Flýtileiðir

Hitaveitufiskur

Hér um árið missti ég út úr mér að ég nennti ekki að eltast við friðaðan hitaveitufisk á Þingvöllum. Þetta með hitaveitufiskinn þótti bara sniðugt, ekkert meira en það. Ef ég man rétt, þá hef ég aðeins veitt einn urriða á Þingvöllum og það var fyrir samverkandi mistök okkar beggja. Hann var svo vitlaus að láta glepjast af Pheasant #14 í stað þess að gleypa dvergbleikju  sem var á sveimi þarna. Mín mistök voru að trúa því allt of snemma sumars að bleikjan væri komin upp að landi við Vörðuvík.

Þótt þetta með hitaveitufiskinn hafi hálft í hvoru verið grín, þá vitum við að fiskurinn lætur stjórnast af vatnshita. Þessi ensím sem hann notar til að brjóta niður fæðu eru hitastýrð. Hvort það er framleiðsla eða virkni þessara ensíma sem dalar með lækkandi hitastigi, veit ég ekki, en hitt veit ég að þegar hitastig vatnsins hækkar, þá eykst virkni eða magn þessara ensíma og fiskurinn fer að éta aftur eftir hvíld. Vatnshiti stýrist yfirleitt af veðurfarslegum aðstæðum, en ekki alltaf. Stundum verða mannanna verk til þess að vatnshiti hækkar og stundum er það nálægð við háhitasvæði sem verður þessa valdandi. Innstreymi hita eins og við þekkjum í Þingvallavatni getur leitt til þess að fiskur á ákveðnu svæði svamlar í kjörhitastigi nær allan ársins hring, étur og étur og stækkar eftir því. Þetta atferli er alls ekki eina skýringin á stórvexti þessa stofns, Þingvallaurriðinn verður óvanalega seint kynþroska, þ.e. 8 – 9 ára og virðist lítið annað hafa fyrir stafni þessi ár heldur en éta og stækka.

Því hefur verið haldið fram að erfðir urriðans og þessi síðbúni kynþroski ráði mestu um stærð hans, en það eru til fleiri stofnar urriða á Íslandi sem verða kynþroska tiltölulega seint á lífsleiðinni og ekki verða þeir jafn stórir og frændi þeirra á Þingvöllum, svona yfirleitt. Eins eru þau vötn til sem urriða af Þingvallastofni var sleppt í fyrir margt löngu síðan og þar verða þeir ekki svona stórir. Hæfileikinn, erfðirnar, leggja e.t.v. grunninn að þessum ógnarvexti fisksins á Þingvöllum, en það þarf eitthvað fleira að koma til og þá er nærtækt að horfa til fæðuframboðsins og fjölda daga á ári sem fiskurinn nýtur kjörhita. Við megum samt ekki gleyma því að stærri fiskur étur meira og hann þarf sífellt að stækka máltíðina og réttina á matseðlinum.

Í Litluá í Kelduhverfi skapa umhverfisáhrif mjög svipuð lífsskilyrði og á ákveðnum stöðum í Þingvallavatni. Þar verður urriðinn oft gríðarlega stór vegna þess að vatnið í ánni helst að jafnaði 12°C vegna blöndunar heits vatns úr Brunnum í upptakavatn árinnar, Skjálftavatn. Sami stofn urriða finnst í öðrum kaldari ám og þar verður hann ekki nándar nærri eins stór þó nægt æti sé til staðar. Í þeim ám er dagafjöldi kjörhitastigs líka allt annar og nær því að vera eðlilegur, enda stýrist hann af veðri og vindum, ekki jarðhita.

Fleiri vötn og ár á Íslandi eru til sem státa af lífskilyrðum sem verða til þess að fiskurinn stækkar mikið og hratt. Ég trúi því ekki að ég sé einn um að koma auga á svæði sem þessi. Svæði þar sem það eru mannanna verk sem hafa hróflað við hita- og/eða fæðuframboði og þannig lagt grunninn að stórfiskastofni, ekki aðeins urriða heldur einnig bleikju. Fæst þessara svæða fá mikla athygli í umræðunni vegna annars en þeirra stóru.

