Frosinn taumur

Í fyrrasumar var ég óvenju duglegur að veiða litlar flugur, þ.e. flugur sem hnýttar voru á króka #14 og #16. Mikið minni flugur á ég erfitt með að hnýta á tauminn, kominn á þennan aldur og er ekki með tvískipt gleraugu.

Til að byrja með gekk mér heldur brösuglega að veiða þessi kríli, það var bara alls ekki eins og þær vildu leggjast út í framkastinu. Ég lengdi þá í tauminum, notaði 2X og 3X fremst, en allt kom fyrir ekki. Þær bara lögðust ekki eðlilega fram. Ég set eðlilega í skáletur vegna þess að það sem einum þykir eðlilegt eða ásættanlegt, þykir öðrum hlussugangur eða óþarfa stífni. Já einmitt, stífni, það var orðið sem kom upp í huga mér þegar ég kíkti á tauminn minn. Hvað ætli þessi taumur sé eiginlega gamall, hugsaði ég á meðan ég gróf eftir taumaveskinu og fann einn sem ekki var orðinn mattur í gegn og í þokkalegu ástandi. Eftir að hafa klippt allar lengingar framan af honum, byrjaði ég upp á nýtt og hnýtti X1, 0X og 3X framan á og lét reyna á kvikindið.

fos_taumur

Þessi taumur reyndist skárri, en alls ekki góður. Það fór að fara um mig, hafði allt kast frosið í höndunum á mér yfir veturinn? Heldur súr spólaði ég inn og kíkti á tauminn. Gat þetta verið? Var ég að blanda saman einhverju taumefni sem vildi ekki eiga samleið? Ég sá ekki betur en 0x parturinn væri úr allt öðru efni en hinir partarnir, sem þó gat ekki staðist því ég held mig að mestu við eina gerð taumaefnis, kaupi eiginlega ekkert annað. Það sló væntanlega rauðum bjarma á vatnið þegar ég gerði mér ljóst að ég hafði átt 0X spóluna hátt í þrjú ár í vestinu. Eftir að hafa gramsað í veiðitöskunni og fundið nýrri spólu af 1X og endurhannað tauminn frá grunni lögðust flugurnar eins vel fram og köstin mín yfirleitt bjóða uppá.

Þetta var sú minning sem sótti á mig um daginn þegar ég undirbjó fyrstu (snautlegu) ferð sumarsins. Því fór ég vel yfir alla tauma og taumefni áður en ég pakkaði dótinu í bílinn.

Stutt lína

Vorboðar eru margir og af ýmsum gerðum. Heiðlóan hefur ákveðinn sess í hugum landsmanna og hennar má vænta í síðustu viku mars eða fyrstu viku apríl. Óðinshaninn, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, lætur yfirleitt ekki sjá sig fyrr en í annarri viku maí, svona u.þ.b. þegar veiðifélagið mitt færir sig frá hnýtingarþvingunum og út á tún til að teygja svolítið á línunum og liðka kastvöðvana.

Ég man ekki alveg hvort það var s.l. vor eða þar síðasta að veiðifélagi minn var spurður á slíkri samkomu hvort hún væri ekki með full stutta línu á fjarkanum. Trúlega vafðist félaganum ekki tunga um tönn að þessu tilefni frekar en endranær og ég get rétt ímyndað mér að svarið hafi verið eitthvað á þá leið að hún þyrfti bara ekkert lengri línu í silunginn. Nú þekki ég takmarkað til laxveiða en af því sem ég hef flett upp þá eru flugulínur sem ætlaðar eru í laxveiði þetta á bilinu 80 – 120 fet fyrir einhendu á meðan flugulínur sem stimplaðar eru silungalínur yfirleitt á bilinu 60 – 80 fet. Ég held örugglega að allar mínar línur eru innan þessara marka, þ.e. á milli 60 og 80 feta. Það gæti þó verið að ég eigi eina sem er eitthvað styttri, væntanlega er hún ætluð í þurrfluguveiði.

Óþarflega mikið úti
Óþarflega mikið út af hjólinu

Það kemur ekki oft fyrir að ég taki alla línuna út af hjólinu og í þau fáu skipti sem ég hef gert það, þá man ég ekki til þess að ég hafi náð að koma henni allri út, hún hefur svona meira verið að þvælast fyrir fótunum á mér. En, þegar sá stóri tekur, þá er ég viðbúinn og með nokkra tugi feta af undirlínu á hjólinu sem annars eru þarna bara til að víkka ummál miðjunnar í hjólinu þannig að stutta flugulínan mín krullist síður. Ég hef lúmskann grun um að því sé svipað farið með marga silungsveiðimenn, undirlínan þjónar aðeins þeim tilgangi að byggja undir flugulínuna á hjólinu. Sumir nota svera undirlínu með miklum slitstyrk en ég nota hefðbundna dacron línu með 20 punda slitstyrk og set bara þeim mun meira af henni inn á hjólið, ég get þá alltaf tekið af henni ef hún verður óheyrilega skítug og ógeðsleg. Hvort það reyni nokkurn tímann á hana er svo allt annað mál.

Nokkrar línur um línur

Ég hafði verið að veiða á flugu í nokkur ár áður en ég fór að íhuga aðra flugulínu heldur en hefðbundna framþunga flotlínu. Ástæðan? Jú, ég var spurður hvernig ég ætlaði að koma flugunni niður til stóra urriðans í Veiðivötnum fyrst ég ætti ekki sökklínu. Ég var ekki alveg sannfærður, þyrfti ég virkilega sökklínu til að veiða í Veiðivötnum? Niðurstaðan varð sú að ég keypti mér Intermediate línu með miðlungslöngum haus og afskaplega litlum sökkhraða, undir tommu á sek. Til vonar og vara samþykkti ég að taka með mér láns-línu með sökkhraða 5 tommur á sek. ef flugan mín vildi bara alls ekki fara niður.

