Undan ís

Vorið er svona um það bil kl. fimm að morgni ef við skiptum náttúrunni niður á klukkuna. Það eru aðeins hörðustu morgunhanar sem hafa sig af stað og svo þeir sem eldri eru, gamlingjarnir. Ég er eiginlega einn þessara gamlingja. Svefnþörfin hefur minnkað og ég er einfaldlega svo forvitinn að ég get bara ekki sofið lengur en til kl.fimm. Allt er þetta þó í óeiginlegri merkingu. Þegar veiðibakterían hefur grasserað allan veturinn fæ ég ákveðna fró út úr því að skyggnast um í vorinu, sjá lífið vakna og vötnin taka á sig kunnuglega mynd sumarsins. Að sjá vötnin beinlínis rífa af sér vetrarhaminn getur laðað ýmislegt fram í dagsljósið sem annars væri hulið. Það hjálpar síðan gríðarlega að vera svo sýktur af veiðibakteríunni að maður tengir allt þetta sjónarspil við væntanlega veiði sumarsins.

Ég hef farið nokkrum orðum um umhverfingu vatns að vori, lífríkið og silunginn, en svo eru einnig þeir hlutir sem við getum bara alls ekki séð í annan tíma en einmitt að vorinu. Þegar vötnin rífa af sér vetrarhaminn er gullið tækifæri að skyggnast um og horfa á það sem leynist undir yfirborðinu eins og einn lesandi síðunnar gerði s.l. páska við Eyrarvatn. Auðvitað kitlar það aðeins að mönnum detti eitthvað af síðunni í hug þegar þeir verða vitni að því augliti til auglitis úti í náttúrunni, eins og Árni Árnason upplifði og datt í hug greinin mín um undirstraum í vatni.

Sæll Kristján 

Ég reyndi að „lemja“ Þórisstaðavatnið þann fyrsta og kom nú heim án fiskjar en mikið rosalega var gaman að sjá fluguna í vatnsborðinu og sílin í fjöruborðinu, ný upplifun að spá í lífríkið í vatninu og mikið fannst mér þetta allt spennandi. 

En mig langaði að segja þér frá undirstraumi í vatni eftir að hafa skoðað slíkar upplýsingar á síðunni hjá þér í vetur og fannst þá merkilegt. En mér þykir það enn merkilegra núna þegar ég horfði á nokkuð mikinn ís á Eyrarvatninu og ísinn var að brotna niður eða „hverfa“ og þetta fylgdi ekki beinu gegnum streymi í gegnum vatnið, best að taka fram að þarna var logn og því enginn vindur að hjálpa til við brot eða straum. 

Eyrarvatnið var nú um páskana að mestu ísilagt nema alveg efsti hluti þess við og aðeins út frá efri ós. Þegar leið á blíðuna og dásamlega vorveðrið um páskana jókst gekk á ísinn en það gerðist ekki í beinu streymi frá efri ós heldur var niðurbrotið á ísnum bogadregið í líkingu við myndina þína um undirstraum.

Eyrarvatn
Eyrarvatn

Til að útskýra þetta myndrænt þá skulum við horfa á vatnið eins og um loftmynd og hafa þá neðri ós neðst og efri ós efst. Vatnsstraumurinn í vatninu virðist leggjast til hægri (séð af loftmynd) en þegar komið er útí c.a. 1/4 – 1/3 af vatnslengdinni þá breytist stefnan aftur yfir til vinstri, virðist stefna í átti að landi c.a. í miðju vatni og þaðan liggur svo straumurinn beina leið niður í neðri ós. 

Nú þegar ég rifja upp fyrri ár við ísað vatnið man ég eftir að hafa sé þetta gerast áður og leyfi ég mér að fullyrða að þarna sé undirstraumur Eyrarvatns. 

Efsti hluti þessa undirstraum er utan við kastgetu fluguveiðimanna, virðist liggja frá miðri vegu vatnsins og c.a. yfir á 1/3 hluta vatnsins Vatnaskógar megin, en við mitt vatnið(beint á móti Kapellunni í Vatnaskógi) kemur hann aftur nær landi, að neðsta sumarbústaðasvæðinu í landi Kambhóls og þar stoppar líka sefið sem getur verið mjög áberandi í vatninu og erfitt að koma agni yfir það til að komast að fiski. 

Þar sem straumurinn liggur meðfram Kambhólslandinu frá c.a miðju vatni og niður í neðri ós hafa sumir oft fengið fisk seinni hluta sumars eða snemma hausts, jafnvel lax eða sjóbirting. 

Mest notaða veiðisvæðið í vatninu, sandfjaran við efri hluta lands Kambhóls er mest notaði veiðistaðurinn af landi og margir þar að halda í laxavonina en algengast er þó að fá urriða eða bleikju. Þetta svæði er í raun þó nokkuð frá þessum undirstraumi og í þau skipti sem ég hef fengið fisk seinni hluta sumars er það á báti nálægt þessum undirstraumi, sérstaklega í efri hluta vatnsins. 

Ég leyfi mér að skjóta þessu til þín, til að undirstrika þessa upplýsingar með undirstraum í vatni. Upplýsingarnar hér eru engin hernaðarleyndarmál um hvar er fiskur í vatninu því þeir sem stunda það þekkja þessa staði og sögurnar um þá. 

Kv. Árni Árnason

Það er einmitt þessi upplifun Árna sem ég sækist svolítið í að reyna og nýti mér síðan þegar kemur að veiðinni. Að láta það eftir sér að skoða vatn í annan tíma heldur en á sumrin getur fært manni ómetanlegar upplýsingar fyrir komandi vertíð. Landslagið í vatninu og leyndir kostir þess blasa stundum við aðeins þessa stuttu stund sem það færist undan vetri og inn í sumarið. Átt þú ekki örugglega ‚þitt‘ vatn sem vert væri að skoða áður en þú ferð að veiða í sumar?

Vöðluvasinn

Vöðluvasinn

Þeir eru stórkostlegir þessi vasar sem eru framan á flestum vöðlum. Ég nota minn óspart þegar ég veiði. Þegar svo óheppilega vill til að taumurinn minn fer í kássu og mér tekst ekki að losa þessa bölvuðu vindhnúta og ég þarf að klippa hann af kemur vasinn í góðar þarfir. Afklippan fer í vasann og næst þegar ég skríð upp á bakkann, tæmi ég úr vasanum í ruslapokann minn eða í veiðitöskuna. Með þessu móti þarf ég ekki að beygja mig niður eftir ruslinu sem annars lægi eftir mig á bakkanum. Er ekki örugglega vasi á þínum vöðlum?

Ummæli

06.04.2013 – Ingólfur Örn: Nota oftast brjóstvasan á mínum vöðlum undir flugur 🙂 En ég mæli eindregið með Monomasternum fyrir allt taumarusl. Alger snilld og kostar lítið: Monomaster og hér er eitthvað um hann: YouTube 

Bestu kveðjur,
Ingó

Svar: Þetta er bara snilld 🙂

07.04.2013 – Siggi Kr.Nei heyrðu mig nú! Hvar fær maður þetta? Þarf að kaupa svona handa mér og fleirum.

