Að slétta úr taumi

Það er í raun mjög einfalt að klúðra því að rétta úr tauminum. Ef maður klemmir tauminn á milli fingurs og naglarm hættir jafnvel bestu taumum til að krullast upp í stað þess að rétta úr sér, þeir geta orðið eins og jólapakkaband á skærum.

Taumur eða jólapakkaband?
Taumur eða jólapakkaband?

Þegar maður vill rétta úr taumi er best að taka þéttingsfast um sitt hvorn enda eða hluta hans og teygja á honum með jöfnu átaki. Rykkir og skrykkir eru aðeins til þess fallnir að slíta hnúta eða jafnvel tauminn sjálfan.

Frosinn taumur

Í fyrrasumar var ég óvenju duglegur að veiða litlar flugur, þ.e. flugur sem hnýttar voru á króka #14 og #16. Mikið minni flugur á ég erfitt með að hnýta á tauminn, kominn á þennan aldur og er ekki með tvískipt gleraugu.

Til að byrja með gekk mér heldur brösuglega að veiða þessi kríli, það var bara alls ekki eins og þær vildu leggjast út í framkastinu. Ég lengdi þá í tauminum, notaði 2X og 3X fremst, en allt kom fyrir ekki. Þær bara lögðust ekki eðlilega fram. Ég set eðlilega í skáletur vegna þess að það sem einum þykir eðlilegt eða ásættanlegt, þykir öðrum hlussugangur eða óþarfa stífni. Já einmitt, stífni, það var orðið sem kom upp í huga mér þegar ég kíkti á tauminn minn. Hvað ætli þessi taumur sé eiginlega gamall, hugsaði ég á meðan ég gróf eftir taumaveskinu og fann einn sem ekki var orðinn mattur í gegn og í þokkalegu ástandi. Eftir að hafa klippt allar lengingar framan af honum, byrjaði ég upp á nýtt og hnýtti X1, 0X og 3X framan á og lét reyna á kvikindið.

fos_taumur

Þessi taumur reyndist skárri, en alls ekki góður. Það fór að fara um mig, hafði allt kast frosið í höndunum á mér yfir veturinn? Heldur súr spólaði ég inn og kíkti á tauminn. Gat þetta verið? Var ég að blanda saman einhverju taumefni sem vildi ekki eiga samleið? Ég sá ekki betur en 0x parturinn væri úr allt öðru efni en hinir partarnir, sem þó gat ekki staðist því ég held mig að mestu við eina gerð taumaefnis, kaupi eiginlega ekkert annað. Það sló væntanlega rauðum bjarma á vatnið þegar ég gerði mér ljóst að ég hafði átt 0X spóluna hátt í þrjú ár í vestinu. Eftir að hafa gramsað í veiðitöskunni og fundið nýrri spólu af 1X og endurhannað tauminn frá grunni lögðust flugurnar eins vel fram og köstin mín yfirleitt bjóða uppá.

Þetta var sú minning sem sótti á mig um daginn þegar ég undirbjó fyrstu (snautlegu) ferð sumarsins. Því fór ég vel yfir alla tauma og taumefni áður en ég pakkaði dótinu í bílinn.

Stutt lína

Vorboðar eru margir og af ýmsum gerðum. Heiðlóan hefur ákveðinn sess í hugum landsmanna og hennar má vænta í síðustu viku mars eða fyrstu viku apríl. Óðinshaninn, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, lætur yfirleitt ekki sjá sig fyrr en í annarri viku maí, svona u.þ.b. þegar veiðifélagið mitt færir sig frá hnýtingarþvingunum og út á tún til að teygja svolítið á línunum og liðka kastvöðvana.

Ég man ekki alveg hvort það var s.l. vor eða þar síðasta að veiðifélagi minn var spurður á slíkri samkomu hvort hún væri ekki með full stutta línu á fjarkanum. Trúlega vafðist félaganum ekki tunga um tönn að þessu tilefni frekar en endranær og ég get rétt ímyndað mér að svarið hafi verið eitthvað á þá leið að hún þyrfti bara ekkert lengri línu í silunginn. Nú þekki ég takmarkað til laxveiða en af því sem ég hef flett upp þá eru flugulínur sem ætlaðar eru í laxveiði þetta á bilinu 80 – 120 fet fyrir einhendu á meðan flugulínur sem stimplaðar eru silungalínur yfirleitt á bilinu 60 – 80 fet. Ég held örugglega að allar mínar línur eru innan þessara marka, þ.e. á milli 60 og 80 feta. Það gæti þó verið að ég eigi eina sem er eitthvað styttri, væntanlega er hún ætluð í þurrfluguveiði.