Það er skemmst frá því að segja að ég veiddi 90% af fiskunum í þessari fyrstu Veiðivatnaferð minni í yfirborðinu með ‚gömlu góðu‘ flotlínunni, ekki einu sinni með Intermediate línunni, hvað þá sökklínunni. Í dag veiði ég reyndar nokkuð jöfnum höndum með Intermediate og flotlínu. Þess vegna er ég vopnaður einu góðu veiðihjóli með tveimur mismunandi spólum; einni með flotlínu og annarri með intermediate línu. Ég smelli annarri á hjólið og set hina í bakpokann þannig að ég get skipt eftir hentugleikum. Enn þann dag í dag hef ég ekki séð ástæðu til að fjárfesta í sökklínu, þess í stað hef ég verið að íhuga líftíma flugulína af meiri áhuga heldur en áður.

fos_hjologlinur

Mér telst til að ég sé að nota fjórðu og fimmtu flugulínurnar sem ég hef keypt um ævina. Fleiri eru þær nú ekki og ekki eru þær af einhverri ákveðinni tegund. Í mínum huga ræður mestu að línan renni þokkalega, leggist vel fram og krullist ekki fram úr hófi þegar hún fer í kalt vatnið að vori eða hausti. Reyndar er svo komið að ég verð að huga að endurnýjun, leggjast í landkönnun línufrumskógarins og finna mér línu sem leyst getur af hólmi slitna Intermediate línuna mína og þá mögulega eina í stað flotlínunnar sem hefur eiginlega alla tíð verið hálf leiðinleg í framkastinu þegar mikið af henni liggur í vatninu við fætur mér.

Ég gleymdi einu varðandi línurnar sem ég hef valið; þær hafa allar verið í ódýrari kantinum, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki vera með lífið í lúkunum að skemma þær ekki á brölti mínu í hrauni og eggjagrjóti.

Stórir hringir

Stórt er ekki endilega alltaf betra, en þegar kemur að fluguhjólum verð ég víst að taka undir með þeim sem mæla frekar með stórum hjólum, þ.e. large arbor hjólum. Vissulega eru þessi hjól oft svolítið meiri um sig heldur þau smágerðu með litlu miðjunni, small arbor. Það gefur augaleið að línuspólan þarf að vera aðeins meiri um sig ef miðjan er stærri þannig að öll línan með undirlínu komist fyrir. Hin síðari ár hefur reyndar örlað á því að ofvöxtur hafi hlaupið í sum þessara hjóla þannig að nærri liggur að finna þurfi annað einkenni á þau heldur en large, en það er önnur saga.

Stærsti kostur large arbor hjóla er vissulega sá að línan leggst inn á þau í víðari hring þannig að minni líkur eru á að hún dragist út af þeim í einni krullu, gormi sem oft verður til trafala í kasti. En það er einnig annar kostur sem er ekkert síðri og vert er að nefna. Þegar línan spólast í víðari hring inn á hjólið verða hringirnir færri á hjólinu. Nei, ég er ekki að tala um þann kost að menn séu fljótari að spóla inn á large arbor heldur en mid- eða small arbor hjól. Með færri hringjum af línu á hjólinu eru færri lög af línu sem óhreinindin geta tekið sér bólfestu í heldur en á smærri hjólum.

fos_hjologspolur

Vissulega eru alltaf dagsdagleg óhreinindi sem flækjast fyrir manni í veiði; slý, gróðurleifar og sandur. En þetta er í flestum tilfellum einfalt að losa sig við sé klút brugðið á línuna annað slagið og hún dregin inn í gegnum hann. Verra mál getur verið þegar þessi óhreinindi fá að liggja óáreitt inni á fluguhjólinu, þorna og éta sig fasta á línuna. Þá getur þurft eitthvað meira til heldur en rakan klút. Svo er það blessaður jarðvegurinn, sá sem hefur óvart spólast inn með línunni þegar tekið er saman í lok dags. Smágerð sandkorn, jafnvel einfalt þjóðvegaryk getur farið illa með línukápuna ef það fær að liggja inni á hjólinu einhvern tíma. Þá er kostur að vera með færri hringi af línu á hjólinu, það þýðir færri sandkorn. Þetta er mögulega eitthvað sem menn vilja hafa í huga þegar þeir setja eitthvað á jólaóskalistann á næstunni.

Líknarmeðferð

Þegar líður á seinni hluta vertíðar hefur hugur manns stundum leitað til þess hvort ekki sé til einhver sú líknandi meðferð sem hægt er að beita á flugulínurnar. Kannski er það bara ég, en þegar líður á sumarið verða línurnar mínar stundum afskaplega leiðinlegar. Þær taka upp á því að renna illa, flækjast fyrir mér og eru hreinlega bara með almenn leiðindi af verstu gerð. Heilt yfir sumarið reyni ég að sinna línunum eftir bestu getu, en stundum dugar það bara alls ekki til.

Almennt reyni ég að baða þær í öðru vatni en veiðivatni einu sinni til tvisvar á ári. Á haustin sting ég þeim í ilvolgt bað með smá uppþvottalegi. Leyfi þeim að liggja þar smá stund, strýk af þeim með mjúkum bómullarklút og skola vel á eftir. Þurrum spóla ég þeim síðan inn á hjólin eða vind þær upp í hankir og kem þeim fyrir á svölum stað og vitja þeirra ekki síðar en í mars. Ef mér sýnist svo, sting ég þeim þá aftur í volgt vatn og teygi svolítið á þeim, svona til að ná geymslukrullunum úr þeim fyrir vorið.

fos_flugulinur

Yfir sumarið geng ég alltaf með gleraugnaklút í veiðivestinu og bregð línunum við og við í gegnum hann. Það er merkilegt hvað hrein og tær náttúran okkar á það til að losa sig við óhreinindi yfir á flugulínurnar okkar. Ef ég er mikið á ferðinni þar sem drullupollar herja á veiðislóða, þá á ég það jafnvel til að bregða línunum í bað eftir að gusurnar hafa gengið yfir húddið á bílnum og þar með stangir og línur.