Svar: Tja, nú í dag (08.04.2013) dúkkaði einmitt upp auglýsing frá Veiðihorninu á Fésbókinni um að þetta undratæki fengist þar. Engu líkara en menn fylgist með fos.is 🙂

07.04.2013 – Hrannar ÖrnTil margra ára var ég alltaf í neoprene vöðlum með brjóstvasa sem var einmitt mjög hentugur fyrir taumaflækjur og ekki síst til að hita á sér puttana. Ég keypti svo öndunarvöðlur núna í vetur og er mjög sáttur við að á þeim er fóðraður brjóstvasi, :)

Svar: Já, í einhvern tíma hafa kaldar og loppnar hendur laumast í vasann. Í augnablikinu (segi það vegna þess að ég er vöðluböðull og helst illa á vöðlum) er ég með vöðlur með tvöföldum vasa; fóðraður og með netavasa framan á. Gleymi aldrei að tæma ruslið, það blasir við í netavasanum.

Vatnsendavatn og Vatnsvatn

Þessi vötn hafa um langt skeið verið vagga silungsveiðimanna á höfuðborgarsvæðinu og flestir hafa reynt sig í það minnsta einu sinni á ævinni í þessum vötnum. Fjarlægð þeirra frá Reykjavík og Kópavogi gerir þau að einhverju fjölsóttasta veiðisvæði Íslands, þó eitthvað hafi dregið úr veiði þar hin síðari ár. Hástemmdar lýsingar eins og Háskóli fluguveiðimanna eru eitthvað sem við höfum allir heyrt og fiskurinn sagður með eindæmum kræsinn á flugur og framsetningu þeirra. Já, þessi vötn heita í dag Elliðavatn og er 2 ferkílómetrar að stærð en fyrir miðlunarstíflu Elliðaárvirkjunar (1926) voru þau tvö og aðeins 60% af núverandi flatarmáli Elliðavatns.

Kort frá 1880 með viðbót höfundar

Með því að bera saman kort af svæðinu frá árinu 1880 og stærð vatnsins í dag (rauðar línur) má glögglega sjá hve vatnið hefur stækkað gríðarlega með tilkomu Elliðavatnsstíflunnar árið 1926. Engjarnar sem fóru undir vatn hafa væntanlega auðgað lífríkið í vatninu svo mikið að viðkoma fiskjar hefur margfaldast á skömmum tíma. Því miður er auðgun sem þessi ekki til frambúðar. Að vísu hnignar henni mis hratt eftir vötnum en ýmislegt bendir til að áhrifanna í Elliðavatni sé nú hætt að gæta, raunar fyrir löngu og lífríki vatnsins sé því orðið eins og formæðra þess, Vatnsendavatns og Vatnsvatns fyrir 1926. Í eðli sínu voru þessi vötn lindarvötn með frekar takmarkaðri lífflóru og töluvert hröðum endurnýjunartíma. Mér skilst að einkenni slíkra vatna sé að stofnstærðir fiska séu litlar sem gæti verið skýring á lokaorðum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings í skýrslu sinni Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001; ‘Nokkuð kemur á óvart hve bleikjustofninn er lítill m.v. stærð vatnsins, um 2 tonn eða 10 kg /ha. Tilsamanburðar mældust 48 kg/ha af bleikju í Vífilsstaðavatni með sams konar aðferð 1985.‘

En það var fleira sem gerðist við stíflun vatnsins. Fuglalífið nánast hrundi, vaðfuglar hurfu og öðrum tegundum fækkaði snarlega. Nokkuð sem hefur ekki reynst afturkræft.

Elliðavatn og nágrenni í dag

Fram að stíflun vatnsins rann Bugða óhindrað framhjá og sameinaðist Dimmu sem var náttúrulegt affall Vatnsendavatns. Frá ármótum hétu árnar Elliðaár, í fleirtölu því þær runnu aðskildar að meira eða minna leiti til sjávar í Kollafirði. Það má leiða líkum að því að Bugða/Hólmsá hafi verið sjógeng urriða sem væntanlega hefur lagt leið sína að vori út í hin gjöfula Kollafjörð og snúið aftur feitur og pattaralegur að hausti, upp Elliðaárnar, Bugðu og Hólmsá til hrygningar. Væri þetta raunin í dag væri stutt í sjóbirtinginn fyrir höfuðborgarbúa og við þyrftum lítið að hafa áhyggjur af græðgi hans í bleikju Elliðavatns.

En það er önnur á sem rennur til Elliðavatns í dag, Suðurá. Það sem við þekkjum sem Helluvatn hefur væntanlega ekki verið neitt annað en ós Suðurár í Vatnsvatn. Ég hef engar heimildir fundið um urriða í Suðurá fyrir tíð miðlunarstíflunnar, en nokkrar sem nefna rígvæna bleikju á þeim slóðum og í systurvötnunum tveimur. Án þess að ég treysti mér til að kveða endanlega upp úr um hvort sú hafi verið raunin þá sýnist mér engu að síður sem nokkur aðskilnaður hafi verið milli urriða og bleikju á þessum slóðum hér áður fyrr. Í það minnsta mun meiri en er í dag.

Stæðum við í dag frammi fyrir valkostinum að stífla eða ekki stífla þessar perlur í túnfæti höfuðborgarinnar, svona rétt á mörkum byggðar og óbyggðar, yrði valið væntanlega ekki erfitt. Við létum vatnasvæði Heiðmerkur njóta ávinningsins og létum ógert að steypa fyrir affallið. Og hvað stendur svo sem í vegi fyrir því að við hverfum til fortíðar? Eigum við ekki nægt rafmagn sem aflað er með öðru en vatnsafli í dag? Er kannski kominn tími til að feta í fótspor þjóða sem þora að viðurkenna mistök á þessu sviði og fjarlægja nú stíflur fiskvega?

Vatnsendavatn og Vatnsvatn án stíflu

Ummæli

11.11.2012 – Hilmar: Afar fróðlegir og skemmtilegir pistlar um Elliðavatn í dag og í denn. Fagna því einnig að þetta sé komið á veiðikortið, svo er undir okkur veiðimönnum komið að grisja aðeins urriðann, hlífa bleikjunni og ganga vel um þessa perlu.

mbk

Hilmar

Nú er lag í Heiðmörk

Persónulega fagna ég því að veiðisvæði Elliðavatns sé komið inn á Veiðikortið, ekki spurning. Þetta svæði er stórt, eitt það stærsta sem silungsveiðimenn komast í á þessu horni landsins; Elliðavatn, Helluvatn og Hólmsá/Bugða sem er 8km í það minnsta og Nátthagavatn. Skv. fréttatilkynningu Veiðikortsins er Suðurá ekki inni á kortinu þannig að ég tel hana ekki með. Kunnugir halda því fram að ásókn í Elliðavatn hafi minkað mikið hin síðari ár og er það miður því sjaldan hefur reynt eins mikið á að veiðimenn jafni út þann mun sem orðið hefur í stofnstærðum bleikju og urriða á svæðinu.

