Í fyrsta þætti fjórleiks mýflugunnar var fjallað um blóðorminn og honum lauk með þeim orðum að fáir fiskar aðrir en ungviði eltast við staka blóðorma.
Allt öðru máli gegnir víst með næsta lífsform mýflugunnar sem verður til í nokkrum skrefum þegar lirfan púpar sig húsinu (pípunni) sem hún hefur byggt sér á botninum. Púpur mýflugunnar geta komið fram í ýmsum litum, yfirleitt fölleitar eða brúnar á búkinn en með dekkra höfuð. Ekki má þó gleyma gulleitum og grænum púpum og sumar hverjar eru rauðleitar, jafnvel hárauðar. Litavalinu eru nánast lítil takmörk sett og fer eftir tegundum mýflugna sem eru um og yfir 80 hér á landi. Þegar púpan hefur tekið fullum breytingum, losar hún sig upp og syndir, svamlar eða einfaldlega rís upp að yfirborðinu. Það ku víst vera æði misjafnt hvernig púpan hreyfir sig, sumar hlykkjast áfram í vatninu á meðan aðrar líða um að því er virðist án nokkurrar hreyfingar.
Lífsferill mýflugunnar skiptist í fjögur stig; egg, lirfa (blóðormur), púpa og fullvaxta fluga. Þótt útilokað sé að veiðimönnum nýtist fyrsti lífsferill flugunnar, þá má samt segja að fluguveiðimenn geti átt fluguna í fórum sínum í fjórum mismunandi útgáfum og eiginlega nauðsynlegt ef þeir ætla að nýta sér þessa mjög svo vinsælu fæðu fisksins.
Fyrstan skal telja blóðorminn, lirfu mýflugunnar sem verður til úr eggi og grefur sig gjarnan í botn vatna eða festir sig við klappir og steina í ám og vötnum. Þetta er það stig lífsferils mýflugunnar sem varir lengst, þó misjafnlega langt hjá hverri tegund, allt frá örfáum vikum og upp í 1 – 2 ár. Blóðormurinn er orkurík fæða sem silungurinn sækir í hvar sem hann nær til hennar. Þar sem skilyrði eru heppileg getur fjöldi lirfa verið um 200.000 pr.m2 jafnvel meiri. Það er því af nógu að taka fyrir fiskinn og við liggur að manni hrís hugur við að keppa með einn blóðorm við alla þessa mergð. Það getur því borgað sig að leggja smá vinnu í fluguna þannig að hún skeri sig úr, standi framan öllum hinum og gangi í augu fisksins til átu. Raunar er það víst svo að fiskurinn eltir sjaldnast staka blóðorma, veislan fellst í því að úða sem flestum í sig með minnstri fyrirhöfn og því nánast ryksugar hann botninn á ákveðnum stöðum og tekur fjölda upp í sig í einu, aðeins seiði fiska eltast við stakar lirfur.
Ég þreytist seint á því að endurtaka rulluna um að stangveiði sé alls ekki eins flókið mál og margur vill meina. Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að ákveðnir veiðistaðir útheimta töluverða reynslu ef þokkalegur árangur á að nást. Ég til dæmis er frekar slakur veiðimaður í miklum straumi og það stóð alltaf til að fá tilsögn mér reyndari veiðimanna í sumar í slíkum aðstæðum. Það stóð ekkert á því að mér stæði aðstoð til boða, en mér tókst að humma þetta fram af mér í allt sumar. Alltaf fann ég einhverja afsökun fyrir því að drífa mig af stað, ef það var ekki veðrið þá var það einhver önnur veiði eða viðburðir. Þessi vankunnátta mín hverfur ekkert og það er vonandi nægur tími til stefnu til að ráð bót á henni, ég er ekkert stressaður yfir þessu.
Raunar er það nú svo að bónusar stangveiðinnar eru alltaf að stimpla sig meira og meira inn hjá mér, útiveran og bara það að vera. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að fiskurinn sem ég hef mestan áhuga á heldur sig aðeins á fallegum stöðum. Eða er það öfugt, verða staðir fallegir við það að fiskurinn staldrar þar við? Sama hvort er, þá snýst stangveiðin mín sífellt meira og meira um það að njóta.
