Veður í maí

Það fór víst ekki framhjá neinum að veðurskilyrði í maí voru veiðimönnum ekkert endilega hagstæð. En hvað var það eiginlega sem var svona afbrigðilegt við veðrið í maí? Leikmaður eins og ég get svo sem bara sagt það var kalt og blautt, en það hefur nú áður verið kalt og blautt í maí og samt hefur fiskast. En hver segir að það hafi ekki fiskast í maí? Auðvitað fiskast ekkert ef enginn fer í veiði, en þar með er ekki sagt að það sé ekki fiskur.

Við höfum heyrt fréttir af ágætri veiði á Þingvöllum, bleikjan kom fyrr upp að og einhver hafði á orði að það væri ekki oft sem bæði urriðinn og bleikjan væru á sama stað eins og kom ítrekað fyrir í maí sem leið. Hlíðarvatn í Selvogi hefur gefið mun betur þetta árið heldur en í fyrra, þar hafa veiðst vænir fiskar og miklu mun fleiri heldur en á sama tíma og í fyrra. Meira að segja eru dæmi þess hjá félögum við vatnið að fleiri fiskar hafi verið dregnir á land það sem af er þessa sumars heldur en allt sumarið í fyrra.

Veðurfar í maí – heimild: Veðurstofan

Ef við berum saman nokkur lykilatriði veðurfars s.l. 10 ára í Reykjavík, þá kemur berlega í ljós að síðustu þrír maí mánuðir hafa verið frekar myrkir sé horft til sólarstunda í mánuðinum (gul lína). 2018 er næstum aðeins hálfdrættingur á við 2012 sem þó var ekkert sérstakt í veiði.

Ef við horfum til meðalhita (rauð lína) þá er maí í ár greinilega töluvert kaldari heldur en í fyrra og reyndar annar kaldasti maí mánuður s.l. 10 ár. Gott og blessað, já það var kalt í síðasta mánuði, svona að meðaltali.

En hvað með allan þennan vind? Var virkilega meira rok í maí heldur en undanfarin ár? Jú, örlítið meiri meðalvindur (græn lína) heldur en síðustu ár. Við þurfum að fara allt aftur til 2009 til að finna meiri meðalvind, en það ár var aftur á móti næst bjartast og fjórða hlýjasta árið af þessum 10.

Kemur þá að vætunni, þar sker s.l. maí mánuður sig augljóslega úr með úrkomu upp á 129 mm sem er toppur síðustu 10 ára á meðan að 2012 rigndi innan við 1/6 af þeirri úrkomu.

Þegar ég ber saman veiðiferðir mínar síðustu ára þá stendur 2014 svolítið upp úr í maí. Þá var einmitt hitinn vel yfir meðallagi, þokkalega bjart og úrkoma undir meðallagi. Sem sagt, mér gengur best í lítilli úrkomu og þokkalegum hita. Ég veiði aftur á móti mun verr þegar það er kalt, en þá fer ég líka síður til veiða þar sem ég er kuldaskræfa. Vindur virðist ekkert hafa áhrif á afla eða fjölda ferða, ég kann nefnilega að snúa mér undan vindi og fiskinum virðist standa alveg slétt á sama þótt hann blási. Sólskynsstundir virðast ekki vera neinn úrslitavaldur, ekki nema þá að ég er léttari í lundu í glampandi heldur en dumbungi og því gæti verið að ég fari oftar í veiði þegar sú gula glennir sig.

UV eða ekki UV?

Eftir að ég laumaði hér inn um daginn smá grein um UV prófanir mínar, þá var ég inntur ítrekað eftir því hvers vegna ég væri að þessu. Einhverjir félaga minna sögðu mér hreint út að þetta væri tóm steypa, bara til þess gerð að selja okkur flugunördunum eitthvað sem gerði ekkert gagn. Var þá helst verið að vísa í ljómandi virkni UV fluorcent líms, þ.e. það ætti að ljóma í vatninu fyrir tilstuðlan minni birtu.

