Þyrilvængjur

Þyrla eða þyrilvængja er skemmtilegt orð á ekki minna skemmtilegu fyrirbæri sem ég sem veiðimaður, hef eflaust notið góðs af. Nei, mig rekur ekki minni til að hafa stigið upp í þyrlu um ævina en eflaust hafa einhverjar góðar loftmyndir sem ég hef stuðst við fyrir veiðiferðir verið teknar úr þyrlu.

Síðasta sumar lá nú samt við að ég legði það formlega til að nafni þessa fyrirbæris yrði breytt í trukk. Ég geri mér grein fyrir því að það nafn er þegar í notkun, en stórir trukkar heita hvort hið er orðið ‚stórar vinnuvélar sem þvera veginn‘ og þrýstingur hefur eiginlega útrýmt trukki í öllum vatnslögnum. Að vísu er hægt að taka eitthvað með trukki, en það á ekki við í vatnaveiði. Ef einhver hefur náð því hvað ég er að fara, þá getur sá hinn sami hætt lestrinum núna. Hinir, sem enn standa á gati, eiga þá völina að hætta eða lesa til enda og ná innihaldinu sem ég er alveg að koma að.

Þannig var að síðasta sumar var ég í nokkur skipti við veiðar þar sem seðlamenn höfðu keypt sér útsýnisflug með þyrlu. Já, náttúrufegurð á Íslandi er einstök og sjálfsagt að leita allra leiða að ná einhverju af auðmagni veraldar út á það. Ekki geri ég mér neinar grillur um að útsýnisflug þessi hafi verið farin sérstaklega til að skoða mig og því fannst mér lítil ástæða til að fljúga jafn lágt og raun bar vitni. Þegar þyrlan nálgaðist var eins og náttúran héldi niðri í sér andanum, fuglarnir hættu að flögra á milli trjágreina og vatnið kyrrðist einkennilega. Vitaskuld tók fyrir alla veiði á meðan þyrlan flögraði þarna yfir og töluverðan tíma á eftir.

Síðar um sumarið fór ég nokkrar ferðir inn á hálendið og ekki var flugumferðin minni þar. Ef eitthvað þá var hún meiri og lægri heldur en við Þingvelli og þar var fiskurinn áberandi hvekktari eftir að þyrlur höfðu flogið yfir. Friðland að fjallabaki hljómaði svolítið ankannanlega á meðan andrúmsloftið titraði undan trukki spaðanna. Vegna þessa mælist ég til um að nafnið trukkur verði heimfært yfir á þessi flygildi sem raska heiðanna ró í tíma og ótíma og umferð trukka síðan sett í sama flokk og utanvegaakstur.

Trukkur frá Airbus
Trukkur frá Airbus

Aðgangur bannaður

Í gegnum árin hefur maður tekið ástfóstri við ákveðin vötn. Stundum vegna fisksins, stundum vegna umhverfisins. Eitt þessara vatna hjá mér er Langavatn í Borgarbyggð. Náttúrufegurð á þessum slóðum er mikil og vatnið hefur fært mér einn af stærstu fiskunum sem ég hef veitt um æfina. Flestir leggja leið sína að Langavatni að austan, að Beilárvöllum, færri að vestan, upp með Langá, en það er ekki síðra svæði. Saga Langavatns og Langavatnsdals er þyrnum stráð. Þar hefur verið harðbýlt og á ýmsu gengið í aldanna rás (Jóhannes Davíðsson, Tíminn 1984). En það þarf ekki að leita aldir aftur í tímann til að finna dæmi um harmasögu Langavatns.

Árið 1970 hófst vatnsmiðlun úr vatninu og við getum frá þeim tíma rakið stórfeldar breytingar á lífríki þess, allt til dagsins í dag. Fljótlega eftir hækkun vatnsins jókst lífauðgi þess töluvert með mikilli viðkomu fiskjar. Nokkuð sem er þekkt og ég hef rakið hér áður (Þegar stíflan eldist). Stór hluti Beilárvalla fór undir vatn og strandlengjan skertist verulega. Að sama skapi jókst bakkarof og fjaran varð grýtt og gróðursnauð.

Langavatn 1965 - Kunnugir þekkja höfðann til hægri sem eyju í dag
Langavatn 1965 – Kunnugir þekkja höfðann til hægri sem eyju í dag (Ljósm.Tómas Einarsson)

Fiskur sem áður sótti í Beilá lagði þá hegðun af og þar hefur hann ekki sést síðan í byrjun 8. áratugs síðustu aldar. Þar sem ég hef engar heimildir fundið um hrygningu í ánni læt ég ósagt látið um möguleg afföll á þeim slóðum. Aftur á móti er öruggt að urriði hrygndi í efrihluta Langár fyrir tilkomu stíflunnar (Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984) en nú hrygnir urriðinn vísast aðeins í Langavatnsá, nyrst í vatninu. Þangað hefur hann að miklu leiti hopað eftir að smábleikja lagði undir sig syðri hluta vatnsins. Þó hefur einn og einn stórurriði veiðst í vatninu að sunnan, en þó helst að vestan.

Stórurriði úr Langavatni 2011
Stórurriði úr Langavatni 2011

Fiskiræktarsjónarmið réðu alfarið þeirri ákvörðun að stífla Langavatn. Fyrir það fyrsta reyndist með tilkomu stíflunnar unnt að miðla vatni til Langár þann tíma árs sem lítið var í ánni „sem er talið til mikilla hagsbóta fyrir ána sem veiðiá“ eins og segir í Matsgerð Fiskistofu frá árinu 2009. Í annan stað er sagt frá því í Morgunblaðinu 29.2.1980 að „Tilkoma þessa mannvirkis hefur dregið nær alveg úr ísruðningi í ánni á vetrum sem áður var árviss og olli tjóni á fiskstofni árinnar.“ Til viðbótar má nefna að eflaust hefur frjósamt vatnið úr Langavatni fyrstu árin eftir stíflun þess, verið laxaseiðum Langár og viðkomu þeirra mikil búbót.

Þegar fram liðu stundir varð aftur á móti mikill hnignun í þessari frjósemi og væntanlega hefur þeirra áhrifa lítið gætt umfram þau 2 – 10 ár sem reikna má með að hún almennt vari. Væntanlega er lífríki Langár nú endanlega komið aftur til fyrra horfs og spurning hvort lífríkið beri allt það ungviði laxa sem þar klekst út. Að vísu eru bakkar árinnar vel grónir og trjágróður þar ætti að sjá fyrir töluverðri næringu fyrir ánna.

Eins má velta því fyrir sér hvort stíflan gegni enn því hlutverki sínu að stemma stigum við ísruðningi eins og henni var upphaflega ætlað. Án þess að geta vísað til rannsókna tel ég ekki ólíklegt að almenn hlýnun loftslags hin síðari ár hafi breytt ísalögum á Langavatni sunnanverðu þannig að fiskistofni Langár standi ekki lengur sú sama ógn af og áður. Vel að merkja á ég erfitt með að tala um fiskistofna Langár í eintölu. Í Langavatni er enn stofn stórurriða úr Langá sem hefur verið meinaður aðgangur að hrygningarstöðvum sínum frá árinu 1970. Ætli sá dagur renni upp að honum verði gert kleift að hrygna aftur í efri hluta Langár?

