Veiðivötn 2020 – IV hluti

Þá er komið að síðustu greininni sem unnin verður upp úr skoðanakönnun okkar um Veiðivötn 2020. Veður og veðurfar er veiðimönnum sérstaklega hugleikið og því þótti við hæfi að fá mat veiðimanna á veðrinu í Vötnunum s.l. sumar. Eins og aðrir svaröguleikar sem gefnir voru upp, þá voru þeir sem tengdust veðrinu sniðnir að huglægu mati veiðimanna, ekki var beðið um vindstig, sólarstundir eða hitatölur.

Til samanburðar við svör veiðimanna eru hér birtar upplýsingar sem unnar hafa verið úr veðurathugunum frá opnun stangaveiðitímabilsins þann 18. júní og fram til loka þess 21. ágúst. Vinsamlegast athugið að þessar upplýsingar eru einskorðaðar við veðurtölur frá kl. kl. 08:00 til kl.23:00 þannig að þær ná aðeins til þess tíma sem veiðimenn eru alla jafna á ferli í Vötnunum.

Eins og sjá má var meirihluti veiðimanna (65%) á því að lofthiti hafi verið svipaður í ár eins og undanfarin ár. Álíka hlutfall var á milli þeirra sem töldu það hafa verið hlýrra eða kaldara heldur en undafarin ár og það hafa greinilega einhverji 10 lent í töluverðum kulda og aldrei upplifað annað eins í Vötnunu (2%).

Hér að neðan má sjá hitatölurnar í Vötnunum eins og þær voru skráðar í veðurathugunum og hefðu átt að koma við skinn veiðimanna frá kl.8:00 til 23:00 á stangaveiðitímanum:

Þegar meðaltalshiti júní, júlí og ágúst fyrir fimm ár er reiknað út frá veðurathugunum, kemur í ljós að hitastigið umrædda mánuði í sumar var í raun undir meðaltali áranna 2016 til 2019 sem er 8,06 °C en nokkru hlýrra heldur en árin 2017 og 2018.

Til gamans var spurt um mat veiðimanna á sólarstundum í sumar sem leið. Hvort kom á undan, eggið eða hænana í þessu tilfelli er erfitt að segja, en það var eftirtektarverð fylgni á milli þeirra sem svöruðu því til að það hefði verið glampandi sól eða heiðskírt flesta daga og þeirra sem veiddu mjög vel eða gerður góða veiði. Til gaman var afstaða annarra sem voru í Vötnunum á sama tíma athuguð og þá kom í ljós að þeir sem voru almennt með lélega eða slaka veiði, voru á þungbúnari veiðistöðum. Það skildi þó aldrei vera að afli hafi áhrif á viðhorf manna til veðurs eða þá öfugt?

Mat veiðimanna á vindi og vindstyrk er nokkuð sem hægt er að bera saman við veðurathugnir og þar verður hver og einn að staðsetja sinn tíma í Veiðivötnum því ekki var farið fram á nákvæma tímasetningu veiðiferða í skoðanakönnuninni.

Það má geta sér þess til að þeir sem upplifðu veðrið sem fárveður hafi lent í einhverjum þeirra 5 toppa sem vindmælirinn setti í tölu yfir 20 m/sek. Annars virðist vindur hafa verið nokkuð spakur að jafnaði, en vissulega gerði strekking inn á milli. Áberandi vindakaflar eru í vikum 25. 27. 29. 31. og 33. þar sem meðalvindur var rétt undir eða náði yfir 10 m/sek.

Ekki var sérstaklega spurt um úrkomu í skoðanakönnuninni, en oft hefur nú sést meiri útkoma í Vötnunum heldur en þetta á liðnum árum. Einhverjir hafa þó eflaust vöknað eitthvað í úrhellinu um miðja 29. viku og rigningakaflanum sem stóð í rúma viku frá lokum 31. vikur og út 32. viku.

