Lífsferill mýflugunnar skiptist í fjögur stig; egg, lirfa (blóðormur), púpa og fullvaxta fluga. Þótt útilokað sé að veiðimönnum nýtist fyrsti lífsferill flugunnar, þá má samt segja að fluguveiðimenn geti átt fluguna í fórum sínum í fjórum mismunandi útgáfum og eiginlega nauðsynlegt ef þeir ætla að nýta sér þessa mjög svo vinsælu fæðu fisksins.
Fyrstan skal telja blóðorminn, lirfu mýflugunnar sem verður til úr eggi og grefur sig gjarnan í botn vatna eða festir sig við klappir og steina í ám og vötnum. Þetta er það stig lífsferils mýflugunnar sem varir lengst, þó misjafnlega langt hjá hverri tegund, allt frá örfáum vikum og upp í 1 – 2 ár. Blóðormurinn er orkurík fæða sem silungurinn sækir í hvar sem hann nær til hennar. Þar sem skilyrði eru heppileg getur fjöldi lirfa verið um 200.000 pr.m2 jafnvel meiri. Það er því af nógu að taka fyrir fiskinn og við liggur að manni hrís hugur við að keppa með einn blóðorm við alla þessa mergð. Það getur því borgað sig að leggja smá vinnu í fluguna þannig að hún skeri sig úr, standi framan öllum hinum og gangi í augu fisksins til átu. Raunar er það víst svo að fiskurinn eltir sjaldnast staka blóðorma, veislan fellst í því að úða sem flestum í sig með minnstri fyrirhöfn og því nánast ryksugar hann botninn á ákveðnum stöðum og tekur fjölda upp í sig í einu, aðeins seiði fiska eltast við stakar lirfur.
Senda ábendingu