Skv. skýrslu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings frá 2003, Mat á veiðiálagi Elliðavatns 2002 er ‚Álag veiðimanna á stofninn er lítið, sennilega innan við 15% af stofnstærð bleikju og urriða. Áhrif veiðanna á stofninn eru ekki sjáanleg.‘ Í þessari skýrslu og flestum öðrum sem komið hafa fram um Elliðavatn er þess getið að skil veiðiskýrslna séu mjög lélegar og það eitt hamli verulega raunhæfu mati á stofnstærð silungs í vatninu. Ég geri mér vonir um að þetta geti batnað verulega með aðkomu Veiðikortsins að því.

Gagnrýni í þá átt að ofveiði geti gætt með auknu veiðiálagi er auðveldlega hægt að vísa á bug hvað vötnin varðar. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á meiri veiði urriða á svæðinu, þá er það núna þegar hlutfall bleikju minnkar jafnt og þétt. Samkvæmt skýrslu Jóns Kristjánssonar frá árinu 2003; Veiðar og endurheimtur á merktum silungi í Elliðavatni 2003 þá var stofnstærð urriða í Elliðavatni metin ríflega 25.000 fiskar eða um 74%. Stofnstærð bleikju var metin í besta falli um 9000 fiskar eða um 26%. Í skýrslunni kemur fram að afföll bleikju hafi verið nokkuð stöðug um 30% frá árinu 1971 og á sama tíma hafi stærðarsamsetning hennar staðið nokkuð í stað. Án þess að geta um heildarfjölda silunga, nefnir Guðni Guðbergsson fiskifræðingur í blaðaviðtali árið 2011 að bleikjan sé komin niður í 10% stofnstærðar silungs og urriðinn kominn í 90%. Einfaldur framreikningur m.v. 30% afföll á niðurstöður Jóns frá 2002 styður þessar tölur.

Á þeim árum sem Orkuveitan ástundaði niðurdrátt vatnshæðar í Elliðavatni beinlínis þurrkaði hún riðsvæði bleikjunnar sem liggja á aðeins 10-50 sm. dýpi og skerti þannig samkeppnisstöðu hennar gagnvart urriðanum sem hélt sínum hrygningar- og uppvaxtarstöðvum óskertum í Hólmsá og Suðurá og styrkti seiðabúskap sinn jafnt og þétt á milli ára. Það liggur síðan í eðli urriðans að leita nýrra fanga þegar lífríki ánna nær vart að fæða hann og er Elliðavatnið hans nærtækasti kostur eftir að niðurgöngu til sjávar var lokað á sínum tíma. Þessi ágangur urriðans er auðvitað á kostnað bleikjunnar og stuðlar enn frekar að fækkun hennar í heildarstofnstærð.

Engjarnar og Elliðavatnsbærinn

Eitt af því sem hefur komið fræðingum á óvart hin síðari ár er að Elliðavatn er tiltölulega rýrara af gæðum næringar en áður hefur verið talið sbr. Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001. Ég leyfi mér að efast um að fyrri mælingar/álit manna hafi verið rangar. Þess í stað tel ég að lífríki vatnsins hafi einfaldlega hrakað hin síðari ár. Það er alþekkt að vötn sem verða til eða eru stækkuð út yfir gróið land verða frjósamari töluverðan tíma eftir þessar aðgerðir en hrakar síðan snögglega þegar drekkt gróðurþekjan lætur loks undan og hættir að framleiða t.d. blaðgrænu.

Öllu þessu til viðbótar hefur nýrnasýking  (PKD) í Elliðavatni herjað meira á bleikjuna heldur en urriðann hin síðari ár skv. skýrslu Þórólfs Árnasonar og Friðþjófs Árnasonar; Elliðaár 2010 Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins.

Stutt samantekt Jóns Kristjánssonar í lok ofangreindrar skýrslu er sláandi ‚Veiðiálag á bleikju er lítið, náttúruleg dánartala er lág, stofninn fremur lítill tölulega séð og viðkoma er lítil. Urriðastofninn er stór, veiðiálag lítið, etv. 10-15 % á ári, heildarafföll virðast mikil , um 60% milli ára, en óvissu háð, margt bendir til þess að hann sé fremur staðbundinn á uppvaxtartíma.

Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það. Miðað við þær aðstæður sem við búum silunginum í vatnasviði Heiðmerkur er þetta eðlileg þróun. Við höfum auðvitað valkosti til úrbóta, ef við viljum það á annað borð. Einn þessara kosta er að auka veiði í Elliðavatni, Hólmsá og Suðurá með þeim formerkjum að sleppa skuli bleikju. Með þessu getum við stangveiðimenn stuðlað að jöfnuði í stofnstærðum þó það hafi tæpast úrslitaáhrif þar sem stangveiði í vötnum verður seint afgerandi þáttur í lífríkinu. Annar kostur er stórtækari og verður væntanlega seint áberandi í umfjöllun opinberlega, því miður. Til þess að velta honum upp þurfum við aðeins að skoða Vatnsendavatn og Vatnsvatn sem ég ætla að gera í næsta pistli mínum.

Ummæli

10.11.2012 – Urriði: “Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það” Og er það slæmt? Mér hefur nú aldrei leiðst að veiða stóra urriða :P

Vissulega eru svona snöggar breytingar í lífríkinu áhyggjuefni en það má alveg horfa á björtu hliðarnar :)
Annars flottir pistlar hjá þér um þetta vatnasvæði.

Svar: Loksins, loksins. Ég var orðinn hræddur um að allir væru hættir að lesa bloggið mitt því það komu engin komment á þessa pistla mína. Gat bara ekki ímyndað mér að allir væru sammála mér og átti hálft í hvoru von á einhverju skensi vegna þeirra.

Ég get alveg tekið undir með þér Urriði, mér hefur aldrei leiðst stórir urriðar og hef í gegnum tíðina frekar sótt í urriðann og mikið rétt hjá þér, þessar snöggu breytingar í náttúrunni vekja smá ugg hjá manni. 

Vel að merkja; Til hamingju með klippurnar þínar á Vimeo.com frá síðasta sumri. Þú ert meira en öfundsverður að þessari paradís. Veit að þú vilt halda sumu fyrir þig, en ég bara varð að troða tengli á þetta hérna :)

10.11.2012 – UrriðiTakk fyrir og ég bjóst nú hálfpartinn við því að þú og fleiri síður birti tengil á þetta eins og í fyrra :) Þess vegna passa ég nú hvað sést í bakgrunninum á þeim myndum sem ég birti ;)

Vaktaskipti

Við þekkjum mismunandi hegðun fisks í veiðivötnum eftir tíma dags. Hegðun fisksins er að mestu stjórnað af framboði ætis og ef umhverfisþættir hafa stórkostleg áhrif á ætið þá breytist hegðun fisksins. Það dugir jú ekkert að vera í ætisleit þar sem ekkert ætið er.

