Þeir leynast víða sauðirnir

Fyrir hálfum mánuði síðan birti ég hugleiðingar mínar um slælega umgengni við náttúru Íslands. Kveikjan að þeim hugleiðingum mínum var því miður umgengni veiðimanna við Hítarvatn sem ég varð vitni að.

Í framhaldi þessa lenti ég á smá spjalli við kunningja mína í vinnunni og þá kom til tals hjarðhegðun okkar mannfólksins. Það virðist vera áberandi að þar sem einn sóði drepur niður fæti, þar spretta upp nokkrir til viðbótar og þannig getur smáræði orðið að ruslahaug. Það verður að viðurkennast að ég hef alveg fundið fyrir einkennum þessarar hjarðhegðunar hjá mér. Þegar ég kem að veiðistað þar sem umgengni hefur verið einstaklega slæleg, þá getur mig alveg brostið geð til að taka upp ruslið sem ég rekst á. Þetta eru aðeins væg einkenni og hafa blessunarlega engin áhrif á það hvernig ég hafa mínum sorpmálum, en sauðslegt engu að síður.

Taumar og taumaendar fara einfaldlega niður í vöðlurnar mínar yfir daginn. Það eru reyndar til einstaklega sniðugar græjur sem hægt er að nota til að vinda taumaenda og girni inn á og tæma þegar komið er að næstu ruslatunnu en mér dugar vöðluvasinn eða brjóstmálið til að geyma mínar afklippur.

Eftir notkun fara mínar drykkjarumbúðir einfaldlega aftur ofan í þann vasa eða bakpoka sem ég notaði til að bera þær með mér á veiðistað. Þetta er nú ekki flókið og ætti að vera á flestra færi, ekkert frekar en að ganga frá pappír eftir að hafa gengið örna sinna.

En svo kemur að slógi og beinagörðum sem falla til á veiðistað. Einn kunningi minn vakti mig til umhugsunar um að margir veiðimenn hafa bara ekki hugmynd um það sem á sér stað þegar slógi eða fiskúrgangi er skilað aftur í vötnin. Sumir veiðimenn gera þetta í þeirri góðu trú að þeir séu að fóðra fiskinn sem eftir er í vatninu. Þetta er leiður misskilningur og útbreiddur. Við það að henda slógi í vatnið eða skilja það eftir við bakkann eru veiðimenn að viðhalda hringrás bandorma í náttúrunni sem aðeins veikir fiskistofnana í nærumhverfinu. Það eru helst krabbadýr og sviflægir fiskar sem nýta sér úrgang og þannig komast egg bandorms aftur inn í fæðukeðjuna og enda með einum eða öðrum hætti í lokahýsil sínum; laxi, urriða, bleikju, fugli eða spendýrum þar sem þeir fjölga sér enn frekar. Egg ormsins skila sér síðan aftur út í náttúruna með saur og þannig hefst hringrásin upp á nýtt. Það er því engum greiði gerður að skilja slóg og fiskúrgang eftir á veiðislóð. Komum fiskúrgangi í ruslið rétt eins og öðru sem til fellur á veiðistað.

Lífsferill bandorms
Lífsferill bandorms – © FOS.IS

Af hverju ekki?

Rétt eins jólasveinar fara á stjá í desember og páskaungar skjóta upp kollinum í mars eða apríl, þá vaknar hún á hverju ári spurningin um það hvers vegna ekki má nota síld og makríl sem beitu í hinu eða þessu vatninu. Þetta sumar er engin undantekning frá reglunni. En hvers vegna er þessi beita bönnuð í eins mörgum vötnum og raun ber vitni?

Ekki veit ég til þess að sérstakar rannsóknir hafi verið gerðar á skaðsemi mismunandi beitu í vötnum, en þær eru nokkrar til sem lýsa sýkingum í síld og makríl, sýkingum sem hæglega geta haft áhrif á ferskvatnsfiska.

Ein tegund hringorms, hvalormur (síldarormur) nýtir krabbadýr sem burðarhýsil þar sem ormurinn þroskast og verður smithæfur. Þess vegna eru fiskar sem nærast á krabbadýrum (t.d. loðna, sandsíli, síld og makríll) líklegir millihýslar hvalorms sem er, vel að merkja, ríkjandi tegund hringorma í norður Atlantshafi. En sýkingin er alls ekki einskorðuð við framangreindar tegundir. Hvalormur finnst í sjógengnum fiski, s.s. sjóreið, sjóbirtingi og laxi. Gotraufarsýking í laxi er t.d. vegna hvalorms. Nánar um hringorma hér.

Önnur sýking sem herjar á síld og makríl er svipudýr að nafni Ichthyophonus hoferi. Þetta sníkjudýr hefur verið til staðar í íslensku sumargotsíldinni frá árinu 1991 og nýverið birti Hafró upplýsingar um að þessi sýking í stofninum sé aftur á uppleið. Eitt einkenni þessarar sýkingar er blæðing í holdi og líffærum fiska sem leiðir oft til dauða. Spendýrum stafar ekki hætta af þessu smiti en fæstum  þykir sýktur fiskur kræsilegur til átu eins og gefur að skilja enda getur nokkuð óþægileg lykt fylgt þessari sýkingu. Þekkt smitleið þessa sníkils er þegar fiskur étur sýktan vef. Í gegnum tíðina hefur þessi sníkill valdið töluverðum skaða í lax- og silungseldi víða um heim ásamt því að leggjast á stofna villtra laxfiska. Þótt þessi sýking nái sér ekki á strik í ferskvatni, benda rannsóknir til að sýking geti eftir sem áður átt sér stað í ferskvatni.

Sýking í síld - © Mast
Sýking í síld – © Mast

Nú kann einhver að benda á að hér hafi ég ekki dregið fram neinar vísindalegar sannanir fyrir bráðri smithættu af síld og makríl, en sé litið til heimilda má leiða líkum að smitleiðum sem ber að varast. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að leyfa villtum ferskvatnsstofnum okkar að njóta vafans, í þessu eins og öllu öðru sem getur stefnt framtíð þeim og heilbrigði í hættu. Það er undir veiðifélögunum komið að setja hömlur á notkun lífrænnar beitu og það verður víst seint einhugur um slíkar ákvarðanir, en séu þær settar ber veiðimönnum að fylgja þeim hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Þess ber að geta að þetta efni átti upphaflega að vera innlegg mitt í spjallþráð á Facebook, en þegar sá þráður fór að einkennast af upphrópunum og ósvífnum orðahnippingum á báða bóga, lét ég ógert að taka þátt í þeirri umræðu og ákvað að birta þetta hér á síðunni í staðinn.
Hafi einhver athugasemdir eða ábendingar fram að færa um þessa samantekt mína, þá er viðkomandi velkomið að senda mér slíkt, en orðahnippingar og upphrópanir mun ég ekki birta.

Heimildir, umfram þær sem finna má í tengdum greinum:
Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins – Hringormar
Hafrannsóknarstofnun – Ichthyophonus hoferi sníkjudýr í fiskum
Mast – Ichthyophonus í síld
Wildlife Disease Association – Effects of Ichthyophonus…
University of Goteborg – Hassan Rahimian

Er mamma þín hér?

Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

Angur

Ég deili greinum og myndum af þessum vef á ýmsum samfélagsmiðlum. Einn þessara miðla er Instagram þar sem ég hef verið að setja inn myndir úr veiðiferðum og einstaka fiski sem slæðist á land undir merkinu @fosvefur  Þær eru yfirleitt ekki margar myndirnar sem ég birti af mínum aflabrögðum, en um daginn deildi ég einni sem tekin var í lok fyrsta veiðidags í Veiðivötnum hjá okkur hjónum í fyrra. Myndin er nokkuð hressileg, tekin við Litlasjó þar sem ég hafði raðað afla dagsins á vatnsbakkann.

Umrædd mynd á Instagram

Með myndinni var stuttorð lýsing, ekki ósvipuð þeirri hér að ofan. Ekki leið á löngu áður en hún hafði fengið 32♥ sem jafngilda Like á Facebook. En svo komu ein ummæli sem hafa verið að angra mig aðeins; 23 dead fish. Hideous ….  sem útleggst á íslensku; 23 dauðir fiskar. Hræðilegt ….  Ég sagði að þetta hefði angrað mig, ekki það að einhver hafi skrifað þessi ummæli, heldur sú áleitna spurning hvort mynd sem þessi stuði veiðimenn sem gæta hófsemi í veiði og láta sér nægja einn til tvo fiska í soðið eða sleppi jafnvel öllum fiskum, sama hvar þeir eru veiddir og hverrar tegundar þeir eru.