En svo kemur að þeim tímapunkti að þessi daglega umhirða dugir ekki til og línurnar halda bara áfram að pirra mann. Þetta er víst merki þess að hilli undir endalok línunnar og eitthvað meira þarf til að hún renni þokkalega. Með tíð og tíma eyðist ysta kápa línunnar eða særist þannig að almenn þrif duga ekki til. Þá laumast ég til að nota línubón og lengi þar með líftíma línunnar aðeins, svona rétt út vertíðina. Á endanum verð ég víst að bíta í það súra epli að fjárfesta í nýjum línum, en það er vissulega hægt að lengja líftíma línunnar með þokkalegri umhirðu.

Kanntu stöng að þræða?

Ég man enn eftir augnablikinu þegar hönd var lögð á öxl mér og mælt til mín mildum rómi; Hafðu hana tvöfalda, þá gengur þetta betur. Þetta var fyrir mörgum árum þegar ég var staddur á veiðivörukynningu og var eitthvað að bögglast við að þræða flugustöng. Eitthvað hefur þetta greinilega gengið brösuglega, því þessi eldri, reyndi veiðimaður gat greinilega ekki orða bundist og vildi leiðbeina mér.

fos_linalykkja

Eftir þetta hef ég alltaf þrætt stöngina mína með línuna tvöfalda í gegnum lykkjurnar. Ég er sneggri að þræða stöngina og yfirleitt skiptið það engu máli ef ég missi línuna, hún rennur aðeins niður að næstu lykkju. Varðandi þennan eldri veiðimann, þá hef ég notið leiðsagnar hans á ýmsa vegu eftir þetta, en þessi fyrstu kynni okkar sitja trúlega fastast af öllu sem hann hefur kennt mér.

Vinda ofan af eða ekki?

Maður skildi ætla að eftir nokkur ár, fjölda veiðiferða og óteljandi köst, þá væri maður laus við þennan ófögnuð sem vindhnútarnir eru. En, það er nú öðru nær. Þessir óþurftar pésar sem þeir eru hafa fylgt mér og munu trúlega alltaf gera. Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér í vetur sem leið og ákvað að tefla á tæpasta vaðið og spurðist fyrir í veiðifélaginu mínu, hvort menn væru enn að eiga við vindhnúta, komnir á efri ár.

Þeim sem til þekkja, þ.e. míns veiðifélags vita að ég mátti segja mér sjálfum að svörin yrðu eitthvað út og suður. En, merkilegt nokkuð, ég fékk hverja játninguna á fætur annarri að þetta væri nú alveg upp og ofan; stundum slæmt og í annan stað verra. Aðeins einn sagðist ekki vita hvað ég væri að tala um, hann þekkti ekki til þessa vandamáls, kannski vegna þess að það væru orðin svo mörg ár síðan hann veiddi síðast, en það er allt önnur saga.

Þessar hugleiðingar sóttu aftur á mig um daginn þegar ég glímdi við einkennilega mikinn fjölda vindhnúta á tauminum mínum. Það var að vísu töluverður vindur, en ekki svo að ég missti bakkastið eitthvað niður, en hnútarnir tóku að raðast á tauminn hjá mér. Í einhverju bjartsýniskasti vegna mögulegra stórfiska ákvað ég að draga inn og leysa úr þessari bölv…. flækju sem hafði myndast. Á meðan ég tók ofan gleraugun (ég er sem sagt nærsýnn) og pírði augun á flækjuna (ég er sem sagt líka kominn með ellifjarsýni) varð mér hugsað til ráðs sem ég las fyrir einhverju síðan. Ef manni tekst að losa flækjuna (á endanum) þá ætti maður að renna tauminum á milli vara sér og athuga hvort brot eða einhverjir hnökrar væru á tauminum.

fos_knots

Eftir ótrúlega langa mæðu, nokkur pirringsköst og almenna ólund, tókst mér að greiða úr flækjunni og losa hnúta sem ekki voru fullhertir. Ég lét sem sagt reyna á þetta ráð og eiginlega sleikti tauminn. Og viti menn, það voru í það minnsta tvenn brot í taumaefninu sem ég hafði ekki séð með berum augum (ellifjarsýnin, sko) eða fundið á milli fingra mér (kuldinn, sko) þannig að ég hefði trúlega geta sparað mér allt þetta vesen og einfaldlega klippt, troðið flækjunni í vasann og hnýtt nýtt taumaefni á. Það fylgdi sögunni á sínum tíma að ef maður reyndi að endurnýta taumaefnið eftir vindhnúta, sérstaklega grennra efni, þá væri eins víst að nýr hnútur myndaðist í fyrsta eða öðru kasti, einmitt þar sem brotin væru í efninu. Hér eftir ætla ég gefa þessu betur gaum og sjá til hvort vindhnútum fækki ekki eitthvað hjá mér.

Veikasti hlekkurinn

Veiðigræjurnar verða aldrei öflugri heldur en veikasti hlekkurinn í keðjunni. Það er marg tuggið tóbak að maður fer yfir græjurnar áður en maður heldur í fyrstu veiði. Að rjúka niður í geymslu daginn fyrir fyrstu veiðiferð, rífa fram stöngina, hjólið og vöðlurnar kann ekki góðri lukku að stýra.

Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að fara tímanalega yfir stöng, hjól, línu, taum og taumaenda áður en haldið er í fyrstu veiðiferð. Ég tel þetta upp í þessari röð því stöngin þarf að vera í lagi, þokkalega hrein, allar línulykkjur í lagi og samsetningar hreinar. Hjólið þarf að vera liðugt, bremsan ekki föst í læstri stöðu og svo auðvitað hægt að setja bremsuna á þannig að hún haldi. Við hjólið er tryggilega fest undirlína og við hana ætti sömu leiðis að vera fest hrein og eftir atvikum, vel smurð lína.

