Það hafa komið hér á síðunni nokkrar greinar um línur í gegnum tíðina, en um daginn tók ég eftir því að það vantaði hér inn smá skýringar á því hvernig mismunandi línugerðir haga sér í vatni. Hér á eftir geri ég heiðarlega tilraun til að bæta úr þessu. Byrjum á mynd af þeim fjórum helstu gerðum lína sem í boði eru:
Flotlínan (F) er orange á myndinni og flestir fluguveiðimenn þekkja hvernig hún hagar sér, liggur bara þarna á yfirborði vatnsins og það eina sem getur dregið hana undir yfirborðið er þyngd flugunnar. Haus flotlína er yfirleitt þetta 35 – 45 fet og form hans getur verið með ýmsum móti. Það má lesa nánar um það í þessari grein.
Sökkendalína er gul á myndinni (T). Hefðbundin sökkendalína er í raun flotlína, en fremstu 10 – 15 fetin af hausnum eru þannig hönnuð að þeir sökkva. Svo fer málið aðeins að flækjast því það er hægt að fá þessar línur með mismunandi sökkhraða. Algengast er að sökkhraði sé mældir í tommum á sekúndu (IPS) og algengt að þær sökkvi frá 3 IPS og upp í 9 IPS. Á mannamáli þá þýðir þetta að 3 IPS fer frekar rólega niður í vatnið en 9 IPS steinsekkur.
Intermediate (I) er heil flóra af línum og er sú bláa á myndinni. Sá partur línunnar sem í raun sekkur getur verið frá 15 fetum og allt að enda línunnar, þess sem er inni á hjólinu (full intermediate) sem ég verð að viðurkenna að mér finnst þá vera nokkuð nálægt því að vera síðasta gerðin, þ.e. sökklína. Sökkhraði intermediate lína er mis mikill, allt frá slow (0,5 IPS) og upp í fast (1,5 IPS). Það sem mér finnst vera góð intermediate lína er sú sem er með tiltölulega góðum haus (skothaus) og stöðvast í sökkinu um leið og ég tek í hana. Það má lesa nánar um intermediate línur í þessari grein.
Sökklínu (S) eru línur sem sökkva alveg frá byrjun til enda og er sú gráa á teikningunni. Hérna er ég ekki sérstaklega sterkur í lýsingum, hef lítið sem ekkert notað heilsökkvandi línu í vatnaveiðinni og um leið og ég skrifa þetta, þá rennur upp fyrir mér að ég veit bara hreint ekki af hverju ekki. Heilsökkvandi línur eru, eins og heiti þeirra segir til um, sökkvandi línur í hraða 3 IPS og alveg upp í 7 IPS rétt eins og sökkendalínurnar. Stærsti munurinn ku vera að þær sökkva alla leið, í tvennum skilningi, frá byrjun til enda og ef þeim er gefinn nægur tími, þá er ekkert það dýpi sem þær ná ekki niður á. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í hvar þeir fengsælustu hafa verið að veiða í Veiðivötnum síðustu árin, þá er þetta línan sem mig vantar í vötnin þar sem botninn er ekki urð og grjót alla leið.
En nú er sagan aðeins sögð að hálfu leiti, þessar línur haga sér náttúrulega með misjöfnum hætti við inndrátt. Sú saga verður sögð í öðrum pistli hér á síðunni.
Senda ábendingu