Þrátt fyrir heitið, þá eru stöðuvötn alls ekki kyrrstæð, ég bara varð að koma þessu að. Þegar áhugi minn á fluguveiði vaknaði og ég fór að leita mér að lesefni um sportið þá var mjög algengt að ég rækist á nákvæmar vísindalegar útlistanir á kostum andstreymisveiði umfram aðrar veiðiaðferðir í straumvatni. Ekki efaðist ég eitt einasta augnablik um ágæti þessara greina, en þegar áhugi minn tók fyrst og fremst að beinast að fluguveiði í vötnum, þ.e. þeim sem ekki renna, þá gleymdist þessi andstreymisboðskapur fljótlega og ósjálfrátt jarðaði ég þessar greinar í kollinum.
Og þarna hefur hundurinn legið grafinn í mjög langan tíma, þ.e. í óminnisdjúpi lækja og stærri straumvatna. Eftir stendur nú samt sú staðreynd að vatn í stöðuvötnum er oft á töluverðri hreyfingu, jafnvel í stilltu veðri og vötnum sem ekkert sjáanlegt innstreymi hafa, hvað þá útstreymi. Mér skilst til dæmis að snúningu kúlunnar sem við lifum á hafi eitthvað með straum í stöðuvatni að segja. Ekki má heldur gleyma því að vatn sem hitnar á grynningum umfram dýpri hluta þess geymir oft ósýnilegan straum, straum sem fiskurinn finnur og snýr sér ósjálfrátt upp í. Ástæðan er nákvæmlega sú sama og verður til þess að hann snýr snjáldrinu upp í strauminn í læknum eða ánni, fæðuframboð.
Smágerð krabbadýr eins og svifkrabbar og ýmislegt annað góðgæti berst um stöðuvötn með minnsta mögulega straumi og þessi dýr, sem eru vel að merkja smærri en svo að við getum hnýtt eftirlíkingar af, eru mikilvæg fæða silungs og því snýr hann sér oft upp í strauminn og étur það sem berst þó okkur virðist hann einfaldlega liggja í mestu makindum og ekki gera neitt. Ekki er allt sem sýnist og þess vegna ætti maður að bera lambalærið á veisluborðið beint fyrir framan hann, þótt hann sé á kafi í smáréttunum. Hver stenst gómsæta stórsteik þegar aðeins snittur eru í boði?
Senda ábendingu