Mismunandi útgáfur og gerðir flugulína hefur oft borið á góma á FOS.IS þannig að lesendum verður gefið frí frá þeim hluta þroskaferils hennar að þessu sinni. Þess í stað langar mig að endurvinna og stytta texta sem ég setti saman fyrir annan vettvang og birta hér. Viðfangsefnið er forsaga nútíma flugulínunnar, úr hverju spratt hún og hvenær urðu helstu framfarir í þróunar hennar.
Það eru í raun hundruðir ára síðan fyrsta eiginlega flugulínan leit dagsins ljós og það var ekki hér á vesturlöndum heldur í Japan og hún var notuð á Tenkara stangir og er enn notuð. Svipaðar eða sambærilega línur komu fram á Bretlandseyjum árið sautjánhundruðogsúrkál, m.ö.o. á 18. öldinni. Rétt eins og í Tenkara línurnar var notað hrosshár í þessar línur. Línurnar voru ekkert ósvipaðar þeim sem við þekkjum í dag sem ofurlínur fyrir kaststangir en til að byrja með voru þær ofnar úr tiltölulega fáum taglhárum, oftast ekki nema þremur eða fimm í einu. Þessar línur voru að vísu lítið notaðar til að kasta flugunni út á vatnið, meira til að sveifla stöng með áfastri línu og flugu út yfir lækjarsprænu þannig að flugan kæmist í færi við fiskinn, eða öfugt, rétt eins og Tenkara austur í Japan.

Það var ekki fyrr en áratugum síðar að menn tóku til við að vefa fíngerðari línur úr fleiri hárum að unnt var að kasta línunni að einhverju viti og leggja fluguna niður á mun fleiri staði á vatnsborðinu heldur en áður. Þessar flugukastlínurnar voru taperaðar frá enda og fram að flugu, byrjuðu í 18 hárum og enduðu í þessum þremur hárum sem fæst gera orðið í ofinni línu.
Helsti ókostur þessara fyrstu flugukastlína var ending þeirra. Hrosshárið var fljótt að trosna og ekki þurfti mikið til þess að þær beinlínis tættust niður þannig að menn fóru fljótlega að fikra sig áfram með annað efni í línurnar. Það voru gerðar ýmsar tilraunir með jurtir og aðrar tegundir af hári en það var ekki fyrr en vesturlandaþjóðir komust yfir leyndarmál Kínverja varðandi eldi silkiorma að einhverjar verulega framfarir urðu. Fyrst var silkiþræði bætt við hrossháralínuna og smátt og smátt var hlutfall silkis aukið þannig að á endanum hvarf hrosshárið alveg. Þessar línur gerðu töluverðar kröfur til umhirðu og gera enn í dag að einhverju leiti, þó ekkert miðað við það sem fyrst var.

Meirihluta nítjándu aldar og vel fram á þá tuttugustu (1800-1937) var lítið um framþróun í gerð flugulína. Að vísu spruttu upp nokkrir þekktir framleiðendur ofinna flugulína upp úr aldamótunum, flestir tengdir eða afsprengi fataiðnaðarins, m.a. Cortland árið 1915. Það var ekki fyrr en árið 1927 að rannsóknir DuPont á fjölliðaþráðum hófust og árið 1935 kynnti Wallace Carothers nýtt hráefni sem átti eftir að umbylta þróun flugulína, nylon. Fyrsta ofna flugukastlínan úr þessu nýja hráefni var framleidd árið 1937 og upp úr 1940 hóf Leon P. Martuch hjá Dow Cemicals tilraunir með að hjúpa þennan ofna kjarna með plastefni til að auka enn frekar endingu línunnar. Fimm árum síðar stofnaði Martuch fyrirtæki sem fékk nafnið Scientific Anglers sem var í raun fyrsta fyrirtækið sem einbeitti sér að þróun og framleiðslu þeirra flugulína sem við þekkjum í dag. Raunar er það svo að bæði Cortland og Scientific Anglers gera tilkall til þess að hafa komið fyrstir fram með fullskapaða og nothæfa flugulínu með kápu utan um ofinn kjarna, rétt eins og þær sem við þekkjum í dag.
Senda ábendingu