn sem er mettaður af leysiefni. Að mínu mati ætti bónið að fá að hvíla sig alveg þangað til línan er kominn að gjörgæslu og lífdagar hennar eru í raun taldir, sem sagt aðeins nota bón í neyðartilfellum.

Sleipiefni sem hönnuð eru fyrir flugulínur innihalda fyrst og fremst sílikon sem geta fjarlægt minniháttar óhreinindi af línunni, en fyrst og fremst skilja þau eftir sig örþunna filmu sem hrindir frá sér vatni og óhreinindum. Þetta hjálpar vissulega við aukið rennsli til að byrja með, en við endurtekna notkun án þess að þrífa línuna á milli þykknar þessi hús á köflum og fer að draga að sér óhreinindi í stað þess að hrinda þeim frá sér. Ekki gleyma að þrífa línuna á milli þess að þú berð á hana, annars endar þú með verra rennsli í línunni heldur áður.

Jæja, púkarnir mínir, nú eruð þið búnir að lesa þetta og þá er eins gott að taka sig saman í andlitinu og þrífa línurnar eftir sumarið.

Intermediate línur

Það er ekkert leyndarmál að eftir að ég komst í kynni við hægsökkvandi línur, þ.e. intermediate þá hefur verulega dregið úr álagi á flotlínurnar mínar. Þegar þetta er ritað, þá á ég tvær mismunandi hægsökkvandi línur; slow intermediate sem sekkur um 0,5 tommu á sek. og fast intermediate sem sekkur um 1,5 tommur á sek. Báðar eru þær WF (e: weight forward) þannig að það er nánast enginn munur á að kasta þeim m.v. hefðbundna flotlínu. Þyngd þessara lína er í raun lítið meiri en flotlínu, en eiginleikum þeirra til að sökkva undir yfirborð vatnsins er fyrst og fremst náð með því að hafa línuna grennri þannig að hún sker yfirborðið.

Það eru einnig til þær hægsökkvandi línur þar sem þessum eiginleikum er fyrst og fremst náð með því að bæta tungsten eða öðrum þungum ögnum í kápuna, en þá eru þær yfirleitt sverari og virka til muna þyngri í kasti heldur en flotlínur.

Þá fyrri finnst mér tilvalið að nota fyrir t.d. votflugur eða léttar púpur sem ég vil veiða 10 – 15 sm. undir yfirborðinu, sérstaklega þegar einhver vindur er á vatninu sem hrakið gæti línuna til.

Þá hraðari nota ég reyndar mest. Ræður þar mestu að hún sekkur jafnt og vel og ég þarf þarf ekki að bíða lengi þar til hún hefur náð kjördýpt hornsíla og flestra tegunda púpa. Þar sem straums gætir, svo fremi að hann er ekki of mikill, þar kemur fast intermediate línan að svipuðum notum og hrað- eða framsökkvandi sökklína í stríðum straumi. Kemur flugunni vel niður áður en straumurinn tekur línuna og framkallar óeðlilegt drag og hrifsar þannig fluguna af því svæði sem ég vil veiða hana á.

Síðan skemmir það auðvitað ekki að þar sem þessar intermediate línur mínar eru töluvert mjórri heldur en hefðbundin flotlína, þá taka þær minni vind á sig, sem er ótvíræður kostur á landi eins og Íslandi.

Liturinn segir ekki allt

Stundum fær maður svo sterka bakþanka um eitthvað að maður getur ekki annað en grafist fyrir um fullyrðingu sem maður hefur látið út úr sér. Þetta er álíka íþyngjandi og að muna ekki hvað ákveðinn staður, maður eða landshluti heitir og maður linnir ekki látunum fyrr en rétt nafn kemur upp úr kollinum eða vefurinn færir manni rétt svar. Þetta er einhver brestur og það er til ákveðin skammstöfun fyrir þessu, ég bara man ekki í svipinn hver hún er, þarf að gúggla það.

