Umræða og fyrirspurnir um sníkjudýr í silungi kemur reglulega fram á sjónarsviðið, einkum þegar veiðimenn verða varir við svæsnar sýkingar í fiski. Ég játa það fúslega þekking mín á sníkjudýrum í fiski hefur hingað til verið heldur yfirborðskennd og mörkuð af reynslu minni úr fiskvinnslu sem unglingur og því hef ég freistast til setja alla þessa óværu undir sama hatt. En svo er nú ekki.
Áður en lengra er haldið, skal það tekið fram að við efnisöflun fyrir þessa samantekt las ég ógrynni fyrirspurna og svara á ýmsum spjallvefjum um þetta efni. Ekkert af því sem ég set hér fram er ættað af umræðuvefjum, þess í stað hef ég leyft fréttum sem hafa komið fram á síðustu árum að leiða mig áfram að greinum og rannsóknum lærðra manna. Heimilda er getið í niðurlagi.
Hringormar er safnheiti yfir sníkjuþráðorma (Nematoda) sem fullorðnir lifa í maga villtra spendýra við Ísland. Þeir sem mest áberandi hafa verið í umræðunni eru; Anisakis simplex (hvalormur, síldarormur) og Pseudoterranova decipiens (selormur, þorskormur). Minna hefur farið fyrir t.d. Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae sem hvorugur hefur fengið íslensk viðurnefni að því er ég best veit. Lífsferill hringorma skiptist í fimm stig. Fullorðinn lifir ormurinn í maga sjávarspendýra (lokahýsill) og þaðan berast egg hans út í sjó með saur hýsilsins þar sem krabbadýr (millihýsill) éta þau. Í millihýsil taka lirfurnar hamskiptum, þroskast og stækka þar til þriðja stigi er náð. Þá eru þær orðnar smithæfar og éti fiskur (burðarhýsill) þetta krabbadýr, tekur ormurinn sér bólfestu í fiskinum, upprúllaður og hættir að þroskast. Á þessum tímapunkti er t.d. hvalormurinn orðinn 2 – 4 sm. langur og kominn með gadda á fram- og afturenda sem auðvelda honum að rjúfa sér braut um vefi fisksins. Éti lokahýsill þennan smitaða fisk tekur það orminn aðeins örfáa daga að þroskast yfir á fjórða stig og ná kynþroska sem er fimmta og síðasta stig lífsferilsins. Fullþroska ormar lifa í 3 – 7 vikur í lokahýsil og geta af sér allt að 7500 egg á dag.

Þekktir hýslar hringorma eru m.a. ránfiskar (þorskur, langa, steinbítur, keila) sjófuglar, selir, hvalir og sjógengnir laxfiskar (sjóbirtingur, sjóreiður og lax). Hvalormur finnst nánast eingöngu í innyflum ferskra fiska. Ef fiskurinn er aftur á móti geymdur óslægður í einhvern tíma, taka innyflin að meltast / skemmast þannig að ormurinn á greiða leið út í vöðva og önnur líffæri. Því ætti að slægja allan fisk sem fyrst til að koma í veg fyrir smit.
En það er ekki algilt að hringormur haldi sig eingöngu í innyflum. Lirfa selorms í fiski er stór, gulbrún á lit og finnst oftast í vöðvum, sérstaklega þeim sem umlykja kviðarholið. Hún er uppsnúin inn í bandvefshylki í flökum sem fiskarnir mynda sjálfir. Þannig reyna þeir að einangra orminn.

Neysla sýkts fiskjar þarf alls ekki að vera hættuleg sé gætt að geymsluháttum og matreiðslu. Nægjanlegt er að frysta fisk við -20°C í vikutíma til að drepa hringorm og sé fiskur matreiddur ferskur skal gæta þess að hann nái 70°C í eina mínútu, það skilar sama árangri. Hér ber heimildum ekki alveg saman þannig að ég hef valið að nefna lengstan tíma í frosti og hæsta hita við eldun sem getið er. Þurrkaður fiskur er meinlaus, þ.e. sé hann fullþurrkaður því hringormur þolir ekki að þorna. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort reyking sé næg forvörn, þannig að væntanlega er best að frysta fisk áður en hann er reyktur. Eins og kunnugt er losnar verulega um hold í fiski þegar hann er frystur og mörgum þykir því þýddur fiskur ekki eins heppilegur og ferskur þegar kemur að því að grafa. Því ætti að velja heilbrigðan ferskan fisk, lausan við smit og óværu ef hann er ætlaður í graf. Sjálfur hef ég fryst grafin urriða og tekið úr frysti eftir hentugleikum og alltaf þótt hann jafn góður, örlítið lausari í sér en ekkert sem orð er á gerandi.
Þrátt fyrir þessi einföldu ráð eru dæmi þess að hringormur hafi náð að þroskast á fjórða stig í mönnum hér á landi og hefur tilfellum eitthvað farið fjölgandi með breyttum matarvenjum og neyslu hrás fisks hin síðari ár. Komist selormur lifandi niður í meltingarfæri manna getur hann borað sár í maga með tilheyrandi kvölum, ógleði og uppköstum fórnarlambsins, en yfirleitt gerir hann sér fljótlega grein fyrir að hann hefur ratað í óheppilegan hýsil og leitar því útgöngu sem fyrst. Sú útþrá á sér yfirleitt stað í gegnum vélinda og munn og getur því verið miður geðsleg fyrir þann sem fyrir því verður. Leiti ormurinn ekki upp, heldur niður meltingarveginn getur svo farið að lirfa ormsins bori gat á þarmana og komist þannig inn í kviðarholið eða líffæri svo sem lifur, gallblöðru eða eitla. Slíks smits verður yfirleitt vart á innan við 12 klst. Dauður selormur veldur aldrei skaða í manneskju.
Hvalormurinn er almennt talinn hættulegri mönnum heldur en selormurinn. Hvalormurinn er gjarnari á að bori sig út úr maga og görnum fórnarlambsins og fara á flakk um kviðarholið með tilheyrandi sársauka, blæðingum og líffæraskaða. Eins er fólki hættara við ofnæmisviðbrögðum vegna hvalorms, hvort heldur hann sé lifandi eða dauður. Það er því rík ástæða til að gæta vel að fiski sem er mögulega sýktur af hvalormi. Hvalormur er orsök gotraufarblæðingar í villtum laxi sem einmitt hefur orðið vart hér á Íslandi á undanförnum árum. Þær sýkingar geta verið mjög svæsnar, allt að 150 ormar við gotrauf fisks auk þess að nánast allt kviðarholið getur sýkst, auk þunnilda og vefja. Það er því langur vegur frá að hringormur finnist ekki í laxi hér á landi.
Heimildir
Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson
Hringormar, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1997, Erlingur Hauksson
Senda ábendingu