Þegar stíflan eldist

Konan mín sagði við mig um daginn að frá því ég tók upp fluguveiði, þá hafi ég aðeins átt eitt áhugamál. Raunar sagði hún að ég hefði ekki átt neitt áhugamál áður en að fluguveiðinni kom. Jú, ég kannast örlítið við eitthvað af þessu, kannski þetta með áhugamálsleysið. Ég þori alveg að andmæla konunni minni augliti til auglitis, en í þetta skiptið ætla ég að fela mig aðeins innan um hið ritaða orð.

Ég á mér nefnilega annað og ekki minna áhugamál heldur en stangveiðina. Ég er sérstakur áhugamaður um endurheimt náttúrulegra vatnsfarvega. Þetta er að vísu ekki hátt skrifað áhugamál hér á Íslandi enda ekki vinsælt að ræða það opinskátt að brjóta eitthvað niður sem aðrir hafa byggt upp. Annað sem gerir málið viðkvæmt er að töluvert af stíflum og hömlum sem settar hafa verið í náttúrulega farvegi áa á Íslandi eru tilkomnar vegna fiskiræktar.

Hvernig stíflun nýtist til fiskiræktar er nokkuð mismunandi. Stundum hefur afrennsli vatna verið stíflað vegna fiskiræktar í vötnunum sjálfum en stundum til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum leysinga á uppeldissvæði í ám sem úr þeim renna. Þá eru einnig þekkt dæmi þess að stíflur eru notaðar til miðlunar vatns á þeim tímum er uppgöngufiskur þarf eitthvað til að synda í á leið sinni upp árnar. Auðvitað er þetta síðast nefnda sagt með nokkurri kerskni, en smá sannleikskorn í því samt.

Horft yfir stífluna
Horft yfir stífluna

Þegar vatnsborð innan stíflu er hækkað og vatn flæðir yfir gróið land, hefst útskolun lífrænna efna og áburðar sem eykur frjósemi vatnsins allverulega, lífauðgi eykst mjög hratt. Fiskur, sé hann til staðar á annað borð, tekur þá mjög við sér, stækkar hratt og fjölgar mikið. Í flestum tilfellum er þetta að vísu skammgóður vermir. Haldist hækkað yfirborð, kemur að því að gróðurinn eyðist eða rotnar og útskolun næringarefna þrýtur. Það er nokkuð misjafnt hve langan tíma þetta ferli tekur. Fræðimenn telja að þessi útskolun geti varað í 2 – 10 ár (Guðni Guðbergsson, Fræðaþing landbúnaðarins 2009) / Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984). Sem dæmi um vatn eða lón sem þannig er háttað til um, má nefna Blöndulón sem var myndað 1991. Fyrstu fjögur árin varð vart við gríðarlega fjölgun silungs, aðallega bleikju og veiddist mikið af vel öldum fiski. Að fáum árum liðnum, fækkaði fiskinum aftur á móti mjög hratt og sá litli fiskur sem varð eftir var mjög illa haldinn. Nú er svo komið að nánast ekkert veiðist í lóninu.

Fyrst eftir myndun eða hækkun yfirborðs hálendislóna, eins og Blöndulóns og Þórisvatns, verður skötuormur uppistaðan í fæðu silungsins. Skötuormurinn nærist á rotnandi jurtaleyfum en honum fækkar hratt þegar lífauðgi vatnsins þverr og þá þarf fiskurinn að leita í aðra og fjölbreyttari færðu. Þá leitar hann í sviflægari fæðu, leggur sér sem sagt flest til munns en að lokum kemur að því að lífauðgin þverr svo við tekur fæðuþurrð.

Hún er ekki ýkja frábrugðin saga þeirra vatna sem stífluð hafa verið til miðlunar á láglendi. Lífauðgi þeirra eykst hratt, fiski fjölgar og hann stækkar til að byrja með. Svipaða sögu má segja af lífauðgi og þar með lífríki ánna sem úr þeim renna. Þar dafnar ungviði urriða og laxa vel fyrstu árin en það heyrir til undantekninga að þetta ástand vari lengur en fyrrgreind 2 – 10 ár. Að þeim tíma liðnum færist lífríkið að mestu til fyrra horfs, í besta falli. Oft standa neikvæð áhrif ofan stíflu eftir, eyðing hrygningarstöðva, fábreyttari jurtaflóra og svo má lengi telja. Þessu til viðbótar má nefna að rof við vatnsbakka eykst umtalsvert ef vatnsborð er breytilegt og á sama tíma líður lífríkið í fjörunni fyrir. Dæmi um vatn sem þetta má nefna Skorradalsvatn í Borgarfirði.

Undan Árbæjarstíflu
Undan Árbæjarstíflu

Yfirleitt standa stíflur óhaggaðar allan sinn líftíma og gott betur en það. Eins og áður segir hafa flestar þeirra verið reistar hér á landi vegna raforkuframleiðslu, áveitu eða fiskiræktrar. Það heyrir til undantekninga á Íslandi að þær séu fjarlægðar, hvort heldur þær séu í notkun eða löngu aflagðar. Þótt lokur séu teknar úr þeim sem óþarfar eru orðnar, þá halda þær áfram að vera þyrnir í augum manna og fiska og hafa mikil áhrif á fiskfarvegi (Áhrif ræsa og brúa á ferðir fiska og búsvæði þeirra, 2007).

Af hita í vötnum

Í grein minni hér um daginn um varmanám í vötnum, gat ég þess að vötn hitna nær eingöngu í efsta metra yfirborðsins. Þegar kemur að djúpum vötnum eins og Þingvallavatni er því ljóst að dýpri vatnslög hitna ekki fyrr en umhverfing vatnsins hefur átt sér stað, þ.e. heitt vatnið af yfirborðinu leitar niður á við og þrýstir köldu vatninu upp í vatnsbolinn. Þessi umhverfing er hæg og því er mikilvægt að raska ekki hlýnun þessara vatna á yfirborðinu með snefilefnum eins og leynast í tilbúnum áburði

Vötn sem svona er háttað til um eru mjög frjósöm, sífelld umskipti (mælt í árstíðum) færir næringu á milli svæða í vatninu og viðkoma gróðurs og skordýra eykst. Að raska þessu jafnvægi, jafnvel í litlum hluta vatnsins getur haft mjög neikvæð áhrif á lífríkið. Heitasta tíma ársins er yfirborðshiti Þingvallavatns rétt um 10°C, á 20 sm. dýpi er hann 8°C og 6°C á 80 sm. Allur vatnsbolurinn fyrir neðan þessa dýpt er kaldari, yfirleitt miklu kaldari nema þar sem linda nýtur við. Lindavatnið sem streymir inn í Þingvallavatn er á bilinu 2,7°C til 4°C og á miklu dýpi er það nánast eins hitaveita þar sem vatnið er að jafnaði ekki nema 1°C.