Ekki alls fyrir löngu þá var ég að teygja á fagurblárri flugulínu á ónefndu túni hér í bæ og að mér vatt sér góður kunningi minn og sagði eitthvað á þá leið að þessi sökklína rennur mjög vel. Já, svaraðir ég, hún rennur mjög vel en þetta er intermediate lína. Viðkomandi hváði þá við og spurði hvort ég væri alveg viss, svona blá lína  teldi hann vera sökklínu. Ég, eins hvatvís og ég nú er, hélt nú að þetta væri intermediate lína og hún væri með sökkhraða upp á 1,5 IPS (ég vissi það nú ekki alveg upp á kommustafinn fyrr en ég fletti henni upp). En ég fékk smá bakþanka þar sem ég átti ekki sjálfur þessa línu, gat verið að veiðifélagi minn væri með sökklínu í höndunum sem ég hafði keypt í einhverjum misgripum fyrir intermediate? Ekki það að mér skilst að hún kunni mjög vel við þessa línu, rennsli hennar og virkni í vatni, þannig að það hefði væntanlega ekki breytt miklu þótt þetta væri sökklína.

Ég fór á stúfana og fann kassann undan þessari línu og jú, mikið rétt þetta er intermediate lína og hún er blá, meira að segja nokkuð mikið blá. Eftir að hafa þrætt mig í gegnum heimasíður nokkurra línuhönnuða þá komast ég að því að margir þeirra bjóða upp á intermediate línur í litrófi frá nærbuxnableiku, reyndar líka alveg glærar, og út í svarbláar sem margir hverjir tengja við sökklínur.

Sökklínur hins vegar fann ég flestar frá því að vera svarbláar eða brúnar yfir í það að vera alveg svartar. Flotlínur finnast alveg frá því að vera glærar og út í það að vera æpandi orange, næstum neon litaðar. Liturinn segir okkur greinilega ekkert lengur hvaða lína er hvað og þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um að merkja línurnar sínar þannig að maður grípi ekki óvart einhverjar sem er allt annað en maður á von á.

Sökk, sökk, sökk

Trúlega eru lesendur orðnir frekar leiðir á því að heyra af hrakförum mínum með sökkenda og sökklínur, en það er mín leið til sjálfshjálpar að ræða þetta í tíma og ótíma og því koma hér enn einar hugleiðingar mínar.

Í sumar sem leið lagði ég leið mína niður í Ljótapoll að Fjallabaki. Þeir sem þekkja pollinn vita auðvitað að það er smá spotti niður að vatninu og mörgum virðist sá spotti vera heldur lengri þegar upp er farið, ég er pottþétt einn af þeim. Að vísu þekki ég einn veiðimann sem snaraðist þarna ítrekað upp og niður á örfáum klukkustundum í sumar sem leið til að bera afla veiðifélaga sinna upp á brún. Bara svona rétt aðeins til að létta undir með þeim sem voru að veiða. Einmitt, hugsaði ég með mér, það er misjafnt þolið hjá mönnum.

Hvað um það, ég fór niður í Ljótapoll vopnaður slow intermediate línu (IPS 2) á stönginni og flotlínu í vestinu. Þetta voru mistök númer eitt og tvö. Það var ekki þannig hitastig þennan umrædda dag að maður gæti átt von á miklum uppitökum, flotlínan var sem sagt óþörf eins og ég leit á það þegar niður var komið. Mistök númer tvö voru aftur á móti ekki alveg eins augljós fyrr en veiðifélagi minn var farinn að setja í hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ég gerði lítið annað en bíða eftir því að slow intermediate línan mín færi eitthvað niður í vatnið. Á endanum gafst ég upp, dró fram taumaveskið mitt og gramsaði eftir sökktaum sem ég þóttist vera með. Jú, þarna var hann og ekkert smáræði, heil 15 fet og trúlega IPS 7 eða þaðan af meira. Þyngdin var hreint og beint óskapleg og ekki beint auðvelt að slæma línunni út með lítið sem ekkert pláss fyrir bakkastið, ekki síst fyrir óvanan sökktaumakastara eins og mig.

