Taumur fyrir þurrflugu

Taumur

Heppilegur taumur í þurrfluguveiði gæti til dæmis verið 4X taumur, u.þ.b. 12‘ að lengd. Ég hef það fyrir satt að sumir taka einfaldlega ‚venjulega‘ 9‘ tauminn sinn og bæta 4X taumaefni framan við hann þannig að þetta þarf ekki að vera flókið.

Hvort taumurinn eigi að skera yfirborðið eða ekki er álitamál milli veiðimann. Sumir gera mikið úr þeim möguleika að taumurinn myndi skugga og/eða ljósbrot sem fælir fiskinn ef hann liggur á yfirborðinu. Öðrum gæti bara ekki staðið meira á sama og halda áfram að nota venjulega poly-tauminn sinn á yfirborðinu. Í versta falli smyrja sumir smá óhreinindum á hann svo hann skeri yfirborðið. Nú er ég sjálfur ekki góð fyrirmynd í þurrfluguveiði, en verið horfandi á konuna mína leggja þessi kríli á yfirborðið í sumar sem leið, notandi venjulegt taumaefni og takandi fisk í tíma og ótíma þá hlýt ég að hallast að þeim síðarnefndu.

Eitt er það sem taumsérfræðingar og veiðimenn hafa nefnt og gott er að hafa í huga varðandi þurrflugutauminn og það er að láta hann ásamt taumaefninu liggja í vatni sólarhring áður en veiða skal. Við þetta mýkist taumurinn og þanþol hans eykst til muna.

Tauma-klúður

Taumaklúður

Þú gerir allt rétt; flugnavalið, bakkastið og framkastið en flugan bara kemst ekki eðlilega til skila. Auðvitað getur þú farið í stórkostlega naflaskoðun á eigin ágæti, krufið kastið frá byrjun til enda eða kennt stönginni um. En vandamálið gæti legið í eins einföldum hlut og tauminum og þá er ekki verra að hafa í huga eftirfarandi atriði áður en gripið er til traktískra aðgerða:

Ef taumurinn leggst þokkalega fram að 2/3 en taumaendinn druslast bara eitthvert út í loftið er ekki ólíklegt að þú hefur valið of grannan taumaenda m.v. fluguna. Prófaðu að færa þig upp um eina stærð (sverari taumaenda) eða notaðu stífara efni.

Ef þú situr uppi með eina stóra hrúgu af taum á vatninu í lok kastsins er taumurinn að öllum líkindum í heild sinni of grannur. Notaðu sverari eða stífari taum til að tryggja að orkan úr línunni skili sér alla leið fram í flugu.

Ef flugan skellur á vatninu, er eins og fest á endann á svipu, þá er mál til komið að slaka aðeins á, taumurinn er væntanlega allt of stífur. Prófaðu grennri taum eða úr mýkra efni.

Punktar um tauma

Taumur

Fyrir þá sem hnýta sína eigin tauma er ýmislegt að varast og annað sem gott er að hafa í huga bæði áður en lagt er af stað og í meðförum tauma. Á ferðum mínum um veraldarvefinn og um vötnin á Íslandi hafa ýmsir punktar safnast í sarpinn hjá mér sem mögulega geta nýst öðrum.

Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða og eflaust hafa margir upplifað og reynt það sama og ég í taumaflækjum, en hérna eru nokkrir punktar:

Þegar talað er um Ritz uppskriftina að taum er átt við taum sem skiptist 60/20/20 hlutföllum frá þykkasta hluta og fram í taumaenda. Þetta hlutfall er fínt til að byrja með og smátt og smátt gerir maður sínar sérviskulegu breytingar og endar vonandi með sinn drauma taum.

Ágætt er að hafa í huga að byrja tauminn á efni sem er 2/3 af þvermáli fremsta hluta línunnar. Það tryggir nokkurn veginn samfellt flæði orku frá línu og fram í taumaenda.

Hlutfallið í þykkt einstaka hluta taumsins má að sama skapi alveg ná 2/3.

Sé þess kostur er ágætt að stífleiki taumsins þar sem hann er þykkastur sé svipaður og línunnar.

Grannir og linir taumar flytja orku verr en sverir og stífir.