Ákveðið svæði við vatnið sker sig mikið úr hvað hitastig varðar og hefur gert svo í hundruð ára, Nesjahraun. Þarna hefur heitt grunnvatn ofan úr Hengli streymt fram og yljað vatnið næst ströndinni. Frá því Nesjavallavirkjun tók til starfa hefur hiti grunnvatns á þessum slóðum hækkað verulega, svo mjög á köflum að hitatölur 17 – 27°C hafa mælst í gjám sem áður voru rétt ilvolgar. Við þekkjum þessi svæði og nágrennið sem einstakar uppeldisstöðvar urriðans í vatninu og hafa veiðst þar ótrúlegir drekar. Kyrrstöðuástandið sem skapast á þessum slóðum, sífelldur sumarhiti og vel það, hefur að öllum líkindum breytt hegðunarmunstri fisksins þannig að hann leggst ekki í dvala nema mjög skamman tíma, ef þá nokkurn yfir veturinn. Hér hafa mannanna verk væntanlega getið af sér verulegt frávik í eðlilegri hegðun urriðans.

Almennt hefur meðalhiti Þingvallavatns hækkað hin síðari ár, rétt eins og annarra vatna á norðlægum slóðum. Einn fylgifiskur þessa er að nú leggur vatnið mun síður en áður. Ísinn á Þingvallavatni hefur hingað til virkað sem ágætis einangrun í miklum kuldum og þannig temprað hitasveiflur. Sé ísinn ekki til staðar er þessi temprun horfin og vatnshitinn getur tekið mjög miklum sveiflum í hita. Viðkvæmari tegundir gróðurs gætu þannig horfið og harðgerðari plöntur náð yfirhöndinni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lífríkið í heild sinni. Verði miklar breytingar á svifi í Þingvallavatni er næsta víst að það hafi mikil áhrif á viðkomu murtunnar og þar með annarra fiska í vatninu. Hvort sú verður raunin, verður framtíðin væntanlega ein að skera úr um en þangað til ber okkur skilda til að vernda umhverfi og lífríki vatnsins af fremsta megni. Eitt af því sem við verðum að horfast í augu við eru áhrif mannlegs inngrips í lífríkið sem hingað til hefur fyrst og fremst hefur verið hita- og efnamengun.

Þingvallavatn
Þingvallavatn – horft til Nesjavalla

Af ljósi í vötnum

Öll þekkjum við það þegar gróðurinn á landinu fer að taka við sér á vorin og sólar tekur að njóta. Við njótum þessa einnig, annað hvort beint undir sólu eða með því að sjá gróðurinn grænka í kringum okkur. Það léttist á okkur brúnin.

En það er fleira sem nýtur sólar en augað sér. Vötnin okkar stunda s.k. varmanám, þ.e. ljóseindir úr sólarljósinu skella á rafeindum vatnssameindanna sem mynda vatnið og þær drekka í sig orkuna ljóssins, vatnið hitnar. Hlutfallslega er mest varmanám vatnsins í efsta metranum við yfirborðið. Þar nýtist u.þ.b. 50% sólarljóssins til upphitunar. Því dýpra sem leitað er niður í vatnið, því hægara verður varmanámið. Veiðimenn þekkja þennan efsta metra vatnanna sem annað gjöfulasta veiðisvæði þeirra. Hitt svæðið er botninn, e.t.v. gjöfulli vegna þess að þar tekur botngróðurinn til sín sólarljósið og bindur í lífrænni orku sem fóstrar síðan æti fyrir fiskinn. Við getum séð hvar varmanám er í góðum gír. Vatnið virðist blátt, því blárra því heilbrigðara.

Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á þetta varmanám og þar á meðal er skortur á sólarljósi. Það segir sig sjálft að þegar lítillar sólar nýtur við þá hlýna vötnin okkar ekki eins mikið fyrir vikið. Áhrif þessa ættu að vera augljós, vatnið er kaldara, plöntur og þörungar ná ekki að beisla sólarljósið og þar með verður heldur fátt um fína drætti í gróðri, skordýrum, fiskum og á endanum hjá veiðimanninum.

Það sem getur einnig orsakað lélegt varmanám er aur og ólífrænar agnir í vatninu sem ná að tvístra sýnilega ljósinu frá sólinni áður en rafeindir vatnssameindanna ná að beisla orkuna. Endurkast þessara vatna verður því oft gráleitt eða mjólkurlitað og er þannig vísbending til okkar um lélega framleiðni. Árstíðabundnar sveiflur í framburði til stöðuvatna er oft á tíðum af hinu góða. Framburður ber með sér næringu sem kemur lífríkinu til góða, en þegar framburður er viðvarandi, allt árið um kring, þá er úti um lífríkið.

Þekkt dæmi um ‚litað‘ vatn er t.d. Lagarfljót. Það hefur alltaf verið frekar skolað að sjá en samt tekið nokkrum breytingum eftir árstíðum. Þessar smávægilegu sveiflur dugðu hér áður fyrr til þessa að varmanám átti sér stað stóran hluta ársins og þannig viðhélst lífríkið. Nú er svo komið að vatnið er ekki lengur ‚litað‘ heldur hefur það tekið massífan lit af sífelldum framburði, sveiflurnar eru horfnar og lífríkið er á öru undanhaldi. Í þessu tilfelli getum við aðeins sjálfum okkur um kennt.

Það er mál manna að við Eyjafjallagosið 2010 hafi vötn á afréttum Suðurlands orðið fyrir áföllum vegna gosefna sem í þau barst. Hvort skammtímaáhrif þessa hafi orðið til þess að vatnshiti hafi lækkað þekki ég ekki, en reikna má með að langtímaáhrifin geti orðið nokkur. Það tekur alltaf einhvern tíma fyrir ösku að veðrast og verða að salla og það er einmitt þessi fíngerði salli sem á eftir að berast í vötnin okkar og hamla varmanámi þeirra á næstu árum. Við þessu getum við lítið gert, náttúran hefur sinn gang í þessu eins og svo mörgu öðru. E.t.v. verða aðrir umhverfisþættir til þess að draga úr skaðanum, ef hann verður þá nokkur.

Vantar sól?
Vantar sól?

Haust eða vor

Það er þrennt sem mér finnst skemmtilegast að gera; veiða silung að vori, veiða silung að hausti og svo þess á milli. Oft hefur veiðinni að vori og hausti verið líkt saman, fiskurinn fer sér hægt og svipaðar flugur virka einna best á þessum árstíma. Hvað veðráttuna varðar þá er svo sem allur gangur á því hvernig það hagar sér.

