Það brennur

Það er sterkur steikingarþefur í eldhúsinu og það fer ekki framhjá nokkrum manni á heimilinu að það er verið að steikja kleinur. Kokkurinn er með allar græjur við höndina; eldvarnarteppi og lok á pottinn ef illa fer og feiti slettist á heita helluna eða hitnar um of í kolunum. Skyndilega eykst þefurinn verulega og reyk tekur að leggja um allt eldhúsið. Dettur einhverjum í hug að kokkurinn skjótist þá yfir í næsta herbergi, opni alla skápa upp á gátt í örvæntingarfullri leit að orsök reykjarins? Nei, auðvitað ekki, hann tekur eldvarnarteppið og lokið og kæfir eldinn sem hefur gripið um sig í feitinni. Það þarf ekki að leita að upptökum elds í stofunni þegar allt stendur í björtu báli í eldhúsinu.

Þess þá heldur væri það óðs manns æði að ætla fyrst að bjarga kleinunum úr pottinum og loka honum að því loknu. Til þess að heimilið brenni ekki til kaldra kola, þá er forgangsatriði að slökkva eldinn og það gerir maður ekki með því að kalla til eldvarnareftirlitið eða velta sér upp úr spekúlasjónum um skipulag brunavarna eða möguleg upptök elds hjá nágrannanum á meðan reyk leggur um eigið hús.

Lock Ainort - © geograph.org.uk
Loch Ainort – © geograph.org.uk

Mér, sem leikmanni, virðist sem ótrúlegum tíma hafi verið varið til lítils frá því um mitt síðasta sumar þegar fyrstu vísbendingar komu fram um strok regnbogasilungs á Vestfjörðum. Halló, regnbogasilungur hefur verið að veiðast í ám og lækjum um vestanvert landið frá miðju sumri og heilu göngurnar hafa sést utan kvía í Önundarfirði. Þetta hljómar í mín eyru eins og ætlunin hafi verið að bjarga kleinunum upp úr pottinum áður en slökkt yrði í og nú hefur það verið gert, þ.e. búið er að slátra þeim fiski sem ekki strauk.

Að vísu virðast menn ekki vera sannfærðir um að reyk hafi aðeins lagt upp úr einu potti þarna fyrir vestan. MAST gengur ekki út frá því að þetta gat, eitt og sér, skýri það magn lausagönguregnboga sem vart hefur orðið við frá miðju sumri. Hvað eru götin þá mörg sem stoppa þarf í og væri ekki ráð að byrja að skoða hinar kvíarnar sem eru á undanþágu frá reglum? Eða það sem betra er, færa þennan iðnað upp á land þar sem fylgjast má með þeim á sokkaleistunum? Nú þurfum við að anda djúpt áður en fleiri undanþágur verða samþykktar eða ný leyfi fyrir sjókvíum, sama hverrar tegundar, verða gefnar út. Það er mál til komið að menn geri sér grein fyrir því að það brennur.

Stóriðja í Vatnadal

Nú fer harmasögn minni úr Vatnadal að ljúka. Þegar hér er komið sögu hefur mönnum tekist að útrýma bæði bleikju og urriða í Vatni. Laxastofninn í Miðá er hruninn og hálfum dalnum sökkt undir lón. Er þá ekki nóg komið af hörmungum? Nei, svo virðist ekki vera því rothöggið á villtu fiskistofnana er eftir. Það kemur í hlut sjókvíaeldis að veita náðarhöggið. Það stafar margþætt hætta af stórhuga áformum um sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Smithætta fisksjúkdóma, genamengun frá erlendum stofnum og mengun vegna lífræns úrgangs af stærðargráðu sem við höfum aldrei kynnst áður. Átak okkar í skólphreinsun má síns lítils í samanburði við þann óhemju úrgang sem fellur til við sjókvíaeldi. Enn og aftur er stefnt að því að færa hingað til lands iðnað sem er verið að úthýsa erlendis vegna sóðaskapar og hættu. Hér hefur stóriðjan tekið á sig nýja mynd, ekki síður hættuleg heldur en loft- og efnamengandi málmbræðslur.

vatnadalur_4

Ótækt verðmat

Það er sagt að þriðjungur þjóðarinnar leggi stund á stangveiði að einhverju marki. Þegar maður fer að hugsa út í þetta, þá er þetta skuggalega hátt hlutfall, með því langhæsta sem þekkist í heiminum. Stundum efast ég um að þetta sé fyllilega rétt og mögulega sé hér talið skv. venju lítilla þjóða sem vilja leynt og ljóst verða stórasta land í heimi. Getur verið að hér sé allt talið til, stakir veiðimenn sem fara t.d. einu sinni á ári með börnin eða barnabörnin í einhverja sleppitjörn eða getur verið að við séum að telja með erlenda veiðimenn sem  drepa hér niður fæti fáeina daga á ári og kíkja í lax?