Því miður eru mælingar á vatnshita í Veiðivötnum ekki tiltækar og því lítin samanburð að hafa við mat veiðimanna á hitastigi vatnanna. Það sem réð því að þessi spurning var höfð með í könnuninni voru þær getgátur að vötnin hefðu verið kaldari í sumar en oft áður og því leitaði fiskurinn meira út í dýpið.

Miðað við álit veiðimanna hér að ofan, þá er skýringa á breyttum aflabrögðum ekki að leita í lakari vatnshita. En þetta er náttúrulega ekki hávísindaleg könnun, meira í gamni gerð og vonandi hafa veiðimenn haft gaman og mögulega eitthvert gagn af því að rýna í niðurstöðurnar.

Kærar þakkir, allir 222 sem tóku þátt í þessari könnun, hver veit nema maður rekist á einhvern ykkar næsta sumar í Vötnunum. Ég er í það minnsta að fara aftur og ég ætla að taka með mér heilsökkvandi línu á flugustöngina, mér sýnist nefnilega að þeir sem veiddu djúpt hafi almennt verið sáttir við sitt og það var greinilega betra veður á þá líka. Ef eitthvað er að marka valfrjáls skilaboð sem svarendur settu inn, þá eru veiðimenn almennt harðákveðnir í að fara aftur í vötnin næsta sumar, eða eins og einn sagði; Það þarf meira til en eitt dapurt ár til að ég hætti að fara.

Veiðivötn 2020 – III hluti

Þegar litið er til agns veiðimanna í Veiðivötnum, þá hefur sú þjóðsaga verið lífseig að þar séu allir bakkar morandi í útvötnuðum ánamaðki. Eins og veiðimenn sjálfir vita, þá er þetta fjarri sanni og ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar könnunar, þá er það e.t.v. að ánamaðurinn er víkjandi í Vötnunum og veiðimenn eru í auknu mæli að smakka á öllu agni, ef svo mætti að orði komast.

Af þeim sem merktu við að hafa notað maðk (82 veiðimenn), voru aðeins 4% sem notuðu hann eingöngu sem er litlu minna hlutfall en þeir sem eingöngu veiddu á aðra breitu eða spún, en þeir voru að vísu töluvert fleiri. Maðkurinn virðist í mörgum tilfellum vera þriðja val veiðimanna sem veiddu á annað agn.

Maðkur sem agn

Það voru 118 veiðimenn sem merktu við spúnaveiði og hlutfall þeirra sem notuðu hann eingöngu var 5%.

Spúnn sem agn

Þeir sem sögðust hafa notað sára, síld eða makríl (121 svör), voru 6% sem notuðu hana eingöngu.

Sári, síld eða makríll sem agn

Hlutfall þeirra sem notuðu ofangreint agn eingöngu var mjög svipað, 4 – 6% svarenda. Þeir sem notuðu flugu skáru sig verulega úr. Af þeim 174 sem merktu við að hafa notað flugu, voru 34% sem notuðu hana eingöngu.

Fluga sem agn

Dreifing notkunar agns var annars nokkuð mikil, ef flugan er undanskilin. Litakóðarnir á myndinni hér að neðan gefa til kynna hvað agn var tölulega hæst í hverri tíðni notkunar (grænt kom oftast fyrir, gult sjaldnast):

Allt agn – fjöldi svara pr. tíðni

Kemur þá að aflatölum miðað við agn sem helst var notað. Byrjum á þeim sem gerðu mjög góða veiði, aldrei betri. Hér er skiptingin afar sérstök, spúnninn er með 40% og svo skiptir annað agn með sér restinni. Til glöggvunar má nefna það að þessir veiðimenn veiddu helst á miðlungs dýpi eða djúpt, sjá fyrstu greinina um niðurstöður þessarar könnunar.