Á þann enda sem er nær fiskinum hef ég vanist á að festa línulykkju sem auðvelt er að smeygja taumi í og úr. Sumir hnýta taum við línu með þar til gerðum hnút, en ég vil ganga tryggilega frá línunni minni og verja enda hennar fyrir vatni sem gæti smogið inn í hana og þannig ruglað þyngd hennar. Þetta á sérstaklega við um flotlínu, en í raun á þetta við um allar línur. Ef vatn kemst inn undir kápuna á línunni, þá er ekkert víst að hún hagi sér í vatni eins og vera ber og maður gerir ráð fyrir.

Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar gerðir línulykkja. Sumar eru svo þéttofnar að þær standa eins og tannstöngull út í loftið, aðrar eru svo lausofnar að þær safna í sig skít og drullu og enda þá með því að standa alveg jafn mikið út í loftið eða það sem verra er með einhverja einkennilega kryppu sem vísar út eða suður. Hæfilega þétt ofinn línulykkja með kínverskum handjárnum sem línunni er smokrað í og fest með plasthólk hefur reynst mér best. Hin síðari ár hef ég síðan lagt af þann sið að líma lykkjuna með tonnataki eða einhverju álíka við línuna. Tonnatak er ekki heppilegt þar sem sveigjanleiki á að vera til staðar og svo vill tonnatak eldast illa í vatni, verður stökkt og brotnar auðveldlega með tímanum. Eina límið sem ég nota er mjúkt PVC lím til að loka enda línunnar þannig að framangreind vatnssmitun eigi sér ekki stað.

Samtenging línu og taums
Samtenging línu og taums

Um sumarið fer ég síðan reglulega fyrir línulykkjurnar mínar og geng úr skugga um að trosnaðar lykkjur gefi sig ekki þegar sá stóri bítur á.

Vetrarhamur tauma

Þegar ég var fínpússa græjurnar mínar um daginn; baðaði línurnar mínar enn eitt skiptið, fór yfir veiðihjólið og herti upp á ýmsu og losaði annað, þá opnaði ég fyrir rælni taumaveskið mitt. Æ, þessi ósköp fíngerðu spottar sem maður notar til að trappa línuþykktina niður í eitthvað sem getur flutt fluguna þokkalega út á vatnið. Sumir þykkir og pattaralegir fyrir línu #7, aðrir mjóir og nettir fyrir línu #4. Bestu vinir mínir og þó hinir mestu skaðvaldar sem maður getur kynnst í lok langs veiðidags þegar köstin hafa tekið upp á því að vera ómarkviss með lélegur bakköstum og svipusmellum í framkastinu.

Taumarnir lágu þarna í veskinu og létu lítið fyrir sér fara, hringaðir upp með tvöföldum vafningi í enda til að varna því að þeir færu á flakk og í flækju. Raunar var það nú svo að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að þeir færu í flækju, þeir voru svo rækilega fastir í sínu fari, rétt eins og stjórnmálamaður sem hefur bitið í sig á unglingsárum að vera á móti einu eða öllu og hefur haldið því áfram allan sinn feril á þingi. Ég losaði varlega upp á vafningunum á einum taum og ætlaði að rétta úr honum. En, nei. Það var nú ekki það sem hann hafði í huga. Ég veit ekki hvaða hljóð það var sem hann gaf frá sér þarna á borðinu, því verður kannski best lýst með orðinu krull. Taumurinn sem sagt krullaði sig bara aftur saman í fallegan 2“ hring og ég get svarið það, hann vafði sig tvisvar um sjálfan sig á endanum, geispaði framan í mig og lagðist aftur í vetrardvalann sinn. Mér fannst þetta nú heldur ótuktarleg framkoma sem minnti einna helst á ungling sem maður reynir að vekja á morgnanna; rumskar örlítið en snýr sér fljótlega aftur á hina hliðina og steinsofnar aftur.

Við þetta varð ekki búið, svo ég tók alla taumana mína úr veskinu og losaði upp á þeim. Jú, það var ekki um að villast, þeir snéru allir upp á sig og sofnuðu aftur í sömu stellingu og þeir hafa legið í allan veturinn. Snar í snúningum opnaði ég veiðitöskuna, þessa með öllum aukahlutunum sem maður notar eiginlega aldrei, og sótti strokuleður. Ég er sem sagt alltaf með strokuleður í töskunni til að renna taumunum í gegnum til að þrífa þá og rétta úr. Í þetta skiptið dugði gervigúmmíið ekki til. Það réttist bara örlítið úr þeim eitt augnablik en svo sótti allt í sama farið aftur. Þá mundi ég eftir leðurpjötlu sem ég átti í fórum mínum, þær ku virka vel á stífa tauma og sumir taumaframleiðendur selja meira að segja svoleiðis pjötlur dýrum dómum. Fyrstu tölur gáfu til kynna að leðrið væri málið, en svo féll þetta allt í sama farið. Eins og Bangsímon í framan fór ég að hugsa mig um. Einhvers staðar rakst ég á grein eftir álíka nískupúka og sjálfan mig sem tímdi ekki að kaupa sér nýja tauma á hverju einasta vori, hvað var það sem hann notaði á óþekka tauma? Jú, bút úr reiðhjólaslöngu og ég átti einmitt smá bút úti í bílskúr. Ég klippti mér u.þ.b. 5 sm. spotta af slöngunni, skolaði hana undir heitu vatni til að losna við allt barnapúðrið og svo renndi ég fyrsta tauminum í gegnum hana. Og viti menn, hann hitnaði greinilega mátulega til að gleyma því hvernig hann lá í hnipri í vetur og lá beinn og fallegur á eldhúsborðinu. Eftir að hafa dregið alla taumana mína í gegnum slöngubútinn, lagt þá beina og fallega á borðið gat ég vafið þá aftur upp og stungið í taumaveskið þar sem þeir bíða eftir því að ég farið í fyrstu veiði vorsins. Vonandi sofna þeir ekki of fast, en þá á ég alltaf reiðhjólaslönguna mína í veiðitöskunni með öllu hinu dótinu sem ég nota svo sjaldan.

fos_vintage_taumar

Stífleiki tauma

Línuframleiðendur leggja mikinn metnað í hönnun, efnisval og frágang lína sinna áður en þær fara á markað. Það sama má segja um framleiðendur tauma og taumaefnis. Það er síðan undir veiðimanninum komið að para hvoru tveggja rétt saman.