Dagleg umhverfing vatns stjórnast mest af þeim svæðum sem grunnfæðu er að finna á. Svifið leitar niður á botninn að deginum til og það sama á því við um þá sem standa því næst í fæðukeðjunni. Smáfiskurinn aftur á móti lætur ekki plata sig niður í dýpið því þar leynast ránfiskarnir, þessir stóru sem éta þá. Þess í stað koma þeir sér fyrir undir steinum eða í gróðrinum og bíða þess að kvöldi og svifið rísi upp úr djúpinu og að yfirborðinu. Þá fara stubbarnir á stjá og …. stóru fiskarnir fylgja á eftir vitandi það að smáfiskurinn er auðveld bráð þar sem hann ber við himinn í vatnsskorpunni, ekki síst ef það er nú stjörnu- eða tunglbjart. En það eru einnig önnur vaktaskipti sem eiga sér stað í vötnunum, þau eru bundin við árstíðirnar. Til að einfalda málið getum við hugsað okkur að skipta vatninu upp í þrjú svæði:

Dýpið (2,5 – 3m og dýpra) er staðurinn þar sem fiskarnir halda sig á þegar vatnið er enn í vetrarham, kalt og lítið um æti. Síðla sumar heldur fiskurinn sig þarna til að kæla sig og kemur ekki upp fyrr en degi er tekið verulega að halla og vatnshitinn á grynningunum eða við yfirborðið hefur lækkað.

Mörk dýpis og grynninga er svæðið þar sem meðalhiti vatnsins er hve jafnastur yfir sumartímann. Hingað leitar fiskurinn rétt fyrir hrygningu og rétt eftir hana. Þetta er gjöfult svæði og mikið um æti sem hann nýtir sér óspart í undirbúningi hrygningar og í orkusöfnuninni rétt á eftir.

Grynningar (0,5 -1m) er staðurinn sem fiskurinn leitar upp á þegar hann fer í hrygningu. Einhver orðaði það sem svo að þegar kynhvötin dregur fiskinn upp á þetta svæði, skeytir hann engu um mögulegar hættur að ofan og við getum nálgast hann mun meira en aðra tíma ársins. Hvort menn vilja svo veiða þennan fisk er undir hverjum og einum komið. Einhverjir hafa orðað það sem svo að ‚greddubragð‘ sé af honum og lítið í hann varið á þessum tíma, aðrir vilja einfaldlega ekki taka á honum fyrr en eftir hrygninguna. Þeir sem ekki vilja leggja í hrygningarbleikjuna geta þá alltaf prófað að veiða aðeins dýpra, t.d. við mörkin því þar bíður urriðinn þess oft að bleikjan hrygni og hann geti sópað í sig þeim hrognum sem fljóta upp úr mölinni.

Dýptarkort

Hnattræn staða

Við á kúlunni

Í bloggheimum er þvílíkur urmull greina um stangveiði að það gæti verið full vinna, bara að fylgjast með öllu sem mönnum dettur í hug að setja þar fram. Eins og gengur er ýmislegt misjafnt á ferðinni; sumt gott, annað frábært. Smátt og smátt eignast maður ákveðin goð og tekur meira mark á þeim en öðrum. Margir þessara aðila eru staðsettir vestanhafs, aðrir sunnan miðbaugs eða á meginlandi Evrópu. En einmitt þetta getur grafið ákveðin hund sem lætur síðan á sér kræla þegar minnst varir.

Við, vegna staðsetningu okkar á kúlunni eru svolítið utan umræðunnar á netinu þegar kemur að umhverfinu, hvort heldur veðri eða náttúru. Úthafsloftslagið okkar er afskaplega frábrugðið loftslagi Mið-Evrópu eða Ameríku. Hér er vindafar allt nokkuð ýktara og snaggaralegra heldur en á fyrrgreindum slóðum og við getum því lítið nýtt okkur lýsingar á áhrifum mismunandi árstíða á hegðun fiskjar í vötnum. Hér verður yfirborð vatna oftar fyrir áhrifum vinds heldur en á meginlöndunum og í flestum tilfellum eru áhrifin hér stórækari heldur en þar. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við lesum náttúrutengd blogg sem ættuð eru frá Ameríku eða Mið-Evrópu. Helst getum við leitað samsvörunar við Íra og Skota þegar kemur að slíkum greinum, þar er veðurfar ekki ósvipað okkar, sérstaklega þá vesturstrandar Írlands.

Hnattræn staða okkar virðist því miður ekki hafa nein áhrif á það að við færumst alltaf nær og nær þörfinni á umhverfisvakningu meðal veiðimanna, líkt og þeirri sem orðið hefur á meginlöndunum. Á meðan ábyrgir veiðimenn beggja vegna okkar ganga fram í broddi fylkinga sem berjast fyrir niðurrifi alls þess sem heftir eðlilega framrás vatns og þar með fiskjar, höldum við áfram að leggja steina í götu silunga- og laxastofna okkar. Við stíflum ár, eyðum náttúrulegum búsetusvæðum þeirra með leðjufullum uppistöðulónum og leikum okkur með vatnshæð stöðuvatna til að skammta eða ausa vatni í uppræktaðar veiðiár. Já, það þýðir lítið að setja fram gagnrýni á aðra og vera sjálfur hálf blindaður af bjálka umhverfissóðans sem fastur er í öðru auga manns. Það er synd og skömm að við virðumst þurfa að ganga sömu leið og þjóðirnar vestan- og austanmegin okkar áður en við vöknum til meðvitundar um að sumar framkvæmdir okkar eru óafturkræfar. Við erum ein fárra þjóða sem enn eru í þeirri einstöku aðstöðu að geta forðast mistök í stað þess að vera í þeim ömurlegu sporum að reyna í sífellu að leiðrétta þau. Þessi staða og sú sem við erum í á kúlunni er dýrmæt, nýtum hana.

Nokkrir tenglar

Stíflur rifnar niður í Bandaríkjunum Kostnaður við að fjarlægja stíflur oft ekki tekinn með Fyrirlestur prófessors Margaret J. Filardo 2011 Yfirlit yfir endurheimt áa í US

Vindátt

Ríkjandi vindátt

Ríkjandi vindáttir á Íslandi eru norð- og norðaustlægar áttir. Þetta þýðir auðvitað ekki að aðrar vindáttir séu ekki inni í myndinni enda þekkja veiðimenn það afskaplega vel að vindurinn blæs stundum úr öllum áttum og í einum veiðitúr er ekki óalgengt að verða fyrir gusti úr öllum áttum. Það sem hefur afgerandi áhrif á vindáttir og viðsnúning þeirra er auðvitað sú staðreynd að við erum eyland, lengst úti í Atlantshafi og flest allt undirlendi okkar er í svo mikilli nánd við sjóinn að viðsnúnings hafgolu í landátt gætir víðast.

Á flestum stöðum er mestur meðalvindur á milli kl.16 og 18 dag hvern. Tímabilið á milli 20 og 22 er hve mestur munur á vindi og logni, þ.e. vind lægir mest á þessu tímabili sólarhringsins. Undir kringumstæðum getur vindur síðan aukist aftur upp úr kl.22 eða lægt enn frekar en þá mun rólegar. Kyrrast er á milli kl.4 og 6 að sumarlagi, nánast alltaf logn.

