Þeir leynast víða sauðirnir

Fyrir hálfum mánuði síðan birti ég hugleiðingar mínar um slælega umgengni við náttúru Íslands. Kveikjan að þeim hugleiðingum mínum var því miður umgengni veiðimanna við Hítarvatn sem ég varð vitni að.

Í framhaldi þessa lenti ég á smá spjalli við kunningja mína í vinnunni og þá kom til tals hjarðhegðun okkar mannfólksins. Það virðist vera áberandi að þar sem einn sóði drepur niður fæti, þar spretta upp nokkrir til viðbótar og þannig getur smáræði orðið að ruslahaug. Það verður að viðurkennast að ég hef alveg fundið fyrir einkennum þessarar hjarðhegðunar hjá mér. Þegar ég kem að veiðistað þar sem umgengni hefur verið einstaklega slæleg, þá getur mig alveg brostið geð til að taka upp ruslið sem ég rekst á. Þetta eru aðeins væg einkenni og hafa blessunarlega engin áhrif á það hvernig ég hafa mínum sorpmálum, en sauðslegt engu að síður.

Taumar og taumaendar fara einfaldlega niður í vöðlurnar mínar yfir daginn. Það eru reyndar til einstaklega sniðugar græjur sem hægt er að nota til að vinda taumaenda og girni inn á og tæma þegar komið er að næstu ruslatunnu en mér dugar vöðluvasinn eða brjóstmálið til að geyma mínar afklippur.

Eftir notkun fara mínar drykkjarumbúðir einfaldlega aftur ofan í þann vasa eða bakpoka sem ég notaði til að bera þær með mér á veiðistað. Þetta er nú ekki flókið og ætti að vera á flestra færi, ekkert frekar en að ganga frá pappír eftir að hafa gengið örna sinna.

En svo kemur að slógi og beinagörðum sem falla til á veiðistað. Einn kunningi minn vakti mig til umhugsunar um að margir veiðimenn hafa bara ekki hugmynd um það sem á sér stað þegar slógi eða fiskúrgangi er skilað aftur í vötnin. Sumir veiðimenn gera þetta í þeirri góðu trú að þeir séu að fóðra fiskinn sem eftir er í vatninu. Þetta er leiður misskilningur og útbreiddur. Við það að henda slógi í vatnið eða skilja það eftir við bakkann eru veiðimenn að viðhalda hringrás bandorma í náttúrunni sem aðeins veikir fiskistofnana í nærumhverfinu. Það eru helst krabbadýr og sviflægir fiskar sem nýta sér úrgang og þannig komast egg bandorms aftur inn í fæðukeðjuna og enda með einum eða öðrum hætti í lokahýsil sínum; laxi, urriða, bleikju, fugli eða spendýrum þar sem þeir fjölga sér enn frekar. Egg ormsins skila sér síðan aftur út í náttúruna með saur og þannig hefst hringrásin upp á nýtt. Það er því engum greiði gerður að skilja slóg og fiskúrgang eftir á veiðislóð. Komum fiskúrgangi í ruslið rétt eins og öðru sem til fellur á veiðistað.

Lífsferill bandorms
Lífsferill bandorms – © FOS.IS

Af hverju ekki?

Rétt eins jólasveinar fara á stjá í desember og páskaungar skjóta upp kollinum í mars eða apríl, þá vaknar hún á hverju ári spurningin um það hvers vegna ekki má nota síld og makríl sem beitu í hinu eða þessu vatninu. Þetta sumar er engin undantekning frá reglunni. En hvers vegna er þessi beita bönnuð í eins mörgum vötnum og raun ber vitni?

Ekki veit ég til þess að sérstakar rannsóknir hafi verið gerðar á skaðsemi mismunandi beitu í vötnum, en þær eru nokkrar til sem lýsa sýkingum í síld og makríl, sýkingum sem hæglega geta haft áhrif á ferskvatnsfiska.

Ein tegund hringorms, hvalormur (síldarormur) nýtir krabbadýr sem burðarhýsil þar sem ormurinn þroskast og verður smithæfur. Þess vegna eru fiskar sem nærast á krabbadýrum (t.d. loðna, sandsíli, síld og makríll) líklegir millihýslar hvalorms sem er, vel að merkja, ríkjandi tegund hringorma í norður Atlantshafi. En sýkingin er alls ekki einskorðuð við framangreindar tegundir. Hvalormur finnst í sjógengnum fiski, s.s. sjóreið, sjóbirtingi og laxi. Gotraufarsýking í laxi er t.d. vegna hvalorms. Nánar um hringorma hér.

Önnur sýking sem herjar á síld og makríl er svipudýr að nafni Ichthyophonus hoferi. Þetta sníkjudýr hefur verið til staðar í íslensku sumargotsíldinni frá árinu 1991 og nýverið birti Hafró upplýsingar um að þessi sýking í stofninum sé aftur á uppleið. Eitt einkenni þessarar sýkingar er blæðing í holdi og líffærum fiska sem leiðir oft til dauða. Spendýrum stafar ekki hætta af þessu smiti en fæstum  þykir sýktur fiskur kræsilegur til átu eins og gefur að skilja enda getur nokkuð óþægileg lykt fylgt þessari sýkingu. Þekkt smitleið þessa sníkils er þegar fiskur étur sýktan vef. Í gegnum tíðina hefur þessi sníkill valdið töluverðum skaða í lax- og silungseldi víða um heim ásamt því að leggjast á stofna villtra laxfiska. Þótt þessi sýking nái sér ekki á strik í ferskvatni, benda rannsóknir til að sýking geti eftir sem áður átt sér stað í ferskvatni.