Agn þeirra sem veiddu mjög vel

Þeir sem gerðu góða veiði sem hefði þó mátt vera betri voru aftur á móti langsamlega flestir að nota flugu:

Agn þeirra sem veiddu vel, þó hún hefði mátt vera betri

Þeir sem gerðu góða veiði og voru sátti við sitt, notuðu sömuleiðis helst flugu, þó ekki jafn afgerandi:

Agn þeirra sem voru sáttir við sitt

Þegar horft er til þeirra sem gerðu slaka veiði, sem voru í raun 43% veiðimanna, þá notuðu þeir helst flugu og skiptu öðru agni svipað niður og hópurinn hér að ofan:

Agn þeirra sem gerðu slaka veiði

Þeir sem skarðastan hlut báru frá borði, veiddu sömuleiðis mest á flugu:

Agn þeirra sem veiddu verst

Hvaða lærdóm veiðimenn geti tekið út úr þessum tölum er eflaust misjafnt eftir sjónarhorni hvers og eins. Fyrir mér er nokkuð mikil fylgni í agni eftir aflabrögðum, ef undan er skilinn sá hópur sem gerði einna bestu veiðina. Þar verður væntanlega að taka með í reikninginn að þann hóp skipuðu fæstir veiðimenn og dreifing agns var nokkuð sérstök, spúnninn þó vinsælastur. Á milli annarra viðmiðunarhópa er töluverð fylgni á milli mismunandi agns og ekki að sjá að það ráði miklu um aflabrögð.

Fjórða og síðasta greinin í þessari samantekt kemur svo hér á síðuna innan skamms og þá kíkjum við fyrst á vinsælasta umræðuefni Íslendinga, veðrið.

Veiðivötn 2020 – II hluti

Það væri ekki veiðin ef ekki væru vötnin og fiskurinn. Þegar FOS.IS setti þessa könnun af stað var leynt og ljóst verið að leita að því hvort veiðin hefði færst eitthvað til, þ.e. hvar þessir 18.336 fiskar hefðu fengist og þá ekki endilega í hvaða vötnum, heldur hvar í þeim og hvaða brögðum veiðimenn beittu til að ná þeim. Upplýsingar um veiðitölur í einstaka vötnum liggja fyrir á heimasíðu Veiðivatna.

Veiðimenn eiga sér oft sína uppáhaldsstaði, þegar þeir staðir bregðast þá leita margir á önnur mið, prófa nýja staði og jafnvel önnur vötn heldur en þeir heimsækja alla jafna. Aðrir sitja bara sem fastast á sínum gömlu, góðu stöðum og bíða þess að fiskurinn komi í kastfæri. Í þessari skoðanakönnun var gerð tilraun til þess að kortleggja hvar veiðimenn hefðu fengið fisk og hve margir hafi farið fisklausir heim úr þeim vötnum sem þeir prófuðu.

Alls bárust 1.519 svör frá 222 veiðimönnum undir þessum lið í könnuninni. Fjöldi svara fyrir hvert vatn var vitaskuld mismunandi, þau eru jú mis vinsæl vötnin í Veiðivötnum. Hér að neðan má sjá niðurstöðurnar úr þessum lið könnunarinnar. Í fyrrihlutanum eru tölurnar sá fjöldi svara sem var á bak við hvern valkost í vötnunum.

ARNARPOLLUR – 72 SVÖR
BREIÐAVATN – 73 SVÖR
ESKIVATN – 47 SVÖR
GRÆNAVATN – 129 SVÖR
HRAUNVÖTN – 161 SVÖR
KRÓKSPOLLUR – 22 SVÖR
KVÍSLARVATN – 34 SVÖR
KVÍSLARVATNSGÍGUR – 38 SVÖR
LANGAVATN – 76 SVÖR
LITLA-BREIÐAVATN – 50 SVÖR
LITLA-FOSSVATN – 55 SVÖR
LITLA-SKÁLAVATN – 58 SVÖR
LITLISJÓR – 189 SVÖR
NÝJAVATN – 55 SVÖR
ÓNEFNDAVATN – 58 SVÖR
ÓNÝTAVATN – 66 SVÖR
ÓNÝTAVATN-FREMRA – 40 SVÖR
PYTTLUR – 40 SVÖR
SKÁLAVATN – 66 SVÖR
SKYGGNISVATN – 27 SVÖR
SNJÓÖLDUVATN – 71 SVAR
STÓRA-FOSSVATN – 102 SVÖR