Tökum til dæmis veðrið síðasta vor. Þegar leið á apríl hlýnaði heldur í veðri, að vísu með smá úrkomu, en almennt góð skilyrði fyrir veiði. En með hlýindunum jukust líka leysingar og vötnin sem þegar höfðu rifið af sér ísalög, kólnuðu aftur. Þegar slíkt gerist, þá kemur nokkurs konar bakslag í fiskinn og vorið í honum hægir á sér. Maí kom sterkur inn, hitastigið reis allsnarlega og fiskurinn tók aftur við sér. Það var samt hrollur í mér og það leiddi til stuttra, árangurslausra veiðiferða.

Ég var svo bjartur að spá góðu sumri og löngu mildu hausti. Kannski réði þar mestu að mér finnst skemmtilegra og veiða langt inn í haustið heldur en snemma vors. Oft hef ég gert ágæta veiði í vötnunum á haustin, svona á milli þess að bleikjan hefur hrygnt og urriðinn fer í hrygningu. Þetta er auðvitað að því gefnu að hitastigið falli ekki mjög skart og vindar blási ekki af miklum móð.

Veiðispáin mín gekk alveg eftir, svona til helminga í það minnsta. Eitt besta veiðisumar í langan tíma. Um haustið er allt aðra sögu að segja. Í mínu nær umhverfi var eins og skrúfað hefði verið fyrir þá litlu sól sem sumarið annars færði okkur og nokkrar snarpar lægðir gengu helst til snemma yfir landið og blésu heldur hressilega. Að sama skapi kólnuðu vötnin fyrr en ella og veiðin einfaldlega datt niður þótt vel hafi gefið í ám og lækjum langt að vetri. Langa milda haustið sem ég spáði varð sem sagt heldur stutt í annan endann.

Þetta kallast sveiflur í náttúrunni og ekkert við þeim að segja né gera. Einn þrálátasti misskilningur mannskepnunnar er sá að hún geti stjórnað náttúrunni, en ekki öfugt. Að vísu getum við gert ýmislegt til að raska náttúrunni, jafnvel dælt fiski í ár og vötn sem vart ber hann. En slíkar ráðstafanir skila sér sjaldnast sem dempari á eðlilegar sveiflur náttúrunnar. Þó eitt og eitt haust, jafnvel heilu sumrin bregðist í veiði, þá þarf nú eitthvað meira til ef hrun á að kallast. Náttúrlegar sveiflur í tíðarfari, fiskgengd og afkomu stofna eru einfaldlega eitthvað sem veiðimenn þurfa að lifa við og kannski fyrst og fremst, þeir þurfa að læra að lifa við. Köld vötn að vori eða hausti eru bara eðlileg, ekki förum við að leggja hitaveitu í vötnin okkar, eða hvað? Það er kannski efni í annan pistil.

Haust eða vor?
Haust eða vor?

Vindurinn

Hvað er þetta eiginlega með vindátt og veiði? Í sumar sem leið var nokkuð viðvarandi vindátt hér sunnan heiða sú vestlæga. Um leið og einhver veiðimaður kom með öngulinn í rassinum frá Þingvöllum, þá stóð ekki á skýringunni; Helv… vestanáttin, það gefur aldrei á Þingvöllum í vestanátt.

Einn kunningi minn sagði svipað um Hlíðarvatn í Selvogi, annar sagði reyndar suð-vestan, en það skiptir kannski ekki mestu máli. Það sem ég velti fyrir mér er aftur á móti hvort einhver skýring sé á þessari trú manna. Auðvitað leitaði ég á náðir netsins og leitaði. Jú, eitthvað höfðu menn um vindáttir að segja. Vestanhafs sögðu menn “when the wind is in the east, the fish bite the least” og til mótvægis “when the wind’s in the west, the fish bite the best”. Eitthvað stangaðist þetta nú á við upplifun manna hér á Íslandi en getur átt sér náttúrulegar skýringar.

Landsynningur, þ.e. suðaustanátt sem kemur á undan skilum lægðar, ber yfirleitt með sér hlýtt loft og stöðugara. Ekki endilega betra, en í það minnsta stöðugra. Útsynningurinn / suðvestanáttin sem á ættir sínar að rekja til kaldari svæða í vestri, dregur aftur á móti með sér óstöðugt loft og við getum átt von á öllum skollanum inn á milli bjartra stunda.

En hvað kemur þetta fiskinum við? Jú, ef eitthvað er hægt að segja um blessaðan silunginn, þá er það að hann vill helst af öllu hafa hlutina í nokkuð föstum skorðum og er ekkert sérstaklega hrifin af mikilli tilbreytingu í veðrinu. Ræður þar væntanlega mestu hitastig þar sem hann er jú með kalt blóð og hægir verulega á líkamsstarfseminni ef snögglega kólnar, t.d. þegar kaldur gustur læðist inn að vatninu, hvað þá ef vestan kalsa rigning fylgir með.

Ástæðan fyrir þessum viðsnúningi vestan hafs er væntanleg að kalda loftið þeirra berst að austan þegar kaldur Austur-Grænlandsstraumurinn laumast niður með austurströnd Norður-Ameríku.

Vestanátt?
Vestanátt?

Geðsleg veiði

Hversu öflug tenging ætli sé að milli veiðimanns og fisks? Auðvitað vill veiðimaðurinn að það sé nokkuð örugg tenging, helst lína, taumur og fluga sem er vel föst í fiskinum. En, getur verið að það sé einhver önnur tenging til staðar sem veiðimenn gera sér endilega ekki alltaf grein fyrir? Eitthvað sem fiskurinn skynjar en við ekki.

Ég er væntanlega ekki sá eini sem hef orðið fyrir því að vera eitthvað illa stemmdur þegar ég er komin í veiðina. Stundum er vinnan eitthvað að naga mann eftir daginn eða það örlar á einhverjum pirringi út af einu eða öðru þegar komið er að vatninu. Þegar best lætur undir þessum kringumstæðum þá fjarar vinnan og pirringurinn út eftir nokkur köst og maður slakar á og fer að njóta þess að bara vera og hlutirnir fara að ganga upp. En stundum nær maður bara alls ekki að losa sig við vinnuna eða pirringinn og þá er eins og fiskurinn verði var við það og ekkert gengur upp. Það er alveg saman hvar maður ber niður, hvaða flugu maður notar, stuttur taumur eða langur, ekkert gerist. Mest áberandi er þetta þegar maður fer í félagi við annan og hann veiðir og veiðir á nákvæmlega sömu stöðunum. Undir þessum kringumstæðum hefur mér reynst einna best að láta mig hverfa, rölta eitthvað út eða inn með vatninu, baða eina og eina flugu og sjá til hvort ekki rofar til í kollinum.