Það var nú ekki svo ég hafi ekki verið búinn að kynna mér ýmsar greinar um þetta galdraefni áður en ég fór að prófa mig áfram og vitaskuld var ég búinn að lesa ýmsa dóma um UV ljómandi efni. Margir þeirra endurspegluðu einmitt ofangreint viðmót, en aðrir mæltu eindregið með því að prófa. Sjálfur hef ég prófað annað ljómandi efni heldur en UV lím í gegnum tíðina og það verður nú bara að segjast, mér finnst það virka betur en hefðbundið þegar degi fer að halla og í gruggugu vatni.

Það skemmir væntanlega ekki að hafa kynnt sér aðeins hvernig sjón laxfiskar hafa áður en menn drepa svona nýjungar í fæðingu. Í fæðingu er e.t.v. heldur ofaukið hjá mér, þetta efni hefur verið á markaðnum í fjölda ára og margir notað það þótt það hafi aðeins nýlega ratað inn á mitt borð.

Urriði og bleikja hafa ekkert óáþekka sjón og við mennirnir og þeir greina liti, sem mér skilst að sé ekkert endilega sjálfgefið í dýraríkinu. Að vísu greina þessar tegundir ekki alveg nákvæmalega sömu liti og við, en mjög nálægt því samt. Þetta ættum við flugunördarnir að vita vegna þess að broddur, kragi eða skott í áberandi lit á flugu hefur oft gefið mun betur en einlit og flöt fluga. Að þessu sögðu verð ég samt að geta þess að sköpulag (útlínur) flugunnar hefur töluvert að segja, rétt eins og skörp litaskil í flugu.

Litrófið

Manskepnan er með s.k. RGB sjón, þ.e. við skynjum ljós af rauðri (R) bylgjulengd, grænni (G) og blárri (B). Þannig eru nú augun í okkur gerð og ef við viljum sjá eitthvað annað, þá verðum við að styðjast við einhverjar græjur sem umbreyta þeirri bylgjulengd yfir á R, G eða B, rétt eins og á myndinni hér að ofan þar sem við blöndum R og B saman til að fá fjólublánn lit. Með þeim fyrirvara að ég er ekki líffræði- eða læknismenntaður, þá ræður samspil fruma í sjónhimnu okkar og keila í auga því hvað við sjáum. Þegar ljós fer þverrandi, þá eykst virkni þessara frumna þannig að við greinum útlínur en litaskynjun hrakar snarlega. Þetta er einfaldlega vegna þess að keilurnar sem skynja RGB þurfa ákveðna birtu til til að virka og þegar öll birta þverr verðum við litblind og á endanum hætta frumurnar að virka og við verðum alblind.

Upp úr 1882 komu fyrstu vísbendingar fram um að dýr skynji aðrar bylgjulengdir ljóss heldur en menn. Það ljós sem kemur næst RGB er það útbjólubláa (UV) og rannsóknir á því hvernig dýr bregðast við þessu ljósi sýndu að t.d. margar tegundir fiska skynja þetta ljós. Þeir eru nefnilega ekki aðeins með þrjár tegundir keila í auganu, heldur fjórar. Þannig er því einmitt farið með silunginn. Þeir sjá sömu liti og við, þ.e. rautt, grænt og blátt og verða í raun jafn litblindir og við í myrkri, en þeir skynja útbjólublátt ljós og geta því komið auga á æti í myrki, svo lengi sem af því stafar útfjólublátt ljós. Þetta hafa veiðimenn nýtt sér um langan aldur með því að skreyta flugur sínar með ljómandi efnum eins og t.d. fluorcent þráðum. En eru fiskar þá einhverju bættari að nóttu til heldur en við? Jú, útfjólubláa ljósið er lengur að berast til jarðar og það heldur áfram að berast til jarðar löngu eftir að við hættum að sjá til. Auk þess þá á útfjólubláa ljósið auðveldara með að berast niður í gruggugt eða djúpt vatn heldur en það sem er okkur sýnilegt. Þannig sér urriðinn frekar útfjólublátt ljómandi efni þegar dýpra í vatnið er komið og það sem meira er, hann sér útfjólubláa ljósið úr meiri fjarlægð heldur en RGB liti.

Eigum við að eiga útfjólubláar flugur í boxinu? Mitt svar er einfaldlega já, en að sama skapi ættum við ekki að láta okkur bregða þótt aðeins smærri fiskur bíti á UV flugurnar okkar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að virkni UV keilnanna í augum urriðans fer hratt minnkandi með árunum, UV sjón hans helmingast t.d. á þremur til fjórum árum.