Óþarflega mikið úti
Óþarflega mikið út af hjólinu

Það kemur ekki oft fyrir að ég taki alla línuna út af hjólinu og í þau fáu skipti sem ég hef gert það, þá man ég ekki til þess að ég hafi náð að koma henni allri út, hún hefur svona meira verið að þvælast fyrir fótunum á mér. En, þegar sá stóri tekur, þá er ég viðbúinn og með nokkra tugi feta af undirlínu á hjólinu sem annars eru þarna bara til að víkka ummál miðjunnar í hjólinu þannig að stutta flugulínan mín krullist síður. Ég hef lúmskann grun um að því sé svipað farið með marga silungsveiðimenn, undirlínan þjónar aðeins þeim tilgangi að byggja undir flugulínuna á hjólinu. Sumir nota svera undirlínu með miklum slitstyrk en ég nota hefðbundna dacron línu með 20 punda slitstyrk og set bara þeim mun meira af henni inn á hjólið, ég get þá alltaf tekið af henni ef hún verður óheyrilega skítug og ógeðsleg. Hvort það reyni nokkurn tímann á hana er svo allt annað mál.

Nokkrar línur um línur

Ég hafði verið að veiða á flugu í nokkur ár áður en ég fór að íhuga aðra flugulínu heldur en hefðbundna framþunga flotlínu. Ástæðan? Jú, ég var spurður hvernig ég ætlaði að koma flugunni niður til stóra urriðans í Veiðivötnum fyrst ég ætti ekki sökklínu. Ég var ekki alveg sannfærður, þyrfti ég virkilega sökklínu til að veiða í Veiðivötnum? Niðurstaðan varð sú að ég keypti mér Intermediate línu með miðlungslöngum haus og afskaplega litlum sökkhraða, undir tommu á sek. Til vonar og vara samþykkti ég að taka með mér láns-línu með sökkhraða 5 tommur á sek. ef flugan mín vildi bara alls ekki fara niður.

Það er skemmst frá því að segja að ég veiddi 90% af fiskunum í þessari fyrstu Veiðivatnaferð minni í yfirborðinu með ‚gömlu góðu‘ flotlínunni, ekki einu sinni með Intermediate línunni, hvað þá sökklínunni. Í dag veiði ég reyndar nokkuð jöfnum höndum með Intermediate og flotlínu. Þess vegna er ég vopnaður einu góðu veiðihjóli með tveimur mismunandi spólum; einni með flotlínu og annarri með intermediate línu. Ég smelli annarri á hjólið og set hina í bakpokann þannig að ég get skipt eftir hentugleikum. Enn þann dag í dag hef ég ekki séð ástæðu til að fjárfesta í sökklínu, þess í stað hef ég verið að íhuga líftíma flugulína af meiri áhuga heldur en áður.

fos_hjologlinur

Mér telst til að ég sé að nota fjórðu og fimmtu flugulínurnar sem ég hef keypt um ævina. Fleiri eru þær nú ekki og ekki eru þær af einhverri ákveðinni tegund. Í mínum huga ræður mestu að línan renni þokkalega, leggist vel fram og krullist ekki fram úr hófi þegar hún fer í kalt vatnið að vori eða hausti. Reyndar er svo komið að ég verð að huga að endurnýjun, leggjast í landkönnun línufrumskógarins og finna mér línu sem leyst getur af hólmi slitna Intermediate línuna mína og þá mögulega eina í stað flotlínunnar sem hefur eiginlega alla tíð verið hálf leiðinleg í framkastinu þegar mikið af henni liggur í vatninu við fætur mér.

Ég gleymdi einu varðandi línurnar sem ég hef valið; þær hafa allar verið í ódýrari kantinum, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki vera með lífið í lúkunum að skemma þær ekki á brölti mínu í hrauni og eggjagrjóti.

Stórir hringir

Stórt er ekki endilega alltaf betra, en þegar kemur að fluguhjólum verð ég víst að taka undir með þeim sem mæla frekar með stórum hjólum, þ.e. large arbor hjólum. Vissulega eru þessi hjól oft svolítið meiri um sig heldur þau smágerðu með litlu miðjunni, small arbor. Það gefur augaleið að línuspólan þarf að vera aðeins meiri um sig ef miðjan er stærri þannig að öll línan með undirlínu komist fyrir. Hin síðari ár hefur reyndar örlað á því að ofvöxtur hafi hlaupið í sum þessara hjóla þannig að nærri liggur að finna þurfi annað einkenni á þau heldur en large, en það er önnur saga.