Höfundurinn einn með sjálfum sér, næstum því
Kannski er þetta helsta ástæða þess að í sumar sem leið drap ég lítið niður fæti þar sem fjöldi veiðimanna safnaðist saman, mér tekst bara ósköp illa að bara vera í margmenni, hvað þá í samkeppni um hvern einasta fermetra sem unnt er að nýta á vatnsbakkanum. Auðvitað fagna ég því einlæglega að fleiri og fleiri virðast leggja stund á stangveiði hér á landi, í það minnsta ef eitthvað er að marka aðsókn að þekktum veiðistöðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. En mér er einnig umhugað um þá upplifun sem veiðimenn hafa af veiði og hvernig veiðistaðirnir líta út í lok dags.
Ég er lítið hrifinn af því að veiða á klukkunni og vera úthlutað ákveðnu veiðisvæði eins og víða þekkist. Mér varð nú samt hugsað jákvætt til þessa fyrirkomulags þegar ég sá urmul veiðimanna á einum og sama bleðlinum í sumar. Svo margir voru veiðimennirnir að ég þóttist heyra kvein gróðursins undan fótum þeirra og það voru satt best að segja fleiri á staðnum heldur ég sá í nokkurn tíma í hverfisbúðinni minni þegar hún var og hét. Þetta var einfaldlega ekkert fyrir mig og því hélt ég áfram og fann mér afvikinn stað fyrir mig og mínar hugsanir þar sem aðeins mín spor mörkuðu slóðina.
Mikið hefur verið rætt og ritað um þá hættu sem stafar af mögulegri erfðamengun íslenskra laxa samhliða laxeldi í sjó með frjóum norskum laxi. Markaðsherferð laxeldisfyrirtækjanna virðist gefast hér álíka vel og hún gerði erlendis fyrir áratugum síðan. Gylliboð og loforð um bót og betrun í sjókvíaeldi nær til fólksins, ráðþrota sveitarstjórna og alveg inn á borð mistækrar ríkisstjórnar. Orðræðan er ekki ósvipuð þeirri sem átti sér stað í Noregi fyrir 20 – 30 árum síðan. Vá erfðamengunar, laxalúsar og fisksjúkdóma var þá markvisst töluð niður af hagsmunaaðilum og lítið gert úr rökum og áliti þeirra sem báru hag lífríkisins fyrir brjósti. Í dag hefur þessi umræða hreinlega lagst af í Noregi, Skotlandi og víðar. Í dag snýst hún um það hvernig unnt sé að vinda ofan af viðurkenndum staðreyndum, skaðinn er skeður og við hefur tekið ferill skaðaminnkunnar. Fiskeldisfyrirtæki hamast nú við að auglýsa nýjar aðferðir við fiskeldi sem eru raunverulega umhverfisvænar og sjálfbærar, aðferðir sem talsmenn íslenskra fiskeldisfyrirtækja segja fullkomlega óraunhæfar og muni aldrei skila hagnaði.
Það skal fúslega viðurkennt að ég hef ekki lagt mig sérstaklega eftir því að kanna hver hagnaður sjókvíaeldis hér á landi er. Ég sé einfaldlega fram á gríðarlegt tap okkar- og komandi kynslóða, tap sem aldrei verður metið til fjár. Án þess að ég vilji nokkuð draga úr fyrirsjáanlegu tjóni þeirra sem hafa búbót eða tekjur af laxveiði, þá þykir mér í sannleika sagt sem stærsta fórnarlambið hafi lítið verið virt viðlits og það hvorki fengið að njóta vafans né sannmælis. Hér er ég að vísa til náttúrunnar í sinni víðustu merkingu.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að ég er ekki auðmaður með fullar hendur fjár og ég stunda ekki laxveiði. Ég aftur á móti viðurkenni það fúslega að ég er sjálfskipaður sérfræðingur að sunnan, enda fæddur og uppalinn á Suðurlandi, í kjördæmi þingmannsins víðförla sem svo skemmtilega auðkenndi okkur með þekktri skammstöfun úr Þriðja ríki nasismans. Og það sem meira er, ég viðurkenni það með stolti að ég er lobbýisti, lobbýisti fyrir hreinni og óspilltri náttúru og ég hef sterkar skoðanir á fiskeldi á því formi sem tíðkast hér hvort sem það er á frjóum eða ófrjóum laxi eða regnbogasilungi.