Hvað er þetta?

Á tyllidögum eru Íslendingar fremstir meðal jafningja og langsamlega fremstir þegar miðað er við höfðatölu, um það er sjaldnast deilt. Við erum framsækin og áræðin þegar því er að skipta, útsjónarsöm og raungóð að upplagi. En svo eigum við það einnig til að kokgleypa beituna þegar engt er fyrir okkur með aurum og krónum, sama hver súr og úldin beitan er.

Vinnufélagi minn er nýkominn heim úr hjólaferð um Cotswold á Englandi og þar rakst hann á þessa perlu og í gær greip hann mig á ganginum, sýndi mér þessa mynd og spurði ,Veistu hvað þetta er?‘ Mig rak í rogastans og rétt svar kom mér svo á óvart að ég ætla að velta þessari spurningu áfram til ykkar, lesendur góðir. Vitið þið hvað þetta er?

Mynd: Árni Ragnar Stefánsson

Myndin gefur til kynna að þetta er veðursæll staður, grænn og gróskumikill og eitthvað er af vatni þarna enda staðurinn rétt við bakka árinnar Coln í samnefndum dal. Þorpið heitir  Bibury og er miðja vegu á milli Bristol og Coventry. En hvað er þetta eiginlega?

Jú, þetta er fiskeldisstöð og hreint ekki ný af nálinni. Þarna hefur urriði verið ræktaður frá árinu 1902 þegar Arthur Severn kom stöðinni á fót. Í dag nær þessi fiskeldisstöð yfir 15 ekrur lands og hún framleiðir allt að 6 milljónir seiða á ári sem sleppt er í ár og læki víðsvegar um England.

Ef einhver á leið um þessar slóðir, þá er það vel þess virði að koma við í Bibury Trout Farm og skoða hvernig hægt er að koma á fót fiskeldi í landluktum tjörnum, fella þau svo að umhverfinu að hvergi ber skugga á, hvorki frá fagurfræðilegu sjónarmiði né náttúruvernd. Það sem meira er um vert, þarna gefst gestum kostur á að renna fyrir silung gegn vægu gjaldi, ekki amalegt það. Þetta er frábært dæmi um fiskeldi á landi sem gengur upp og er eitthvað allt annað og meira en bara matvæla- og stóriðja. Kannski væri okkur nær að líta til smærri og vistvænni eininga í fiskeldi hér á landi heldur en þeirra gallsúru norsku risalausna sem matreiddar hafa verið sem veisluréttir fyrir okkur. Þetta er að vísu engin töfralausn á fæðuvandamáli heimsins, en það eru nú fyrirhugaðar eldisstóriðjur á Íslandi ekki heldur. Þetta er einfaldlega lítil og nett lausn sem hljómar betur og er fegurri ásýndum heldur en fyrirhugaðar stóriðjur fyrir vestan og norðan. Mikið vildi ég óska að við Íslendingar hefðum kjark og þor til að leita úrbóta í atvinnumálum hinna dreifðu byggða á þessum nótum.

Það brennur

Það er sterkur steikingarþefur í eldhúsinu og það fer ekki framhjá nokkrum manni á heimilinu að það er verið að steikja kleinur. Kokkurinn er með allar græjur við höndina; eldvarnarteppi og lok á pottinn ef illa fer og feiti slettist á heita helluna eða hitnar um of í kolunum. Skyndilega eykst þefurinn verulega og reyk tekur að leggja um allt eldhúsið. Dettur einhverjum í hug að kokkurinn skjótist þá yfir í næsta herbergi, opni alla skápa upp á gátt í örvæntingarfullri leit að orsök reykjarins? Nei, auðvitað ekki, hann tekur eldvarnarteppið og lokið og kæfir eldinn sem hefur gripið um sig í feitinni. Það þarf ekki að leita að upptökum elds í stofunni þegar allt stendur í björtu báli í eldhúsinu.

