Taumurinn minn

Taumaefni

Vegna þráhyggju minnar í silungsveiði hef ég alltaf geta komist upp með að hugsa meira um þvermál taums heldur en slitstyrk hans. Ég viðurkenni það fúslega að ég á stundum í nokkrum erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða taumur það er sem menn kalla 8lb taum. Er það 1x eða 2x? Slitstyrkur tauma er misjafn eftir framleiðendum og efnisgerð þeirra og því er ekki til nein ein góð regla fyrir samhengi þvermáls og slitstyrks. Það næsta sem maður getur komist reglu er að leggja einhverja töflu á minnið eins og þá sem má nálgast hér.

Þannig er að silungsveiðimenn, þ.e. þeir sem ástunda nokkuð hefðbundna vatnaveiði þurfa sjaldnast að hafa áhyggjur af því þótt þeir séu að nota 2x taum með 3x taumaenda. Að vísu er hnúturinn veikasti hlekkurinn en það má svona nokkurn veginn reikna með því að slitstyrkur svona taums sé eitthvað á bilinu 6lb – 8lb.og hentar ágætlega til að leggja fram flugur í stærðum frá #6 og niður í #16, spannar sem sagt nokkuð stórt bil í flugnavali. Sé aftur á móti ætlunin að veiða smærri flugur getur reynst nauðsynlegt að fara í grennri taum, 4x eða 5x. Notist þú við einþátta frammjókkandi taum má líka hugsa sér að klippa 3x taumaendann af og hnýta 4x í stað hans og hafa hann þá nokkuð lengri.

Þegar ég keypti mér mína fyrstu flugustöng, alveg rennandi blautur á bak við eyrun, þá var mér réttur 0x frammjókkandi taumur og spóla með taumaefni 1x. Hvort sem afgreiðslumaðurinn hefur séð á mér að ég væri hnútaböðull eða greip bara það sem hendi var næst þá var þetta taumurinn sem ég böðlaðist með fyrsta sumarið mitt í flugunni. Síðar meir hefur mér oft orðið hugsað til þess að eitthvert misræmi var nú samt í þessu hjá blessuðum manninum, því hann tók saman einar 20 ‚pottþéttar‘ silungaflugur í stærð #12 og #14 handa mér. Kannski engin furða að ég væri í vandræðum með að leggja þessi kríli fram með sómasamlegum hætti mitt fyrsta sumar.

Seinna eftir nokkurn lestur og grúsk á netinu fóru taumarnir mínir í megrun. Fyrst náðu þeir 1x, síðar 2x og nú veiði ég nokkuð jafnhliða með 2x og 3x, en það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki prófað ennþá grennra en þá tók flugnavalið mitt í taumana og ég færði mig aftur til baka í framangreindar stærðir. Sem sagt; flugurnar mínar ráða þvermáli taumsins, ekki slitstyrkurinn eða vonir um 10lb. urriða með ofsóknarbrjálæði.

Í nokkrum komandi pistlum ætla ég að velta upp ýmsum flötum á tauminum og samsetningu hans.

Taumalykkja

Það eru til margar leiðir til að tengja taum við línu. Ég hef aðeins verið að gjóa augunum á það hvernig menn hnýta lykkju á taumana sína, þ.e. þeir sem gera það á annað borð því enn eru þeir til sem hnýta tauminn beint á línuna með tilheyrandi fórnarkostnaði við taumaskipti. En aftur að taumum með lykkjum. Margir hnýta Non slip loop á tauminn, en mér hefur alltaf vaxið sá, og raunar aðrir hnútar á taumum í augum og því hef ég alltaf vafið lykkjur á mína tauma.

Smellið fyrir stærri mynd

Aðferðin er í sjálfu sér afskaplega einföld, allt sem maður þarf er hnýtingarþráður, keflishaldari og tonnatak. Ég byrja á því að skammta mér ríflegan enda af hnýtingarþræði út af keflishaldaranum. Síðan skammta ég mér u.þ.b. 8 sm. af taumaendanum og mynda lykkju úr honum á milli fingra hægri handar þannig að ég held bæði um tauminn og hnýtingarþráðin. Síðan gríp ég einfaldlega um lykkjuna með fingrum vinstri handar og sveifla haldaranum í hringi utan um tauminn þannig að þráðurinn vefjist upp eftir lykkjunni.

Þegar þráðurinn er kominn vel fram eftir lykkjunni bregð ég eins og einum til tveimur half-hitch á tauminn. Því næst læt ég nokkra dropa af tonnataki drjúpa á kaflann sem ég hef vafið og leyfi því að storkna til hálfs. Muna bara að vera ekkert að káfa í þessu alveg strax. Því næst vef ég þræðinum með sömu aðferð aftur til baka, bregð öðrum half-hitc á endann og svo aftur til baka fram að lykkjunni þar sem ég geng tryggilega frá honum og klippi af. Ef vill, þá má dreypa tonnataki aftur yfir allan vafninginn, bara gæta þess að hann leki ekki niður eftir taumnum.