Ég geri á engan hátt ráð fyrir því að þessi erlendi aðili og ummælahöfundur þekki til Veiðivatna og Litlasjós og geri sér því grein fyrir að vatnið er með stærstu sleppitjörnum norðan Alpafjalla. Því er nú einu sinni þannig farið að urriði á almennt fárra kosta völ til hrygningar í Veiðivötnum og stofninum hefur verið viðhaldið með seiðasleppingum. En burtséð frá því, þá gæti þessi mynd auðveldleg talist sönnun á frystikistuveiði eins og einhverjir kalla það að veiða sér til matar og þá ekki aðeins eina máltíð í einu. En, ég skammast mín ekkert fyrir að veiða mér til matar. Fiskur er frábær fæða, svo maður tali nú ekki um þegar hann kemur úr hreinni náttúru norðurhjara veraldar.

Á sama tíma og neysla fiskpróteins hefur rokið upp á heimsvísu er talað um að ríflega 30% þess komi nú úr eldisfiski. Þetta eru ógnvekjandi tölur því til að framleiða 1 kg. af eldisfiski þarf að gefa honum fóður sem unnið er úr 1,46 kg. af viltum fiski (lýsi og fiskimjöl) og 1,3 kg. af jurtaafurðum (soja, repja, maís og hveiti). Þetta er því í raun fáránleg sóun og því þykir mér óþægilegra að sjá metralangar raðir af eldislaxi og silungi í stórmörkuðum eins og á myndinni hér að neðan, heldur en af hressilegum afla stangveiðimanna. Þessi mynd er tekin í stórmarkaði rétt við höfnina í Bergen í Noregi. Hér er ekki einn einasti villtur fiskur á myndinni, þetta er allt eldisfiskur úr innfjörðum Noregs og þetta fiskborð er rómað fyrir stærð sína, úrval og umfang.

Frá Bergen í Noregi
Frá Bergen í Noregi

Ég velti því fyrir mér hvaða ummæli vinur minn á Instagram léti falla ef ég mundi birta þessa mynd þar. Þegar ég lék mér að þessu í huganum, sá ég hann fyrir mér með gómsætt sushi úr eldislaxi í glansandi plastboxinu sínu á leið heim til sín að dissa stangveiðimenn á Instagram. Verði honum að góðu, vonandi veit hann að plastboxið endar í holdi sjávardýranna sem síðan verða notuð sem fóður í eldislaxinn sem hann svo étur í sushi eftir einhver ár. Á meðan ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum eða gröfnum urriða úr Veiðivötnum.

 

Silungur vs. silungur

Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.

Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.

Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.

Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.

Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.

Urriði í straumi
Urriði í straumi

Ályktun gegn sjókvíaeldi

Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.  Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.  Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.  Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.

Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.

Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu

Skrá, já takk

Síðastliðinn vetur var ég að grúska í fjölda greina um silung og silungsveiði á Íslandi. Það er alltaf töluverður pakki af skýrslum sem lagðar eru fram á vef Veiðimálastofnunar og svo koma sjálfstætt starfandi líf- og fiskifræðingar annað slagið með áhugaverðar greinar.

Ég las til dæmis nokkrar greinar þar sem rannsóknir á silungs- og laxveiði voru bornar saman eða í það minnsta tæpt á því sem skilur þessar rannsóknir að. Það kom svo sem ekkert á óvart að rannsóknir á silungastofnum hér á landi hafa ekki verið eins viðamiklar og rannsóknir á laxi og laxagengd, en samhljómur skýrslnanna um vöntun á skráningu silungsveiði kom mér svolítið á óvart.

Veiðiskýrsla
Veiðiskýrsla

Mikið væri nú óskandi að veiðimenn tækju sig saman nú í sumar og settu sér það markmið að skrá afla eins og hann kemur upp úr vötnunum okkar þannig að hægt væri að skila skýrslum til Veiðimálastofnunar eins og mælst er til um. Þá hefðu svona nördar eins og ég eitthvað til að lesa næsta vetur.

Bandormar í fiski

Bandormur fjárlaga er nokkuð þekkt fyrirbæri þar sem ein breyting í fjárlögum hefur keðjuverkandi áhrif á önnur lög sem þarf því að breyta. Margir hafa horn í síðu þessa bandorms, treysta ekki alveg öllu sem laumast þarna inn og getur haft áhrif á allt annað en það sem upphafleg fjárlög innihéldu. Það sama má segja um bandorm í náttúrunni. Hann er ótukt sem smitað getur hressilega út frá sér.

Nokkuð reglulega senda veiðimenn frá sér myndir af innyflum fiska og spyrjast fyrir um hvað sé eiginlega á ferðinni, fullt af hvítum kúlum og allt gróið saman. Flesta þessara samgróninga má rekja til bandorma. Þeir teljast til flatorma, Plathelminthes og hreiðra um sig í iðrum manna og dýra. Fjöldi bandormstegunda finnast í fiski á og við Ísland. Bandormar sækja alla sína næringu til hýsilsins og festa sig gjarnan í líffæri hýsilsins með krókum sem eru staðsettir á höfði ormsins.

Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson
Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson

Bandormur í fiski er útbreiddur á Íslandi. Hér á landi finnast nokkrar tegundir bandorma en segja má að tvær þeirra séu kunnastar; Eubothrium (skúformur) og Diphyllobothrium (fiskiandarmaðkur / laxamaðkur).

Skúformur finnst nánast í öllum laxfiski á Ísland svo einfalt er það. Ormurinn notar laxfiska sem lokahýsil á lífsleiðinni og hefst helst við í meltingarvegi þeirra, gjarnan í skúflöngum og þaðan fær hann viðurnefni sitt. Egg ormsins berasta út í vatnið með saur fisksins þar sem þau eru étin af örsmáum krabbadýrum þar sem ormurinn þroskast. Hringrásin lokast svo við að sviflægur fiskur étur þessi krabbadýr eða verður sjálfur stærri fiski að bráð. Hér á landi finnast tvær tegundir skúforma, önnur herjar helst á bleikju en hin á urriða og lax. Sú síðar nefnda getur orðið allt að 1 metra að lengd, en sú fyrri aðeins þriðjungur þeirrar lengdar. Fiskur drepst sjaldnast þótt sýktur sé, en sé sýkingin veruleg dregur óhjákvæmilega úr vexti fisksins þar sem töluverð næring fer til ormsins og mótstöðuafl fiskins gegn sjúkdómum þverr. Skúformur og fiskiandarmaðkur eiga það sameiginlegt að þeir ganga sjaldnast það nærri lokahýsil að hann drepist, því það er þeim í hag að lokahýsill geti fóstrað eins marga kynþroska orma og hægt er.

Lífsferill fiskiandarmaðks er örlítið flóknari heldur en skúformsins. Þessir ormur nýtir fisk sem millihýsil því lokahýsill er fiskiæta, fuglar og spendýr. Egg berast frá lokahýsil í vatn með saur þar sem smágerð krabbadýr éta þau, rétt eins og í lífsferli skúforms. Í tilfelli fiskiandarmaðksins eru krabbadýrin aftur á móti étin af millihýsil, fiski þar sem lirfurnar brjóta sér leið út úr meltingarveginum og dreifa sér um kviðarhol hans. Lirfurnar hjúpa sig hvítleitum þolhjúp, yfirleitt kúlulaga og bíða þess að fiskurinn verði étinn af lokahýsil þar sem ormurinn nær kynþroska og fjölga sér. Verði sýking í fiski veruleg, getur ormurinn breiðst út í hold hans, þunnildi og flök, ásamt því að innyfli gróa saman og fiskurinn verður ófrjór. Ekki er óalgengt að fiskurinn verði horaður, kviðmikill og slappur sem gerir hann að auðfenginni bráð, hvort heldur annarra fiska eða lokahýsils.

Fiskifræðingar hafa orðið varir við beint samhengi smits og fjölda fugla á og við vötn og því er um að gera fyrir veiðimenn að ganga tryggilega frá slógi og rjúfa þannig hringrás ormsins í náttúrunni.