Engin veiði hér
Engin veiði hér

Svo eru þeir sem mæta til veiði á kolröngum forsendum. Veðrið er ómögulegt, enginn fiskur í þessu bévítans vatni og síðustu sögur af veiði tómt skrök. „Veiddir þú á þetta? Það getur ekki verið, ég prófaði og fékk ekki högg“ „Fiskur hérna? Nei, ekki séð einn einasta“, „Veiðist hérna? Nei, aldrei veitt neitt hérna“, „Það er ENGINN fiskur í þessu vatni, þetta er bara eitt stórt hrun“. Að veiða með sól í sinni er ef til vill ekki minna um vert heldur en með sól í heiði. Ekki draga dumbundinn með þér í veiði.

Vorið góða, grænt og hlýtt…

Vök á Elliðavatni
Vök á Elliðavatni

Já, þar til fyrir skemmstu var ég eiginlega klár með nokkra punkta í kollinum fyrir vorveiði undir bestu kringumstæðum. Ég geri mér grein fyrir að margir norðan heiða eru ekkert sérstaklega komnir í gírinn fyrir vorið. Það hefur meira að segja slegið fyrir fréttum og athugasemdum af sót-svartri veiðispá fyrir komandi sumar. Ætli maður leyfi nú ekki vorinu aðeins að taka fyrstu skrefinn áður en maður slær vertíðina af.

Að vísu hefur veðrið hér sunnan heiða heldur tekið afturkipp og við fengið smá ábót á veturinn. Hvað um það, veturinn þarf alls ekki að fara illa með vötnin okkar, jafnvel langt fram eftir vori. Þó mörg þeirra vatna sem opna 1. apríl verði ísilögð að stórum hluta, þá þarf oft ekki nema smá vök til að kveikja í fiskinum. Við vitum að súrefni í vatni hefur mikið aðdráttarafl fyrir fiskinn í vötnunum. Það er þekkt trikk að renna flugu við eða í grennd við ísskörina að vori. Þarna lúrir fiskurinn í ýmsum erindum. En hvað er hann svo sem að gera þarna? Jú, að vori losna allskynns pöddur úr ísnum sem hafa frosið þar fastar á umliðnum vikum og þessar pöddur gerir fiskurinn sér að góðu. Þessu til viðbótar má nefna að þegar ísinn bráðnar losnar töluvert af súrefni út í vatnið og það líkar fiskinum vel. Fyrstu skordýrin laðast þar að auki að þessu súrefni og fyrstu sólargeislunum sem læðast niður í vatnið um vakirnar.

Eins og dægurskálið sagði um árið; Horfðu á björtu hliðarnar, heimurinn hann gæti verið verri. Það hýtur að vora á endanum.

Heill sveipur af mat

Púpa rykmýs
Púpa rykmýs

Er virkilega hægt að segja að ‚heill sveipur af mat‘ sé á ferðinni? Jú, það er virkilega hægt og það er ekki langt þangað til að við getum orðið vitni að þessu. Á þeim stöðum sem mýflugan er mest áberandi í vötnunum okkar er lífríkið heldur í rauðari kantinum núna. Lirfur mýflugunnar halda sig sem fastast, í eiginlegri merkinu þess orðs, á botninum. Rauðar og áberandi eru þær eins og negldar niður á botninn en þess er ekki eins langt að bíða og menn gætu haldið að þær losi sig upp af botninum þegar þær taka út næsta síðustu umbreytingu sína, frá lirfu til púpu.

Það er síðan púpan sem brýst um á leið sinni upp að yfirborðinu þar sem hún tekur síðustu umbreytingu sína í flugu. Stök fluga æsir örugglega ekki stóran fisk til töku á leið sinni upp að yfirborðinu, en öðru máli gegnir þegar þær eru margar saman í hóp. En púpurnar taka alls ekki upp á því í hópum að losa sig af botninum og brjótast upp að yfirborðinu. Klak flugunnar er nokkuð dreift í vatninu, jafnvel innan ákveðinna staða í vatninu sem hlýna fyrr en aðrir. Þegar við verðum vör við flugu á yfirborðinu, svona í heilum sveipum og dökka flekki púpuhylkja við bakkana, þá er það straumurinn í vatninu sem hefur þjappað dreifðu klaki saman á einn stað eða í sveip á yfirborðinu. Það er undir þessum kringumstæðum að stóri fiskurinn tekur sig til og úðar í sig flugunni. Fram að þeim tíma á sá litli sviðið. Svei mér, mig dreymir heila sveipi af mat…..

Aðgát við gróður

Eins pirrandi eins og gróðurinn getur verið þegar maður er byrjaður að veiða, þá er hann nú samt einn besti vinur veiðimannsins. Þar sem er gróður, þar er líf. Það er nú þannig að flest skordýr sem fiskurinn étur lifa á eða í gróðri, þannig að mestar líkur eru á að fiskurinn sé ekki langt undan. Síðan má ekki gleyma því að gróðurinn veitir fiskinum skjól og fyllir á súrefnisbirgðir vatnsins.

Gróðurinn í vatninu þarf sólarljós til geta stundað ljóstillífum, þ.e. framleitt súrefni. Þess vegna er það að gróðurinn er oft líflegastur og mestur á grynnri svæðum vatnsins, þetta niður á 7-9 m. dýpi. Flestum þykir það víst alveg nóg dýpi, en gróður finnst nú samt miklu neðan en það. Á grynnstu svæðum vatnsins vex gras og stör sem teygir sig hátt upp fyrir vatnsborðið. Hrein og bein ávísun á bölvað vesen ef maður smellir flugunni út í miðjan vöndulinn. Þar sem dýpið hefur náð rétt um 2 m breytist gróðurinn yfirleitt aðeins. Þar finnum við rótfastan gróður með löngum stilkum sem teygja sig í átt að yfirborðinu þar sem stönglarnir greinast gjarnan í strá eða blöð sem leggjast út yfir vatnsflötinn. Enn neðar í vatnsbolnum finnum við síðan rótfastan gróður og lágvaxnari þörungar. Ef einhver heldur að þetta sé lífvana svæði, þá er það mikill misskilningur. Hér leita skjóls og þrífast minni skordýr í þúsundatali á hverjum fermetra, nærri óþrjótandi uppspretta fæðu verði umhverfið ekki fyrir raski. Það þarf ekki mikið rask frá okkur mönnunum til þurrka gróðurinn út af stórum svæðum í vötnum.

Hin síðari ár hafa vísindamenn beint auknum sjónum að þessu mikilvæga svæði íslenskra vatna, m.a. Þingvallavatns þar sem tærleiki vatnsins þverr með hverju árinu sem líður, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Áhrifavaldar þar eru væntanlega svipaðir þeim sem þekktir eru erlendis; aukin notkun tilbúins áburðar á grenndarsvæðum og almenn og tilfallandi mengun frá umferð og mannabústöðum. Minnkandi tærleiki hefur síðan letjandi áhrif á vöxt plantna, skordýra og þannig fiskistofna í vatninu. Góður er ekki sjálfgefinn í því umhverfi sem við höfum hve mest áhrif á.

fos_graseyja
Eyja eða gras?