Á þeim tíma sem við erum flestir á stjái, þ.e. veiðimenn að sumri til, hitnar yfirborð landsins meira heldur en sjávar og því skellur á okkur hafgola þegar heitt loftið stígur upp yfir landinu og kalt loftið leitar inn utan af sjó. Þegar þessi mishitun lands og sjávar snýst síðan við að nóttu til snýr hann sér í landátt eins og við þekkjum. Þessi viðsnúningur á sér einmitt gjarnan stað snemma morguns (4 – 6) og við upplyfum þessa dásamlegu kyrrð í náttúrunni. Hafgolan nær að sama skapi hámarki rétt um kl.17 (16-18).

Fæðuframboð

Það er ekkert svo meitlað í stein að ekki sé hægt að breyta því. Þannig er því farið með ákveðin gátlista sem ég útbjó mér fyrir nokkrum árum og ég uppfærði hér síðast síðla árs 2010. Þessi gátlisti byggir á því fæðuframboði sem er að finna í vötnunum okkar árið um kring og hefur gagnast mér ágætlega þegar ég vel mér flugu við veiðarnar.

Fæðuframboð

Nú hef ég uppfært hann enn eitt skiptið og í þetta skiptið hef ég bætt inn í hann kjörhitastigi hverrar umbreytingar í lífríki vatnanna eins nærri áræðanlegum heimildum og reynslu minni sem ég kemst. Þegar þessu er síðan náð getur maður útbúið lista yfir tegundir / gerðir flugna sem gætu verið fulltrúar lífríkisins hverju sinni.

Agnið skv. lífríkinu

Ummæli

13.06.2012 Gústaf IngviFlottur póstur hjá þér og gaman væri að fá þessar myndir í stærri upplausn ef mögulegt væri :) Væri gaman að hafa þetta með í veiðitöskuni í góðri upplausn

13.06.2012 KristjánJá, takk fyrir ábendinguna. Ég hafði bara ekki hugsað þetta alveg svona til enda, auðvitað. Til að nálgast stóra útgáfu af Fæðuframboðinu, smelltu hér og til að nálgast stóra útgáfu af Agninu, smelltu hér. Vona að þetta komi að góðum notum.

17.06.2012 Árni Jónsson: Flottar myndir og frábær útskýring. Þetta er mjög gagnlegt og aðgengilegt.

Mýflugan

Rykmý

Það hefur komið mörgum veiðimanninum á óvart að sjá hve stórir urriðar nærast á mýflugu og virðast bara braggast vel. Mýflugan er hreinn og klár bunki að próteini, almennt auðveld bráð, hvort heldur á lirfu eða púpustigi og þetta veit fiskurinn.

Þegar við leitum að silungi er sjálfsagt að hafa augun hjá sér og skima eftir mýflugunni á öllum þroskastigum. En mýflugan finnst nú ekki hvar sem er. Helst er að finna hana í vatni þar sem það er ekki mikið dýpra en 4m, við jaðar dýpis eða jafnvel grynningum. Botninn hefur mikið að segja, kjörlendið er mjúkur leirkenndur botn eða stöðugur malarbotn og við bestu skilyrði getum við fundið allt að 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra. Já, fiskurinn þarf ekki að leita langt yfir skammt að sínum prótein skammti. Að vísu þarf marga einstaklinga í góðan skammt, en þarna getum við blandað okkur í málið og lagt til áberandi heimasmíðar.

Við vatnshita undir 2°C þekkjum við mýlirfurnar sem þessa litlu rauðu sprota sem standa upp á endann í vatninu, Blóðormur, og silungurinn sogar þær upp af botninum. Þegar vatnshitinn hækkar í 5 – 10°C fer mýið að klekjast, losar sig og syndir upp að yfirborðinu, Buzzer. Þegar nær yfirborðinu dregur hefur púpan safnað súrefni í bólu undir búkinn sem hjálpar henni að komast upp að yfirborðinu (Chromie). Þegar þessi gállinn grípur fluguna, margfaldast umferð silungsins á þessum slóðum og allt þetta æti virðist glepja eftirtekt hans þannig að við eigum stundum auðveldara að nálgast hann heldur en ella.

Grynningar að vori

Vorflugulirfur

Þessar kistur matar eru oft fyrstar til á vorin. Grunnt vatnið hlýnar fyrr og fiskurinn leitar þangað upp úr djúpinu til að ylja sér og leita fæðu. Það sem gerir grynningarnar að þessari matarkistu er auðvitað sólarljósið sem hleypir gróðrinum af stað og þar með dýralífinu. Þetta eru slóðirnar þar sem skordýrin klekjast.

Við þekkjum fengsæla staði í vötnunum snemma morguns og síðla kvölds en málið er ekki endilega svona einfalt á vorinn. Ljósaskiptin eru ekki fyrsti kostur silungs í fæðuleit að vori. Vatnið er einfaldlega of kalt á þessum tíma sólarhrings. Nær lægi væri að leita fiskjar milli hádegis og seinna kaffi. Þá hefur veik vorsólin náð að ylja vatnið aðeins á grynningunum og laðað fiskinn til sín. Fram að þeim tíma er vatnið jafnvel hlýrra úti í dýpinu svo fiskurinn er lítið á ferðinni. Sólin er sjaldnast það sterk snemma vors að silungurinn fái glýju í augun eins og hann gerir gjarnan á miðju sumri.

Eins má alltaf reyna fyrir sér úti í dýpinu og laða fiskinn með einhverri glepju upp á grynningarnar, það getur oft færst fjör í fiskinn þegar hann finnur að vatnið er hlýrra þar sem flugan er.

Ummæli

Hörður : Góðir punktar. flott blogg hjá þér líka.

 kv, Hörður

Kafað í hegðun silungsins V

Straumurinn setur stærðina

Þegar fiskurinn einblínir á ákveðið skordýr reynir þú að finna þá flugu sem passar best við stærð þess, lit og svo framvegis. Þetta eru engin geimvísindi. En þegar tækifærissinnaður silungur er annars vegar, þá ættirðu að nota stærri flugu í hröðu vatni.

Hér er sönnun þessa sem við öfluðum í Shawnee ánni í Colorado. Efst í flúðunum var mikill hraði í vatninu þar sem það þrengdi sér í rennu, en fyrir neðan kyrrðist það verulega í breiðu.

Í hraða vatninu horfðum við á það í myndavél þegar Hyatt krækti í nokkra með #12 San Juan ormi og #14 Prince nymph. Fiskurinn kom auga á þessar flugur en hafði skemmri tíma til að gaumgæfa þær í hröðu vatninu og gerði því hvatvísari árás á þær. Fyrir neðan í ánni, þar sem vatnið var lygnara voru stóru flugurnar ekki að veiða. Við urðum að fara niður í #20 með RS2 til að fá töku (sem var ekki einu sinni sannfærandi, við vorum í vandræðum með að staðsetja myndavélina án þess að hræða silunginn). Meiri straumur leyfir þér að komast upp með stærri flugur því stundum týnast þessar litlu títlur einfaldlega í strauminum.

Kirk Deeter

Fyrir þá sem áhuga hafa á að kynnast betur greinum og umfjöllun Kirk Deeter skal bent á að netið geymir ógrynni greina eftir hann, meðal annars vefsíða Field & Stream.

