Það er ekkert leyndarmál að eftir að ég komst í kynni við hægsökkvandi línur, þ.e. intermediate þá hefur verulega dregið úr álagi á flotlínurnar mínar. Þegar þetta er ritað, þá á ég tvær mismunandi hægsökkvandi línur; slow intermediate sem sekkur um 0,5 tommu á sek. og fast intermediate sem sekkur um 1,5 tommur á sek. Báðar eru þær WF (e: weight forward) þannig að það er nánast enginn munur á að kasta þeim m.v. hefðbundna flotlínu. Þyngd þessara lína er í raun lítið meiri en flotlínu, en eiginleikum þeirra til að sökkva undir yfirborð vatnsins er fyrst og fremst náð með því að hafa línuna grennri þannig að hún sker yfirborðið.
Það eru einnig til þær hægsökkvandi línur þar sem þessum eiginleikum er fyrst og fremst náð með því að bæta tungsten eða öðrum þungum ögnum í kápuna, en þá eru þær yfirleitt sverari og virka til muna þyngri í kasti heldur en flotlínur.
Þá fyrri finnst mér tilvalið að nota fyrir t.d. votflugur eða léttar púpur sem ég vil veiða 10 – 15 sm. undir yfirborðinu, sérstaklega þegar einhver vindur er á vatninu sem hrakið gæti línuna til.
Þá hraðari nota ég reyndar mest. Ræður þar mestu að hún sekkur jafnt og vel og ég þarf þarf ekki að bíða lengi þar til hún hefur náð kjördýpt hornsíla og flestra tegunda púpa. Þar sem straums gætir, svo fremi að hann er ekki of mikill, þar kemur fast intermediate línan að svipuðum notum og hrað- eða framsökkvandi sökklína í stríðum straumi. Kemur flugunni vel niður áður en straumurinn tekur línuna og framkallar óeðlilegt drag og hrifsar þannig fluguna af því svæði sem ég vil veiða hana á.
Síðan skemmir það auðvitað ekki að þar sem þessar intermediate línur mínar eru töluvert mjórri heldur en hefðbundin flotlína, þá taka þær minni vind á sig, sem er ótvíræður kostur á landi eins og Íslandi.
Senda ábendingu