Þess þá heldur væri það óðs manns æði að ætla fyrst að bjarga kleinunum úr pottinum og loka honum að því loknu. Til þess að heimilið brenni ekki til kaldra kola, þá er forgangsatriði að slökkva eldinn og það gerir maður ekki með því að kalla til eldvarnareftirlitið eða velta sér upp úr spekúlasjónum um skipulag brunavarna eða möguleg upptök elds hjá nágrannanum á meðan reyk leggur um eigið hús.

Lock Ainort - © geograph.org.uk
Loch Ainort – © geograph.org.uk

Mér, sem leikmanni, virðist sem ótrúlegum tíma hafi verið varið til lítils frá því um mitt síðasta sumar þegar fyrstu vísbendingar komu fram um strok regnbogasilungs á Vestfjörðum. Halló, regnbogasilungur hefur verið að veiðast í ám og lækjum um vestanvert landið frá miðju sumri og heilu göngurnar hafa sést utan kvía í Önundarfirði. Þetta hljómar í mín eyru eins og ætlunin hafi verið að bjarga kleinunum upp úr pottinum áður en slökkt yrði í og nú hefur það verið gert, þ.e. búið er að slátra þeim fiski sem ekki strauk.

Að vísu virðast menn ekki vera sannfærðir um að reyk hafi aðeins lagt upp úr einu potti þarna fyrir vestan. MAST gengur ekki út frá því að þetta gat, eitt og sér, skýri það magn lausagönguregnboga sem vart hefur orðið við frá miðju sumri. Hvað eru götin þá mörg sem stoppa þarf í og væri ekki ráð að byrja að skoða hinar kvíarnar sem eru á undanþágu frá reglum? Eða það sem betra er, færa þennan iðnað upp á land þar sem fylgjast má með þeim á sokkaleistunum? Nú þurfum við að anda djúpt áður en fleiri undanþágur verða samþykktar eða ný leyfi fyrir sjókvíum, sama hverrar tegundar, verða gefnar út. Það er mál til komið að menn geri sér grein fyrir því að það brennur.

Stóriðja í Vatnadal

Nú fer harmasögn minni úr Vatnadal að ljúka. Þegar hér er komið sögu hefur mönnum tekist að útrýma bæði bleikju og urriða í Vatni. Laxastofninn í Miðá er hruninn og hálfum dalnum sökkt undir lón. Er þá ekki nóg komið af hörmungum? Nei, svo virðist ekki vera því rothöggið á villtu fiskistofnana er eftir. Það kemur í hlut sjókvíaeldis að veita náðarhöggið. Það stafar margþætt hætta af stórhuga áformum um sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Smithætta fisksjúkdóma, genamengun frá erlendum stofnum og mengun vegna lífræns úrgangs af stærðargráðu sem við höfum aldrei kynnst áður. Átak okkar í skólphreinsun má síns lítils í samanburði við þann óhemju úrgang sem fellur til við sjókvíaeldi. Enn og aftur er stefnt að því að færa hingað til lands iðnað sem er verið að úthýsa erlendis vegna sóðaskapar og hættu. Hér hefur stóriðjan tekið á sig nýja mynd, ekki síður hættuleg heldur en loft- og efnamengandi málmbræðslur.

vatnadalur_4

Ótækt verðmat

Það er sagt að þriðjungur þjóðarinnar leggi stund á stangveiði að einhverju marki. Þegar maður fer að hugsa út í þetta, þá er þetta skuggalega hátt hlutfall, með því langhæsta sem þekkist í heiminum. Stundum efast ég um að þetta sé fyllilega rétt og mögulega sé hér talið skv. venju lítilla þjóða sem vilja leynt og ljóst verða stórasta land í heimi. Getur verið að hér sé allt talið til, stakir veiðimenn sem fara t.d. einu sinni á ári með börnin eða barnabörnin í einhverja sleppitjörn eða getur verið að við séum að telja með erlenda veiðimenn sem  drepa hér niður fæti fáeina daga á ári og kíkja í lax?

