Eftir að ég laumaði hér inn um daginn smá grein um UV prófanir mínar, þá var ég inntur ítrekað eftir því hvers vegna ég væri að þessu. Einhverjir félaga minna sögðu mér hreint út að þetta væri tóm steypa, bara til þess gerð að selja okkur flugunördunum eitthvað sem gerði ekkert gagn. Var þá helst verið að vísa í ljómandi virkni UV fluorcent líms, þ.e. það ætti að ljóma í vatninu fyrir tilstuðlan minni birtu.
Það var nú ekki svo ég hafi ekki verið búinn að kynna mér ýmsar greinar um þetta galdraefni áður en ég fór að prófa mig áfram og vitaskuld var ég búinn að lesa ýmsa dóma um UV ljómandi efni. Margir þeirra endurspegluðu einmitt ofangreint viðmót, en aðrir mæltu eindregið með því að prófa. Sjálfur hef ég prófað annað ljómandi efni heldur en UV lím í gegnum tíðina og það verður nú bara að segjast, mér finnst það virka betur en hefðbundið þegar degi fer að halla og í gruggugu vatni.
Það skemmir væntanlega ekki að hafa kynnt sér aðeins hvernig sjón laxfiskar hafa áður en menn drepa svona nýjungar í fæðingu. Í fæðingu er e.t.v. heldur ofaukið hjá mér, þetta efni hefur verið á markaðnum í fjölda ára og margir notað það þótt það hafi aðeins nýlega ratað inn á mitt borð.
Urriði og bleikja hafa ekkert óáþekka sjón og við mennirnir og þeir greina liti, sem mér skilst að sé ekkert endilega sjálfgefið í dýraríkinu. Að vísu greina þessar tegundir ekki alveg nákvæmalega sömu liti og við, en mjög nálægt því samt. Þetta ættum við flugunördarnir að vita vegna þess að broddur, kragi eða skott í áberandi lit á flugu hefur oft gefið mun betur en einlit og flöt fluga. Að þessu sögðu verð ég samt að geta þess að sköpulag (útlínur) flugunnar hefur töluvert að segja, rétt eins og skörp litaskil í flugu.

Manskepnan er með s.k. RGB sjón, þ.e. við skynjum ljós af rauðri (R) bylgjulengd, grænni (G) og blárri (B). Þannig eru nú augun í okkur gerð og ef við viljum sjá eitthvað annað, þá verðum við að styðjast við einhverjar græjur sem umbreyta þeirri bylgjulengd yfir á R, G eða B, rétt eins og á myndinni hér að ofan þar sem við blöndum R og B saman til að fá fjólublánn lit. Með þeim fyrirvara að ég er ekki líffræði- eða læknismenntaður, þá ræður samspil fruma í sjónhimnu okkar og keila í auga því hvað við sjáum. Þegar ljós fer þverrandi, þá eykst virkni þessara frumna þannig að við greinum útlínur en litaskynjun hrakar snarlega. Þetta er einfaldlega vegna þess að keilurnar sem skynja RGB þurfa ákveðna birtu til til að virka og þegar öll birta þverr verðum við litblind og á endanum hætta frumurnar að virka og við verðum alblind.
Upp úr 1882 komu fyrstu vísbendingar fram um að dýr skynji aðrar bylgjulengdir ljóss heldur en menn. Það ljós sem kemur næst RGB er það útbjólubláa (UV) og rannsóknir á því hvernig dýr bregðast við þessu ljósi sýndu að t.d. margar tegundir fiska skynja þetta ljós. Þeir eru nefnilega ekki aðeins með þrjár tegundir keila í auganu, heldur fjórar. Þannig er því einmitt farið með silunginn. Þeir sjá sömu liti og við, þ.e. rautt, grænt og blátt og verða í raun jafn litblindir og við í myrkri, en þeir skynja útbjólublátt ljós og geta því komið auga á æti í myrki, svo lengi sem af því stafar útfjólublátt ljós. Þetta hafa veiðimenn nýtt sér um langan aldur með því að skreyta flugur sínar með ljómandi efnum eins og t.d. fluorcent þráðum. En eru fiskar þá einhverju bættari að nóttu til heldur en við? Jú, útfjólubláa ljósið er lengur að berast til jarðar og það heldur áfram að berast til jarðar löngu eftir að við hættum að sjá til. Auk þess þá á útfjólubláa ljósið auðveldara með að berast niður í gruggugt eða djúpt vatn heldur en það sem er okkur sýnilegt. Þannig sér urriðinn frekar útfjólublátt ljómandi efni þegar dýpra í vatnið er komið og það sem meira er, hann sér útfjólubláa ljósið úr meiri fjarlægð heldur en RGB liti.
Eigum við að eiga útfjólubláar flugur í boxinu? Mitt svar er einfaldlega já, en að sama skapi ættum við ekki að láta okkur bregða þótt aðeins smærri fiskur bíti á UV flugurnar okkar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að virkni UV keilnanna í augum urriðans fer hratt minnkandi með árunum, UV sjón hans helmingast t.d. á þremur til fjórum árum.