Laxárvatnsvirkjun #1

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að RARIK hættir rekstri Laxárvatnsvirkjunar um næstu áramót. Þegar ég frétti fyrst af þessu laumaðist aftur að mér hugmynd sem fyrst hafði vaknað þegar ég renndi yfir nokkrar skýrslu Veiðimálastofnunar um Laxá á Ásum, sjá hér. Hugmyndin litaðist svolítið af þeirri vakningu sem orðið hefur á umliðnum árum um endurheimt náttúrulegra vatnsfarvega í heiminum. Og viti menn; Vötn og veiði voru fyrstir með fréttirnar eins og svo oft áður í gær Laxá á Ásum: Virkjun hætt, stíflur rifnar. Þessar stíflur, Laxárvatnsstífla og Svínavatnsstífla sem reistar voru á upphafsárum virkjunarinnar á miðjum 4 áratug síðustu aldar verða loksins rifnar og Laxá á Ásum endurheimtir óskiptan farveg sinn frá upptökum til ósa. Þetta einstaka tækifæri okkar til að færa vatnasviðið til fyrra horfs ætlar raunverulega að verða að veruleika.

Það álit fræðinga var þegar orðið ljóst árið 1987 að virkjunarsvæðið sem nú verður endurheimt „verði að telja að svæðið væri mun betra uppeldissvæði ef Laxárvatnsstíflan væri ekki til staðarheimild: Fiskistofa. Úr skýrslum Veiðimálastofnunar hefur mátt lesa mörg undanfarin ár að ítrekað hefur farvegur Efri-Laxár frá útfalli Svínavatns þornað og því hefur viðkoma seiða á þeim slóðum oft verið mjög léleg.

Þrátt fyrir að menn renni töluvert blint í sjóinn með niðurrif þessara stíflna og viti ógjörla hvaða áhrif þessi framkvæmd hefur til lengri tíma hvað varðar lífríkið á þessum slóðum, er þetta frábært fyrsta skref í endurheimt náttúrulegra vatnsfarvega á Íslandi. Til hamingju með áfangan.

Laxárvatnsstífla
Laxárvatnsstífla

Ummæli

22.10.2013 – Valdimar Sæmundsson: Væri ekki ráð að gera hið sama fyrir Skorradalsvatn? Víða er mjög aðgrunnt við vatnið og eru hrygningarstöðvar stöðugt eyðilagðar með því að hækka og lækka stöðugt í vatninu. Breytingin er alltaf fyrirvaralaus og mjög hröð, allt að meter innan mánaðar.

Svar: Jú, miðað við það sem maður hefur lesið um bakkarof og sveiflur í vatnshæð í Skorradalnum væri það ekki svo vitlaus hugmynd. Annars eru nokkrar stíflurnar sem manni dettur í hug sem betur hefðu aldrei verið byggðar hvort heldur vegna virkjana eða vatnsmiðlunar.

Gróðurbakkinn

Ég ætla að ljóstra upp smá leyndarmáli, ekki alveg en næstum því. Eitt af uppáhalds vötnunum mínum er undir þann klafa sett að vatnsborðið getur rokkað allrosalega milli árstíða. Almennt er þetta ekki heppilegt fyrir lífríkið, fiskurinn verður nokkuð áttaviltur þegar kemur að hrygningu, sérstaklega ef sveiflur í vatnsborði eru ekki árstíðabundnar.

Gróðurbakki
Gróðurbakki

En aftur að þessu vatni mínu. Vatnsborðið á vanda til að falla verulega yfir sumarið og þá kemur oft allt annað landslag á botninum í ljós. Sólarljósið nær betur niður í vatnsbolinn og gróður tekur við sér á stöðum sem annars eru snauðir að vetri eða vori. Einn svona staður í vatninu er meirihluta ársins langt úti í dýpinu og ég hef prófað að vaða í kastfæri við þennan stað þegar þannig stendur á, sökkt púpum vel niður, skannað svæðið kerfisbundið án þess að verða nokkurn tíma var við líf á þessum slóðum. Eina sem ég hef haft upp úr krafsinu eru visnaðar gróðurleyfar og rætur. Þegar aftur vatnsborðið lækkar, þá færist fjör í leikinn. Um leið og sólarljósið kemst að þessum gróðri tekur hann við sér og skömmu síðar tekur fiskurinn sér bólfestu í grend. Svona staði er að finna víða í vötnum og um að gera fyrir veiðimenn að heimsækja vötnin á mismunandi árstímum. Þar sem allt er dautt að vori, getur verið fjör að hausti.

Sorgarsaga

Það er sorgarsaga að segja frá, en á ferðum mínum í sumar hef ég sjaldan séð jafn mikið af rusli við hin ýmsu vötn okkar Íslendinga heldur en núna. Girnis- og taumaflækjur ásamt ýmsu öðru rusli sem menn hafa borið með sér á bakkana liggja víða eins og hráviði fyrir manna og dýra fótum.

Samtýningur af bakkanum
Samtýningur af bakkanum

Það er haft eftir land- og veiðivörðum við Þingvallavatn að það hafi orðið mikil bylting í umgengni veiðimanna þar á bæ eftir fyrirmyndar samkomulag sem gert var þar um bætta umgengni veiðimanna sl. vor. Það væri óskandi að sú hugarfarsbreyting sem átti sér greinilega stað við Þingvelli hefði náð betur til annarra veiðistaða á Íslandi þetta sumar.

Bjór- og gosdrykkjadósir, samlokupokar, tissjú og notaður salernispappír á bak við næsta stein er ekki óalgengt skraut annars fallegra veiðistaða og víða hefur þetta aukist verulega frá því sem áður var. Ég er ekki einn um þessa upplifun, fleiri veiðimenn hafa vakið máls á þessu við mig. Þetta er ekki aðeins til mikillar óprýði og rýrir verulega ánægju manns af útivist, heldur er þetta einnig stór hættulegt dýralífi við vötnin.

Nýlega var ég við Hítarvatn á Mýrum þar sem ég gekk fram á himbrima þar sem hann húkti í flæðarmálinu með girni vafið um höfuð, háls og gogg þannig að hann gat enga björg sér veitt.

Himmi frá Hítarvatni - Smellið fyrir stærri mynd
Himmi frá Hítarvatni – Smellið fyrir stærri mynd

Svo var af fuglinum dregið að ég gat án fyrirhafnar fangað hann í háf og klippt girnið utan af honum þannig að honum varð ekki frekar meint af.

Dræsurnar sem ég náði að klippa af fuglinum voru væntanlega leifar gamallar festu í botni sem hafði slitnað, þó ekki víst þar sem svona girnisflækjur geta auðveldlega fokið út á vatnið og orðið sund- og vaðfuglum skeinuhættar.

Afklippurnar
Afklippurnar

Það er virkilega þörf á víðtækari vitundarvakningu meðal veiði- og útivistarfólks um almenna kurteisi við náttúruna okkar. Hvaða stefnu sem menn hafa í náttúruvernd, já eða stefnuleysi, þá er ekkert sem breytir því að við eigum ekki náttúruna, hún er hluti af arfleið sem okkur ber að skila í sama ef ekki betra ástandi til barnanna okkar. Að launum fáum við að njóta hennar og nýta með skynsamlegum hætti.

