Flýtileiðir

Jólatré á taumi

Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com