Það er sterkur steikingarþefur í eldhúsinu og það fer ekki framhjá nokkrum manni á heimilinu að það er verið að steikja kleinur. Kokkurinn er með allar græjur við höndina; eldvarnarteppi og lok á pottinn ef illa fer og feiti slettist á heita helluna eða hitnar um of í kolunum. Skyndilega eykst þefurinn verulega og reyk tekur að leggja um allt eldhúsið. Dettur einhverjum í hug að kokkurinn skjótist þá yfir í næsta herbergi, opni alla skápa upp á gátt í örvæntingarfullri leit að orsök reykjarins? Nei, auðvitað ekki, hann tekur eldvarnarteppið og lokið og kæfir eldinn sem hefur gripið um sig í feitinni. Það þarf ekki að leita að upptökum elds í stofunni þegar allt stendur í björtu báli í eldhúsinu.

Þess þá heldur væri það óðs manns æði að ætla fyrst að bjarga kleinunum úr pottinum og loka honum að því loknu. Til þess að heimilið brenni ekki til kaldra kola, þá er forgangsatriði að slökkva eldinn og það gerir maður ekki með því að kalla til eldvarnareftirlitið eða velta sér upp úr spekúlasjónum um skipulag brunavarna eða möguleg upptök elds hjá nágrannanum á meðan reyk leggur um eigið hús.

Lock Ainort - © geograph.org.uk
Loch Ainort – © geograph.org.uk

Mér, sem leikmanni, virðist sem ótrúlegum tíma hafi verið varið til lítils frá því um mitt síðasta sumar þegar fyrstu vísbendingar komu fram um strok regnbogasilungs á Vestfjörðum. Halló, regnbogasilungur hefur verið að veiðast í ám og lækjum um vestanvert landið frá miðju sumri og heilu göngurnar hafa sést utan kvía í Önundarfirði. Þetta hljómar í mín eyru eins og ætlunin hafi verið að bjarga kleinunum upp úr pottinum áður en slökkt yrði í og nú hefur það verið gert, þ.e. búið er að slátra þeim fiski sem ekki strauk.

Að vísu virðast menn ekki vera sannfærðir um að reyk hafi aðeins lagt upp úr einu potti þarna fyrir vestan. MAST gengur ekki út frá því að þetta gat, eitt og sér, skýri það magn lausagönguregnboga sem vart hefur orðið við frá miðju sumri. Hvað eru götin þá mörg sem stoppa þarf í og væri ekki ráð að byrja að skoða hinar kvíarnar sem eru á undanþágu frá reglum? Eða það sem betra er, færa þennan iðnað upp á land þar sem fylgjast má með þeim á sokkaleistunum? Nú þurfum við að anda djúpt áður en fleiri undanþágur verða samþykktar eða ný leyfi fyrir sjókvíum, sama hverrar tegundar, verða gefnar út. Það er mál til komið að menn geri sér grein fyrir því að það brennur.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.