Vöðluvasinn
Vöðluvasinn

Ég hef áður haft orð á því að allt sem vil teljum nauðsynlegt að bera með okkur út í náttúruna, getum við einnig tekið með okkur heim. Þetta á ekki síst við um umbúðir og pappír sem sumir geta ekki verið án ef þeir skreppa afsíðis. Það er svo misjafnt hvað menn þurfa til þess að draga leifarnar með sér heim eða gæta þess að þær fjúki ekki ‚óvart‘ frá þeim. Sumum nægir vasinn á vöðlunum, aðrir þurfa heilu plastpokana, en eitt er víst, ef veiðimaður hefur þrótt til að bera eitthvað með sér á veiðistað ætti hann ekki að veiða svo lengi að hann skorti þrótt til að bera það sama með sér heim á leið.

Netapokinn
Netapokinn

Sjálfur nota ég netapoka undir aflann, svona þegar hann gefst á annað borð, en eins og aflabrögðin hafa stundum verið í sumar hefur pokinn komið í aðrar en ekki síðri þarfir. Í pokann safna ég girnisflækjum, dósum og öðru drasli sem verður á vegi mínum og tæmi síðan í næsta rusladall, jafnvel þótt hann sé nokkra tugi km. í burtu. Það er ótrúlegt ruslið sem maður rekst á og hefur safnað þannig saman í sumar. Að vísu verð ég að játa að sumt týni ég ekki upp, þar á meðal er notaður salernispappír. Hann getur mamma þess sem notaði komið og sótt því stundum hef ég það á tilfinningunni að það sé það sem sumir bíði eftir að gerist. Sumir virðast aldrei vaxa upp úr því að mamma komi og taki til eftir þá.

Veiðimenn, reynum nú að vaxa upp úr barndóminum og sýnum meiri ábyrgð og umhyggju fyrir náttúrunni. Sú móðir er frábrugðin okkar, það erum við sem þurfum að gæta hennar.

Kalt vor til bóta?

Ég hef verið að glugga í skýrslu Veiðimálastofnunar um rannsóknir í Hlíðarvatni í Selvogi árið 2012. Í skýrslunni kemur fram að fjöldi fiska, veiddir á stöng og í rannsóknarnet fækkaði stórlega á milli áranna 2008 og 2012, nokkuð sem kemur ekki á óvart miðað við umræðuna í fyrra. Þrátt fyrir þessa fækkun kemur fram að lengdardreifing fiskjar er sú sama á milli ára, þ.e. fiskurinn hefur ekki minnkað sem er skv. mínum viti ákveðin vísbending um að vatnið sé ekki ofsetið. En hvað er þá á ferðinni? Jú, væntanlega er orsakanna að leita í hitastigi vatnsins, það hefur hækkað í mælingu um 1,4°C og Hlíðarvatnsjaxlarnir hafa kvartað sáran undan því að gamlir góðir veiðistaðir séu fisklausir.

Ég var að velta fyrir mér samhenginu þarna á milli þegar Veðurstofan smellti inn uppgjöri á nýliðnum júní; Meðalhiti mældist 9,9 stig í Reykjavík…. 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu júnímánaða. Og þegar maí er skoðaður þá er sagan ekki ósvipuð; Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig…. 1,2 stigum undir meðallagi maímánaða síðustu 10 ára. Þetta er kaldasti maí í Reykjavík síðan 2005 og þar hafið þið það, ekki furða að mér væri kalt í vorveiðinni. Þegar maður ber síðan saman fréttir úr Hlíðarvatni á milli vora þá er engum blöðum um það að fletta að s.l. vor var gjöfulla heldur en í fyrra. Humm, kaldara vor og fiskunum fjölgar í Hlíðarvatni? Nei, tæplega. Ætli skýringanna sé ekki frekar að leita í því að gömlu góðu veiðistaðirnir hafi gefið í vor vegna þess að vatnið var kaldara, nær því sem það var metárin 2001 og 2009.

Fyrir margt löngu síðan settu Hafnfirðingar saman eitt besta veiðikort af Hlíðarvatni sem sést hefur, sjá hér. Þar eru allir ‚gömlu góðu‘ staðirnir merktir skilmerkilega inn og svo er hægt að nálgast mikið lesmál um besta tíma og flugur í Áróðri Ármanna frá 2009. Eins og áður segir gáfu þessir ‚gömlu góðu‘ flotta veiði í kuldanum í vor, sbr. Botnavíkina, og Hlíðarvatnsjaxlar tóku að kætast. En núna þegar loksins hlýnar og vísbendingar um að vatnið hlýni skart er kannski rétt að leita út fyrir ‚gömlu góðu‘ veiðistaðina, veiða utar og á meira dýpi en menn hafa almennt gert áður. Ég hef þá trú að vatnið geymi enn sem fyrr, öflugan stofn bleikju sem nú hefur aðeins fært sig um set í vatninu, sæki í kjörhitastigi sitt og þar með gefi grynnri (hlýrri) veiðistaðir verr en áður. Hvort maður verður að aðlaga flugnavalið öðrum stöðum í vatninu verður svo bara að koma í ljós.

Ég ætla í það minnsta að reyna fyrir mér í næstu viku, búinn að tryggja mér dag á veida.is og nú skal hugdettan sannreynd. Hvort sem aflinn verður einhver eða enginn, þá er Hlíðarvatnsdögum alltaf vel varið og mér sýnist að enn sé hægt að næla sér í fína daga í húsi Árbliks.

Hlíðarvatn í Selvogi
Hlíðarvatn í Selvogi

Draumaflugan

Draumaflugan?
Draumaflugan?

Draumafluga hvers veiðimanns er væntanlega sú sem hann getur alltaf tekið upp úr boxinu, hnýtt á tauminn, kastað og fengið viðbrögð við innan stundar. Að finna draumafluguna er fjarlægt markmið sem fæstum hefur nokkurn tímann tekist. Það næsta því sem flestir komast er að geta farið nokkrum sinnum í sama eða svipuð vötn, valið sömu fluguna og fengið fisk. En um leið og eitthvað bregður út frá norminu er dæmið ónýtt. Breyturnar í vatnaveiðinni eru svo margar og ef veiðimaðurinn bregst ekki við breyttum aðstæðum þá eru litlar líkur á að sama flugan gefi alltaf. Ein mikilvægasta breytan er vitaskuld tíminn. Tími dags, tími árs og síðast en ekki síst sá tími sem veiðimaðurinn hefur boðið fiskinum sömu fluguna í veiðiferðinni. Sumir veiðimenn veiða aðeins frá rökkri og fram í dagrenningu. „Fiskurinn tekur ekkert á daginn“ segja þeir e.t.v. Fiskur étur hvenær sem er, svo lengi sem eitthvað er að éta. Veiði maðurinn ekkert utan náttmála eru miklu meiri líkur á að hann viti ekki hvar fiskurinn heldur sig á daginn eða hann hefur einfaldlega aldrei ratað á réttu fluguna. Er sem sagt, að bjóða eitthvað sem er bara alls ekki á matseðlinum einmitt þá stundina. Næstum það sama má segja um tíma ársins, þ.e. svo lengi sem fiskurinn sé ekki lagstur í dvala vegna kulda eða fæðuskorts. Á vorin er lífið rétt að kvikna, skordýr vatnsins með stærsta móti (þau éta jú allt árið) og þá þýðir ekkert að bjóða einhver peð í stærðum #24 eða minni. Um leið og stóru feitu pöddurnar hafa klakist út byrjar nýtt tímabil, tímabil ungviðisins og þá fara flugurnar að minnka.

