Þegar litið er til agns veiðimanna í Veiðivötnum, þá hefur sú þjóðsaga verið lífseig að þar séu allir bakkar morandi í útvötnuðum ánamaðki. Eins og veiðimenn sjálfir vita, þá er þetta fjarri sanni og ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar könnunar, þá er það e.t.v. að ánamaðurinn er víkjandi í Vötnunum og veiðimenn eru í auknu mæli að smakka á öllu agni, ef svo mætti að orði komast.
Af þeim sem merktu við að hafa notað maðk (82 veiðimenn), voru aðeins 4% sem notuðu hann eingöngu sem er litlu minna hlutfall en þeir sem eingöngu veiddu á aðra breitu eða spún, en þeir voru að vísu töluvert fleiri. Maðkurinn virðist í mörgum tilfellum vera þriðja val veiðimanna sem veiddu á annað agn.

Það voru 118 veiðimenn sem merktu við spúnaveiði og hlutfall þeirra sem notuðu hann eingöngu var 5%.

Þeir sem sögðust hafa notað sára, síld eða makríl (121 svör), voru 6% sem notuðu hana eingöngu.

Hlutfall þeirra sem notuðu ofangreint agn eingöngu var mjög svipað, 4 – 6% svarenda. Þeir sem notuðu flugu skáru sig verulega úr. Af þeim 174 sem merktu við að hafa notað flugu, voru 34% sem notuðu hana eingöngu.

Dreifing notkunar agns var annars nokkuð mikil, ef flugan er undanskilin. Litakóðarnir á myndinni hér að neðan gefa til kynna hvað agn var tölulega hæst í hverri tíðni notkunar (grænt kom oftast fyrir, gult sjaldnast):

Kemur þá að aflatölum miðað við agn sem helst var notað. Byrjum á þeim sem gerðu mjög góða veiði, aldrei betri. Hér er skiptingin afar sérstök, spúnninn er með 40% og svo skiptir annað agn með sér restinni. Til glöggvunar má nefna það að þessir veiðimenn veiddu helst á miðlungs dýpi eða djúpt, sjá fyrstu greinina um niðurstöður þessarar könnunar.

Þeir sem gerðu góða veiði sem hefði þó mátt vera betri voru aftur á móti langsamlega flestir að nota flugu:

Þeir sem gerðu góða veiði og voru sátti við sitt, notuðu sömuleiðis helst flugu, þó ekki jafn afgerandi:

Þegar horft er til þeirra sem gerðu slaka veiði, sem voru í raun 43% veiðimanna, þá notuðu þeir helst flugu og skiptu öðru agni svipað niður og hópurinn hér að ofan:

Þeir sem skarðastan hlut báru frá borði, veiddu sömuleiðis mest á flugu:

Hvaða lærdóm veiðimenn geti tekið út úr þessum tölum er eflaust misjafnt eftir sjónarhorni hvers og eins. Fyrir mér er nokkuð mikil fylgni í agni eftir aflabrögðum, ef undan er skilinn sá hópur sem gerði einna bestu veiðina. Þar verður væntanlega að taka með í reikninginn að þann hóp skipuðu fæstir veiðimenn og dreifing agns var nokkuð sérstök, spúnninn þó vinsælastur. Á milli annarra viðmiðunarhópa er töluverð fylgni á milli mismunandi agns og ekki að sjá að það ráði miklu um aflabrögð.
Fjórða og síðasta greinin í þessari samantekt kemur svo hér á síðuna innan skamms og þá kíkjum við fyrst á vinsælasta umræðuefni Íslendinga, veðrið.
Senda ábendingu