Taumurinn undir eða ofaná

Þegar spurningin kemur upp um það hvort taumurinn eigi að vera undir eða ofaná, þ.e. vatnsfilmunni þá getur þú svo sem farið sömu leið og Kolbeinn kafteinn gerði, slegið í og úr eða bara svipt ofan af þér sænginni og látið slag standa. Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig. Poly-taumar fljóta gjarnan frekar á yfirborðinu heldur en Fluorcarbon taumar. Þetta liggur í eðlisþyngd efnisins. Eðlisþyngd Flurocarbon er meiri heldur en H2O og því sekkur taumurinn. Eðlisþyngd polyefna er aftur á móti svipuð eða minni en H2O og því fljóta þeir taumar.

Polytaumur

Poly-taumar eru ennþá langsamlega útbreiddastir og fyrir því eru einfaldar ástæður. Þeir kosta minna, eru slitsterkari og fást í fjölda stífleika, nokkuð sem alls ekki allir framleiðendur taka sérstaklega fram á umbúðum tauma og taumaefnis.

Ókost poly-tauma varðandi sökk má auðveldlega ráða bót á, berðu mold eða plöntuleifar á tauminn áður en þú notar hann, þá sekkur kvikindið. Auðvitað eru líka til flottar krukkur í veiðiverslunum sem innihalda ‘sérstakan’ leir til þessara nota, þitt er valið.

Fluorcarbon

Flurocarbon taumar sækja sífellt í sig veðrið en hafa enn ekki náð poly-taumum í sveigjanleika og styrkleika. Aftur á móti eru þeir sterkri á svellinu þegar kemur að styrk gagnvart efnafræðilegum áhrifum. Þeir þola seltu mun betur en poly-taumar og þar að auki eru þeir því sem næst glærir sem er auðvitað kostur þar sem menn hafa trú á taumafælni fiska. Með tíð og tíma lærist mönnum að vinna bug á enn einum ókosti fluorcarbon, þ.e. hnútunum. Þeir vilja slitna undir álagi, efnið er stökkara og meiri vandvirkni þarf við hnútana. Einföld leið er t.d. að fjölga vafningum í hnútunum frá því sem maður hefur vanist með poly-efni. Fleiri vafningar og meiri hráki hjálpa oft mikið til.

Taumurinn endurnýttur

Taumaefni

Þeir sem lesið hafa þessa tauma-pistla mína hafa eflaust lagt saman tvo og tvo og náð einhverju í líkingu við fjóra. Ég hef nefnt óþol mitt gagnvart því að kaupa frammjókkandi tauma og þann kostnað sem af sí-endurteknum kaupum hlýst. Svo hef ég nefnt að ég hnýti á milli endanlegs taumaenda og taums til að drýgja hann. Þegar ég síðan held því fram að ég byrja á eigin taumum með efni 01X þá gæti nú samlagningin upp úr þessum greinum mínum farið að vefjast eitthvað fyrir mönnum. Útskýringa er eflaust þörf.

Fyrri part sumars kaupi ég mér nýjan 12‘ frammjókkandi polymid taum, ég á mér eina uppáhalds tegund sem ég hef snúið aftur til eftir nokkrar tilraunir með aðrar tegundir, en það í sjálfu sér skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að ég kaupi taumaefni frá sama framleiðanda, sama plastefni. Það fyrsta sem ég geri við þennan nýja taum er að setja á hann fasta lykkju (sjá hér). Þegar ég hef síðan veitt nokkrum sinnum með þessum taum (segjum að hann sé 3X) tekið af honum og bætt taumaenda við eftir þörfum, þá kemur að því að ég verð að skeyta eins og 2‘ af 1X efni við hann áður en venjulegi 3X taumaendinn fer á. Svona tekst mér að endurnýta upphaflega tauminn vel frameftir sumri, svo lengi sem hann verður ekki fyrir einhverju tjóni, særist í grjóti eða það sem er skemmtilegra eitthvert skrímslið í vatninu hefur flækt hann svo rækilega að honum verður ekki viðbjargandi. Keyptur frammjókkandi taumur á sér langt líf ef maður á nokkra sverleika af taumaefni í vestinu.

Taumurinn hnýttur

Taumaefni

Þeir sem hnýta sína tauma sjálfir frá byrjun til enda verða að eiga þetta 4-5 mismunandi sverleika taumaefnis í handraðanum. Silungsveiðimaðurinn á sverast t.d. 01x og niður í 3x. Hvað laxmaðurinn á sverast veit ég bara ekki, en það hlýtur að þurfa nokkuð svert og slitsterkt efni fyrir 20lb. lax. En látum það liggja á milli hluta. Uppskrift af netinu fyrir stöðluðum vatnaveiðitaum, segjum upp á 15‘ hljóðar einhvern vegin svona: 10lb + 8lb + 6lb í hlutföllunum 60% + 20% + 20% samsettur með Surgeon Knot. Aha, hér er talað um slitstyrk en hvaða sverleika þarf ég ef ég ætla að nota Polymid efni? Að ég tali nú ekki um Fluorcarbon? Slitstyrkurinn í þessum efnum er afskaplega mismunandi, jafnvel frá sama framleiðanda og ef ég er að leita að taum sem á að flytja ákveðna stærð af flugu, þá skiptir sver- og sveigjanleiki efnisins meira máli heldur en slitstyrkurinn. Hér verður eigin reynsla að koma til sögunnar og taka við af uppskriftum veraldarvefsins.