Þegar þessar tölur eru skoðaðar, þá kemur í ljós að fæstir fóru fisklausir heim úr Litlasjó eða 14% svarenda. Þar á eftir kemur Snjóölduvatn þar sem 17% fóru fisklausir heim. Snjóölduvatn er einnig það vatn þar sem flestir veiddu á nýjum stöðum, eða 11% svarenda. Það kann að skýrast af því að margir lögðu leið sína í vatnið í fyrsta skipti. Í gegnum árin hefur mér virst nokkuð samhengi vera á milli þess að þegar tregt er í Litlasjó, þá sækja menn í Snjóölduvatn til að fá fiðringinn eftir rólegan dag.

Að lokum eru hér samandregin öll svörin. Athugið að hér er um hlutfallstölur að ræða, ekki fjölda:

HLUTFALL SVARA – 1.519 SVÖR

Það kemur ef til vill á óvart hve fastheldnir veiðimenn voru á sína veiðistaði, aðeins 7% veiddu á nýjum stöðum. Að vísu má bæta við einhverjum prósentustigum þeirra sem veiddu bæði á sömu stöðum og einhverjum nýjum, en það er áberandi að 32% veiðimanna héldu sig á kunnuglegum slóðum. Vissulega er hlutfall þeirra sem ekki fengu fisk nokkuð hátt (42%).

Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem veiddu á annað borð, þá eru þeir sem veiddu mest á sömu stöðum 55%, þeir sem veiddu á sömu stöðum eða einhverjum nýjum 33% og þeir nýjungagjörnu 12%:

HLUTFALL SVARA AÐ UNDANSKYLDUM ÞEIM SEM EKKI FENGU FISK

Næsta grein um niðurstöður þessarar könnunar kemur hér innan tíðar og þá verður aðeins kíkt á agnið sem veiðimenn notuðu helst í Veiðivötnum árið 2020.

 

Veiðivötn 2020 – I hluti

Töluverðar umræður voru í sumar um gang mála í Veiðivötnum. FOS.IS lék forvitni á að vita hvernig veiðimenn litu til sumarsins í baksýnisspeglinum og setti því skoðanakönnun í gang þann 25.okt. þar sem nokkrar almennar spurningar voru lagðar fram um upplifun veiðimanna í Veiðivötnum í sumar sem leið. Ekki stóð á viðbrögðum og svörum. Alls svöruðu 222 þessari könnun sem opin var í viku og margir hverjir nýttu tækifærið að koma ábendingum og persónulegri sýn á framfæri í frjálsum texta. Það hefur því verið úr miklu efni að moða síðustu vikur og fyrirséð að niðurstöðurnar birtist í nokkrum færslum hér á síðunni.

Eins og tekið var fram í könnuninni, er hér ekki um hávísindalega könnun að ræða og því kunna einhver viðmið að hafa komið þátttakendum spánskt fyrir sjónir, en vonandi skýrast þau þegar niðurstöðurnar birtast hér.

Það er óumdeilanlegt að stangveiði í Veiðivötnum var dræm í sumar sem leið, alls veiddust 17.570 fiskar á stangveiðitímabilinu, 18.336 þegar stangveiði á netaveiðitímanum hefur verið bætt við. Skv. vef Veiðivatna þarf að leita aftur til áranna 2014 og 2015 til að finna svipaðar veiðitölur. Í könnuninni var spurt um álit manna á hvoru tveggja; aflabrögðum urriða og bleikju. Alls bárust 375 svör við þessum tveimur spurningum og skiptast svör þáttenda sem hér segir:

Skipting svara þeirra 222 sem svöruðu spurningunni um urriðaveiðina voru sem hér segir:

Skipting þeirra 153 svara sem bárust um bleikjuveiðina var sem hér segir:

Sömu tölur í fjölda svarenda talið voru sem hér segir, urriðaveiðin fyrst:

Og bleikjuveiðin:

Þótt yfirgnæfandi fjöldi svarenda hafi ekki riðið feitum hesti úr Veiðivötnum í sumar, þá gerðu 5% svarenda betri veiði en áður, 11% góða veiði þótt hún hafi stundum verið betri og 20% til viðbótar voru sáttir við sitt. 36% svarenda voru því sáttir við aflabrögðin eða meira en það. Nær ómarktaækur munur var á þeim sem skipuðu sér í þessa flokka eftir bleikjuveiði eingöngu (39%) eða urriðaveiði eingöngu (34%). Þó freistast maður til að draga þá ályktun að meiri tíma hafi verið eytt í bleikjuveiði í sumar heldur en undanfarin ár og því hafi fleiri gert sína bestu veiði í bleikjunni hingað til.

Með þessum fyrstu spurningum könnunarinnar voru fengnir 5 viðmiðunarhópar sem notaðir voru til frekari úrvinnslu og aðgreiningar svara. Meðal þess sem tekið var saman var hvar þessir 5 mismunandi hópar hefðu helst sett í fisk í vatninu. Þar sem vísað er til dýpis var viðmið gefið í könnuninni:

  • Á grunnu vatni (minna en 1 metra dýpi)
  • Á miðlungs dýpi (1 – 3 metra dýpi)
  • Djúpt (meira en 3 metra dýpi)

Þeir sem höfðu gert sína bestu veiði (5% svara) töldu sig helst hafa sett í fisk á eftirtöldum svæðum:

Þeir sem gerðu góða veiði, þó hún hafi stundum verið betri (11% svara) náðu fiski helst:

Þeir sem voru þrátt fyrir allt sáttir við sitt (20% svara) fengu fisk helst:

Stærsti hópurinn, þ.e. þeir sem töldu aflabrögðin vera slök og höfðu oft gert betri veiði (43% svara) settu helst í fisk:

Þeir sem reka lestina, í fleiri en einum skilningi, voru þeir sem töldu veiðina beinlínis hafa verið lélega, aldrei verri (21% svara) veiddu helst:

Skv. þessu er nokkuð ljóst að miðlungs dýpið (1 – 3 metrar) og dýpra (meira en 3 metrar) hafa verið gjöfulasta dýpið í sumar og skyldi engan undra:

Síðar í könnuninni var spurt um veiðistaði í þeim vötnum sem svarendur prófuðu í sumar, hvaða agn menn hefðu helst notað o.fl. Svör og niðurstöður þeirra spurninga verða birt hér á FOS.IS í næstu greinum.

Veðurspár

Ekki alls fyrir löngu var gerður skurkur í að breyta aðeins virkni og upplýsingum sem aðgengilegar eru á vötnunum hér á síðunni. Meðal þess sem þarfnaðist lagfæringa voru tenglar á veðurathuganir og verðurspár sem er að finna á síðunum. Áður en endanlega var gengið frá þessu lagði ég smá skoðanakönnun fyrir lesendur síðunnar um þær spásíður sem þeir styddust helst við:

Eins og sjá má þá hafði Veðurstofa Íslands vinninginn með tæpla helming þeirra 189 atkvæða sem voru greidd í þessari könnun. Næst á eftir kom YR.NO með 27% og í þriðja sæti var Blika með 12%. Aðrar veðurspá fengu nokkuð færri atkvæði.

En mér fannst sagan ekki öll sögð þegar hingað var komið og nú tóku við nokkrir dagar þar sem ég kíkti á veðurspánna á helstu spávefjunum fyrir næsta laugardag. Fjórar verðurathuganastöðvar urðu fyrir valinu; Hveravellir, Blönduós, Reykjavík og Kirkjubæjarklaustur (Klaustur). Þetta er náttúrulega ekki vísindaleg úttekt, en gefur e.t.v. einhverja vísbendingu um hver stöðvanna náði að spá þokkalega rétt fyrir laugardeginum. Ég leyfði mér að merkja með bláu letri þá spá á hverjum degi sem næst var veðrinu eins og úr varð á laugardeginum.