Stærsti kostur large arbor hjóla er vissulega sá að línan leggst inn á þau í víðari hring þannig að minni líkur eru á að hún dragist út af þeim í einni krullu, gormi sem oft verður til trafala í kasti. En það er einnig annar kostur sem er ekkert síðri og vert er að nefna. Þegar línan spólast í víðari hring inn á hjólið verða hringirnir færri á hjólinu. Nei, ég er ekki að tala um þann kost að menn séu fljótari að spóla inn á large arbor heldur en mid- eða small arbor hjól. Með færri hringjum af línu á hjólinu eru færri lög af línu sem óhreinindin geta tekið sér bólfestu í heldur en á smærri hjólum.

fos_hjologspolur

Vissulega eru alltaf dagsdagleg óhreinindi sem flækjast fyrir manni í veiði; slý, gróðurleifar og sandur. En þetta er í flestum tilfellum einfalt að losa sig við sé klút brugðið á línuna annað slagið og hún dregin inn í gegnum hann. Verra mál getur verið þegar þessi óhreinindi fá að liggja óáreitt inni á fluguhjólinu, þorna og éta sig fasta á línuna. Þá getur þurft eitthvað meira til heldur en rakan klút. Svo er það blessaður jarðvegurinn, sá sem hefur óvart spólast inn með línunni þegar tekið er saman í lok dags. Smágerð sandkorn, jafnvel einfalt þjóðvegaryk getur farið illa með línukápuna ef það fær að liggja inni á hjólinu einhvern tíma. Þá er kostur að vera með færri hringi af línu á hjólinu, það þýðir færri sandkorn. Þetta er mögulega eitthvað sem menn vilja hafa í huga þegar þeir setja eitthvað á jólaóskalistann á næstunni.

Líknarmeðferð

Þegar líður á seinni hluta vertíðar hefur hugur manns stundum leitað til þess hvort ekki sé til einhver sú líknandi meðferð sem hægt er að beita á flugulínurnar. Kannski er það bara ég, en þegar líður á sumarið verða línurnar mínar stundum afskaplega leiðinlegar. Þær taka upp á því að renna illa, flækjast fyrir mér og eru hreinlega bara með almenn leiðindi af verstu gerð. Heilt yfir sumarið reyni ég að sinna línunum eftir bestu getu, en stundum dugar það bara alls ekki til.

Almennt reyni ég að baða þær í öðru vatni en veiðivatni einu sinni til tvisvar á ári. Á haustin sting ég þeim í ilvolgt bað með smá uppþvottalegi. Leyfi þeim að liggja þar smá stund, strýk af þeim með mjúkum bómullarklút og skola vel á eftir. Þurrum spóla ég þeim síðan inn á hjólin eða vind þær upp í hankir og kem þeim fyrir á svölum stað og vitja þeirra ekki síðar en í mars. Ef mér sýnist svo, sting ég þeim þá aftur í volgt vatn og teygi svolítið á þeim, svona til að ná geymslukrullunum úr þeim fyrir vorið.

fos_flugulinur

Yfir sumarið geng ég alltaf með gleraugnaklút í veiðivestinu og bregð línunum við og við í gegnum hann. Það er merkilegt hvað hrein og tær náttúran okkar á það til að losa sig við óhreinindi yfir á flugulínurnar okkar. Ef ég er mikið á ferðinni þar sem drullupollar herja á veiðislóða, þá á ég það jafnvel til að bregða línunum í bað eftir að gusurnar hafa gengið yfir húddið á bílnum og þar með stangir og línur.

En svo kemur að þeim tímapunkti að þessi daglega umhirða dugir ekki til og línurnar halda bara áfram að pirra mann. Þetta er víst merki þess að hilli undir endalok línunnar og eitthvað meira þarf til að hún renni þokkalega. Með tíð og tíma eyðist ysta kápa línunnar eða særist þannig að almenn þrif duga ekki til. Þá laumast ég til að nota línubón og lengi þar með líftíma línunnar aðeins, svona rétt út vertíðina. Á endanum verð ég víst að bíta í það súra epli að fjárfesta í nýjum línum, en það er vissulega hægt að lengja líftíma línunnar með þokkalegri umhirðu.