Hvorug þessara tegunda bandorms eru hættulegar mönnum, en það er vel skiljanlegt að menn veigri sér við að éta mikið sýktan fisk. Um matseld fisks gilda hér sömu reglur og við hringormi, frystið og/eða hitið fisk upp fyrir 70°C, það drepur orminn.

Heimildir

EldisbóndinnEldi bleikju, Hólaskóli

Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

Hringormar í fiski

Umræða og fyrirspurnir um sníkjudýr í silungi kemur reglulega fram á sjónarsviðið, einkum þegar veiðimenn verða varir við svæsnar sýkingar í fiski. Ég játa það fúslega þekking mín á sníkjudýrum í fiski hefur hingað til verið heldur yfirborðskennd og mörkuð af reynslu minni úr fiskvinnslu sem unglingur og því hef ég freistast til setja alla þessa óværu undir sama hatt. En svo er nú ekki.

Áður en lengra er haldið, skal það tekið fram að við efnisöflun fyrir þessa samantekt las ég ógrynni fyrirspurna og svara á ýmsum spjallvefjum um þetta efni. Ekkert af því sem ég set hér fram er ættað af umræðuvefjum, þess í stað hef ég leyft fréttum sem hafa komið fram á síðustu árum að leiða mig áfram að greinum og rannsóknum lærðra manna. Heimilda er getið í niðurlagi.

Hringormar er safnheiti yfir sníkjuþráðorma (Nematoda) sem fullorðnir lifa í maga villtra spendýra við Ísland. Þeir sem mest áberandi hafa verið í umræðunni eru; Anisakis simplex (hvalormur, síldarormur) og Pseudoterranova decipiens (selormur, þorskormur). Minna hefur farið fyrir t.d. Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae sem hvorugur hefur fengið íslensk viðurnefni að því er ég best veit. Lífsferill hringorma skiptist í fimm stig. Fullorðinn lifir ormurinn í maga sjávarspendýra (lokahýsill) og þaðan berast egg hans út í sjó með saur hýsilsins þar sem krabbadýr (millihýsill) éta þau. Í millihýsil taka lirfurnar hamskiptum, þroskast og stækka þar til þriðja stigi er náð. Þá eru þær orðnar smithæfar og éti fiskur (burðarhýsill) þetta krabbadýr, tekur ormurinn sér bólfestu í fiskinum, upprúllaður og hættir að þroskast. Á þessum tímapunkti er t.d. hvalormurinn orðinn 2 – 4 sm. langur og kominn með gadda á fram- og afturenda sem auðvelda honum að rjúfa sér braut um vefi fisksins. Éti lokahýsill þennan smitaða fisk tekur það orminn aðeins örfáa daga að þroskast yfir á fjórða stig og ná kynþroska sem er fimmta og síðasta stig lífsferilsins. Fullþroska ormar lifa í 3 – 7 vikur í lokahýsil og geta af sér allt að 7500 egg á dag.

Hvalormur í lifur þorsks - Anisakis simplex © Hans Hillewaert
Hvalormur í lifur þorsks – Anisakis simplex © Hans Hillewaert

Þekktir hýslar hringorma eru m.a. ránfiskar (þorskur, langa, steinbítur, keila) sjófuglar, selir, hvalir og sjógengnir laxfiskar (sjóbirtingur, sjóreiður og lax). Hvalormur finnst nánast eingöngu í innyflum ferskra fiska. Ef fiskurinn er aftur á móti geymdur óslægður í einhvern tíma, taka innyflin að meltast / skemmast þannig að ormurinn á greiða leið út í vöðva og önnur líffæri. Því ætti að slægja allan fisk sem fyrst til að koma í veg fyrir smit.

En það er ekki algilt að hringormur haldi sig eingöngu í innyflum. Lirfa selorms í fiski er stór, gulbrún á lit og finnst oftast í vöðvum, sérstaklega þeim sem umlykja kviðarholið. Hún er uppsnúin inn í bandvefshylki í flökum sem fiskarnir mynda sjálfir. Þannig reyna þeir að einangra orminn.

Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté
Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté

Neysla sýkts fiskjar þarf alls ekki að vera hættuleg sé gætt að geymsluháttum og matreiðslu. Nægjanlegt er að frysta fisk við -20°C í vikutíma til að drepa hringorm og sé fiskur matreiddur ferskur skal gæta þess að hann nái 70°C í eina mínútu, það skilar sama árangri. Hér ber heimildum ekki alveg saman þannig að ég hef valið að nefna lengstan tíma í frosti og hæsta hita við eldun sem getið er. Þurrkaður fiskur er meinlaus, þ.e. sé hann fullþurrkaður því hringormur þolir ekki að þorna. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort reyking sé næg forvörn, þannig að væntanlega er best að frysta fisk áður en hann er reyktur. Eins og kunnugt er losnar verulega um hold í fiski þegar hann er frystur og mörgum þykir því þýddur fiskur ekki eins heppilegur og ferskur þegar kemur að því að grafa. Því ætti að velja heilbrigðan ferskan fisk, lausan við smit og óværu ef hann er ætlaður í graf. Sjálfur hef ég fryst grafin urriða og tekið úr frysti eftir hentugleikum og alltaf þótt hann jafn góður, örlítið lausari í sér en ekkert sem orð er á gerandi.

Þrátt fyrir þessi einföldu ráð eru dæmi þess að hringormur hafi náð að þroskast á fjórða stig í mönnum hér á landi og hefur tilfellum eitthvað farið fjölgandi með breyttum matarvenjum og neyslu hrás fisks hin síðari ár. Komist selormur lifandi niður í meltingarfæri manna getur hann borað sár í maga með tilheyrandi kvölum, ógleði og uppköstum fórnarlambsins, en yfirleitt gerir hann sér fljótlega grein fyrir að hann hefur ratað í óheppilegan hýsil og leitar því útgöngu sem fyrst. Sú útþrá á sér yfirleitt stað í gegnum vélinda og munn og getur því verið miður geðsleg fyrir þann sem fyrir því verður. Leiti ormurinn ekki upp, heldur niður meltingarveginn getur svo farið að lirfa ormsins bori gat á þarmana og komist þannig inn í kviðarholið eða líffæri svo sem lifur, gallblöðru eða eitla. Slíks smits verður yfirleitt vart á innan við 12 klst. Dauður selormur veldur aldrei skaða í manneskju.

Hvalormurinn er almennt talinn hættulegri mönnum heldur en selormurinn. Hvalormurinn er gjarnari á að bori sig út úr maga og görnum fórnarlambsins og fara á flakk um kviðarholið með tilheyrandi sársauka, blæðingum og líffæraskaða. Eins er fólki hættara við ofnæmisviðbrögðum vegna hvalorms, hvort heldur hann sé lifandi eða dauður. Það er því rík ástæða til að gæta vel að fiski sem er mögulega sýktur af hvalormi. Hvalormur er orsök gotraufarblæðingar í villtum laxi sem einmitt hefur orðið vart hér á Íslandi á undanförnum árum. Þær sýkingar geta verið mjög svæsnar, allt að 150 ormar við gotrauf fisks auk þess að nánast allt kviðarholið getur sýkst, auk þunnilda og vefja. Það er því langur vegur frá að hringormur finnist ekki í laxi hér á landi.

Heimildir

Hringormar berast í fólk á Íslandi við neyslu á lítið elduðum fiski, Karl Skírnisson, Læknablaðið 1.tbl. 92.árg. 2006

Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

Hringormar, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1997, Erlingur Hauksson

Gotraufarblæðing í íslenskum laxi Sigurður Helgason og Árni Kristmundsson Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Keldum

Líkamsrækt

Hún getur verið af mörgum gerðum, líkamsræktin sem menn stunda. Sumir hjóla án þess að ferðast neitt, aðrir ferðast með því að hjóla og það sama gildir um hlaup á bretti eða úti við. Svo eru þeir sem stunda jóga og næra þannig hug og hjarta á meðan aðrir þenja lungu og limi í crossfit. Gönguhópar hafa skotið upp kollinum hingað og þangað, eiginlega víðast hvar, þannig að maður er löngu hættur að kippa sér upp við að rekast á þungklossaða göngugarpa hingað og þangað uppi á fjöllum eða firnindum.