Ekki alltaf eins
Ekki alltaf eins

Veðrið ræður líka miklu um veiðni manna. Sumir veiðimenn einfaldlega draga allt í land þegar byrjar að rigna eða vindur að blása. Aðrir láta sig hafa það, klæða sig eftir veðri og halda áfram. Rigning, svo fremi hún berji ekki vatnið endalaust og deyfi fiskinn niður á botn, kemur með aukið súrefni í vatnið. Með auknu súrefni fara pöddurnar á stjá og fiskurinn líka. Fyrstu tímarnir eftir stórkostlega rigningu eru oft frábært veiðiveður, allt lífríkið á fullu og fiskurinn í stuði.

Birtan hefur einnig töluvert um veiðimöguleika okkar að segja. Glampandi sól er sjaldan fyrirboði mikillar veiði í grunnu vatni. Enn og aftur; silungurinn hefur engin augnlok og fær einfaldlega ofbirtu í augun af því að glápa upp í sólina. En, ef veiðimaðurinn skiptir um flugu og veiðir nær botninum er alveg eins líklegt að þar leynist silungur sem hatar sólbað. Takið eftir; skiptir um flugu er e.t.v. lykillinn í þessari setningu því oft er því þannig farið að sama skordýrið lítur alls ekki eins út þegar það heldur til á botninum eða uppi við yfirborðið.

Draumaflugan mín er flugan sem ég á í nokkrum útgáfum, jafnvel litbrigðum og í nokkrum stærðum. Ég get byrjað á henni í stærri stærð á vorin og veitt hana við botninn í upphafi vertíðar og þegar mjög bjart er yfir. Þegar líður á sumarið tek ég fram minni afbrigðin, veiði ofar í vatnsborðinu og leik mér gjarnan með litina. Stundum verð ég að leyfa henni að eiga sviðið, nota litsterka glepju þegar lítið er að gerast þannig að hún virki svolítið eins og auglýsingaskilti á silunginn. Hann er ekkert skárri en við, ef sama áreitið dynur á honum í svolítinn tíma, þá lætur hann loks undan og kaupir það sem maður hefur að selja.

Ummæli

03.06.2013 – Veiði-Eiður:  Frábær grein Kristján!

Svar: Takk, maður á sína daga 🙂

03.06.2013 – ÁsiSkemmtileg grein. Ég á mína drauma og oftast kemur pheasant tail fyrir í þeim. Takk fyrir að deila hugrenningunum.

Plastpokar

Plastpokar

Ég veit, þeir eru ekkert stórkostlega umhverfisvænir en ef maður passar þá þokkalega, þá geta þeir komið að góðum notum í veiðinni. Ég á svona rúllu af gráum ruslapokum í veiðitöskunni minni og yfirleitt rúlla ég einum út og festi við töskuna þegar ég byrja veiði (þú veist, bara svona með einum góðum hnút um handfangið á henni). Þegar ég svo rekst á eitthvað rusl sem fokið hefur í ógáti frá öðrum veiðimönnum, treð ég því í pokann minn. Takið eftir; fokið hefur í ógáti því ekki dettur mér í huga að veiðimenn noti íslenska náttúru viljandi sem ruslatunnu.

Líftími

Léleg kveðja

Meðalaldur urriða er rétt um 5 ár. Það tekur bjórdós u.þ.b. 10 ár að brotna niður í náttúrunni, glerflaskan lifir margfalt lengur, plastið eitthvað álíka. Ef veiðimaður hefur burði til að bera með sér fulla flösku/dós á veiðistað, ætti hann einnig að hafa burði til taka tómar umbúðirnar með sér heim aftur. Það er öfugsnúin upplifun að sjá veiðimann ástunda veiða/sleppa og skömmu síðar henda frá sér í fögnuði bjórdós eða flösku, það er léleg kveðja og þökk sem fylgir fiskinum út ævina og afkomendum hans.

Ummæli

06.05.2013 – Siggi Kr.Góð vísa sem verður aldrei of oft kveðin – tökum allt rusl með okkur heim af veiðislóð!

Undan vindi – aftur

Kalt vor
Kalt vor

Á þessum árstíma eru bæði veiðimenn og fiskar á höttunum eftir góðu veðri, hlýrra vatni og fæðu. Það síðast nefnda á kannski mest við um fiskana og jú, líka þá veiðimenn sem hungrar orðið í nýveiddan silung með bráðnu smjöri, nokkrum kornum af salti og …….

Það verður væntanlega aldrei of brýnt fyrir veiðimönnum að á vorin leitar fiskurinn í hlýrra vatn vegna þess að hann veit að þar er lífið. Ef svo mjög ólíklega vildi til að einhverrar golu gætir að vori, við erum jú að tala um Ísland sem er þekkt fyrir logn og blíðu endalaust, þá er alveg tilvalið að koma sér fyrir við bakkann áveðurs. Hlýrra vatn leitar upp, vindurinn myndar öldur á yfirborðinu sem draga hlýtt vatnið, ætið og fiskinn með sér. Meira að segja harðasti óðalsherra vatnsins, urriðinn, lætur sig hafa það að synda töluverða veglengd ef von er á hlaðborði og þá er ekki verra að sitja fyrir honum með gómsæta flugu í vatninu.

Stubbar

Stubbabox

Ég er alveg óhræddur við að viðurkenna að ég hef notað tóbak, smávindla þegar sest er niður, lúin bein hvíld og aumir kastvöðvar nuddaðir. Ég er líka alveg óhræddur við að viðurkenna að fátt fer meira í taugarnar á mér heldur en sígarettu- og vindlastubbar úti í náttúrunni. Flest erum við að vísu orðin stafrænt sinnuð í myndatökum, en þau finnast nú samt víða þessi litlu svörtu box undan gömlu 35mm filmunum og þau eru alveg tilvalinn undir stubbana. Þau fara vel í vasa og mjög hentugt að geta lokað fýlupúkana inni þegar búið er að drepa í þeim í stað þess að skjóta þeim úr augsýn eða út í vatnið.