Sjálfur hef ég oft lent í því að vera með of stífan taum fyrir einhverja ákveðna línu, taum sem passar fullkomlega með annarri. Hér er ég ekki að tala um sverleika taums á móti línu, heldur stífleika. Oft var það ekki fyrr en í fyrstu köstunum að ég tók eftir þessum mistökum mínum. Framsetning flugunnar var eitthvað einkennileg og mýkra eða snarpara kast lagaði ekki málið. Það er trúlega hvergi eins áríðandi að allt passi saman eins og þegar maður veiðir þurrflugu, þá verður allt að passa svo flugan líði um loftið, stöðvist án áreynslu og leggist rólega á vatnið.

Linur, mátulegur, stífur
Linur, mátulegur, stífur

Ágætt ráð til að kanna hvort stífleiki taums sé passandi er að mynda lykkju taums og línu þannig að samsetningin sé á toppnum. Ef taumurinn lekur niður af samsetningunni er hann of linur. Ef hann setur beygju á línuna er hann of stífur. Þarna rétt á milli, ef taumurinn kemur eins og eðlilegt framhald af línunni, heldur svipuðum boga og hún, þá er hann mátulegur. Einfalt og gott ráð til að máta taum og línu saman áður lagt er af stað í fyrsta kast.

Hvað er verra en frumskógur?

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir svo heppnir að vera boðið að fylla í hóp sem stundað hefur Veiðivötn í fjölda ára. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um og þáðum boðið. Það hefur lengi verið hugur til þess hjá okkur að komast innar í landið að sunnan heldur en Framvötnin og þarna bauðst gullið tækifæri. Eins og vera ber, leitaði ég til mér kunnugri manna eftir leiðbeiningum um útbúnað og aðferðir. Ekki stóð á góðum ráðum og helst nefndu menn; koma flugunni niður, djúpt. Já, ég þóttist nú kannast við einhverjar leiðir til þess. Langur taumur, þungar flugur, jafnvel sökktaumar sem eiga að húrra öllu dótinu niður á botn á innan við 20 sek. Vandamálið hefur bara alltaf verið að ég hef átt í bölvuðu basli með sökktauma í kastinu.

Eftir að hafa skeggrætt þetta á mínu heimili, þá varð úr að ég keypt hægsökkvandi línu #7 (intermediate) fyrir konuna og svo var ég svo lukkulegur að fá lánaða heldur hraðvirkari línu #8 á stöng #7 fyrir sjálfan mig. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu mikið stökk þetta var fyrir flotlínumanninn mig að höndla þessa hraðsökkvandi línu. En þetta er aðeins inngangurinn að því sem mér býr í brjósti.

Eftir þessa ferð og þá reynslu sem ég fékk af línunni sem ég hafði fengið að láni, fór ég á stúfana og kíkti á nokkrar línur. Var einhvern tímann talað um línufrumskóg? Hvað ætli það heiti þá sem ég rakst á varðandi sökklínur? Hvað sem það nú var, þá var það miklu þéttara heldur en frumskógur og mér tókst að villast strax í fyrstu skoðunarferð. Hvers vegna hefur framleiðendum ekki tekist að merkja línurnar sínar með sökkhraða sem er skiljanlegur? Þegar ég fór af stað, hafði ég í huga töflu yfir sökkhraða lína sem ég hafði nálgast hjá AFTM:

Class / Type

Sökkhraði (tommur á sek)

Dýpt (fet)

Intermediate

< 1

0-5

I

1 – 1 ¾

5-10

II

2 ½ – 3

10 – 20

III

3 ½ – 4

20 – 25

IV

4 ½ – 5

25 – 30

V

5 – 6

30

VI

6 ¼ – 7

> 30

Express

7 – 8

> 30

Lead core 450gr

7 – 8 ¾

> 30

Hér ætla ég að taka dæmi um línur frá þremur algengum framleiðendum; Airflo, Scientific Anglers og Rio. Eflaust eru eiginleikar lína frá þessum aðilum og jafnvel innan gerða eitthvað mismunandi sem getur alveg skýrt mismun þeirra á merkingum, en fyrir leikmann er alls ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve hratt og djúpt hver þessara lína sekkur.

Airflo Jú, ég þóttist skilja intermediate hjá þeim en rak síðan í roga stans þegar kom að fast intermediate og Sink Rate 3, 5 og 7. Humm, sagði kunnugur við mig þegar ég spurði hvað tölurnar við Sink Rate ættu að segja mér. Ég komst síðar að því að þessi framleiðandi er ekkert að flækja málið; Sink Rate er einfaldlega tommur á sek. sem viðkomandi lína sekkur en ég veit enn ekki hvað fast intermediate stendur fyrir. Engar tölur uppgefnar um hámarksdýpi.

Scientific Anglers Þessar línur eru skilmerkilega stimplaðar með Type III, Type V o.s.frv. sem mér fannst lofa góðu. Eina vandamálið er að sökkhraði þessara lína stemmir hvorki við Airflo tölurnar né AFTM töfluna. Á heimasíðu SA fann ég að Type III sekkur 2 ½ – 3 ½ tommur á sek. og er gefin upp fyrir 5 – 10 feta dýpi. Type V sekkur 4 ½ – 6 tommur á sek. og er gerð fyrir 20+ feta dýpi.

Rio Type 3 sekkur 3 – 4 tommur á sek. og Type 4 sekkur 4 – 5 tommur. Ekkert meira um það að segja og litlar upplýsingar um hámarksdýpi að finna hjá þeim.