Með þessu hef ég útbúið lykkju á tauminn þannig að ég er fljótur að skipta um og er ekki alltaf á nálum yfir því hvort fiskurinn sé að atast í hnútinum í stað flugunnar. Rétt að taka það fram að þessar lykkjur hafa aldrei gefið eftir hjá mér og virðast endast von úr viti. Muna bara að nota frekar hlutlausan hnýtingarþráð, helst gráann eða bage þannig að fiskurinn fari ekki að atast í vafningnum.

Taumurinn leiðréttur

Það getur komið fyrir að við veiðum vísvitandi með of stuttan eða of langan taum. Þá er gott að veiðimaðurinn ráði við að leiðrétta það misræmi á milli línu og taums sem getur skapast.


  • Til að vinna á móti of stuttum taum getum við t.d. lengt kasttímann, fengið stærra kasthjól. Þannig stækkar línuboginn og yfirlínan ferðar hægar, við náum að leggja stuttan taum snyrtilegar frá okkur.
  • Að sama skapi getum við stytt kasttímann til að ná þrengri línuboga ef taumurinn er of langur.

Það er gott að ráða við hvoru tveggja, þó ekki væri nema að einhverju marki. Við byrjum oft veiðarnar með aðeins of langan taum því hann styttist jú í hvert skipti sem við skiptum um flugu og við viljum ekki enda strax með allt of stuttan taum. Eins kalla mismunandi veiðiaðferðir á mislanga tauma, t.d. hvort við viljum veiða grunnt eða djúpt.

Taumurinn langi

Það er ekki aðeins hraði línunnar eða aflið í kastinu sem skiptir máli fyrir það hvernig hún réttir úr sér. Taumurinn og flugan ráða þar miklu.

Ef línan nær ekki að rétta úr sér í framkastinu, kuðlast niður með tauminn og fluguna á toppnum, þá er massi taums og flugu of mikill sem gerir það að verkum að yfirlínan ferðast hægar en undirlínan. Undir svona kringumstæðum fer allur vindur úr kasthjólinu og línan nær ekki að rétta úr sér. Athugaðu hvort ekki megi stytta í tauminum.

Taumurinn stutti

Það er ekki aðeins hraði línunnar eða aflið í kastinu sem skiptir máli fyrir það hvernig hún réttir úr sér. Taumurinn og flugan ráða þar miklu.

Ef línan réttir hratt úr sér og taumurinn kippist til baka þegar hún er komin öll fram, þá er taumurinn of stuttur, þ.e. massi hans og flugunnar stemmir ekki. Þú þarft að hægja á yfirlínunni, gefa tauminum meiri tíma til að rétta úr sér. Það er einfaldast að gera með því að lengja í honum.

Að rétta úr taum

Einþátta krullaðir taumar eru óspennandi. Einfalt ráð til að rétta úr þeim er að taka venjulegt PVC strokuleður, skera grannt V í endan á því og renna tauminum hægt en ákveðið í gegnum það. Hitinn sem myndast við að taumurinn rennur í gegnum strokuleðrið réttir úr honum + þú þrífur af honum öll óhreinindi og svo fer ekkert fyrir storkuleðrinu í veiðivestinu.

Misbrestur – Allt rétt nema…

Það getur verið verulega ergjandi þegar maður er búinn að fylgja öllum leiðbeiningum (læðast að vatninu, skoða lífríkið, fylgjast með atferli og velja flugu af kostgæfni) þegar maður sér fluguna beinlínis stífna upp eða druslast í inndrættinum. Engin eðlileg hreyfing og því ekkert aðdráttarafl. Eftir nokkur svona tilfelli þá kviknaði loksins á perunni hjá mér, taumurinn. Er ég örugglega með réttan taum og taumaenda? Taumurinn hefur ekki aðeins áhrif á það hvernig flugan leggst í kastinu, heldur og einnig hvernig hún hagar sér í inndrætti. Þegar ég fór að styðjast við eftirfarandi þumalputtareglu þá fóru flugurnar að haga sér mun betur:

  • Deildu í flugustærðina með fjórum og veldu taum og taumenda m.v. útkomuna. Dæmi: Taumur fyrir flugu á öngli nr. 12 ætti að vera 12 / 4 = 3x. Ef þú ert ekki viss um stærð flugunnar, taktu gott gisk og lækkaðu taumstærðina um 1x.