Flýtileiðir

Taumalengd

Eitt af því sem fluguveiðimenn spá reglulega í er lengd taums og þeir spyrjast reglulega fyrir um þetta. Stutta svarið er; Það ræðst nú af ýmsu. Á meðan sum vötn hafa fengið á sig það orð að þar verði að nota ákveðna lengd af taum, annað virki bara ekki, þá segja reynsluboltarnir eitt eða annað. Ekki dettur mér í hug að efast um reynslu manna en ég hef oftar en ekki orðið var við ákveðinn misskilning á lengd tauma og þá sér í lagi vegna meintrar taumafælni fiska. Í því sambandi vil ég benda mönnum á að það er sjaldnast lengd taums, eða öllu heldur skortur á lengd, sem fiskurinn mögulega fælist, það er sver- og sýnileiki hans sem fiskurinn getur mögulega hrokkið undan. Ef taumur er orðinn mattur eða taumaendinn er of sver, skiptu þá um taum en hugsaðu þig vel um áður en þú lengir hann um einhver fet, í það minnsta þar til þú hefur ná góðum tökum á þeirri lengd.

Taumar eru af mismunandi sverleika sem yfirleitt er í beinu samhengi við slitstyrk þeirra. Þegar menn hefja fluguveiði, þá er ekki óalgengt að þeir byrji með 9 feta taum, ná þokkalegu valdi á þeirri lengd og fikra sig síðan í lengri taum þar sem aðstæður og veiðiaðferðir krefjast þess. En 9 feta taumur er ekki það sama og 9 feta taumur. Sverasti partur taumsins þarf að passa sverleika línunnar, það er ekki nóg að hugsa eingöngu um lengd hans eða X númerið sem hann endar í. Þumalputtaregla fyrir sverleika taums þar sem hann tengist línunni er að hann ætti að vera u.þ.b. 2/3 af sverleika hennar. Í hverju hann endar ætti að ráðast af stærð flugunnar, sjá töflu hér. Athugið að þetta er þumalputtaregla sem á alls ekki alltaf við og brotnar mun oftar en þumalputtar gera. Kónískir taumar eru ekki allir eins, sumir byrja sverir og enda í t.d. 3X (u.þ.b. 0,20 mm) á meðan aðrir byrja grannir og enda líka í sama sverleika. Sá fyrri er því töluvert brattari ef segja má sem svo.

Þegar menn hafa náð góðu valdi á 9 feta taum, sverleika og því hve skart hann mjókkar niður í æskilegan sverleika, þá ættu menn að vera tilbúnir að ráðast í lengri tauma. Ég er alveg óhræddur við að játa það að það tók mig töluverðan tíma að ná sjálfum sátt við lengri tauma, þetta getur tekið tíma og fyrst og fremst æfingu.

Taumurinn úr lógóinu

Ákveðnar aðstæður og veiðiaðferðir kalla svolítið á breytilega lengd tauma, þannig að það má alls ekki útiloka lengri eða styttri tauma. Þurrfluguveiði kallar á lengri taum, kannski eitthvað í áttina að eða yfir 12 fet. En það má ekki skilja sem svo að þurrflugur beinlínis gargi á þetta, lunkinn veiðimaður sem ræður vel við 9 feta taum sem mjókkar skart niður í t.d. 5X (0,14 mm) á ekkert síður erindi í þurrfluguveiði heldur en sá sem ræður við langan taum. Þetta snýst svolítið um mýktina og ekki síst þyngd og eftirgefanleika stangar og línu.

Það að vera með mjög langan taum í púpuveiði þekkist vel í ákveðnum vötnum, helst þar sem veiðimenn eru að veiða alveg niðri við botn. Það getur verið mjög hentugt að vera með langan taum á flotlínu undir þannig kringumstæðum. Sami taumur getur aftur á móti verið ofrausn ef menn eru með intermediate eða sökkvandi línur, þá er styttri taumur jafnvel betri þannig að línan nái að stjórna dýpinu sem veitt er á.

Að veiða með styttri taum en 9 fet getur líka verið kostur. Að vera með allt niður í 3 eða 5 feta taum í þungu straumvatni er oft nauðsyn, einfaldlega vegna þess að lengri taumur er bara á einhverju flakki í vatninu og flugan á það til að rísa ef hún leikur laus á of löngum taum. Þetta á einnig við um þyngri flugur, þær kalla á styttri taum eða sverari annars skilar aflið í kastinu sér ekki út í fluguna og hún einfaldlega leggst ekki vel fram.

Að öllu þessu sögðu kemur hér fyrirvari; það er mín reynsla og grúsk sem markar þessi orð. Vertu duglegur að prófa þig áfram með mismunandi tauma, sverleika og lengd og þá getur þú fundið þína töfralausn sjálfur. Það er engin patent lausn í þessu taumaveseni, umfram allt, æfðu þig því það verður enginn óbarinn biskup í meðhöndlun tauma.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com