Fyrir utan að handhnýttir taumar, þ.e. þeir sem maður setur saman sjálfur, kosta þig aðeins brot af því sem tilbúnir frammjókkandi taumar kosta, þá luma þeir á enn öðrum kosti; þú getur leikið þér miklu meira með samsetningu þeirra og þar með virkni í framsetningu. Skv. ofangreindu er þumalputtareglan sú að þú skiptir 15‘ taum í þrjá parta og hnýtir hann úr þremur styrkleikum. Mín reynsla er aftur á móti sú að skipta tauminum aðeins öðruvísi, ég stekk yfir stærðir og hugsa fyrst og fremst um sverleika efnisins og mýkt:

a) Fyrir flugur í stærðum #6, #8, #10: 60% er original butt efni + 20% 0X + 20% 2X

b) Fyrir flugur í stærðum #12, #14, #16: 60% er original butt efni + 20% 1X + 20% 3X

Svo kemur auðvitað fyrir að ég hef fremsta partinn mun lengri, allt að 4‘ fyrir a) og 6‘ fyrir b) ef ég sé fram á að prófa margar mismunandi flugur, skipta ört um eða þegar ég er að bögglast við að koma þyngdri flugu niður á botninn.

Taumurinn lengdur

Taumaefni

Íhaldssemi mín og það sem mér finnst þægilegt verður oftar en ekki til þess að ég festist í einhverjum ramma sem ég fer helst ekki útfyrir. Mér þykir t.d. þægilegast að veiða með flottaum úr einþátta girni og hafa hann frammjókkandi. Þessi sérviska mín kostar sitt og á hverju sumri kemur að því fyrr eða síðar að mínum eigin takmörkum er náð hvað varðar kostnað í taumum. Þá bregð ég mér í endurvinnsluna. Þegar taumurinn er orðinn það stuttur að grennsta taumaefnið passar ekki lengur framan á hann er alveg sjálfsagt að færa sig upp um einn sverleika og hnýta á milli. Þetta verður að vísu ekki ákjósanlegasti ósýnilegi taumurinn, en dugir samt glettilega ef snyrtilega er hnýttur.

Það sem ber að varast og hefur komið mér í koll er að blanda saman óskyldum efnum í taum. Plastefni bregðast mismunandi við tognun og hita og það er einmitt hiti sem myndast þegar við hnýtum saman taum og taumaefni. Að vísu getum við dregið verulega úr þessari hitamyndun með því að væta hnútinn vel áður en hann er hertur, en hiti myndast nú samt sem áður. Það tognar lítillega á efninu, það veikist og í verstu tilfellunum krullast það sitt hvoru megin við hnútinn, svona eins og skrautbandið á jólapökkunum. Mitt blákalda mat er að efni sem krullast er ónýtt frá framleiðanda og það kaupir maður bara einu sinni, betra er að eyða 100 kr. meira í taumaefnið heldur en taka séns á einhverju no-name efni sem er ódýrara. Útsölurnar að hausti og fljótlega upp úr jólavertíð eru líka varhugaverðar. Plastefni gengur í samband við súrefni og veikist með tíð og tíma, sérstaklega þegar sólar- og halógenljós hjálpa til. Þegar taumar og taumaefni hafa legið frammi í nokkra mánuði hefur slitstyrkur þeirra minnkað verulega og þú bara slítur og slítur út úr hnútunum. Keyptu nýtt efni í upphafi vertíðar, ekki henda hundraðköllum til að spara 40% á útsölu löngu áður en þú ætlar að nota efnið.

Taumurinn minn

Taumaefni

Vegna þráhyggju minnar í silungsveiði hef ég alltaf geta komist upp með að hugsa meira um þvermál taums heldur en slitstyrk hans. Ég viðurkenni það fúslega að ég á stundum í nokkrum erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða taumur það er sem menn kalla 8lb taum. Er það 1x eða 2x? Slitstyrkur tauma er misjafn eftir framleiðendum og efnisgerð þeirra og því er ekki til nein ein góð regla fyrir samhengi þvermáls og slitstyrks. Það næsta sem maður getur komist reglu er að leggja einhverja töflu á minnið eins og þá sem má nálgast hér.