Vatnaveiði leynir líka á sér hvað varðar líkamsrækt. Ef maður ætlar að eyða góðum hluta dags við veiði þarf oft nokkurn útbúnað; kaffi, nesti, auka flíkur, veiðihjól, stangir og þar fram eftir götunum. Allt vigtar þetta eitthvað í bakpokann þegar lagt er af stað í göngu að eða meðfram vatni. Ef veiðigyðjan er síðan með í för þarf að bera aflann til baka og þegar best lætur vigtar hann nokkur kíló eða tugi. Svo má ekki gleyma því að vöðlur, jakki og skór sem tilheyra yfirleitt eru ekkert endilega af léttari gerðinni.

Hérna um árið, ég vil helst ekki segja hve langt síðan, fór ég reglulega til kroppatemjara á líkamsræktarstöð. Þar var ég látinn arka fram og til baka með lóð í báðum lúkum, taka spretti með stuttum hléum, hoppa út og suður og lyfta lóðum. Mér dettur ekki annað í hug en viðurkenna að ég fann töluverðan mun á mér eftir nokkrar vikur. Ég átti til dæmis miklu auðveldara með að beita háfinum og lyfta fallegri bleikju upp úr vatninu og göngutúrar í fullum skrúða inn með Frostastaðavatni eða Hítarvatni urðu nánast barnaleikur. Mér hefur samt alltaf fundist skemmtilegra að stunda líkamsrækt utandyra. Þar er ferskt loft í ómældu magni, ekki niðursoðið loft úr kerfi og þar er óendanlega vítt til allra átta.

Gönguleiðin kortlögð
Gönguleiðin kortlögð

Talandi um vegalengdir hingað og þangað. Hefur einhver hugmynd um hvað það er langt frá stíflu inn að Vatnsendaklifi við Hítarvatn? 4,5 km. og sama vegalengd til baka. Leiðin við austanvert vatnið að Foxufelli er 2,5 km. og er hreinasta pallaleikfimi í hrauninu. Frá bílastæðinu austanvert við Frostastaðavatn og inn fyrir hraunið eru 1,5 km. sé farin stysta leið, sem gerist nú sjaldnast. Þetta er jafn löng leið og frá bílastæðinu við Hraunslæk, inn að víkinni og út á Búðarnes við Hraunsfjörð. Þessa spotta gengur maður með gleði í hjarta, nýtur umhverfisins og eftir atvikum, jafn kátur til baka.

Meira um Hvammsvirkjun

Skv. frétt á vef Skipulagsstofnunar þann 18.nóv. hefur stofnunin ákveðið að víkja frá upphaflegum fresti til að vinna ákvörðun um endurskoðun umhverfismats Hvammsvirkjunar, sjá hér. Eins og fram kemur hefur stofnunin tekið sér frest til 11.des. til að ljúka verkinu.

Það má ráða af fréttinni að starfsmönnum Skipulagsstofnunar þykir málið viðamikið, sem von er, og því þörf á lengri tíma til að komast að niðurstöðu um það hvort framkvæma þurfi nýtt umhverfismat.

Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Þess má geta að FOS er kunnugt um að enn bætist við gögn sem Skipulagsstofnun er hvött til að kynna sér áður en kemur að endanlegri ákvörðun. Meðal þess sem lagt hefur verið til málanna er einstaklega góð og áhugaverð grein Árna Árnasonar, Hvammsvirkjun – Nauðsyn mats á umhverfisáhrifum. Greinina má nálgast á vef Árvíkur hérna, en nokkra úrdrætti má sjá hér að neðan. Eins og aðrar greinar Árna um þetta mál, er hún vel rökum studd og vert að gefa henni góðan gaum. Í henni rekur Árni þær breytingar sem orðið hafa á lífríki árinnar frá því nýgildandi umhverfismat var framkvæmt ásamt því að vekja verðskuldaða athygli á skorti rannsókna á s.k. mótvægisaðgerðum sem LV boðar samfara þessari virkjun.

Hugsanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, eins og Hvammsvirkjun, hafa þá sérstöðu í samanburði við eldri virkjanir ofar í ánni að göngufiskur á sér nú heimkynni í verulegum mæli ofan þeirra. Hvammvirkjun mun þannig hafa tvenns konar óheillavænleg áhrif á göngufisk. Virkjunin mun bæði spilla mikilvægum uppeldisstöðvum ofan og neðan virkjunar en auk þess þarf fiskur að komast fram hjá virkjuninni bæði á leið sinni upp og niður ána.

Virkni seiðafleyta er óviss og hefur ekki fengið neina gagnrýna umfjöllun í tengslum við Hvammsvirkjun. Það sem hentar Sockeye-laxi þarf ekki að henta Atlantshafslaxinum.

Niðurstöður rannsókna sýna að 89% seiða fara um seiðafleytuna við Wells-stífluna og 96% lifa það af. Árangurinn við Cowlitz-fossana er ekki jafngóður þótt hönnunin sé sú sama. Þar fara einungis 48% stálhausa (steelhead) um fleytuna en stálhaus er regnbogasilungur sem gengur í ár og vötn vestanhafs.

Ég hvet lesendur til að lesa þessa grein í fullri lengd, hún er full af fróðleik og varpar áhugaverðu og gagnrýnu ljósi á gildandi umhverfismat og er starfsmönnum Skipulagsstofnunar eflaust kærkomið innlegg í þá vinnu sem framundan er til 11.des.

Ómælanleg streitulosun

Annað slagið reynir maður sig í veiði þar sem klukkan er á manni; veiði hefst á ákveðnum tíma, jafnvel gerð krafa um hlé á ákveðnu tímabili og svo verður maður að vera hættur ekki seinna en eitthvað ákveðið. Eftir að hafa leikið nokkuð lausum hala í veiði um árabil, veitt þegar mér sýnist og eins lengi og nennan er til, þá getur það beinlínis tekið á taugina hjá mér að fylgja klukkunni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að taka sífellt upp klukkuna, sem í mínu tilfelli er farsíminn, og þá er stór partur af ánægjunni farinn. Ég beinlínis finn að rósemdin sem veiðin færir mér að öllu jöfnu er rokinn út í buskann og ég er allur svolítið á nálum. Á þeim veiðistöðum þar sem tiltölulega margt er um manninn eða vatn er nærri byggð, þar get ég alveg skilið að ákveðin tímamörk eru sett í veiði og ég fer fúslega eftir þeim, þannig að það sé á hreinu. En þar sem maður er jafnvel einn með sjálfum sér, órafjarri öllu nema náttúrunni sjálfri, þar vil ég getað farið á fætur í rólegheitunum, sötrað morgunkaffið mitt í friði og veitt síðan inn í nóttina eins og mér sýnist.

fos_hraunsfjordur
Ekkert stress

Ég las fyrir nokkru ágæta umfjöllun í The Huffington Post um áhrif stangveiði á andlega vellíðan. Þetta var hin ágætasta grein, en hún gerði svo sem ekkert annað en setja í orð það sem ég upplifi á sjálfum mér í veiðinni. Í nútíma þjóðfélagi þar sem ríflega 80% landsmanna telja sig finna fyrir streitu eða afleiðingum hennar, þá er útivera í óspilltri náttúru, einn með sjálfum sér eða sínum nánustu, trúlega áhrifaríkasta leiðin til streitulosunar sem býðst í dag.

Það verður seint hægt að setja raunhæfan verðmiða á þann auð sem við eigum í óspilltri náttúrunni þótt einhverjir telji sig geta sett verðmiða á náttúruna þegar búið er að gelda árnar, stífla vötnin og umbreyta þeim í uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu. Mesti auður náttúrunnar verður einfaldlega aldrei virkjaður með vélum og tækjum, hann er aðeins virkjanlegur með mannsandanum.

