Á tyllidögum eru Íslendingar fremstir meðal jafningja og langsamlega fremstir þegar miðað er við höfðatölu, um það er sjaldnast deilt. Við erum framsækin og áræðin þegar því er að skipta, útsjónarsöm og raungóð að upplagi. En svo eigum við það einnig til að kokgleypa beituna þegar engt er fyrir okkur með aurum og krónum, sama hver súr og úldin beitan er.

Vinnufélagi minn er nýkominn heim úr hjólaferð um Cotswold á Englandi og þar rakst hann á þessa perlu og í gær greip hann mig á ganginum, sýndi mér þessa mynd og spurði ,Veistu hvað þetta er?‘ Mig rak í rogastans og rétt svar kom mér svo á óvart að ég ætla að velta þessari spurningu áfram til ykkar, lesendur góðir. Vitið þið hvað þetta er?

Mynd: Árni Ragnar Stefánsson

Myndin gefur til kynna að þetta er veðursæll staður, grænn og gróskumikill og eitthvað er af vatni þarna enda staðurinn rétt við bakka árinnar Coln í samnefndum dal. Þorpið heitir  Bibury og er miðja vegu á milli Bristol og Coventry. En hvað er þetta eiginlega?

Jú, þetta er fiskeldisstöð og hreint ekki ný af nálinni. Þarna hefur urriði verið ræktaður frá árinu 1902 þegar Arthur Severn kom stöðinni á fót. Í dag nær þessi fiskeldisstöð yfir 15 ekrur lands og hún framleiðir allt að 6 milljónir seiða á ári sem sleppt er í ár og læki víðsvegar um England.

Ef einhver á leið um þessar slóðir, þá er það vel þess virði að koma við í Bibury Trout Farm og skoða hvernig hægt er að koma á fót fiskeldi í landluktum tjörnum, fella þau svo að umhverfinu að hvergi ber skugga á, hvorki frá fagurfræðilegu sjónarmiði né náttúruvernd. Það sem meira er um vert, þarna gefst gestum kostur á að renna fyrir silung gegn vægu gjaldi, ekki amalegt það. Þetta er frábært dæmi um fiskeldi á landi sem gengur upp og er eitthvað allt annað og meira en bara matvæla- og stóriðja. Kannski væri okkur nær að líta til smærri og vistvænni eininga í fiskeldi hér á landi heldur en þeirra gallsúru norsku risalausna sem matreiddar hafa verið sem veisluréttir fyrir okkur. Þetta er að vísu engin töfralausn á fæðuvandamáli heimsins, en það eru nú fyrirhugaðar eldisstóriðjur á Íslandi ekki heldur. Þetta er einfaldlega lítil og nett lausn sem hljómar betur og er fegurri ásýndum heldur en fyrirhugaðar stóriðjur fyrir vestan og norðan. Mikið vildi ég óska að við Íslendingar hefðum kjark og þor til að leita úrbóta í atvinnumálum hinna dreifðu byggða á þessum nótum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.