Ég hef í nokkur ár átt mér uppáhalds flugulínu en eftir síðasta sumar var deginum ljósara að dagar hennar voru taldir þannig að ný flotlína fór á jólaóskalistann minn. Þessi lína hefur hentað mér og aðal stönginni minni alveg ágætlega en svo gerðist það að ég keypti mér nýja stöng sem aðal stöng. Báðar eru þær #7, sú gamla 9,6 fet en sú nýja 10 fet, en í því liggur ekki helsti munur þeirra. Sú nýja er stífari, töluvert stífari og gerir þar af leiðandi kröfu til allt annarrar línu. Uppáhalds flotlínan mín var viðeigandi lína #7 og 185 grains en það vantaði alla hleðslu í nýju stöngina mína og ég var endalaust að falskasta til að ná einhverri lengd í köstin.

Ég hnippti því í kunningja mína og fékk að prófa aðrar línur af stærð #7. Viljandi spurði ég ekkert nánar út í þessar línur, smellti þeim bara á nýju stöngina mína og prófaði hverja á fætur annarri. Það voru tvær línur sem mér fannst passa stönginni, en þær voru mjög ólíkar. Önnur var með tiltölulega stuttum þungum haus og kostaði hreint og beint smáaura og þar sem ég sá strax fyrir mér nokkrar aðstæður þar sem hún mundi henta mér, þá festi ég kaup á henni. Eftir töluvert grúsk, vigtun og útreikninga, fann ég út úr því að hún var 192 grains, sem sagt aðeins þyngri heldur en gamla uppáhalds línan mín. Þar sem haus línunnar er óvanalega langt fyrir aftan fremsta part hennar, þ.e. línan frá haus og út að enda var mjög löng.
Hin línan sem smellpassaði stönginni var allt öðrum eiginleikum búinn, samt með áberandi skothaus og hagaði sér allt öðruvísi þegar hún hlóð stöngina enda kom á daginn að hún var 215 grains, sem er aðeins þyngra heldur en ‚standard‘ lína #7 ætti að vera að hámarki. Ég féll svolítið flatur fyrir þessari línu og þegar mér hafði tekist að draga annað augað í pung, þá var verðmunur þeirra ekki alveg eins rosalegur og ég ákvað að kaupa þær báðar.
Lærdómurinn af þessu gaufi mínu? Jú, lína #7 og lína #7 er alls ekki sama línan og maður á ekki að hika við að prófa þær nokkrar á móti tiltekinni stöng.
Senda ábendingu