Kafað í hegðun silungsins IV

Grannir taumar eru ekki ‘möst’

Ég mun aldrei nota 6X eða grennri taum oftar. Í það minnsta ekki í straumvatni og alveg örugglega ekki í púpuveiði. Ég horfði á fisk renna jafnt á stórar flugur í sverum taum eins og litlu flugurnar í grönnum taum. Sjálfur sá ég 6X tauminn alveg eins augljóst og 3X. Allt í góðu, ég er ekki fiskur (aðeins blaðamaður sem þykist vera einn þeirra), en ég held að þetta skipti silunginn meira máli. Þetta reyndist í það minnsta tilfellið þegar áinn bar línuna, segjum eitt fet á sekúndu. Þú getur alveg nýtt kosti þess að vera með sterkari taum.

Kirk Deeter

Og enn heldur Kirk Deeter áfram og tók hér fyrir tauma og hvernig þeir koma fiskinum fyrir sjónir. Hér skilur kannski aðeins meira á milli vatnaveiði og veiði í ám, því þar sem vatn er kyrrt og tært er fiskurinn væntanlega taumstyggari heldur en í rennandi vatni.

Kafað í hegðun silungsins III

Syndandi silungur ‘rúlar’

Þú getur aukið líkurnar á veiði með því að eltast við rétta fiskinn. Hvað er ég að fara? Segjum sem svo að þú hefur komið auga að þrjá fiska. Tveir af þeim eru eins og límdir við botninn, hreyfast sára lítið á meðan sá þriðji eins og dormar í miðjum vatnsbolnum, sveiflar sporðinum til hliðanna, auðvitað étandi. Þetta er sá sem þú ætti að eltast við.

Eitt sinn var Mardick að kasta á hóp fiska, en aðeins einn þeirra var staðsettur þar sem ætið var að finna. Í staðinn fyrir að reyna endalaust við fiskana á botninum, létti hann fluguna þannig að hún flyti í miðjum vatnsbolnum. Auðvitað hremmdi fiskurinn fluguna í fyrsta kasti. Þetta gerðist aðeins fáein fet, beint fyrir framan mig.

Allt of margir veiðimenn gera þau mistök að eltast við stóra fiskinn. Ef sá stóri hefur sökkt sér niður, ertu að eyða tilvöldu tækifæri. Taktu þann sem er örugglega að éta, þú getur alltaf aukið við þyngdina síðar og pirrað sjálfan þig út yfir öll mörk með því að eltast við stóru fiskana á botninum.

Kirk Deeter

Kafað í hegðun silungsins II

Þú missir af fjölda fiska

Einn besti leiðsögumaður í Colorado, Jeremy Hyatt prófaði púpuveiði með tökuvara. Ég sá hvar fiskurinn sogaði púpuna upp í sig og spítti henni aftur út úr sér eins og sólblómafræi. Hyatt sá aldrei hreyfingu á tökuvaranum, hvað þá að hann fyndi tökuna sjálfa. Hið fullkomna ‚dauða rek‘ þar sem púpan flýtur í vatninu án nokkurra áhrifa frá línu eða taum varð til þess að fleiri fiskar tóku en mistökum fjölgaði vegna slakans á línunni. Jafnvel bestu veiðimenn missa af meira en helmingi allra taka.

Upp á grínið fékk ég félaga minn, Antony Bartkowski til að kasta alveg skv. bókinni, vippa eftir kúnstarinnar reglum, en telja síðan aðeins upp að þremur og reisa þá stöngina eins og hann hefði fengið töku. Og viti menn, hann veiddi nokkra urriða með þessum hætti. Næst prófuðum við afbrigði af evrópskri púpuveiði. Veiðimaðurinn notar mikið þyngdar púpur, kastar beint upp í strauminn og beinlínis dregur fluguna niður ánna. Ég sá færri tökur, en veiddum fiskum fjölgaði.

Hvor er þá betri; brúnn eða bleikur? Góð málamiðlun væri að geta notað dautt rek, en með meiri tilfinningu fyrir ör-tökunum sem venjulega fara framhjá okkur.

Kirk Deeter

Kirk Deeter er ekki aðeins ritstjóri Field & Stream heldur og prýðilegur rithöfundur. Ein mest umtala handbók veiðimanna hin síðari ár The Little Red Book of Fly Fishing sem hann skrifaði í samvinnu við Charlie Meyers hefur vermt toppinn á öllum helstu vinsældalistum veiðimanna frá því hún kom út á síðasta ári, skildulesning veiðimanna.

Kafað í hegðun silungsins I

Einhver besta grein sem ég hef rekist á um hegðun silungs undir áreiti veiðimanns birtist í tímaritinu Field & Stream árið 2007. Höfundur greinarinnar, ritstjórinn Kirk Deeter ásamt félögum sínum tók sig til og kannaði í eins mikilli nálægð og unnt var, hvernig silungurinn hagar sér í vatninu á meðan við stöndum á bakkanum og reynum að fanga hann á flugurnar okkar. Svo frábærar fundust mér þessar greinar að ég setti mig í samband við Kirk og fékk leyfi hans til að þýða greinina og birta hér á blogginu hjá mér. Afraksturinn birtist hér og svo næstu 9 vikur.

„Ég er 6 feta árásargjarn urriði, lúri við botninn í South Platter ánni í Colorado. Vatnið er frábært, ekki of mikið og ekki of lítið, 9°C og silfurtært. Ég held kyrru fyrir með hinum silungunum og fylgist með pöddunum fljóta hjá. Eina þeirra rekur framhjá rétt við hausinn á mér. Ég sný mér til að virða hana betur fyrir mér og….. húkkaður. Ég syndi upp að yfirborðinu og hræki út úr mér agninu. „Fjárinn Bruce, þú kræktir í mig aftur.“ Ég er að kanna hvernig silungurinn hagar sér og hvað hann gerir undir yfirborði árinnar. Og besta leiðin til að komast að þessu er, held ég, að taka á mig líki fisksins þannig að ég tók fram köfunargræjurnar og stökk útí. Þetta er það sem ég lærði:“

Falsköst rústa veiðinni

Mér tókst að renna mér út í strauminn án þess að styggja einn einasta silung. Þér létu sig loftbólurnar engu skipta, svo fremi ég hreyfði mig rólega. En um leið og Tom Romano ljósmyndari færði myndavélabómuna, jafnvel hægt og rólega yfir vatnsfletinum, þá hörfuðu fiskarnir í angist. Á einum tímapunkti bar skugga á vatnsflötinn og ég horfði á fiskana sökkva sér niður á milli steinanna á botninum. Þegar ég kom upp á yfirborðið spurði ég hvað hefði komið fyrir og strákarnir sögðu mér að bláhegri hefði flogið yfir ánna.

Þessu til áréttingar fylgdist ég með félaga mínum, Bruce Mardick taka nokkur falsköst yfir fiskinum. Þegar hann slæmdi línunni fram og til baka, beinlínis trylltust silungarnir og földu sig undir gagnstæðum bakka árinnar. Eftir að hafa leyft fiskinum að jafna sig, byrjaði hann aftur en nú með færri falsköstum, jafnvel veltiköstum sem ekki virtust fæla fiskinn. Niðurstaða: þú færð séns á einu, kannski tveimur falsköstum áður en fiskurinn verður var við þig. Reyndu að halda köstunum aftan við eða til hliðar við fiskinn, leyfðu aðeins síðasta falskastinu að beinast að fiskinum sjálfum.