Kannski eru þetta óþarfa vangaveltur hjá mér og kannski er það virkilega þriðjungur þjóðarinnar sem stundar stangveiði að einhverju marki. Þá get ég bara sett punktinn hér og látið allar frekari vangaveltur lönd og leið, eða hvað? Ef þriðjungur þjóðarinnar telur sig til stangveiðimanna, þá er grátlegt hve hljóður þessi hópur er þegar kemur að því að standa vörð um sportið og láta í sér heyra þegar náttúrunni okkar er ógnað af fyrirhuguðu fiskeldi í sjókvíum við strendur landsins. Því miður virðist það svo vera að háværustu andmælin komi úr röðum aðila sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af stangveiði. Það er illa fyrir þjóð komið ef aðeins peningaleg gildi ná upp á yfirborðið í umræðunni.  Það heyrist allt of lítið í hinum almenna veiðimanni sem hefur, þegar öllu er á botninn hvolft, miklu meiri hagsmuna að gæta heldur en nokkur veiðileyfasali getur sett verðmiða á. Þær eru óteljandi stundirnar sem maður hefur átt í veiði hér á landi, stundir sem aldrei verða metnar til fjár. Og merkilegt nokk, þetta eru gæðastundir sem ég hef varið við annað en laxveiði. Silungastofnum stendur ekkert síður ógn af þessum ófögnuði sem sjókvíaeldið er. Öll mengun á strandsvæðum, hvort sem hún stafar af laxalús, smitsjúkdómum, snýkjudýrum, lífrænum úrgangi eða ólífrænum, er ógn við fiskistofna og lífríkið í heild sinni.

Ómetanlegt
Ómetanlegt

Sú ógn sjókvíaeldis sem helst hefur verið haldið á lofti er hættan á erfðamengun Íslenskra laxastofna. Þótt laxastofnum yrði hlíft við mögulegri erfðablöndun, þá situr eftir meiri sóðaskapur í umhverfismálum heldur en áður hefur sést við strendur þessa lands og þar liggja hagsmunir allrar þjóðarinnar undir. Það slys yrði stærra en svo að unnt er að setja á það verðmiða og einmitt þess vegna virðist vera ómögulegt að koma því upp á yfirborðið í umræðunni. Mig langar sérstaklega að benda á grein Erlendar Steinars Friðrikssonar, Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði. Sú umfjöllun ætti að vekja menn til umhugsunar.

Hver sá sem hefur notið þess að skreppa í veiði eða óskar þess að afkomendur hans eigi þess kost þegar fram líða stundir ætti að taka afstöðu til þess hvort skammtímagróði fárra sé þessum hlunnindum meirihlutans æðri. Að sama skapi ætti hin almenni veiðimaður að standa vörð um aðgengi sitt að ómengaðri arfleið landsins án þess að þurfa að gjalda fyrir það skv. verðmati sem unnið er upp úr arðsemisútreikningum talnaspekinga á snærum innlendra eða erlendra aurapúka. Sumt verður einfaldlega aldrei metið til fjár og virðist því aldrei geta staðist samanburð við krónur og aura, hvað þá dollara eða norskar krónur.

Að þessu sögðu verð ég að játa að ég get vel sett mig í spor þeirra íbúa sjávarþorpa úti á landi sem sjá fram á bjartari tíma við uppbyggingu fyrirhugaðs fiskeldis. En það þarf enga sérfræðinga að sunnan til að segja heimamönnum hvað sé náttúrunni eða buddunni þeirra fyrir bestu, þeir eru skarpari en svo. Heimamenn hafa séð hrun og ris fiskistofna með eigin augum, fundið það á eigin skinni þegar náttúrunni er raskað. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð og sú ráðsnilld ætti að duga til koma á laggirnar öðrum atvinnutækifærum heldur en innflutningi erlendrar stóriðju, sama hvort hún fæst við málmbræðslu eða sjókvíaeldi. Hingað til hefur stóriðja laðast að fallvötnum okkar og ónýttum losunarkvóta og nú stendur til að bæta ósnortnum strandsvæðum okkar á þennan óskalista erlendra iðjuhölda. Því miður er útlit fyrir að engin breyting verði á skilum þeirra til Íslenska þjóðarbúsins, þau felast fyrst og fremst í þurrmjólkun okkar einstöku náttúru sem tekin verður út í reikning komandi kynslóða. Finnum raunhæfar leiðir til að skjóta stoðum undir hnignandi byggðir á Íslandi, segjum nei við stóriðju, sama hvaða nafni hún nefnist.

Virkjun í Vatnadal

Enn held ég áfram sögu minni úr Vatnadal með því að fikra mig eftir þessum ímyndaða dal. Sagan rennur fram dalinn og er nú komin miðja vegu til sjávar. Koma þá til sögunnar framkvæmdir sem allt eins gætu átt sér stað í dag.

Íslensk orkufyrirtæki veigra sér ekki við að auglýsa til sölu umhverfisvæna, endurnýjanlega orku. Hér eru fallvötn virkjuð eins og engir aðrir kostir séu í stöðunni vilji menn halda byggð í landinu. Skiptir þá engu hvort umhverfi eða lífríki verði fyrir barðinu á virkjunum og sífellt virðist vera þörf á að virkja, meira aðkallandi að sökkva landi undir lón, snortnu eða ósnortnu. Orka er seld áður en virkjanakostir eru samþykktir og til að skera framkvæmdaraðila úr snörunni eru kostirnir færðir úr verndarflokki í nýtingarflokk gegn loforðum og gylliboðum um mótvægisaðgerðir sem þó eru aðeins til á teikniborðinu.

vatnadalur_3

Áveitan í Vatnadal

Þau eru mörg vötnin á Íslandi sem hafa verið nýtt til annars en fiskinytja. Tilbúna vatnið mitt, Vatn í Vatnadal er eitt þeirra. Hér á landi hefur það tíðkast um áratuga skeið að stífla útrennsli vatna til áveitu, vatnsmiðlunar eða virkjana. Þeir eru ófáir fiskistofnarnir sem hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir þessum mannanna verkum og fá vötn hafa verið endurheimt úr klóm virkjana hér á landi. Við Íslendingar erum miklir eftirbátar nágranna okkar í þessum málum, sérstaklega þeirra í vestri. Á sama tíma og við teljum okkur meðal fremstu þjóða í náttúruvernd, þá gerum við lítið sem ekkert til að endurheimta fiskvegi þar sem þeir hafa verið stíflaðir.

vatnadalur_2

Sögur úr Vatnadal

Það er ýmislegt sem maður finnur sér til dundurs þegar stangveiðitímabilinu lýkur. Hugurinn reikar víða og ósjálfrátt smitast hann af því sem efst er á baugi í fréttum. Nýlega staðfest Alþingi Íslendinga Parísarsamkomulagið svokallaða með hægri hendinni á meðan sú vinstri hélt áfram að skrúfa frá losun gróðurhúsalofttegunda. Lítið sem ekkert fer fyrir mótvægisaðgerðum, s.s. endurheimt votlendis en þeim mun meira fyrir aukinni orkuframleiðslu til stóriðju og úthlutun heimilda til gríðarlegrar aukningar á losun lífrænna úrgangsefna við strendur landsins.

Til að setja einhverjar þessara hugleiðinga minna í samhengi, upphugsaði ég dal einn á Íslandi. Eins og allir dalir í ævintýrum, þá er þessi dalur einstaklega fagur og miklum kostum búinn. Ég kýs að kalla hann Vatnadal, en hann gæti heitið hverju nafni sem er því hann á sér svo ótrúlega marga þjáningarbræður hér á landi í einni eða annarri mynd.

En hvernig dalur er Vatnadalur? Til að kynna hann til leiks er hér smá inngangur að þremur sögum úr Vatnadal.

vatnadalur_1