Ástæðan fyrir því að ég vildi bera saman línur frá þessum þremur framleiðendum er einföld; þeir nota sömu aðferð við að mæla sökkhraða sinna lína, en því miður virðist sú mælieining ekki alveg ná til kaupenda.

Ég reyndar endaði á því að kaupa mér samskonar línu og frúin er með, intermediate sem sekkur alveg mátulega fyrir alhliða notkun og rennur alveg glettilega vel. Vel að merkja þá er hún ekki frá neinum ofangreindra aðila og kostaði mig langt innan við helming af meðalverði þeirra og ég var einfaldlega guðs feginn að hafa ratað þokkalega óskemmdur út úr þessum skógi sökklína.

Flugulínur
Flugulínur

Tilbúningur

Taumaefni
Taumaefni

Tilbúnir taumar sem við getum keypt í verslunum eru oftast frammjókkandi, með eða án lykkju sem maður bregður í línulykkjuna. Þessir taumar eru hannaðir fyrir Meðal-Jóninn sem notar miðlungs línuna á miðlungs stöngina sína undir algengustu kringumstæðunum. Ef þú bregður út frá einhverju þessara atriða að einhverju leiti, þá ert þú ekki lengur með besta tauminn í veiðinni. Það var u.þ.b. á miðri síðustu öld sem 60/20/20 reglan varð til. Einföld regla um skiptingu taums sem eignuð hefur verið Frakkanum Charles Ritz. Fyrsti parturinn (lesið frá vinstri) á að vera u.þ.b. 2/3 af þvermáli línunnar, næsti partur á að vera u.þ.b. tveimur X-um grennri og sá síðasti enn öðrum tveimur X-um grennri. Út frá þessu eru flestir tilbúnir taumar framleiddir og eru merktir með með sverleika síðasta partsins, þeim grennsta. Segjum sem svo að þú sért að veiða með lítilli votflugu (#14) á línu #5. Þú velur þér frammjókkandi taum sem endar í stærð 3x m.v. þumalputtaregluna: stærð flugu / 4 = 3,5 ~ 3X taumur. Í þessum útreikningi er ekkert mark tekið á því að þú ert að tengja þennan taum við línu #5 en við skulum gefa okkur að taumurinn byrji í sverleika sem er 2/3 af línunni. Einhverra hluta vegna þarft þú síðan að taka fram línu #7 en heldur þig við votflugu #14. Þá er komið upp vandamál, áttu að velja þér tilbúinn taum sem byrjar á meiri sverleika þannig að hann passi línunni eða áttu að halda þig við tauminn sem passar flugunni? Ég hefði leyst málið með því að taka fram 7 fet af sveru taumaefni sem passar línu #7, segjum 2/0X. Ég veit að ég ætla mér að hnýta síðasta partinn úr 2,5 fetum af 3X taumaefni þannig að hann passi flugunni. Valið stendur þá á milli 0X eða 1X í þessi 2,5 fet sem eiga að vera í miðjunni. Ætli ég hefði ekki valið 1X, en auðvitað fer þetta allt eftir því hvað hverjum finnst best.

Skrítinn skuggi

Ég er af þessari kynslóð sem ólst upp við Vísnaplötuna. Þið vitið; Ég á mér lítinn skrítinn skugga, skömmin er svo líkur mér……. Þessi skuggi hefur náttúrulega fylgt mér alla tíð og hefur svo sem ekkert verið að plaga mig í gegnum tíðina, nema þá þegar ég fór að stunda fluguveiði. Þá var það þessi langi mjói skuggi sem kom eins og framlenging af kasthendinni, laumaði sér frameftir stönginni og sleikti línuna, tauminn og alveg út að flugunni. Þessi skuggi fór fljótlega að plaga mig vegna þess að hann fór í taugarnar á fiskinum sem ég var að eltast við. Ég hef áður minnst á að þegar ég treysti í blindi á fyrstu samsetninguna sem ég fékk tilbúna í veiðivöruverslun án nokkurra efasemda frá minni hálfu. Þá var ósköp lítið um veiði hjá mér nema mér tækist að koma flugunni út í einhverju róti. Sem sagt; taumurinn sem ég fékk með fyrstu stönginni minni var allt of sver. Hann var svo sver að þessi litli skrítni skuggi fann sér mjög auðvelda leið niður á botn vatnanna eftir honum.

Um leið og ég náði tökum á að grenna tauminn fóru flugurnar mínar að leggjast betur og skugginn missti takið á tauminum og komast ekkert lengra út á vatnið heldur en að línuendanum. Mér fannst eins og mér hefði tekist að leika á kvikindið og fór að hrósa happi í fluguveiðinni mun oftar en áður.

Ég og skugginn minn á veiðum
Ég og skugginn minn á veiðum

Taumur fyrir þurrflugu

Taumur

Heppilegur taumur í þurrfluguveiði gæti til dæmis verið 4X taumur, u.þ.b. 12‘ að lengd. Ég hef það fyrir satt að sumir taka einfaldlega ‚venjulega‘ 9‘ tauminn sinn og bæta 4X taumaefni framan við hann þannig að þetta þarf ekki að vera flókið.

Hvort taumurinn eigi að skera yfirborðið eða ekki er álitamál milli veiðimann. Sumir gera mikið úr þeim möguleika að taumurinn myndi skugga og/eða ljósbrot sem fælir fiskinn ef hann liggur á yfirborðinu. Öðrum gæti bara ekki staðið meira á sama og halda áfram að nota venjulega poly-tauminn sinn á yfirborðinu. Í versta falli smyrja sumir smá óhreinindum á hann svo hann skeri yfirborðið. Nú er ég sjálfur ekki góð fyrirmynd í þurrfluguveiði, en verið horfandi á konuna mína leggja þessi kríli á yfirborðið í sumar sem leið, notandi venjulegt taumaefni og takandi fisk í tíma og ótíma þá hlýt ég að hallast að þeim síðarnefndu.