Kirk Deeter

Þess má síðan geta að þeir félagar, Kirk Deeter og Tom Romano ritstýra einnig veftímaritinu Angling Trade þar sem finna má ýmsar ágætis greinar, alveg þess vert að gerast áskrifandi, ókeypis.

Vísindaveiði – 16.okt.

50sm hængur, tæp 2 pund

Það er lengi von á einum, miður október og enn gefa vötnin. Við hjónin brugðum okkur rétt út fyrir bæjarmörkin í ónefnt vatn eftir hádegið í dag. Lofthiti aðeins um 3°C, stinningskaldi en vatnið langt því frá farið að kólna neitt að ráði. Urðum fljótlega vör við, og þótti miður, að alveg nýverið hefðu veiðimenn verið á ferð og ekki hirt um að urða eða taka með sér slóg úr í það minnsta fjórum fiskum. En hvað um það, ferðin var farin í þeirri trú að enn væri urriði á ferð og það reyndist rétt. Fljótlega setti ég í einn um pundið með bústnum Peacock en sá slapp með ótrúlegri sporðatækni og hnykkjum. Beið ekki boðanna, þóttist reikna út hvert hann hafði stefnt þegar hann losnaði og smellti á reitinn. En þá var annar mættur á staðinn, tæp tvö pund sem lék svipaðar kúnstir á sporðinum en í þetta skiptið var ég viðbúinn og náði að halda strekktu í honum þar til hann var kominn á land, glæsilegur fiskur. Leið og beið nokkur stund þar til ég varð aftur var við ágætan fisk á orange Nobbler, en sá tók heldur naumt og slapp.

Hornsíli, kuðungur og lirfur

En hvað er svo fiskurinn að éta þegar svona langt er liðið á haustið? Jú, í stuttu máli alveg nákvæmlega það sama og hann hefur verið að gera í allt sumar; hornsíli, kuðung og …. lirfur. Já, við nákvæma athugun á magainnihaldi komu í ljós 10 hornsíli, slatti af kuðung og nokkrar vorflugulirfur auk auðvitað sands og smásteina. Sem sagt, vatnið enn í fullu fjöri og ekkert sem bendir til að hrygning sé að fara af stað, fiskurinn ekkert að dökkna né dröfnur að stækka. Ætli viðmið okkar beggja, fisksins og mín sé ekki bara náttúran og veðurfarið frekar en dagatalið?

Sveiflur Elliðavatns

Nú er ég alveg gjörsamlega dottin í það, vatnið þ.e.a.s. og velti fyrir mér öllum mögulegum áhrifum sem við getum haft á vötnin okkar og það lífríki sem í þeim þrífst, eða ekki. Þó verulega hafi dregið úr sveiflum vatnshæðar Elliðavatns hin síðari ár, þ.e. Orkuveitan er ekki alveg eins gróf í vatnstöku, þá hafa menn í alvöru bent á að óafturkræf áhrif Elliðavatnsstíflunnar séu orðin og ekkert fái þeim breytt úr þessu. Aðrir benda á að það hafi mikið milda áhrif stíflunnar að hleypa framhjá þegar virkjuninn sé ekki í rekstri. Samhliða almennri hlýnun vatnsins síðustu ár, sem hefur bein áhrif á fiskistofnana, hafa menn ítrekað bent á þá staðreynd að hrygningarstöðvum bleikjunnar fækki ár frá ári og nú sé svo komið að aðeins þeir stærstu séu eftir og bleikjan þjappi sér orðið mjög saman á þessa staði. Grynnri, og nú orðið liðfærri hrygningarstaðir hafa oft og iðulega farið á þurrt á vetrum þegar Orkuveitan hleypti úr vatninu til raforkuframleiðslu. Ekki þurfi að lækka yfirborðið vatnsins nema um 10 sm. til að þessir hrygningarstaðir fari á þurrt, hrygningarstaðir sem að öllu jöfnu ættu að vera bleikjunni meira að skapi þar sem botninn er malarkenndur og gnægð ferskvatns úr lindum sem streyma þar fram. Það hefur einmitt verið á viðkvæmasta árstíma sem mestar sveiflur hafa orðið í vatninu, þ.e. á tímabilinu okt. til maí þegar raforkuframleiðslan hefur verið í gangi. Öfugt á við okkur mennina, þá veit bleikja ekkert um það að hrygningarstaðurinn sem hún velur sér í nóvember stendur orðið á þurru í lok janúar. Það er dýrar rafmagnið okkar Reykvíkinga heldur en marga grunar og virkjanir OR hafa víðar haft áhrif heldur en í Grafningnum.

Haustið

Það ber kannski í bakkafullan lækinn að nefna kólnandi veður að hausti, en það er eins og virkni veiðimanna minnki í beinu hlutfalli við lækkandi hitastig. Undantekning frá þessu eru auðvitað þeir sem renna fyrir sjóbirting að hausti eins og vinur minn Brynjar Örn sem fór í Eldvatnsbotna þann 17.sept. Það hefur örugglega verið skemmtileg barátta að eiga við svona tröll sem tekur fluguna í tunguna og leggst þungt í botninn. En það ætti að vera fleira í boði en birtingur. Ég hef áður nefnt að hin annars ágæta uppfinning okkar, dagatalið er ekki eitthvað sem náttúran tekur mark á og því oft á tíðum engin ástæða til að við sleppum takinu alveg strax af stönginni. Þó veiðitímabilinu ljúki í helstu vötnunum okkar rétt fyrir eða um mánaðarmótin sept. – okt. þá getur haustveiði í vötnum verið afskaplega skemmtileg ef veður og náttúran almennt leyfir.

Brynjar Örn með 14,5 punda sjóbirting úr Eldvatnsbotnum 17.sept. sem tók rauða Frances eins og fleiri birtingar þetta haustið, glæsilegur fiskur.

Nokkur þeirra vatna sem eru opin ‚lengur‘ eru t.d. Kringluvatn í S-Þingeyjarsýslu, Sauðlauksdalsvatn við Patró., Urriðavatn við Egilsstaði og Víkurflóð við Kirkjubæjarklaustur og eru þá aðeins talin þau vötn sem finna má á Veiðikortinu. Fjöldi annarra vatna, vítt og breytt um landið eru vel veiðanleg langt fram eftir hausti og víða hafa menn komist inn á gafl hjá landeigendum sem heimila veiði lengur en gerist og gengur.

