Flýtileiðir

DT, WF, ST eða L

Hversu margir hafa ekki rekist á þessar skammstafanir á flugulínum? Um daginn var ég að spjalla við vinnufélaga minn, þokkalega reyndan veiðimann og þá bárust flugulínur í tal. Það kom mér ekkert á óvart að hann hváði þegar ég sagði honum að ég veldi WF (weight forward) umfram DT (double taper) línur. Eftir að hafa skýrt í stuttu máli fyrir honum, muninn á þessum línum, þá rann upp fyrir honum ljós; Já, ætli ég eigi ekki svona línu sem ég nota eiginlega aldrei, keypti hana á útsölu á slikk. En hver er eiginlega munurinn á þessum línum? Eftirfarandi er alls ekki tæmandi úttekt, en gefur kannski einhverja hugmynd um helstu atriðin sem skilja þessar línur að. Byrjum á smá upprifjun á því hvernig algengar flugulínur eru byggðar upp.

Fremsti partur línunnar (tip) er yfirleitt innan við eitt fet og þjónar þeim eina tilgangi að festa tauminn við línuna. Næst kemur fremri kónn línunnar (front taper) sem er breytilegur eftir línum, oft ekki nema 9 fet, stundum styttri, stundum til muna lengri. Á eftir kóninum kemur sjálfur belgur línunnar og er yfirleitt í sama sverleika allt aftur að aftari kón (back taper) sem er yfirleitt eins eða svipaður að lengd og sá fremri. Saman nefnast þessir þrír partar (kónarnir og belgurinn) haus línunnar. Önnur undantekningin frá þessu eru línur sem búnar eru s.k. skothaus og eru einkenndar með ST (shooting taper). Þá má segja að aftari kóninn vanti alveg, línan mjókkar snarlega niður í rennslislínuna sem er einmitt aftasti partur línunnar. Hin undantekningin er svo línur sem eru raunar frekar vandfundna. Það sem einkennir þær er að þær eru af sama sverleika frá byrjun til enda, hafa hvorki haus né hali. Þessar línur eru einkenndar með L (level taper).

fos_linubygging
Gerðir flugulína

Almennt er sagt um DT línur að þær beri veltikast betur heldur en WF línur, auðveldara sé að stjórna þeim og þær leggist mjúklegar niður. WF línur henta aftur á móti betur en DT línur til að ná lengri köstum. Þetta er gott og gilt, eins langt og það nær, en hafa ber í huga að það er massi fremsta parts línunnar sem ræður mestu um hve fínlega hún leggst fram. Grönn lína með löngum fremri kón hefur minni massa heldur en sama lína með stuttum kón. Þannig getur WF lína lagst alveg eins mjúklega fram í styttri köstum eins og DT lína ef t.d. fyrstu 30 fetin eru svipuð hönnuð hvað varðar massa.

Þegar kemur að veltikastinu og meira reynir á jafna dreifingu þyngdar, koma kostir DT línunnar í ljós. Þegar kasta á upp í vind, þá hefur WF aftur á móti vinninginn. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það undir hverjum og einum komið hvort hann velur DT eða WF línu. Trúlega eru WF línurnar vinsælli vegna þess að það er hægt að velja sér þannig línu sem er með svipaða byggingu og DT lína og virkar því svipað í styttri köstum, gefur þar að auki kost á lengri köstum ef á þarf að halda, en þá á kostnað fínleika þegar hún leggst niður.

Sísta línan til að kasta af þessum gerðum er L línan. Að vísu er þetta sú lína sem flýtur best, þ.e. jafnast þar sem hún er af sama sverleika frá byrjun til enda. Það er því alveg sama hvaða hluti hennar liggur í vatninu, hún flýtur eins alla leið. Vegna lögunnar línunnar og jafnrar þyngdardreifingar er hún aftur á móti einstaklega leiðinleg í kasti.

Þegar einhver var spurður að því hvað ST lína væri eiginlega, þá svaraði hann að skotlína væri eiginlega WF lína á sterum, allur massinn hefði safnast saman fremst í henni. Mér finnst þetta ágæt skýring.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com