Þannig er að silungsveiðimenn, þ.e. þeir sem ástunda nokkuð hefðbundna vatnaveiði þurfa sjaldnast að hafa áhyggjur af því þótt þeir séu að nota 2x taum með 3x taumaenda. Að vísu er hnúturinn veikasti hlekkurinn en það má svona nokkurn veginn reikna með því að slitstyrkur svona taums sé eitthvað á bilinu 6lb – 8lb.og hentar ágætlega til að leggja fram flugur í stærðum frá #6 og niður í #16, spannar sem sagt nokkuð stórt bil í flugnavali. Sé aftur á móti ætlunin að veiða smærri flugur getur reynst nauðsynlegt að fara í grennri taum, 4x eða 5x. Notist þú við einþátta frammjókkandi taum má líka hugsa sér að klippa 3x taumaendann af og hnýta 4x í stað hans og hafa hann þá nokkuð lengri.

Þegar ég keypti mér mína fyrstu flugustöng, alveg rennandi blautur á bak við eyrun, þá var mér réttur 0x frammjókkandi taumur og spóla með taumaefni 1x. Hvort sem afgreiðslumaðurinn hefur séð á mér að ég væri hnútaböðull eða greip bara það sem hendi var næst þá var þetta taumurinn sem ég böðlaðist með fyrsta sumarið mitt í flugunni. Síðar meir hefur mér oft orðið hugsað til þess að eitthvert misræmi var nú samt í þessu hjá blessuðum manninum, því hann tók saman einar 20 ‚pottþéttar‘ silungaflugur í stærð #12 og #14 handa mér. Kannski engin furða að ég væri í vandræðum með að leggja þessi kríli fram með sómasamlegum hætti mitt fyrsta sumar.

Seinna eftir nokkurn lestur og grúsk á netinu fóru taumarnir mínir í megrun. Fyrst náðu þeir 1x, síðar 2x og nú veiði ég nokkuð jafnhliða með 2x og 3x, en það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki prófað ennþá grennra en þá tók flugnavalið mitt í taumana og ég færði mig aftur til baka í framangreindar stærðir. Sem sagt; flugurnar mínar ráða þvermáli taumsins, ekki slitstyrkurinn eða vonir um 10lb. urriða með ofsóknarbrjálæði.

Í nokkrum komandi pistlum ætla ég að velta upp ýmsum flötum á tauminum og samsetningu hans.

Taumalykkja

Það eru til margar leiðir til að tengja taum við línu. Ég hef aðeins verið að gjóa augunum á það hvernig menn hnýta lykkju á taumana sína, þ.e. þeir sem gera það á annað borð því enn eru þeir til sem hnýta tauminn beint á línuna með tilheyrandi fórnarkostnaði við taumaskipti. En aftur að taumum með lykkjum. Margir hnýta Non slip loop á tauminn, en mér hefur alltaf vaxið sá, og raunar aðrir hnútar á taumum í augum og því hef ég alltaf vafið lykkjur á mína tauma.

Smellið fyrir stærri mynd

Aðferðin er í sjálfu sér afskaplega einföld, allt sem maður þarf er hnýtingarþráður, keflishaldari og tonnatak. Ég byrja á því að skammta mér ríflegan enda af hnýtingarþræði út af keflishaldaranum. Síðan skammta ég mér u.þ.b. 8 sm. af taumaendanum og mynda lykkju úr honum á milli fingra hægri handar þannig að ég held bæði um tauminn og hnýtingarþráðin. Síðan gríp ég einfaldlega um lykkjuna með fingrum vinstri handar og sveifla haldaranum í hringi utan um tauminn þannig að þráðurinn vefjist upp eftir lykkjunni.

Þegar þráðurinn er kominn vel fram eftir lykkjunni bregð ég eins og einum til tveimur half-hitch á tauminn. Því næst læt ég nokkra dropa af tonnataki drjúpa á kaflann sem ég hef vafið og leyfi því að storkna til hálfs. Muna bara að vera ekkert að káfa í þessu alveg strax. Því næst vef ég þræðinum með sömu aðferð aftur til baka, bregð öðrum half-hitc á endann og svo aftur til baka fram að lykkjunni þar sem ég geng tryggilega frá honum og klippi af. Ef vill, þá má dreypa tonnataki aftur yfir allan vafninginn, bara gæta þess að hann leki ekki niður eftir taumnum.

