Það er sagt að þriðjungur þjóðarinnar leggi stund á stangveiði að einhverju marki. Þegar maður fer að hugsa út í þetta, þá er þetta skuggalega hátt hlutfall, með því langhæsta sem þekkist í heiminum. Stundum efast ég um að þetta sé fyllilega rétt og mögulega sé hér talið skv. venju lítilla þjóða sem vilja leynt og ljóst verða stórasta land í heimi. Getur verið að hér sé allt talið til, stakir veiðimenn sem fara t.d. einu sinni á ári með börnin eða barnabörnin í einhverja sleppitjörn eða getur verið að við séum að telja með erlenda veiðimenn sem drepa hér niður fæti fáeina daga á ári og kíkja í lax?
Kannski eru þetta óþarfa vangaveltur hjá mér og kannski er það virkilega þriðjungur þjóðarinnar sem stundar stangveiði að einhverju marki. Þá get ég bara sett punktinn hér og látið allar frekari vangaveltur lönd og leið, eða hvað? Ef þriðjungur þjóðarinnar telur sig til stangveiðimanna, þá er grátlegt hve hljóður þessi hópur er þegar kemur að því að standa vörð um sportið og láta í sér heyra þegar náttúrunni okkar er ógnað af fyrirhuguðu fiskeldi í sjókvíum við strendur landsins. Því miður virðist það svo vera að háværustu andmælin komi úr röðum aðila sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af stangveiði. Það er illa fyrir þjóð komið ef aðeins peningaleg gildi ná upp á yfirborðið í umræðunni. Það heyrist allt of lítið í hinum almenna veiðimanni sem hefur, þegar öllu er á botninn hvolft, miklu meiri hagsmuna að gæta heldur en nokkur veiðileyfasali getur sett verðmiða á. Þær eru óteljandi stundirnar sem maður hefur átt í veiði hér á landi, stundir sem aldrei verða metnar til fjár. Og merkilegt nokk, þetta eru gæðastundir sem ég hef varið við annað en laxveiði. Silungastofnum stendur ekkert síður ógn af þessum ófögnuði sem sjókvíaeldið er. Öll mengun á strandsvæðum, hvort sem hún stafar af laxalús, smitsjúkdómum, snýkjudýrum, lífrænum úrgangi eða ólífrænum, er ógn við fiskistofna og lífríkið í heild sinni.

Sú ógn sjókvíaeldis sem helst hefur verið haldið á lofti er hættan á erfðamengun Íslenskra laxastofna. Þótt laxastofnum yrði hlíft við mögulegri erfðablöndun, þá situr eftir meiri sóðaskapur í umhverfismálum heldur en áður hefur sést við strendur þessa lands og þar liggja hagsmunir allrar þjóðarinnar undir. Það slys yrði stærra en svo að unnt er að setja á það verðmiða og einmitt þess vegna virðist vera ómögulegt að koma því upp á yfirborðið í umræðunni. Mig langar sérstaklega að benda á grein Erlendar Steinars Friðrikssonar, Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði. Sú umfjöllun ætti að vekja menn til umhugsunar.
Hver sá sem hefur notið þess að skreppa í veiði eða óskar þess að afkomendur hans eigi þess kost þegar fram líða stundir ætti að taka afstöðu til þess hvort skammtímagróði fárra sé þessum hlunnindum meirihlutans æðri. Að sama skapi ætti hin almenni veiðimaður að standa vörð um aðgengi sitt að ómengaðri arfleið landsins án þess að þurfa að gjalda fyrir það skv. verðmati sem unnið er upp úr arðsemisútreikningum talnaspekinga á snærum innlendra eða erlendra aurapúka. Sumt verður einfaldlega aldrei metið til fjár og virðist því aldrei geta staðist samanburð við krónur og aura, hvað þá dollara eða norskar krónur.
Að þessu sögðu verð ég að játa að ég get vel sett mig í spor þeirra íbúa sjávarþorpa úti á landi sem sjá fram á bjartari tíma við uppbyggingu fyrirhugaðs fiskeldis. En það þarf enga sérfræðinga að sunnan til að segja heimamönnum hvað sé náttúrunni eða buddunni þeirra fyrir bestu, þeir eru skarpari en svo. Heimamenn hafa séð hrun og ris fiskistofna með eigin augum, fundið það á eigin skinni þegar náttúrunni er raskað. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð og sú ráðsnilld ætti að duga til koma á laggirnar öðrum atvinnutækifærum heldur en innflutningi erlendrar stóriðju, sama hvort hún fæst við málmbræðslu eða sjókvíaeldi. Hingað til hefur stóriðja laðast að fallvötnum okkar og ónýttum losunarkvóta og nú stendur til að bæta ósnortnum strandsvæðum okkar á þennan óskalista erlendra iðjuhölda. Því miður er útlit fyrir að engin breyting verði á skilum þeirra til Íslenska þjóðarbúsins, þau felast fyrst og fremst í þurrmjólkun okkar einstöku náttúru sem tekin verður út í reikning komandi kynslóða. Finnum raunhæfar leiðir til að skjóta stoðum undir hnignandi byggðir á Íslandi, segjum nei við stóriðju, sama hvaða nafni hún nefnist.
Senda ábendingu