Þá áratugi sem sjókvíaeldi hefur verið stundað hefur fiskur sloppið úr kvíum og það saman gerir hann og mun gera hér við Ísland. Því miður hefur orðskrípið slysaslepping verið notað um þetta en það gefur til kynna að strok fiska sé ófyrirséður og óvæntur atburður. Þetta er víðs fjarri raunveruleikanum því það er hreint ekki ófyrirséð að fiskur sleppi úr sjókvíum, sagan segir okkur allt annað. Samkvæmt sérfræðingum er það þekkt að eldisfiskur sem leitar upp í ár og vötn hrygnir heldur síðar en náttúrulegir stofnar. Allt tal um að náttúrulegri hrygningu standi ekki ógn af eldislaxi eru innantóm orð. Staðfest dæmi um eldislax sem komin er að hrygningu utan sjókvía liggja fyrir. Það er í eðli laxa að róta möl og botnseti til þar sem þeir hyggjast hrygna. Þannig rótar eldisfiskurinn til þeim hrognum fiska sem þegar hafa hrygnt og gildir þá einu hvort um er að ræða hrogn laxa, bleikju eða urriða. Hrogn sem þannig missa skjól sitt á botninum verða aldrei að fiskum, skaðinn því skeður og viðkoma náttúrulegu stofnanna verður lakari.
Hvort heldur regnbogasilungur komi seiðum á legg hér eða ekki, þá er átgirnd hans næg ógn og hún heggur stór skörð í raðir ungviðis annarra tegunda. Þetta lærðu Bretar af sárri reynslu þegar aðfluttur stofn regnbogasilungs var fluttur til Bretlandseyja um og eftir 1884. Það liðu ekki margir mánuðir þar til þúsundir regnboga höfðu sloppið í nærliggjandi ár og vötn og þar dafnaði hann vel á hrognum og ungviði annarra tegunda, ekki síst urriða. Svo mjög hjó þetta skörð í raðir náttúrulegra stofna að við lá að urriðinn hyrfi algjörlega af sjónarsviðinu og ekki dró úr ógninni þegar regnboginn tók til við að fjölga sér. Væntanlega sleppum við þá ógn, ekki nema regnboginn finni sér velgjur í ám og lækjum hér á landi sem henta hrygningartíma hans. Það skildi þó aldrei vera að sú yrði raunin, fiskurinn er vissulega til staðar hringinn í kringum landið og hann leitar sér greinilega að búsvæði.
Upphafleg andstaða mín við sjókvíaeldi er þó ekki mörkuð þess sem hér hefur verið getið. Andstaða mín vaknaði í byrjun vegna þeirrar mengunar sem sjókvíaeldi hefur í för með sér. Þessi mengun er margþætt og hún ógnar ekki aðeins fiskum í sjó eða ferskvatni, hún ógnar lífríkinu öllu.
Það hefur verið látið í veðri vaka að mengun í formi lífræns úrgangs frá sjókvíum sé ekkert vandamál, um sé að ræða áburð og næringu fyrir aðrar lífverur sem þannig nýtist. Rétt eins og aðrar úrtöluraddir efasemda er þetta fjarri lagi. Ofgnótt lífræns úrgangs leiðir ekki til aukinnar framleiðslu í hafinu, ekki frekar en á landi. Engum dytti til hugar að þekja Heiðmörkina með 50 sm. þykku lagi af kúamykju með þeim rökum að gróður og dýralíf hefðu bara gott af og vatnsból Reykvíkinga spilltust ekki, þetta væri jú allt lífrænt.
Mótvægisaðgerðir mengunar sjókvíaeldis byggjast á hvíld svæða og kvaðir þess efnis eru settar á eldisfyrirtækin. Því miður höfum við dæmi um að farið hefur verið á svig við þessar reglur hér heima rétt eins og víða erlendis. Burstséð frá þessum brotum ber þess að geta að forsendur burðarþols eru metnar samkvæmt flóknum reiknilíkönum sem eru í sífelldri þróun. Enn hefur ekki tekist að ná til allra þátta sem áhrif geta haft á útreikningana, reglulega koma í ljós brotalamir í þessum líkönum og ófyrirséðir þættir skjóta upp kollinum sem skekkja dæmið. Því er leitast við að nota varfærnustu niðurstöður þessara útreikninga við ákvörðun burðarþols hér á landi. Slík varúð var að vísu einnig viðhöfð undan ströndum Noregs, Skotlands, Svíþjóðar og Chile þar sem heilu eyðimerkurnar á hafsbotni hafa verið kortlagðar í nágrenni sjókvía og ætluð endurkræf áhrif með hvíld hafa látið á sér standa.