Einhvern veginn tókst mér nú samt að koma línunni út að dýpisröndinni og ef ég gætti þess að leyfa henni að sökkva ekki of mikið, þá náði ég að draga hana inn án þess að hún festist í hverjum einasta steini á leiðinni. Eitthvað var þetta samt einkennilegt og trúlega ekki fallegt að sjá til mín að böðla línunni út þarna í þrengslunum undir hlíðum Ljótapolls. Hvorki kastið né inndrátturinn var líklegt til árangurs og þar við bættist að þegar ég nálgaðist bakkann, þá fór flugan að krækjast í allt grjót sem varð á vegi hennar og trúið mér, það var af nógu grjóti að taka. Mér tókst nú samt að plata einn urriða þarna til að taka fluguna mína og gat því búið til afsökun í huganum; Þetta snýst nú ekki bara um kastið, ég veiddi fisk. Það var samt einhvern holur hljómur í þessari afsökun og ég viðurkenni það fúslega að ég tók næstu köst með hálfum huga sem auðvitað þýðir aðeins eitt, ég veiddi ekki fleiri fiska í þessari ferð.

Þegar heim var komið, fór ég að fletta í hinum og þessum greinum á netinu og athuga hvaða samsetningu línu og taums menn notuðu til að koma flugunum niður. Jú, línur með sökkenda (ekki alveg það sama og sökktaumur) með sökkhraða IPS 2 til 7 voru sagðar bestar í straumvatn fyrir byrjendur. Þetta hjálpaði mér ekkert því það er enginn sjáanlegur straumur í Ljótapolli. Fyrir stöðuvötn mæltu menn með heilsökkvandi línur með IPS 2 til 5 sem passaði ágætlega við fast intermediate línuna mína. OK, nú var ég aðeins farinn að kveikja og í næstu málsgrein koma það. Í lauslegri þýðingu; Ef taumurinn er of langur, þá sekkur flugan hægar en línan og línan á það til að festast í botni. Já, einmitt, þessi ógnarlangi sökktaumur sem ég var með í pollinum var eiginlega ígildi línu með sökkenda og var einfaldlega allt of langur og þungur. Ég hefði einfaldlega átt að vera með fast intermediate línuna mína, stuttan taum og vera slakur. Það er gott að vera vitur eftirá.

DT, WF, ST eða L

Hversu margir hafa ekki rekist á þessar skammstafanir á flugulínum? Um daginn var ég að spjalla við vinnufélaga minn, þokkalega reyndan veiðimann og þá bárust flugulínur í tal. Það kom mér ekkert á óvart að hann hváði þegar ég sagði honum að ég veldi WF (weight forward) umfram DT (double taper) línur. Eftir að hafa skýrt í stuttu máli fyrir honum, muninn á þessum línum, þá rann upp fyrir honum ljós; Já, ætli ég eigi ekki svona línu sem ég nota eiginlega aldrei, keypti hana á útsölu á slikk. En hver er eiginlega munurinn á þessum línum? Eftirfarandi er alls ekki tæmandi úttekt, en gefur kannski einhverja hugmynd um helstu atriðin sem skilja þessar línur að. Byrjum á smá upprifjun á því hvernig algengar flugulínur eru byggðar upp.

Fremsti partur línunnar (tip) er yfirleitt innan við eitt fet og þjónar þeim eina tilgangi að festa tauminn við línuna. Næst kemur fremri kónn línunnar (front taper) sem er breytilegur eftir línum, oft ekki nema 9 fet, stundum styttri, stundum til muna lengri. Á eftir kóninum kemur sjálfur belgur línunnar og er yfirleitt í sama sverleika allt aftur að aftari kón (back taper) sem er yfirleitt eins eða svipaður að lengd og sá fremri. Saman nefnast þessir þrír partar (kónarnir og belgurinn) haus línunnar. Önnur undantekningin frá þessu eru línur sem búnar eru s.k. skothaus og eru einkenndar með ST (shooting taper). Þá má segja að aftari kóninn vanti alveg, línan mjókkar snarlega niður í rennslislínuna sem er einmitt aftasti partur línunnar. Hin undantekningin er svo línur sem eru raunar frekar vandfundna. Það sem einkennir þær er að þær eru af sama sverleika frá byrjun til enda, hafa hvorki haus né hali. Þessar línur eru einkenndar með L (level taper).

