Rétt eins jólasveinar fara á stjá í desember og páskaungar skjóta upp kollinum í mars eða apríl, þá vaknar hún á hverju ári spurningin um það hvers vegna ekki má nota síld og makríl sem beitu í hinu eða þessu vatninu. Þetta sumar er engin undantekning frá reglunni. En hvers vegna er þessi beita bönnuð í eins mörgum vötnum og raun ber vitni?
Ekki veit ég til þess að sérstakar rannsóknir hafi verið gerðar á skaðsemi mismunandi beitu í vötnum, en þær eru nokkrar til sem lýsa sýkingum í síld og makríl, sýkingum sem hæglega geta haft áhrif á ferskvatnsfiska.
Ein tegund hringorms, hvalormur (síldarormur) nýtir krabbadýr sem burðarhýsil þar sem ormurinn þroskast og verður smithæfur. Þess vegna eru fiskar sem nærast á krabbadýrum (t.d. loðna, sandsíli, síld og makríll) líklegir millihýslar hvalorms sem er, vel að merkja, ríkjandi tegund hringorma í norður Atlantshafi. En sýkingin er alls ekki einskorðuð við framangreindar tegundir. Hvalormur finnst í sjógengnum fiski, s.s. sjóreið, sjóbirtingi og laxi. Gotraufarsýking í laxi er t.d. vegna hvalorms. Nánar um hringorma hér.
Önnur sýking sem herjar á síld og makríl er svipudýr að nafni Ichthyophonus hoferi. Þetta sníkjudýr hefur verið til staðar í íslensku sumargotsíldinni frá árinu 1991 og nýverið birti Hafró upplýsingar um að þessi sýking í stofninum sé aftur á uppleið. Eitt einkenni þessarar sýkingar er blæðing í holdi og líffærum fiska sem leiðir oft til dauða. Spendýrum stafar ekki hætta af þessu smiti en fæstum þykir sýktur fiskur kræsilegur til átu eins og gefur að skilja enda getur nokkuð óþægileg lykt fylgt þessari sýkingu. Þekkt smitleið þessa sníkils er þegar fiskur étur sýktan vef. Í gegnum tíðina hefur þessi sníkill valdið töluverðum skaða í lax- og silungseldi víða um heim ásamt því að leggjast á stofna villtra laxfiska. Þótt þessi sýking nái sér ekki á strik í ferskvatni, benda rannsóknir til að sýking geti eftir sem áður átt sér stað í ferskvatni.

Nú kann einhver að benda á að hér hafi ég ekki dregið fram neinar vísindalegar sannanir fyrir bráðri smithættu af síld og makríl, en sé litið til heimilda má leiða líkum að smitleiðum sem ber að varast. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að leyfa villtum ferskvatnsstofnum okkar að njóta vafans, í þessu eins og öllu öðru sem getur stefnt framtíð þeim og heilbrigði í hættu. Það er undir veiðifélögunum komið að setja hömlur á notkun lífrænnar beitu og það verður víst seint einhugur um slíkar ákvarðanir, en séu þær settar ber veiðimönnum að fylgja þeim hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Þess ber að geta að þetta efni átti upphaflega að vera innlegg mitt í spjallþráð á Facebook, en þegar sá þráður fór að einkennast af upphrópunum og ósvífnum orðahnippingum á báða bóga, lét ég ógert að taka þátt í þeirri umræðu og ákvað að birta þetta hér á síðunni í staðinn.
Hafi einhver athugasemdir eða ábendingar fram að færa um þessa samantekt mína, þá er viðkomandi velkomið að senda mér slíkt, en orðahnippingar og upphrópanir mun ég ekki birta.
Heimildir, umfram þær sem finna má í tengdum greinum:
Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins – Hringormar
Hafrannsóknarstofnun – Ichthyophonus hoferi sníkjudýr í fiskum
Mast – Ichthyophonus í síld
Wildlife Disease Association – Effects of Ichthyophonus…
University of Goteborg – Hassan Rahimian
Senda ábendingu