Með þessu hef ég útbúið lykkju á tauminn þannig að ég er fljótur að skipta um og er ekki alltaf á nálum yfir því hvort fiskurinn sé að atast í hnútinum í stað flugunnar. Rétt að taka það fram að þessar lykkjur hafa aldrei gefið eftir hjá mér og virðast endast von úr viti. Muna bara að nota frekar hlutlausan hnýtingarþráð, helst gráann eða bage þannig að fiskurinn fari ekki að atast í vafningnum.

Taumurinn leiðréttur

Það getur komið fyrir að við veiðum vísvitandi með of stuttan eða of langan taum. Þá er gott að veiðimaðurinn ráði við að leiðrétta það misræmi á milli línu og taums sem getur skapast.


  • Til að vinna á móti of stuttum taum getum við t.d. lengt kasttímann, fengið stærra kasthjól. Þannig stækkar línuboginn og yfirlínan ferðar hægar, við náum að leggja stuttan taum snyrtilegar frá okkur.
  • Að sama skapi getum við stytt kasttímann til að ná þrengri línuboga ef taumurinn er of langur.

Það er gott að ráða við hvoru tveggja, þó ekki væri nema að einhverju marki. Við byrjum oft veiðarnar með aðeins of langan taum því hann styttist jú í hvert skipti sem við skiptum um flugu og við viljum ekki enda strax með allt of stuttan taum. Eins kalla mismunandi veiðiaðferðir á mislanga tauma, t.d. hvort við viljum veiða grunnt eða djúpt.

Taumurinn langi

Það er ekki aðeins hraði línunnar eða aflið í kastinu sem skiptir máli fyrir það hvernig hún réttir úr sér. Taumurinn og flugan ráða þar miklu.

Ef línan nær ekki að rétta úr sér í framkastinu, kuðlast niður með tauminn og fluguna á toppnum, þá er massi taums og flugu of mikill sem gerir það að verkum að yfirlínan ferðast hægar en undirlínan. Undir svona kringumstæðum fer allur vindur úr kasthjólinu og línan nær ekki að rétta úr sér. Athugaðu hvort ekki megi stytta í tauminum.

Taumurinn stutti

Það er ekki aðeins hraði línunnar eða aflið í kastinu sem skiptir máli fyrir það hvernig hún réttir úr sér. Taumurinn og flugan ráða þar miklu.

Ef línan réttir hratt úr sér og taumurinn kippist til baka þegar hún er komin öll fram, þá er taumurinn of stuttur, þ.e. massi hans og flugunnar stemmir ekki. Þú þarft að hægja á yfirlínunni, gefa tauminum meiri tíma til að rétta úr sér. Það er einfaldast að gera með því að lengja í honum.

Að rétta úr taum

Einþátta krullaðir taumar eru óspennandi. Einfalt ráð til að rétta úr þeim er að taka venjulegt PVC strokuleður, skera grannt V í endan á því og renna tauminum hægt en ákveðið í gegnum það. Hitinn sem myndast við að taumurinn rennur í gegnum strokuleðrið réttir úr honum + þú þrífur af honum öll óhreinindi og svo fer ekkert fyrir storkuleðrinu í veiðivestinu.

Misbrestur – Allt rétt nema…

Það getur verið verulega ergjandi þegar maður er búinn að fylgja öllum leiðbeiningum (læðast að vatninu, skoða lífríkið, fylgjast með atferli og velja flugu af kostgæfni) þegar maður sér fluguna beinlínis stífna upp eða druslast í inndrættinum. Engin eðlileg hreyfing og því ekkert aðdráttarafl. Eftir nokkur svona tilfelli þá kviknaði loksins á perunni hjá mér, taumurinn. Er ég örugglega með réttan taum og taumaenda? Taumurinn hefur ekki aðeins áhrif á það hvernig flugan leggst í kastinu, heldur og einnig hvernig hún hagar sér í inndrætti. Þegar ég fór að styðjast við eftirfarandi þumalputtareglu þá fóru flugurnar að haga sér mun betur:

  • Deildu í flugustærðina með fjórum og veldu taum og taumenda m.v. útkomuna. Dæmi: Taumur fyrir flugu á öngli nr. 12 ætti að vera 12 / 4 = 3x. Ef þú ert ekki viss um stærð flugunnar, taktu gott gisk og lækkaðu taumstærðina um 1x.