Veiðimönnum er upp til hópa sérstaklega annt um hreinleika áa og vatna, eru duglegir að finna orsakir mengunar sem raskað getur lífríkinu og berjast með kjafti og klóm þar til málum er kippt í liðinn. Því miður fer aðeins minna fyrir umræðunni ef mengunin hleypir fjöri í fiskinn. Heitt vatn, jafnvel vel hreinsað getur raskað lífríki áa og vatna, en það telst yfirleitt ekki til mengunarvalda. Sömu sögu er að segja um kalt afrennsli sem ber með sér ónáttúrulegar fæðuagnir sem fiskurinn nýtir til átu.

Hvoru tveggja virðist við fyrstu sýn ekki vera neitt stórmál, bara betra fyrir fiskinn, ekki satt? Eykur hróður viðkomandi svæðis og gerir það söluvænna o.s.frv. Málið er samt sem áður ekki svona einfalt, það tók nokkrar þúsundir ára fyrir lífríkið að þróast þannig að það gæti fóstrað ákveðna fjölbreytni í góðu jafnvægi. Einsleitt lífríki á sér sjaldnast langa framtíð, en það er einmitt það sem svona inngrip manskepnunnar leiðir af sér. Útkoman verður oftar en ekki að fiskistofnar samanstanda af tiltölulega fáum en stórum einstaklingum sem þegar fram í sækir, leggjast af fullum þunga á ungviðið og raska þannig enn frekar fjölbreytileikanum. Þá þýðir lítið að setja á sleppiskyldu á stóru fiskana, það ýtir aðeins enn frekar undir fábreytileika stofnsins, nýliðarnir eiga ekki séns í þessa stóru sem njóta verndar því þeir verða bara sífellt svangari eftir því sem þeir stækka meira.

Orð sem þessi leggjast ekki alltaf vel í veiðimenn og veiðileyfasala, en það verður bara að hafa það. Ég held að mál sé til komið að vera sjálfum sér samkvæmur og viðurkenna að það að umturna lífríkinu eða raska jafnvægi þessu sem tók þúsundir ára að ná sé glapræði og komi öllum í koll þegar upp er staðið. Það er í okkar valdi sem göngum á jörðinni um þessar mundir, að ganga svo frá hnútum að komandi kynslóðir geti notið fjölbreytileika náttúrunnar. Meðal stangveiðimanna í dag eru þegar margir yngri veiðimenn sem hafa aðeins kynnst fiski sem hefur fengið að vaxa samkvæmt forskrift manna, ekki náttúru. Fiskurinn er e.t.v. stór, tekur sig vel út á mynd og það þykir sjálfsagt að sleppa honum að myndatöku lokinni af því þeir eru svo fáir. Það er langt því frá að þetta sé eitthvað landslið fiska, þetta eru mögulega Íslandsmeistarar, en þeir eru ekki lið, til þess eru þeir of fáir. Farðu út í búð og keyptu bland í poka fyrir 1.000,- kr. og settu hann á varamannabekkinn við sparkvöll yngriflokka. Vittu til, það verða fáir sem fá flesta molana, sumir ekkert. Endurtaktu leikinn í nokkra daga og þú getur verið viss um að einn daginn verða aðeins þeir frekustu eftir, ekki sem lið að spila fótbolta heldur einstaklingar að bíða eftir pokanum við varamannabekkinn. Svona byggir maður ekki gott lið yngriflokka eða upprennandi landslið, það sama á við um fiskinn okkar.

Eitt svar við “Hitaveitufiskur”

  1. Birgir Sigurjónsson Avatar
    Birgir Sigurjónsson

    Hafðu þökk fyrir þessan pistil félagi

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com