Af mörgum ástæðum er rétti staður línunnar í vatninu. Ef hún er of lengi í loftinu, þá er flugan það líka og ekkert veiðist. Ef hún er alltaf inni á hjólinu, þá er engin fluga og ekkert veiðist. Ef hún er í sandinum, þá er maður að skrapa húðina af henni og hún hættir að renna.
Það eru ótal margar leiðir til að fara illa með línuna sína. Að dragnast með hana í eftirdragi á vatnsbakkanum er ein leið til þess. Ef það er ekki sandur sem sér um að skrapa og rispa yfirborð hennar, þá er trúlega einhver gróður sem hægt er að húkka í, jafnvel búa til skemmtilega slaufu eða hnút sem gæti í versta falli orðið að broti í línunni.
En það er lítið betra að dragnast með línuna á eftir sér í vatninu. Það þarf ekki nema einn góðan stein eða nibbu til að stöðva för og hvað gerir maður oftar en ekki þá? Jú, kippir í línuna eða reynir að vippa henni af steininum. Í augnablikinu eru nokkrar smá skeinur á einni af mínum línum vegna þessa sem ég efast um að ég nái að lagfæra.
Eins gott og það getur nú verið að setjast aðeins niður eftir drjúga stund við veiðar, þá geri ég oft á tíðum þau mistök að hanka línuna saman og leggja hana frá mér ásamt stönginni á öruggan stað. Þegar ég er svo búinn að fá mér kaffisopa og láta líða aðeins úr mér, þá stend ég upp og …. stíg á línuna. Meira að segja á mjúku undirlagi er ekki ólíklegt að ég merji línuna aðeins undir skónum. Því miður gengur mér erfiðlega að venja mig af þessu og spóla línunni inn á hjólið áður en ég tek mér pásu.
En það geta líka orðið ákveðin særindi ef maður spóla inn á hjólið. Ef það er of mikil undirlína á hjólinu og línan svo til rétt sleppur inn á hjólið, þá þarf nú ekki mjög mikið til þess að maður spóli henni inn í kryppu og þá fer hún að rekast í umgjörðina við hvern einasta snúning. Ef svo ber undir, þá er rétt að spóla allir línunni út og stytta undirlínuna til að skapa aðeins meira pláss á hjólinu fyrir hana.
Þá held ég örugglega að ég sé kominn með alla línuna af mistökunum sem ég geri mig uppvísan að. Nei, annars, það vantar eitt. Ég á það til að draga línuna svolítið mikið á ská út af hjólinu og þá nuddast hún við umgjörðina á spólunni og … einmitt, ég skef húðina af kápunni. Það ætti að vera auðvelt að venja sig af þessu, draga bara línuna beint fram eða niður í stað þess að skófla henni út á ská.