Eitt er það sem taumsérfræðingar og veiðimenn hafa nefnt og gott er að hafa í huga varðandi þurrflugutauminn og það er að láta hann ásamt taumaefninu liggja í vatni sólarhring áður en veiða skal. Við þetta mýkist taumurinn og þanþol hans eykst til muna.

Tauma-klúður

Taumaklúður

Þú gerir allt rétt; flugnavalið, bakkastið og framkastið en flugan bara kemst ekki eðlilega til skila. Auðvitað getur þú farið í stórkostlega naflaskoðun á eigin ágæti, krufið kastið frá byrjun til enda eða kennt stönginni um. En vandamálið gæti legið í eins einföldum hlut og tauminum og þá er ekki verra að hafa í huga eftirfarandi atriði áður en gripið er til traktískra aðgerða:

Ef taumurinn leggst þokkalega fram að 2/3 en taumaendinn druslast bara eitthvert út í loftið er ekki ólíklegt að þú hefur valið of grannan taumaenda m.v. fluguna. Prófaðu að færa þig upp um eina stærð (sverari taumaenda) eða notaðu stífara efni.

Ef þú situr uppi með eina stóra hrúgu af taum á vatninu í lok kastsins er taumurinn að öllum líkindum í heild sinni of grannur. Notaðu sverari eða stífari taum til að tryggja að orkan úr línunni skili sér alla leið fram í flugu.

Ef flugan skellur á vatninu, er eins og fest á endann á svipu, þá er mál til komið að slaka aðeins á, taumurinn er væntanlega allt of stífur. Prófaðu grennri taum eða úr mýkra efni.

Punktar um tauma

Taumur

Fyrir þá sem hnýta sína eigin tauma er ýmislegt að varast og annað sem gott er að hafa í huga bæði áður en lagt er af stað og í meðförum tauma. Á ferðum mínum um veraldarvefinn og um vötnin á Íslandi hafa ýmsir punktar safnast í sarpinn hjá mér sem mögulega geta nýst öðrum.

Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða og eflaust hafa margir upplifað og reynt það sama og ég í taumaflækjum, en hérna eru nokkrir punktar:

Þegar talað er um Ritz uppskriftina að taum er átt við taum sem skiptist 60/20/20 hlutföllum frá þykkasta hluta og fram í taumaenda. Þetta hlutfall er fínt til að byrja með og smátt og smátt gerir maður sínar sérviskulegu breytingar og endar vonandi með sinn drauma taum.

Ágætt er að hafa í huga að byrja tauminn á efni sem er 2/3 af þvermáli fremsta hluta línunnar. Það tryggir nokkurn veginn samfellt flæði orku frá línu og fram í taumaenda.

Hlutfallið í þykkt einstaka hluta taumsins má að sama skapi alveg ná 2/3.

Sé þess kostur er ágætt að stífleiki taumsins þar sem hann er þykkastur sé svipaður og línunnar.

Grannir og linir taumar flytja orku verr en sverir og stífir.

Taumurinn undir eða ofaná

Þegar spurningin kemur upp um það hvort taumurinn eigi að vera undir eða ofaná, þ.e. vatnsfilmunni þá getur þú svo sem farið sömu leið og Kolbeinn kafteinn gerði, slegið í og úr eða bara svipt ofan af þér sænginni og látið slag standa. Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig. Poly-taumar fljóta gjarnan frekar á yfirborðinu heldur en Fluorcarbon taumar. Þetta liggur í eðlisþyngd efnisins. Eðlisþyngd Flurocarbon er meiri heldur en H2O og því sekkur taumurinn. Eðlisþyngd polyefna er aftur á móti svipuð eða minni en H2O og því fljóta þeir taumar.

Polytaumur

Poly-taumar eru ennþá langsamlega útbreiddastir og fyrir því eru einfaldar ástæður. Þeir kosta minna, eru slitsterkari og fást í fjölda stífleika, nokkuð sem alls ekki allir framleiðendur taka sérstaklega fram á umbúðum tauma og taumaefnis.

Ókost poly-tauma varðandi sökk má auðveldlega ráða bót á, berðu mold eða plöntuleifar á tauminn áður en þú notar hann, þá sekkur kvikindið. Auðvitað eru líka til flottar krukkur í veiðiverslunum sem innihalda ‘sérstakan’ leir til þessara nota, þitt er valið.

Fluorcarbon

Flurocarbon taumar sækja sífellt í sig veðrið en hafa enn ekki náð poly-taumum í sveigjanleika og styrkleika. Aftur á móti eru þeir sterkri á svellinu þegar kemur að styrk gagnvart efnafræðilegum áhrifum. Þeir þola seltu mun betur en poly-taumar og þar að auki eru þeir því sem næst glærir sem er auðvitað kostur þar sem menn hafa trú á taumafælni fiska. Með tíð og tíma lærist mönnum að vinna bug á enn einum ókosti fluorcarbon, þ.e. hnútunum. Þeir vilja slitna undir álagi, efnið er stökkara og meiri vandvirkni þarf við hnútana. Einföld leið er t.d. að fjölga vafningum í hnútunum frá því sem maður hefur vanist með poly-efni. Fleiri vafningar og meiri hráki hjálpa oft mikið til.

Taumurinn endurnýttur

Taumaefni

Þeir sem lesið hafa þessa tauma-pistla mína hafa eflaust lagt saman tvo og tvo og náð einhverju í líkingu við fjóra. Ég hef nefnt óþol mitt gagnvart því að kaupa frammjókkandi tauma og þann kostnað sem af sí-endurteknum kaupum hlýst. Svo hef ég nefnt að ég hnýti á milli endanlegs taumaenda og taums til að drýgja hann. Þegar ég síðan held því fram að ég byrja á eigin taumum með efni 01X þá gæti nú samlagningin upp úr þessum greinum mínum farið að vefjast eitthvað fyrir mönnum. Útskýringa er eflaust þörf.