Hveravellir Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is SV2 1mm 7° VSV3 0mm 7° V2 0mm 7° V2 1mm 7° SSV6 0,2mm 7,8°
blika.is S4 0mm 8° S4 0mm 8° S4 0mm 8° S1 0mm 8°
windy.com V2 0mm 2° VSV1 0mm 3° V2 0mm 3° SV1 0,2mm 3°
yr.no SSV6 0,3mm 8° SV3 0,3mm 8° V3 0,1mm 8° SV2 0,1mm 7°
Blönduós Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is V3 1mm 12° VSV3 1mm 12° VSV4 1mm 11° V3 1mm 11° SV4 0mm 11,3°C
blika.is SV5 0mm 11° SV5 0mm 11° SV5 0mm 11° SV6 0mm 12°
windy.com V3 0,3mm 12° SSV2 0mm 11° SV2 0mm 11° SV2 0mm 10°
yr.no SSV4 0,2mm 9° SV1 0,3mm 10° SSA1 0,2mm 10° S4 0,4mm 10°
Reykjavík Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is V4 3mm 11° SV2 2mm 11° SV2 1mm 12° SV3 0mm 12° SSV2 0mm 12,5°
blika.is SV2 0mm 11° SA4 0mm 11° SA4 0mm 11° V1 0mm 13°
windy.com V4 0,3mm 11° SV2 0,2mm 10° VSV2 0mm 10° SV3 0,2mm 10°
yr.no VNV3 0,5mm 11° VSV2 0,1mm 11° VSV2 0,2mm 11° SV2 0mm 11°
Kirkjub.klaustur Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is NV3 0mm 13° NV3 0mm 13° NV6 0mm 13° NV6 0mm 13° NV6 0mm 14,8°
blika.is V2 0mm 13° V2 0mm 13° V2 0mm 13° NV7 0mm 12°
windy.com NV2 0mm 13° NV3 0mm 13° VNV4 0mm 13° NV4 0mm 12°
yr.no NV3 0mm 13° SSA3 0mm 14° VNV4 0mm 13° NV4 0mm 13°

Ef eitthvað er að marka þessa athugun, þá hefur Veðurstofa Íslands vinninginn, þar á eftir Blika og fast á hæla hennar er YR.NO  Þetta rímar því ágætlega við niðurstöðu könnunarinnar sem lögð var fyrir lesendur FOS.IS

Hlutfall 8 : 16
Hlutfall 5 : 16
Hlutfall 4 : 16
Hlutfall 1 : 16

 

Forvitni

Fyrir forvitnis sakir; hvað ætli margir lesi bloggið daglega, vikulega eða með einhvers konar áskrift? Sumar leiðir til að fylgjast með bloggi eru þannig úr garði gerðar að þær hafa engin áhrif á teljara síðunnar, þær laumast í nýjustu færslurnar án þess að ég viti nokkuð af því. Þess vegna langar mig að biðja þig, lesandi góður um tvo músarsmelli og svara skoðanakönnuninni hér til hliðar.

Mánaðarlegar heimsóknir frá upphafi

Það er ljóst að júlí og ágúst s.l. voru nokkuð drjúgir og mesta daglega traffík frá upphafi voru 533 heimsóknir þann 21.júlí, en nokkuð hefur dregið úr aðsókninni með haustinu.

Skoðanakönnun

Það verður nú ekki sagt að gestir og gangandi hafi mikið til málanna að leggja, af 264 heimsóknum frá því ég setti skoðanakönnunina inn, tóku aðeins 11 þátt í henni. Bestu þakkir, þið 11.  Niðurstöðurnar eru varla marktækar en helstar voru þær að Greinar um vatnaveiði fengu 45,5% atkvæða, Lýsingar og upplýsingar um veiðistaði 27,27% en aðrir möguleikar minna.  Ég er að leggja lokahönd á samantekt ýmissa punkta um vatnaveiði sem munu koma inn á bloggið á næstu dögum.