Óvættir í Þjórsárdal

Á árum áður stóð Landmönnum og Gnúpverjum mikill stuggur af systrum tveim í Búrfelli og Bjólfelli. Litlum sögum hefur farið af þeirri yngri eftir að sú úr Búrfelli sprakk á hlaupunum við Tröllkonugil hér um árið. Síðan þetta var hefur verið nokkuð rólegt yfir Þjórsárdal, ef undan eru skilin nokkur meinleysisleg gos í Heklu og skvettur úr Þjórsárhlaupum á árum áður. En það vill stundum gerast að óvættir taki sig upp þar sem hagsæld er mikil og nú eru það þrír óvættir sem herja á dalinn neðan Búrfells; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Það er með eindæmum hve lífseigir þessir óvættir geta verið. Þeir risu upp skömmu eftir 1900 og voru þá kveðnir niður af almannarómi en hafa nú rumskað á ný undir nýjum nöfnum. Umbúðirnar eru endurnýjaðar í hvert skipti sem þessar tillögur eru lagðar fram til nýtingar, en innihaldið er alltaf það sama. Fátt fer eins í pirrurnar á mér eins og að þurfa að svara sömu spurningunni trekk í trekk, eingöngu vegna þess að spyrjandinn væntir annars svars í hvert skipti sem hann spyr. Mitt svar er; nei, takk.

Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is
Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is

Á liðnum vikum hef ég birt hér þrjár greinar, eina fyrir hverja virkjunartillögu sem lögð hefur verið fram til Rammaáætlunar. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ég er ekki sérlega ginkeyptur fyrir þessum hugmyndum, mér þykir einfaldlega nóg komið. Náttúru Íslands ætti ekki að setja á útsölu fyrir erlenda iðjuhölda sem sækjast eftir ódýrri raforku og ónýttum mengunarkvótum.

Þessum þremur virkjunum hefur verið teflt fram sem sjálfstæðum einingum, en með miklum samlegðaráhrifum og þannig er ríflega gefið í skyn að ef af einni verður, þá þarf að verða af þeim öllum. Samt sem áður hefur skort á heildstætt mat á umhverfisáhrifum þessara þriggja virkjana. Til hafa verið týnd ýmis rök með og á móti hverri virkjun fyrir sig, en stóru myndina vantar. Sem dæmi um brenglaða tölfræði má nefna að lífslíkur laxaseiða sem fara í gegnum hverfla einnar virkjunar eru sögð 80 – 95%. Stóra myndin er eftir sem áður sú að flest þessara seiða þyrftu að fara í gegnum hverfla þriggja virkjana á leið sinni til sjávar og þá eru lífslíkur þeirra á bilinu 51 – 80%. Skiptir þá litlu hve stórir hverflar eru settir í virkjanirnar. Ef við tökum svo þrýstinginn í aðrennslispípum virkjananna með í reikninginn þá er næsta víst að einungis helmingur þeirra lifið ferðalagið af og nái til sjávar. En þetta er bara hálf sagan, þessi seiði eiga síðan eftir að skila sér til baka úr sjógöngu. Til þess að ná til einu ósnertu búsvæða árinnar þurfa þau að ganga upp fyrir þrjár stíflur og í gegnum jafn mörg uppistöðulón. Ég gæti ekki annað en fyllst stolti yfir íslenskum laxfiskum ef þeim tekst þetta án annarra 50% affalla. Annað eins afrek hefur aldrei verið skráð í heiminum.

Nú kann einhver að spyrja hvar öll mín rök séu fyrir þessum fullyrðingum og það er ekki nema eðlilegt. Mikið efni um þessar fyrirhuguðu virkjanir má finna á vef Landsvirkjunar hér og hér, á vef Orkustofnunar, hjá Verkefnastjórn um Rammaáætlun og samtökunum Verndum Þjórsá. Einstaklega áhugaverður fyrirlestur dr. Margaret J. Filardo í HÍ hefur einnig verið mér hugleikinn. Upptöku af fyrirlestrinum má nálgast á vef HÍ með því að smella hér. Auk þessa hafa einstaklingar borið á borð fyrir okkur margar góðar greinar og samantektir á liðnum árum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun eftir Árna Árnasonar frá því í apríl 2015 sem nálgast má hér. Góð grein og vel rökum studd.

En ein eru þau rök sem ég hlusta mest á og met mikils. Það eru orð þeirra sem þekkja Þjórsá og nágrenni hennar betur en flestir aðrir, þeir sem þar búa. Málsvarar 28 bæja beggja vegna Þjórsár hafa lýst miklum efasemdum með áform um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Þetta eru raddir sem mark er á takandi, fólk sem þekkir Þjórsá og lífríkið í nágrenni hennar af eigin raun. Þetta eru raddirnar sem stjórnvöld eiga að hlusta á, ekki þeirra sem einungis sjá verðmæti Þjórsár í kílóvattstundum, krónum og aurum. Ég leyfi mér að hvetja lesendur til að gefa grein í Bændablaðinu frá því í mars 2015 góðan gaum. Greinina má nálgast hér.

Íslensk náttúra hefur ótrúlegt aðdráttarafl, óspillt. Hér er að finna einhver stærstu ósnertu víðlendur í Evrópu, fjöll, ár og vötn sem draga að sér athygli og áhuga heimsbúa umfram allt annað sem Ísland hefur að bjóða. Íslendingum ber að varðveita þessa auðlind, við skuldum komandi kynslóðum ýmislegt og það er óþarfi að bæta óorðnum náttúruspjöllum á þann reikning. Um þessar mundir nýtur Ísland áhuga heimsbyggðarinnar eftir brókarbað hins Kanadíska Biebers. Af þeim ríflega 23.000.000 sem hafa horft á umrædda klippu hafa ótrúlega margir einblínt á og spurst fyrir um þetta ótrúlega land, náttúruna og umhverfið. Forsvarsmenn ferðamála hafa keppst við að lofa þessa ókeypis auglýsing og bent á að þetta sé 23 sinnum meira áhorf heldur en náðst hefur að Inspired by Iceland. Hversu margir ætli hafi ráðgert ferðalag til Íslands eftir að hafa rekist á kynningarmyndbönd Landsvirkjunar á síðustu árum?

Skömmin bítur fórnarlambið

Á fyrri hluta 20. aldar voru uppi áform um virkjun Urriðafoss. Fossfélag Einars Benediktssonar hafði þá uppi stórkallaleg áform um virkjanir í Þjórsá og járnbraut frá Reykjavík þangað austur.

Urriðafossvirkjun - Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918
Urriðafossvirkjun – Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918

Vegna almennrar andstöðu varð ekkert úr þessum áformum Fossfélagsins og um langan aldur höfum við fengið að njóta neðrihluta Þjórsár óspilltrar að mestu. En almenningur var ekki lengi í paradís og enn og aftur eru uppi hugmyndir um virkjun við Urriðafoss. Þau áform sem nú eru uppi eru ekki síður stórkallaleg og eru lýsandi dæmi um þá endalausu kröfu sem virðist vera sett á okkur að þurfa að berjast fyrir því að halda náttúrunni, því verðmætasta sem við eigum, óspjallaðri af arðsemisárásum og orkuþörf erlendra iðnrekenda.

Urriðafoss og umhverfi hans er einstaklega vel staðsett við Hringveginn okkar, rétt neðan brúarinnar yfir Þjórsá. Þar mætti byggja veglega aðstöðu fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, því þarna er margt áhugavert að sjá. Þarna fellur þessi vatnsmesti foss landsins fram af tæplega 250 metra breiðum misgengisstalli í ánni þar sem hún sker stærsta samfellda hraun sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma, Þjórsárhraun. Óvíða er hægt að berja þetta hraun jafn glöggt augum eins og rétt ofan við Urriðafoss þar sem það gægist undan yngri jarðlögum. Aðdráttarafl fossins og umhverfisins er óumdeilt hjá þeim sem þangað hafa komið.

Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

Um langan aldur hefur lax og sjóbirtingur gengið upp Urriðafoss, nýtt sér vatnsmagn hans til þess að komast ofar í Þjórsá eins langt og fiskgengt hefur verið hverju sinni. Mestar líkur eru á að fiskur hafi haft þennan hátt á frá upphafi vega og í það minnsta fram til 1896 þegar farvegur árinnar breyttist við jarðhræringar. Sá tálmi var endanlega yfirstiginn árið 1991 og nú nær göngufiskur aftur til efri svæða árinnar, þó sagnir hermi að hann hafi eftir sem áður gert hjálparlaust fram til 1991. Verði Þjórsá leidd í jarðgöngum frá fyrirhugaðri virkjun og niður fyrir Urriðafoss er eins víst að algjört hrun verði í þessum stærsta sjálfbæra laxastofni á Íslandi nema til stórkostlegra mótvægisaðgerða komi. Enn sem komið er hafa þessar aðgerðir ekki verið rannsakaðar né kortlagðar sem skildi. Mjög skiptar skoðanir eru á hugmyndum Landsvirkjunar um seiðafleytu við stífluna og allsendis óvíst að niðurgöngufiskur lifi ferðalag og fallhæð í slíku mannvirki af. Og þá á fiskurinn enn eftir að komast upp þann fiskveg sem byggja þyrfti. Enn og aftur er óvilhallra rannsókna þörf.

Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is
Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Eftir því sem ég kemst næst yrði uppistöðulón Urriðafossvirkjunar rétt ríflega 12 ferkílómetrar að stærð. Þetta er næstum því jafn stórt og Skorradalsvatn eða Apavatn svo stærðin sé sett í samhengi við vötn sem lesendur þekkja. Þetta uppistöðulón mun færa á kaf gróið land og mýrar auk þess sem uppgreftri úr árfarveginum, efni sem til fellur við gangagerð ásamt seti úr lóninu yrði komið fyrir í grennd við lónstæðið, umhverfinu til lýtis og með töluverðri hættu á foki.

Urriðafossvirkjun hefur stundum verið nefnd punkturinn yfir i-ið í virkjunum Þjórsár. Mér er skapi nær að kalla hana skömmina sem bítur fórnarlambið.

Fiskur á þurru landi

Nú er vika liðin frá fyrstu grein minni um virkjanir í Neðri-Þjórsá og mér hefur því gefist tími til að lesa mér til um virkjun númer tvö; Holtavirkjun. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin, þá hefur tilfinning mín fyrir þessum virkjunum ekki batnað við þann lestur, hvað þá tilkynningu Landsvirkjunar um ráðstöfun orkunnar úr Hvammsvirkjun sem kom fram aðeins tveimur tveimur dögum eftir að fyrsta grein mín birtist. Hvammsvirkun er sem sagt ætluð til kísilmálmvinnslu Thorsil í Helguvík. Ég læt liggja á milli hluta álit mitt á ráðstöfun orkunnar úr Þjórsá, þar greinir mig verulega á við forsvarsmenn Landsvirkjunar.

Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir fossum á Íslandi og það eitt að tilkoma Holtavirkjunar yrði til þess að þurrka tvo þeirra upp, Hestafoss og Búða, er eiginlega nóg til að ég er ósáttur við þessi áform. En fleira kemur vitaskuld til.

Búðafoss - Mynd: Landsvirkjun
Búði – Mynd: Landsvirkjun

Hér að ofan má sjá samsetta mynd úr gögnum Landsvirkjunar sem nær til stíflunnar við Búða. Þarna var byggður fiskvegur árið 1991 sem hefur svo sannanlega skotið styrkari fótum undir laxagengd í Þjórsá. Ég get ekki skilið gögn Landsvirkjunar á annan veg en þessi fiskvegur verði óþarfur, því lítið sem ekkert vatn mun renna niður Búða eins og þó er sýnt á myndinni. Gangi áætlanir eftir um Holtavirkjun mun árfarvegurinn standa þurr nema í stærstu flóðum þegar hleypa þarf framhjá stíflunni.

Áform þessarar virkjunar eru að nokkru frábrugðin Hvammsvirkjunar hvað varðar uppistöðulónið. Ekki er gert ráð fyrir jafn mikilli söfnun framburðar í Árneslón eins og í Hagalón og því gætu lífslíkur fiska verið eitthvað skárri, en þar kemur á móti að lónið yrði töluvert stærra og fjórðungur þess mundi sökkva víðfeðmu votlendi þar sem yfir 1000 varpfuglar hafa tekið sér bólfestu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hefði þessi virkjun í för með sér lengstan þurra kafla Þjórsár af öllum virkjunarkostunum þremur, 10 km. frá Búða og niður fyrir Árnessporð. Á þessum 10 km. kafla eru einhver stærstu búsvæði laxins í Þjórsá. Þessi kafli verður heldur rýr ef aðeins Kálfá rennur um hann frá gömlu ármótunum við Miðhúsahólma og það er lítil von til að fiskur fjölgi sér á þurru landi. Landsvirkjun hefur haldið því fram (MBL 23.03.2012) að mótvægisaðgerðir sem ráðist yrði í mundu tryggja fiskistofnum ásættanleg búsvæði í stað þeirra sem mundu eyðileggjast.

Árnessporður - Mynd: Landsvirkjun
Árnessporður – Mynd: Landsvirkjun

Þessi fyrirhugaða virkjun hefur, rétt eins og Hvammsvirkjun, verið spyrt saman við Urriðafossvirkjun með þeim rökum að fyrrnefndu virkjanirnar séu forsenda Urriðafossvirkjunar með tilliti til ísstjórnunar í neðri hluta Þjórsár. Holtavirkjun hefur jafnvel verið tengd umræðu um jákvæð áhrif Urriðafossvirkjunar á framtíð laxastofns Þjórsár. Eitthvað er ég nú hræddur um að sú tenging sé á veikum grunni byggð og kýs því að leiða hana alfarið hjá mér þar til vísindalegar niðurstöður liggi fyrir, þ.e. heildstæðari en þær sem unnt er að nálgast í dag. Fiskirannsóknir á þessu svæði hafa að mestu leyti einskorðast við laxagengd í Kálfá, staðbundnir stofnar hafa orðið útundan í rannsóknum eins og áður er getið, það er engu líkara en skollaeyrum sem skellt við tilvist þeirra stofna.

Holtavirkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Holtavirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Svo fráleit sem áform um Holtavirkjun eru í mínum huga ætla ég að láta hér staðar numið. Það er vart eyðandi fleiri orðum í hugmynd að virkjun sem hefur jafn mikil spjöll í för með sér eins og þessi áform bera með sér. Ég vonast til að þessi virkjun verði fljótlega færð úr biðflokki í ruslið.

Guð, hvað þetta er fallegt

Það er einkennilegt hve lítil augnablik geta greypt sig svo fast í minni að þau mást aldrei út. Ég á mér eitt svona augnablik, lítið andvarp sem ég deili með besta vini mínum. Þetta var fyrir nokkuð mörgum árum, fleiri en ég vil endilega tilgreina, að við hjónin vorum á ferð í Þjórsárdal á leið inn að Stöng með tjald, prímus og nesti. Þetta var á þeim árum sem þjóðvegurinn lá innan og yfir Gaukshöfða, leiðinlegur malarvegur, holóttur og beinaber. Rétt í þann mund sem við komum yfir höfðann heyrði ég hvar frúin greip andann á lofti, leit angurvært yfir dalinn þar sem hann lá baðaður í geislum kvöldsólarinnar fyrir framan okkur og hvíslaði; Guð, hvað þetta er fallegt. Þetta er augnablik sem gleymist aldrei. Ég efast ekki um að fleiri hafi fengið þessa tilfinningu og ég óska þess að enn fleirum gefist kostur á að upplifa hana um ókomin ár. Mögulega er því samt á annan veg farið því ásýnd þessa svæðis gæti tekið miklum stakkaskiptum til hins verra á næstu árum.

Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

Í lok september rann út frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfismat á fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá og nýttu 39 aðilar sér tækifærið. Persónulega hefði ég kosið að fleiri aðilar hefðu nýtt sér þennan frest, en það er e.t.v. ekki fjöldi athugasemda sem skiptir máli heldur það sem þær innihalda. Þó aðeins ein vel ígrunduð athugasemd hefði komið fram, ætti hún að vera nóg til þess að vekja ráðmenn til umhugsunar um gildi þessa svæðis fyrir annað en orkuframleiðslu.

Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun
Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun

Áhugafólk um verndun Þjórsár hefur bent á ýmsa vankanta á fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta árinnar, allt frá sjónmengun til óafturkræfra áhrifa á lífríkið, dýr og plöntur.