Sýking í síld - © Mast
Sýking í síld – © Mast

Nú kann einhver að benda á að hér hafi ég ekki dregið fram neinar vísindalegar sannanir fyrir bráðri smithættu af síld og makríl, en sé litið til heimilda má leiða líkum að smitleiðum sem ber að varast. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að leyfa villtum ferskvatnsstofnum okkar að njóta vafans, í þessu eins og öllu öðru sem getur stefnt framtíð þeim og heilbrigði í hættu. Það er undir veiðifélögunum komið að setja hömlur á notkun lífrænnar beitu og það verður víst seint einhugur um slíkar ákvarðanir, en séu þær settar ber veiðimönnum að fylgja þeim hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Þess ber að geta að þetta efni átti upphaflega að vera innlegg mitt í spjallþráð á Facebook, en þegar sá þráður fór að einkennast af upphrópunum og ósvífnum orðahnippingum á báða bóga, lét ég ógert að taka þátt í þeirri umræðu og ákvað að birta þetta hér á síðunni í staðinn.
Hafi einhver athugasemdir eða ábendingar fram að færa um þessa samantekt mína, þá er viðkomandi velkomið að senda mér slíkt, en orðahnippingar og upphrópanir mun ég ekki birta.

Heimildir, umfram þær sem finna má í tengdum greinum:
Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins – Hringormar
Hafrannsóknarstofnun – Ichthyophonus hoferi sníkjudýr í fiskum
Mast – Ichthyophonus í síld
Wildlife Disease Association – Effects of Ichthyophonus…
University of Goteborg – Hassan Rahimian

Er mamma þín hér?

Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

Angur

Ég deili greinum og myndum af þessum vef á ýmsum samfélagsmiðlum. Einn þessara miðla er Instagram þar sem ég hef verið að setja inn myndir úr veiðiferðum og einstaka fiski sem slæðist á land undir merkinu @fosvefur  Þær eru yfirleitt ekki margar myndirnar sem ég birti af mínum aflabrögðum, en um daginn deildi ég einni sem tekin var í lok fyrsta veiðidags í Veiðivötnum hjá okkur hjónum í fyrra. Myndin er nokkuð hressileg, tekin við Litlasjó þar sem ég hafði raðað afla dagsins á vatnsbakkann.

Umrædd mynd á Instagram

Með myndinni var stuttorð lýsing, ekki ósvipuð þeirri hér að ofan. Ekki leið á löngu áður en hún hafði fengið 32♥ sem jafngilda Like á Facebook. En svo komu ein ummæli sem hafa verið að angra mig aðeins; 23 dead fish. Hideous ….  sem útleggst á íslensku; 23 dauðir fiskar. Hræðilegt ….  Ég sagði að þetta hefði angrað mig, ekki það að einhver hafi skrifað þessi ummæli, heldur sú áleitna spurning hvort mynd sem þessi stuði veiðimenn sem gæta hófsemi í veiði og láta sér nægja einn til tvo fiska í soðið eða sleppi jafnvel öllum fiskum, sama hvar þeir eru veiddir og hverrar tegundar þeir eru.

Ég geri á engan hátt ráð fyrir því að þessi erlendi aðili og ummælahöfundur þekki til Veiðivatna og Litlasjós og geri sér því grein fyrir að vatnið er með stærstu sleppitjörnum norðan Alpafjalla. Því er nú einu sinni þannig farið að urriði á almennt fárra kosta völ til hrygningar í Veiðivötnum og stofninum hefur verið viðhaldið með seiðasleppingum. En burtséð frá því, þá gæti þessi mynd auðveldleg talist sönnun á frystikistuveiði eins og einhverjir kalla það að veiða sér til matar og þá ekki aðeins eina máltíð í einu. En, ég skammast mín ekkert fyrir að veiða mér til matar. Fiskur er frábær fæða, svo maður tali nú ekki um þegar hann kemur úr hreinni náttúru norðurhjara veraldar.

Á sama tíma og neysla fiskpróteins hefur rokið upp á heimsvísu er talað um að ríflega 30% þess komi nú úr eldisfiski. Þetta eru ógnvekjandi tölur því til að framleiða 1 kg. af eldisfiski þarf að gefa honum fóður sem unnið er úr 1,46 kg. af viltum fiski (lýsi og fiskimjöl) og 1,3 kg. af jurtaafurðum (soja, repja, maís og hveiti). Þetta er því í raun fáránleg sóun og því þykir mér óþægilegra að sjá metralangar raðir af eldislaxi og silungi í stórmörkuðum eins og á myndinni hér að neðan, heldur en af hressilegum afla stangveiðimanna. Þessi mynd er tekin í stórmarkaði rétt við höfnina í Bergen í Noregi. Hér er ekki einn einasti villtur fiskur á myndinni, þetta er allt eldisfiskur úr innfjörðum Noregs og þetta fiskborð er rómað fyrir stærð sína, úrval og umfang.

Frá Bergen í Noregi
Frá Bergen í Noregi

Ég velti því fyrir mér hvaða ummæli vinur minn á Instagram léti falla ef ég mundi birta þessa mynd þar. Þegar ég lék mér að þessu í huganum, sá ég hann fyrir mér með gómsætt sushi úr eldislaxi í glansandi plastboxinu sínu á leið heim til sín að dissa stangveiðimenn á Instagram. Verði honum að góðu, vonandi veit hann að plastboxið endar í holdi sjávardýranna sem síðan verða notuð sem fóður í eldislaxinn sem hann svo étur í sushi eftir einhver ár. Á meðan ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum eða gröfnum urriða úr Veiðivötnum.

 

Silungur vs. silungur

Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.

Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.

Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.

Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.

Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.

Urriði í straumi
Urriði í straumi

Ályktun gegn sjókvíaeldi

Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.  Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.  Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.  Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.

Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.

Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu