Stundum kemur það fyrir að flugulínurnar mínar og ég erum ekki alveg sammála. Þær liggja bara þarna fyrir fótum mér en þegar ég ‚þarf‘ að lyfta tánum örlítið í kastinu, þá þurfa þær endilega að smeygja sér undir vöðluskóinn og húkka sig þannig fastar að ekkert verður úr kastinu. Sumar línur eru líka í eðli sínu illkvittnar og finna sér hvern einasta stein, trjágrein eða gróður til að vefja sig utan um þegar minnst varir og virðast segja „Hingað, og ekki lengra. Ég nenni þessu ekki lengur.“
Svo kemur það fyrir að línan verður beinlínis andsetinn, snýr upp á sig og er bara með yfirgengilega almenna stæla. Í þeim tilfellum er víst ekki við línuna að sakast, þessir snúningar eru mér að kenna og þá þarf ég að gera eitthvað í mínum málum, jafnvel að strjúka línunni aðeins og fá hana aftur til fylgilags við mig.
Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að það snýst upp á flugulínuna. Ein ástæða þess að flugulína vindur upp á sig er falinn í kastinu mínu. Við breytingar á kastferlinum, þ.e. einhver frávik frá því að línan ferðast í beinni línu frá öftustu stöðu og í fremra stopp, þá snýst upp á línuna. Stundum er þetta með vilja gert, þ.e. maður tekur línuna upp í bakkast og breytir stefnu hennar til að leggja hana niður á nýjan stað, en stundum er þetta óviljandi frávik í framkastinu.
Notkun á stórum flugum, þeim sem taka á sig vind eða búa yfir mikilli loftmótstöðu, geta einnig framkallað smávægilegan snúning á línuna. Smá ábending; ef þessi snúningur hleðst ört upp, þá er það vísbending um að verið sé að nota of létta stöng / línu miðað við flugu og reynandi væri að hækka sig um eitt til tvö númer í stöng.

Annars er það þannig að öll þessi smávægilegu frávik hlaðast upp í línunni og ef ekkert er að gert, þá er kominn svo mikill snúningur á línuna að jafnvel lítill stubbur af henni sem lafir niður úr hjólinu er farinn að snúa upp á sig, flækjast. Í verstu tilfellum dregur maður þessa flækju inn á hjólið og skyndilega stendur allt fast. En áður en að þessu kemur, þá eru nokkur atriði sem má nýta sér til að snúa ofan af vandamálinu.
Það fyrsta sem maður getur gripið til er að taka minna af línunni út af hjólinu fyrir kastið og láta það nýta alla línuna sem leikur laus, alveg að hjólinu. Taka síðan aðeins meira út fyrir næsta kast og láta það nýta viðbótina líka. Það er glettilegt hvað nokkur góð köst geta undið ofan af snúningi.
Ef allt um þrýtur, þá þarf einfaldlega að draga alla línuna út af hjólinu og spóla rólega inn á það aftur og gæta þess að það étist ofan af snúninginum jafnt og þétt. Það væri meira að segja heppilegt að nýta tækifærið og bregða gleraugnaklút eða hreinsitusku á línuna þegar henni er spólað inn á hjólið, slá tvær flugur í einu höggi.
Algeng mistök þessu tengt er að fara að strengja á línunni til að losna við snúninginn, ekki gera það. Við strengjum aðeins á línunni ef hún herpir sig saman vegna hitabreytinga eða vegna þess að hún myndar gorm þegar hún kemur út af spólunni sem er allt annað vandamál og tengist mynni hennar, ekki snúningi.
Senda ábendingu