Með fullri virðingu fyrir sérfræðingum lífríkis og reiknimeisturum þeim sem annast burðarþolsútreikninga, þá er það skoðun mín að meira mark mætti taka á þeim náttúrufræðingum sem numið hafa fræðin af náttúrunni sjálfri. Í samtölum mínum við athugula Austfirðinga hafa þeir tjáð mér að marfló hefur fækkað verulega í fjörðum þeim sem búa við sjókvíaeldi. Það vill svo til að marfló er undirstöðufæða sjóbleikjunnar og þessi vöntun gæti verið skýring á lélegum heimtum úr eldisfjörðum síðustu árin á meðan heimtur úr hreinum fjörðum hafa haldist í meðaltali.
Þéttleiki fiska í sjókvíum er gróðrarstía sjúkdóma og laxalúsar. Bölsýnisspár þeirra sem efuðustu um sannleiksgildi þess að laxalús yrði ekki vandamál í sjókvíaeldi hér við land hafa reynst réttar. Eldisfyrirtæki hafa þegar fengið leyfi fyrir og notað fóður sem í er blandað lúsalyfjum. Laxalús hefur og verður alltaf til staðar hér við land en fiskum stendur almennt lítil ógn af henni undir náttúrulegum kringumstæðum. Sjókvíar eru bara ekki náttúrulegar aðstæður og þéttleiki laxalúsar í og við þær er slíkur að náttúran má sín lítils og afföll villtra fiska verða umtalsverð í skásta falli, allt að 50% í versta falli. Þessi afföll eru ekki bundin við lax, urriði og sjóbleikja eru sérstaklega viðkvæm fyrir laxalús. Merkjanleg afföll þessara stofna í nágrenni sjókvía hafa verið staðfest í nágrannalöndum okkar og engin augljós ástæða til þess að ætla að annað sé uppi á teningnum hér við land.
Lyfjanotkun í fiskeldi er ekkert einkamál fiskeldisfyrirtækja. Styrkur lúsalyfja í fóðri þarf að vera nokkuð hár til þess að ná tilætluðum árangri. Nokkrar misvísandi niðurstöður rannsókna segja að nýting lyfja í fóðri sé á bilinu 15% og upp í 45%. Hvor talan sem rétt reynist, þá er vitað að lirfur sjávarlífvera deyja við einungis 1 – 4% af þeim skammti sem þarf til að drepa laxalús. Það má því gera því skóna að fyrir hverja laxalús sem tekst að drepa með lyfjum, liggja hundruð lirfa í valnum sem annars hefðu orðið undirstaða eða beinlínis fæða fiska og fugla í ómengaðri náttúru. Grunnsævi er fisktegundum mikilvægt og margir stofnar leita þangað til hrygningar og fæðuöflunar. Með því að raska lífkeðju þessara svæða er tilveru þessara stofna stefnt í hættu, nær væri að hlúa að þessum svæðum enn frekar og nýta þau skynsamlega, rétt eins og Vest- og Austfirðingar hafa gert um aldir.
Skammtímagróði sjókvíaeldis er sýnd veiði, en ekki gefin. Tap náttúrunnar verður öllum augljóst.
Ég hef aldrei verið talinn sérstaklega jákvæður maður, kannski vegna þess að ég er að eðlisfari frekar varfærinn maður, þessu neita ég ekki. En ég neita því alfarið að ég hafi í hótunum við nokkurn mann eða hóp manna þannig að þeir sjái að sér og víki frá óviturlegri ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir þeirra hönd.
Ég neita því að standa þegjandi hjá á meðan aðgangi og yfirráðum íslenskrar náttúru er úthlutað eins og hverri annarri auðlind. Íslensk náttúra er ekki bara einhver auðlind sem hver sem er á að geta nýtt og níðst á að eigin geðþótta. Íslensk náttúra er sameign þjóðarinnar, eiginlega mannkyns alls og ég vil standa vörð um það að hver sem er geti notið hennar. Vilt dýralíf í ám og vötnum er hluti náttúrunnar okkar, rétt eins og smágerðasta dýra- og plöntulíf sjávar við strendur landsins.
Ég neita að trúa yfirlýsingum sérfræðinga um hreinleika sjókvíaeldis við Íslandsstrendur þegar dæmi um hið gagnstæða eru hverjum manni augljós. Hvers vegna hafa fiskeldisfyrirtæki sótt um notkun lúsalyfja hér fyrst laxalús er ekkert vandamál við Ísland eins og haldið hefur verið fram í söluræðum.