Frá því fiskvegurinn við Búða var opnaður árið 1991 hefur lax tekið sér bólfestu á svæðum í ánni sem lokuðust við jarðskjálftann árið 1896 og göngufiskur fært sig sífellt ofar í Þjórsá og þverár hennar. Þessarar fiskgengdar hefur orðið vart í Þverá, Sandá, Fossá og Minnivallalæk, veiðimönnum og náttúruunnendum til óblandinnar ánægju. Bæði lax og sjóbirtingur ganga nú í flestar, ef ekki allar þessara áa ofan Búða. Því hljómar það einkennilega að sjóbirtingurinn kemur lítið sem ekkert fram í niðurstöðum þeirra fáu rannsókna sem farið hafa fram á svæðinu, engar upplýsingar um stofnstærð né gönguhegðun og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum vegna hans. Það dugir ekki að skella skollaeyrum við tilvist birtingsins og láta eins og hann sé ekki til staðar. Endurskoðaðar áætlanir Landsvirkjunar gera ráð fyrir ‘stórum’ hverflum, gerð fiskfarvega og rennslisstýringu, allt eitthvað sem á að auðvelda fiskinum að ferðast… á pappírnum.

En það má ekki gleyma því að í Þjórsá og þverám hennar eru líka stofnar staðbundins urriða og bleikju. Þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið á göngufiski á þessum slóðum ná ekki til staðbundins fiskjar að því er ég best veit og því eru engar mótvægisaðgerðir á döfinni fyrir þann fisk sem á sér fasta búsetu á virkjanasvæðinu.

Fyrir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Fyrir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Mönnum hefur orðið tíðrætt um þá hrygningarstaði sem opnuðust ofan Búða og inn að Viðey árið 1991 og það með réttu. Svæðið er talið henta einstaklega vel til hrygningar og hefur örugglega átt stóran þátt í að auka viðkomu laxa í Þjórsá. En þarna er ekki aðeins að finna lax; urriði og bleikja hafa haldið til á þessum slóðum svo áratugum ef ekki hundruðum skiptir. Stór hluti þessa svæðis mun þorna upp ef af Hvammsvirkjun verður, þ.e. alveg frá virkjun og niður að Ölmóðsey eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Geta má nærri að svæðið ofan virkjunar, svo kallað Hagalón nýtist fiski ekkert til hrygningar vegna framburðar sem þar safnast saman og myndar botnset sem drepur allt líf. Með tilkomu Hagalóns raskast um 68% af búsetusvæði fiska á virkjanasvæðinu og þar við bætist að rennsli á milli annarra fyrirhugaðra lóna verður aðeins brot af núverandi rennsli Þjórsár í farvegum hennar. Nefndar hafa verið tölur um 10 – 15 rúmmetra á sek. í stað 360 – 400 í eðlilegu árferði. Það gefur augaleið að svo lítið vatn dugir seiðum og hrognum ekki til lífs. Heildarárhrif virkjunarinnar á vatnasvæði Þjórsár, neðan Búrfells, nema um 30% Áhugasömum um vernd svæðisins er bent á mikið efni sem finna má á vefnum Verndum Þjórsá.

Þegar ég nefni hér önnur fyrirhuguð lón á svæðinu hugsa ég til þess að Hvammsvirkjun er skv. minnisblaði OS; ..hluti af samfelldri heild virkjanasvæða. Vegna ísmyndunar í ánni þarf að byggja Hvammsvirkjun og Holtavirkjun á undan Urriðafossvirkjun. Hvammsvirkjun er aðeins fyrsta skrefið í keðju virkjana í Neðri-Þjórsá, hún er fyrsta skrefið í óafturkræfri eyðileggingu árinnar neðan Búrfells og trúlega sú sem mest áhrif hefur á lífríkið. Athugið, ég á eftir að skrifa greinarnar um Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, ég gæti hæglega skipt um skoðun þegar ég hef lokið lestrinum um þær virkjanir.

Í sumar sem leið átti ég því láni að fagna að spreyta mig í veiði í Þverá við bæinn Fossnes. Í ármótum Þjórsár og Þverár er ótrúlegur veiðistaður þar sem staðbundinn fiskur, urriði og bleikja skjótast fram og til baka á milli bergvatnsins og jökulvatnsins auk þess sem göngufiskur, lax og sjóbirtingur stökkva í vatnaskilunum og gefa fyrirheit um kröftugar tökur. Þar sem ég stóð við ármótin og mátaði ýmsar flugur fyrir fiskinn, varð mér litið upp í hlíðina við afleggjarann að Gnúpverjavegi og sá hvar fyrirhuguð lónshæð er merkt með skilti. Verði að Hvammsvirkjun fer kletturinn sem ég stóð á undir vatn, nokkrar þúsundir tonna og væntanlega fá veiðimenn framtíðarinnar aldrei tækifæri til að njóta dásemda þessa svæðis. Ég vildi óska þess að önnur sjónarmið en peningar fái ráðið um framtíð Þjórsár og þess ótrúlega lífríkis sem þar er. Ég er hræddur um að uppistöðulón og varnargarðar fái ekki fólk til að andvarpa og segja; Guð, hvað þetta er fallegt.

Dónar

Það lá við að ég hoppaði hæð mína þegar ég renndi í fljótheitum yfir fréttir liðinnar viku. Loksins er að komast á skrið vitundarvakning um að banna dóna á veiðistöðum. Nú síðast var það Landssamband veiðifélaga sem vakti máls á þessu vandamáli. Veiðidónar eru til af ýmsum gerðum; Færðu þig, þetta er minn staður – Æ, það kemur einhver og tekur upp ruslið eftir mig, mamma? – Er ekki pláss fyrir einn enn á milli ykkar hjóna? og svo má lengi telja.

Að vísu rann fljótlega upp fyrir mér að mér hafði yfirsést einn bókstafur í fyrirsögninni, þetta voru víst drónar sem menn vildu banna. Jæja, það er alveg eins hægt að hella úr skálum reynslu sinnar af drónum eins og dónum. Eins skemmtileg og tæknin er, þá get ég alveg tekið undir með LV að drónar eiga lítið erindi á veiðistaði, nema þá veiðimenn og flugstjórar séu í þægilegri fjarlægð frá öðrum og valdi ekki ónæði með suði og lágflugi yfir hausum annarra.

Ég er annars lítið fyrir að setja boð og bönn um hitt og þetta sem í raun á að vera innifalið í almennri skynsemi og kurteisi. Það að raska kyrrð og ró næsta veiðimanns með óþarfa látum og nærgengi (nærgöngull, ganga nærri næsta manni) er einfaldlega eitthvað sem á ekki að þurfa að binda í lög og reglur. Mér er reyndar skapi nær að biðja menn um að horfa til himins á björtum degi á Þingvöllum eða inni á hálendi og leiða þá hugann að því hvort ekki sé rétt að setja einhverjar reglur um flug trukka yfir veiðistað, sjá grein mína frá í febrúar á þessu ári.

En vitaskuld verður eitthvað að gera, því á meðal okkar veiðimanna finnast ekki aðeins dónar og drónar, heldur einnig flón sem láta alltaf eins og þeir séu einir í heiminum. Það verður víst seint hægt að setja reglur sem banna þess háttar veiðimenn, við verðum víst bara að bíða eftir því að þeir þroski með sér smá kurteisi.

fos_flon

Múrar

Á tímum síðari landaflutninga hefur fólk flust frá einu landi til annars í leit að betra lífi, öruggari framfærslu og þá ekki síst með framtíð afkomenda sinna í huga. Þetta þekkja Íslendingar frá árinu 2008 og allt til dagsins í dag. Það er einkennandi við landaflutninga hina síðari, að þeir eiga sér flestir stað í kjölfar náttúruhamfara, styrjalda eða annars mannlegs klúðurs. Það er fátt sem aftrar því að stórir hópar fólks flytji búferlum, nema þá vegabréfaeftirlit, girðingar eða múrar sem reistir hafa verið til að halda fólki inni á ákveðnum svæðum, eða hvað?

Hvers vegna örfáum mönnum þótti áríðandi að flytja hundruð þúsunda einstaklinga frá Evrópu yfir til Ameríku árið 1880 er ekki fyllilega ljóst. Talað var um að auka fjölbreytileika tegundanna, rétt eins og náttúran gæti ekki séð um það sjálf. Nokkrir vöruðu sterklega við þessum flutningi, hann gæti stefnt framtíð innfæddra í hættu. Fram að þessum tíma hafði náttúran óáreitt séð um að vernda innfædda fyrir ásókn þeirra erlendu, það var og gild ástæða til. Þannig fór auðvitað að þetta óþarfa káf með stofn evrópsks urriða (Brown Trout) yfir til Ameríku varð til þess að innfæddir (Brook Trout) létu undan síga og við lá að þeir þurrkuðust út. Það hefur kostað ótrúlegar fjárhæðir og vinnu að viðhalda þeim litla stofni Brook Trout í Norður-Ameríku sem eftir er. Þá er ótalin sá skaði sem orðið hefur í Suður-Ameríku þar sem urriðanum hefur verið komið fyrir á ótrúlega víðfernu landsvæði.