fos_linubygging
Gerðir flugulína

Almennt er sagt um DT línur að þær beri veltikast betur heldur en WF línur, auðveldara sé að stjórna þeim og þær leggist mjúklegar niður. WF línur henta aftur á móti betur en DT línur til að ná lengri köstum. Þetta er gott og gilt, eins langt og það nær, en hafa ber í huga að það er massi fremsta parts línunnar sem ræður mestu um hve fínlega hún leggst fram. Grönn lína með löngum fremri kón hefur minni massa heldur en sama lína með stuttum kón. Þannig getur WF lína lagst alveg eins mjúklega fram í styttri köstum eins og DT lína ef t.d. fyrstu 30 fetin eru svipuð hönnuð hvað varðar massa.

Þegar kemur að veltikastinu og meira reynir á jafna dreifingu þyngdar, koma kostir DT línunnar í ljós. Þegar kasta á upp í vind, þá hefur WF aftur á móti vinninginn. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það undir hverjum og einum komið hvort hann velur DT eða WF línu. Trúlega eru WF línurnar vinsælli vegna þess að það er hægt að velja sér þannig línu sem er með svipaða byggingu og DT lína og virkar því svipað í styttri köstum, gefur þar að auki kost á lengri köstum ef á þarf að halda, en þá á kostnað fínleika þegar hún leggst niður.

Sísta línan til að kasta af þessum gerðum er L línan. Að vísu er þetta sú lína sem flýtur best, þ.e. jafnast þar sem hún er af sama sverleika frá byrjun til enda. Það er því alveg sama hvaða hluti hennar liggur í vatninu, hún flýtur eins alla leið. Vegna lögunnar línunnar og jafnrar þyngdardreifingar er hún aftur á móti einstaklega leiðinleg í kasti.

Þegar einhver var spurður að því hvað ST lína væri eiginlega, þá svaraði hann að skotlína væri eiginlega WF lína á sterum, allur massinn hefði safnast saman fremst í henni. Mér finnst þetta ágæt skýring.

Fluorcarbon taumaefni

Ef hægt er að tala um hefðbundið taumaefni þá dettur væntanlega flestum polymonofilament í hug, eða hvað? Frá því fluorcarbon taumaefni kom fyrst fram á sjónarsviðið, þá hafa menn keppst við að mæra það, það sé gegnsærra, ekki eins hætt við að særast og sökkvi betur. Sumar af þessu er rétt, en annað ekki nema að hluta til.

Flurocarbon er gegnsærra heldur en poly. Já, þetta er fullkomlega rétt en það munar sáralitlu þegar í vatn er komið. Þokkalegt tært vatn hefur ljósbrotsstuðulinn 1.33  Flurocarbon hefur stuðulinn 1.42 og polymonofilament hefur stuðulinn 1.52  Það munar ekki miklu á þessum tölum og munurinn minnkar enn meira þegar við setjum þetta í samhengi við að venjulegt rúðugler er með ljósbrotsstuðul 2.04  Munurinn á fluor og poly taumum er því alls ekki eins mikill og margur vill vera láta.

Hér gæti glampað á taum
Hér gæti glampað á taum

Þegar kemur að samanburði á slitstyrk þessara efna, þá hefur flurocarbon vissulega vinninginn, en er þar á móti kemur að það er mun stífara efni heldur poly og teygist síður. Fluorcarbon er hættara við að slitna með hvelli þegar þolmörkum er náð og ég get alveg tekið undir með þeim sem vilja meina að hnútarnir haldi verr í fluor heldur poly. Varðandi það hvort efninu sé hættara við að særast, þá er líklegra að fluor trosni á meðan poly verður hamrað. Þetta liggur víst í því hvernig trefjarnar liggja í efninu. Báðum efnunum er jafn hætt við því að slitna, þau slitna bara með sitt hvorum hættinum.