Ég neita að trúa því að sá búnaður sem notaður er við sjókvíaeldi sé eins öruggur og forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækjanna vilja vera láta. Hvaðan kemur allur sá eldisfiskur sem veiðst hefur utan sjókvía við Ísland fyrst kvíarnar eru jafn öruggar og sérfræðingar halda fram.
Ég neita að trúa því að yfirvöld geti ekki stöðvað þessa stóriðju þegar hún þverbrýtur ákvæði um hvíld svæða sem þó geta tæpast talist nægar.
Ég neita að trúa því að sú umverfisógn sem raungerðist í Noregi og Skotlandi samfara sjókvíaeldi steðji ekki að Íslandi í dag. Á meðan fiskeldi hafa verið settar þrengri skorður í þessum löndum þá er enn verið að auka við kvóta og umfang sjókvíaeldis hér á landi.
Það fór víst ekki framhjá neinum að veðurskilyrði í maí voru veiðimönnum ekkert endilega hagstæð. En hvað var það eiginlega sem var svona afbrigðilegt við veðrið í maí? Leikmaður eins og ég get svo sem bara sagt það var kalt og blautt, en það hefur nú áður verið kalt og blautt í maí og samt hefur fiskast. En hver segir að það hafi ekki fiskast í maí? Auðvitað fiskast ekkert ef enginn fer í veiði, en þar með er ekki sagt að það sé ekki fiskur.
Við höfum heyrt fréttir af ágætri veiði á Þingvöllum, bleikjan kom fyrr upp að og einhver hafði á orði að það væri ekki oft sem bæði urriðinn og bleikjan væru á sama stað eins og kom ítrekað fyrir í maí sem leið. Hlíðarvatn í Selvogi hefur gefið mun betur þetta árið heldur en í fyrra, þar hafa veiðst vænir fiskar og miklu mun fleiri heldur en á sama tíma og í fyrra. Meira að segja eru dæmi þess hjá félögum við vatnið að fleiri fiskar hafi verið dregnir á land það sem af er þessa sumars heldur en allt sumarið í fyrra.
Veðurfar í maí – heimild: Veðurstofan
Ef við berum saman nokkur lykilatriði veðurfars s.l. 10 ára í Reykjavík, þá kemur berlega í ljós að síðustu þrír maí mánuðir hafa verið frekar myrkir sé horft til sólarstunda í mánuðinum (gul lína). 2018 er næstum aðeins hálfdrættingur á við 2012 sem þó var ekkert sérstakt í veiði.
Ef við horfum til meðalhita (rauð lína) þá er maí í ár greinilega töluvert kaldari heldur en í fyrra og reyndar annar kaldasti maí mánuður s.l. 10 ár. Gott og blessað, já það var kalt í síðasta mánuði, svona að meðaltali.
En hvað með allan þennan vind? Var virkilega meira rok í maí heldur en undanfarin ár? Jú, örlítið meiri meðalvindur (græn lína) heldur en síðustu ár. Við þurfum að fara allt aftur til 2009 til að finna meiri meðalvind, en það ár var aftur á móti næst bjartast og fjórða hlýjasta árið af þessum 10.
Kemur þá að vætunni, þar sker s.l. maí mánuður sig augljóslega úr með úrkomu upp á 129 mm sem er toppur síðustu 10 ára á meðan að 2012 rigndi innan við 1/6 af þeirri úrkomu.
Þegar ég ber saman veiðiferðir mínar síðustu ára þá stendur 2014 svolítið upp úr í maí. Þá var einmitt hitinn vel yfir meðallagi, þokkalega bjart og úrkoma undir meðallagi. Sem sagt, mér gengur best í lítilli úrkomu og þokkalegum hita. Ég veiði aftur á móti mun verr þegar það er kalt, en þá fer ég líka síður til veiða þar sem ég er kuldaskræfa. Vindur virðist ekkert hafa áhrif á afla eða fjölda ferða, ég kann nefnilega að snúa mér undan vindi og fiskinum virðist standa alveg slétt á sama þótt hann blási. Sólskynsstundir virðast ekki vera neinn úrslitavaldur, ekki nema þá að ég er léttari í lundu í glampandi heldur en dumbungi og því gæti verið að ég fari oftar í veiði þegar sú gula glennir sig.