Fyrri part sumars kaupi ég mér nýjan 12‘ frammjókkandi polymid taum, ég á mér eina uppáhalds tegund sem ég hef snúið aftur til eftir nokkrar tilraunir með aðrar tegundir, en það í sjálfu sér skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að ég kaupi taumaefni frá sama framleiðanda, sama plastefni. Það fyrsta sem ég geri við þennan nýja taum er að setja á hann fasta lykkju (sjá hér). Þegar ég hef síðan veitt nokkrum sinnum með þessum taum (segjum að hann sé 3X) tekið af honum og bætt taumaenda við eftir þörfum, þá kemur að því að ég verð að skeyta eins og 2‘ af 1X efni við hann áður en venjulegi 3X taumaendinn fer á. Svona tekst mér að endurnýta upphaflega tauminn vel frameftir sumri, svo lengi sem hann verður ekki fyrir einhverju tjóni, særist í grjóti eða það sem er skemmtilegra eitthvert skrímslið í vatninu hefur flækt hann svo rækilega að honum verður ekki viðbjargandi. Keyptur frammjókkandi taumur á sér langt líf ef maður á nokkra sverleika af taumaefni í vestinu.

Taumurinn hnýttur

Taumaefni

Þeir sem hnýta sína tauma sjálfir frá byrjun til enda verða að eiga þetta 4-5 mismunandi sverleika taumaefnis í handraðanum. Silungsveiðimaðurinn á sverast t.d. 01x og niður í 3x. Hvað laxmaðurinn á sverast veit ég bara ekki, en það hlýtur að þurfa nokkuð svert og slitsterkt efni fyrir 20lb. lax. En látum það liggja á milli hluta. Uppskrift af netinu fyrir stöðluðum vatnaveiðitaum, segjum upp á 15‘ hljóðar einhvern vegin svona: 10lb + 8lb + 6lb í hlutföllunum 60% + 20% + 20% samsettur með Surgeon Knot. Aha, hér er talað um slitstyrk en hvaða sverleika þarf ég ef ég ætla að nota Polymid efni? Að ég tali nú ekki um Fluorcarbon? Slitstyrkurinn í þessum efnum er afskaplega mismunandi, jafnvel frá sama framleiðanda og ef ég er að leita að taum sem á að flytja ákveðna stærð af flugu, þá skiptir sver- og sveigjanleiki efnisins meira máli heldur en slitstyrkurinn. Hér verður eigin reynsla að koma til sögunnar og taka við af uppskriftum veraldarvefsins.

Fyrir utan að handhnýttir taumar, þ.e. þeir sem maður setur saman sjálfur, kosta þig aðeins brot af því sem tilbúnir frammjókkandi taumar kosta, þá luma þeir á enn öðrum kosti; þú getur leikið þér miklu meira með samsetningu þeirra og þar með virkni í framsetningu. Skv. ofangreindu er þumalputtareglan sú að þú skiptir 15‘ taum í þrjá parta og hnýtir hann úr þremur styrkleikum. Mín reynsla er aftur á móti sú að skipta tauminum aðeins öðruvísi, ég stekk yfir stærðir og hugsa fyrst og fremst um sverleika efnisins og mýkt:

a) Fyrir flugur í stærðum #6, #8, #10: 60% er original butt efni + 20% 0X + 20% 2X

b) Fyrir flugur í stærðum #12, #14, #16: 60% er original butt efni + 20% 1X + 20% 3X

Svo kemur auðvitað fyrir að ég hef fremsta partinn mun lengri, allt að 4‘ fyrir a) og 6‘ fyrir b) ef ég sé fram á að prófa margar mismunandi flugur, skipta ört um eða þegar ég er að bögglast við að koma þyngdri flugu niður á botninn.

Taumurinn lengdur

Taumaefni

Íhaldssemi mín og það sem mér finnst þægilegt verður oftar en ekki til þess að ég festist í einhverjum ramma sem ég fer helst ekki útfyrir. Mér þykir t.d. þægilegast að veiða með flottaum úr einþátta girni og hafa hann frammjókkandi. Þessi sérviska mín kostar sitt og á hverju sumri kemur að því fyrr eða síðar að mínum eigin takmörkum er náð hvað varðar kostnað í taumum. Þá bregð ég mér í endurvinnsluna. Þegar taumurinn er orðinn það stuttur að grennsta taumaefnið passar ekki lengur framan á hann er alveg sjálfsagt að færa sig upp um einn sverleika og hnýta á milli. Þetta verður að vísu ekki ákjósanlegasti ósýnilegi taumurinn, en dugir samt glettilega ef snyrtilega er hnýttur.

Það sem ber að varast og hefur komið mér í koll er að blanda saman óskyldum efnum í taum. Plastefni bregðast mismunandi við tognun og hita og það er einmitt hiti sem myndast þegar við hnýtum saman taum og taumaefni. Að vísu getum við dregið verulega úr þessari hitamyndun með því að væta hnútinn vel áður en hann er hertur, en hiti myndast nú samt sem áður. Það tognar lítillega á efninu, það veikist og í verstu tilfellunum krullast það sitt hvoru megin við hnútinn, svona eins og skrautbandið á jólapökkunum. Mitt blákalda mat er að efni sem krullast er ónýtt frá framleiðanda og það kaupir maður bara einu sinni, betra er að eyða 100 kr. meira í taumaefnið heldur en taka séns á einhverju no-name efni sem er ódýrara. Útsölurnar að hausti og fljótlega upp úr jólavertíð eru líka varhugaverðar. Plastefni gengur í samband við súrefni og veikist með tíð og tíma, sérstaklega þegar sólar- og halógenljós hjálpa til. Þegar taumar og taumaefni hafa legið frammi í nokkra mánuði hefur slitstyrkur þeirra minnkað verulega og þú bara slítur og slítur út úr hnútunum. Keyptu nýtt efni í upphafi vertíðar, ekki henda hundraðköllum til að spara 40% á útsölu löngu áður en þú ætlar að nota efnið.