Kannski eru þetta óþarfa vangaveltur hjá mér og kannski er það virkilega þriðjungur þjóðarinnar sem stundar stangveiði að einhverju marki. Þá get ég bara sett punktinn hér og látið allar frekari vangaveltur lönd og leið, eða hvað? Ef þriðjungur þjóðarinnar telur sig til stangveiðimanna, þá er grátlegt hve hljóður þessi hópur er þegar kemur að því að standa vörð um sportið og láta í sér heyra þegar náttúrunni okkar er ógnað af fyrirhuguðu fiskeldi í sjókvíum við strendur landsins. Því miður virðist það svo vera að háværustu andmælin komi úr röðum aðila sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af stangveiði. Það er illa fyrir þjóð komið ef aðeins peningaleg gildi ná upp á yfirborðið í umræðunni.  Það heyrist allt of lítið í hinum almenna veiðimanni sem hefur, þegar öllu er á botninn hvolft, miklu meiri hagsmuna að gæta heldur en nokkur veiðileyfasali getur sett verðmiða á. Þær eru óteljandi stundirnar sem maður hefur átt í veiði hér á landi, stundir sem aldrei verða metnar til fjár. Og merkilegt nokk, þetta eru gæðastundir sem ég hef varið við annað en laxveiði. Silungastofnum stendur ekkert síður ógn af þessum ófögnuði sem sjókvíaeldið er. Öll mengun á strandsvæðum, hvort sem hún stafar af laxalús, smitsjúkdómum, snýkjudýrum, lífrænum úrgangi eða ólífrænum, er ógn við fiskistofna og lífríkið í heild sinni.

Ómetanlegt
Ómetanlegt

Sú ógn sjókvíaeldis sem helst hefur verið haldið á lofti er hættan á erfðamengun Íslenskra laxastofna. Þótt laxastofnum yrði hlíft við mögulegri erfðablöndun, þá situr eftir meiri sóðaskapur í umhverfismálum heldur en áður hefur sést við strendur þessa lands og þar liggja hagsmunir allrar þjóðarinnar undir. Það slys yrði stærra en svo að unnt er að setja á það verðmiða og einmitt þess vegna virðist vera ómögulegt að koma því upp á yfirborðið í umræðunni. Mig langar sérstaklega að benda á grein Erlendar Steinars Friðrikssonar, Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði. Sú umfjöllun ætti að vekja menn til umhugsunar.

Hver sá sem hefur notið þess að skreppa í veiði eða óskar þess að afkomendur hans eigi þess kost þegar fram líða stundir ætti að taka afstöðu til þess hvort skammtímagróði fárra sé þessum hlunnindum meirihlutans æðri. Að sama skapi ætti hin almenni veiðimaður að standa vörð um aðgengi sitt að ómengaðri arfleið landsins án þess að þurfa að gjalda fyrir það skv. verðmati sem unnið er upp úr arðsemisútreikningum talnaspekinga á snærum innlendra eða erlendra aurapúka. Sumt verður einfaldlega aldrei metið til fjár og virðist því aldrei geta staðist samanburð við krónur og aura, hvað þá dollara eða norskar krónur.

Að þessu sögðu verð ég að játa að ég get vel sett mig í spor þeirra íbúa sjávarþorpa úti á landi sem sjá fram á bjartari tíma við uppbyggingu fyrirhugaðs fiskeldis. En það þarf enga sérfræðinga að sunnan til að segja heimamönnum hvað sé náttúrunni eða buddunni þeirra fyrir bestu, þeir eru skarpari en svo. Heimamenn hafa séð hrun og ris fiskistofna með eigin augum, fundið það á eigin skinni þegar náttúrunni er raskað. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð og sú ráðsnilld ætti að duga til koma á laggirnar öðrum atvinnutækifærum heldur en innflutningi erlendrar stóriðju, sama hvort hún fæst við málmbræðslu eða sjókvíaeldi. Hingað til hefur stóriðja laðast að fallvötnum okkar og ónýttum losunarkvóta og nú stendur til að bæta ósnortnum strandsvæðum okkar á þennan óskalista erlendra iðjuhölda. Því miður er útlit fyrir að engin breyting verði á skilum þeirra til Íslenska þjóðarbúsins, þau felast fyrst og fremst í þurrmjólkun okkar einstöku náttúru sem tekin verður út í reikning komandi kynslóða. Finnum raunhæfar leiðir til að skjóta stoðum undir hnignandi byggðir á Íslandi, segjum nei við stóriðju, sama hvaða nafni hún nefnist.