En viti menn, aðeins fjórum árum eftir að evrópski urriðinn var fluttur til Austurstrandar Ameríku, var Kyrrahafsurriðinn (Rainbow Trout) fluttur yfir til Bretlands. Þar hitt Skrattinn ömmu sína í öðru veldi og á Regnbogasilungurinnan við einu ári höfðu tugir þúsunda sloppið úr eldisbúrum út í nálægar ár. Þar með var framtíð Brown Trout á Bretlandseyjum stefnt í hættu sem jókst síðar enn frekar með tilkomu iðnbyltingarinnar og meðfylgjandi mengun. Í dag kemur ekki nokkrum heilvita manni til hugar að drepa Brown Trout í ám og lækjum Bretlands á meðan víða eru viðurlög gegn því að sleppa regnbogasilungi. Endurheimt fiskfarvega, hreinsun áa og lækja á Bretlandi hefur kostað ómælda vinnu og fjármuni. Því miður er svo komið að þarlendir aðilar hafa orðið að sætta sig við að regnbogasilungurinn er kominn til að vera í lífríkinu, öðrum stofnum til sífelldrar hættu.

Ég er ekki að gera því skóna að regnbogasilungur sem fluttur hefur verið til Íslands eigi eftir að verða hluti af íslenskri náttúru, til þess skortir mig framsýni og þekkingu á óorðnum breytingum á veðurfari. Okkar helsta von, að því mér skilst, er að klak regnbogasilungs á sér stað á þeim tíma sem síst er lífvænlegur fyrir hann hér á landi. Ef veðrátta breytist til einhverra muna hér næstu árin eða tugina, þá gæti málið horft öðruvísi við. Rétt eins og mannskepnan, þá leitar fiskurinn út í frelsið því mannanna verk, girðingar og múrar, mega sín lítils þegar náttúran er annars vegar. Nýleg dæmi um eldisfisk sem fundist hefur í ám Norðanlands eru áhyggjuefni, sama hvernig á það er litið.

Að sama skapi eru áform um stóriðju í laxaeldi meira en áhyggjuefni fyrir þá sem unna íslenskri náttúru og dýralífi. Sá ótrúlegi massi af úrgangi sem fellur til við laxeldi í sjó getur ekkert annað en stefnt nálægri náttúru í voða, hvort heldur náttúrulegum laxastofni, silungi eða botndýrum þröngra fjarða. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar eldis- og verkfræðinga um öryggi sjókvía er ekkert sem getur komið í veg fyrir slys, stór eða lítil, samfara þessum fyrirætlunum. Bara það að setja slíkar kvíar niður við strendur landsins er slys eitt og sér. Allt káf okkar mannanna með landaflutninga náttúrulegra fiskistofna hefur endað með hörmungum, jafnvel óafturkræfum breytingum á lífríkinu sem við skilum af okkur til komandi kynslóða. Múrar halda aldrei.

Er þessi óhultur í sinni á?
Er þessi óhultur í sinni á?

Aukinn áhugi

Mér skilst að áhugi á fluguveiði sé sífellt að aukast, sem er vel. Ég verð einna helst var við aukinn áhuga hjá vinum og kunningjum sem í ríkara mæli spyrjast fyrir um flækjustig fluguveiðinnar af hreinum áhuga í stað ‚small talk‘ spurninga yfir kaffibolla. Þær eru ýmsar spurningarnar sem maður fær um fluguveiði, en sú vinsælasta er örugglega; Er maður ekki rosalega lengi að læra þessi köst? Þá getur manni vafist tunga um tönn. Ef ég nú svara; Nei, nei, þetta er ekkert mál þá getur málið nú vandast þegar viðkomandi sér mig handleika stöngina. Nú, ertu ekki betri kastari en þetta? Sagðir þú ekki að þetta væri ekkert mál? Ef ég aftur á móti svaraði spurningunni; Jú, þetta er töluverð kúnst og útheimtir heilmikla æfingu, þá er eins víst að viðkomandi segi þetta bara gott og haldi sig bara við flot og maðk.

Svo eru þeir sem spyrja í lotningu (af því þeir hafa lesið of margar rómantískar veiðifrásagnir) hvort fluguveiði sé ekki æðst allra aðferða. Það er alveg sama hve oft ég leita að góðu svari við þessari spurningu, mér kemur aldrei neitt gáfulegt í hug. Að mínu viti er engin ein aðferð annarri æðri svo lengi sem veiðimaður sýnir bráðinni þokkalega virðingu. Þrátt fyrir allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fiskum og náttúru þá eru engar rannsóknir til sem segja okkur hvað telst virðing fyrir bráðinni. Viðmið virðingar verður hver og einn veiðimaður að finna hjá sjálfum sér; vill hann taka allan fisk sem gefst, veiða og sleppa eða bara vera á staðnum til að njóta náttúrunnar og þess sem hún gefur?

Þeir nýliðar sem slást í hóp veiðimanna í dag eru eflaust betur að sér í náttúrufræði heldur en margur eldri veiðimaðurinn og því er það tilhlökkunarefni að fá hugsandi unga veiðimenn í hópinn. Okkur veitir ekki af aukinni virðingu og bættri umgengni við náttúruna, bæði sem einstaklingar og sem hópur sem lætur sig framtíð villtra fiskistofna varða. Hver veit hvað verður þegar þessir ungu menn setjast á Alþingi, verður þá mögulega aldrei aftur rifist um virkjanir á veiðislóðum, þær verða einfaldlega ekki einu sinni til umræðu.

Veiðivötn - Litlisjór
Veiðivötn – Litlisjór

Þingvellir og nöfnin

Ekki alls fyrir löngu var ég staddur á fundi þar sem Þingvellir og álitlegir veiðistaðir voru teknir fyrir. Á fundinum var stuðst við kort og lýsingar Guttorms Þ. Einarssonar ásamt annarra. Á fundinum voru margir kunnugir staðháttum og upphófust hinar skemmtilegustu lýsingar og frásagnir af veiðistöðum. Eins og gengur gekk mönnum mis-brösuglega að muna nöfnin á öllum veiðistöðunum og eitthvað var um samslátt örnefna og veiðistaða. Raunar er ég sjálfur svo gleyminn að ég man sjaldnast röð afleggjara og veiðistaða frá Valhöll, er það ekki annars Lambhagi, Vatnskot, Tóftir, Vörðuvík, Öfugsnáði, Nes og Vatnsvik? Jú, ég held það.

Því meir sem ég hugsaði til þessa fundar, því ákveðnari varð ég í að setja saman kort yfir helstu veiðistaðina á norðurströnd vatnsins, innan Þjóðgarðs. Ég fór á stúfana, náði mér í kort og annað, ýmsar frásagnir og örnefnaskrá. Að útbúa kort í stóru broti var ekki svo erfitt, verra var að merkja örnefnin inn, velja rétt örnefni og hafna þeim sem auðsjáanlega voru á skjön við staðreyndir. Eftir sitja nokkur vafaatriði og spurningar þar á meðal varðandi víkina austan Öfugsnáða; heitir hún Hlóðavík eða Hlöðuvík? Af hverju eru svona fáir veiðistaðir merktir inn frá téðri vík og að Nautatanga? Hefur nánast engin kjaftur veitt frá Murtuskeri og að Litlutá, þar á meðan Vörðuvík? Eru virkilega tvær Kverkar á Lambhaga, ein á tánni og ein að vestan?

Ég læt slag standa og set kortið í fullri stærð hér á síðuna. Sjáum til hvað ég fæ af athugasemdum og ábendingum yfir það sem ranglega er skráð hjá mér og hvaða veiðistaði vantar inn á kortið. Sem sagt; nú reynir á lesendur síðunnar að hjálpa til við að lagfæra kortið, ljúka því með sómasamlegum hætti.

Smellið á myndina fyrir fulla stærð
Smellið á myndina fyrir fulla stærð