Sökkhraði fluor er u.þ.b. 3 – 4 IPS (tommur á sekúndu) á meðan poly sekkur þetta rétt um 1 IPS. Í þessu liggur skýringin á því að við veljum hefðbundið poly í þurrfluguveiðina á meðan flurocarbon hentar betur þegar veitt er með sökkvandi línum.

Einu atriði í samanburði þessara plastefna má ekki gleyma og það er umhverfisþátturinn. Fluorcarbon brotnar mun hægar niður í náttúrunni heldur en polymonofilament. Taumaendi úr fluorcarbon er lengur á þvælingi í lífríkinu heldur en poly og flestum okkar þykir nú þegar meira nóg af þeim spottum á ferðinni.

Taumur fyrir straumflugu

Einhver algengustu mistök veiðimanna sem hyggjast veiða með straumflugu er að skipta ekki um taum þegar þeir færa sig úr púpum eða votflugum. Ég hef sjálfur brennt mig á þessu og ég kem örugglega til með að brenna mig á þessu oftar. Hefðbundinn púputaumur er stangarlengd og ríflega það, frekar grannur og frammjókkandi. Ég hef vanið mig á að hafa fremsta part taumsins, taumaendan í X-stærð sem nemur fjórðungi #-stærðar króksins á flugunni. Flugan á krók #12, taumaendi 3X. Þetta er þumalputtareglan, svo færi ég mig upp eða niður allt eftir því hvernig mér finnst flugan leggjast fram. Það sem hefur ekki hvað síst áhrif á það hvort ég fer upp eða niður í taumastærð er þyngd flugunnar og ummál hennar. Bossamikil eða þyngri fluga fær örlítið sverari taum heldur en krókurinn segir til um.

fos_taumaefni_big
Taumaendar

Þegar kemur að straumflugum þá gildir þumalputtareglan, með síðari viðbótum. En það er einn stór faktor sem skilur púpu-, votflugu- eða þurrflugutauminn frá straumflugutauminum. Straumflugutaumurinn þarf yfirleitt að vera nokkuð styttri. Fyrir þunga straumflugur sem hnýtt er á krók #4, þá væri sverleiki taumaendans 1X skv. þumalputtareglunni. Segjum sem svo að þessi ágæta straumfluga sé þyngd með nokkuð hressilegum kúluhaus, t.d. 5.0 mm kúlu, þá ætti okkur að vera óhætta að nota 0X taumaenda og taumurinn ekki lengri en 7 fet, jafnvel styttri ef þú notar sökkvandi eða hægsökkvandi línu. Ástæðan fyrir löngum taum er oftast vilji veiðimannsins til að koma flugunni niður til fisksins, en ef þú ert að nota sökkvandi línu, þá er óhætt að miða heildarlengd taumsins við 5 fet. Kosturinn við stuttan taum fyrir þunga flugu er einfaldlega markvissari orkufærsla í kastinu og meiri stjórn á flugunni þegar hún er komin niður í vatnið. Til að gefa einhverja vísbendingu um sverleika taumsins, þá getum við t.d. notað 3 fet af X4 efni, 3 fet af X2 og svo 1 fet af 0X, samtals 7 fet. Ef þú ert með sökkvandi línu, styttu þá 3ja feta partana niður í 2 fet.

Að slétta úr taumi

Það er í raun mjög einfalt að klúðra því að rétta úr tauminum. Ef maður klemmir tauminn á milli fingurs og naglarm hættir jafnvel bestu taumum til að krullast upp í stað þess að rétta úr sér, þeir geta orðið eins og jólapakkaband á skærum.

Taumur eða jólapakkaband?
Taumur eða jólapakkaband?

Þegar maður vill rétta úr taumi er best að taka þéttingsfast um sitt hvorn enda eða hluta hans og teygja á honum með jöfnu átaki. Rykkir og skrykkir eru aðeins til þess fallnir að slíta hnúta eða jafnvel tauminn sjálfan.