En hvað er það sem gerist á haustin sem kveikir svo í veiðinni að sumir beinlínis bíða af sér sumarið til að komast í haustveiði? Aðallega er það þrennt sem kveikir í veiðimönnum á haustin. Fyrst af öllu þá kólnar vatnið auðvitað með lækkandi lofthita og það virkar eins og hvati fyrir kulsækin fisk til að fara meira á stjá. Annar hvati til haustveiða er auðvitað styttri dagur, það líður styttra á milli ljósaskipta sem eins og kunnugt er hafa ótrúleg áhrif á hegðunarmynstur silungsins. Síðast en ekki síst, þá tekur silungurinn eftir því að vetur er í nánd og sækir stíft í fæðu til að byggja sér fituforða og virkar því afar grimmur á haustin. Þetta á ekki hvað síst við um fisk sem lokið hefur hrygningu, tímabili þar sem hann gefur fæðunni lítinn gaum enda ýmislegt annað að gera en éta á sig gat. Víða erlendis er gert hlé á vatnaveiði rétt fyrir og á meðan á hrygningu stendur, en síðan tekið til við veiði aftur og hún stunduð svo lengi sem veður leyfir. Kannski það sé eitthvað sem huga megi að hér á Íslandi í stað þess að skrúfa fyrir veiðar skv. dagatalinu. Haustferð út í kyrrláta náttúruna getur bætt ótrúlega mörgum dögum við annars stutt sumar okkar hérna á skerinu.

Hækkun Hlíðarvatns

Með aukinni umhverfisvitund hin síðari ár hafa menn leitt hugann í alvöru að því hvaða áhrif sveiflur í vatnshæð hefur á viðkomu silungs og þá sér í lagi bleikju. Sveiflur í stærð og fjölda bleikju hafa alltaf verið þekktar og hafa menn hingað til tengt þessar sveiflur veðráttu og þá sér í lagi sumar- og vetrarúrkomu. Innan um þessa alþýðuspekinga hefur alltaf leynst einn og einn sem hefur þorað að minnast á hlut okkar mannanna í þessum sveiflum. Nú nýverið átti ég smá spjall við staðkunnuga við Hlíðarvatn í Selvogi um þann brest sem varð í aflabrögðum í sumar (e.t.v. þegar í fyrrasumar). Mér þótti nokkuð djúpt í árina tekið þegar 14 sm. hækkun yfirborðsins var kennt um hvarf bleikjunnar, trúði því einfaldlega ekki að slík smá hækkun gæti haft veruleg áhrif. En viti menn, við nánari skoðun fann ég nokkrar umfjallanir sem studdu þetta álit manna. Má þar nefna mjög góðar greinar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings á www.fiski.com

Margt fróðlegt kom fram í þessum greinum, m.a. sú staðreynd að kjör- riðstöðvar bleikjunnar eru á dýpi frá 15 og að 50 sm. Sveiflur, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar frá meðaldýpt hlýtur að hafa veruleg áhrif á klak og uppvöxt seiða. Raunar sýna rannsóknir Jóns á Hlíðarvatni frá árunum ´73 – ´92 umtalsverða hnignun í vexti bleikjunnar þegar á þessum árum. Sem dæmi má nefna að meðallengd 4.ára bleikju var tæplega 32 sm. árið 1973 en fór niður í ríflega 25 sm. í síðustu mælingum árið 1992 ásamt því að veruleg aukning varð í smávöxnum, ókynþroska fiski í vatninu. Maður veltir því fyrir sér hvenær vendipunkturinn verður þegar smávaxin ókynþroska fiskur verður það liðmargur að hann étur kynþroska fiskinn út á gaddinn og engin nýliðun verður í stofninum, hvað þá þegar kjörlendi bleikjuhrygningar er sökkt um 14 sm.

Væntanlega á fiskurinn nóg með náttúrulegar sveiflur í vötnum, þótt við mennirnir bætum ekki um betur og leikum okkur að stíflugerð náttúrulegra stöðuvatna á Íslandi. Myndun stöðuvatna eða not þeirra til vatnsmiðlunar hefur ekki aðeins áhrif á það land sem sökkt er heldur einnig það lífríki sem er fyrir í þeim. Við höfum áhrif á fleira en það sem augað sér.

Fæðuvandamál

John Hurt sem Fílamaðurinn

Mýflugan er undirstöðufæða silungsins. Ég virðist vera ein af undirstöðufæðu mýflugunnar eða þannig leið mér í það minnsta eftir ferð upp að Úlfljótsvatni um daginn. Hefði endurgerð Fílamannsins verið á döfinni hefði ég örugglega komið sterklega til greina sem staðgengill John Hurt í aðalhlutverkið, slíkar voru bólgurnar sem tóku sig upp hjá mér eftir ferðina. Í gegnum tíðina hafa ýmiss húsráð orðið til gegn og fyrir meðhöndlun flugnabits. Hér eru nokkur dæmi:

  • B-vítamín: Ráðlagður dagskammtur skv. framleiðanda af B1 og/eða B6 er sagður draga fram ákveðinn ilm á hörundi sem á að fæla mýið frá.
  • Mentol: Margir mæla með kremi eða áburði sem inniheldur hátt hlutfall af mentol eða eucalyptus til þess að fæla flugur frá. Að sögn þarf ekki að bera á alla óvarða húð, vel dugar að setja eina og eina doppu hér og þar. Þekkt vörumerki; Tiger Balm, Vick‘s VapoRup, Deep Heat.
  • Betametason: Er virkt efni í fjölda krema og smyrsla sem ávísað er gegn bólgu- og ofnæmissjúkdómum, flest lyfseðilskyld á Íslandi en ferðamenn þekkja e.t.v. Calestoderm-V sem hægt er að kaup án lyfseðils erlendis. Krem sem innihalda betametasón eru sögð prýðis fróun eftir skordýrabit.
  • Sítrus ávextir: Sumir drekka mikið af fersku límónu- eða sítrónuvatni fyrir veiðiferðir og fullyrða að það dragi verulega úr ásókn flugu. Aðrir beinlínis rjóða andlit og hendur með límónu og segja það dugi mun betur.
  • Sítrónugras: Ekki bara krydd, heldur líka áburður eða kalt seiði til að bera á sig og/eða úða á föt og annan búnað til varnar flugu.
  • Myrta (Brúðarlauf / Bog Myrtle): Notað sem virkt efni í náttúrukremum sem menn rjóða á hendur og andlit til að stugga við mýflugum. Skotar hafa notað krem og olíur úr þessari jurt í margar aldir til þessara nota.
  • Tea Tree olía: Ilmkjarnaolía sem dregur úr ertingu eftir skordýrabit. Fyrirbyggjandi virkni ekki þekkt.
  • Neem olía: Krem og smyrsl sem innihalda þessa olíu eru talin halda skordýrum frá mönnum. Um er að ræða nokkrar vörur sem fundist gætu í verslunum hér á landi.
  • Hvítlaukur: Nokkuð stíf inntaka hvítlaukstaflna (1200 mg/dag) eða át hvítlauks fyrir veiðiferðir er talið draga verulega úr ásókn mýflugu. Svo er bara spurning hvort veiðifélagar fælist ekki líka.

Hvort eitthvað af þessu virkar er svo allt önnur saga, kannski eru þetta bara allt kerlingarbækur eins og ráð við kvefi. Öll notkun krema og olíu ætti samt að vera í hóf stillt, ekki viljum við smita lykt á veiðibúnað þannig að fiskurinn fælist. Eitt ráð að lokum; ekki nota ilmvatn eða rakspíra þegar þið haldið til veiða. Ólíkt fiskinum þá fælast flugur ekki slíka lykt, heldur þvert á móti.